141. löggjafarþing — 69. fundur.
bókhald, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 93. mál (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur, EES-reglur). — Þskj. 93, nál. 665 og 731, brtt. 666 og 905.

[17:18]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um bókhald og þau nefndarálit frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem við ræðum hér. Ég er ekki með á þessu nefndaráliti meiri hlutans vegna þess að í því eru gerðar tillögur um breytingar sem ég er ekki alveg sáttur við og ég ætla að fara hér betur yfir.

Ég ætla að byrja á því að segja að ég tel að auka þurfi gagnsæi í starfsemi hlutafélaga og að ekki sé viðunandi hversu mörg hlutafélög skila ekki ársreikningum og að ekki séu til úrræði til þess að koma því fram. Hlutafélag er mjög merkilegt fyrirbæri, það er sem sagt fyrirtæki sem starfar með takmarkaðri ábyrgð og til þess að menn geti átt viðskipti við slíkt fyrirtæki þurfa menn að vita stöðu þess. Mjög margir virðast ekki alveg átta sig á þessu.

Það eru margir sem eiga viðskipti með hlutafélag. Fyrst og fremst eru það náttúrlega hluthafarnir. Sumir eru langt frá fyrirtækinu, litlir hluthafar sem þurfa að vita hver staða fyrirtækisins er, hvort þeir eigi að kaupa eða selja og hvort þeir eigi að halda áfram að eiga hlut í fyrirtækinu. Svo eru það haghafar, sem ég kalla svo, á ensku „stake-holders“. Það eru aðilar sem hafa hag af ákvörðunum félagsins, þar heyra undir t.d. lánveitendur, birgjar, viðskiptamenn ýmiss konar, kaupendur, menn sem kaupa vörur af fyrirtækinu o.s.frv. Þeir verða að geta treyst því að t.d. ef maður kaupir vöru sem á eftir að afhenda seinna af einhverju fyrirtæki að það verði gert. Eins með birgja sem selja fyrirtækinu vörur, þeir þurfa að vita hver staða þess er því þeir eru í reynd að lána fyrirtækinu.

Þess vegna eru ársreikningar hlutafélaga ekkert leyndarmál og eiga ekki að vera leyndarmál. Þessu þurfa menn að átta sig á. Það hefur borið á því að einstakir eigendur hlutafélaga telja það sitt einkamál hver staða fyrirtækisins er. Mér finnst að slíkir aðilar ættu bara að reka fyrirtækin sem sameignarfélag sem þeir bera þá ábyrgð á beint og ótakmarkað. Um leið og þeir taka upp hf. eða ehf. í nafni fyrirtækisins eru þeir að tilkynna að takmörkuð ábyrgð sé á því og þar með þurfa þeir sem eiga viðskipti við fyrirtækið að vita hver staðan er, svo þeir viti hversu mikils virði þessi ábyrgð er. Ábyrgð í sameignarfélögum er hins vegar ótakmörkuð þannig að viðkomandi eigandi verður þá bara gjaldþrota ef hann ekki stendur við sitt.

Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að gera athugasemdir við er tilraun til að auka gegnsæi í hlutafélögum. Ég hef margoft flutt frumvörp um það að hlutafélög eru mjög góð þegar einstaklingar geta takmarkað áhættu sína og tekið samt þátt í atvinnulífi án þess að leggja allt heimili sitt og eigin fjárhag undir. En þegar hlutafélög eiga í hlutafélögum fara að gerast undarlegir hlutir. Ég hef nefnt að ef eignarhald fer einhvern veginn í hring með lánveitingum eða hlutabréfakaupum geta gerst mjög undarlegir hlutir og jafnvel ekkert að marka eigið fé fyrirtækis. Ég hef sýnt fram á að hægt sé að búa til slíka hringi og að þá sé ekkert að marka eigið féð. Það er náttúrlega mjög veigamikið atriði að vita hvert er eigið fé fyrirtækja. Það þyrfti að laga og mikil umræða er í hv. nefnd, sem ég sit í, einmitt um hvernig hægt er að auka gagnsæið. Það liggur meira að segja fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur um að sýna eigi raunverulega eigendur.

Þá lenda menn aftur í vanda. Hvernig ætla menn að sýna raunverulega eigendur að t.d. Deutsche Bank, ef Deutsche Bank mundi vilja fjárfesta hér? Ég nefni það sem dæmi af því að það er stórt hlutafélag. Ef það vildi fjárfesta í íslensku fyrirtæki þyrfti að sýna fram á raunverulega eigendur þess. Það getur orðið þungur róður að komast að því, svo maður tali nú ekki um fyrirtæki sem eru staðsett í Tortóla og Lúxemborg og öðrum stöðum sem gefa mjög treglega upp upplýsingar.

