142. löggjafarþing — 20. fundur
 3. júlí 2013.
skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl., ein umræða.

[13:03]
Forseti (Kristján L. Möller):

Samkomulag er um skiptingu ræðutíma. Fyrstur tekur til máls í umræðunni hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir.



[13:03]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá skýrslu um Íbúðalánasjóð sem hér er til umfjöllunar og unnin var á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var í desember 2010. Ber að þakka þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í gerð skýrslunnar sem er hörð og óvægin að innihaldi.

Niðurstöður skýrslunnar ættu samt ekki að koma okkur sem hér sitjum á óvart en þær eru í samræmi við efni þeirrar rannsóknarskýrslu sem Alþingi lét vinna um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 sem skilað var í apríl 2010. Minnumst því í upphafi þessarar umræðu hvað Alþingi hefur þegar ályktað á grunni skýrslu um fall íslensku bankanna.

Þar sögðum við að skýrslan væri vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og hún yrði að vera okkur að leiðarljósi í framtíðinni. Þar lögðum við áherslu á að taka gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og draga af henni lærdóm. Þar sögðum við að niðurstaðan væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Og þar sögðum við að eftirlitsstofnanir hefðu brugðist, að við öll yrðum að horfa gagnrýnum augum á eigin verk og nýta tækifærið sem skýrslan gaf til að bæta samfélagið. Allt þetta tel ég að skýrsla um Íbúðalánasjóð staðfesti og ítreki enn frekar.

Í skýrslunni kemur fram að stjórnsýsluhættir í tengslum við starfsemi Íbúðalánasjóð sem og eftirlit með starfsemi hans hafi verið ófullnægjandi. Um eftirlitið segir meðal annars í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Almennt er meginskýringuna fyrir ófullnægjandi eftirliti að finna í útbreiddu skeytingarleysi í umgengni við eftirlit, skilningsleysi á því hvað gerir eftirlit virkt og trúverðugt og í áhrifum pólitískra ráðninga. Af þessum ástæðum brugðust stofnanir stjórnsýslukerfisins ein af annarri.“

Nánast engin stofnun sem hlut átti að máli er undanskilin gagnrýni; Íbúðalánasjóður, stjórn sjóðsins, ráðuneytið, Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun. Framkvæmdarvaldið, þar með talið eftirlitið, brást. Það höfum við Íslendingar orðið áþreifanlega varir við.

Niðurstöður skýrslunnar verða ekki slitnar úr samhengi við þá staðreynd að hér varð efnahagshrun haustið 2008. Ljóst er að starfsemi Íbúðalánasjóðs fór ekki varhluta af því enda hefur 80% af bókfærðu tapi sjóðsins komið til eftir þann tíma. Þess ber þó að gæta að þegar hefur verið gripið til almennra úrbóta innan íslenskrar stjórnsýslu á síðustu árum í kjölfar efnahagshrunsins. Þar á meðal samþykkti Alþingi í júní 2012 ákveðnar breytingar á hæfisskilyrðum sem sá er gegnir embætti forstjóra Íbúðalánasjóðs þarf að uppfylla sem og stjórnarmenn í stjórn sjóðsins. Þá hafa jafnframt verið samþykkt ný ákvæði um innri endurskoðun sjóðsins, eftirlitskerfi með áhættu sem kveður á um að lög um fjármálafyrirtæki skuli gilda um ársreikning og endurskoðun Íbúðalánasjóðs.

Ljóst er að hlutverk Íbúðalánasjóðs á íslenskum húsnæðislánamarkaði hefur breyst töluvert frá stofnun hans. Framan af var Íbúðalánasjóður einn helsti lánveitandi íbúðafjármögnunar hér á landi en markaðshlutdeild hans hefur dregist saman frá árinu 2004 þegar fjármálastofnanir hófu að bjóða íbúðalán. Afleiðingar þess þekkjum við og eru því gerð ágæt skil í skýrslunni.

Að mínu mati er eitt af því alvarlegasta í þessu samhengi að ekki hafi verið brugðist með fullnægjandi hætti við þeirri uppgreiðsluáhættu sem skapaðist við upptöku íbúðabréfakerfisins 2004. Á það ekki síst við í ljósi þess að uppgreiðsluáhættan raungerðist fljótlega eftir þessar breytingar án þess að nokkuð hafi verið að gert. Á það í raun enn við í dag þó að sjóðurinn hafi ekki gefið út skuldabréf síðan í janúar 2012.

Hæstv. forseti. Við verðum líka að líta til þess tíðaranda sem ríkti á þeim tíma sem þær breytingar sem við gagnrýnum voru gerðar. Þarf ekki nema líta til þeirrar umræðu sem fór fram á Alþingi við meðferð frumvarpsins, sem samþykkt var í þessum sal fyrir rétt rúmum níu árum mótatkvæðalaust. Þingmenn í stjórnarandstöðu fögnuðu þeim breytingum og sama átti við um samtök launafólks og töluðu báðir gegn gjaldi á uppgreiðslu lántaka sjóðsins. Beðið var með óþreyju eftir að veðhlutföll yrðu hækkuð úr 65% í 90% og hámarkslánsfjárhæð hækkuð í 18 millj. kr. úr 9 millj. kr. Það er auðvelt að vita betur í dag. Það er erfiðara að líta um öxl og viðurkenna að stjórnmálamennirnir á Alþingi brugðust líka.

Sumir segja að Íbúðalánasjóður hafi á þessum árum misst sjónar á því félagslega hlutverki sínu að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Í stað þess að draga úr umsvifum á markaði fyrir fjármögnun fasteignaviðskipta þegar einkaaðilar höfðu mætt til leiks hafi starfsemi hans í síauknum mæli tekið á sig mynd fjármálafyrirtækis á húsnæðislánamarkaði í beinni samkeppni við einkafyrirtæki.

Í þessu sambandi má nefna að fram kemur að Íbúðalánasjóður lánaði lögaðilum um fimmtung af öllum lánveitingum sjóðsins á tímabilinu 1999–2012. Mestu tapaði sjóðurinn á lánum til leigufélaga en mikið fé var lánað til þeirra eftir að átak til fjölgunar leiguíbúða hófst árið 2001. Vekur athygli að svo fór að starfsmenn sjóðsins lýstu áhyggjum sínum í minnisblöðum þegar árið 2003 að markmið með þessum lánum hefði verið að leysa vandamál leigjenda en framkvæmdin hefði snúist um að leysa vandamál á byggingarmarkaði. Flest árin var einkum lánað til sveitarfélaga og félagasamtaka en þau tvö þegar mest var lánað, 2007 og 2008, virðist aðallega hafa verið lánað til leigufélaga í einkaeigu. Á tímabilinu 2006–2008 fór sjóðurinn jafnframt ekki fram á bankaábyrgðir hjá byggingaverktökum af ótta við að missa viðskipti yfir til bankanna en sjóðurinn tapaði miklu fé á þeim lánum í kjölfar hrunsins. Á móti kemur að erfitt er að taka undir þegar menn segja að Íbúðalánasjóður hefði átt að láta sig hverfa þegar bankarnir hófu að lána til íbúðarkaupa. Má þar til dæmis benda á að bankarnir lánuðu nær eingöngu til húsnæðiskaupa á stærstu þéttbýlissvæðum landsins og sjóðurinn hafði því mikilvægu hlutverki að gegna utan þeirra.

Virðulegi forseti. Við síðustu lagabreytingar sem gerðar voru á starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs sumarið 2012 var félagslegt hlutverk hans við að veita þjónustu í almannaþágu undirstrikað. Þær breytingar helstar voru að heimildir sjóðsins til að lána til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði voru takmarkaðar við einstaklinga og leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Áður, eins og komið hefur fram, var sjóðnum heimilt að lána til félaga, þar á meðal byggingaverktaka, sem voru rekin í hagnaðarskyni. Þóttu lánveitingar til félaga sem rekin voru í hagnaðarskyni frekar vera verkefni fjármálafyrirtækja en Íbúðalánasjóðs. Þá voru ýmsar takmarkanir settar á lánveitingar í því skyni að Íbúðalánasjóður hefði eingöngu heimildir til að lána vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að verðmæti sem þykir rúmast innan félagslegra markmiða sjóðsins og þá einnig til að tryggja að sjóðurinn raski ekki samkeppni á íslenskum húsnæðislánamarkaði.

Síðast en ekki síst vil ég vekja athygli þingmanna á því að eitt af þeim verkefnum sem koma fram í þeirri þingsályktun sem við samþykktum síðastliðinn föstudag felur í sér að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipulag húsnæðismála. Er það í samræmi við efni þingsályktunar sem skýrsla sú sem hér er til umræðu byggist á en þar segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar rannsóknar fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi.“

Í mínum huga verður verkefni þeirrar verkefnisstjórnar einkum tvíþætt. Annars vegar að leggja fram tillögur um hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á íslenskum húsnæðismarkaði sé hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á, hins vegar að leggja fram tillögur um með hvaða hætti stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Get ég ekki betur séð en þetta sé í samræmi við það sem rannsóknarnefndin leggur til í kafla skýrslunnar um húsnæðisstefnu til framtíðar.

