141. löggjafarþing — 97. fundur.
vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar, ein umræða.
þáltill. ÞSa, 651. mál. — Þskj. 1153.

[10:31]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Samkomulag er um skiptingu ræðutíma og er sem hér segir: Um skiptingu ræðutímans fer eftir ákvæðum 86. gr. þingskapa, þ.e. honum er að hálfu skipt jafnt milli þingflokka og að hálfu að tiltölu við fjölda þingmanna í þingflokki. Forseti ákvað ræðutíma þingmanna utan flokka fimm mínútur, þ.e. samtals 25 mínútur fyrir fimm þingmenn. Að öðru leyti er ræðutímanum skipt eins og hér segir:

Röð flokka og ræðutími verður þannig:

Hreyfingin 28 mínútur, Samfylkingin 57 mínútur, Sjálfstæðisflokkurinn 52 mínútur, Vinstri grænir 42 mínútur, Framsóknarflokkur 39 mínútur og þingmenn utan flokka fimm mínútur hver.

Hver þingflokkur ræður því sjálfur hvernig tíma hans er skipt milli þingmanna innan flokksins sem taka þátt í umræðunni. Ræðumönnum verður raðað í umferðir eins og venja er. Engin andsvör verða leyfð.[10:32]
Flm. (Þór Saari) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Flutningsmaður að tillögunni er sá er hér stendur. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.

Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.“

Í greinargerð með tillögunni segir eftirfarandi:

Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún situr í umboði meiri hluta þingsins, en þingið getur ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.

Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá. Lagt er til að fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.

Forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram 20. október þar sem samþykkt var með yfirgnæfandi meiri hluta hvernig ný stjórnarskrá fyrir þjóðina ætti að líta út. Þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og niðurstöðu hennar hefur nú verið hent í ruslið af formönnum Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fulltrúa Bjartrar framtíðar. Þetta er einstakur gjörningur í sögu lýðræðisríkja að þjóðaratkvæðagreiðslur séu vanvirtar með þessum hætti.

Forseti. Á sínum tíma í janúar 2009 var búsáhaldabylting. Þar kom fram skýr krafa um nýtt Ísland. Stofnaðir voru flokkar, meira að segja sumir í stjórnarmeirihlutanum stofnuðu flokk sem hét Nýtt Ísland.

Í kjölfarið á kosningunum 2009 kom fram skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Hún lýsti mjög vel hvað var að, hvað hafði gerst og hvers vegna hrunið átti sér stað. Í kjölfarið á þeirri skýrslu ályktaði Alþingi sjálft, 63:0, að farið skyldi í vinnu við að skrifa nýja stjórnarskrá. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði fram frumvarp um kosningu til stjórnlagaþings. Allsherjarnefnd Alþingis tók málið til meðferðar og allsherjarnefnd Alþingis var fullkomlega sammála um ferlið sem ætti að fara í. Það skyldi tilnefnd sjö manna stjórnlaganefnd sem ætti að hafa umsjón með fyrstu stigum verksins. Stjórnlaganefndin skyldi kalla saman þjóðfund þúsund Íslendinga sem voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Stjórnlaganefndin undir forustu Guðrúnar Pétursdóttur safnaði saman gríðarlegu magni upplýsinga um fyrri stjórnarskrárvinnu sem hefur átt sér stað hér á landi og vann úr þeim tillögum. Þjóðfundurinn var haldinn með glæsibrag í Laugardalshöllinni. Þar komu fram tillögur. Úr þeim öllum var unnið og skýrsla stjórnlaganefndarinnar kom út í tveimur bindum með hugmyndum að tveimur nýjum stjórnarskrám.

Í kjölfarið var kosið til stjórnlagaþings. Í þeim kosningum voru í framboði yfir 500 frambjóðendur. Ekki er hægt að segja annað en þjóðin hafi haft mikinn áhuga á því máli. Í þeim kosningum kusu hvorki fleiri né færri en 84 þúsund manns persónukjöri í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Sjálfur fór ég á kjörstað þennan dag og í fyrsta sinn í öll þau skipti sem ég hef farið á kjörstað fannst mér ég hafa úr of mörgum góðum frambjóðendum og framboðum að velja. Það var frábær tilfinning að fara á kjörstað og eiga í vandræðum með að velja fólk á lista vegna þess að það voru of margir svo góðir, öfugt við það sem Íslendingar hafa búið við í nærri 70 ár, fjórflokkinn sem raðar sjálfum sér þar sem honum hentar. (Gripið fram í.) Þetta var skref í þá átt að lýðræðisvæða Ísland enn frekar.

Síðar kom úrskurður Hæstaréttar, sem var einsdæmi. Það er eitt að gagnrýna framkvæmd kosninga en það er einsdæmi á Vesturlöndum að hæstiréttur þjóðar ógildi kosningu þegar ekki er hægt að sýna fram á að vanhöld á kosningunni hafi haft nokkur áhrif á útkomuna. Sá úrskurður var pólitískur og enn fremur staðfesting á því sem segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sem þjóð veit að pólitískar tilnefningar hæstaréttardómara hafa tilgang. Þær hafa þann tilgang að tryggja valdastétt landsins völd áfram og þarna kom það í ljós. Í framhaldinu tók þingið við sér með glæsibrag og skipaði þá sem kjörnir voru á stjórnlagaþing í stjórnlagaráð til að klára verkið.

Stjórnlagaráð vann mjög góða vinnu en hafði lítinn tíma vegna þess að Alþingi treysti sér ekki til að finna annað húsnæði undir vinnu stjórnlagaráðs og starfslok þess tóku mið af húsaleigusamningi sem það hafði gert við Kvikmyndaskóla Íslands, sem síðar varð frægur með endemum í þingsölum líka. Stjórnlagaráð vann hins vegar í eindrægni, safnaði upplýsingum, aðkoma þjóðarinnar að allri vinnu stjórnlagaráðs var glæsileg. Fulltrúar þess báðu um aðstoð úr fræðasamfélaginu, því fræðasamfélagi sem síðar gagnrýndi svo mjög vinnu þeirra en treysti sér á sínum tíma ekki til að taka mikinn þátt í vinnu stjórnlagaráðs.

Stjórnlagaráð skilaði af sér frumvarpi, drögum að nýrri stjórnarskrá, sem var afhent í júlí 2011. Síðan þá hefur málið verið í meðferð Alþingis. Unnið hefur verið af mikilli eindrægni og miklum dugnaði af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og formanni hennar, Valgerði Bjarnadóttur, og á sá hv. þingmaður mikið hrós skilið fyrir hvernig haldið hefur verið á málinu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vann með málið þann vetur, óskaði eftir því að stjórnlagaráð kæmi saman aftur til að fara yfir málið vegna ýmissa ákvæða sem talin var þörf á að laga. Síðan kom málið aftur til meðferðar á þingi og var þar í ítarlegri meðferð alla tíma síðan. Leitað var til svokallaðrar Feneyjanefndar, sem er nefnd Evrópuráðsins um stjórnarskrár, um álit hennar á ákveðnum hlutum frumvarpsins. Þegar álit Feneyjanefndarinnar lá fyrir var farið í að vinna framhaldsnefndarálit sem liggur nú fyrir þinginu.

Þetta hefur verið einstök aðferðafræði við vinnu stjórnarskrár. Hún hefur vakið heimsathygli og á sér enga hliðstæðu í sögu lýðræðisríkja í heiminum. Þetta er aðferðafræði sem Íslendingar allir eiga að vera stoltir af og það er dapurlegt að hafa þurft að vera vitni að því undanfarin fjögur ár hvernig tveir flokkar á þingi hafa talað þetta mál niður, virkilega dapurlegt.

En það er ekki nóg með að þeir hafi talað málið niður. Nú hefur sá gjörningur hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar gert það að verkum að þingflokkar þeirra hafa gengið í lið með úrtölumönnum í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og ákveðið að stjórnarskráin skuli fyrir bí, henni skuli hent út af borðinu. Með því er verið að taka afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslna í heild sinni sem fyrirbæris í framtíðinni líka. Verið er að ganga gegn vilja þjóðarinnar, verið er að ganga gegn skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, verið er að setja hana í tætarann, hún þvælist þá ekki fyrir stjórnarmeirihlutanum lengur en fjögur ár. Verið er að ganga gegn vinnu stjórnlaganefndar, gegn vinnu allsherjarnefndar og gegn vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er þetta sem gjörningur þessara þriggja þingmanna er að gera málinu og það er þetta sem stuðningur þingmanna þeirra flokka sem að baki þeim standa er að gera málinu. Það er enginn saklaus í þessu máli sem hefur stutt það að málið yrði tekið af dagskrá.

Sérkennilegt hefur verið að ræða við forustumenn þessara flokka undanfarnar vikur út af málinu. Það hefur komið í ljós að þeir hafa ekki kynnt sér það, þeir hafa ekki kynnt sér framhaldsnefndarálitið, þeir hafa ekki kynnt sér hvernig búið er að koma til móts við breytingartillögurnar. Formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir á fundi Samfylkingarinnar að hann hefði ekki kynnt sér plaggið. Í viðræðum við formann Bjartrar framtíðar kom í ljós að hann hafði yfir höfuð ekki hugmynd um hvað búið var að gera í málinu, enda hafði fulltrúi Bjartrar framtíðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki mætt sérstaklega mikið á fundi og hefur ekkert mætt á fundi í nefndinni eftir að hin nýja tillaga þeirra kom þangað inn til að fylgjast með málinu þar. (Gripið fram í: Hann var erlendis.) Erlendis, segir einhver. Og hvað með það? Er það meira áríðandi en ný stjórnarskrá, spyr ég bara. Svar mitt við því er nei.

Í ljós hefur komið að svokölluð Björt framtíð hefur grafið undan málinu lengi, vikum og mánuðum saman. Ábyrgð þeirra er ekki lítil. Þeir hafa talað fyrir því með annarri tungunni en talað gegn því með hinni, það heitir að tala tungum tveim. Þetta eru ekki þau nýju stjórnmál sem Íslendingar hafa verið að lýsa eftir og það eru ekki þau nýju stjórnmál sem þeir þykjast vera boðberar fyrir. Þetta eru gömlu, góðu, spilltu ógeðsstjórnmálin sem Ísland er búið að fá nóg af.

Frú forseti. Það er ástæða fyrir því að leggja þarf fram vantrauststillögu á svona ríkisstjórn en það er dapurlegt að standa frammi fyrir því að stærstur hluti þingheims ætlar að ganga gegn vilja þjóðarinnar. Það var í boði á miðvikudag í síðustu viku að ganga til dagskrár um að klára 2. umr. um stjórnarskrána. Því var hafnað af formönnum Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Ákveðið var að taka málið af dagskrá að þeirra tillögu. Þetta er ótrúleg framganga nýkjörinna forustumanna stjórnmálaflokka. Þegar grannt er skoðað er ekki hægt annað en komast að þeirri niðurstöðu að hér sé um endurtekningu á þeim stjórnarháttum sem voru hér við lýði og hafa verið gagnrýndir svo mjög, til dæmis um stuðning Íslands við Íraksstríðið þegar þáverandi ráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, tróðu í gegnum þingmenn sína stuðningi Íslands við stríðið. Þetta er endurtekning á þeim vinnubrögðum.

Ég velti fyrir mér hvaða umboð þetta fólk hefur til þess. Hafa þeir umboð frá landsfundum sínum, sem kaus þá fyrir örfáum dögum eða vikum, til að stöðva stjórnarskrármálið? Þeir töluðu ekki orð um það á þeim landsfundum að þeir mundu grípa til þeirra aðgerða. Þeir voru kosnir á fölskum forsendum.

Það sama gildir um fulltrúa Bjartrar framtíðar. Hefur hann umboð frá baklandi sínu til að stöðva stjórnarskrána í ferli á þinginu? Athyglisvert væri að vita það og hvað borgarstjórinn í Reykjavík og Besti flokkurinn sem hann er í forsvari fyrir vill gera í málinu. Styður Jón Gnarr borgarstjóri það að Björt framtíð taki málið af dagskrá og eyðileggi stjórnarskrármálið? (Gripið fram í: Hvaða umboð hefur þú?)

Frú forseti. Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa lúffað algerlega fyrir leiðtogum sínum. Þeir hafa flýtt sér í þetta þægilega skjól og vísað ábyrgðinni annað, ekki alveg allir en samt flestir. Formennirnir hafa náð afgerandi stjórn á þingflokkum sínum og kverkataki á þingmönnum sínum. Persónuleg sannfæring þingmanna samkvæmt stjórnarskrá er hér eftir sem endranær einskis virði. Hún var ein á miðvikudagsmorgni í síðustu viku, hún var orðin önnur eftir hádegið af því að formaðurinn sagði það. Þeir þingmenn eru nú að ganga erinda þeirra sem alla tíð hafa viljað eyðileggja nýja stjórnarskrá og koma í veg fyrir að hún verði að veruleika.

Ég spyr: Hvers konar stjórnmálaumhverfi er það sem við búum við? Hvers konar stjórnmálaumhverfi er það? Verður það raunin að lýðveldið Ísland verði ef til vill ekki annað en 70 ára tilraun sem mistekst? Með þessu áframhaldi verður það þannig vegna þess að þeir sem eru kjörnir til að fara með umboð almennings á þingi standa ekki undir því. Valda íslenskir stjórnmálamenn ekki lýðræðinu? Ég efast sjálfur um að þeir geri það. Ef við veitum því athygli hvernig þingmál eru afgreidd á löggjafarþinginu þá er það algerlega tilviljunum háð hvaða frumvörp verða að lögum. Það verður sest niður eftir tvo, þrjá daga í einhverju herberginu í þinghúsinu þar sem formenn flokka munu véla um það á bak við tjöldin hvaða mál verða að lögum og hver ekki. Það eru ekki boðleg vinnubrögð á þingi sem er þjóðþing í lýðræðissamfélagi. Því verður að breyta. Þessi þingsályktunartillaga er sett fram til að reyna að ná fram niðurstöðu í mál þar sem stjórnvöld sem hafna vilja þjóðarinnar verða að víkja.

Hingað munu yfir 30 þingmenn koma og láta í sér heyra á eftir um þetta mál. Þeir munu verða með aðkast að Hreyfingunni, þeir munu vera með aðkast að mér, en þeir ættu að líta í eigin barm og velta í alvöru fyrir sér hver er þeirra pólitíska sannfæring í málinu, hver er framtíðarsýn þeirra fyrir Ísland með fjórflokkinn áfram við völd og gömlu stjórnarskrána því að það er það sem þeir eru að styðja með því að fella þessa tillögu. Vissulega vilja margir hafa óbreytt ástand en það er ekki það sem þjóðin vill og vonandi mun tillagan verða samþykkt og núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn fara frá.[10:48]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér vantrauststillögu á ríkisstjórnina flutta öðru sinni af hv. þm. Þór Saari og verð ég að segja að hún veldur mér bæði undrun og vonbrigðum. Hv. þm. Þór Saari hefur verið ötull stuðningsmaður þess að frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga nái fram að ganga. Það er því vægast sagt sérkennilegt þegar þingmaðurinn velur að leggja til atlögu við ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann sem harðast hefur barist fyrir breytingum á stjórnarskránni allar götur frá 2009. Ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti sem borið hefur fram allt ferli stjórnarskrármálsins, þjóðfundinn, skipan stjórnlagaráðs, rétt fólks til að greiða atkvæði um stjórnarskrártillögur og gert allt sem í valdi þeirra hefur staðið til að ná þessu merka lýðræðisferli í höfn í samræmi við þann skýra þjóðarvilja sem að baki því stendur.

Hv. þingmaður velur í raun heimskulegustu leið sem hægt er að hugsa sér í núverandi stöðu. Hann ræðst til atlögu við helstu samherja sína í málinu og kallar eftir bandalagi við þá sem helst hafa barist gegn nýrri stjórnarskrá, með málþófi og klækjabrögðum sem aldrei fyrr.

Verði tillagan samþykkt er það vísasta leiðin til að ná engum árangri í stjórnarskrármálinu. Þetta kalla ég uppgjöf á lokasprettinum. Einmitt nú er mikilvægt að úthaldið bresti ekki til að ná farsælum lyktum í þetta mikilvæga mál.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur unnið mjög þétt saman með Hreyfingunni til að þoka málinu áleiðis og unnið mjög gott starf þar sem tekið hefur verið mið af athugasemdum og gagnrýni sem fram hefur komið. Að mínu mati er okkur ekkert að vanbúnaði að leiða stjórnarskrármálið til farsælla lykta á Alþingi á grundvelli þeirrar miklu og vönduðu vinnu sem fram hefur farið allt þetta kjörtímabil og í reynd allt frá minnihlutastjórninni 2009.

Mér er enda til efs að nokkurt mál hafi fengið eins mikla umfjöllun á vettvangi þingsins í sögu lýðveldisins og ný og breytt stjórnarskrá hefur fengið á þessum tíma. Hið eina sem kemur í veg fyrir afgreiðslu málsins er fordæmalaust málþófsofbeldi þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að enginn ríkisstjórnarmeirihluti í lýðveldissögunni hefur verið jafneinbeittur í vilja sínum til að breyta stjórnarskránni og sá sem nú starfar. Og það sem meira er, hann hefur verið tilbúinn til að gera það á grundvelli tillagna sem mótaðar hafa verið af fólkinu sjálfu.

Þær tillögur sem fyrir liggja eru ekki tillögur Samfylkingarinnar eða tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þær eru tillögur fólksins í landinu. Og hver stendur í vegi fyrir framgangi þeirra? Eru það stjórnarflokkarnir sem háttvirtur þingmaður vill lýsa vantrausti á? Nei, auðvitað ekki. Andstæðingar málsins eru þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hv. þingmaður vill nú færa í hendur stjórn landsins samkvæmt tillögunni.

Síðan er það auðvitað kafli út af fyrir sig að þessi tillaga er meingölluð og ég spyr hæstv. forseta: Hefur það verið skoðað af hálfu þingsins hvort hún sé þingtæk í óbreyttri mynd? Í greinargerð með tillögunni er gert ráð fyrir að þing verði rofið og að skipuð verði starfsstjórn fulltrúa allra flokka á þingi. Allir sem eitthvað vita um stjórnskipan landsins þekkja að þannig standa menn ekki að málum.

Það verður enginn flokkur skikkaður í ríkisstjórn hvað sem líður samþykktum meiri hluta þings og auðvitað yrði það forseta Íslands að meta hvort og þá hvernig staðið yrði að skipan ríkisstjórnar í framhaldinu ef vantraust á sitjandi ríkisstjórn yrði samþykkt í dag. Það verður líka fróðlegt að sjá hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks greiði tillögunni atkvæði sitt í ljósi efnisatriða og greinargerðar hennar.

Og hver eru rökin þar fyrir vantrausti? Jú, að þingið geti ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga, sem þessir flokkar, íhaldið og Framsókn, hafa með kjafti og klóm staðið í vegi fyrir að nái fram að ganga allt þetta kjörtímabil. Ég spyr: Hvers lags vitleysa er þetta, virðulegi forseti? Og vitleysan er síðan kórónuð með því að eitt efnisatriða tillögunnar er að boða til kosninga þótt þegar liggi fyrir að kosningar verða eftir sjö vikur og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla er hafin fyrir nokkru.

Ég býst við að vandfundinn sé annar eins skrípaleikur í tillöguflutningi á Alþingi. Það verður fróðlegt að sjá hverjir styðja slíkan málatilbúnað.

Virðulegi forseti. Vilji þjóðarinnar til breytinga, til aukins lýðræðis, almannaréttar og mannréttinda og til betri stjórnarhátta almennt er augljós og eindreginn. Tveir af hverjum þremur sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs vilja að þær verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá landsins. Þann þjóðarvilja ber okkur að virða og ég sem þingmaður og forsætisráðherra þessa lands velkist ekki í vafa eitt augnablik um skyldu mína í málinu. Og ég hef staðið í þeirri trú að hv. þingmaður væri mér þar sammála. Að því er nú unnið undir forustu formanna stjórnarflokkanna að tryggja að þessi skýri þjóðarvilji verði að veruleika þrátt fyrir hatramma og óbilgjarna andstöðu stjórnarandstöðunnar.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari hlýtur að átta sig á að samþykkt tillögu hans gæti falið í sér að til yrði nýr meiri hluti á Alþingi sem hefði forustu um framhald málsins. Meiri hluti skipaður þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokk, hv. þm. Þór Saari og fleirum. Það grátbroslega er að svo virðist sem þingmaðurinn telji meiri líkur á árangri í stjórnarskrármálinu í því samstarfi en í samstarfi við núverandi stjórnarflokka. Á því feigðarflani mundi hv. þm. Þór Saari bera mesta ábyrgð.

Virðulegi forseti. Við erum á lokasprettinum og spurningin er: Höfum við úthaldið sem þarf til að klára málið? Kröfuna um að góð sátt ríki um stjórnarskrárbreytingar má ekki túlka þannig að ávallt beri að leita lægsta samnefnara á andstæðum skoðunum sem uppi kunna að vera. Slíkt leiðir í raun ekki til neinna breytinga, engrar framþróunar á íslensku samfélagi, á íslensku stjórnkerfi, á möguleikum almennings til áhrifa og þátttöku, á stjórnmálamenningu landsins. Þannig munum við ekki ná markmiðum um aukna mannréttindavernd né munum við með slíkum aðferðum ná að tryggja með fullnægjandi hætti til framtíðar sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum sínum.

Virðulegi forseti. Mér hefur lengi verið ljóst að það þarf alls ekki alltaf að vera samasemmerki milli víðtækrar sáttar í samfélaginu og víðtækrar sáttar hér á hinu háa Alþingi. Á það ekki hvað síst við þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Á þeim grunni hef ég í gegnum árin lagt til að kosið yrði til bindandi stjórnlagaþings sem fengi það sérstaka verkefni að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni, verkefni sem Alþingi Íslendinga hefur ekki tekist að klára þrátt fyrir að hafa haft tæp 70 ár til verkefnisins.

Síðast stóð ég ásamt forustumönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi nema Sjálfstæðisflokksins að flutningi slíkrar tillögu vorið 2009 án þess þó að hún næði fram að ganga, því miður, vegna málþófs sem þá var viðhaft. Því erum við í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Umræðan um stjórnarskrána sem varað hefur síðustu fjögur ár hefur tekið 150 klukkustundir á Alþingi, og það má sannarlega leiða líkur að því að ekkert mál á Alþingi frá upphafi hafi verið rætt eins lengi. Þar hefur umræðan og krafan um að þjóðareign á auðlindum yrði fest í stjórnarskrána aldrei verið meiri. Það getur skipt sköpum fyrir framtíðina og eðlilega hlutdeild allrar þjóðarinnar í gífurlegum auðæfum sem felast í auðlindum að ná þessu fram nú á þessu þingi. Jafnaðarmönnum er einum treystandi fyrir því að auðlindaákvæðið verði þannig úr garði gert að þjóðin sjálf en ekki fáir útvaldir njóti afrakstursins af auðlindum þjóðarinnar í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Hvergi er munurinn meiri á hinni víðtæku sátt í samfélaginu annars vegar og á Alþingi hins vegar en þegar kemur að álitaefnum um hina veigamestu grundvallarhagsmuni þjóðarinnar sem lúta að umráðum og eignarhaldi á auðlindum þjóðarinnar. Þannig svöruðu tæp 85% þeirra sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2013 þeirri spurningu játandi að þeir vildu að auðlindir sem ekki væru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign. Sú niðurstaða ætti ekki að koma neinum á óvart, þessi afstaða almennings hefur verið þekkt lengi. Þrátt fyrir það hefur Alþingi í áratugi heykst á að fara að þeim vilja þjóðarinnar. Í mínum huga er algert grundvallaratriði að núverandi þing breyti stjórnarskránni í samræmi við vilja þjóðarinnar í auðlindamálum.

Að þessu er nú unnið undir forustu formanna stjórnarflokkanna en af því verður hins vegar tæplega, verði vantraust samþykkt hér í dag. Ætlar hv. þm. Þór Saari að koma í veg fyrir að þessi vilji þjóðarinnar nái fram að ganga?

Hæstv. forseti. Ábyrgð þingmannsins Þórs Saaris er mikil.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur nú stjórnað landinu í rúm fjögur ár og einn og hálfur mánuður lifir af kjörtímabilinu. Á þeim fordæmalausa og merka tíma sem liðinn er frá hruni hefur þjóðin unnið sannkallað þrekvirki við endurreisn samfélagsins og ég fullyrði að engin ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur komið eins mörgum þjóðþrifamálum í gegn á einu kjörtímabili.

Ég fullyrði líka að engin ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur tekið við jafnslæmu búi og snúið því jafnrækilega við á einu kjörtímabili. Ísland rambaði á barmi þjóðargjaldþrots og samfélagslegrar upplausnar. Það var því fyrir fram vitað að verkefnið yrði ekki til vinsælda fallið. Við blasti að taka þyrfti á mörgum og erfiðum málum og það hefur kostað mikið þrek og þor hjá þingmönnum stjórnarflokkanna að ganga í gegnum hreingerningarnar eftir hrunið.

Stjórnarmeirihlutinn hefur aldrei misst sjónar af heildarhagsmunum þjóðarinnar þrátt fyrir að hafa yfir sér sífelld svikabrigsl stjórnarandstöðunnar sem veifað hefur sýknt og heilagt óábyrgum gylliboðum og villt um fyrir þjóðinni með tilboðum um gull og græna skóga sem nú eru endurtekin í aðdraganda kosninganna. Hér var gífurlegur fjárlagahalli, óðaverðbólga, okurvextir og fjárhagur flestra fyrirtækja og heimila í rúst. Atvinnuleysisvofan lagðist yfir landið. Á aðeins fjórum árum hefur Ísland snúið vörn í sókn, kröftugri lífskjarasókn en flest okkar helstu samanburðarlönd geta státað af.

Í rúm tvö ár hefur hagvöxtur á Íslandi verið meiri en í flestum löndum OECD, atvinnuleysi er um helmingi minni en það varð mest og er með því lægsta sem mælist. Kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna hefur vaxið jafnt og þétt og eignastaða heimilanna batnar.

Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað um sem nemur tvöfaldri landsframleiðslu á þremur árum og eru skuldir heimila nú lægri en þær voru árið 2007. Við höfum stoppað í fjárlagagatið og sjáum fram á bjartari tíma og lækkun skulda. Greiningaraðilar hækka lánshæfismat Ísland og nú er svo komið að skuldatryggingarálagið á Íslandi er ekki nema tíundi hluti þess sem það varð mest og traust á Íslandi er óðum að vaxa. (Gripið fram í.) Þessum ótrúlega árangri í ríkisfjármálum höfum við náð, án þess að hækka heildarskattheimtu ríkisins. Þvert á móti tekur ríkið nú smærri hluta landsframleiðslunnar til samfélagslegra verkefna en ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerðu fyrir hrun.