Til þess að ráða bót á þessu hefur meiri hlutinn flutt tillögu við frumvarp um ársreikninga sem er þannig, með leyfi herra forseta, og ég ætla að lesa bara það síðasta:

„Í hlutafélögum og einkahlutafélögum þar sem hluthafar eru fleiri en tíu skal jafnframt fylgja skrá um alla hluthafa […] með upplýsingum um hlutafjáreign hvers þeirra.“

Þetta er meingallað, herra forseti. Í fyrsta lagi er þetta á pappír þannig að þetta er ekki tölvutækt, en það er svo sem til tækni og forrit til þess að lesa pappír þannig að það er leysanlegt. Í hlutafélögum með mikið af hluthöfum kæmi sennilega nafnið Jón Jónsson segjum fimm sinnum fyrir og ekki nokkur leið á átta sig á því við hvern er átt, fyrir utan að ekki er nóg að vita nafn á manni, hann er stundum kallaður einhverju allt öðru nafni. Menn vita í rauninni ekkert um hvern er að ræða af því að ekki er gerð krafa til að gefin sé upp kennitala. Það væri miklu skynsamlegra að gefa bara kennitölu en ekki nafn.

Svo er einn galli til viðbótar við að þetta sé ekki tölvutækt og ekki sé einkennandi fyrir viðkomandi hluthafa. Sá vandi er að fyrirtækin hafa mismunandi bókhaldsár, það er ekki alltaf almanaksárið. Til dæmis eru sjávarútvegsfyrirtæki, sem menn hafa kannski sumir hverjir sérstaklega mikinn áhuga á, oft með bókhaldsárið í tengslum við kvótaárið sem hefst 1. september. Hvað gerir maður þá ef hann vill leyna eignarhaldi sínu í sjávarútvegsfyrirtæki? Þá selur hann hlutinn sinn rétt fyrir mánaðamótin, þegar nýtt kvótaár er að hefjast, með kauprétti rétt eftir mánaðamótin á sama verði, til einhvers aðila sem vill dekka hann á meðan. Svo er kannski annað fyrirtæki með reikningsárið samhliða almanaksárinu og þar geta menn leikið sama leik um áramótin, þannig að þetta er ekki nægilega skýrt og ekki gott.

Síðan kemur fjórði ókosturinn sem er fólginn í því að ef einhverjir einstaklingar sem eiga hlut og heita sjaldgæfu nafni, sem ekki fer fram hjá neinum, þá geta allir lesið að já, hann Arnór á þarna, Arnór Þorláksson. Nú nefni ég bara eitthvert nafn sem mér dettur í hug sem er frekar sjaldgæft. Arnór Þorláksson á svo og svo mikinn hlut í þessu fyrirtæki. Þá getur vel verið að börn og barnabörn og ættingjar allir komi og vilji vera miklir vinir hans og fá lánað út á þennan hlut, sérstaklega ef hann er óveðsettur. Það er því ekkert víst að einstaklingar kæri sig um að hver sem er viti að þeir séu hluthafar í einhverju fyrirtæki. Mér finnst að það komi í rauninni engum við vegna þess að þar er ekki vandinn. Vandinn er ekki gagnvart einstaklingum heldur þegar um er að ræða hlutafélög sem eiga í hlutafélögum.

Þetta má leysa með ýmsum öðrum hætti, herra forseti. Það mætti t.d. hugsa sér að öll hlutafélög og einkahlutafélög verði skráð á verðbréfaþingi þar sem er stöðug skráning hverja einustu sekúndu ársins og þar liggi fyrir hver er eigandi hverju sinni. Ég er ekki alveg búinn að ræða þetta í hörgul, þetta er bara svona hugmynd, en ef menn vilja auka gagnsæið mætti opna skráninguna á þeim hluthöfum sem eru kaupanlegir, þ.e. hlutafélög eða sameignarfélög eða slíkt, því að þar geta myndast hringir. Eins og ég get um er þetta alþjóðlegt vandamál og við getum illa leyst hér á landi ein sér nema taka í kaupbæti að Ísland lokist eignarhaldslega séð fyrir umheiminum. Og þar sem við erum nú að sækjast eftir fjárfestingu erlendra aðila getur það orðið ansi skaðlegt ef menn hætta að geta fjárfest á Íslandi vegna þess að þeir geta ekki sýnt fram á gagnsæi eignarhalds hjá sér.

Þetta er það sem ég hafði fyrst og fremst athugasemdir við, en það er margt fleira. Hér liggur fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Sigríði Andersen um að ársreikningar skuli vera á íslensku. Nú veit ég ekki hversu mikill kostnaður er fólginn í því að birta ársreikninginn sjálfan en ég get ekki ímyndað mér að hann sé stór, það er staðlað orðalag í öllum ársreikningum, eigið fé, skuldir o.s.frv. Þetta er til á öllum tungumálum og ég get alveg séð fyrir mér að hægt sé að setja þetta upp á netinu og svo velur maður bara tungumálið.

Það er rétt sem hv. þm. Sigríður Andersen bendir á að haghafarnir eru ekkert endilega sama þjóðernis og sömu tungu og hluthafarnir. Haghafarnir, birgjar og aðrir slíkir, sem eru kannski ekki mjög færir í erlendum tungumálum, ættu þá kannski erfitt með að átta sig á ársreikningi eða bókhaldi sem er á t.d. ensku eða dönsku, þó að ég haldi að það sé nú minnkandi vandamál.