Ég tel þó mikilvægast í þessu samhengi að sem breiðust sátt og samstaða náist um skipulag íslensks húsnæðiskerfis. Ég mun því leggja ríka áherslu á að sem flestir komi að endurskipulagningu húsnæðiskerfisins og mun því á næstunni óska tilnefninga í samvinnuhóp sem mun hafa það hlutverk að vera framangreindri verkefnisstjórn til ráðgjafar. Þar mun ég meðal annars leita eftir tilnefningu frá þingflokkum þeirra flokka sem sitja á Alþingi. Vonandi berum við gæfu til að koma á fyrirkomulagi sem reynist okkur farsælt til framtíðar þannig að hvorki við né komandi kynslóðir eigi eftir að standa í okkar sporum núna.

Ég er jafnframt ekki í vafa um að sú vinna sem við höfum hér fyrir framan okkur muni nýtast okkur í þeirri stefnumótun í húsnæðismálum sem fram undan er en áætlað er að þeirri vinnu verði lokið í ársbyrjun 2014.



[13:12]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð og þakka nefndarmönnum fyrir vel unnin störf. Skýrslan er sannarlega svört og sýnir að rík ástæða var að fara fram á þessa rannsókn á sínum tíma. Alþingi og ríkisstjórn þurfa nú að taka skýrsluna til umræðu og nýta sér hana við stefnumótun í húsnæðismálum almennt og sérstaklega í málefnum Íbúðalánasjóðs. Velferðarnefnd mun að loknum sumarleyfum taka skýrsluna til umræðu og boða höfundana á sinn fund.

Í skýrslunni er eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs gagnrýnt harðlega, m.a. það rof sem skapaðist við eftirlit sem koma á frá Alþingi. Við því þarf Alþingi að bregðast enda mikilvægt að þingmenn sinni eftirlitshlutverki sínu af skilningi og alvöru og hafi til þess þau tæki sem nauðsynleg eru.

Haustið 2010 var ég 1. flutningsmaður tillögu um rannsókn á Íbúðalánasjóði. Ástæða þess að ég flutti þá tillögu var hörð gagnrýni á sjóðinn í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun íslensku bankanna og áhyggjur mínar af stöðu sjóðsins. Þegar ríkissjóður þurfti síðan að leggja Íbúðalánasjóði til 33 milljarða í desember 2010 var ljóst í mínum huga að rannsókn á starfsemi sjóðsins væri óhjákvæmileg. Ég gerði það að skilyrði fyrir stuðningi mínum við aukin framlög ríkissjóðs til sjóðsins að þessi rannsókn færi fram enda nauðsynlegt að upplýsa Alþingi og almenning í landinu um ástæðu þess að svo illa var komið fyrir sjóðnum.

Í þriðja lagi var ljóst árið 2010 að endurskoða þyrfti starfsemi Íbúðalánasjóðs. Rannsóknarstefnumörkun á starfsemi sjóðsins var af minni hálfu hugsuð sem mikilvægur liður í þeirri vinnu. Umræða um sjóðinn hefur um langt árabil verið í ákveðnum hjólförum þar sem stjórnmálaflokkar skiptu sér í lið með og á móti sjóðnum. Uppbyggileg umræða um hlutverk sjóðsins og stefnu í húsnæðismálum leið fyrir þau átök og eiga þar allir stjórnmálaflokkar hlut að máli.

Á meðan deilt var um tilvist sjóðsins breyttist hann í eins konar íbúðarbanka ríkisins og fjárfestingarsjóð með ríkisábyrgð. Markaðshlutdeild og umsvif urðu mikilvægari en félagslegt hlutverk sjóðsins. Nú er öllum ljóst að endurskoða þarf starfsemi Íbúðalánasjóðs og að einhverju leyti stendur endurskoðun yfir nú og hefur hluti af því ferli þegar verið festur í lög. Vonandi mun þessi viðamikla skýrsla verða til þess að endurskoðun sjóðsins nú verði vandaðri en þegar sjóðnum var breytt 2004. Skapa þarf sátt um sjóðinn og skilgreina markmið hans. Stærstu mistökin í sögu Íbúðalánasjóðs var pólitísk einstefna þar sem mikilvægara var að efna vanhugsuð kosningaloforð en að skapa sátt um sjóðinn og hlusta á faglega gagnrýni. Nauðsynlegt er að finna Íbúðalánasjóði skýrt hlutverk innan heildarstefnu ríkisins í húsnæðismálum.

Starfsemi Íbúðalánasjóðs er ekki markmið í sjálfu sér heldur þarf starfsemi hans að mótast af þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja ná í húsnæðismálum hverju sinni. Á því hefur orðið mikill misbrestur. Til að skilja þá stöðu sem Íbúðalánasjóður er í nú er mikilvægt að hverfa aftur til kosninganna 2003. Í þeirri kosningabaráttu lofaði Framsóknarflokkurinn landsmönnum bæði skattalækkunum og 90% lánum þrátt fyrir efnahagsþenslu. Þær fyrirætlanir féllu síðan saman við tillögur fjármálaráðherra um að breyta fjármögnun sjóðsins til að laða að erlent fjármagn og lækka þannig vexti. Í kjölfarið var lögum um Íbúðalánasjóð breytt. Í stað húsbréfa voru íbúðabréf innleidd en þau voru óinnkallanleg á meðan lán sjóðsins voru uppgreiðanleg án uppgreiðsluálags, þvert á varnaðarorð sérfræðinga og eftirlitsstofnana. Veðhlutfallið var hækkað og vextir lækkuðu. Áhætta af rekstri sjóðsins jókst að sama skapi gríðarlega. Skuldabréfaskiptin eru að mati skýrsluhöfunda ein þau verstu mistök sem sjóðurinn hefur gert. Breytingarnar 2004 eru í skýrslunni túlkaðar sem markaðssókn Íbúðalánasjóðs og eru það orð að sönnu. Þetta var markaðssókn með ríkisábyrgð, markaðssókn með heildartapi sem numið gæti 270 milljörðum kr. Sá kosningavíxill fellur á kjósendur.

Innkoma bankanna á íbúðalánamarkað varð ekki til þess að stjórnvöld endurskoðuðu stefnuna, drægju úr umsvifum Íbúðalánasjóðs eða kæmu einhverjum böndum á útlán bankanna. Lán bankanna leiddu til uppgreiðslu á lánum Íbúðalánasjóðs sem aftur lánaði bönkum og sparisjóðum fé til að auka enn útlán þeirra. Rekstur Íbúðalánasjóðs var því ekki aðeins kominn í ógöngur heldur var hann orðinn að efnahagsvanda. Taumlaus þensla, hækkandi fasteignaverð, hærri lán og hærri veðhlutföll auk lækkandi vaxta er bakgrunnur þess skuldavanda sem mörg íslensk heimili hafa glímt við frá hruni. Það má því segja að kosningaloforð Framsóknarflokksins 2003 og 2013 falli vel hvert að öðru. Fyrst var lofað hærri lánum, þ.e. skuldum og tíu árum síðar á að lækka þær aftur.

Við breytingarnar 2004 gleymdist að hugsa hið félagslega hlutverk Íbúðalánasjóðs til enda. Það var í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var með stofnun Íbúðalánasjóðs með lögum frá 1998 þegar verkamannabústaðirnir, félagslega eignaíbúðakerfið var lagt af. Í stað félagslegra markmiða var stefnan sú að lána mikið og til langs tíma. Allur almenningur féll að lokum undir þessa félagslegu skilgreiningu þegar 90% lán voru innleidd sem almenn regla. Uppbygging leigumarkaðar var ómarkviss og í raun stefnulaus. Útlánatap Íbúðalánasjóðs vegna leigufélaga frá stofnun hans árið 1999 er mikið enda markmiðið oft og tíðum að leysa vandamál í byggingariðnaði fremur en að bæta hag leigjenda.

Árangurinn af viðleitni Íbúðalánasjóðs til að bæta leigumarkað á Íslandi virðist því mun minni en tilkostnaðurinn og helst koma fram í útlánatapi sjóðsins. Þá dapurlegu niðurstöðu verða stjórnvöld að taka alvarlega, ekki með því að leggja árar í bát heldur með því að setja sér skýrari markmið og vinna að uppbyggingu leigumarkaðar af meiri festu en áður.

Virkur og öruggur leigumarkaður er án efa eitt brýnasta verkefni í húsnæðismálum næstu ára og þar þurfa samfélagslega ábyrgir aðilar að leika lykilhlutverk því að markmið húsnæðisstefnunnar á að vera húsnæðisöryggi og félagsleg samheldni en ekki einhliða gróðasjónarmið fjármálastofnana og verktaka.