Um 60% allra heimila bera lægri skattbyrði en fyrir hrun og tekjubilið milli hinna ríku og þeirra sem minna hafa handa á milli hefur minnkað umtalsvert. Jöfnuður er nú meiri á Íslandi en í flestum löndum heims. Þar erum við í góðum hópi norrænu landanna þótt skattbyrðin hér sé umtalsvert lægri. Á sama tíma hefur umfang velferðarþjónustunnar vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu. Þannig hefur verið forgangsraðað í þágu jöfnuðar og velferðar eins og norrænni velferðarstjórn sæmir. Þessari ríkisstjórn vill hv. þm. Þór Saari víkja frá til að koma að umboðslausri ríkisstjórn í einn og hálfan mánuð sem ljóst er að engu mun fá áorkað, allra síst í málefnum stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Dettur einhverjum í hug að slíkt ástand þjóni hagsmunum landsmanna? Hvað yrði þá um þau fjölmörgu mál sem nú liggja fyrir þinginu og stjórnarflokkarnir ætla sér að afgreiða? Mál sem varða mikilvæga atvinnuuppbyggingu, kjör almennings, heilbrigðismál, efnahagsmál, og umhverfismál, svo eitthvað sé nefnt. Telur hv. þm. Þór Saari eða aðrir þeir sem hyggjast greiða atkvæði með þessari tillögu að betur muni ganga að leiða þessi mál til lykta ef núverandi stjórnarflokkar segðu sig frá landsstjórninni? Nei, tillaga þingmannsins er út í hött og mun ef samþykkt verður leiða til óstöðugleika og hringlandaháttar við stjórn landsins í einn og hálfan mánuð, þegar engan tíma má missa. Það er alls ekki það sem Ísland þarfnast, enda treysti ég því og trúi að tillagan verði felld.[11:03]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hef áður staðið hér í þessum ræðustól og sagt að ríkisstjórnin væri rúin trausti. Um það snýst þetta vantraust. Í þessum sal og um allt land er fólk sem ekki treystir ríkisstjórninni. Það treystir ekki ríkisstjórninni í efnahagsmálum, ekki í atvinnumálum, ekki í málefnum heimilanna, ekki í alþjóðlegum samskiptum. Þetta er það sem liggur til grundvallar: Vantraust á ríkisstjórninni og störfum hennar. Vantraust á þeirri leið sem valin var, leið skattahækkana og afturhalds sem birtist okkur m.a. í því að á síðasta ári varð hagvöxtur einungis 1% þegar menn voru almennt sammála um að allar forsendur væru til þess að skapa hagvöxt upp á 3 ef ekki 4% á árinu 2012. Ríkisstjórn sem talaði í raun og veru gegn fjárfestingum öll síðastliðin ár og kynnti til sögunnar rammaáætlun um ívilnanir fyrir fjárfestingar en endar svo kjörtímabilið á því að koma með sérlausnir þvert gegn þeirri stefnu sem kynnt var til sögunnar. (Gripið fram í.)

Sú tillaga sem hér liggur fyrir í dag fjallar um það mál sem oft og tíðum hefur sýnt í hnotskurn ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég og flutningsmaður tillögunnar erum jafnósammála í því máli og tveir menn geta orðið um nokkurt mál. (Gripið fram í.) Það má segja að stjórnarskrármálið hafi gengið eins og rauður þráður í gegnum allt kjörtímabilið og raunar frá lokum þess síðasta. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá var lagt fram fyrir kosningar 2009 en varð ekki útrætt enda börðumst við sjálfstæðismenn gegn málinu, ekki síst þeirri fyrirætlan að taka stjórnarskrárvaldið af þinginu. Í áherslunni á það atriði kristallaðist ákaflega sérkennilegt andrúmsloft á þinginu sem hefur einkennt allt þetta kjörtímabil. Þar hafa sumir þingmenn talið sér það sérstaklega til framdráttar að ala á virðingarleysi og vantrausti, ekki einungis á þingmönnum heldur gagnvart störfum þingsins almennt. Virðist þar alfarið hafa farið fram hjá þeim sem þannig tala að þeir eru sjálfir í hópi þessa fólks sem þeir telja vart treystandi til nokkurs hlutar og lögðu jafnvel talsvert kapp á að komast í hann. Svo skemmtilega vill til að þeir geta væntanlega flestir þakkað guði, lukkunni og kjósendum að þurfa ekki öllu lengur að bera þann kross. (Gripið fram í.)

Sumarið 2011 skilaði stjórnlagaráð tillögum sínum til forseta Alþingis. Á stjórnlagaráði hvíldi engin skylda til að endurskoða hvert einasta ákvæði stjórnarskrárinnar enda varla hægt að ætlast til slíks á fjögurra mánaða starfstíma eins og flutningsmaður vantrauststillögunnar kom reyndar inn á. Engu að síður fólu tillögur stjórnlagaráðs í sér heildarendurskoðun á stjórnarskránni og 35 nýjar greinar að auki, u.þ.b. eina nýja grein á þriggja daga fresti á starfstíma stjórnlagaráðsins.

Skemmst er frá því að segja að allri gagnrýni á málið hefur að mestu verið mætt með skætingi, hvort sem sú gagnrýni hefur komið fram frá þingmönnum eða fræðimönnum, innlendum eða erlendum. Þeir eru ýmist sagðir „svokallaðir“ fræðimenn, lifa í fílabeinsturni fræðanna eða vera hluti af fræðimannaelítunni. Þannig hefur verið tekið á gagnrýnisröddum og fast haldið í þá stefnu að endurskoða stjórnarskrána í heild, jafnvel þegar löngu var orðið ljóst að öll tímamörk væru löngu liðin. Dylst engum að undir það síðasta réð hvað mestu að núverandi minnihlutastjórn hefur verið í gíslingu smáflokks sem virðist auk þessa máls hafa haft það helst á stefnuskrá sinni að útrýma sjálfum sér með góðum árangri. (Utanrrh.: Hver er í gíslingu hans núna?)

Það er líklega rétt að taka það fram enn einu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið á móti því að endurskoða stjórnarskrána (Gripið fram í: Nú?) Ég heyri það hér í þingsal að þetta hefur enn ekki komist til skila. [Hlátur í þingsal.] Ég heyri það á þingmönnum Samfylkingarinnar og ég heyri það á þingmönnum Vinstri grænna. Það er ágætt að nota þetta tilefni til að segja það hátt og skýrt einu sinni enn: Það þarf ekki að fara leið átaka til að endurskoða stjórnarskrána. Það er ekki ágreiningur um þörf fyrir endurskoðun á stjórnarskránni en menn eiga ekki að viðhafa fúsk og menn eiga ekki að skella skollaeyrum við ábendingum fræðimanna og þeirra sem vel vilja og leggja gott eitt til í endurskoðun á jafnmikilvægu máli og stjórnarskráin er. (Gripið fram í: Þá tekurðu í sáttarhöndina.)

Frá setningu stjórnarskrárinnar 1944 hefur lýðveldisstjórnarskránni verið breytt sjö sinnum. Þar á meðal hefur kjördæma- og kosningaskipun verið breytt tvívegis, skipulag Alþingis og starfshættir endurskoðaðir og settur nýr mannréttindakafli. Þeir frumkvöðlar við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem hvað oftast hefur verið vísað til hér í umræðunni sem átt hefur sér stað undanfarin ár eru einmitt forustumenn Sjálfstæðisflokksins, menn eins og Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen hefur oft verið nefndur og aðrir, einmitt forustumenn Sjálfstæðisflokksins sem ítrekað og síendurtekið er vísað til til þess að byggja undir rök fyrir því að eitt og annað þurfi að koma til skoðunar.

Síðasta stóra breytingin á stjórnarskránni, setning mannréttindakaflans, sem er almennt talin vel heppnuð, var einmitt unnin undir forsæti Sjálfstæðisflokksins. Fullyrðingar um að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti öllum breytingum eru einfaldlega tilbúningur þeirra sem hafa viljað kosta öllu til að keyra í gegn vanhugsaðar breytingar.

Það er löngu kominn tími til að staldra við á þeirri vegferð sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið í stjórnarskrármálinu og snúa rækilega við blaðinu. Auðvitað þurfum við að huga að ákveðnum atriðum í stjórnarskránni og stjórnskipun landsins. Það er sjálfsagt að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrá, við þurfum að botna umræðu um það hvernig það eigi að vera orðað. Það er sjálfsagt að koma í stjórnarskrá heimildum til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Við þurfum að ræða betur stöðu forseta Íslands og ræða breytingar í þeim tilgangi að styrkja eftirlitsvald þingsins.

Breytingar á þessum atriðum eiga hins vegar að byggjast á yfirveguðu mati á raunverulegum vandamálum og faglegri greiningu á því hvernig þau verða best leyst. Við skulum ekki varpa lýðveldisstjórnarskránni fyrir róða fyrr en við erum viss um að við höfum fundið eitthvað betra.

Á þessum grundvelli er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn að vinna að áframhaldandi endurskoðun stjórnarskrárinnar, á grundvelli breiðrar samstöðu. Slíkri samstöðu hefur ekki verið fyrir að fara allt þetta kjörtímabil. Það hefur verið sorglegt að horfa upp á þingið í spennitreyju þvermóðsku og hentistefnupólitíkur. Tíma þingsins hefur verið sóað og þjóðþrifamál hafa hvorki fengið þá umræðu né þann forgang sem þau hafa átt skilið, að ekki sé nefndur allur kostnaðurinn við þetta brölt. Hann jafnast á við meira en tíu ára framlög ríkisins til Kvennaathvarfsins og Stígamóta, svo dæmi sé tekið, rúmlega tveggja ára rekstur hjúkrunarheimilanna á Hellu, Eskifirði og á Ólafsfirði eða heilt ár hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga fyrir niðurskurð.

Þetta mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, hófst með miklum lúðrablæstri og látum en því lauk í raun síðastliðinn fimmtudag með hljóðlátu andvarpi þegar horfið var frá heildarendurskoðun og lagt til að við mundum fleyta málinu áfram á næsta kjörtímabil og gera einungis breytingar á breytingarákvæðinu, finna því nýjan farveg, eftirláta nýju þingi að ákveða framhald málsins. Allt of miklu hefur verið kostað til, meira en 1 milljarði, milljarði sem hefði betur verið forgangsraðað í þágu þarfari verkefna.

Virðulegi forseti. Ég styð því þetta vantraust, ekki á forsendum Þórs Saaris … [Frammíköll í þingsal.] Frú forseti. Ég styð það vegna þess að það er ekki valkostur að styðja þessa ríkisstjórn. (Utanrrh.: Af hverju lagðirðu ekki fram þitt eigið?) Ég styð vantraustið á forsendum atvinnulífsins og heimilanna, á forsendum okkar sem viljum endurreisn og uppbyggingu og sættum okkur ekki við stöðnun og afturhald. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn farinn að … Þór Saari.)

Ég bið þá forláts sem hér eru með frammíköll og sakna þess að ég skuli ekki hafa lagt oftar fram vantraust á ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Mér þykir leitt að hafa valdið þeim vonbrigðum en verst af öllu er þó að þeir sem hér láta verst hafa valdið þjóðinni vonbrigðum sem réttlætir stuðning við vantraustið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt.)[11:13]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur verið boðað til kosninga. Almennar þingkosningar verða haldnar 27. apríl næstkomandi. Íslendingar eru þegar farnir að ganga að kjörborðinu í utankjörfundi. Hér í þinginu sjáum við hilla undir lok þingstarfa og við ræðum tillögu hv. þm. Þórs Saaris um að þing skuli rofið og efnt til almennra þingkosninga. Þetta er ekki fyrsta vantrauststillaga hv. þingmanns, það er nánast vikuleg iðja þessa dagana, og í það nýtir Alþingi Íslendinga tíma sinn núna.

Af hverju ræðum við þá tillögu að lýsa vantrausti á ríkisstjórn og að boðað skuli til kosninga þegar sjö vikur eru til kosninga? Jú, hv. þingmaður vill koma ríkisstjórninni frá og setja nýja stjórn, starfsstjórn allra flokka, koma frá ríkisstjórn sem hefur setið við völd á kjörtímabili þar sem aldrei hefur farið fram meiri vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar en á einmitt því kjörtímabili.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir það í framsögu sinni. Það var haldinn þjóðfundur. Stjórnlaganefnd starfaði sem undirbjó þjóðfundinn og vann úr þeim tillögum sem komu fram þar. Við kusum til stjórnlagaráðs og við þekkjum þá sögu. Stjórnlagaráð var skipað, starfaði og skilaði tillögum sínum sem voru unnar áfram í þinginu. Haustið 2012 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, bæði um hvort byggja ætti nýja stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs og líka voru greidd atkvæði um einstök atriði, auðlindaákvæði, persónukjör, þjóðkirkju, beint lýðræði og jafnt vægi atkvæða.

Í stuttu máli sagt hefur alveg gríðarleg vinna farið fram á þessu kjörtímabili við endurskoðun stjórnarskrár. Ég leyfi mér að segja að ég held að aldrei hafi verið meiri umræða og aldrei hafi farið fram meiri vinna hjá þjóðinni við endurskoðun stjórnarskrár en á þessu kjörtímabili. Mér er til efs að almenningur í landinu hafi tekið jafnmikla grundvallarumræðu um endurskoðun stjórnarskrár og að jafnmikið hafi verið fjallað um endurskoðun stjórnarskrár í fjölmiðlum og gert hefur verið á þessu kjörtímabili. Það er ríkisstjórnin sem hefur setið á þessu kjörtímabili sem hv. þingmaður vill koma frá.

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar vann Alþingi málið áfram og ég er alveg sammála því sem hefur verið sagt, ég tel sameiginlega vinnu þings og þjóðar mjög merkilega. Hins vegar skil ég ekki röksemdafærslu hv. þm. Þórs Saaris um tillögu okkar hv. þingmanna, þeirrar sem hér stendur, Árna Páls Árnasonar og Guðmundar Steingrímssonar, um að unnt verði að vinna málið áfram á næsta kjörtímabili með því að leggja til breytingar á breytingarákvæði. Þannig verði hægt að ljúka málinu á næsta kjörtímabili, ekki þurfi að láta tvö þing samþykkja nýja stjórnarskrá heldur verði hægt að ljúka málinu til að mynda samhliða sveitarstjórnarkosningum 2014 með því að bera málið undir Alþingi, og fá hér t.d. 60% atkvæða eins og við leggjum til, og síðan undir þjóðina og fá aftur 60% atkvæða. Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður sér framhald málsins fyrir sér og hann dæmir þá tilraun til að reyna að ná samkomulagi um að ljúka málinu, lítur á hana sem þá litlu þúfu sem eigi að velta þungu hlassi. Hv. þingmanni er fullljóst að málinu verður ekki eingöngu lokið á þessu þingi heldur þarf líka að ljúka því á því næsta.

Kannski sýnir vantrauststillagan að hv. þingmaður vill fremur en að gera málamiðlanir til að koma málum áfram standa hreinn eftir með því að fella þá stjórn sem hefur unnið hvað mest að framgangi málsins. Kannski vill hv. þingmaður ekki bera ábyrgð á neinum þeim málamiðlunum sem kunna að vera til þess fallnar að færa málið áfram. Allt í góðu, ég skal bera þá ábyrgð en mér finnst það ekki góð röksemdafærsla því að breytingarákvæðið er tilraun til að tryggja áframhaldandi vinnu málsins án þess að framlengja hana um heilt kjörtímabil í viðbót. Breytingarákvæðið er markvisst teikn um að við viljum ljúka málinu. Tillaga hv. þingmanns er hins vegar markviss tilraun til að drepa stjórnarskrármálið endanlega.

Hv. þingmanni varð mjög tíðrætt um lýðræðissamfélagið og það er alveg rétt. Ég hef mikið velt því fyrir mér að þegar þeir sem tala um gildandi stjórnarskrá eins og hið endanlega plagg, og þá er ég að tala um þá stjórnarskrá sem við eigum núna, finnst mér þeir ekki hugsa mjög í anda lýðræðissamfélagsins því stjórnarskrá, lög og reglur eru þrátt fyrir allt textar sem við setjum á blað. Lýðræðissamfélag snýst um hvernig við hugsum, hvernig við vinnum og hvað við gerum þannig að gildandi stjórnarskrá er svo sannarlega ekki endanleg skipan mála í lýðræðissamfélagi. Sú stjórnarskrá sem við höfum verið að ræða í þinginu er heldur ekki endanleg skipan mála eða endanlegur sannleikur. Ég hef hins vegar talið hana góðan grunn að stjórnskipan íslensks samfélags og stutt það að þingið reyndi að ljúka umræðu um málið með þeim breytingum sem menn teldu nauðsynlegar.

Ég átta mig hins vegar líka á því að í lýðræðissamfélagi tekur umræða tíma. Ég er ekki að tala um umræðuna sem við eigum stundum í þinginu um hvað klukkan sé, hvað sé næst á dagskrá eða hvenær forseti hyggist halda þingflokksformannafund, eins og við notum tímann allmikið í í þinginu. Ég er að tala um raunverulega umræðu og hana er auðvitað nauðsynlegt að eiga um nýja stjórnarskrá. Í lýðræðissamfélagi getur líka verið eðlilegt að staldra við á hverri vegferð, ígrunda ákvarðanir og hika þegar skerðast fer um tímann. Ég hef því ásamt hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni og Guðmundi Steingrímssyni lagt þetta til til að vinna ákveðinn tíma svo þjóðin fái meiri tíma til að eiga þá umræðu sem er nauðsynleg um nýja stjórnarskrá. Ég tel það ekki endilega galla að það taki tíma að ná endanlegu marki. Hvert einasta frumvarp sem ég hef lagt fram og hefur verið samþykkt hefur tekið tíma og við hverja einustu samþykkt hafa þær spurningar vaknað hjá mér hver næstu skref verði. Þannig eigum við að sjálfsögðu að líta á þetta ferli, það er einkenni lýðræðissamfélagsins.

Það er hins vegar annað einkenni þess samfélags að við leitumst við að ná samkomulagi um skipan mála og á því byggjum við auðvitað stjórnskipan ríkja í okkar heimshluta. Það verða aldrei allir sáttir og þess vegna tölum við stundum um skarað samkomulag þar sem eru gerðar málamiðlanir en um leið sættast aðilar á að standa með niðurstöðunni. Það hefur valdið mér vonbrigðum hversu treglega hefur gengið að ná samkomulagi í þinginu um nýja stjórnarskrá. Hér hefur virkilega verið lögð vinna í að eiga samráð og ég fór yfir það. Það samráð hefur ekkert endilega snúist um samráð milli okkar sem sitjum í þessum sal. Það samráð hefur snúist um þjóðfundinn, um þjóðaratkvæðagreiðsluna, um stjórnlagaráðið, það samráð hefur snúist um samtal við þjóðina. Ég hefði talið fyrir fram að það ætti að skila sér inn í sali Alþingis með betri anda. Mig furðar hversu treglega hefur gengið að ná sáttum, hversu langan tíma breytingar hafa tekið og það á raunar ekki bara við um þetta kjörtímabil, sagan frá vorinu 2009 hefur verið nefnd. Auðvitað velti ég vöngum yfir því hvort sú sátt sem íhaldsmenn boða sé fyrst og fremst um óbreytt ástand en ekki sátt um að mjaka málinu áfram. Það hlýtur að valda okkur áhyggjum eftir allt samráð og allt samtal sem hefur átt sér stað úti í samfélaginu ef það nær hreinlega ekki inn fyrir dyr Alþingis.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur talið fullar forsendur til að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á þeim grunni sem um ræðir. Við áttum okkur líka á því að máli skiptir að við sem sitjum hér reynum að ná einhverri lendingu um málið. Þess vegna stóðum við að framlagningu tillögu um breytingarákvæðið, þess vegna finnst okkur mikilvægt að líta til annarra mála. Ég nefni þar ekki síst auðlindaákvæðið sem er það ákvæði sem fékk mestan stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem var haldin í haust. Þar lýsti þjóðin eindregnum vilja sínum til þess að sett yrði ákvæði inn í stjórnarskrá sem tryggði sameign þjóðarinnar á auðlindum. Ég velti því upp, ágætu þingmenn, hvort ekki sé reynandi að fara í þann leiðangur að ná einhverri lendingu um slíkt ákvæði sem þjóðin hefur svo sannarlega talað um, hvort ekki sé reynandi að ná lendingu um það breytingarákvæði þannig að við getum lokið málinu og verið stolt af því. Það er svo að í lýðræðissamfélagi eigum við samtöl og þau stoppa ekki endilega við lok kjörtímabils heldur halda áfram. Það er kannski eitthvað sem hv. þingmenn ættu líka að velta fyrir sér, að hugsa aðeins lengra en til eins kjörtímabils.

Að lokum vil ég segja um tillögu hv. þingmanns: Hv. þingmaður hefur talað talsvert — svo ég vitni í hans eigin orð sem hann notaði áðan — um ógeðisstjórnmál. Tillaga hv. þingmanns er hluti af leiknum, hún er hluti af því leikriti sem íslensk stjórnmál eru orðin. Vandinn er sá að fólk utan þings, íslenska þjóðin hefur hvorki áhuga né skilning á því leikriti. Ég tel atkvæðagreiðslu um vantraust og þingrof sjö vikum fyrir kosningar gott dæmi um það sem fólk vill ekki sjá frá Alþingi Íslendinga.[11:24]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú þegar aðeins sjö vikur eru til kosninga erum við fyrst og fremst að taka afstöðu til þess hvort ríkisstjórnin eigi skilið að fá yfirlýsingu um traust frá Alþingi í ljósi þess hvernig hún hefur haldið á málum undanfarin ár. Ég leitaði í gagnasafni Alþingis en fann ekki tillögu um vantraust sem fylgir greinargerð. Slíkar tillögur eru yfirleitt án greinargerðar, eða alltaf fram að þessu. Ástæðan er sú að þegar menn taka afstöðu til vantrauststillögu taka þeir afstöðu til þess hvort ríkisstjórnin eigi skilið traust Alþingis eða ekki. Menn geta tekið afstöðu til þess hver á sinni forsendu.

Við munum leggja til að greidd verði atkvæði um vantrauststillöguna í tvennu lagi, annars vegar fyrri hlutann, um vantraust á ríkisstjórnina, og hins vegar seinni hlutann, um þingrofið. Ég ætla fyrst og fremst að tala hér út frá fyrri hlutanum, tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem hlýtur að snúast um hvort þingmenn telji frammistöðu ríkisstjórnarinnar ásættanlega, hvort hún hafi á þessum fjórum árum unnið sér það inn að þingheimur lýsi trausti á þessa ríkisstjórn.

Að mínu mati er mjög langur vegur þar frá. Þvert á móti er mikilvægt að þingið noti nú tækifærið, í lok þessa kjörtímabils, til að lýsa því yfir að framganga ríkisstjórnarinnar undanfarin fjögur ár sé ekki ásættanleg. Þingmenn geta ekki afsakað sig með því að þeir vilji verja ríkisstjórnina vegna þess að þeir vilji klára tiltekin mál á næstu dögum vegna þess að þeir geta fellt ríkisstjórnina og svo getur þingið tekið völdin. Þingið getur unnið að því að ná hér í gegn góðum málum á næstu dögum. Þegar menn taka afstöðu til fyrri hluta vantrauststillögu hv. þm. Þórs Saaris eru þeir eingöngu að segja skoðun sína á ríkisstjórninni.

Þessi ríkisstjórn tók vissulega við við erfiðar aðstæður í samfélaginu og fólk hafði skilning á því. Þess vegna var það tilbúið að gefa ríkisstjórninni töluvert svigrúm. Við framsóknarmenn töldum í upphafi, strax eftir efnahagshrunið, að það væri svo augljóst hvað gera þyrfti, vandinn væri svo aðkallandi að það hlytu allir að vinna saman að úrlausn hans. Vandamálið sem hins vegar kom svo í ljós við hina nýju ríkisstjórn var að hún leit á efnahagshrunið fyrst og fremst sem pólitískt tækifæri, tækifæri til að ná loksins fram sinni stjórnmálalegu hugmyndafræði. Fyrir vikið var stórkostlegum tækifærum kastað á glæ, tækifærum sem innifalin voru í því ástandi sem þá var uppi, sérstaklega tækifærinu til að fylgja eftir neyðarlögunum með því að huga að hinni hliðinni, þeirri hlið sem neyðarlögin tóku ekki til. Neyðarlögin vörðu eignir en þau fylgdu því ekki eftir með því að ráðast að skuldavandanum með þeim leiðum sem þá voru færar og hefðu ekki kostað ríkissjóð neitt. Því tækifæri var kastað á glæ.

Á þeim tíma sem síðan liðinn er höfum við séð ótal öðrum tækifærum kastað á glæ. Vissulega höfðu margir tapað miklu á efnahagshruninu. Lífeyrissjóðir og þeir sem lagt höfðu sparifé sitt í bankana höfðu tapað miklu, en að langmestu leyti var tapið hjá erlendum áhættufjárfestum. Það var því frumskylda ríkisstjórnarinnar við þær aðstæður að koma í veg fyrir að tapið af efnahagshruninu færðist í meira mæli yfir á íslenskan almenning. En í stað þess að nýta tækifærin sem voru til þess lagði ríkisstjórnin á sig ótrúlega vinnu og baráttu við að færa tapið yfir á íslenskan almenning. Þar bar að sjálfsögðu Icesave-málið hæst þar sem gengið var ótrúlega langt í óeðlilegum og óheiðarlegum vinnubrögðum í stjórnmálum við að ná því markmiði.

Jú, stjórnarandstaðan talaði mikið í Icesave-málinu og þá var kvartað undan málþófi, en hæstv. forsætisráðherra, sem kemur hér upp eftir fjögur ár í ríkisstjórn og reynir að kenna stjórnarandstöðunni um að hún hafi ekki náð meiri árangri vegna þess að stjórnarandstaða hafi talað of mikið, getur þó ekki bent á eitt einasta mál þar sem stjórnarandstaðan hefur, með því að tala, komið í veg fyrir að eitthvað heppnaðist hjá ríkisstjórninni. Eða lítur kannski hæstv. forsætisráðherra svo á að ríkisstjórninni hefði átt að takast að koma Icesave-kröfunum á íslenskan almenning og að stjórnarandstaðan hafi skemmt fyrir því með því að tala of mikið? Eða að ríkisstjórninni hefði átt að takast að koma á því sjávarútvegskerfi sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði bílslys og stjórnarandstaðan hafði skemmt fyrir því með því að tala of mikið?

Nú þegar fjögur ár eru liðin af kjörtímabilinu verður hæstv. forsætisráðherra að taka ábyrgð á mistökum þessarar ríkisstjórnar en ekki að reyna að kenna öllum öðrum um. Hið sama á að sjálfsögðu við þegar kemur að umræðu um stjórnarskrána. Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að þar hafi stjórnarandstaðan verið í málþófi. Það er ekki enn búið að tala í eina mínútu um málið eins og það lítur út núna. Það voru nokkrar ræður hér þar sem var farið yfir sögu málsins fyrir nokkrum dögum en eins og málið lítur út núna, eftir þá miklu endurskoðun sem hæstv. forsætisráðherra talaði um að átt hefði sér stað á málinu, þessa miklu yfirferð og breytingar, hefur ekkert verið rætt um tillögu að nýrri stjórnarskrá. Það er erfitt fyrir hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að það mál hafi verið stöðvað með málþófi stjórnarandstöðu þegar ekki er byrjað að ræða það.

Það er frumskylda stjórnvalda að verja hag almennings við erfiðar aðstæður og nýta sóknarfærin. Þau sóknarfæri hafa ekki verið nýtt því að þrátt fyrir erfiðleikana hefði margt getað unnið með okkur. Ísland var allt í einu orðið mjög samkeppnishæft um starfsfólk, laun voru hér lægri en annars staðar vegna þess að gjaldmiðillinn hafði fallið. Í stað þess að nýta þann áhuga sem það skapaði á fjárfestingu á Íslandi og nýta þar með kosti sjálfstæðs gjaldmiðils sem vissulega hefur sína galla og í stað þess að nýta kostina sem menn stóðu frammi fyrir vegna þess að íslenskt efnahagslíf var orðið samkeppnishæft, var í raun ráðist gegn öllum raunhæfum hugmyndum um fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu og fyrir vikið fluttust störf úr landi, mörg þúsund störf hafa á þessu kjörtímabili flust til annarra landa.

