141. löggjafarþing — 111. fundur.
tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda, 2. umræða.
stjfrv., 629. mál (skattlagning á lágskattasvæðum og starfsmannaleigur, EES-reglur). — Þskj. 1093, nál. 1297.

[21:43]
Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Um er að ræða skattlagningu á lágskattasvæðum og starfsmannaleigur. Það er efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur fjallað um málið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt annars vegar og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda hins vegar. Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að breytingartillögurnar séu til komnar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, er varða annars vegar skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum eða hinar svokölluðu CFC-reglur, en ESA hefur lýst þeirri skoðun að þær reglur standist ekki skoðun í ljósi dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins og séu andstæðar staðfesturéttinum samkvæmt 31. gr. EES-samningsins og að í gildandi lögum sé ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu „raunveruleg atvinnustarfsemi“ og skilgreining þess hugtaks í frumvarpi sem varð að lögum nr. 46/2009 sé of þröng.

Hins vegar snúa athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA að skyldum starfsmannaleigu. Þar er álit ESA að íslenskar reglur sem kveða á um að notendafyrirtæki beri ábyrgð sem launagreiðandi, hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, brjóti í bága við EES-samninginn samkvæmt formlegri tilkynningu stofnunarinnar frá 8. febrúar 2012. ESA telur að í íslensku reglunni felist mismunun þar sem ekki er kveðið á um í ákvæðinu að það taki jafnt til innlendra sem erlendra starfsmannaleigna með staðfestu í öðru ríki innan EES, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið upplýst um að ekki hafi reynt á ákvæðið í framkvæmd en hafi þó frá samþykkt þess verið túlkað á þá leið að það taki jafnt til innlendra sem erlendra starfsmannaleigna með staðfestu í öðru ríki innan EES, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum enda hafi það verið ætlunin frá upphafi. Þess vegna er vakin athygli á því að í frumvarpinu er tekinn af vafi í því efni með því að kveða á um að hvort tveggja sé um innlendar og erlendar starfsmannaleigur að ræða í því tilviki er notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu. Það er mat efnahags- og viðskiptanefndar að þær breytingar séu til þess fallnar að koma að öllu leyti til móts við þær athugasemdir sem borist hafa frá ESA og eru raktar nánar í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 1093 og einnig í því nefndaráliti sem ég er að mæla fyrir.

Það er tillaga efnahags- og viðskiptanefndar að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Skúli Helgason, Pétur H. Blöndal og Lilja Mósesdóttir.



[21:46]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er eitt frumvarpið enn frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur náðst sátt um og þau eru þó nokkuð mörg. Það tekur á athugasemdum sem hafa komið fram frá ESA um hvað felist í hugtakinu „raunveruleg atvinnustarfsemi“. Það er tekið á ýmsum athugasemdum frá þeim, m.a. um starfsmannaleigur. Ég ætla ekki að bæta miklu við þessa umræðu en tek undir það sem framsögumaður sagði um málið. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt enda er verið að taka á þessum athugasemdum frá ESA.