Virðulegi forseti. Ég lagði ekki til rannsókn á Íbúðalánasjóði í þeim tilgangi að koma höggi á einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Það verður þó vart komist hjá því að velta fyrir sér ábyrgð á ógöngum Íbúðalánasjóðs. Í skýrslunni er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögð samábyrg fyrir þeim breytingum sem gerðar voru árið 2004. Það er í samræmi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna. Þar viðurkenndi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, að þessar breytingar hefðu verið mistök, en án þeirra hefði ríkisstjórn þessara flokka ekki verið mynduð. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, hefur einnig viðurkennt að þetta hafi verið mistök.

Framsóknarflokkurinn hefur átt erfiðara með að viðurkenna að góður árangur flokksins í kosningunum 2003 hafi verið á mistökum byggður. Íbúðalánasjóður var um langt árabil tengdur Framsóknarflokknum. Viðskipti Íbúðalánasjóðs og Kaupfélags Skagfirðinga líta ekki vel út, svo mikið er víst.

Verkefnið nú er að horfa fram á veginn og læra af þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir. Einn mikilvægasti lærdómurinn sem ég dreg af skýrslunni er að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði að tengjast almennri stefnumótun í húsnæðismálum og þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja ná til að tryggja húsnæðisöryggi og velsæld. Það er einnig mikilvægt að sátt sé um starf sjóðsins og breytingar gerðar með samráði stjórnar og stjórnarandstöðu. Þannig rækjum við best hlutverk okkar sem alþingismenn.



[13:23]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér viðamikla rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð og hefur þegar margt ágætt verið sagt í þessari umræðu. Ég tek undir með hæstv. félagsmálaráðherra að við þurfum sameiginlega að leggjast yfir það hvernig við viljum skipuleggja þessi mál, þennan mikilvæga málaflokk, íbúðalánin, á komandi árum. Það er rétt. En nú erum við að fjalla um það sem liðið er. Þá dugar ekki að tala eins almennt, fara eins almennum orðum um málið, og hér var gert. Nú er talað um stjórnmálamenn almennt. Talað er um að framkvæmdarvaldið hafi brugðist. Talað er um að stofnanir stjórnsýslunnar hafi brugðist. Þessi skýrsla fjallar um það hvaða stjórnmálamenn, hvaða stjórnmálaflokkar og hvaða stofnanir brugðust. Um það eigum við að ræða. Það þýðir ekki að reyna að drepa þessari rammpólitísku umræðu á dreif með almennu orðfæri af þessu tagi.

Það sem gerðist var að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn brugðust í veigamiklum efnum á því árabili sem rannsóknarskýrslan tekur til. Þetta er staðreynd. Framsóknarflokkurinn fór með þessi mál, en Sjálfstæðisflokkurinn kom einnig að þeim aftur og ítrekað og með skipulegum hætti í gegnum fjármálaráðuneytið. Þessir flokkar og stjórnmálamenn verða að axla sína ábyrgð. Við þurfum að horfa gagnrýnið á það hver hún var.

Það kemur vissulega fram í þessari skýrslu að mjög alvarlegar brotalamir voru í stjórnsýslunni og í eftirlitskerfinu, en pólitíkin hafði einnig komið þar að málum. Með lagabreytingunni 1998, sem gerð var á húsnæðiskerfinu, var pólitískt áhrifavald Alþingis skert með því að koma í veg fyrir að fulltrúar Alþingis ættu aðild að Íbúðalánasjóði, heldur yrði það einvörðungu gegnum flokkspólitíska stýringu. Það er sú flokkspólitíska stýring sem hefur síðan ráðið ferðinni í þessum efnum.

Síðan er það hitt, og þar er ég ekki á einu máli með skýrsluhöfundum, að mér finnst skorta á að málin séu sett í rétt sögulegt samhengi. Á þeim árum sem rannsóknarskýrslan tekur til voru mikil átök í þjóðfélaginu um hvert ætti að beina þessum málum. Fjármálakerfið og bankarnir vildu ná Íbúðalánasjóði til sín. Félagsleg öfl höfðu hins vegar barist fyrir því í langan tíma að auka aðgengi að ódýrara fjármagni fyrir fólk sem var að byggja eða kaupa íbúð. Þess vegna fagnaði ég því á sínum tíma þegar talað var um 90% lán og fannst slæmt að þau urðu aldrei að veruleika. Það er alrangt að tala um 90% lán nema á örfáum íbúðum sem fólk var að kaupa; litlar íbúðir í fyrsta skipti. Þetta var miklu lægra. Þetta kom aldrei til framkvæmda sem slíkt. Það var nefnilega rangt. Það gerðist ekki. Mér fannst það vera fagnaðarefni, enda er það búið að vera keppikefli allra félagslegra afla að reyna að ná vöxtum niður á íbúðalánum og íbúðarhúsnæði umfram það sem verið hefur í landinu.

Mér finnst skýrsluhöfundar ganga of langt í því að taka upp hanskann fyrir fjármálakerfið sem reyndi að koma Íbúðalánasjóði út af fjármálamarkaði með því að kæra til ESA. Þegar ESA-álitið lá fyrir, eða álit frá Brussel, þegar búið var að gefast upp við að koma Íbúðalánasjóði út af lánamarkaði, hóf Búnaðarbankinn að lána sín 90% lán. Þá byrjar hringekja sem hefði aldrei átt að snúast með þeim hætti sem varð. En þegar talað er um markaðssókn Íbúðalánasjóðs vil ég heldur tala um markaðsvörn vegna þess að það var verið að reyna að færa sig yfir í þessar lendur.

Fjármálakerfið — þegar talað er um að bankarnir hefðu vilja og getu til að fara inn á þennan markað, erum við að tala um stofnanir sem voru í þann veginn að gerast gerspilltar og urðu þess síðan valdandi að setja þessa þjóð og efnahagskerfið á hliðina. Þessir aðilar eru ekki án ábyrgðar og ekki heldur hinir sem léku á þetta kerfi.

Það er rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að fimmtungur útlána úr Íbúðalánasjóði gekk til lögaðila, margra, góðra og gegnra fyrirtækja og aðila sem sinntu félagslegu hlutverki. En þarna voru líka óprúttnir aðilar á ferð sem tóku lánin sem verktakar, stofnuðu síðan leigufélög, seldu sjálfum sér og áttu þau einnig — þau fóru síðan á hausinn og fimmtungur þessara lána var til lögaðila úr Íbúðalánasjóði, en 40% tapsins skrifast á þessa aðila.

Í þessari skýrslu finnst mér horft fram hjá tíðaranda sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks átti illu heilli drjúgan hluta í að skapa á þessum árum í landinu, tíðaranda græðgi, svika og svindls. Það gagnrýni ég. En hitt tek ég undir að menn hefðu átt að sýna miklu meiri aðgætni. Það er nokkuð sem við eigum eftir að fara miklu nánar í þegar hringekjan, sem ég vék að áðan, byrjaði að snúast, en hún gekk út á það að fólk fékk heimild til að endurgreiða lánin úr Íbúðalánasjóði þegar bankarnir voru komnir af stað við að undirbjóða þann sjóð, en Íbúðalánasjóður gat ekki á sama tíma losað sig við sínar lánveitingar. Íbúðalánasjóður fer síðan að afla lánsfjár hér og erlendis og heldur áfram slíkum lántökum langt eftir að þörfin hættir að vera fyrir hendi. Maður skilur ekki hvernig stendur á því að sú sjálfsstýring er ekki tekin úr sambandi. Þar skortir ábyrgð og þar skortir eftirlit.

Alla þessa þætti eigum við eftir að gaumgæfa miklu betur og þurfum að gera í sameiningu. Það dugar ekki að drepa þessum málum á dreif með því að tala um alla stjórnmálamenn, alla stjórnmálaflokka, framkvæmdarvaldið, við brugðumst öll. Við gerðum það ekki. Það er alrangt. Hér stóðu menn í pontu mánuðum saman, árum saman, og deildu um þessi mál.

Þótt við höfum mörg fagnað því þegar komið var með 90% lán — ég gerði það og var að vonast til að þau yrðu að veruleika sem þau aldrei urðu, aldrei nokkurn tímann. Ég fagnaði því líka þegar hillti undir að lægri vextir kæmu á húsnæðislán. Mér fannst það gott. En það var fjármálakerfið, gerspillt kerfi, sem gróf undan þessum tilraunum. Það er þessu sem skýrsluhöfundar horfa fram hjá, þykir mér.

Núna, þegar ég heyri Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans þenja sig á síðum blaðanna, í Morgunblaðinu í morgun eða í gær, um að nú þurfi að fullkomna verkið að einkavæða íbúðalánakerfið, segi ég: Nei, þá umræðu eigum við eftir að taka.