Skuldir ríkissjóðs hafa ekki lækkað á þeim mikla árangurstíma sem hæstv. forsætisráðherra lýsir sem svo. Nei, skuldir ríkissjóðs eru miklu hærri nú við lok þessa kjörtímabils en strax eftir efnahagshrunið. Þær hafa haldið áfram að hækka ár frá ári og iðulega margfalt meira en haldið var fram í fjárlögum. Og nú síðast leyfir ríkisstjórnin sér að státa sig af því að hún hafi náð hallalausum fjárlögum fyrir lok kjörtímabilsins, hallinn væri ekki nema um 3 milljarðar. En allir sáu að þetta var einfaldlega ekki satt vegna þess að menn slepptu því að geta um ýmsa útgjaldaliði. Þeim útgjaldaliðum sem vantaði inn í þau fjárlög er alltaf að fjölga og mun líklega fjölga enn á þeim dögum sem eftir eru af þinginu. Síðustu fjárlög voru þannig röng, eins og allt þetta kjörtímabil. Þau voru í raun fölsuð vegna þess að menn vissu betur. Verið er að fela vandann, verið er að fela hallann á rekstri ríkissjóðs og það eru að sjálfsögðu ekki ásættanleg vinnubrögð þegar menn takast á við vandamál með því að reyna að fela það og koma þannig í veg fyrir að tekið sé á því með tiltækum ráðum, þeim ráðum sem nýta þarf.

Hæstv. forsætisráðherra talaði líka um hagvöxt. Það er alltaf svolítið sérkennilegt að hlusta á hæstv. ráðherra í þessari ríkisstjórn státa sig af því að hér sé þó hagvöxtur hærri en í evruríkjunum, hér sé staða efnahagsmála þó ekki jafnslæm og í evruríkjunum (Gripið fram í.) á sama tíma og þetta sama fólk beitir sér fyrir því að Ísland taki upp evruna og gangi í Evrópusambandið. Sá litli hagvöxtur sem þó hefur náðst er til kominn af aðstæðum í náttúrunni vegna þess að fiskur, ekki hvað síst makríll, hefur haldið sig meira í íslenskri lögsögu en áður og vegna þess að fall gjaldmiðilsins hefur ýtt undir útflutning. Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að fjölga störfum og auka hagvöxt? (Gripið fram í: Ekkert.) Ekki neitt, enda sjáum við það á því að fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki allt þetta kjörtímabil og fellur enn nú á síðasta ári. Endurmat á stöðu síðasta árs leiðir ekki bara í ljós að hallinn verði miklu meiri en gert var ráð fyrir í rekstri ríkissjóðs, leiðir ekki bara í ljós að hagvöxturinn verði helmingi minni en gert var ráð fyrir í forsendum, heldur einnig að fjárfesting fari enn minnkandi. Það er afleiðing af stefnu þessarar ríkisstjórnar.

Jafnvel undirstöðuatvinnugreinar sem áttu að draga vagninn út úr efnahagsvandanum hafa ekki farið varhluta af þeirri nálgun ríkisstjórnarinnar að hugsa fyrst og fremst um efnahagshrunið sem pólitískt tækifæri.

Sjávarútvegur, sem þó hefur skapað heilmikil verðmæti og í raun haldið efnahagslífi landsins á floti, hefur búið við algjöra óvissu allt þetta kjörtímabil. Það hefur ekki hvað síst bitnað á nýsköpunargreinunum, enda hefur mestur árangur náðst í nýsköpun á Íslandi í fyrirtækjum sem væru tengd undirstöðuatvinnugreinunum. Þessi fyrirtæki, nýsköpunarfyrirtækin, nýju fyrirtækin og nýju störfin hafa liðið fyrir óvissuna sem ríkisstjórnin hefur skapað. Svo leyfa hæstv. ráðherrar og nýkjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sér að tala eins og þessi ríkisstjórn hafi fundið upp áherslu á nýsköpun, að áður hafi allir bara viljað álver. Það er tóm vitleysa (Gripið fram í.) því að áhersla fyrri ríkisstjórna og sérstaklega að sjálfsögðu framsóknarmanna hefur lengi verið á mikilvægi nýsköpunar. Nýsköpun verður þó að byggja á traustum grunnstoðum og á því byggja menn ekki ef þeir eru á sama tíma að grafa undan þeim grunnstoðum.

Virðulegur forseti. Þó að ekki sé langt eftir af kjörtímabilinu er vel við hæfi að Alþingi lýsi skoðun sinni á ríkisstjórninni núna við lok kjörtímabils. Ég ítreka að í þeirri atkvæðagreiðslu sem fram fer í dag, um fyrri hluta þingsályktunartillögu hv. þm. Þórs Saaris, eru menn eingöngu að taka afstöðu til þess hvort þeir geti eftir þessi fjögur ár lýst yfir trausti á þessa ríkisstjórn eða hugsanlega einhverjir geti ekki gert það upp við sig, viti ekki hvort þeir treysti þessari ríkisstjórn eða ekki.

Flóknara er það ekki. Ætla menn að lýsa yfir trausti á ríkisstjórn sem haldið hefur á málum eins og ég hef lýst hér, kastað ótal tækifærum á glæ, beitt sér af alefli við það að reyna að koma skuldum gjaldþrota einkafyrirtækis yfir á íslenskan almenning, ríkisstjórn sem hefur hvað eftir annað svikið samninga, jafnvel skriflega samninga, ekki bara við pólitíska andstæðinga heldur við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið og fjölmarga aðra, fyrirtækin sem voru látin borga skatta mörg ár fram í tímann gegn loforði um að staðið yrði við samninga? Jafnvel slíkir samningar voru sviknir.

Ætlar Alþingi eftir fjögur ár af slíkum vinnubrögðum að lýsa yfir trausti á þessa ríkisstjórn og þar með þessi vinnubrögð eða ætla menn núna, í aðdraganda kosninga, að lýsa því yfir að vinnubrögð eins og við höfum horft upp á undanfarin fjögur ár séu óásættanleg?[11:37]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér finnst það almennt mjög mikill ósiður í pólitík að gera öðrum upp skoðanir og fara í ræðustól í þinginu og útlista skoðanir annarra. Ég hef í dag þurft að sitja undir frekar meinfýsnum túlkunum hv. þm. Þórs Saaris á skoðunum mínum í stjórnarskrármálinu. Ég hvet alla þá sem stunda pólitík til að gera þetta ekki. Ég ætla ekki að gera Þór Saari upp neinar fyrirætlanir eða hugsanir í þessu en þetta gerði hann engu að síður. Ég bið fólk um að trúa frekar mér um það hverjar eru skoðanir mínar í stjórnarskrármálinu og nú ætla ég að útlista þær.

Ég hef allt kjörtímabilið verið eindreginn fylgismaður þess að við förum í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Ég sagði já við því að ný stjórnarskrá yrði sett þjóðinni á grunni tillaga stjórnlagaráðs. Ég hef stutt það ferli með ráðum og dáð í mörgum ræðum í þinginu, en hins vegar fyrir nokkrum vikum tókum við, þingmenn Bjartrar framtíðar, hv. þm. Róbert Marshall og ég, stöðuna í þessu máli. Niðurstaðan varð sú að okkur fannst það ákaflega ólíklegt miðað við það hverjar aðfinnslur voru úti í samfélaginu við einstakar greinar frumvarpsins, miðað við það hvernig umræðan í þinginu var um málið, að það tækist að koma málinu í gegnum tvö þing.

Þannig er með þetta mál og það verða allir að átta sig á því að það er alveg sama á þessari stundu í hversu marga lúðra réttlætis og þjóðarvilja við blásum núna og hversu oft við beitum 71. gr. þingskapa og hversu mikið við reynum að olnboga okkur á þessari stundu í átt til atkvæðagreiðslu, að þó að þetta þing núna mundi segja já, jafnvel með tæpum meiri hluta, færi í atkvæðagreiðslu, yrði engin ný stjórnarskrá á þeim tímapunkti. Það er ekki lokaskrefið. Það þurfa að koma kosningar eftir það og svo þarf næsta þing að staðfesta það. Við höfum sagt í Bjartri framtíð að við viljum ekki þröngva málinu til atkvæðagreiðslu núna. Við höfum ekki lagst gegn því, við höfum bara ekki mælt með því. Við höfum sagt: Að þröngva málinu í atkvæðagreiðslu núna gerir það að verkum að málið lokast, það koma kosningar og næsta þing verður að segja af eða á. Því verður stillt upp við vegg: Vill það allan pakkann eða ekkert? Já eða nei?

Við höfum sagt og beðið um að við fengjum skilning á þeim sjónarmiðum að þessi leið kunni að vera vísasta leiðin til að fara með alla heildarendurskoðunina rakleiðis í ruslakistuna.

Mér finnst við hafa mætt víðtækum skilningi á þessum sjónarmiðum og það sem meira er, við höfum lagt fram aðra leið sem við teljum betri til að landa stjórnarskránni. Þá leið höfum við núna lagt fram á þinginu, hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir og ég. Hún felur það í sér að við breytum bara því hvernig við breytum stjórnarskránni, að við opnum fyrir það að við getum breytt stjórnarskránni, t.d. á 70 ára afmæli lýðveldisins, með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er það mikill lýðræðissinni að ég tel að fátt væri meira við hæfi sem endapunktur á þessu fallega ferli en að þjóðin taki lokaákvörðun um það hvort þetta verði stjórnarskrá lýðveldisins og geri það á 70 ára afmæli þess. Mér finnst það falleg leið.

Þar að auki leggjum við líka fram þingsályktunartillögu þar sem við förum fram á að þingið ákveði að blása skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um lokaniðurstöðuna. Hér erum við af umhyggju fyrir þessu máli og ferlinu að stinga upp á leið sem leiðir til þess að við fáum nýja stjórnarskrá í meiri sátt, eftir meiri kynningu við þjóðina og á allan hátt eru það að mínu viti betri stjórnmál.

Sú leið endurspeglar hins vegar í huga hv. þm. Þórs Saaris eitthvað sem hann kallar ógeðsstjórnmál. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu.[11:43]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Spurt er hvort ég treysti þessari ríkisstjórn. Það er góð spurning. Og svarið er fremur einfalt: Mér hefur því miður yfirleitt ekki þótt hún traustsins verð. Ástæðan er ekki stjórnarskrármálið heldur allt hitt.

Ég mun aldrei fyrirgefa það hvernig bankarnir hafa verið endurreistir á kostnað skuldsettra heimila. Ég mun aldrei fyrirgefa það hvernig tækifærin til að leiðrétta þann forsendubrest sem olli stökkbreytingu lánanna okkar voru ekki nýtt. Ég mun aldrei fyrirgefa það að heil kynslóð fólks er nú tæknilega gjaldþrota, eignir hennar og ævisparnaður er gufað upp. Vegna þessa treysti ég ekki þessari ríkisstjórn.

En mér finnst ríkisstjórnin hins vegar ekki bera ábyrgð á því að hugsanlega séum við að glutra niður einstöku tækifæri til að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Stjórnarskráin er mál fólksins og mál þingsins, ekki ríkisstjórnarinnar.

Forseti. Alþingi ályktaði þann 28. september 2010 í kjölfar þeirrar vinnu sem fór í gang eftir að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni og þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

Svo stendur að Alþingi álykti að fela hinum ýmsu aðilum að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum sviðum. Og hvað er þar fremst í flokki? Endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins.

Hvað er að okkur? Hvað er að þessu þingi? Af hverju getur þingið ekki klárað þetta mál? Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og málið er fullbúið. Menn segja að það sé ekki tími. Það er rugl, það er víst tími. Af hverju skyldu þingmenn ekki vinna út kjörtímabilið?

Forseti. Ég mundi gjarna vilja lýsa vantrausti á ýmsa vegna stjórnarskrármálsins, ég mundi vilja lýsa vantrausti á Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, fyrir að beita sér gegn málinu, máli sem hann virðist ekki einu sinni vera vel inni í. Ég mundi líka vilja lýsa vantrausti á forseta þingsins fyrir að tryggja ekki að málið komist á dagskrá og setja umræðu um það skýr tímamörk. Ég væri líka til í að lýsa vantrausti á Framsóknarflokkinn sem hafði stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar en dvelur nú neðan jarðar með félaga Láka jarðálfi. Ég mundi líka vilja geta lýst vantrausti á þingmenn stjórnarflokkanna fyrir að þora ekki að leggja fram dagskrárbreytingartillögu eftir 71. gr. þingskapa til að klára umræðuna og málið.

Forseti. Það er bara ekki í boði, það er ekki spurt um það í dag. Ég styð því vantraust þótt mér finnist þessi ríkisstjórn ekki hafa neitt með stjórnarskrána að gera. Ég vantreysti ríkisstjórninni vegna annarra verka. Ég lýsi hins vegar vantrausti á þetta þing ef það getur ekki staðið við eigin ályktanir og skuldbindingar.[11:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er við svolítið sérstakar aðstæður sem við stöndum hér í dag, það er vegna vantrauststillögu hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst þessi umræða að mörgu leyti sérstök og það er af ýmsum ástæðum.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við í kjölfar hruns fjármálakerfisins blöstu við mjög hrikalegar afleiðingar hrunsins fyrir heimili, fyrirtæki og ríkissjóð. Við vissum þá þegar að ríkisstjórnin mundi ekki skora hátt í vinsældamælingum, til þess voru verkefnin einfaldlega of erfið og nauðsynlegar aðgerðir of sársaukafullar.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það tilefni sem valið er til vantrausts undrar mig vegna þess að það mál sem hér er valið hefur verið í höndum þingsins allan tímann. Það hefur verið unnið efnislega vel af þinginu, haft hefur verið víðtækt samráð við þjóðina, eins og farið hefur verið yfir, og ríkt samtal hefur átt sér stað um það hvernig stjórnarskrá við viljum sjá til lengri tíma. Hver hefur staðið fyrir því? Það hefur meiri hluti þingsins gert undir forustu stjórnarflokkanna. Við höfum staðið fyrir því. Þess vegna undrar mig að hv. þingmaður skuli núna fara í bandalag með þeim öflum sem harðast hafa barist gegn þessu máli á Alþingi og munu því miður með samþykkt þessarar tillögu í dag, ef af verður, ná fullnaðarsigri gegn nýrri stjórnarskrá. Það er sá leiðangur sem hv. þm. Þór Saari stendur fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við skulum hafa það algjörlega á hreinu.

Frú forseti. (ÞSa: Það eruð þið sem standið …) Ríkisstjórnin hefur stutt þetta mál (Gripið fram í.) með ráðum og dáð allt þetta kjörtímabil. (Gripið fram í.) Það sýna verkin. Ég verð að segja að það eina sem mun fást út úr þessu hér í dag, þar sem til þingkosninga hefur verið boðað eftir um sjö vikur, er að þegar greidd utankjörfundaratkvæði munu verða lýst ógild og kosningar hugsanlega færðar til um tvo, þrjá daga.

Virðulegi forseti. Fyrsta fórnarlambið vegna uppnáms þingstarfa verður líklega sjálf stjórnarskráin og þær tilraunir sem nú eru í gangi til að tryggja að áfram verði unnt að byggja á hinni miklu vinnu sem unnin hefur verið og því mikla samráði sem haft hefur verið við þjóðina í þessu máli og kom skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn. Sú leið sem verið er að móta um breytingar á einstökum greinum, t.d. nauðsynlegu auðlindaákvæði, og um áframhaldandi vinnu við málið nýtur mikils stuðnings fólks sem á sér fyrst og fremst þá ósk að við náum að ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það er því sárt að heyra um svikabrigsl í þessu samhengi þegar verið er að vinna úr fyrirliggjandi stöðu svo að sómi sé að.

Við megum heldur ekki gleyma mikilvægum málum sem brýnt er að þingið ræði og ljúki. Ég get nefnt breytingar á auðlindalögum þar sem stigið er skref til að vinda ofan af einkavæðingu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á grunnvatni landsins. Varla erum við hv. þm. Þór Saari ósammála um mikilvægi þess máls. Síðar á dagskrá í dag er frumvarp um breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna sem getur veitt allt að 100 milljörðum af nýju fjármagni inn í vaxandi íslensk fyrirtæki með tilheyrandi fjölgun starfa og jákvæðum áhrifum á vöxt. Ég get líka nefnt frumvarp um heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins, nýjan Landspítala við Hringbraut, stórfellda atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi, kjarabætur til handa námsmönnum og ný náttúruverndarlög. Mörg önnur brýn mál bíða og hér erum við að ræða um vantraust á ríkisstjórnina sjö vikum fyrir kosningar.

Frú forseti. Þetta er skrípaleikur. Við á Alþingi höfum nefnilega verk að vinna og þjóðin gerir eðlilega kröfur til okkar um vinnubrögð og árangur og undir því eigum við að standa.

Hér hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks viljað slíta þetta vantraust úr samhengi við stjórnarskrána sem málið er klárlega lagt fram í tilefni af. Þeir telja að ríkisstjórnin hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut á þessu kjörtímabili. Hér komu stórtíðindi hjá formanni Framsóknarflokksins um að skuldir hefðu hækkað á þessu kjörtímabili. Bíddu, förum aðeins yfir hvernig það er til komið.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við var fjárlagagatið og fjárlagahallinn 14,6% af landsframleiðslu. Þetta er fordæmalaus staða í íslensku samfélagi og ég vil meina fordæmalaus staða í vestrænu ríki. Á þessu hefur ríkisstjórnin þurft að vinna og á þessu ári höfum við náð þeim árangri að vera komin niður í 0,2% af landsframleiðslu. Þetta hefur verið verkefni núverandi ríkisstjórnar. Menn spyrja: Hvernig ætlið þið að fjölga störfum? Hvernig ætlið þið að styrkja fyrirtækin í landinu? — Með því að loka fjárlagagatinu. Það er hjartað í okkar efnahagsstefnu, án þess lyftum við ekki höftum, án þess verður ekki vöxtur í samfélagi okkar. Það er þess vegna sem ríkisstjórnin hefur tekið sársaukafullar ákvarðanir um niðurskurð og oft og tíðum erfiðar ákvarðanir um hækkanir á sköttum. Það er út af þessu verkefni. Þetta er hjartað og kjarninn í öllu og það mikilvægasta sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Við höfum náð að stöðva fordæmalausa skuldasöfnun sem hófst áður en þessi ríkisstjórn tók við.

Frú forseti. Það kom líka fram í máli hv. þingmanns og formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að fölsuð fjárlög væru hér ítrekað á ferð. Það er hugsanlega rétt. Fjárlögin fyrir árið 2012 voru fölsuð vegna þess að við skiluðum betri árangri en við var að búast í það heila. Ef menn fara yfir þetta af sanngirni sjá þeir það, þeir sjá sannleikann í því efni.

Þessi ríkisstjórn hefur lagt sig alla fram þetta kjörtímabil við að vinna á því fordæmalausa ástandi sem skapaðist hér eftir bóluhagkerfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Það getur vel verið að við getum deilt um einstaka leiðir í því efni en heildarárangurinn lætur ekki að sér hæða vegna þess að hann er raunverulegur. Ég hef farið yfir hann hér hvað varðar ríkisfjármálin.

Við höfum lagt í stórátök til þess að fjölga störfum á sviði ferðaþjónustu, menn eru fljótir að gleyma því. Við höfðum samhliða því ráðist í hörkuuppbyggingu á ferðamannastöðum til að geta tekið á móti ferðamönnum sem koma í gegnum þessa stóru, nýju, vaxandi undirstöðuatvinnugrein. Bara svo eitt dæmi sé nefnt. Við höfum líka komið auðlindum okkar í var með ýmsum lagabreytingum. Rammaáætlun lauk á þessu kjörtímabili o.s.frv.

Frú forseti. Ég gæti haldið hér lengi áfram og talið upp hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert, en einu get ég lofað og eitt get ég sagt á þessum tímapunkti: Við höfum lagt okkur öll fram og árangurinn er sá að við erum farin að hækka í lánshæfismati, við erum búin að loka hér fordæmalausu fjárlagagati, við erum búin að leggja undirstöðu að framtíð sem við getum byggt á.[11:54]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þó að æ fleirum sé að verða það ljóst að örendi þessarar ríkisstjórnar er fyrir löngu þrotið þá vil ég samt sem áður segja varðandi þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir að ég tel að hún sé sett fram á kolröngum forsendum. Það er einfaldlega fagnaðarefni og mjög mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn sé loksins búin að átta sig á því sem langflestum öðrum var auðvitað fyrir löngu orðið ljóst, að það var bæði óraunhæft og mjög óskynsamlegt að ætla sér að reyna að knýja fram heildarendurskoðun á stjórnarskránni með þeim hætti sem að var stefnt í upphafi. Þetta var ljóst á síðustu haustdögum þegar frumvarpið var lagt fram og menn sáu hversu vanbúið það var, hversu mjög vantaði upp á þá efnislegu vinnu sem þurfti að vinna til að hægt væri að endurskoða stjórnarskrána svo að fullur sómi væri að.

Á þeim tíma töluðum við sjálfstæðismenn fyrir því að við reyndum að einangra þessa vinnu við tiltekin efnisatriði, svo sem eins og auðlindaákvæðið og ýmislegt fleira sem við tefldum fram. Ekki var hlustað á það, þá var skollaeyrunum skellt við. Haldið var áfram eins og ekkert hefði í skorist og menn virtust ekki koma auga á það sem blasir nú við flestum og formenn stjórnarflokkanna hafa í raun og veru viðurkennt ásamt formanni Bjartrar framtíðar með þeim þingmálum sem lögð voru fram í síðustu viku varðandi efnismeðferð stjórnarskrármálsins. Einungis hæstv. forsætisráðherra kom skyndilega fram í ræðu áðan og sagði öllum að óvörum að hún teldi ekkert að vanbúnaði að leiða stjórnarskrármálið til lykta. Hvað er hæstv. forsætisráðherra að fara með þessu? Hæstv. forsætisráðherra er með þessum hætti beinlínis að vega að núverandi formanni Samfylkingarinnar og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hæstv. forsætisráðherra er að reyna að gera tilraun þeirra til að koma þessu máli upp úr því hjólfari sem það var komið í tortryggilega. Hæstv. forsætisráðherra er aftursætisbílstjórinn í þessum leiðangri.

Ég vil líka segja varðandi þessa tillögu að það sem lýtur að hugmyndum um að stofna ríkisstjórn allra flokka tel ég ákaflega óraunhæft. Þó að öllum sé ljóst að nánast hvaða ríkisstjórn sem maður gæti hugsað sér yrði betri en sú sem nú situr þá er alveg ljóst mál að ríkisstjórn sem sitja mun hér eftir til kosninga, hvort sem það verður núverandi ríkisstjórn eða önnur, verður eins og hver önnur starfsstjórn. Það blasir við öllum.

Erindi þessarar ríkisstjórnar er fyrir löngu þrotið. Örendi hennar er þrotið. Hún á ekkert erindi hvorki við þingið né þjóðina. Núna er einungis eitt eftir og það er að kasta rekunum. Hæstv. ríkisstjórn er núna búið spil. Það blasir við öllum. Það er svar þjóðarinnar eins og við tökum eftir hvarvetna sem við komum og hvarvetna sem við förum.

Síðustu tölur um hagvöxt á síðasta ári eru í raun og veru eins og löðrungur framan í hæstv. ríkisstjórn. Hvað er langt síðan hæstv. ráðherrar fóru að tala um að landið væri að rísa, við værum komin upp úr öldudalnum, við værum á réttri leið? Síðast birtust okkur tölur um að hagvöxtur hérna sé ríflega 1%. Hvað þýðir það? Það þýðir í raun og veru efnahagslegur samdráttur í þeim skilningi að með 1,6% hagvexti erum við ekki að skapa nægilega mörg störf til að svara eftirspurn þess fólks sem kemur árlega inn á vinnumarkaðinn. Þetta er ávísun á frekara atvinnuleysi. Þetta er ávísun á landflótta. Þetta er ávísun á léleg lífskjör. Hæstv. ríkisstjórn er í raun að skila af sér búinu með þeim hætti. Við lok þessa kjörtímabils blasir sem sagt við samdráttur, vaxandi verðbólga, ávísun á verri lífskjör, erfiðleika heimila og víða í atvinnulífinu eins og við vitum.

Það syrtir líka í álinn jafnvel þar sem betur hefur gengið. Við sjáum það á lækkandi afurðaverði í sjávarútvegi. Við þær aðstæður þurfum við að leggja okkur fram um það að knýja fram breytta atvinnustefnu, ekki þann doða og deyfð sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið talsmaður fyrir.

Ef við snúum okkur síðan að skuldavanda heimilanna sem mjög er umræddur þá hefur hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir greinilega ákveðið að skila þar auðu. Þegar stjórnarliðar eru spurðir hvað eigi að gera, hvernig eigi að bregðast við þeim vanda sem sannarlega er til staðar á allt of mörgum heimilum í landinu er því svarað með því að segja: Þetta gerðum við. Þeir vísa til fortíðarinnar þegar fólk spyr um hvað eigi að gera í framtíðinni. Það er kannski tímanna tákn og lýsandi um tómlæti og áhugaleysi hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokka í þessu máli að árið 2011 og árið 2012 voru sérstakir fjármunir veittir á fjárlögum til þess að greina skuldavanda heimilanna en áhugaleysi hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna á þessu var slíkt að þeir kusu að nýta ekki þessa fjármuni. Þeir töldu ekki þörf á því. Þeir töldu enga nauðsyn á því að slík greining færi fram til þess að leggja grunn að því sem gera ætti varðandi skuldamál heimilanna.

Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar lagt fram okkar eigin tillögur, raunhæfar tillögur, framkvæmanlegar tillögur sem munu skila 20% lækkun á höfuðstól lána án þess að verið sé að raska grundvelli ríkisfjármálanna í landinu. Við gerum ráð fyrir því að afborganir af lánum upp að ákveðinni upphæð verði frádráttarbærar frá skatti. Við gerum ráð fyrir því að greiða megi það framlag sem nú er greitt inn í séreignarlífeyrissparnað, bæði atvinnurekandaframlagið og einstaklingsframlagið, inn á höfuðstól lána. Afleiðingarnar og áhrifin verða þau sem ég er að segja, allt að 20% lækkun á höfuðstól lána. Það er heilmikill árangur. En það er auðvitað ekki þetta eitt sem dugir við þessar aðstæður.

Í þeirri stöðnun sem ríkir í landinu og birtist okkur í hagvaxtartölum síðasta árs, sem gefa líka til kynna að ekki verði viðsnúningur á þessu ári, þurfum við umfram allt að auka umsvifin. Þar eru mjög mikil tækifæri í okkar góða landi. Mikil tækifæri eru í atvinnulífi okkar sem hefur alla burði til þess, ef það fær rekstrarlegt umhverfi að láta það af sér leiða að auka hér þjóðarframleiðsluna, stækka það sem við höfum til skiptanna og efla þannig og bæta lífskjörin í landinu og skapa störf fyrir þær þúsundir sem koma inn á atvinnumarkaðinn á næstu árum, ungt, dugmikið og vinnufúst fólk sem þarf auðvitað að fá viðspyrnu sinna krafta. Þar þurfum við í fyrsta lagi að afnema þá óvissu sem ríkt hefur í sjávarútveginum sem blasir við öllum og hefur þegar haft mjög neikvæð áhrif. Við þurfum að halda áfram eðlilegri uppbyggingu á sviði stóriðju í góðri sátt við náttúru landsins. Við þurfum að einfalda tolla- og vörugjaldafrumskóginn sem beinir verslun úr landi í vaxandi mæli og störfum þar með. Við þurfum að hverfa frá þeirri skattpíningarstefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og hyggst koma á varðandi ferðaþjónustuna. Við eigum að reyna að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til að mynda í matvælaframleiðslu hér á landi, þar með talið íslenskum landbúnaði sem á sér mikla vaxtarmöguleika ef vel er á spöðunum haldið.

Það verður ekki gert með hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur þegar sýnt á sín spil, við vitum hvað við höfum þar og þess vegna hljótum við að styðja vantrauststillögu þrátt fyrir að hún sé svo vanbúin sem um ræðir vegna þess að nú erum við að ræða vantraust á þessa ríkisstjórn og það er hún sem málið snýst um.[12:03]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Grundvöllur þeirrar tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem hér liggur fyrir byggist á óánægju flutningsmanns með framgang þeirrar vinnu sem unnin hefur verið að nýrri stjórnarskrá í þinginu. Hún er borin fram í þeirri trú að tillögur til nýrra stjórnarskipunarlaga muni ekki ná fram að ganga að neinu leyti á yfirstandandi þingi. Í henni felst sú fullyrðing að stjórnarþingmenn muni ekki eða vilji ekki gera þær breytingar á stjórnarskránni sem kallað hefur verið eftir og lagt hefur verið upp með.