Þetta er það sem ég hef athugasemdir við. Ég tel þetta vera mikið atriði, sérstaklega ef á að setja í lög um hlutafélög þessar reglur um að prenta alla hluthafana aftan á, sem getur verið umtalsvert mikill fjöldi. Ég man eftir því að þegar Búnaðarbankinn var seldur voru 60 þúsund hluthafar. Ég held að þeim hafi fækkað mikið við hrunið, óskaplega mikill fjöldi af hluthöfum varð eignalaus. Eignin hvarf, hún minnkaði ekki bara heldur varð að núlli. Þeir eru reyndar formlega séð enn þá eigendur því ekki er búið að gera þessi fyrirtæki upp. Ég veit ekki hvernig slitastjórnirnar ætla að gera með það, hvort að prenta eigi þá 60 þúsund eða 50 þúsund hluthafa, en það er ljóst að þetta getur orðið umtalsverður fjöldi. Þar sem það hefur svona lítinn tilgang finnst mér náttúrlega að nefndin þurfi að ræða þetta dálítið betur, þessa breytingartillögu meiri hlutans, sem væntanlega er stefnt að að verði að lögum. Ég legg því til að frumvarpið fari aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr.



[17:29]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að hið fyrra atriði sem hv. þingmaður tók hér til umfjöllunar eigi við um frumvarp til laga um ársreikninga, sem er næsta mál á dagskrá, en nú er frumvarp til laga um bókhald á dagskrá. Þetta eru mjög skyld málefni og þess vegna eðlilegt að ræða þau saman.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að það mætti auðvitað ganga enn lengra í því að upplýsa um hluthafa frá einni sekúndu til annarrar. Þannig háttar hins vegar til að því miður skila mörg þúsund fyrirtæki ekki þeim upplýsingum sem lög krefja og við í meiri hlutanum höfum þess vegna talið það eðlilegan fyrsta áfanga að gera mönnum að skila þessum upplýsingum einu sinni á ári. Þegar hefur tekist að koma því á að þróa rafræn skil og síðan skil frá stundu til stundar, eins og hv. þingmaður nefndi, er ekkert því til fyrirstöðu.

Hvað varðar ensku eða dönsku í bókhaldinu þá er því til að svara að ég hygg að það hafi verið í formannstíð hv. þm. Péturs H. Blöndals í efnahags- og viðskiptanefnd á vetrinum 2001–2002 sem samþykkt var sú breyting á lögum að heimilt væri að færa bókhald á ensku í þeim tilfellum þar sem starfrækslugjaldmiðill félagsins er annar en íslenskar krónur. Þetta hefur verið praktíserað þannig í meira en áratug og mér er ekki kunnugt um að nokkur maður hafi haft ama af því. Ég held að þetta fyrirkomulag hafi reynst ágætlega og að engar kvartanir hafi komið vegna þess þó að ákveðinn hluti fyrirtækja hafi fengið að gera þetta. Í sjálfu sér er ekki verið að gera annað en að útvíkka þá heimild lítið eitt núna og ég held að það eigi að geta verið vandræðalaust með öllu þó að það mætti út af fyrir sig taka skemmra skref ef vilji er til þess.



[17:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að hafa víxlað þessum tveimur frumvörpum en þau eru mjög eðlisskyld og eðlislík. Annað fjallar um ársreikninga og hitt um bókhald og bókhald er einmitt til þess að draga fram ársreikninga þannig að það má segja að málin séu eðlislík að því leyti.

Varðandi íslenskuna er rétt að það hefur ekki verið neitt til ama að hafa reikningana á ensku. Ég held að þetta sé ekki svo stórt mál en það væri kannski ágætt að taka eins og eina umræðu um það.

Það sem mér finnst slæmt við þær breytingar sem hv. meiri hluti nefndarinnar leggur fram er að þær hafa ekki verið sendar til umsagnar eða gestir fengnir til að ræða þær sérstaklega. Nú vinna menn úti á sviðinu bæði við miðlun upplýsinga og útgáfu ársreikninga og svo framvegis og það væri því einnar messu virði að vita hvernig þeir brygðust við því að fara að prenta aftan á ársreikninga einhverja ægilega romsu af öllum hluthöfum sem ég veit ekki hvort nokkur læsi en þar væri bara um að ræða nafn en ekki heimilisfang eða neitt, bara nafn og upphæð hlutar. Það er ekki einu sinni talað um að það eigi að vera í stafrófsröð. Ég held að það yrði ekki mikils virði.

Ég vildi gjarnan að aðilar sem hafa sýnt þessu áhuga, eins og hjá Viðskiptaráði, yrðu fengnir til nefndarinnar til að fjalla um það hvort þetta sé skynsamleg leið eða hvort til sé einhver skynsamlegri. Ég held að skráning allra hlutafélaga hjá Verðbréfaskráningu gæti verið leið, ég er ekki hér með að leggja hana til. Hún yrði jafnhraðvirk og hver önnur skráning en hún mundi þá gilda meðan það væri. Ég mundi leggja til að menn skoðuðu þá leið.