Það urðu ekki þessi kaflaskil sem skýrsluhöfundar tala um 1999 sem menn vilja vera láta. Staðreyndin er sú að hinn félagslegi þáttur íbúðalánakerfisins var stórveiktur á 10. áratugnum. Vextir á verkamannabústaðalánum voru 1%, en í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var farið með þá vexti upp í 3% og upp í 3,5%. Þannig er hinn félagslegi þáttur veiktur.

Það er félagslegur þráður og taug í Íbúðalánasjóði, því eins og hæstv. ráðherra benti á voru bankarnir á þessum tíma hættir að lána til erfiðra staða, staða þar sem fasteignamarkaðurinn átti í erfiðleikum. Þar kom til kasta Íbúðalánasjóðs og hann sinnti sínu félagslega hlutverki þar. Það sem menn hafa síðan alltaf verið að reyna að gera er að þrengja hlutverk Íbúðalánasjóðs þannig að hann sinni bara erfiðum svæðum sem kallað er eða tekjulægsta fólkinu. En við hin höfum mörg viljað að hann þjónaði landsmönnum öllum. Hvers vegna? Vegna þess að lánsfjármagn sem Íbúðalánasjóður kemur til með að afla ræðst af þeirri áhættu sem hann stendur frammi fyrir. Ef búið er að gera hann sjálfbæran eins og ætlunin var, með lagabreytingunni á sínum tíma, og hann á bara að sinna áhættulánveitingum verður fjármagnið til hans dýrara. Ef hins vegar landsmenn allir sameinast um þennan sjóð eru allar forsendur til að veita lánsfjármagn almennt til íbúðalána á lægri vöxtum en ella.

Hæstv. forseti. Ég vara við þeim merkjasendingum sem við heyrum frá fjármálakerfinu og helstu postulum þess í Sjálfstæðisflokki. Ég á eftir að hlusta betur eftir röddum úr Framsóknarflokknum hvað þetta snertir. En ef ríkisstjórnin ætlar að fara að grafa enn frekar undan því félagslega í okkar húsnæðiskerfi, þá segi ég: Það verður okkur að mæta.



[13:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Sumir hlutir breytast alla vega aldrei og síðasta ræða hv. þingmanns er gott dæmi um það. Ég held ég hafi hlustað á ræðu hv. þingmanns fyrir tíu árum, ég held hún sé nokkurn veginn alveg eins. Ég var að vonast til þess — og fannst ræður þeirra sem hér töluðu á undan gefa tilefni til að ætla það — að við værum kannski komin á þann stað að við mundum fara málefnalega yfir staðreyndir málsins og draga ályktanir út frá því. En ef umræðan verður svona erum við komin í skotgrafirnar strax. (Gripið fram í.) — Ég fagna frammíköllum, ég var farinn að sakna þess að það væri ekki komið. (Gripið fram í.) Það voru liðnar 40 sekúndur, virðulegi forseti, og hv. þingmaður var ekki búinn að kalla fram í. Það er gott að það er komið strax núna.

Það er mjög gott að fá þessa yfirgripsmiklu skýrslu í þessu máli. Í henni er mjög mikið af upplýsingum. Hún er mjög hörð. Þetta er svört skýrsla. Ég held að í þessu máli gætum við lært það númer eitt að við eigum að viðhafa gagnrýna hugsun, því að fram til þessa hafa ræðurnar um húsnæðismál og Íbúðalánasjóð verið nákvæmlega eins og ræða hv. þingmanns hér á undan. Mikil gífuryrði og ef einhver vogar sér að tala um Íbúðalánasjóð þá er sko mönnum að mæta, þá er hnefinn á lofti. Svo eru menn bara handbendi, ég veit ekki hverra.

Þessi ræða hv. þingmanns sparaði mér nokkrar mínútur því að ég ætlaði að reyna að fara yfir það hvernig umræðan hefur verið fram til þessa, en hún hefur verið nákvæmlega eins og ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að við erum í þessum gríðarlega vanda.

Ég vil trúa því að það sé sama í hvaða flokki við erum þá höfum við það að markmiði að Íslendingar geti búið í góðu húsnæði. Er það ekki grunnurinn? Að þeir hafi aðgang að lánsfé eða aðgang að leiguhúsnæði. Er það ekki grunnurinn sem allir eru sammála um? Er það síðan ekki næsta verkefni að við byggjum kerfi sem gerir að verkum að fólk geti eignast sitt húsnæði eða leigt eftir því sem það vill? Er það ekki grunnurinn? Og er það ekki líka þannig að við viljum ekki búa til kerfi þar sem áhættan er slík að hún lendi öll á skattgreiðendum ef illa fer? Erum við ekki sammála um þetta?

Virðulegi forseti. Við höfum ekki nálgast hlutina þannig. Þegar við höfum rætt þessa ríkisstofnun hafa menn sett sig í algjöra varðstöðu. Það er stærsta ástæðan fyrir því að við erum komin þangað sem við erum komin. Það er stærsta einstaka ástæðan. Það er stærsta einstaka ástæðan fyrir því að þessir gríðarlegu fjármunir hafa tapast. Það er stærsta einstaka ástæðan fyrir því að skuldbindingin lendir á fólkinu í landinu.

Það er líka sérstakt mál að skoða — og ég er ansi hræddur um að það eigi ekki bara við um Íbúðalánasjóð — hvers vegna ekki hefur verið brugðist betur við en raun ber vitni þegar viðvörunarljósin hafa blikkað hvað eftir annað, eins og kemur fram í þessari skýrslu, bæði innan stofnunarinnar og með skilaboðum utan að. Það er í raun algjörlega ótrúlegt. Við breytum því ekki sem á undan er gengið en ég er ansi hræddur um að ástandið sé ekki bara svona þarna. Og við megum ekki láta þetta gerast aftur.

Ég held ég hafi fyrst tekið þátt í deilum um þetta árið 1995 við fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og mín skoðun er sú að við séum með húsnæðiskerfi sem er ekki skynsamlega uppbyggt. Það hvetur fólk til að skuldsetja sig. Það er hvatinn. Annars vegar með því háa lánshlutfalli sem tónninn er gefinn um í lögum um Íbúðalánasjóð og sömuleiðis varðandi vaxtabæturnar.

Þegar við skoðuðum þetta á sínum tíma árið 1995 — og við höfum tekið vaxtabótaframlögin og sömuleiðis framlög til þáverandi Húsnæðisstofnunar — var þetta samsvarandi því að við gætum styrkt hverja fjölskyldu, sem var að kaupa sína fyrstu íbúð, um 2,8 milljónir, á verðlagi þess árs. Ég tel að við eigum að styðja fólk til að eignast húsnæði en ég tel að við eigum að gera það með öðrum og markvissari hætti þannig að við lendum ekki í þeirri stöðu sem við erum í núna.

Þegar við tölum um félagslega þáttinn erum við annars vegar að tala um fólk sem er með lægri laun og sömuleiðis um svæði úti á landi sem stofnanir eru ekki tilbúnar til að lána á. Þetta er ekki séríslenskt mál. Þetta er eitthvað sem fólk glímir við í öllum þjóðfélögum. En almenna reglan er sú að menn hafa mætt slíkum aðstæðum sérstaklega. Það er það sem við eigum að gera og hefðum átt að gera.

Við erum með versta kerfi sem mögulegt er. Við erum með ríkisstofnun sem er að lána til fólks og fyrirtækja. Þegar útlánin ganga ekki upp, eins og komið hefur á daginn, vegna þess að allt kerfið gengur út á að fasteignir haldi endalaust áfram að hækka, er reikningurinn sendur á skattgreiðendur. Það er margoft búið að vara við þessu. Þegar menn bentu á þessar augljósu staðreyndir, og sáu þó ekki fyrir þennan svakalega skell, fengu menn ræðu eins og ræðuna frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það er ekki gott, virðulegi forseti. Ég vil trúa því að hv. þingmaður, eins og aðrir, vilji vel en við verðum að taka umræðuna á dýptina. Við verðum að fara yfir það hvað fór miður og hvernig við getum búið til kerfi sem nær þeim markmiðum sem við erum sammála um.

Hér ætla menn, og finnst það bara gott, að taka einn flokk, jafnvel tvo, fyrir af því að allt það sem miður fór á umræddu árabili, væntanlega á síðasta kjörtímabili líka, er Sjálfstæðisflokknum að kenna, ekki bara hér á Íslandi heldur í öllum öðrum löndum líka. Og við þurfum að vanda okkur og taka aðeins betur á, sérstaklega í alþjóðamálum. Ég hef miklar áhyggjur af bankakreppunni í Evrópu og ég vil fara yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins við gott tækifæri hvað við ætlum að gera í því.