Tillagan er yfirlýsing flutningsmanns hennar og stuðningsmanna um að betra sé að slá af allar hugmyndir um nýja og betri stjórnarskrá en reyna til þrautar að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þingsins í þeim efnum. Tillagan felur í sér að ekki verði gerðar breytingar á stjórnarskrá Íslands í þá veru sem lagt hefur verið til að gerðar verði, hvorki nú né í nánustu framtíð.

Að þessu sinni er vantraustsvopninu hins vegar beitt í ranga átt og af þeim sem síst skyldi. Hér er hlutunum snúið á hvolf og lagt til að þeim sem harðast hafa barist fyrir því að þjóðin fái á endanum að setja sér nýja stjórnarskrá verði vikið frá og þeir sviptir umboði sínu til að leiða málið til lykta. Það sem þó verra er og umhugsunarverðara er að um leið og það gerist verður hörðustu andstæðingum allra breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins, þeim hinu sömu sem ávallt og alla tíð hafa reynt að koma í veg fyrir breytingar ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, falið allt vald í því máli sem hér um ræðir, þ.e. um breytingar á stjórnarskránni.

Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár gleðjast skiljanlega yfir vantrauststillögu líkt og þeirri sem hér um ræðir sem þeir sjálfir höfðu þó ekki burði í sér til að flytja. Með því að samþykkja tillöguna eygja þeir líka von um að geta endanlega og fyrir fullt og fast slegið allar hugmyndir af um breytingar á stjórnarskránni. Það yrði hins vegar í hrópandi andstöðu við vilja flutningsmanns tillögunnar og þvert á hug hans gagnvart málinu eins og hann hefur birst okkur í þinginu í umræðu um málið. Þar hefur hv. þm. Þór Saari ekki legið á liði sínu við að þoka málinu áfram með rökföstum, einbeittum og heilsteyptum málflutningi sínum gegn þeim sem vilja með öllum ráðum stöðva það. Þannig vinnast einmitt stór mál; með þrautseigju og dugnaði þeirra sem að þeim standa og eru tilbúnir til að fylgja þeim til enda. Það er því ekki hægt með nokkru móti að efast um vilja þingmannsins um nauðsyn þess að leggja tillögur að nýrri stjórnarskrá til endanlegrar afgreiðslu hjá þjóðinni sjálfri sem mun þá ráða örlögum sínum í þeim efnum eins og vera ber.

Samt liggur hér fyrir tillaga sem gerir drauminn um nýja stjórnarskrá að engu verði hún samþykkt, líkt og flutningsmaður hennar hv. þm. Þór Saari leggur til að verði gert. Tillagan er ekki aðeins vantraust á ríkisstjórn Íslands. Hún er vantraust á alla þá góðu vinnu sem þúsundir Íslendinga hafa lagt af mörkum við að semja nýja stjórnarskrá. Verði tillagan samþykkt mun stóra lýðræðistilraunin á Íslandi þar sem heil þjóð, óháð stjórnmálaskoðunum, alls staðar úr samfélaginu um landið þvert og endilangt, frá sveit til sjávar, lagði fram sína eigin tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir landið sitt. Allir þjóðfundirnir eru þá farnir fyrir lítið. Frábært og óeigingjarnt starf stjórnlagaráðs hefur þá til einskis verið unnið og vilji kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni að engu gerður. Það væri sömuleiðis þvert gegn vilja Þórs Saaris eins og ég skil hann og þvert gegn vilja stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar að koma ríkisstjórninni frá með þeirri tillögu sem við ræðum hér.

Í öllum atkvæðagreiðslum munu einhverjir fá vilja sínum framgengt á meðan aðrir þurfa að sætta sig við niðurstöðu sem er ekki þeim eins að skapi. Þannig er það alltaf og þannig virkar lýðræðið. Það sama á við um þá atkvæðagreiðslu sem fram fer á eftir um þessa tillögu. Við vitum hverjir munu gleðjast yfir því ef þeim hefur tekist að koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og fagna sigri ef þannig fer. Við hin sem erum að leggja okkur fram um að svo fari ekki og ný stjórnarskrá verði að endanum að veruleika verðum þá hins vegar væntanlega heldur lúpuleg og framlág. Við verðum þá saman í tapliðinu, ég og hv. þm. Þór Saari.

Það yrðu gríðarleg mistök að stöðva stjórnarskrármálið í atkvæðagreiðslu hér á eftir. Það fylgir því mikil ábyrgð að kasta þessu máli öllu frá sér þegar endaspretturinn einn er eftir. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á því.

Ég vil ljúka þessu máli, ég vil leiða það til lykta eins og best verður á kosið og fela þjóðinni síðan að endingu að gera upp hug sinn um nýja stjórnarskrá. Þjóðin á það svo sannarlega skilið eftir allt það sem á undan er gengið.[12:08]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Strax eftir banka- og efnahagshrunið haustið 2008 var ljóst að brýn þörf væri að taka til margvíslegra aðgerða og taka margar erfiðar og róttækar ákvarðanir. Ein sú helsta sneri að skuldum heimila og fyrirtækja, en þann kjark hafði ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ekki. Önnur sneri að uppbyggingu atvinnulífsins. Það er þekkt úr hagsögunni að eftir efnahagshrun skapast aðstæður til sóknar í hagvexti og uppbyggingu atvinnulífs. Á Íslandi voru og eru aðstæður til vaxtar sérstaklega góðar. Tækifæri til atvinnusköpunar eru óendanleg — nánast. Við eigum miklar auðlindir sem við erum góð í að nýta og höfum sýnt á liðnum árum að við gerum bæði á sjálfbæran og skynsamlegan hátt þjóðinni til heilla. Við eigum mannauð og mikla þekkingu til að skapa fjölbreytni í atvinnulífi sem við framsóknarmenn höfum svo sannarlega staðið fyrir í gegnum áratugina.

Við framsóknarmenn höfum talað allt kjörtímabilið fyrir því að nýta þau tækifæri. Við höfum trú á landi og þjóð. Þess vegna höfum við meðal annars lagt fram þingsályktunartillögu um sókn í atvinnumálum á þremur undangengnum þingum án þess að ríkisstjórnarflokkarnir, meiri hlutinn í þinginu, hafi tekið hana á dagskrá. Í þeirri þingsályktunartillögu er meðal annars tekið á uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs með það að markmiði að gefa öllum vinnufúsum höndum verkefni við hæfi. Við framsóknarmenn viljum úthýsa atvinnuleysi úr samfélagi okkar.

En hvernig hefur ríkisstjórn VG og Samfylkingar, stundum með stuðningi þingmanna Hreyfingarinnar en oftast með stuðningi þingmanna sem kenna sig við Bjarta framtíð, staðið sig í atvinnumálunum? Pólitísk rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var keyrð í gegnum þingið í janúar. Stöðnun hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar allt þetta kjörtímabil sem nú er að ljúka og það sem verra er, með þessari samþykkt verður stöðnun út þetta ár í þessari mikilvægu atvinnugrein. Við framsóknarmenn munum, ef við fáum umboð til, taka rammaáætlun upp og byggja á niðurstöðu vísindamanna og fagnefnda.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lagt fram breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga og sett á ósanngjörn og óhófleg veiðigjöld með þeim afleiðingum að fjölmörg minni fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi hafa orðið gjaldþrota eða valið að selja sig út úr greininni eða eru að velta því fyrir sér. Þjóðhagslegur ávinningur verður sífellt minni og minni ef farin er sú leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til. Við framsóknarmenn viljum setjast niður, í samráði allra aðila, að reyna að ná sem víðtækastri sátt um sjávarútveginn byggða á þeim grunni sem er kerfið sem við höfum í dag og lagfæra þá agnúa sem á því eru. Þar viljum við sérstaklega ýta undir nýsköpun í greininni. Tækifærin þar eru gríðarleg.

Þannig má nefna fjölmargar aðrar atvinnugreinar og hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við þær, til að mynda ferðaþjónustuna. Þar hafa verið gerðar skyndilegar skattbreytingar og skattahækkanir með engum fyrirvara og án samráðs við greinina. Við framsóknarmenn viljum einfalda regluverk og einfalda skattkerfið og vera jákvæð. Já, við viljum vera jákvæð gagnvart atvinnuuppbyggingu í öllum atvinnugeirum samfélagsins.

Staðreyndin er sú að eftir hrunið hrundi fjárfesting í landinu niður í 12–13% af landsframleiðslu. Sú spá sem liggur nú fyrir er að hér verði um 16% fjárfesting miðað við landsframleiðslu ef þær framkvæmdir fara af stað sem gert er ráð fyrir í málum sem eru hér inni í þinginu í augnablikinu. Á sama tíma hafa aðilar vinnumarkaðarins, hvort sem eru launþegahreyfingar eða atvinnurekendur, bent á að fjárfestingin þurfi að vera yfir 20% til að við komumst út úr þessu ástandi, getum staðið við skuldir okkur og byggt upp atvinnu handa öllum þeim sem það vilja.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa misst trú á ríkisstjórninni. Þar er ekkert traust. Slík ríkisstjórn hefði auðvitað átt að fara frá fyrir löngu. Við framsóknarmenn ætlum að byggja upp, fáum við umboð til þess eftir kosningar. Eitt skrefið er að þessi ríkisstjórn fari frá og þess vegna mun ég styðja þá vantrauststillögu sem hér liggur fyrir.[12:13]
Jón Bjarnason (U):

Virðulegi forseti. Þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við blöstu við gríðarleg verkefni, gríðarleg vandamál en líka miklir möguleikar, miklir möguleikar til sóknar, til að forgangsraða með nýjum hætti á grundvelli nýrra gilda í samfélaginu, forgangsraða í þágu velferðar, í þágu grunnatvinnugreinanna, í þágu jöfnuðar. Þessi tækifæri áttum við.

Vissulega hefur í einstökum atriðum náðst árangur en ógæfa þessarar ríkisstjórnar var í upphafi sú að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hleypa þar með stórvandamáli inn í íslenskt samfélag, skipta þjóðinni upp í því stóra máli sem átti ekkert erindi til þjóðarinnar á þeim tímapunkti, fjarri því og reyndar aldrei.

Þá var líka farið í þá vegferð að reyna að breyta stjórnarskránni. Það var ekki stjórnarskránni að kenna að hrunið varð hér. Því miður beygði meiri hluti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sig undir kröfu Samfylkingarinnar um að senda inn umsókn að Evrópusambandinu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vann stórsigur í alþingiskosningunum 2009. Á grundvelli heilbrigðra gilda og loforða ákvað flokkurinn samkvæmt stefnu sinni að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Þegar sú umsókn var síðan send, studd þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var verið að ganga á bak stefnu flokksins. Flokkurinn Vinstri hreyfingin – grænt framboð var jú stofnaður til að berjast gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Að mínu mati voru þetta hrein svik við grunngildi flokksins og þá kosningabaráttu sem hann bar uppi og vann sinn stórsigur út á.

Það var engin ástæða til að láta undan þessari eins máls kröfu Samfylkingarinnar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin var nýkomin út úr hrunstjórninni með Sjálfstæðisflokknum, nokkuð sem hún gleymir stundum. Forsætisráðherra sat í ríkisfjármálanefnd í hruninu en kemur hér eins og hún hafi aldrei komið þar nærri. Það finnst mér ekki heiðarlegt reyndar eins og fleira sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið fyrir (Gripið fram í.) og ég ætla ekki að fara að rekja verkstjórnarleysi hennar hér. Hæstv. utanríkisráðherra hefur alltaf verið því fylgjandi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og verið hreinn í því þó svo hann hafi þar vonandi aldrei erindi sem erfiði.

Það sem við erum að ræða hér um (Utanrrh.: Bíddu bara.) að endurskoða stjórnarskrána þá vil ég segja að það er gott að verið sé að endurskoða einstaka þætti hennar. En það að tefla áfram fullveldi þjóðarinnar í hættu finnst mér hið alvarlegasta mál. Það átti aðeins að kíkja í pakkann. Þegar umsóknin var send var sagt að hún ætti að taka bara eitt ár, kannski tvö ár, þrjú ár og þá ætti að vera komin niðurstaða. Síðan voru það fjögur ár og að minnsta kosti fyrir kosningar. Öll þessi loforð og allar þessar yfirlýsingar þeirra sem í raun voru að svíkja kjósendur sína hafa ekki staðist.

Nú tekur steininn úr þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkir á landsfundi sínum, flokkurinn sem var stofnaður gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu, að halda áfram aðlögunar- og aðildarviðræðum að Evrópusambandinu yfir á næsta kjörtímabil og verja til þess milljörðum kr. Hvað ætli þeir sem bíða eftir úrlausnum í skuldamálum heimilanna, kjörum heilbrigðisstarfsfólks, segi við því og þeirri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að það skuli vera Evrópusambandsumsóknin sem skuli taka til sín áfram (Gripið fram í: … til þjóðarinnar.) orku þingmanna og vonandi utanríkisráðherra sem lætur af störfum eigi síðar en eftir kosningar? (Utanrrh.: Þú vilt mig áfram.)

Frú forseti. Þarna skilur á milli. Ég segi að ef það yrði til þess að umsóknin að Evrópusambandinu yrði dregin til baka á morgun þá mætti þessi ríkisstjórn fara frá.[12:18]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að vantraustið er til komið vegna þess að ríkisstjórnin er að stíga slíkt óheillaskref að það má ekki gefa henni færi á því án kröftugrar viðspyrnu. Hún ætlar sér að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna undir forustu allra formanna á þinginu.

Ábyrgð forseta Alþingis er líka mikil, forseti hefur ítrekað beinlínis staðið í vegi fyrir því að stjórnarskráin komist á dagskrá. Ég lýsi því vantrausti á forseta Alþingis, á formann Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason, og á Alþingi eins og það leggur sig fyrir að hafa ekki dug í sér til að virða þjóðarvilja sem það sjálft kallaði eftir með þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Þetta er fyrsta stjórnarskráin okkar þar sem okkur öllum var boðið að taka þátt. Þetta ferli hefur fengið ítarlega umfjöllun og við gagnrýni var brugðist í þeirri útgáfu sem nú liggur fyrir á þinginu og verið er að setja í tætara gleymskunnar. Svona tækifæri mun ekki bjóðast aftur nema fólk skilji að þessi svik fjórflokksins eru síendurtekið stef sem mun aldrei breytast nema með samstilltu átaki til að taka gerræðisleg völdin af valdhöfum. Ég hélt að það væri hægt með þessari nýju stjórnarskrá að stíga hænufet í átt að þeim stjórnarháttum sem þessi nýja öld kallar eftir. Allt það sem átti að ráða bót á með nýrri stjórnarskrá, persónukjör, auðlindir til þjóðar, nýtt kosningakerfi, upplýsingaréttur 21. aldar, réttur almennings til að leggja fram frumvörp, kalla til þjóðaratkvæðagreiðslna, lýðræðislegar breytingar á stjórnarskrá, allt þetta mun nú hverfa vegna þess að meiri hluti þingsins hefur ekki dug til að láta stjórnarskrána í lýðræðislegt ferli og gefa okkur kost á að greiða atkvæði um málið.

Gleymum því ekki að það verður aldrei hægt að semja við Sjálfstæðisflokkinn um málið. Þar á bæ finnst valdhöfum að þjóðin eigi ekki að skrifa nýja stjórnarskrá heldur þeir og þeirra sérfræðingar.

Valdhafar Framsóknarflokksins eru sama sinnis, þeir vilja krukka í málið að eigin geðþótta.

En verst finnst mér að sjá kempurnar sem hafa staðið með nýrri stjórnarskrá innan stjórnarflokkanna falla í duftið og lúta vilja foringja sinna.

Gleymum svo ekki foringja Bjartrar framtíðar sem finnst óréttlátt gagnvart þeim þingmönnum sem verða nýir á næsta þingi að binda hendur þeirra með þessu plaggi, foringja sem lofar, samkvæmt öruggum heimildum, að verja ríkisstjórnina vantrausti ef tillaga hans um tárvota hvarma á 70 ára afmæli lýðveldisins og þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá 2014 verður hluti af hrossakaupasamkomulagi og sáttaplaggi foringja stjórnmálaflokkanna.

Stór spurning sem vert er að huga að er: Hvaða stjórnarskrá verður það ef af þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verður? Ekkert í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir á þinginu eða frumvarpinu tryggir að næsta þing verði að virða þjóðaratkvæðagreiðsluna frá 20. október 2012. Þetta ferli er skammarlegt og langt í frá raunsætt. Það er bara til eitt hugtak yfir það: Alger uppgjöf. (Gripið fram í.) Hvers vegna er það svo þegar við fáum loksins stjórnarskrána inn í þingið fullbúna og búið að koma til móts við gagnrýni fræðimanna? Því ber auðvitað að halda til haga að í ferlinu höfðu allir þeir sem gagnrýndu það tækifæri til að taka þátt. Hvers vegna getum við ekki staðið í lappirnar og afgreitt málið? Er það vegna þess að við óttumst að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn taki þingið í gíslingu? Ef svo er, eins og hefur reyndar gerst áður með stjórnarskrárbreytingar, er ljóst að við verðum að beita 71. gr. þingskapa. Það er bara þannig og það er engin skömm að því þegar reynt er að taka fram fyrir hendurnar á þinginu sem er að gera það sem því ber að gera, að virða þjóðaratkvæðagreiðslu sem við sjálf kölluðum eftir og boðuðum til. Það er bara svo einfalt. Ég ætla ekki að trúa því að Alþingi ætli að hunsa vilja þjóðaratkvæðagreiðslu og það á alveg jafnt við minni hlutann og meiri hlutann, það er bara þannig.

Það var boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu og okkur ber að virða niðurstöðuna. Við báðum um að fá þessar tillögur frá stjórnlagaráði. Við báðum um að unnið yrði upp úr því sem kom út úr þjóðfundinum og við verðum að virða þetta. Enginn þingmaður og ekki nokkur maður er með nákvæmlega þá stjórnarskrá sem hann vill. Allir vilja breyta einhverjum atriðum í henni en þetta er niðurstaðan sem stjórnlagaráð náði í sameiningu, fólkið sem við báðum um að setja saman það plagg sem liggur nú fyrir þinginu. Það er búið að laga alla tæknilega vankanta, það eina sem þarf er að þingið virði þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Ef við getum ekki komið þessu í gegnum þingið verður að leysa þetta þing upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)[12:25]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst ákaflega dapurlegt að það skuli vera hlutskipti hv. þm. Þórs Saaris, sem hér hefur verið kappsfyllstur stríðsmanna fyrir nýrri stjórnarskrá, að bera upp vantraust gegn ríkisstjórn sem ég held að sé óhætt að segja að hafi verið dyggasti stuðningsmaður hans og Hreyfingarinnar í því að ná stjórnarskránni í gegn. Við höfum gert allt það sem hægt er til þess. Andspænis því sem ekki er hægt að kalla annað en grímulaust ofbeldi, af hálfu Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst, hafa menn íhugað að fara þá leið að reyna að koma þessu máli áfram til að vernda þá vinnu sem unnin hefur verið yfir á annað kjörtímabil til að hægt sé að halda áfram að reyna að ná fram þeirri stjórnarskrá sem fólkið svo sannarlega á skilið. Ég tel hins vegar þetta feigðarflan hv. þm. Þórs Saaris vísasta veginn til þess að koma í veg fyrir að um síðir munum við sjá nýja stjórnarskrá verða til á þessum grunni.

Við vitum alveg hvað er að gerast. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem, eins og alltaf áður þegar stjórnarskrá hefur komið til umræðu í þessum sölum, berst með kjafti og klóm til þess að verja hagsmuni stórútgerðarinnar til þess að koma í veg fyrir að í stjórnarskrá verði sett ákvæði um þjóðareign á auðlindunum. (Gripið fram í.) Það gerir það að verkum að þingið er í gíslingu málþófsmanna. Það verður þó að segjast hv. þingmönnum Framsóknarflokksins til hróss að þeir hafa eigi að síður stigið skref til sátta um þetta atriði sem mér finnst það mikilvægasta í stjórnarskránni, þ.e. að nýju auðlindaákvæði. Það er það sem mér finnst í þessu máli skipta öllu að við náum einhvers konar samstöðu um.

Frú forseti. Jafnvel þó að mér þyki hv. þm. Þór Saari hafa fallið í díkin verð ég að segja að ömurlegast af öllu finnst mér eigi að síður vera virkur stuðningur formanna tveggja stjórnmálaflokka við þá vantrauststillögu sem Þór Saari hefur flutt. Það er líklega það sérkennilegasta sem ég hef nokkru sinni á ævi minni, sem ég hef eytt að stórum hluta í sölum Alþingis, orðið vitni að. Og nú tek ég alveg skýrt fram að ég geri í sjálfu sér ekki nokkrar athugasemdir við það að menn leggi fram vantraust á ríkisstjórn og heyi málefnalegu baráttu á grundvelli meintra ágalla ríkisstjórnarinnar og eigin stefnu. Það er hins vegar ekki það sem þessir tveir hv. herramenn gera.

Það sem er sérkennilegt við þá er að þeir breiða yfir nafn og númer, þeir þora ekki að koma hreint til dyranna og þeir leggja ekki fram vantraust í eigin nafni heldur kjósa að fela sig á bak við hið breiða bak hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst það nokkuð broslegt að þessir flokkar sem ganga hér reigðir um sali og telja að þeir séu um það bil að erfa landið og vinna kosningar byrja þá sigurför sína undir forustu hv. þm. Þórs Saaris.

Frú forseti. Kannski hefði ég ekki átt að nota orðið broslegt heldur grátbroslegt í ljósi þess að enginn þingmaður hefur með jafnvafningalausum hætti látið klóru sína rakast um bak og herðablöð þessara tveggja hv. þingmanna og hv. þm. Þór Saari.

Af því að fyrir framan mig situr formaður þingflokks sjálfstæðismanna, hv. þm. Illugi Gunnarsson, verð ég að segja að dapurlegast er hlutskipti Sjálfstæðisflokksins. Eru menn búnir að gleyma landsdómsmálinu? Ég er ekki búinn að gleyma því. Það var mér þungbært og erfitt og er það enn. Ég sá formann Sjálfstæðisflokksins vikna í landsfundarræðu sinni á síðasta ári þegar hann ræddi herförina, réttilega svo nefnda, sem gerð var á hendur föllnum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hver valdi þeim ágæta manni hæðilegustu pólitísku köpuryrðin sem íslensk tunga á að geyma? Það var hv. þm. Þór Saari og það er ekki lengra síðan en í gær sem sá ágæti hv. þingmaður fór nöturlegum orðum um fallinn foringja Sjálfstæðisflokksins.

Í dag, sólarhring síðar, gerist það að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bregður á það prinsipplausa ráð að gerast málaliði hv. þm. Þórs Saaris í herleiðangri hans á hendur ríkisstjórninni. Það eru ill örlög. Menn með réttlæti og sómatilfinningu gráta ekki örlög fórnarlamba slíkra manna einn daginn og slást svo í för með þeim sem málaliðar í næsta stríði. Mér finnst ótrúlegt að horfa upp á þetta af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ótrúlegt prinsippleysi af forustu þeirra að þora ekki að heyja þessa vantraustsumræðu á eigin grundvelli, á grundvelli eigin stefnu, heldur fela sig á bak við hv. þm. Þór Saari.

Þessi hentistefna er svo undirstrikuð af því að andlag vantrauststillögunnar er sú skoðun hv. þm. Þórs Saaris að stjórnarliðar gangi ekki nógu hart fram í að keyra í gegn frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn, nota bene, er harðastur allra á móti. Það er það skrýtnasta við þessa tragikómedíu. Í reynd eru þeir að lýsa vantrausti á ríkisstjórn fyrir að brjóta ekki með valdi á bak aftur þeirra eigið málþóf og taka með ofbeldi gegnum þingið mál sem þeir eru á móti. Ef þetta er ekki Íslandsmet í prinsippleysi hlýtur það að minnsta kosti að vera Reykjavíkurmet.

Frú forseti. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa í þessum umræðum ausið svartagalli úr öllum sínum keröldum yfir þjóðina og sjá ekki neitt jákvætt sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Það verður þó varla af henni tekið að hún hefur mokað mikið úr flórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig þegar 18 ára stjórnartíð hans lauk með afleiðingum sem munu standa hátt í Íslandssögunni næstu þúsund árin. Það sem er hlálegast við það allt saman er að enginn hefur lýst því jafnskilmerkilega og einmitt sá maður sem þeir lúta í dag, hinn nýi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, sem aftur og aftur hefur bent á það hversu algjörlega skýrt það kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að fyrst og fremst ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins settu af stað atburðarás sem segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að ekki hafi verið hægt vinda ofan af þegar kom fram um mitt ár 2006. Þessum manni, sem er búinn að fleiðra þá upp um herðablöð, niðurlægja, skamma og lítillækka, lúta þeir nú í dag. Þeir eru svo deigir að þeir hafa ekki einu sinni kjark til að koma fram undir eigin nafni og númeri til þess að heyja sitt stríð um vantraust á ríkisstjórnina. Það eru kjarklitlir stjórnmálamenn.[12:32]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Skiptir máli hvaðan gott kemur? Mér var kennt það á sínum tíma að góð hugmynd ætti ekki að gjalda þess hvaðan hún kæmi, sérstaklega ekki ef hugmyndin gæti hjálpað fólki til skemmri og lengri tíma, ég tala nú ekki um samfélaginu sem slíku. Núna snertir þessi hugmynd það að við getum fengið að segja álit okkar á ríkisstjórninni. Ég hef verið spurð að því á síðustu dögum: Af hverju að koma ríkisstjórninni frá þegar stutt er til kosninga? Þetta er eðlileg spurning og fyrir okkur sem hefur verið falinn einn mikilvægasti lykillinn í hverju lýðræðissamfélagi, þ.e. að greiða atkvæði á elstu löggjafarsamkomu í heimi, er bæði rétt og hollt að staldra aðeins við.

Af hverju já við vantrausti?

Ég verð ekki í framboði fyrir næstu kosningar en ég fer víða og ég nýt þess gjarnan. Það dásamlega við starfið okkar, eins og alltaf, er hversu marga maður hittir. Maður hittir alls konar fólk í alls konar störfum með alls konar skoðanir og alls konar viðhorf, en skilaboðin um ríkisstjórnina eru ekki alls konar. Þau eru mjög einsleit og skýr, þau að ríkisstjórnin verði að fara, helst strax en að minnsta kosti eftir kosningar. Í dag er einmitt tækifærið fyrir okkur á þingi að segja álit okkar á þessari vinstri ríkisstjórn. Við skulum átta okkur á því að tíminn er dýrmætur. Sumir segja að hann sé það dýrmætasta af öllu því að hann kemur aldrei aftur og það verðum við líka að hafa í huga við atkvæðagreiðsluna á eftir.

Það er mikilvægt fyrir hvert okkar sem er þeirrar skoðunar að þessi erindislausa ríkisstjórn sé ómöguleg og eigi að fara að nota þau tækifæri sem gefast til að koma ríkisstjórninni frá hið fyrsta. Hver dagur er dýrmætur, ekki síst ef það verður til þess að minnka líkurnar á því, og það skiptir máli, að þessi ríkisstjórn lifi af kosningarnar sjálfar í apríl. Reyndar veit ég ekki hvað aðrir flokkar ætla að gera en ég ætla að leyfa mér að vona og fullyrða að við sjálfstæðismenn munum ekki verja þessa tvo flokka, hvorki fyrir né eftir kosningar, með nokkru móti því að við verðum að hefja uppbyggingartímabil að loknum kosningum. Þess vegna þarf að nýta þetta tækifæri og eyða öllum möguleikum á því að núverandi ríkisstjórn verði áfram. Hvert okkar á að gera það út frá því sjónarhorni að það er þjóðhagslega hagkvæmt, mikilvægt og brýnt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að forða þjóðinni frá þessari stjórn sem í einhverju ímyndarbrjálæði vildi á sínum tíma kalla sig norræna velferðarstjórn. Eftir á að hyggja er það ein skrýtnasta nafngiftin og líklega ein mesta móðgun sem við höfum sent vinaþjóðum okkar á síðari árum.

Og svo kenndi þessi stjórn sig við jafnrétti. Munið, það eru þrír dagar síðan baráttudagur kvenna var og þessi stjórn kenndi sig við jafnrétti. Innihaldslausar klisjur á klisjur ofan. Orð eru nefnilega stundum bara orð hjá sumum, orð á blaði, fín í ræður en aldrei nógu góð í efndir.

Rifjum aðeins upp söguna. Í fyrsta lagi var kynjuð hagstjórn, mjög merkileg tilraun í rauninni en samt var hún kynnt til sögunnar í sama fjárlagafrumvarpi og mesti niðurskurðurinn beindist að konum og kvennastörfum, ekki síst úti á landi. Það var kynjaða hagstjórnin hjá ríkisstjórninni.

Í öðru lagi var fæðingarorlofið, atlaga eftir atlögu að fæðingarorlofinu sem er eitt mesta jafnréttistækið á síðari tímum. Í því efni höfum við sérstaklega verið fyrirmynd annarra þjóða og ríkisstjórnin hjó í sinni forgangsröðun beint í fæðingarorlofið aftur og aftur.

Síðan er í þriðja lagi launamisrétti kynjanna. Átti það ekki að minnka strax við það eitt að þessi ríkisstjórn kallaði sig jafnréttisstjórn? Ó, nei, launamisrétti kynjanna jókst, ekki bara á einkamarkaði heldur líka hjá hinu opinbera, og það undir hinni hreinu og fallegu jafnréttisstjórn til vinstri. Ég spyr: Hvar eru allir álitsgjafarnir sem vilja tjá sig um þetta mál? Ef menn ætla að segja núna að þetta hafi verið svo svakalega vel gert á fjórum árum vil ég sérstaklega benda á Reykjanesbæ þar sem atvinnuleysið hefur verið 9% en samt hefur Reykjanesbæ tekist, undir forustu sjálfstæðismanna, að útrýma kynbundnum launamun. Það er hægt og þeir sem búa í Reykjanesbæ á Suðurnesjum taka þá hluti alvarlega að orðum verði að fylgja efndir.

Síðan er í fjórða lagi ekki hægt að láta hjá líða að nefna jafnréttisbrotið hjá þessari ríkisstjórn. Ég held að það sé met hversu margir ráðherrar hafi brotið jafnréttislögin. Það er met að við höfum núna fyrsta forsætisráðherra landsins sem hefur brotið jafnréttislög. Það er sama manneskja og barðist sérstaklega fyrir því að álit kærunefndar jafnréttismála yrðu bindandi — bara ekki fyrir hana.

Svona er þessi ríkisstjórn og þess vegna eigum við að nota öll okkar tækifæri til að segja álit okkar á henni.

Ég minntist á Suðurnesin þar sem menn kalla ekki allt ömmu sína. Þótt ég sé stolt af því að geta kallað einmitt ömmu mína og afa, langömmu og langafa, inn á þetta svæði er ríkisstjórnin ekki á sama máli. Þessi norræna ríkisstjórn efndi til mikils glansfundar, þið munið, þar sem hún greindi meðal annars frá uppbyggingu herminjasafns sem ætti að skapa ósköpin öll af störfum, hugsanlega eitt til tvö stöðugildi, og gera þannig alveg fullt, alveg glás fyrir Suðurnesjamenn þar sem atvinnuleysið er 9%. Á þá sjálfa má ekki hlusta, líf þeirra má bara vera svona, hugsanlega út af nálægð við höfuðborgina, og svo þrammar atvinnuvegaráðherra hér inn með frumvarp á síðustu metrum þingsins sem felur í sér ívilnanir fyrir atvinnustarfsemi á Norðurlandi, í hans kjördæmi. Fínasta mál, en hann segir síðan: Þetta mál er bara einnota.

Það er bara einnota og önnur svæði mega ekki líta á þetta mál sem fyrirmynd, allra síst Suðurnesin. Það er ekki bara verið að trampa og troða á Suðurnesjunum heldur er verið að snúa hnífnum í sárinu og stútfylla það af salti. Og ég segi: Verði þeim að góðu, oddvitum stjórnarflokkanna í Suðurkjördæmi, ég ætla ekki að hugsa um hina sem á eftir koma, þeir munu hvorki komast lönd né strönd. Verði þeim að góðu að fara með svona veganesti inn í kosningabaráttuna.

Eigum við að tala um sjávarútveginn þar sem reynt var að ná sátt? Það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði var að fara gegn sáttinni. Sjávarútvegurinn skilaði á síðasta ári 42% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar en ríkisstjórnin krukkar ekki bara örlítið í kerfið heldur stefnir kerfisbundið að því að skemmdarverkastarfsemi verði stunduð fyrir allt þjóðarbúið. Hún dregur úr arðsemi sjávarútvegsins, og hvað gerir það? Það veikir okkur í því verkefni að styrkja aðrar grunnstoðir í samfélaginu, velferðarkerfið, menntakerfið, lögregluna. Það gerir þessi árás á sjávarútveginn. Einn af okkar ágætustu varaþingmönnum orðaði það svo ótrúlega vel: Sjávarútvegurinn er örugglega ekki mesta vandamál þessarar ríkisstjórnar, en þessi ríkisstjórn er hins vegar mesta vandamál sjávarútvegsins.

Þess vegna segi ég, ágætu þingmenn: Við þurfum að nota hvert tækifæri sem gefst til að segja álit okkar á þessari ríkisstjórn.[12:40]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Oft segir lítil mynd meira en þúsund orð. Skopmynd Halldórs í Fréttablaðinu á laugardaginn þar sem hv. þm. Þór Saari er sýndur bregða fæti fyrir hæstv. forsætisráðherra rétt áður en hún kemur í mark er táknræn og segir allt sem segja þarf. Hinum megin við marklínuna standa tveir karlar, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, það hlakkar í þeim við tilburði þingmannsins og þeir bíða rólegir eftir því að þeirra tími muni koma. Svona sér listamaðurinn vantrauststillöguna sem við nú ræðum.

Vantrauststillagan er sögð stafa af óánægju og óþoli vegna hægagangs síðustu vikna í stjórnarskrármálinu, en hverjum er þar um að kenna? Og hverjar verða afleiðingarnar fyrir stjórnarskrármálið sjálft og fyrir öll önnur mál ef tillagan nær fram að ganga? Það er engum blöðum um það að fletta að stjórnarskrármálið er síst betur komið í höndum þeirra sem standa hinum megin við marklínuna á myndinni í Fréttablaðinu. Í þeirra höndum er málið einfaldlega dautt. Punktur. En auk þess að ganga af stjórnarskrármálinu dauðu yrði afleiðingin sú að öll þau góðu mál sem við höfum á borðum okkar yrðu einnig að engu. Þing yrði rofið viku, hálfum mánuði fyrr en ella og karlarnir tveir hinum megin við marklínuna gætu gengið keikari út í kosningavorið en ella.

Er það þetta sem hv. þm. Þór Saari er að kalla eftir? Eða er hann bara að grínast í okkur, eins og krakkarnir segja? Vandinn er sá að vantrauststillaga er ekkert grín. Hún getur heldur aldrei snúist um eitt mál, jafnvel ekki um stjórnarskrána. Hún hlýtur að taka til allra mála sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir, þar á meðal stöðu kynjanna sem myndin í Fréttablaðinu fjallar einnig um — þrjár karla og konu sem er felld.

Það er auðvelt að standa á hliðarlínunni. Það er auðvelt að þurfa ekki að bera keflið en geta brugðið fæti fyrir þann sem það gerir og það er auðvelt að standa afskiptalaus hjá og bíða eftir því að andstæðingurinn falli flatur, sérstaklega ef menn hafa ekkert fram að færa.

Ég get ekki orða bundist vegna orða hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan, ég vil nota þetta tækifæri og mótmæla í eitt skipti fyrir öll þeim köpuryrðum, árásum og heift sem er beint gegn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég bið menn að gera smáathugun á þeim eftirmælum sem annars vegar Hillary Clinton fær í sínu landi þegar hún stendur upp og segist ætla að hætta og hins vegar forsætisráðherrann okkar sem var einn af örfáum stjórnmálamönnum sem hér var treyst eftir hrun. Hver er munurinn?

Hillary Clinton er harður pólitíkus sem á sér mjög sterka andstæðinga og hún hefur staðið í eldlínunni árum saman en þegar hún hættir bera menn virðingu fyrir verkum hennar og þakka henni fyrir það sem vel er gert þó að þeir hafi ekki alltaf hreint verið sammála henni. Hér sitjum við hins vegar uppi með það, ekki aðeins í þingsal heldur á vefmiðlunum dag eftir dag, að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er ötuð auri. Hún er ötuð auri og ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að vekja athygli á pistli sem birtist í Morgunblaðinu í síðasta mánuði fljótlega eftir að þau tíðindi gerðust að Hillary Clinton lýsti því yfir 1. febrúar að hún væri að hætta og Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því yfir 2. febrúar að hún ætlaði að hætta. Þar skrifar blaðamaðurinn Árni Matthíasson og segir í raun að ef menn lesa bara það sem sagt er um Jóhönnu Sigurðardóttur á vefmiðlum sé það líkast því að hún sé einn mesti þrjótur sem Ísland hefur alið, sannkölluð fordæða. Ég er að vitna hér í Morgunblaðið og Hádegismóa. Ég vek líka athygli á því að í þessari grein er sagt að undir þeim pólitíska dónaskap sem hér viðgengst liggi oftar en ekki andúð á konum á valdastólum sem aftur má rekja til þeirra ranghugmynda sem okkur miðaldra körlum, segir blaðamaðurinn, voru innrættar frá blautu barnsbeini.

Andúð á konum spyr ekki að kynferði, eins og hefur sannast á þeim svívirðingum sem hafa dunið á Jóhönnu Sigurðardóttur á undanförnum vikum og mun eflaust dynja á henni næstu vikur og mánuði.

Ég ætlaði að tala um allt annað en þetta, hreint út sagt, en gat ekki orða bundist. Ég get ekki orða bundist vegna þess að þegar litið er til þess hvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gert hér á undanförnum fjórum árum, ekki bara fyrir konur í landinu heldur alla þegna af báðum kynjum, er listinn mjög langur. Ég nefni átak gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, að fyrningarákvæði vegna kynferðisbrota gegn börnum voru felld niður, aðgerðaáætlun gegn mansali, kaup á vændi gerð refsiverð, súlustaðir bannaðir, austurríska leiðin leidd í lög, vörður staðinn um velferðarkerfið, þrepaskipt skattkerfi, jafn fjöldi kvenna og karla í ríkisstjórn. Við höfum framfylgt lögum um jafnt kynjahlutfall í stjórnum og ráðum, verið með átak gegn klámi, tekið upp nýja aðalnámskrá fyrir öll skólastig þar sem jafnréttismenntun er einn af meginþáttunum, innleitt ein hjúskaparlög fyrir alla, tæknifrjóvgun fyrir einstæðar konur og lesbíur, sett á aðgerðahóp gegn kynbundnum launamun og stigið fyrstu skrefin í kynjaðri hagstjórn.

Ég gæti haldið áfram lengi enn. Þessi listi er mjög langur, en við höfum ekki náð öllum þeim árangri sem við ætluðum okkur á sviði jafnréttisbaráttunnar. Fjögur ár eru skammur tími til þess. Við þurfum fjögur ár í viðbót til að koma lagi á þetta land, til þess að það verði heilbrigt fyrir bæði karla og konur, til þess að allir geti notið jafnréttis hér.

Svo eigum við auðvitað að samþykkja stjórnarskrána eins og hún liggur fyrir og fella vantrauststillögu Þórs Saaris. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)[12:47]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er vor í lofti og fallegt veður. Framtíðin bíður eftir okkur handan við hornið. Takist þingmönnum ekki að fella ríkisstjórnina eftir þessa vantraustsumræðu í dag þá gerist það 27. apríl þegar landsmenn ganga til kosninga, kjósa nýtt Alþingi, kjósa nýja þingmenn og fá þá tækifæri sjálfir til að kjósa ríkisstjórnina burtu.

Virðulegi forseti. Það fór hálfpartinn um mig í sætinu áðan þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gaf í skyn að Vinstri grænir vildu leiða ríkisstjórn hér áfram næstu fjögur ár. Ég tel að þingmaðurinn sé á algjörum villigötum því að vantrauststillagan sem flutt er hér í dag verður vonandi til þess að meiri hluti þingmanna nái að fella ríkisstjórnina og ef ekki nú, þá gerist það í alþingiskosningunum.

Það er löngu vitað að það er annar meiri hluti inni í þinghúsinu en utan þess. Ríkisstjórnin hefur ekki haft meiri hluta um langa, langa hríð. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur henni tekist að semja sig að niðurstöðu í einstökum málum með stuðningi þingmanna úti í sal. En þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur tamið sér og þess vegna eru málin komin í svo mikið óefni.

Hér er verið að blanda saman tveimur óskyldum málum, að frumvarp til stjórnarskipunarlaga náist ekki í gegnum þingið ef ríkisstjórnin verður felld í dag og svo öfugt. Það er nú svo, virðulegi forseti, að ríkisstjórnarflokkunum hefur algjörlega mistekist að leiða þessi stjórnarskrármál til lykta. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa allt þetta kjörtímabil lýst yfir miklum vilja til að setjast niður með stjórnarflokkunum og semja um þau ákveðnu atriði sem þarf að breyta í núgildandi stjórnarskrá. Hér er ekki verið að tala um að skrifa eigi nýja stjórnarskrá heldur að breyta því sem breyta þarf.

Hv. þm. Þór Saari taldi í framsöguræðu sinni fyrr í dag að 70 ára tilraun mistækist yrði þetta frumvarp ekki að lögum fyrir vorið. Ég ætla að andmæla því, virðulegi forseti, og eins þeim orðum hæstv. forsætisráðherra að jafnaðarmönnum einum sé treystandi til að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Þvílík firra, þvílíkt bull.

Stjórnarskrármálin eru nú komin í þann farveg að lagt er til að einungis eigi að breyta breytingargrein stjórnarskrárinnar en ég tel að það sé ekki fært. Verði stjórnarskrármálið knúið í gegnum þingið á mjög litlum meiri hluta þingmanna verður það einfaldlega fellt á næsta þingi. Eins er með breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sem lagt er til að komi hér fram núna rétt undir þinglok. Það er stjórnarskrárbreyting og á þá að hafa sama hlutfall og frumvarpið sjálft í heild sinni hér á þinginu.

Hæstv. ríkisstjórn verður að vita að það er ekki hægt að koma þessu bara í gegnum þingið og vona svo hið besta. Sá málflutningur að með því að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sé hægt að halda málinu öllu lifandi fram á næsta kjörtímabil skiptir ekki máli. Málið kemur til með að lifa allt næsta kjörtímabil vegna þess að pólitískur vilji er fyrir því að breyta ákveðnum atriðum í stjórnarskránni. Það þarf ekki að breyta breytingarákvæðinu til að stjórnarskrármál verði á dagskrá á næsta þingi. Það er einkennilegt að í frumvarpi þeirra formanna um þetta er lögð til sú breyting til að bæði ákvæðin verði í gildi í einu, það ákvæði sem breytir stjórnarskránni í dag, og ætlast er til að tekið sé til umræðu í lok kjörtímabils, og það nýja ákvæði sem lagt er til núna. Þvílíkt rugl, en þetta er í takt við annað sem þessir stjórnmálaflokkar hafa lagt til.

Við framsóknarmenn höfum alltaf talað fyrir hagsmunum heimilanna, að þeim verði fært að reka sig. Við höfum lagt áherslu á umræður um atvinnulífið á þessu kjörtímabili, virðulegi forseti, en því miður hefur mikið af vinnu kjörtímabilsins farið í súginn, hér eru þingmenn að ræða meira og minna sömu málin og alltaf verið að gera lagabætur í stað þess að setja lög sem halda til framtíðar.

Virðulegi forseti. Tækifærin eru á hverju strái, eins og ég sagði í upphafi. Framtíðin blasir við okkur. Takist ekki að fella ríkisstjórnina í dag þá göngum við stolt til kosninga. Við fellum þessa ríkisstjórn þann 27. apríl í síðasta lagi. Við hefjum nýtt framfaraskeið í þágu nútíðarinnar og ekki síður til framtíðar.[12:53]
Róbert Marshall (U):

Virðulegi forseti. Í styrjöldum missa menn oft tengslin við raunveruleikann. Að vissu leyti birtist okkur í þessu máli það sem birtist í Víetnamstríðinu þegar höfð voru eftir ónefndum ofursta fleyg og alræmd ummæli: Til þess að bjarga þorpinu urðum við að eyðileggja það. Það er í raun það sem er gerast hjá hv. þm. Þór Saari, til að bjarga þorpinu er hann að leggja til eyðileggingu þess. (ÞSa: Það er það sem þið eruð að gera.) Það er sorglegt að verða vitni að því þegar menn lifa sjálfa sig í pólitík og verða að því sem þeir lögðu upp með að berjast gegn.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir er ekki hluti af þeim nýju stjórnmálum sem innleiða þarf á Alþingi og á Íslandi í dag. Það er gamaldags pólitík sem felur í sér að ef mín leið er ekki farin, þó að hér sé verið að leggja til aðra leið að sama markmiði, sé ekki til neins unnið, þá skuli menn frekar slíta þingi og fara heim, út af því að mín leið er ekki farin. Með tillögu hv. formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar er verið að bjarga þessu máli, tryggja að hægt sé að vinna það áfram þannig að þjóðin fái nýja stjórnarskrá á næsta ári, setji sér sjálf nýja stjórnarskrá á næsta ári.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég fylltist mikilli depurð þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Þórs Saaris fyrr í dag vegna þess að hún er dæmi um það hvernig við í Bjartri framtíð viljum ekki að stjórnmálin séu. Við leggjum mikla áherslu á að fjalla um skoðanir annarra af virðingu og kurteisi og það sem er mikilvægt; að gera öðrum ekki upp skoðanir, að láta ekki að því liggja að annarlegar hvatir liggi að baki skoðunum manna í stjórnmálum.

Hér er um að ræða að komast að niðurstöðu um grunnplagg samfélagsins og það er eitthvað sem við hljótum öll að hafa jafnréttháar skoðanir á. Við þingmenn Bjartrar framtíðar munum ekki samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Þór Saari. Það er vegna þess að hér er búið að ákveða að fara þá leið sem við lögðum til fyrir nokkrum vikum. Þá var sú leið reyndar kölluð „klækjapólitík dauðans“ af hæstv. utanríkisráðherra, hann hefur nú séð ljósið í þessu. Með þeirri leið er verið að tryggja að hægt sé að halda áfram með málið.

Ég tók þátt í því að kjósa um stjórnarskrána ásamt almenningi á Íslandi. Ég kaus og vildi að drögin frá stjórnlagaráði yrðu til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í þeim kosningum var ekkert smátt letur um það að með því gerði ég hv. þm. Þór Saari að leiðtoga lífs míns í því máli, að hann yrði þá að talsmanni mínum um það hvernig leiða ætti málið til lykta, ekkert slíkt. Hér er verið að leggja til að hægt verði að halda áfram með málið á næsta kjörtímabili, vinna það betur, aflétta tímapressunni og tryggja að markmiðið, sem við erum þó öll sammála um, að minnsta kosti ég og hv. þm. Þór Saari, náist.

Þar fyrir utan eru sex vikur í kosningar og þess vegna er sú tillaga sem hér liggur fyrir, um þingrof og vantraust á ríkisstjórnina, fullkomlega merkingarlaus. Hún hefur enga þýðingu, hún breytir engu. Og þess vegna er svo undarlegt að verða vitni að því, t.d. hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að þeir skuli ætla að styðja svona tillögu. Sama hvaðan gott kemur, heyrist hér á göngunum. Það er búið að boða til kosninga, það liggur fyrir. Þess vegna er sú umræða sem hér hefur farið fram algjör tímaeyðsla, algert virðingarleysi fyrir því starfi sem hér þarf að vinna og hún er algjörlega merkingarlaus.[12:58]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við tillögu um vantraust á ríkisstjórn Íslands vegna framgangs stjórnarskrármálsins sem stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir ætla að drepa með málþófi og hindra þannig að Alþingi fái að ljúka málinu. Vantraustið hefði átt að vera á stjórnarandstöðuna.

Fyrr í umræðunni var hlegið að hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins þegar hann sagðist vilja breytingar á stjórnarskránni. Það kom mér ekki á óvart vegna þess að sjálfur var ég hér í forsetastóli árið 2009 þegar gerðar voru tilraunir til þess að verja tillögur Framsóknarflokksins sem þá barðist fyrir því að fá stjórnlagaráð samþykkt, tillögu sem minnihlutastjórnin hafði samþykkt að bera fram með Framsóknarflokknum, stjórnlagaráð þar sem Framsókn barðist fyrir að hér yrðu 63 fulltrúar sem mundu starfa í heilt ár að því að undirbúa nýja stjórnarskrá.

Þá fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins alls 600–700 ræður um fundarstjórn forseta til að drepa málið. Þeim tókst það því að tveim, þrem dögum fyrir kosningar gáfust menn upp og urðu að fara út í kosningar án þess að ljúka breytingum á stjórnarskránni. Þar, eins og gjarnan áður, kom Sjálfstæðisflokkurinn með þá stefnu: Ef við fáum ekki að ráða verður engin sátt.

Síðan þá hefur Framsókn gagnrýnt meðal annars kostnaðinn við stjórnlagaráðið, sem þó er brot af því sem þeir lögðu sjálfir til árið 2009. Framsókn fylkir sér nú í lið með Sjálfstæðisflokki í sérhagsmunagæslunni, til dæmis gegn nýju og skýru auðlindaákvæði í stjórnarskrá og hunsar þannig vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar. Ef okkur tekst ekki að koma stjórnarskrármálinu í höfn er það ekki ríkisstjórninni að kenna. En við þurfum að hugleiða eitt: Á íslensk þjóð að sætta sig við að málþófi verði beitt til að stöðva að vilji þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga? Ég tel að við eigum að gera allt til að ljúka því sem við lögðum af stað með til að breyta stjórnarskránni og það verði þá á ábyrgð annarra en þessarar ríkisstjórnar ef það tekst ekki.

Ég held að mikilvægt sé þegar við ræðum vantraust á ríkisstjórnina að líta aðeins til baka og skoða hver aðkoman var hjá okkur árið 2009. Íslenska bankakerfið hrundi, krónan féll, var í frjálsu falli, verðlag hækkaði, kaupmátturinn rýrnaði um tugi prósenta, verðbólgan æddi af stað og át upp eignir fólks og kaupmátt og við fengum bullandi atvinnuleysi. Markviss stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var um langt skeið að gera Ísland meðal annars að fjármálamiðstöð heimsins, þeir voru með lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga í bullandi þenslu vegna stórframkvæmda, auknar lánveitingar til húsnæðiskaupa með 90% lánum, veikt eftirlitskerfi og lagaumhverfi sem tók mið af hagsmunum fjármagnseigenda og gleymdi neytendum. Allt leiddi þetta til hrunsins um leið og frjálshyggjuhugmyndir alþjóðasamfélagsins hrundu. Engin innstæða reyndist fyrir þeirri þenslu og þeim fjárfestingum sem farið var í hvort sem var fyrir heimili eða fyrirtæki. Svokallað góðæri reyndist froða, bóluhagkerfið hafði hrunið. Og í boði hverra var allt þetta?

Er íslenska þjóðin tilbúin að rétta sömu aðilum stjórnartaumana að nýju, leyfa þeim að þakka pent fyrir tiltekt núverandi ríkisstjórnar og segja: Nú get ég? Eigum við enn á ný að leiða fram sérhagsmunaaöflin í samfélaginu gegn almannahagsmununum? Ég ætla að vona að kjósendur sjái í gegnum þessa leiki og þau loforð sem þegar er farið að gefa núna fyrir kosningarnar af þeim sömu gömlu flokkum.

Ég spurði: Hvernig var staðan? Skuldir fólks vegna húsnæðis jukust úr 700 þús. milljónum í 1.400 þús. milljónir á fjórum árum fyrir hrun einmitt vegna 90% húsnæðislánanna. Yfirdráttur heimila var 80–90 þús. milljónir á þeim tíma. Hugmyndafræðin „látum peningana vinna og skuldsetjum okkur“ var þá aðalslagorðið frá hægri flokkunum. 50% hækkun á húsnæðisverði árin 2004–2007, sem að mörgu leyti var skuldsett, var veruleiki. Það endaði með því að ríkissjóður var rekinn eftir hrunið með gríðarlegum halla, yfir 200 þús. milljónum. Þetta er það verkefni sem við höfum orðið að glíma við og leysa.

Ef það hefði nú verið þannig að þetta góðæri hefði leitt til þess að hér hefði verið búið almennilega að heilbrigðiskerfinu, öldruðum, öryrkjum og húsnæðiskerfinu í heild, þá hefði þetta kannski verið ásættanlegt, en svo var alls ekki. Hvernig stóð á því til dæmis að Landspítalinn var rekinn með bullandi halla fyrir hrun þannig að hann var gerður tæknilega gjaldþrota?

Verkefni okkar hefur verið að vinna að endurreisn við erfiðar aðstæður, þurft að taka margar og erfiðar ákvarðanir og vinna úr erfiðri stöðu. Þar höfum við haft skýra forgangsröðun þar sem við höfum reynt að verja velferðarmálin þrátt fyrir að við höfum orðið að skera niður. Þar er margt til að taka og við höfum þegar komið fram með nýjar lausir eins og í almannatryggingamálunum þar sem fyrir liggur róttæk breyting inn til framtíðar þar sem dreginn er til dæmis til baka sá niðurskurður sem hefur átt sér stað á kjörum lífeyrisþega. Við höfum komið fram með nýjar tillögur í húsnæðismálum, til dæmis um leigufélag, að tryggja jafnræði á milli ólíkra íbúðaforma, við höfum gert tillögu um óverðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði, en því miður er Íbúðalánasjóður illa settur eftir stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Við höfum lagt áherslu á málefni barna með hækkun barnabóta, við erum að endurheimta fæðingarorlofið, sem því miður varð að skerðast á þeim tíma. Við erum að gera tillögur um að koma tannlækningum barna hér á dagskrá með betri kjörum, mál sem hefur verið í 20 ár í ólestri hjá áðurnefndum flokkum.

Við notuðum aðstöðuna, fórum í að fækka þvinguðum sambýlum og hjúkrunarheimilum, gerðum samning upp á um 10 þús. milljónir við að eyða tvíbýlum eða sambýlum og verkefni okkar er áfram að vinna að því að auka hjúkrunarrými og bæta þar við í öldrunarmálunum þegar betur fer að ára.

Heilbrigðismálin hafa orðið að sæta niðurskurði eins og margt annað þó að þau hafi verið varin að hluta, en nú erum við farin að gefa til baka, hætt niðurskurði, höfum aukið tækjaframlög, styrkt heilbrigðisstéttirnar með jafnlaunaátaki og þar eigum við líka stórt verkefni fram undan sem er að byggja nýjan spítala til að tryggja öruggt umhverfi til framtíðar litið.