En hér var umræða í þinginu þegar þessar breytingar áttu sér stað. Menn nefna réttilega að Framsóknarflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir því að fara í ríkisstjórn að þetta mál næði fram að ganga. Hvað gerðist í þingsalnum? Hvað gerðist í nefndinni? Hvað gerðist í opinberri umræðu? Framsóknarflokkurinn var húðskammaður. Hverjir skömmuðu Framsóknarflokkinn? Það voru hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, fyrir það að ganga ekki lengra. Ég held að menn þurfi nú kannski aðeins að líta í eigin barm ef menn á annað borð eru að leita að pólitískri ábyrgð.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti þá eldræðu eins og venjulega og lagði það sérstaklega til að lánshlutfallið yrði hækkað, þ.e. að allt of skammt væri gengið í því að bjóða 90% lán. Það er staðreynd sem liggur fyrir og ekkert orðskrúð í þessum stóli mun breyta þeirri staðreynd.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði þá, með leyfi forseta:

„Ég held að staðan sé raunverulega sú að hæstv. ráðherra“ — þ.e. hæstv. ráðherra félagsmála, Árni Magnússon — „hafi verið píndur af Sjálfstæðisflokknum til að ganga ekki lengra varðandi þá breytingu sem hér er að ganga í gegn um hækkun á lánshlutfalli.“

Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar þá tóku undir þetta. Ég held að það megi gagnrýna okkur sjálfstæðismenn en það sem við áttum að gera var að standa fastar á okkar skoðun í þessu. Það er það sem við hefðum átt að gera.

Umræðan, og ég vona að við verðum aldrei á þeim stað aftur, var þannig — ég var nú bara að fletta þessu og ég hvet fólk til að fletta þessari umræðu, það er hægt að gera það á netinu, skoða hvað menn sögðu á þessum tíma. Ég var sérstaklega skammaður í þessari umræðu og talið að ég væri að boða bankakreppu. Ég var ekki að því. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi séð bankakreppuna fyrir, ég gerði það ekki. En eins og öllum sem þetta mál skoðuðu áttaði ég mig á því að ákveðin hætta var þarna á ferðinni. Ég benti á það að í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við halda fasteignir ekki endalaust áfram að hækka. Ég var skammaður blóðugum skömmum fyrir þetta af hv. þingmanni Samfylkingarinnar. Það væri augljóst að ég væri að slá varnagla við þetta mál sem er og verður ekki einungis skellt á Framsóknarflokkinn.

Virðulegi forseti. Við höfum mikið verið að ræða það hvað gerðist á þessum árum 2004, 2005 og 2006. En spurningin er þessi: Lærðum við eitthvað eftir því sem lengra leið á? Hefur enginn áhyggjur af því að útlánamet var sett í júní 2008 hjá Íbúðalánasjóði? Ég veit ekki hvort það hefur verið reiknað sérstaklega hvað varð af þeim fjármunum en ég er hræddur um að það tap sé ansi stórt.

Ég tók þetta hér upp hvað eftir annað, spurðist fyrir um Íbúðalánasjóð, á síðasta kjörtímabili og var ekki einn um það. Hvað gerði sú ríkisstjórn eftir allt sem á undan var gengið, eftir bankahrun o.s.frv., til að draga fram stöðu Íbúðalánasjóðs, meta hana og til dæmis bara upplýsa um hana og setja hana í ríkisreikning?

Virðulegi forseti. Það er kallað hér ýmislegt en við erum ekki búin með það verkefni. Það er ekki búið. Nú er okkar verkefni annars vegar það að taka umræðuna eins og minn ágæti félagi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði hér áðan. Við getum gert það, við erum í góðri þjálfun með það, það er eitthvað sem við getum gert. Eða að við reynum að fara í gegnum þessa skýrslu og læra af henni. Ef við gerum það er ég sannfærður um að minnstar líkur eru á því að slíkt gerist aftur. (Gripið fram í.) En við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Þó svo að sumum finnist kannski erfitt að horfast í augu við það sem þeir sögðu og gerðu og lögðu til, er það eitthvað sem er nauðsynlegt.

Ég held til dæmis að það væri afskaplega skynsamlegt að líta til þeirra landa sem við berum okkur saman við og skoða hvernig á málum er haldið þar. Þegar þessi umræða var tekin á sínum tíma, og ég hef nú oft tekið þessa umræðu, skoðuðum við það hvernig við værum í samanburði við aðrar þjóðir, sérstaklega Norðurlöndin. Engin þjóð hefur átt jafn stóran húsnæðisbanka mér vitanlega og við Íslendingar. Allar þær ræður sem hér voru fluttar miðuðu að því að styrkja þyrfti samkeppnisstöðu Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana. Það getur ekki verið markmið. Það hlýtur að vera markmiðið að fólkið fái lánin á sem bestum kjörum. Það hlýtur að vera markmiðið. Tölum þá út frá því, því ef við erum með fleiri svona ríkisstofnanir þar sem eftirlitið er ónógt, þar sem menn bregðast ekki við þegar viðvörunarljósin blikka, þegar við í þessum sal búum til reglur sem gera að verkum, og setjum ríkisábyrgð á skuldbindingar, að þegar eitthvað miður fer, og það gerist nú því miður stundum, fer allur reikningurinn á skattgreiðendur þessa lands. (ÖJ: Hvernig var eftirlitið í bönkunum?) Þá erum við ekki að stíga skynsamleg skref. (ÖJ: Hvernig var eftirlitið í bönkunum?)

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um það eins og hv. þingmaður kallar hér fram, hvort það hafi verið eitthvað verra annars staðar. Og af því hv. þingmaður, eins og hv. þingmenn Vinstri grænna, talar eins og hann viti allt vil ég bara minna á að þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var stofnuð sáu Vinstri grænir málið ekki betur fyrir en við hin, þeir gerðu sérstaklega grín að þeim hv. þingmanni sem þá var viðskiptaráðherra. Hann var með svo lítið og ómerkilegt ráðuneyti.

Virðulegi forseti. Við sáum þessa hluti ekki fyrir. En sem betur fer er það nú þannig að skellurinn, þessi stóri skellur, sem er einn af þeim stærri í alþjóðlega bankahruninu, sem varð hér á Íslandi, lenti að stórum hluta á þeim sem áttu þá banka, þeir fengu ekkert, og sömuleiðis þeim sem fjármögnuðu bankana, og er það bara sanngjarnt og eðlilegt. Þegar þessi banki féll, og Íbúðalánasjóður er fallinn, við áttuðum okkur alveg á því, lendir sá skellur allur á íslenskum skattgreiðendum. Það er verk Alþingis. Þannig er það bara. Og ég vil ekki trúa því að neinn hafi viljað það, ekki hér inni eða neins staðar annars staðar.

Það er ekki nóg að leggja málin þannig fram að menn vilji allt fyrir alla gera og þar af leiðandi sé hægt að réttlæta alla hluti. Ég held að við höfum öll svipuð og jafnvel sömu markmið og ég held að við eigum að nota þessa skýrslu sem grunn að því að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, fara gaumgæfilega yfir það sem miður hefur farið og fara yfir aðra þætti í okkar kerfi til að kanna hvort svo geti raunverulega verið að þetta sé ekki einsdæmi, hvort það sé virkilega þannig að yfir vofi hætta — vonandi ekki sambærilegt áfall, sambærilegur skellur. Það skiptir ekki máli þó þeir væru minni. Mér sýnist að sérstaklega þurfi að líta til eftirlitsþátta og hvar ábyrgð liggur.

Ég vonast til þess að við berum gæfa til að vinna þetta þannig að við náum sem mestum árangri. Ég sé það á hv. þm. Ögmundi Jónassyni að hann er orðinn allur annar eftir þessa umræðu. (Gripið fram í.) Þetta verður miklu betri og upplýstari og málefnalegri umræða en við höfum tekið um húsnæðismál í gegnum árin og áratugina. Ef svo er er enginn vafi á því að við náum betri árangri.



[13:54]
Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Hæstv. forseti. Það sem mér er efst í huga í dag er auðmýkt; viljinn til að læra af reynslunni, viljinn til að axla ábyrgð, viljinn til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum, viljinn til að leggja egóið okkar til hliðar, viljinn til að viðurkenna vanmátt okkar og viljinn til að viðurkenna að við sem sitjum hér inni vitum ekki alltaf best. Þetta á ekki bara við um okkur sem sitjum hér inni, heldur aðra embættismenn og stjórnsýsluna alla.

Ábyrgðin sem felst í því að fara með opinbert fé er gríðarleg og afleiðingarnar skelfilegar ef hroki ræður ríkjum. Við þurfum að leggja flokkspólitík til hliðar og hlusta, hlusta hvert á annað, hlusta á þjóðina og sérfræðinga innan og utan okkar raða. Við megum aldrei gleyma því af hverju við erum hér. Við erum hér til að hlusta og þjónusta. Við ætlum að skapa þjóðinni betra samfélag þar sem réttlæti og stöðugleiki ræður ríkjum.