Ég gæti haldið svona lengi áfram. Atvinnumálin og þau verkefni sem við höfum unnið í greiðslu- og skuldavandanum, við munum fljótlega sjá ítarlega skýrslu um þau verk sem þar hafa verið unnin og hvernig þróunin hefur orðið í þeim málum. Ég treysti á að ríkisstjórnin fái að ljúka verkum sínum og að þjóðin fái að átta sig á því að hvers konar borði við komum árið 2009.[13:05]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að stjórnarskrármálið hafi stöðvast í þinginu vegna þess að beitt hafi verið einhvers konar málþófstaktík. (Gripið fram í: Þú lofaðir málþófi.)

Vandinn er auðvitað fyrst og síðast sá að þau drög að stjórnarskrá sem komu til þingsins voru um margt gölluð og jafnvel meingölluð. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra fræðimanna sem hafa fjallað um það mál hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við allan málatilbúnaðinn. Þær athugasemdir hafa aftur og aftur af hálfu stjórnarsinna hér í salnum verið afgreiddar með mjög ódýrum hætti, ekki með því að svara málefnalega heldur einmitt eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, vakti athygli á, með köpuryrðum og glannalegum yfirlýsingum. Það er vandinn í stjórnarskrármálinu.

Virðulegi forseti. Ég mun greiða atkvæði með því að ríkisstjórnin fari frá, ekki á þeim forsendum sem hv. þm. Þór Saari gefur sér í tillögu sinni. Ástæður mínar eru skýrar. Núverandi ríkisstjórn hefur mistekist það verkefni sem henni var falið að vinna eftir kosningarnar árið 2009. Vissulega var erfitt verkefni fyrir höndum. Hin alþjóðlega fjármálakrísa hafði leikið Ísland grátt og ríkisstjórnarinnar beið það að bregðast við, rétt eins og hefur komið í ljós hjá fjölmörgum löndum í Evrópu, fjölmörgum ríkisstjórnum í Evrópu sem þurfa að standa frammi fyrir gríðarlega erfiðum verkefnum í kjölfar þeirra hörmunga sem hafa gengið yfir fjármálakerfi Vesturlanda.

Virðulegi forseti. Hver var staðan þá hér? Áður en áfallið reið yfir var ríkissjóður allt að því skuldlaus og það er ólíkt því sem var í flestum öðrum löndum Evrópu. En það sem meira var, og það var það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom auga á þegar hann kom hingað, sóknarfærin voru mikil og fjölbreytt fyrir íslenskt samfélag og fyrir íslenskt hagkerfi. Þess vegna var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hér ætti að geta orðið umtalsverður hagvöxtur og hann ætti að geta komið fljótt inn og við ættum að vera fljót að ráða bug á atvinnuleysinu og ná tökum á ríkissjóði. Þetta var ekki bara mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og ríkisstjórnin sáu þá mynd sem blasti við, að við Íslendingar áttum öll tækifæri til að vinna okkur hratt úr þeim erfiðleikum.

Gert var svokallað stöðugleikasamkomulag á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Og hvernig fór með það, virðulegi forseti? Hvar endaði það? Með svikum ríkisstjórnarinnar þar sem hún stóð ekki við það sem hún hafði sagst ætla að gera. Allir þekkja yfirlýsingar forseta ASÍ í kjölfar þess máls og annarra forustumanna Samtaka atvinnulífsins.

Síðan voru gerðir kjarasamningar þar sem samið var um töluvert miklar launahækkanir fyrir íslenska launamenn. Og á grundvelli hvers, virðulegi forseti? Á grundvelli þess að fram undan væri myndarlegur hagvöxtur, drifinn áfram af fjárfestingum og ríkisstjórnin kom að því borði með yfirlýsingum. Hvernig fór það, virðulegi forseti? Það sem að ríkisstjórninni sneri, það brást. Og enn og aftur komu talsmenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar fram og sögðu: Það er ekki hægt að eiga samskipti við þessa ríkisstjórn, við verðum að bíða nýrrar stjórnar. Það var dómur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Ekki er að furða að margir þingmenn í þessum sal beri ekki traust til ríkisstjórnar og vilji að hún fari sem fyrst.

Virðulegi forseti. Ekki er langt síðan helstu forustumenn núverandi ríkisstjórnar gengu hér um sali og mikluðu sig af því að hagvöxtur ársins 2012 væri um og yfir 3%, sem hefði auðvitað verið myndarlegur hagvöxtur, og sögðu: Sjáið hvernig við höfum haldið á málum. (Utanrrh.: Þið sögðuð ekkert þá.) Þá vöruðum við við því, virðulegi forseti, að holt væri undir þessu vegna þess að það vantaði alltaf eitt inn í, þ.e. fjárfestingar atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar töldu sig hafa tekið próf og fengið 9 á prófinu. En svo er niðurstaðan komin. Hagvöxtur ársins 2012 var einungis helmingur af því sem ætlað var þannig að ríkisstjórnin fékk einungis helminginn og er þess vegna fallin á prófinu. Hún er fallin á því prófi sem hún sjálf setti upp. Hún stóð ekki við þær yfirlýsingar sem hún gaf Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins, hún stóð ekki við þau fyrirheit sem hún gaf þjóðinni. Í hverju hefur vandinn falist? Í stað þess að leita sátta, í stað þess að mynda pólitískan stöðugleika hefur allt verið gert til að rjúfa sáttina í landinu, gera atvinnulífinu erfitt fyrir með að fjárfesta vegna þess að pólitísk óvissa hefur farið vaxandi á Íslandi.

Virðulegi forseti. Fyrir skömmu síðan var haldinn fundur Samtaka atvinnulífsins. Þar lýstu menn þeim vandamálum sem þeir stæðu frammi fyrir þegar kæmi að fjárfestingum á Íslandi, og það var tvennt. Það voru gjaldeyrishöftin og síðan, virðulegi forseti, og það er ótrúlegt á það að hlýða, pólitísk óvissa. 1,6% hagvöxtur á síðasta ári eru gríðarleg vonbrigði. Það hljóta að vera öllum mikil vonbrigði hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, því að með því var staðfest að ekki er inneign fyrir þeim kauphækkunum sem var samið um og því er verðbólgan á uppleið. Það er hún sem étur kaupmáttinn og það er hún sem hækkar lán heimilanna. Þarna eru á ferðinni alvarleg hagstjórnarmistök.

Árásir á sjávarútveginn. Á hverju einasta ári hefur komið hingað inn frumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar sem kollvarpar þeirri undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Óvissa er í skattamálum þjóðarinnar, óvissa um hvort breyta eigi skattkerfinu eða hækka skattana, það dregur úr fjárfestingum, óvissa er um skattumhverfi eins helsta vaxtarbrodds íslensks atvinnulífs, ferðaþjónustunnar, óvissa um skattumhverfi stóriðjunnar, óvissa, óvissa og alltaf óvissa. Það gerir að verkum að við náum ekki upp hagvextinum. Og þegar það gerist rýrna kjör heimilanna og þá dregur líka úr möguleikum ríkisins til að veita þjónustu sem er svo mikilvæg.

Ég hlýddi á hæstv. velferðarráðherra fara með lítinn óskalista um það sem hann svo gjarnan vildi gera og ég held að við öll viljum gjarnan gera. En það verður ekki hægt, virðulegi forseti, nema takist að auka verðmætasköpun í landinu, en meðan núverandi ríkisstjórn situr mun það ekki gerast.

Virðulegi forseti. Þess vegna er ástæða til að greiða atkvæði með því að ríkisstjórnin fari frá, hún hefði betur aldrei komið og ætti fyrir löngu að vera farin.[13:14]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Menn gerast nokkuð andstuttir hér í ræðustólnum enda mikið í húfi. Menn vita að nú nálgast senn kosningar. Við greiðum hins vegar atkvæði um tillögu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.

Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.“

Þetta er tillagan. Síðan kemur greinargerð. Þar eru færð rök fyrir þessari tillögu. Þar segir á þá leið að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig í því að koma fram breytingum á stjórnarskránni. Síðan er ástæðan fyrir því að skipa eigi stjórn fulltrúa allra flokka á Alþingi skýrð með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.“

Hvaða mál skyldu það vera? Kvótakerfið? Skattstefnan? Stefna í virkjunarmálum? Orkustefna? Stefna varðandi náttúruvernd? Stefna í velferðarmálum? Eða sátt um þau mál sem við deilum um hér? Og um hvað er deilt hér?

Að mínum dómi er það einkum tvennt sem deilt er um. Í fyrsta lagi er deilt um beint lýðræði og í öðru lagi er deilt um auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta eru stóru deilumálin. Í sambandi við stjórnarskrármálið og þá tillögu sem hér liggur fyrir má vissulega gagnrýna ríkisstjórnina fyrir eitt, að hafa ekki fyrir löngu tekið þessi tvö stóru mál út fyrir sviga og reynt að leiða þau til lykta. Það mundi aldrei gerast með samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn að fá ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir þjóðareign á auðlindum. (REÁ: Rangt.) Það er rétt. (REÁ: Rangt.)

Ég hef reynslu af því í þessum þingsal að taka þátt í umræðu um nákvæmlega þetta mál við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Sannast sagna hélt ég að Framsóknarflokkurinn hefði gengið í endurnýjun lífdaga, hann hefur ekki reynt svo lítið að þvo af sér spillingarárin meðan hann sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á síðari hluta tíunda áratugarins og fyrstu árum þessarar aldar. En svo sýndi hann sitt rétta andlit hér fyrir nokkrum dögum og minnti okkur á og kjósendur flokksins að enn þarf hann að skrúbba sig til að hreinsa sig af þessum tíma.

Fulltrúar Framsóknarflokksins komu hér í pontu og sögðu að kvótinn væri afleiddur eignarréttur, varinn samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta sögðu fulltrúar Framsóknarflokksins. Þetta eru stóru deilumálin sem tengjast stjórnarskrárbreytingunum núna. En Sjálfstæðisflokkurinn minnti okkur á annað, að atkvæðagreiðslan á eftir snerist um annað og meira, hún snerist um komandi þingkosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar gefið tóninn, hann gerði það í aðdraganda landsfundar síns og einnig á landsfundinum sjálfum, um að nú stæði til að einkavæða, að selja Landsvirkjun. Hann minnti okkur líka á gamla stefnu sem komin er upp á vinnsluborðið um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég er með ályktunina hér:

„Nýta á kosti fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu.“

Þetta er gamalkunnugt dulmál, sem við öll þekkjum, um að nú eigi að einkavæða í heilbrigðiskerfinu. Ég hef oft sagt að við sem erum hér í þessum sal viljum öll efla velferðarþjónustuna á Íslandi og líka heilbrigðiskerfið. Við deilum hins vegar um hvernig fjármagna eigi þetta kerfi. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta en auka heilbrigðisþjónustuna. Hvað þýðir það? Það þýðir að láta á sjúklingana borga. Í stað þess að við greiðum til heilbrigðisþjónustunnar meðan við erum heilbrigð og aflögufær á að bíða þangað til við verðum veik. Þá á að rukka okkur við innganginn á Landspítalanum með sjúklingasköttum.

Það er gott að vera minnt á það að þessi atkvæðagreiðsla hér á eftir snýst um það hvers konar þjóðfélag við ætlum að reisa á Íslandi, þjóðfélag mismununar og misréttis, þjóðfélagið sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar, eða það þjóðfélag sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum staðráðin í að berjast fyrir á næstu fjórum árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)[13:20]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Sólin skein þegar ég vaknaði í morgun. Á svona fallegum morgnum stekk ég venjulega fram úr rúminu tilbúin að takast á við verkefni dagsins. En það gerðist ekki í morgun.

Ég er mjög ósátt við þessa tillögu. Ég er mjög ósátt við að þurfa að eyða tíma mínum í að ræða hana, að verið sé að eyða tíma Alþingis í að ræða hana, að við séum enn á ný að ræða allt annað en það sem skiptir fólk raunverulega máli.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru fjórir dagar eftir af starfstíma Alþingis. Þingfrestun er áætluð þann 15. mars. Þann 27. apríl hefur verið boðað til kosninga og þjóðin sjálf mun velja hverjir fara með stjórn landsins. Íslenska þjóðin getur þá sjálf lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Ég hefði kosið að nýta þessa síðustu daga þingsins, síðustu daga kjörtímabilsins, til að vinna fyrir heimili landsins, til að vinna fyrir fjölskyldur þessa lands. Þau mál sem ég hefði viljað ræða eru skuldaleiðrétting, mikilvæg skref í átt að afnámi verðtryggingar og lækkunar vaxta, afnám stimpilgjalds, skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðar og ýmsar úrlausnir vegna gengistryggðra lána, allt mál sem við höfum lagt fram aftur og aftur á þessu kjörtímabili. Því miður er þau mál ekki að finna á forgangslista stjórnvalda fyrir þessi þinglok sem þó inniheldur 70 mál. Á þeim grunni byggist afstaða mín, hvernig þessi ríkisstjórn hefur ítrekað, aftur og aftur, hunsað skuldavanda heimilanna, hvernig hún hefur endalaust klifað á því að engu sé hægt að breyta, að ekkert sé hægt að gera.

Þessu höfnum við framsóknarmenn. Við framsóknarmenn vitum að meginverkefni næsta kjörtímabils verður að leysa eða létta mjög á vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis. Við vitum svo sannarlega að það verður ekki auðvelt, talsmenn skuldafjötra og verðtryggingar munu halda áfram áróðursstríði sínu, hér í pontu sem annars staðar, við að halda heimilunum í skuldafangelsi en þeir munu ekki komast upp með það.

Við munum áfram berjast fyrir almennri leiðréttingu skulda, áfram leggja fram tillögur um hvernig taka megi á þeim vanda sem verðtryggingin veldur íslenskum heimilum og áfram benda á að engin sanngirni felist í að bankar og erlendir vogunarsjóðir græði á tá og fingri á því að mergsjúga íslensk heimili. Við ætlum að taka á uppsafnaða vandanum, þeim sem ríkisstjórnin leiðrétti ekki eftir efnahagshrunið. Við ætlum að koma í veg fyrir að lánin geti aftur stökkbreyst með því að taka á verðtryggingunni og við ætlum að tryggja fólki betri lífskjör til framtíðar.

Þessi ríkisstjórn hefur brugðist heimilum landsins og setið aðgerðalaus hjá á meðan bankarnir og kröfuhafar hafa sópað að sér eignum almennings. Þess vegna get ég ekki varið hana vantrausti.[13:24]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Allt frá því að við hv. þm. Atli Gíslason yfirgáfum þingflokk Vinstri grænna hef ég ekki getað treyst mér til að styðja þessa ríkisstjórn Samfylkingar og VG. Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda og AGS. Hagsmunagæslan er þvert á loforð stjórnarflokkanna um skjaldborg heimilanna, norrænt velferðarsamfélag og að byrðum fjármálakreppunnar yrði dreift með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Hin svokallaða norræna vinstri stjórn lagði metnað sinn í að skera hratt niður velferðina fyrir vexti, og AGS mærði hana fyrir dugnaðinn við niðurskurðinn. Ríkisstjórnin samþykkti Icesave-samning sem átti að kosta skattgreiðendur um hálf fjárlög til þess eins að endurreisa orðspor Íslands á alþjóðlegum vettvangi, eins og það hét. Aldrei var neinn vilji til að standa við loforðið um skjaldborg heimilanna og varnarlausum heimilum var vísað á dómstóla til að ná fram rétti sínum.

Afleiðingarnar birtast nú í neyðarkalli frá skuldsettum heimilum sem hafa mátt þola gífurlega eignatilfærslu vegna verðtryggingarinnar og greiðsluerfiðleika eftir að hafa kastað séreignarlífeyrissparnaðinum á skuldabálið. Heilbrigðiskerfið og vegakerfið okkar getur ekki lengur tryggt öryggi sjúklinga og vegfarenda vegna of mikils niðurskurðar eftir hrun. Bankakerfið var endurreist og bönkunum gefið veiðileyfi á almenning til að tryggja hrægammasjóðum arðgreiðslur og góðar endurheimtur á kröfum sínum.

Virðulegi forseti. Það var von mín og margra annarra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni að hrunið mundi tryggja völd flokka sem notuðu fjárlögin markvisst til að draga úr efnahagsáfallinu, draga úr misskiptingu og til að forgangsraða í þágu velferðar. Það varð ekki niðurstaðan því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafði ekki hugrekki til að snúa af braut nýfrjálshyggjulausna til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur.

Fjármálakreppan varð því ekki til þess að skerpa hinar pólitísku línur, heldur afhjúpaði þvert á móti að í reynd er enginn pólitískur munur á hinum svokölluðu vinstri og hægri flokkum í landinu. Norræna velferðarkerfinu og réttlátri skiptingu byrða kreppunnar var fórnað fyrir valdastóla og velþóknun AGS og vogunarsjóða.

Fylgishrun blasir við stjórnarflokkunum og vandséð að kjósendur muni nokkurn tíma treysta aftur svokölluðum vinstri flokkum til að stjórna landinu. Afleiðingarnar eru örvænting, ráðaleysi og upplausn í samfélaginu, ekki síst meðal þeirra sem treystu best hinum svokölluðu vinstri flokkum í síðustu kosningum til að leiðrétta forsendubrest, tryggja réttlæti og auka jöfnuð.

Virðulegi forseti. Ég studdi vantrauststillögu á ríkisstjórnina vorið 2011 þar sem mér var þá orðið ljóst að hún mundi aldrei storka fjármagnseigendum með almennri skuldaleiðréttingu. Stjórnin hélt velli en hefur þurft á að halda stuðningi Hreyfingarinnar frá áramótum 2011/2012. Stuðningurinn var keyptur með loforði um samþykkt nýrrar stjórnarskrár. (Gripið fram í: Farðu nú rétt með.) Nú hefur utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafist og við erum að greiða atkvæði um vantrauststillögu hv. þingmanns Hreyfingarinnar. Ástæðan er svik ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna í stjórnarskrármálinu.

Frú forseti. Ég hef ekki stutt þessa ríkisstjórn síðustu tvö árin af annarri ástæðu. Ástæðan er hagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar í þágu fjármagnseigenda sem leitt hefur til aukinnar misskiptingar, sundrungar og örvæntingar hjá öllum þeim sem ná ekki lengur endum saman.[13:29]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þór Saari leggur fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina þegar innan við vika er eftir af starfstíma þingsins og stutt eftir af þessu kjörtímabili. Ég velti fyrir mér hvað hafi haft þau áhrif á ákafan stuðningsmann um samningu nýrrar stjórnarskrár, sem hv. þm. Þór Saari hefur verið, að hann skuli nú stíga það skref sem gerir það algjörlega ómögulegt að klára málið eða setja það í farveg inn á næsta kjörtímabil, mál sem hann hefur stutt svo dyggilega fram til þessa. Hvers vegna stillir hann sér upp við hlið sjálfstæðismanna sem hafa alltaf verið á móti því að þjóðin fái nýja stjórnarskrá, hafa gert lítið úr ferli málsins og þeirri miklu og góðu vinnu sem stjórnlagaráð, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og margir fleiri hafa lagt til svo verkið yrði sem best úr garði gert?

Virðulegur forseti. Þetta er mér hulin ráðgáta, en ljóst er hins vegar að sjálfstæðismenn fagna og vona að niðurstaðan verði sú að þjóðin fái ekki nýja stjórnarskrá með margvíslegum lýðræðisumbótum og ákvæðum sem tryggja meðal annars auðlindirnar í þjóðareign. Ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verður minnst sem ríkisstjórnarinnar sem tók við stjórn landsins við fordæmalausar aðstæður eftir stórkostleg hagstjórnarmistök sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Núverandi ríkisstjórn er sú sem endurreisti efnahag og samfélag okkar eftir hrun. Vorið 2009 veitti meiri hluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að glíma við efnahagserfiðleika og skapa jarðveg fyrir norrænt velferðarsamfélag ásamt því að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspori Íslands á alþjóðavettvangi. Verkin hafa verið krefjandi en að sama skapi hefur verið gefandi að sjá umtalsverðan árangur af þeim. Við hrunið komu veikleikar ríkisfjármálanna í ljós. Við höfum lært af biturri reynslu að slæm stjórn ríkisfjármála og peningamála hefur langvinn áhrif á efnahagsmálin, og velferðarþjónustu um leið, til hins verra.

Ástæða er til að gleðjast yfir árangri ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem náðst hefur, m.a. með styrkri stjórn og stefnu í ríkisfjármálum, frekar en að ræða hér um vantraust. Um árangurinn vitna tölulegar staðreyndir og umsagnir innlendra og erlendra sérfræðinga. Við höfum tekið á málum með skýrri forgangsröðun í þágu velferðar. Við höfum unnið á stórkostlegum vanda heimilanna eftir hrun, bæði með almennum og sértækum aðgerðum, farið eftir greiningum um mesta vandann og stutt barnafjölskyldur og þá tekjulægri með barnabótum og vaxtabótum til að mæta greiðsluvanda. Við höfum séð til þess að auðlindir þjóðarinnar skili arði til þjóðarbúsins og að byrðum sé skipt með sanngjarnari hætti. Við höfum styrkt rannsókna- og tæknisjóði og hlúð að vaxtarsprotum í atvinnulífinu og nýsköpun. Stjórnendur og starfsmenn innan ríkisstofnana hafa unnið þrekvirki að hagræðingu við að halda góðri þjónustu við erfiðar aðstæður. Við höfum komið þjóðarbúskapnum á þann stað að mögulegt er að skipuleggja framtíðina á traustum grunni, taka stefnuna fram á við og upp og skapa hér réttlátara þjóðfélag þar sem almannahagur er tekinn fram yfir sérhagsmuni og langtímasjónarmið fram yfir skyndilausnir.

Það er mögulegt vegna starfa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem rétt hefur við efnahag og samfélag eftir afleita hagstjórn þeirra stjórnmálaflokka sem nú fagna vantrauststillögu frá hv. þm. Þór Saari.[13:33]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum í raun tvær tillögur, annars vegar um vantraust á ríkisstjórnina og hins vegar um þingrof og nýjar kosningar. Ástæða þess að sú þingsályktunartillaga sem felur í sér þessar tvær tillögur er komin fram er tillaga frá hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni og Guðmundi Steingrímssyni og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur um að stjórnarskrárfrumvarpið eins og það liggur fyrir verði ekki afgreitt sem slíkt, heldur verði hluti þess afgreiddur til að hægt sé að þoka málinu áfram inn á næsta þing.

Virðulegur forseti. Ég tek undir tillögu þeirra þriggja vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að ekki sé tími til þess að ljúka því frumvarpi um breytingu á stjórnarskránni eins og það liggur nú fyrir þinginu. Engum dylst og hefur ekki dulist miðað við ræður mínar hér að ég er ekki sammála því ferli sem farið var í með stjórnarskrána. Þegar maður skoðar ýmis ákvæði í stjórnarskránni, eins og persónukjör sem væri ótrúlega áhugavert að vera fylgjandi, sá maður það gleggst í kosningu til stjórnlagaþings að af þeim 500 sem þar voru í persónukjöri náði fólk vítt og breitt á landsbyggðinni ekki eyrum þeirra sem greiddu atkvæði. Það voru þekkt andlit í fréttum sjónvarps og annars staðar sem náðu kjöri. Það var ekki „hin breiða fylking af landsbyggðinni“ og af höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna þurfum við að velta fyrir okkur hvort og þá hvernig við tökum upp og afgreiðum persónukjör.

Virðulegur forseti. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvað það þýðir og hvort við séum hlynnt því að jafna vægi atkvæða. Hvað þýðir það fyrir höfuðborgarsvæðið versus landsbyggðina? Það þarf að skoða frekar. Ég er hlynnt því og hef sagt það áður að auðlindir eigi að vera í eigu ríkis og í umsjón þess. Ég hef alla tíð verið hlynnt því og er það enn. Það er rangt sem fram hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla tíð staðið gegn því. (Utanrrh.: Alltaf.) Það er rangt, hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, og það verður ekki satt þó að þú gjammir endalaust í þá veru.

Virðulegur forseti. Það er ekki bara ágreiningur í þinginu við Sjálfstæðisflokkinn um breytingu á stjórnarskránni eins og samfylkingarmenn allir og vinstri grænir tala hér um. Það er bullandi ágreiningur um tillögurnar hjá fræðasamfélaginu, það er haldinn hver fundurinn á fætur öðrum vegna þess ágreinings sem er um það sem hér liggur fyrir. Svo leyfir fólk sér að segja að það sé þjóðarsátt um fyrirliggjandi frumvarp. Það er rangt. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem var ráðgefandi fyrir þingið og umfjöllun málsins var sagt að drögin ættu að liggja til grundvallar. Í mínum málskilningi er það ekki hið sama og að það eigi að samþykkja allt sem þar stendur. Það er bara ekki þannig en þess vegna er ég hlynnt þeirri tillögu sem fram hefur komið, að við reynum að ganga frá og klára ákveðna þætti til að hægt sé að halda áfram með stjórnarskrárfrumvarpið á næsta þingi.

Virðulegur forseti. Ég ber hins vegar ekkert traust til núverandi ríkisstjórnar, akkúrat ekki neitt, og er tilbúin að greiða atkvæði með vantrausti á þessa ríkisstjórn hvenær sem er þó að ekki sé nema vegna landsdómsmálsins, virðulegur forseti, og þess að stjórnarflokkarnir (Gripið fram í: Af hverju ljúkið þið ekki …?) tveir með aðstoð annarra þingmanna knúðu í gegn (Utanrrh.: Hann var harðastur …) (Forseti hringir.) hluti og meðal annars út af þætti Samfylkingar, hæstv. utanríkisráðherra, sem er flokknum til ævarandi skammar (Gripið fram í: Já.) sem og öðrum þingmönnum sem þar greiddu atkvæði. (Gripið fram í: … með í þeim hópi.) Steininn tók úr, hæstv. utanríkisráðherra, þegar síðan var gerð tilraun til að koma í veg fyrir það ódæði sem landsdómsmálið var, að draga til baka ákæruna á hæstv. þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde. Þá skilaði ríkisstjórnin auðu (Utanrrh.: Ekki utanríkisráðherra.) og þó að það sé ekki nema þess vegna, virðulegur forseti, vegna framgöngu þessara tveggja flokka í landsdómsmálinu, (Gripið fram í: Ekki …) nægir það mér til þess að segja já við vantrausti á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Svo mikið er víst og mér er slétt sama þó að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gjammi hér enn einu sinni og segist ekki hafa komið nálægt því. Hann er partur af þeirri Samfylkingu sem er í ríkisstjórn (Gripið fram í: Nei, nei.) og hann er partur af þeirri ríkisstjórn sem hér ríkir. (Gripið fram í.) Vantrauststillagan beinist að ríkisstjórninni. Það er ekkert óheiðarlegt við þetta, hæstv. utanríkisráðherra. Stundum færi þér betur að þegja. (Gripið fram í: Jah!) (Utanrrh.: Það var Geir Haarde …)

(Forseti (ÞBack): Gefið hv. þingmanni frið til að halda ræðu sína.)

Þess vegna, virðulegur forseti, enn og aftur, þó að það væri ekki nema fyrir framgöngu þessara flokka í því máli sem ég gerði að umræðuefni. Hæstv. utanríkisráðherra kallaði inn í þingsalinn en það er fjarri mér, virðulegur forseti, að nokkurn tímann á lífsleiðinni verði hv. þm. Þór Saari leiðtogi lífs míns. Þvílíkt bull. (Gripið fram í: Hann er orðinn það.) (ÓÞ: Hann er það í dag.) Þvílíkt bull. Ef það er ekki hægt að styðja vantraust á ríkisstjórnina öðruvísi en að hv. þm. Þór Saari — það þarf ekki hann til, virðulegur forseti, til að koma (Gripið fram í.) með vantrauststillögu á ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Hún hefur komið hér fram áður. Gjammar nú hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir. (ÓÞ: Hvar er ykkar vantrauststillaga?) Hún hefur komið fram, hv. þingmaður.

(Forseti (ÞBack): Gefið ræðumanni hljóð.)

Við skulum sjá hvað verður um þessa tillögu. Ég styð (Gripið fram í.) vantrauststillögu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. (Utanrrh.: Og Þór Saari.) Ef ég gæti, hæstv. utanríkisráðherra, mundi ég líklega styðja vantrauststillögu á Þór Saari. [Hlátur í þingsal.][13:41]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum vantrauststillögu hv. þm. Þórs Saaris og er þá rétt að ræða stormasamt kjörtímabil, staldra við og líta upp úr annríki undanfarinna ára. Þegar ég lít yfir farinn veg og verk þessarar ríkisstjórnar er ég stolt af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þjóðinni sem þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika er að rétta úr kútnum, hægt en örugglega. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar axlaði fordæmalaust verkefni, um það verður ekki deilt. 18 ára óstjórn Sjálfstæðisflokks, óhófið og græðgin færði okkur hagvísa sem allir bentu beint fram af hengifluginu. Ríkisfjármálin voru í kaldakoli, atvinnuleysið ógnvænlegt og þjóðin öll að sökkva í skuldir, heimilin, fyrirtækin og bankarnir, sveitarfélögin og ríkið. Allt var það í boði auðvaldsins sem allt í einu var orð sem aftur mátti nefna. Allt var breytt og ekkert varð eins og áður.

Virðulegur forseti. Öllu þessu hefur núverandi ríkisstjórn snúið við og meira til, ekki svo að skilja að allt sé leyst og öllum verkefnum lokið, fjarri því, en landið rís og það sér til sólar. Stærstu og mikilvægustu verkefnin hafa verið fyrir heimilin og fyrir komandi kynslóðir. Þau hafa snúist um varðstöðu um velferðarkerfið, að hlífa menntakerfi og heilbrigðiskerfi. Þau hafa snúist um að verja börn, námsmenn, fólk í umönnunarstörfum, fólk við kennslu, fólk sem sinnir öldruðum og sjúkum og það sem það þarf til að sinna hlutverkum sínum. Þessi forgangsröðun sést til dæmis á því að árin fyrir hrun, allt hið meinta góðæristímabil, lækkuðu framlög til tækjakaupa á Landspítala ár frá ári en hækkuðu á síðustu fjárlögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Kannski hefði verið freistandi fyrir einhvern að grípa til einkavæðingar og gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfi og þá freistingu hefði hægri ríkisstjórn tæpast staðist.

Skattkerfinu hefur verið breytt þannig að þeir sem úr minnstu hafa að spila borga lægri gjöld en áður, en þeir ríkari meira og þannig á það að vera. Jöfnuður hefur verið hafður að leiðarljósi og aukinn til muna, réttlátara skattkerfi er aðgerð fyrir heimilin í landinu.

Atvinna fer vaxandi. 110%-leiðin hefur gagnast ýmsum og vaxtabætur og viðbótarvaxtabætur hafa nýst mörgum sem glíma við miklar skuldir og eiga við greiðsluvanda að etja. Lánsveðshópurinn og þeir sem tóku lán á árunum fyrir hrun og urðu fyrir þyngstu höggi þurfa frekari aðgerðir og að þeim er unnið. Við lausnir þarf sanngirni, kjark og samstillt átak en ekki kanínur upp úr pípuhatti peningamanna.

Ríkisstjórnin, sem sumir kalla verklausa, hefur látið hendur standa fram úr ermum allt þetta kjörtímabil. Þar hafa mörg verkefni verið unnin og mikilvæg skref stigin í fjölmörgum málaflokkum. Þessi ríkisstjórn hefur haft kjark til verka og hugsað til langs tíma þrátt fyrir umfangsmikil verkefni í núinu. Stór skref hafa verið stigin í þágu nýrrar stjórnarskrár og þar er ákvæði um þjóðareign á auðlindum lykilatriði. Andstaðan við það ákvæði er andstaða við hagsmuni þjóðarinnar í heild, andstaða við hagsmuni komandi kynslóða og gamalkunnug varðstaða um sérhagsmuni.

Margt er eftir enn og því þarf að sinna. Gildin sem leiddu okkur í hrunið voru græðgi, hraði, skammsýni og áhættusækni. Af því þurfum við að læra. Nægjusemi, yfirvegun, framsýni og varúð þurfa að taka við, allt þættir sem einkenna hugsjónina um sjálfbæra þróun. Stórar skuldadrifnar lausnir leysa engan vanda. Blind hagvaxtarhyggja gerir það ekki heldur. Við erum þjóð sem hefur stundum gengið of hart á auðlindir sínar og þurfum að gæta að sjálfbærri nýtingu og auka hlutdeild hugvits og sköpunar í verðmætasköpun og velsæld samfélagsins. Ríkisstjórnin sýndi með kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina að þær væru ekki bara „eitthvað annað“ eins og stóriðjufíklarnir kölluðu þetta stundum í háðungartóni, heldur að hér er ein af undirstöðum hagsældar og velferðar og það þrátt fyrir áralanga vanrækslu fyrri ríkisstjórna.

Nú eru sumir aftur farnir að tala um stórar lausnir og risaskref sem allt eiga að leysa og þá þurfum við að hafa varann á. Nú á aftur að ganga á náttúrugæðin, aftur að grípa í pilsfaldinn, aftur að leiða þjóðina í villur með gylliboðum og láta hana sjálfa borga allan reikninginn. Má ekki bjóða þér lægri skatta en líka meiri þjónustu? Viltu ekki fá hjá okkur betri lán og losna um leið við allar skuldir?

Höfum við heyrt eitthvað af þessu áður? Erum við ekki enn að borga reikninginn síðan síðast og eigum enn töluvert í land?

Virðulegur forseti. Aukinn sveigjanleiki í ríkisfjármálum nýtist heilbrigðiskerfinu og hann þarf að koma fram í kjörum aldraðra og öryrkja. Menntakerfið þarf að njóta góðs af, menningin þarf að blómstra og okkar góða velferðarkerfi að eflast á ný án einkavæðingar og án gjaldtöku sem mismunar fólki eftir efnahag.

Við sem höfum staðið vaktina í ríkisstjórn og á Alþingi erum í þjónustu við almenning. Við þurfum að hlusta og íhuga hvert skref á hverju sem gengur og þess vegna er líka mikilvægt að hér ráði áfram ferðinni heildarhagsmunir og almannahagur, sanngirni og réttlæti til framtíðar á meðan þjóðin öll og samfélagið er að jafna sig eftir efnahagshrun og þrengingar, eftir bóluhagkerfi og ójöfnuð liðinna ára. Það sem við þurfum síst á að halda er að hefja aftur til vegs og virðingar rányrkju og gagnrýnislaus peningasjónarmið. Nú er tími til að standa saman, þjóðin öll, um góðu gildin, þau sem raunverulega skipta máli. Þess vegna þurfum við áfram vinstri stjórn þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sterka rödd.

Ég hvet til þess að þingheimur felli vantrauststillögu Þórs Saaris. (ÁI: Heyr, heyr.)[13:47]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er hægt að velta því fyrir sér af hverju komið sé með vantrauststillögu þegar þingið á að ljúka störfum í þessari viku samkvæmt starfsáætlun.

Tilefni þessarar tillögu er stjórnarskrármálið og ég held að hægt sé að ná samstöðu um breytingar á stjórnarskránni. Ég held að í þessum sal sé hægt að ná breiðri samstöðu þvert á flokka um breytingar á stjórnarskránni. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að síðustu daga þingsins ættum við að leggja miklu þyngri og meiri áherslu á málefni eins og stöðu heimilanna og atvinnuuppbyggingu. Það hefur til að mynda verið sárt að fylgjast með því hvernig skuldastaða heimila og annað því um líkt hefur nánast ekki fengið neina athygli stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar á þessum síðustu dögum og vikum þingsins. Hrægammasjóðir eiga orðið bankakerfi landsins. Það hefur ekki verið vilji til þess að setja þak á verðtrygginguna á þessu kjörtímabili þrátt fyrir að hugmyndir þar að lútandi hafi komið frá Framsóknarflokknum, Hreyfingunni og fleiri flokkum á þinginu.

Við höfum horft upp á það að skorið hefur verið gríðarlega niður í heilbrigðiskerfinu. Landspítali – háskólasjúkrahús hefur tekið á sig 20–30% niðurskurð frá hruni og við sjáum að flótti starfsfólks heldur áfram úr heilbrigðiskerfinu til útlanda. Við höfum líka horft upp á það að skorið hefur verið gríðarlega niður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, til heilbrigðisstofnana í hinum dreifðu byggðum landsins.

Í alþjóðlegum samanburði hefur umgjörð í kringum íslensk fyrirtæki dalað mjög mikið á síðustu árum eftir hrun og gerir það enn ár frá ári. Það stafar meðal annars af pólitískri óvissu, sem er að verða vaxandi neikvæður þáttur í atvinnurekstri, og tíðum skattkerfisbreytingum. Í alþjóðlegum samanburði föllum mjög hratt niður og það er mikið áhyggjuefni fyrir Ísland.

Íslendingar hafa þó á þessu kjörtímabili getað sýnt mikla samstöðu. Það sýndi þjóðin í Icesave-málinu. Þar sýndi hún mikla samstöðu og þar sýndum við þá festu sem getur búið í íslensku samfélagi. Það er þessi sama staðfesta sem þarf að sýna í stórum og mikilvægum málum eins og atvinnumálum og skuldamálum heimilanna. Það þarf staðfestu í þessum málum. Við þurfum í þinginu og utan þingsins að leita meiri sátta í stórum málum. Forsenda endurreisnar íslensks samfélags er aukin sátt og aukin samstaða. Sáttin hlýtur þá að byggja á því að við ætlum í sameiningu að byggja landið.

Höfum það til hliðsjónar að við lok næsta kjörtímabils lætur nærri að Ísland hafi verið fullvalda í 100 ár. Ef við horfum til baka í þann reynslusjóð sem þessi tími er, lærum af honum og horfum til þess góða sem gerðist á þessum tíma, einbeitum okkur að öðrum vinnubrögðum, tökum höndum saman í auknum mæli, höfum við mikla möguleika á því að gera Ísland að einu eftirsóknarverðasta landi í heimi til að búa í. Við Íslendingar eigum gríðarleg sóknarfæri og við nýtum þau ekki nema um það myndist breið sátt og ekki bara á Alþingi, heldur líka úti í þjóðfélaginu. Alþingi er fyrirmyndin og við eigum að leita eftir því að mynda breiða sátt, hvort sem er í þeim stóru málum sem ég nefndi eða breytingum á stjórnarskrá.

Sú vantrauststillaga sem verið er að ræða hér snýr að því hvort Alþingi sé tilbúið að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Þann þátt í tillögunni sem fyrir liggur styð ég. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og málefnaáherslur í stórum málum á þessu kjörtímabili sýna að það er full ástæða til að styðja þann þátt þingsályktunartillögunnar sem snýr að því að lýsa vantrausti á þessa ríkisstjórn.[13:51]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hvort á nú einn þingmaður að hlæja eða gráta þegar hann horfir upp á nýjan leiðtoga stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, hafa formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til fylgdar við sig í fáránlegustu vantrauststillögu Íslandssögunnar? Það var kannski ástæða til að láta reyna á stuðning við ríkisstjórnina þegar óvissa var uppi um stöðu stjórnarskrármálsins fyrir nokkru. Þá kaus hv. þingmaður hins vegar að draga tillögu sína til baka. Nú hefur formaður Samfylkingarinnar haft frumkvæði að því að koma stjórnarskrármálinu í farveg og tekist samstaða með Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Vinstri grænum um að bjóða stjórnarandstöðunni sáttarhönd í því hvernig með málið skuli áfram farið. Þegar málið er nú komið í farveg kýs hv. þingmaður að flytja vantrauststillöguna.

Og um hvað flytur hv. þingmaður vantrauststillöguna? Hann flytur vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands. Stjórnarskrármálið er hins vegar flutt á Alþingi. Það er í meðförum á Alþingi og ef það gefur tilefni til vantrausts á einhvern gefur það tilefni til vantrausts á Alþingi. Hvert er þá ráð hv. þingmanns þegar andstaða Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er jafnmikil og raun ber vitni? Ráð hv. þingmanns er að það eigi að leiða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til valda í ríkisstjórn Íslands. Og hvað gera Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn þegar þingmaður kvartar yfir því að aðrir þingmenn séu ekki tilbúnir að beita þessa stjórnmálaflokka ofbeldi sem ekki hefur verið notað síðan 1949? Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn styðja auðvitað þennan hv. þingmann og leggja meira að segja til að Hreyfingin taki sæti í ríkisstjórn því að það er, eftir því sem mér skilst, hluti af þeirri tillögu sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn styðja hér í dag.

Um hvað er tillagan enn fremur? Hún er um það að efna til kosninga. En kosningar eru þegar hafnar. Þessi málatilbúnaður allur er með slíkum ólíkindum að það hlýtur að verða öllu fullorðnu fólki til nokkurrar umhugsunar að 63 þjóðkjörnir fulltrúar þurfi að eyða tíma sínum í að ræða þetta mál. (Gripið fram í: … þjóðaratkvæðagreiðsluna?) Enn sérkennilegra er að upplifa það hversu margir þjóðkjörnir fulltrúar ætla sér að styðja málatilbúnað sem er með þessum endemum. Auðvitað á ekki að lýsa vantrausti á þá ríkisstjórn sem hér hefur, ásamt íslensku þjóðinni, endurreist þetta samfélag frá hruni. Auðvitað eigum við að fagna þeim árangri sem náðst hefur, þeirri efnahagslegu uppbyggingu sem hafin er. Hér aukast tekjur þjóðarinnar, hér vex kaupmáttur fólks, hér dregur úr atvinnuleysi. Það mætti auðvitað gerast hraðar, en við skulum vara okkur á snákaolíusölumönnunum. Það geta allir boðið 1% meiri hagvöxt. Það verður nóg af því þegar menn bjóða valkostina á næstu vikum þar sem flokkar munu bjóða 20% lækkun skulda, 30%, 40% — og nú erum við jafnvel komin fram með stjórnmálaflokka sem bjóða fólki fartölvur ef bara þeir eru kosnir. Og fyrr en varir munum við eflaust sjá í stjórnmálaumræðunni loforð um að menn fái farsíma ef þeir kjósa einhverja tiltekna flokka eða ferðir til Kanaríeyja eða eitthvað þaðan af (Gripið fram í.) ábyrgðarlausara. (Gripið fram í.)

Þetta á ekki að taka tíma þingsins. Stjórnarandstöðunni hefur verið rétt sáttarhönd af stjórnarflokkunum og Bjartri framtíð. Við eigum að ná saman um breytingar á stjórnarskránni. Hafni stjórnarandstaðan þeirri sáttarhönd hlýtur málið að koma á dagskrá á ný. Í 13 ár hafa menn rætt það að íslenska þjóðin (Forseti hringir.) fái að lýsa eign sinni á auðlindum landsins. Hún hefur sjálf kveðið upp úr um það í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel að meiri hlutinn hafi lýðræðislegt umboð til að ljúka þjóðareign á auðlindir með hvaða þeim ráðum sem tiltæk eru í þingsköpum.[13:56]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegur forseti. Vorið 2009 var sagt marka upphaf nýrra tíma á Íslandi. Gamla Ísland var að sögn í öskustónni. Nú skyldi taka til hendinni og marka nýtt upphaf, fyrsta norræna velferðarstjórnin var sögð komin að völdum.

Skjaldborg um heimilin var boðuð og loforð gefin um að nú skyldu þau verða í forgrunni, ekki fyrirtækin eða stórútgerðin eins og verið hefði. Nú skyldu vinstri menn loksins ná að setja áherslur sínar í forgrunn.

Fyrsta hreina vinstri stjórnin á Íslandi ætlaði að brjóta upp hefðir og venjur, endurskrifa stjórnarskrána og leggja þar áherslu á hugðarefni sín. Einkaeignarrétturinn átti að fá minna vægi en félagsrétturinn, þjóðarviljinn meiri. Vinstri menn og róttæklingar hrósuðu sigri og sögðu borgaraleg öfl hafa beðið skipbrot. Hið nýja Ísland skyldi markað af hugsjónum vinstri manna og róttæklinga.

Fyrsta breytingin í takt við þessi fyrirheit var gerð við þingsetningu vorið 2009. Breytingin var ekki stór en hún var táknræn. Karlmenn á Alþingi skyldu ekki lengur vera með hálstau í þingsal, hálstau væri merki um borgaralegan hugsunarhátt, hugsunarhátt sem tilheyrði gamla Íslandi.

Eftir hrunið 2008 var brýnasta verkefni stjórnvalda að koma efnahagslífinu aftur af stað til að tryggja og bæta kjör hins almenna manns á Íslandi. En hvað blasir við? Skattar hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi og ráðstöfunartekjur heimilanna þannig lækkaðar. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar benda reyndar á að um 60 þús. manns borgi nú lægri skatta en áður. Það er rétt. Tekjur hafa lækkað. Fólk gengur um atvinnulaust og fólk er flutt til útlanda í tilraun til að sjá sér og sínum farborða. Það er einfalt að sýna fram á að vegna þess að fólk hefur lægri tekjur borgar það lægri skatta. Ríkisstjórnin segir því ósatt þegar hún heldur því fram að skattbyrði hafi lækkað vegna góðviljaðra aðgerða hennar.

Fjárfesting er sú minnsta á lýðveldistímanum. Það er vegna hringls ríkisstjórnarinnar í skattumhverfinu, vegna þess að hún stendur ekki við gerða samninga. Fjárfestar hafa ekki trú á Íslandi. Fjárfestingu sem ríkisstjórnin hefur vanrækt fylgja hins vegar ný störf, hagvöxtur og bætt lífskjör.

Pólitísk áhætta er á pari við það sem þekkist í ríkjum Norður-Afríku, Rússlandi og Kína samkvæmt erlendum rannsóknastofnunum. Þetta hefur leitt til þess að fjárfestar vilja ekki fjárfesta á Íslandi. Ráðherrar tala feimnislaust um þjóðnýtingu eigna útlendinga, stjórnarþingmenn tala um að eignarréttinn eigi að skerða. Hver ætti að vilja hætta fjármunum sínum í slíku fjárfestingarumhverfi?

Ríkisfjármálin eru í algerum ólestri. Enron-bókhald er stundað og árangurinn allur ýktur og skrumskældur. Sagt er að hallinn hafi batnað um hundruð milljarða. Þar er litið fram hjá þeirri staðreynd að um einskiptiskostnað var að ræða vegna hruns bankakerfisins. Undirliggjandi rekstur er hins vegar í molum og mikið verk fyrir höndum að koma honum í lag.

Allan pólitískan vilja hefur vantað til að afnema gjaldeyrishöftin. Höftin ala á misskiptingu og því lengra sem líður, því erfiðara er að afnema þau. Hér hefur ríkisstjórnin algerlega brugðist.

Vinstri menn og róttæklingar notuðu tækifærið á valdastóli til að halda pólitísk réttarhöld. Það ráðslag verður þeim til ævarandi skammar.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvernig fyrsta hreina vinstri stjórnin hefur haldið á málum síðustu fjögur árin.

Virðulegi forseti. Það voru fögur fyrirheit sem vinstri menn og róttæklingar gáfu viðhlæjendum sínum vorið 2009. Nú, fjórum árum síðar, virðist árangur fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar á Íslandi vera sá helstur að karlmenn þurfa ekki lengur að ganga með hálstau í þessum sal. Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir vinstri menn og róttæklinga. Óánægjan kemur skýrt fram þegar horft er yfir liðsheildina. Samstaðan, skjaldborgin, einhugurinn sem boðaður var vorið 2009 birtist í því að nú hafa 22 stjórnmálahreyfingar tilkynnt framboð til næstu alþingiskosninga. Af þessum 22 framboðum eru 19 á vinstri vængnum.

Vantraust það sem hér er boðað er stutt þeim rökum að fyrstu hreinu vinstri stjórninni hafi mistekist að umbylta grunnlögum okkar Íslendinga, hún hafi játað sig sigraða. Ég styð þetta vantraust, en ekki vegna þeirra ástæðna sem hv. þm. Þór Saari ber fram. Ég styð þessa tillögu vegna þess að stjórnin er óhæf til að stjórna landinu. Efnahagsmálin eru í rúst og stjórnin stundar fúsk í lagagerð. Það er þess vegna sem ég styð þessa tillögu, ekki vegna rakanna sem flutningsmaður ber fram. Þau tel ég ótæk.

Virðulegi forseti. Ég styð (Gripið fram í.) þetta vantraust á þessa ríkisstjórn.[14:02]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við höfum séð margt undarlegt á Alþingi Íslendinga undanfarna daga, mánuði og missiri. Ég held að þessi vantrauststillaga sé sennilega það furðulegasta og það fjarstæðukenndasta sem hér hefur verið borið á borð, eins og umræðan um hana hefur sýnt. Málflutningur stuðningsmanna tillögunnar hefur verið stórbrotinn hér í dag, algerlega.

Hv. þm. Þór Saari endurflytur afturkallaða tillögu sína um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Nú hefur að vísu tillagan tekið þeim breytingum að horfin eru út orðin „eigi síðar en 28. febrúar 2013“ enda er sá dagur liðinn og sömuleiðis að það eigi að kjósa 13. apríl vegna þess að tillagan er orðin enn fáránlegri en hún var þegar hún kom fram. Það er búið að ákveða kjördag, það er hafin utankjörstaðaatkvæðagreiðsla og örfáir dagar eftir af starfstíma Alþingis. Einhver stjórn þarf væntanlega að sitja í landinu fram að kosningum. Þetta er stórbrotið.

Í öðru lagi er hér lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórnina. Vegna hvers? Vegna þess að frumvörp sem meiri hluti þingnefndar flytur fá ekki þann framgang í þinginu sem hv. þingmaður telur persónulega að þau eigi að fá, einn af 63, talandi um umboð annarra hér í dag. Af hverju er ekki flutt vantraust á þingnefndina eða á Alþingi sjálft? Af hverju á ríkisstjórn sem er ekki með þetta mál? Þetta er fáránleiki. Auðvitað ætti hv. þingmaður, og út á það hefur allur málflutningur hans gengið, að flytja hér vantrauststillögu á Sjálfstæðisflokkinn ef það væri tæknilega hægt. Þetta er auðvitað vantraust á Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að það er hann sem kemur núna, 2013, eins og 2009 og 2007 í veg fyrir að við komumst lönd eða strönd í stjórnarskrármálinu. (JónG: Segðu nú satt frá.) Þetta er svona, við þekkjum þessa sögu sem höfum setið í stjórnarskrárnefndum og verið á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn kemur alltaf úr kafinu í lokin og kemur í veg fyrir að við komumst lönd eða strönd með stjórnarskrána vegna þess að það á ekki að breyta henni nema eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa hana. (Gripið fram í.) Það er eitt hérna í þessu öllu saman, (Gripið fram í.) 100, 200, 300 ára gömlum átökum í vestrænum stjórnmálum, það er einkaeignarrétturinn sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um. En svo ber við að hv. þm. Þór Saari flytur ekki vantraust á Sjálfstæðisflokkinn, nei, hann er með Sjálfstæðisflokkinn með sér í þessu. Það er það stórkostlega.

Tillagan gengur út á tvennt, að lýsa vantrausti á ríkisstjórn og kjósa, sem hvort eð er er búið að ákveða. Það dásamlegasta er að síðan á að mynda ríkisstjórn allra flokka. Það á bara að mæla fyrir um það, hvað sem tautar og raular, að í næstu ríkisstjórn skulu sitja þingmenn allra stjórnmálaflokka, þar með talinn væntanlega hv. þm. Þór Saari sem hlýtur að hafa augastað á einhverju ráðuneyti þessa daga fram að kosningum vegna þess að það eiga að vera menn frá öllum flokkum.

Þetta er stórbrotið. Tillagan gengur út á að leiða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn strax til valda, núna, fyrir kosningar, fara með þá inn í ríkisstjórn. (Gripið fram í: Talaðu nú …) Það segir sína sögu (ÞSa: Talaðu um …) um botnleysið í þessu öllu saman. Stjórnarandstaðan og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þetta mál sem er tilefni vantraustsins. Engu að síður hengja þeir sig hér aftan í forustu hv. þm. Þórs Saaris. Þeir gera hann, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, að hinum nýja leiðtoga sínum. Hann er orðinn yfirformaðurinn. Til hamingju, Bjarni Benediktsson, hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins. Til hamingju, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, með nýja yfirformanninn, hv. þm. Þór Saari. (Gripið fram í.) Þríeykið, það er komið nýtt þríeyki fram í íslenskum stjórnmálum. (GBS: … er þó ekki …) Hv. þm. Þór Saari er yfirformaður og varaformenn eru hv. þm. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þetta er stórbrotið.

Síðan koma hér stjórnarandstæðingar og segja: Já, en við er erum alls ekkert að greiða atkvæði á þessum forsendum, við erum að greiða atkvæði um einhverja allt aðra tillögu sem við flytjum að vísu ekki sjálfir heldur fær andúð okkar á ríkisstjórninni far með tillögu hv. þm. Þórs Saaris um allt annan hlut.

Síðan tala stjórnarandstæðingar inn í sinn heimatilbúna veruleika íslenskra stjórnmála eins og núverandi ríkisstjórn hafi tekið við góðu búi, hún sé að glutra niður glæstum árangri fyrri ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur eiginlega að vera því að svona tala menn ekki í vitrænni umræðu þar sem raunheimurinn ræður málflutningi manna, nema þetta sé svona. Halda menn að þjóðin kaupi þetta? Ég held ekki. Ég spái því að íslenska þjóðin muni ekki hafa áhuga á því að láta sömu menn ljúga að sér aftur, þá hina sömu og lugu að þjóðinni fyrir hrunið, árum saman, en það er það sem verið er að bjóða upp á. Nú á að trúa (Gripið fram í.) gylliboðum mannanna sem höfðu öll völd í landinu í hátt í tvo áratugi og skildu við það í kaldakoli. Nei, nú ætlum við að gera þetta vel, nú má trúa okkur, segja þeir hérna, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég spái því að það verði ekki þannig, ýmislegt mun rifjast upp á þessum sex vikum sem eftir eru fram að kosningum.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur lokið því sem hún tók að sér númer eitt, tvö og þrjú. Það var að forða Íslandi frá gjaldþroti, það var að koma ríkissjóði aftur í lag og það var að fara með samfélagið eins vel í gegnum þessa erfiðleika og mögulegt var og það höfum við gert. Það viðurkennir allur umheimurinn sem horfir á Ísland og metur það út frá viðurkenndum mælikvörðum. Það er bara lítill heimatilbúinn veruleiki Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í seinni tíð, undir stjórn konsertmeistara hrunsins, ritstjóra Morgunblaðsins, Davíðs Oddssonar, sem viðurkennir það ekki. Það er undarlegt að sjá þessa meðvirkni Sjálfstæðisflokksins enn þann dag í dag. (Gripið fram í.) Mikill er máttur sprotans sem Davíð Oddsson heldur í hendi sér og sveiflar og þeir hlaupa allir til eins og litlir drengir — nema nú er kominn annar konsertmeistari, hv. þm. Þór Saari. Það verður gaman að sjá hvernig göngulagið verður undir tvíeykisstjórn þeirra Davíðs Oddssonar og hv. þm. Þórs Saaris. (ÞSa: Talaðu nú um þjóðaratkvæðagreiðsluna.)