Ég geri þær kröfur til ráðamanna þjóðarinnar að þeir hlusti á viðvörunarbjöllur. Á árunum 1999 til 2012 hafa OECD og AGS gert 21 úttekt á íslensku efnahagslífi og sett fram fjölmargar athugasemdir og aðfinnslur um húsnæðisstefnu stjórnvalda, en þar hefur Íbúðalánasjóður meira eða minna verið í brennidepli. Sérfræðingar þessara tveggja stofnana hafa sett fram rökstuddar áhyggjur sínar af þróun mála og komið með fjölmargar tillögur í þeim efnum. Frá árinu 2003 hafa þessar tvær stofnanir talið brýna þörf í úrbótum í málefnum Íbúðalánasjóðs og lögðu sérfræðingar stofnana fram tillögur að gagngerum breytingum á sjóðnum og hugmyndir að útfærslu. Síðan þá hafa stofnanirnar margítrekað áhyggjur sínar og hvatt til tafarlausra breytinga. Sérfræðingar innan þeirra raða vöruðu meðal annars við óeðlilegum og skaðlegum áhrifum á efnahagslífið, áhrifum sjóðsins á þenslu í hagkerfinu, áhættu ríkissjóðs og beinum afskiptum stjórnmálamanna af lánastarfsemi, samkeppni við einkareknar fjármálastofnanir og algjörlega máttlaust eftirlit.

Hæstv. forseti. Það hlýtur að vera orðið ljóst að okkur ber að hlusta á viðvörunarbjöllur frá hæfum erlendum sérfræðingum og hætta að láta þjóðarstoltið flækjast fyrir okkur. Við verðum að leita allra leiða til að gera vel. Það á að vera sama hvaðan gott kemur, og munum að glöggt er gests augað.

Þess vegna veldur það mér miklum áhyggjum hvert viðhorf hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, er til þessara erlendu stofnana.

Með leyfi forseta ætla ég að fá að endurtaka orð hæstv. forsætisráðherra sem hann lét falla í fréttum Ríkissjónvarpsins þann 28. júní sl. um gagnrýni OECD og AGS á frumvarp um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Þar sagði hann m.a.:

„Hvað hins vegar OECD varðar og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og allar þessar stofnanir hef ég ekki miklar áhyggjur af því hvað hinum og þessum skammstöfunum finnst um þetta frumvarp.“

Ný ríkisstjórn hefur ekki farið leynt með þjóðmenningarlegar áherslur sínar, en í stefnuyfirlýsingu hennar kemur fram að íslensk þjóðmenning skuli vera í hávegum höfð. Í yfirlýsingunni var lítil sem engin áhersla á að efla samstarf við aðrar Evrópuþjóðir. Þá er líka fullkomlega ljóst, af orðum hæstv. forsætisráðherra, að hann ber ekki mikla virðingu fyrir skoðunum virðulegra erlendra stofnana á borð við OECD og AGS. Af þessu að dæma get ég ekki annað en haft áhyggjur af viðhorfi hæstv. ráðherra í ljósi sögunnar og þess áfellisdóms á íslenskt stjórnkerfi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð felur í sér.

Ég vona að við séum raunverulega tilbúin til að læra af reynslunni, leggja hrokann og egóið til hliðar og fagna gagnrýni og tillögum innlendra jafnt sem erlendra stofnana. Viðurkennum í eitt skipti fyrir öll vanmátt okkar til að vita alltaf best og sýnum þá dómgreind sem þjóðin á skilið. Gleymum því aldrei að í auðmýktinni felst styrkurinn og í samvinnunni felst árangurinn.



[13:59]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þeirri stjórnmálahreyfingu sem ég og hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir tilheyrum er gengið út frá hugmyndafræði sem kennir sig við þjónandi forustu. Einn angi hennar felst í því að hlusta af alúð. Í því felst jafnframt að spurningar, sem settar eru fram sem gagnrýni, jafnvel þó að þær séu orðaðar með gildishlöðnum hætti, eru skoðun sem er byggð á tilfinningu sem ber að hlusta á og virða. Gagnrýni er ekki árás. Aðfinnsla er ekki sama og loftárás. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Gagnrýni er hluti af nauðsynlegri lýðræðislegri umræðu í lýðræðissamfélagi þar sem menn hafa ólíkar skoðanir og skiptast á skoðunum til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum þá skýrslu sem nú er komin fram um Íbúðalánasjóð.

Það er tvennt sem maður staldrar við við fyrstu yfirsýn, það er skortur á vönduðum vinnubrögðum, agaleysi og svo ágalli þeirrar umræðuhefðar sem ég minntist hér á áðan. Hluti af þeim ágalla birtist í umræðunni sem hér fer fram degi eftir að skýrslan kom út. Í síðustu viku þegar hæstv. forseti kynnti að þessi skýrsla kæmi út á þriðjudegi og að umræðan ætti að fara fram á miðvikudegi gerði ég athugasemdir við það á fundi þingflokksformanna að mér þætti það skammur tími sem menn hefðu til að kynna sér efni hennar og fara efnislega í umræðu um það sem þarna kemur fram í mjög viðamikilli og þykkri skýrslu. Ég flutti síðustu skýrslu hér í þinginu klukkan um það bil hálfeitt í gærkvöldi, er svo kominn aftur hérna tólf tímum síðar til að ræða þessa skýrslu. Það gefur augaleið að við getum aðeins krafsað í yfirborðið í þessari umræðu.

Ég vil ítreka að það er nauðsynlegt fyrir okkur, þegar líður fram á haustið, að taka aðra umræðu um þessa skýrslu, þegar meira er komið í ljós, þegar hún hefur verið rædd enn betur og við sjáum kannski glitta í einhverja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í kjölfar hennar.

Ég minni á það líka að það er bara í næsta mánuði sem við eigum von á fyrstu tillögum úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldsettra heimila. Það er nauðsynlegt að hafa þann lærdóm sem draga má af þessari skýrslu vel í huga þegar kemur að þeim skrefum sem menn ætla að stíga þar.

Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að hér birtist okkur mjög gallað húsnæðiskerfi sem er grunnurinn að þessu máli. Hann fór að vísu ekki jafn djúpt í að leita orsaka þess eins og ég mundi vilja gera og velta fyrir sér af hverju það er sem okkur hefur ekki tekist hér á þessu landi að bjóða almenningi upp á almennileg og samkeppnishæf lánakjör, af hverju vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru alltaf prósenti, tveimur eða þremur, hærri en það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er auðvitað vegna þess að það er áhættusamt að lána í íslenskum krónum. Það hefur leitt til þess að við erum með hátt vaxtastig. Það hefur meðal annars leitt til þess að íslenskur almenningur — þegar Jón og Gunna ákveða að kaupa sér sitt fyrsta hús velta þau yfirleitt fyrir sér greiðslugetu sinni frá mánuði til mánaðar og hugsa minna um vaxtastigið, velta lítið fyrir sér hvað breytingar á því muni hafa í för með sér, heldur horfa fyrst og fremst til þess hvort þau muni ráða við afborganir af húsnæði sínu frá einum mánuði til annars. Þetta hefur leitt til þess að fólk tekur of há lán, skuldsetur sig of mikið. Það er ekki æskilegt. Það er eitthvað sem við hljótum að vera sammála um að við þurfum að taka á.

Þegar menn eru komnir út í þessa hluti verða menn að velta fyrir sér hvaða áhrif gjaldmiðillinn hefur í för með sér. Þegar ég talaði um skort á vandaðri umræðu á ég við það að menn klára ekki ferla í íslenskri pólitík eða íslensku stjórnkerfi. Þeir ljúka ekki við ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það er ekki farið eftir ákvörðunum sem búið er að taka. Mál eru ekki leidd til lykta. Það er ekki búið að ákveða enn hvað við ætlum að gera í sambandi við það að ljúka viðræðum við Evrópusambandið. Það er ekki búið að svara þeirri stóru spurningu sem felst í því að taka upp nýjan gjaldmiðil og stöðugri og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir húsnæðiskerfið á Íslandi í framtíðinni. Á meðan menn svara ekki þeim stórum spurningum krafsa þeir áfram í yfirborði málanna.

Það er ánægjulegt að hæstv. ríkisstjórn stofnaði nefndir og starfshópa. Við í Bjartri framtíð studdum það þó að við séum auðvitað áhyggjufull yfir fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Sagan sýnir að full ástæða er til að hafa áhyggjur. Það er full ástæða til að fara vel yfir þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið, að þær ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Þær mega ekki vera þensluhvetjandi og verðbólgumyndandi, með tilheyrandi áhrifum á vaxtastig og þar með með tilheyrandi og vondum áhrifum á stöðu heimilanna.