Að lokum vil ég, frú forseti, taka undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem fordæmdi (Forseti hringir.) árásir á fráfarandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Það skal verða þeim smámennum (Forseti hringir.) til skammar sem nota hérna síðustu dagana í að ráðast á hana. Þeir verða fótnóta í íslenskri stjórnmálasögu (Forseti hringir.) þar sem hlutur Jóhönnu Sigurðardóttur verður stór. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÞBack): Þegar komið er að síðustu ræðum verður að gæta að ræðutíma.)[14:10]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að oft er órói í aftursætinu og síðasta ræða bar þess glöggt merki að ekki eru allir rólegir þegar þeir eru komnir aftast í bílinn. En mér þótt mjög slæmt þegar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fór að brigsla framsóknarmönnum um að ljúga. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi. Maður sem stóð hér og talaði um Icesave úr þessum ræðustól. Það er skráð í þingtíðindi hvað orð hans þýddu þá. Hver voru kosningaloforð Vinstri grænna fyrir síðustu alþingiskosningar? Hvað með ESB og hvað varð um ESB? Hæstv. ráðherra þarf að standa skil á því og mun að sjálfsögðu gera það í næstu kosningum.

Frú forseti. Tillaga hv. þm. Þórs Saaris á fyllilega rétt á sér en hún kemur fram á röngum tíma og röngum forsendum. Það er staðreynd málsins. (Gripið fram í.) Forsendurnar eru einfaldlega rangar fyrir þessari tillögu, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur átti að fara frá fyrir löngu. Þegar ljóst varð að hún ætlaði ekki að standa með heimilunum því að hún ætlaði ekki að reisa við atvinnulífið átti ríkisstjórnin að fara frá, þegar tækifærunum var glutrað til að endurreisa Ísland. Þessu glutraði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, því miður. Hún ákvað að nota það svigrúm sem var til við að endurreisa íslensku bankana, láta bankana, fjármálaliðið hafa peningana, hafa svigrúmið, ekki heimilin og ekki fyrirtækin. Fyrir það verður hennar minnst. Það er því miður staðreyndin.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði að sjálfsögðu fengið fleiri vantrauststillögur á sig ef Hreyfingin og Björt framtíð hefðu ekki varið ríkisstjórnina í þessum sal, hefðu ekki varið hana úti í samfélaginu og í nefndum. Nú er hins vegar ljóst, frú forseti, sem er mjög ánægjulegt, að við erum núna farin að sjá örlítið í eitthvert kosningabandalag ríkisstjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar sem ætla sér greinilega að starfa hér áfram að loknum kosningum því að þessir flokkar ætla sér að verja ríkisstjórnina falli í dag, þessir þrír flokkar. (Gripið fram í.) Það er algjörlega ljóst að þessir þrír flokkar ætla í kosningabandalag og Framsóknarflokkurinn verður ekki í því bandalagi, þannig að strax sé tekinn af allur vafi um það, ekki frekar en í bandalagi með öðrum flokkum [Kliður í þingsal.] svo að það sé ljóst. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það er mikill misskilningur á ferð hjá mörgum ræðumönnum hér, að stjórnarskrá Íslands hafi orsakað hrunið, að stjórnarskráin og breytingar á henni muni laga stöðu íslenskra heimila og koma fyrirtækjum og atvinnulífinu af stað aftur. Það er mikill misskilningur. Það hefði farið betur ef stjórnvöld hefðu notað tímann og fjármunina í að vinna að þessum brýnustu málum samfélagsins. Nei, stjórnvöld ákváðu að eyða á annan milljarði króna og miklum tíma þings og þjóðar í að breyta stjórnarskrá sem hafði ekkert með mikilvægustu atriðin að gera, ekki neitt. Það er sorglegt, frú forseti, að sjá hvernig þessum tíma hefur verið varið.

Hver ættu viðfangsefnin að vera í dag? Það er að sjálfsögðu að taka á verðtryggingunni og leiðrétta skuldir heimilanna eins og talað hefur verið um síðan 2009. Það viðurkenna flestir í dag, því miður ekki allir, að fara átti þá leið sem Framsóknarflokkurinn lagði til með almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna. Það átti að fara þá leið en því tækifæri var kastað á glæ. Það er ekkert útilokað enn þá að fara í slíkar aðgerðir, það er bara ekkert útilokað, en menn þurfa að hafa opinn hug og vilja til þess og það hafa núverandi stjórnvöld ekki.

Svo við tölum aðeins um verðtrygginguna. Í þingnefnd er frumvarp þingmanna Framsóknarflokksins um það hvernig megi hamla eða taka á því fyrirbæri sem verðtryggingin er, t.d. með því að setja á hana þak til að gera bönkum og fjármálastofnunum erfitt að eiga mikið magn af verðtryggðum lánum og til að takmarka tengsl ríkissjóðs þegar ríkisstjórnin hækkar gjöld að tengja þau við vísitölu. Af hverju er þetta mál ekki afgreitt úr nefnd? Af hverju er það ekki afgreitt hér á síðustu dögum þingsins í staðinn fyrir að vera að þvarga um þessa stjórnarskrá sem engu breytir um stöðu heimilanna eða framtíð þessa lands? Þetta er furðuleg forgangsröðun, frú forseti, og ég ætla að leyfa mér að mótmæla henni harðlega.

Það sem er hins vegar fram undan er að koma með tillögur á næstu vikum og mánuðum sem verða kosningatillögur um hvernig við ætlum að koma hér hjólum atvinnulífsins af stað, hvernig við ætlum að auka hagvöxt sem er að (Gripið fram í.) hruni kominn og til hvers og hvernig við ætlum að koma í veg fyrir að hæstv. utanríkisráðherra sitji áfram í þeim stól sem hann situr í með það að markmiði að vinna ekki fyrir heimilin og ekki fyrir atvinnulífið. Það er verkefnið á næstunni. (Gripið fram í.)

Við munum setja fram tillögur sem eru trúverðugar og munu ganga upp vegna þess að ekkert skiptir jafnmiklu máli á næstunni og það að koma hjólum atvinnulífsins af stað og lækka skuldir heimilanna þannig að þau geti verið virkur þátttakandi í efnahagslífi landsins. Á því hefur þessi ríkisstjórn klikkað, hún hefur ekki haft áhuga á því, hún hefur haft tækifæri, hún hefur haft tillögur, fjöldann allan af tillögum sem ekki komu frá henni til að vinna eftir en hún kaus að gera það ekki. Hún kaus að sinna engu. Hún ákvað hins vegar að styrkja fjármálageirann eins og stjórnarliðar vildu og gera gjarnan, sérstaklega Samfylkingin. Hvað með bóluhagkerfið 2007–2008? Var það ekki í boði Samfylkingarinnar sem vildi auka útrásina? (Forseti hringir.) Er það þetta sem við viljum, frú forseti? Nei, við þurfum að horfa á heimilin og við þurfum að horfa til atvinnulífsins.[14:15]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur um margt verið sérstök. Hún hefur kannski öðru fremur einkennst af loforðalista helmingaskiptaflokkanna sem lofa nú öllu fögru í aðdraganda kosninga. Vonandi mun nú almenningur og fjölmiðlar ekki bregðast hlutverki sínu og rýna vel í þær tillögur sem fram eru komnar um ís fyrir alla, nammi alla daga og engar skemmdar tennur.

Virðulegi forseti. Þegar Framsóknarflokkurinn stígur fram og lofar því að afnema verðtrygginguna þá er það líklega það allra vitlausasta sem hægt er að gera vegna þess að mikilvægt er fyrir heimilin í landinu að hafa valkosti um lánamöguleika sína. Fólk þarf að geta valið á milli þess að taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán. Aukinheldur ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að koma fram með neinar skýrar tillögur um það hvernig beri að afnema verðtrygginguna, þeir ætla að skipa nefnd og hún á að skila í september.

Virðulegi forseti. Það hefur líka verið sérstakt í þessari umræðu að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks koma nú fram í skjóli hv. þm. Þórs Saaris. Það allra sérkennilegasta er kannski sú staðreynd að hv. þm. Þór Saari leggur vantrauststillöguna fram á grundvelli þess að ekki hafi nægum árangri verið náð í stjórnarskrármálinu en vísasta leiðin til að rústa ferli stjórnarskrármálsins er einmitt að samþykkja tillöguna.

Mig langar að beina sjónum mínum, virðulegi forseti, að þeirri sáttatillögu sem liggur fyrir þinginu og er til umræðu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar er verið að tala um tvær hugmyndir. Annars vegar þann möguleika að geta breytt stjórnarskránni á næsta kjörtímabili ef næg sátt myndast um það í þessum sal, 60% þingmanna styðji þá breytingu, og hitt að 60% þjóðarinnar séu sátt við þá breytingu sem lögð er til á stjórnarskrá. Sá möguleiki er til staðar en áfram er hægt að breyta stjórnarskránni eftir því breytingarákvæði sem er í gildi í dag. Þannig er þess freistað að fullkanna á Alþingi Íslendinga, sem kosið verður eftir nokkrar vikur, hvort þingmenn séu í raun og veru tilbúnir til að vinna saman að því að breyta stjórnarskránni.

Hér er verið að bjóða upp í dans af hálfu formanna Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar og nú er spurningin hvort þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem tala mikið um sátt og samvinnu, betri vinnubrögð og meiri tíma, standi í raun og veru við þær fullyrðingar sínar. Meina þeir það sem þeir eru að segja? Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að breyta stjórnarskránni? Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að fylgja þjóðarviljanum sem kom fram 20. október, þar sem þjóðin kvað skýrt á um að hún vildi heildarendurskoðun stjórnarskrár byggða á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs?

Menn geta trútt um talað, komið hér í ræðustól á hátíðisdögum, í eldhúsdagsumræðum og talað um mikilvægi þess að ná sátt og samvinnu; heildarendurskoðun skuli vinna hér í samvinnu allra stjórnmálaflokka. Nú hafa menn tækifæri til þess að mæta til leiks og koma með okkur í verkefnið. Er einhver dugur í leiðtogum stjórnarandstöðunnar? Eru þeir tilbúnir til að taka í þá sáttarhönd sem fram hefur verið rétt? Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að breyta stjórnarskránni, í alvöru talað? Nú hafa menn tækifæri til þess að koma með í það verkefni, í raun og veru einstakt tækifæri.

Nú er það bara spurningin, boltinn er kominn til þeirra: Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að framfylgja þjóðarviljanum? Við erum tilbúin í það, við erum tilbúin til að skipa nefnd fagmanna sem tekur þær hugmyndir sem unnið hefur verið með og heldur áfram og kemur svo með tillögu til þingsins þar sem við getum leitað leiða til að ná sátt, 2/3 eða 3/4 eða 3/5 hlutar þingmanna geta staðið á bak við þá tillögu. Við erum að opna á þann möguleika að leita að sátt meðal þjóðarinnar. Nú stendur það eiginlega upp á þá þingmenn sem hvað harðast hafa talað um mikilvægi þess að ná sátt um breytingar hvað þeir vilja í raun og veru gera. Í hvað eru þeir tilbúnir? Eru þeir tilbúnir til að koma með okkur í það verkefni á næsta kjörtímabili að breyta stjórnarskrá Íslands?[14:19]
Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Það hefur um margt verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu. Meira en 30 þingmenn hafa talað hér og því miður hafa flestir þeirra flutt fremur marklitlar kosningaræður, ýmist að litlu eða öllu leyti, og mjög fáir hafa talað um vilja þjóðarinnar og sérstaklega þá þingmenn stjórnarliða.

Þeir hafa lítið viljað tala um það að þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að fá þessa stjórnarskrá með yfirgnæfandi meiri hluta. Formaður Samfylkingarinnar, formaður Vinstri grænna og formaður Bjartrar framtíðar hafa ákveðið að hunsa þá þjóðaratkvæðagreiðslu, þeir hafa lítið viljað minnast á það.

Frú forseti. Rökstuðningur þeirra var sá, að ekki væri nægur tími til að afgreiða málið. En það er yfirdrifið nægur tími og hefur alltaf verið ef menn einfaldlega vilja. Það er ekkert mál að afgreiða þetta mál á einni viku. Menn voru búnir að tala hér um fjárlögin í næstum því 50 klukkutíma þegar allir voru löngu búnir að fá upp í kok af þeirri umræðu. Það er nægur tími til að klára 2. umr. um stjórnarskrána og klára málið, ef menn vilja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Tilvitnun hv. þm. Róberts Marshalls, um þorpið sem þurfi að eyða til að bjarga því, má snúa upp á hann sjálfan með stuðningi hans við þessa tillögu. Tillaga hans og félaga hans, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, er einmitt að drepa málið í stað þess að bjarga því. Og þeir kollegar eru búnir að grafa undan því, vikum og mánuðum saman, leynt og ljóst. Það er útilokað að við hér á þinginu, eða hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og félagi, getum bundið hendur næsta þings, það er útilokað mál. Það vita þeir og því eru einhverjar aðrar ástæður að baki en látið er í veðri vaka.

Það eru engar líkur á því að svo verði. Og hvers konar ímyndun er það að betra samkomulag verði á Alþingi Íslendinga 28. apríl frekar en 27. apríl eða 11. mars? Hvers konar órar eru þetta? Þetta eru órar einir sem menn setja fram í einhverju rugli og ætla sér svo að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu með tárvot augu 17. júní 2014, nýja stjórnarskrá. Þetta fólk býr í einhverjum skáldsagnaheimi. Í stað þess að ræða hér af ábyrgð um nýja stjórnarskrá sem þjóðin vill koma menn fram með svona endemisvitleysu og fá til fylgis við sig formann Samfylkingarinnar og formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Forseti. Það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, yfir 67%, sagði já en lítill hópur manna á þingi ætlar að hunsa það. Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki var slétt sama um þjóðaratkvæðagreiðsluna og hafa að sjálfsögðu talað hana niður við hvert tækifæri en aðrir á þingi á sínum tíma virtust ætla að fara að vilja þjóðarinnar, að minnsta kosti framan af.

Því miður, frú forseti, hefur það komið í ljós enn einu sinni að Alþingi er um megn að breyta stjórnarskrá Íslendinga. Stjórnmálastéttin, sitjandi þingmenn, fjórflokkurinn, ræður málinu alfarið, vill ráða málinu alfarið og ætlar sér að ráða málinu alfarið. Þeir vilja ekki beint lýðræði, þeir vilja ekki auðlindaákvæði, þeir vilja ekki brotthvarf ráðherra af þingi, þeir vilja ekki persónukjör. Og það er athyglisvert í umræðunni í dag þar sem menn hafa verið að tala um auðlindaákvæði og persónukjör, að það var einmitt fulltrúi VG í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem barði það í gegn að auðlindaákvæðið er nánast orðið steingelt. Það er efnisbreytt og gjörbreytt frá því sem var í þjóðaratkvæðagreiðslunni að kröfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og það sama má segja um persónukjörið. Þó að ákvæði um það sé enn þá inni er það í útvatnaðri mynd. Það er ekki gagnslaust en það er alls ekki það sama og var ætlun stjórnlagaráðs á sínum tíma. Það er einnig að kröfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Það er komið í ljós, frú forseti, að stjórnmálastéttin, sitjandi þingmenn, fjórflokkurinn, vill ráða málinu alfarið. Það kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fyrr í dag að kjörið á stjórnlagaþing hefði ekki endurspeglað þjóðina og ekki fólk af landsbyggðinni. Því hefur oft verið haldið fram en það er algengur misskilningur. Það rétta er hins vegar að það var fullkomið hlutfall milli þeirra sem buðu sig fram til kjörs á stjórnlagaþings og þeirra sem voru kosnir á það. Það var jafnt hlutfall fólks af landsbyggðinni á stjórnlagaþingi og bauð sig fram til kosninga, þannig var það bara. Þó að þeir hafi verið allt of fáir í mínum huga var hlutfallið samt eðlilegt, þannig að það leiðréttist hér með.

Frú forseti. Þetta er ekki vantrauststillaga á störf ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu þó að af nægu sé að taka þar eins og fram hefur komið. Við í Hreyfingunni studdum þá vantrauststillögu sem kom fram fyrir tveimur árum. Þetta er vantraust vegna þess að lítil klíka á Alþingi vanvirðir fullkomlega niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október og þann vilja þjóðarinnar sem þar kom fram. Í stað þess að taka ákvörðun með þjóðinni á miðvikudeginum í síðustu viku, þar sem til stóð að hafa málið áfram á dagskrá, ákveða formenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar að loforðið við þjóðina skuli svikið, að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar skuli hent í ruslið. Í staðinn koma þeir fram með fullkomna óra um að við á þessu þingi munum binda hendur næsta þings og ákveða að það þing klári með einhverjum hætti stjórnarskrármálið. Eins og ég hef oft sagt áður eru þetta órar einir og settir fram til þess eins að blekkja.

Forseti. Það er einfaldlega að mínu mati fullkomlega siðlaust að slíkt fólk hafi völd og það er hættulegt lýðræðinu ef það verður framgangur mála í framtíðinni á Íslandi að þjóðaratkvæðagreiðslur séu afgreiddar sem merkingarlaus fyrirbæri vegna þess að lítill hópur fólks, stjórnmálastéttin, þingmenn, fjórflokkurinn, vill ekkert með þær hafa.

Forseti. Talað hefur verið um að síðari hluta þessarar tillögu sé um margt sérkennilegur. Þar er lagt til að þing verði rofið, efnt til kosninga og hér sitji ný ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi. Það er einfaldlega lagt til af minni hálfu og er fullkomlega eðlilegt vegna þess að ég tel að sú ríkisstjórn sem nú situr í umboði þingsins hafi ekkert með það að gera að sitja áfram, ekki deginum lengur. Þess vegna er einfaldlega lagt til að ný ríkisstjórn taki við, skipuð fulltrúum allra flokka á þingi, hverjir svo sem það verða. Það er hins vegar, samkvæmt stjórnarskipunarlögum sem við búum við í dag á valdi forseta Íslands að ákveða með framhaldið þegar þar að kemur. Það er hins vegar rangt sem fram kom frá hæstv. forsætisráðherra áðan að þessi tillaga sé ef til vill ekki þingtæk. Það var kannað hjá fræðimönnum, það var kannað hjá lögfræðingum og það var kannað hjá lögfræðingum Alþingis.

Það er sérkennileg afstaða að halda því fram að Alþingi Íslendinga megi ekki álykta eins og því sýnist en byggist kannski á því að sumt fólk hefur verið við völd aðeins of lengi. Það er fullkomlega eðlilegt að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina við þessar aðstæður og það er fullkomlega eðlilegt að vilja að sú ríkisstjórn sem situr í umboði meiri hlutans fari frá og finni sér eitthvað annað að gera frá og með síðdeginu í dag. Vonandi verður það.

Ég hef ekki óskað eftir, þegar ég vann þessa tillögu og lagði hana fram, stuðningi eins eða neins við hana og ekki reynt að afla henni stuðnings innan neins flokks á þingi, ekki hjá Sjálfstæðisflokknum, ekki hjá Framsóknarflokki og ég hef ekki leitað eftir stuðningi hjá félögum mínum í Hreyfingunni heldur. Ég hef lagt þessa tillögu fram sjálfur vegna þess að hjarta mitt býður mér að gera það. Mér finnst það algjörlega óþolandi og óboðlegt í lýðræðissamfélagi að á þingi skuli sitja meiri hluti sem vill stöðva framgang niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna legg ég tillöguna fram og þess vegna leyfi ég mér að höfða til sannfæringar og til samvisku þingmanna þegar kemur að virðingu fyrir þjóðinni, að þeir taki afstöðu með mér og samþykki þessa tillögu þannig að þing verði rofið og núverandi ríkisstjórn fari frá. Ég er ekki í neinum pólitískum keiluleik eins og margir aðrir. Eins og fram hefur komið hafa flestar ræður hér verið einhvers konar kosningaræður og ef ekkert kemur út úr þessum degi annað en það er það þó virðingarvert að hægt verður að aflýsa eldhúsdagsumræðum eftir tvo daga því að þær hafa þegar farið fram. [Hlátur í þingsal.]

Frú forseti. Þessi tillaga talar fyrir sig sjálf. Ég er stoltur af því að flytja hana en mér finnst hörmulegt að horfa á það að fulltrúar almennings á Alþingi, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, taki niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október, rífi hana í tætlur og hendi henni í ruslið vegna þess að einhverjir órar ráða ríkjum í höfði formanna Samfylkingar og Vinstri grænna, órar um að 28. apríl verði betra samkomulag á Alþingi um að afgreiða stjórnarskrá. Hvað hafa þeir fyrir sér í því? Hvað hafa þeir fyrir sér í því annað en eigin drauma um mikilmennsku? Ég spyr þá: Hvað hafa þeir fyrir sér í því? Það verður ekkert öðruvísi í framhaldinu nema ef til vill að einhver af nýju framboðunum, sem hafi þá siðvit til að bera, muni ná framgangi í kosningunum. Það er hins vegar þjóðarinnar að ákveða hvort hún vill fjórflokkinn áfram, hvort hún vill klíkuskapinn áfram. Vonandi tekst þjóðinni vel upp í þeim kosningum.

Frú forseti. Í greinargerð með þessari tillögu segir eftirfarandi, og það segir í raun allt sem þarf, með leyfi forseta — og ég lýk máli mínu þegar ég hef lokið við að lesa þetta:

„Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá.“[14:31]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum nú komin að lokum þessarar vantraustsumræðu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég tel að við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar höfum fært fyrir því gild rök í dag hvers vegna segja á nei við þeirri tillögu.

Ríkisstjórnin hefur unnið gott verk á ferli sínum og nú líður að kosningum. Þær hafa þegar verið boðaðar. Við getum horft stolt til baka en tillagan sem hér hefur verið lögð fram mun ekki leiða til neins góðs og ekki neins nýs. Hún mun fyrst og fremst valda því að kosningum þarf að flýta um tvo daga og ógilda þarf þá utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem hafin er.

Ef við horfum til baka yfir liðið kjörtímabil og hugsum: Hvað er það sem okkur hefur ekki tekist? Hvort sem við erum í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu höfum við búið við fordæmalausa stjórnmálaumræðu, hatursfyllri og ofbeldisfyllri en nokkru sinni fyrr í lýðveldissögunni. Það er sú arfleifð sem við sitjum uppi með.

Við gengum hér undir eggjaregni til þingsetningar einn dag á þessu kjörtímabili eftir að presturinn hafði lagt út af orðunum „Viljum við verða heil?“ Við höfum ekki enn þá svarað þeirri spurningu: Viljum við verða heil? Viljum við skapa eitthvað gott? Það er verkefni okkar allra sem viljum vera áfram í þessu húsi, að reisa Alþingi og umræðuna á Alþingi upp úr þeirri lágkúru sem allt of oft hefur einkennt vinnubrögð á þessu kjörtímabili, að hætta að hjakka í fari haturs og brigslyrða og brjóta nýja leið. Þá myndast á síðustu dögum þessa kjörtímabils undarlega dapurlegt bandalag milli hv. þm. Þórs Saaris, sem framar öðrum hefur tekið svari hatursfullrar orðræðu og athafna á þessu kjörtímabili, og Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir fallast í kæfandi faðmlag, hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Bjarni Benediktsson.

Menn geta haft á því ýmsar skoðanir hvort alltaf sé skylda stjórnarandstöðunnar að greiða atkvæði með vantrausti. En þegar forsagan er höfð í huga verður þetta skringilega bandalag Sjálfstæðisflokksins og Þórs Saaris enn undarlegra. Um hvað er þessi samstaða? Hún er samstaða um kyrrstöðuna þar sem á annan kantinn Þór Saari vill refsa ríkisstjórninni fyrir að ná ekki í gegn öllu á þeim punkti sem hann vill ná því gegn, og hins vegar hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem vill beita öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nokkuð breytist nokkurn tíma. Þarna sameinast enn sem fyrr fyrir öfgaöflin um kyrrstöðu vonleysisins þar sem menn sjá sér hag í því að bindast samtökum um að betra sé að ekkert gerist. Þá er það tryggt að þeir sem tala fyrir ýtrustu breytingunum geta lýst yfir fullnaðarsigri vegna þess að ekkert náðist í gegn og hinir sem aldrei vildu neinar breytingar fá fullkomna afsökun fyrir að spila með þeim. (BirgJ: Af hverju … segja já við þessari tillögu?)

Það er svo sérstakt áhyggjuefni að Framsóknarflokkurinn skuli ekki megna að stíga burt frá stóra bróður í þessum málflutningi öllum saman. Ég batt vonir við að framsóknarmenn ætluðu sér að sitja hjá við þessa tillögu eftir að heyra í ágætum fulltrúa þeirra, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, í Silfri Egils í gær þar sem hún sagði að tillagan væri svo vitlaus að líklega væri best að sitja hjá. Því miður virðast ráð hennar ekki hafa orðið ofan á í þingflokki Framsóknarflokksins en ég velti því samt fyrir mér hvernig menn geta fundið það hjá sér að greiða atkvæði með vantrausti sem, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði rétt áðan, er lagt fram á röngum tíma og á röngum forsendum.

Það þarf auðvitað hugmyndaauðgi til þess að komast að þeirri niðurstöðu að styðja slíkt vantraust en ég efa ekki að framsóknarmenn muni geta gefið okkur innsýn í það hvernig þeir komust að þeirri niðurstöðu í atkvæðaskýringum á eftir.

Eins og ég rakti áðan verða engin efnisleg áhrif af tillögunni, ekki nema markmið tillöguflytjenda og stuðningsmannanna, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Þórs Saaris sé að eyða síðustu vikum þessa kjörtímabils í ástríku faðmlagi við stjórn landsins. Það kann að vera að það sé draumurinn að fá að verma ráðherrastóla í nokkrar vikur fram að kosningum og að það ráði (Gripið fram í.) upplegginu og áherslunni hér, en það er þá sérkennileg málafylgja.

Þegar hefur verið boðað til kosninga og utankjörfundaratkvæðagreiðsla er hafin. Einu sinni hafði Sjálfstæðisflokkurinn þann metnað til að bera og einu sinni bar hann þá virðingu fyrir kosningum og fyrir réttindum fólks í þessu landi að vera ekki að leika sér að því að styðja tillögur sem fela í sér að hafin kosning sé ógilt að óþörfu. En núna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að leika þann leik að styðja vantrauststillögu sem leiðir til þess að sú utankjörfundaratkvæðagreiðsla sem hafin er þurfi að ógildast.

Í reynd stöndum við nú frammi fyrir prófsteini á Alþingi Íslendinga. Megnar það að stíga burt úr tilgangslausu gargi haturs og brigslyrða undanfarin ár? Megnum við að brjóta nýja leið? Að gera eitthvað nýtt? Að finna nýja leið fram á við? Við, hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, höfum lagt fram á Alþingi tillögur sem miða að því nákvæmlega að leita sátta í stjórnarskrármálinu, (BirgJ: … í þjóðaratkvæðagreiðslu.) að finna leiðina fram á við og virða viljann sem fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslunni (BirgJ: Það er ekkert virt sem …) því að í þjóðaratkvæðagreiðslunni (BirgJ: Nei.) var þjóðin spurð hvort hún vildi að fyrir Alþingi yrði lagt frumvarp sem unnið væri á grunni tillagna stjórnlagaráðs. Því er tillaga okkar (JónG: Og vantar … ráðherra …) þriggja í fullkomnu samræmi við þann þjóðarvilja sem þar var tjáður. Það kemst enginn stjórnmálamaður í landinu fram hjá honum og á því verða sjálfstæðismenn og framsóknarmenn líka að átta sig ef þeir meina eitthvað með því að berja sér á brjóst yfir þeim árangri sem blessunarlega hefur náðst á þessu kjörtímabili í samspili þjóðar og þings í gegnum Icesave-málið, þá verða þeir að átta sig á því að þeir geta ekki hunsað þjóðarviljann í stjórnarskrármálinu en virt hann í Icesave-málinu. Þeir þurfa alltaf að virða þjóðarviljann og við bjóðum upp á leið til þess í þeim tillögum sem við höfum lagt fram. (Gripið fram í.) Núna liggur á borðinu tilboð frá okkur formönnunum þremur. Við erum tilbúin til samstarfs um skynsamlegar leiðir í stjórnarskrármálinu. Það er kyrrstöðuaflanna að velja hvort tekið verður í þá útréttu sáttarhönd.