Það er með þetta í huga sem stíga verður næstu skref. Við þurfum að vinna að því að búa til framtíðarhúsnæðisstefnu með fulltrúum allra flokka og stéttarfélaga þannig að þau mistök sem hér hafa átt sér stað verði ekki endurtekin.



[14:06]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það liggur í hlutarins eðli að þessi umræða mun verða frekar yfirborðskennd. Þó verð ég að segja að í ræðunni sem hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir flutti var komist að kjarna málsins. Ég vil jafnframt taka undir margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls.

Ég tel mjög mikilvægt, þegar við hittumst í september á hinum svokallaða septemberstubbi, að við förum í ítarlega umræðu um þetta mál. Fyrst við komum hvort eð er saman í september finnst mér tilvalið, til að leggja grunninn að haustþinginu, að við notum sumarið til að fara ítarlega í þessa skýrslu. Það er ekki úr vegi að þær nefndir sem eiga að fjalla um skýrsluna hittist og fari vel yfir það sem við þurfum að læra af henni. Þetta snýst að sjálfsögðu fyrst og fremst um það hvaða lærdóm við getum dregið af þessu og hvað við þurfum að gera strax.

Það kom skýrt fram í morgun, þegar við fengum skýrsluhöfunda til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að eitthvað þyrfti að gera strax. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, og þetta er glimrandi tækifæri til að fara í heildarendurskoðun, sem svo sárlega þarf að gera, og taka ákvarðanir í tengslum við húsnæðiskerfi landans. Mér líður svolítið eins og ég sé alltaf í einhverju endurteknu efni sem ég þó var ekki hluti af þegar kemur að umræðum um húsnæðiskerfi Íslendinga.

Það er alltaf verið að tala um að leigumarkaðurinn sé í molum. Hann hefur sjaldan verið eins slæmur og hann er í dag. Af hverju? Af hverju hafa þeir sem fara út í stærstu fjárfestingu lífs síns, sem er þak yfir höfuðið, svona lítil réttindi? Fyrir langflesta er þetta stærsta fjárfesting lífsins.

Þessi skýrsla gefur okkur vísbendingu. Ég vil þó hvetja alla þá nýju þingmenn sem hér eru og þá sem hafa verið hér lengur og hafa ekki gefið sér tíma til að lesa hina ótrúlega mögnuðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hina fyrri, að samlesa þessar tvær skýrslur. Þegar við fáum síðan skýrsluna um sparisjóðina mun það gefa okkur mjög góða vísbendingu um það hvert við þurfum að fara og hvað við þurfum að gera.

Ég tek undir það með þingmönnum að við eigum ekki að fara í skotgrafir. En við verðum líka að búa til ábyrgðakeðju í samfélagi okkar sem er á þann veg að þeir sem valda svona miklu samfélagslegu tjóni, annaðhvort með aðgerðaleysi eða með því að taka að sér stöðu sem þeir valda ekki, verði að axla ábyrgð þó að það sé ekki nema með því að segja af sér. Í öllum öðrum löndum sem við berum okkur saman við er það þannig. Þó svo þú sért ekki ábyrgur persónulega í ákveðinni stofnun fyrir einhverju sem gerst hefur, einhverju sem starfsmaður þinn gerir, þá segir þú af þér. Það býr til heilbrigðara samfélag. Ef fólk sem veldur mestum skaða í samfélaginu kemst alltaf upp með það, hvers konar skilaboð erum við þá að senda öðrum? Það er brotið samfélag sem leyfir að það sé þannig að þeir sem valda mestu tjóni komist alltaf upp með það og fá jafnvel stöðuhækkun. Það er ekki gott samfélag. Það er ekki heilbrigt samfélag. Ég varð að koma aðeins inn á þetta.

Það kom líka fram á þessum fundi í morgun — sem mér fannst athyglisvert og mikilvægt og vil gjarnan að við notum sem grunn þegar við förum að skoða hvers konar húsnæðiskerfi við ætlum að hafa hérlendis — að það þýðir ekki að tjasla endalaust í ónýta flík með bútasaum. Ástandið er orðið þannig með Íbúðalánasjóð að hann er í mjög slæmri stöðu. Það fylgja honum miklar skuldir og það hefur komið fram, og kom fram á síðasta þingi, þar sem ég var þingmaður fyrir annan flokk og sat í velferðarnefnd og öðrum nefndum, að staða sjóðsins er mjög slæm.

Mér finnst ekkert að því að við förum, á meðan við höfum tíma, í að endurhanna kerfið frá grunni eins og nefndarmenn sem sátu í þessari rannsóknarnefnd lögðu til. Mér finnst það ótrúlega spennandi verkefni. Mér finnst það spennandi að því gefnu að við lærum af fortíðinni og setjum líka ábyrgðakeðju inn í þau nýju kerfi sem við ætlum að smíða saman. Auðvitað eiga allir flokkar að koma að því. Og auðvitað eigum við að kalla til sérfræðinga, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, til að fá lánaða hjá þeim dómgreind, þekkingu og visku.

Þetta íbúðalánasjóðskerfi — mjög margir Íslendingar halda að það hafi enn þá félagslegan undirtón. Það er mjög langt síðan sá félagslegi undirtónn og þau félagslegu markmið sem þessi sjóður stóð fyrir hurfu. Ef einhvern tímann hefur verið tilefni til að skoða húsnæðismál á heildrænum grunni, bæði út frá leigumálum — ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef verið á leigumarkaði mjög lengi sjálf og neyddist til að kaupa mér húsnæði út af því að það var orðið svo dýrt að leigja, sem er sorglegt, því það er þannig að sumum hentar bara betur að vera í leiguhúsnæði. Það á að vera þannig að það sé val hjá fólki hvort það vilji festa sína framtíð í steypu eða ekki. Ég er ekki viss um að við munum nokkurn tímann hafa leigumarkað á Íslandi. Ég er eiginlega búin að gefast upp á þeirri tilhugsun. Það er meira að segja þannig úti í grasrótinni — ef hinn ágæti maður Jón frá Pálmholti hefði ekki komið á einhverjum réttindum fyrir leigjendur, ef hann hefði ekki verið til, væru kannski ekki enn þá til leigusamningar. Það er nú bara þannig. Því miður nýtur þess góða manns ekki lengur við. Það hefur enginn tekið boltann hans. Er það ekki á ábyrgð stjórnvalda að tryggja neytendarétt? Er það ekki á ábyrgð okkar?

Það kemur fram í þessari skýrslu að þingmenn og embættismenn ýmiss konar og ráðherrar og ráðuneyti og ýmsar mikilvægar stofnanir stóðu sig ekki sem skyldi. Hvað getum við gert til þess að laga þetta? Ég held að það eigi að vera meginstefið.

Ég vildi óska þess að við mundum líka geta kallað hlutina réttum nöfnum. Það er eitt af því sem við verðum að hætta að gera, það er að ráða pólitískt í mikilvægar stöður. Það er spilling. Það heitir ekki neitt annað, en það má ekki kalla það spillingu. Hættum að ráða pólitískt í svona rosalega mikilvægar stöður. Því að hæfa fólkið, sem vill vera virkilega góðir embættismenn, það fær aldrei vinnu, nema það gangi í einhvern flokk. Getum við ekki reynt að breyta þessu? Er ekki kominn tími til að við lærum af reynslunni?

Hérna höfum við í fjórum bindum, ásamt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem spannaði átta plús eitt bindi, og svo fáum við rannsóknarskýrsluna um sparisjóðina — þarna er efniviðurinn, lærdómurinn, til að byggja hið nýja Ísland, sem er ekki lengur í umræðunni, en er það eina rétta sem við þurfum að gera eftir hrun. Það er eins og við höfum ekki lært neitt af hruninu. Þetta var ekkert svokallað hrun, þetta var alvöruhrun. Við erum enn að finna áhrifin af því.

Allar krísur, sem samfélagið eða einstaklingar lenda í, eru annaðhvort til að halda áfram í sama fari, fara enn dýpra niður eða ótrúlegt tækifæri breytinga. Látum þessa skýrslu verða ótrúlegt tækifæri til alvörubreytinga. Ég skora á samþingmenn mína að gera það.



[14:16]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Eftir bankahrunið 2008 var mikið talað um skort á eftirliti og skeytingarleysi sem ákveðna grunnþætti í sjálfu hruninu. Talað var um Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann, stjórnvöld og fleiri stofnanir sem áttu að sjá til þess að þessir hlutir væru í lagi. Nú hefur komið í ljós að skortur á eftirliti og skeytingarleysi hefur verið víðar. Aftur dúkka upp nokkurn veginn þessir sömu aðilar ásamt fleirum þegar leitað er að þeim sem bera ábyrgð á slæmri stöðu Íbúðalánasjóðs. Stjórnvöld, Alþingi, Fjármálaeftirlitið, stjórn Íbúðalánasjóðs og starfsmenn, (ÖS: Og kosningaloforð.) — það er enginn undanskilinn.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð er svört. Hún er áminning um það hvað gerist þegar eftirlitskerfið bregst, stjórn bregst, starfsmenn bregðast og síðast en ekki síst þegar stjórnmálamenn bregðast. (Gripið fram í: Hver stýrði þessu?) Þannig er það og síðan geta menn farið í endalausa samkvæmisleiki þar sem reynt er að finna þann sem ber meiri ábyrgð en næsti maður.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er sjónum sérstaklega beint að því sem kallað er „viss vegferð stjórnvalda með sjóðinn árið 2004“. Sú vissa vegferð fólst í breyttum útlánum og fjármögnun þeirra. Húsnæðislánakerfið var lagt niður og íbúðabréfakerfi tekið upp með beinum peningalánum. Hámarkslánsfjárhæð lána var hækkuð og veðhlutfall lána Íbúðalánasjóðs hækkaði í allt að 90%. Skýrsluhöfundar benda á að þetta hafi verið í samræmi við kosningaloforð Framsóknarflokksins, loforð sem síðan fór í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Farið var að veita almenn 90% lán í desember 2004, en nokkrum mánuðum áður hafði viðbótarlánakerfi sjóðsins verið aflagt. Þegar hér var komið sögu höfðu bankarnir ruðst inn á markaðinn og boðið 100% lán án hámarkslánsfjárhæðar, á meðan Íbúðalánasjóður var með hámark á sínum lánum. Skyndilega voru lán Íbúðalánasjóðs ekki eins freistandi og fyrr og stórfelldar uppgreiðslur hófust þegar fólk vildi greiða lánin upp og færa sig yfir í bankana. Samtals tapaði Íbúðalánasjóður 54 milljörðum vegna uppgreiðslu lána og 103 milljörðum vegna svokallaðrar uppgreiðsluáhættu. Er það þá kosningaloforð Framsóknarflokksins sem var skaðvaldurinn, eða voru það fjármálastofnanir sem dældu peningum út án þess að taka eðlileg veð? Hvort kemur á undan, hænan eða eggið?

Sumir hafa viljað kenna kosningaloforði Framsóknarflokksins um 90% lánshlutfall um hvernig fór á sínum tíma. Fulltrúi rannsóknarnefndar Alþingis sagði hins vegar skýrt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að orsökin lægi annars staðar. Við skulum ekki gleyma því að íbúðaverð tók stökk þegar bankarnir fóru að veita 100% íbúðalán. Hafði verðið hækkað umtalsvert þegar Íbúðalánasjóður hóf að veita sín almennu 90% lán. Þessi 90% lán Íbúðalánasjóðs höfðu engin áhrif á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjóðurinn veitti aðeins nokkra tugi slíkra lána þar. Þegar bankarnir komu inn á markaðinn náðu þeir hins vegar strax 80–90% markaðshlutdeild í íbúðalánum á nánast engum tíma.

Mér leikur líka forvitni á að vita af hverju Samfylkingin tók ekki á málefnum Íbúðalánasjóðs þar sem flokkurinn sá um málaflokkinn í heil sex ár. (Gripið fram í.) — Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra 2007–2009, Ásta R. Jóhannesdóttir var félags- og tryggingamálaráðherra 2009, síðan sáu Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson um þennan málaflokk frá 2009–2013. Er ekki rétt að þetta fólk svari fyrir aðgerðaleysi sitt? Var það kannski bara almennt áhugaleysi og sinnuleysi? (Gripið fram í: Af hverju var ekki …? ) Hér áðan var sagt að ýmislegt hefði verið gert, en þetta ýmislegt var greinilega ekki nóg.

Ekki má heldur gleyma því að það var ákveðinn stuðningur við 90% hugmyndina árið 2004 frá nokkrum núverandi stjórnarandstöðuþingmönnum. Þegar beðið var eftir niðurstöðu frá Eftirlitsstofnun EFTA á sínum tíma, um hvort yfirleitt væri í lagi að veita 90% lán, kom fram tillaga frá þingmönnum Samfylkingarinnar, fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, formanni þingflokks Samfylkingarinnar, Helga Hjörvar, og varaformanni flokksins, Katrínu Júlíusdóttur, þar sem þau hvöttu til þess að þegar í stað yrði boðið upp á slík lán, 90% lán, þó að niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA lægi ekki fyrir.

Helgi Hjörvar, sem hér kemur upp á eftir væntanlega, hafði þetta að segja um 90% lánin árið 2004, með leyfi forseta:

„En ég held að það sé mikilvægt vegna fasteignamarkaðarins og væntinga í samfélaginu að ráðherrann staðfesti að það sé fyrirætlun ríkisstjórnarinnar, að því gefnu að eftirlitsstofnunin fallist á málið, að hér verði í boði á þessu kjörtímabili 90% lán, að hámarki 18 millj. kr., til íbúðakaupa þannig að markaðurinn og þeir sem eru í íbúðakaupahugleiðingum geti gengið út frá því sem vísu að gefi ESA grænt ljós verði þetta þær heimildir sem tiltækar verði íbúðakaupendum í síðasta lagi vorið 2007.“

Þetta var árgerð 2004 af Helga Hjörvar. Ég veit ekki hvað árgerð 2013 segir.

Að þessu sögðu er það alveg á hreinu að Framsóknarflokkurinn skorast ekki undan ábyrgð þegar kemur að stöðu Íbúðalánasjóðs. Teknar voru margar afdrifaríkar ákvarðanir þegar flokkurinn stóð á vaktinni, ákvarðanir sem voru dýrkeyptar. En það er nauðsynlegt að fjalla um málið af sanngirni, en ekki með innantómum upphrópunum.

Í þessari umræðu hefur verið farið yfir margt af því sem fór aflaga og það eru gríðarlegar upphæðir sem hafa tapast. Rannsóknarnefndin segir að sinnuleysi stofnana stjórnsýslunnar og vanþekking innan sjóðsins, auk pólitískra áhrifa og hagsmunatengsla, hafi verið dýrkeypt. Bókfært tap Íbúðalánasjóðs sé 100 milljarðar kr. frá stofnun sjóðsins til ársins 2012 miðað við verðlag þessa árs. Óbókfært tap nemi allt að 170 milljörðum kr. að núvirði. Heildartap Íbúðalánasjóðs gæti því numið allt að 270 milljörðum kr. Þetta eru gríðarlegar upphæðir. Hvað fór úrskeiðis?

Íbúðalánasjóður ákvað í desember 2004 að ávaxta umframfé sitt með lánssamningum við banka og sparisjóði. Þetta voru 95 milljarðar kr. á árinu 2005. Þetta þýddi einfaldlega að bankarnir gátu lánað enn meira fé en áður, sem leiddi síðan til þess að enn meiri uppgreiðsla varð hjá Íbúðalánasjóði.

Rannsóknarnefnd Alþingis segir að flest bendi til þess að þessar lánveitingar til banka og sparisjóða hafi verð ólögmætar. Það er því athyglisvert að ungur og upprennandi lögmaður, Árni Páll Árnason, skilaði á sínum tíma lögfræðiáliti þar sem hann sá ekkert athugavert við þessa samninga. Þessi sami Árni Páll Árnason hafði unnið mikið fyrir sjóðinn missirin á undan, (Forseti hringir.) ekki síst í tengslum við umdeild skuldabréfaviðskipti sem kostuðu sjóðinn (Forseti hringir.) meira en 20 milljarða kr.

(Forseti (KLM): Má ég minna hv. þingmann á að honum ber að ávarpa þingmann á tilskilinn hátt.)

Tek það til mín.

Rannsóknarnefndin sagði líka að ekki hefði verið hlustað á Ríkisábyrgðasjóð sem ítrekað varaði við stöðu Íbúðalánasjóðs, að starfsemi Íbúðalánasjóðs hafi ekki bara náð til lánveitinga til húsnæðiskaupa og undir formerkjum áhættustýringar var sjóðurinn rekinn sem fjárfestingarbanki, fjármagnaður með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa, að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi ekki sinnt hlutverki sínu og stjórnarmenn hefðu ekki haft þekkingu á verkefninu. Og að Íbúðalánasjóður hafi lánað byggingasamvinnufélögum, sjálfseignarstofnunum, byggingaverktökum og öðrum fyrirtækjum og stofnunum, 122 milljarða kr. á árunum 1999–2012. Það er fimmtungur af heildarlánveitingum sjóðsins á þeim tíma. Kröfur um veð voru litlar og háar upphæðir töpuðust.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er mikið og ítarlegt plagg. Skoða verður rækilega hvað fór úrskeiðis. Síðan verður að byggja nýtt húsnæðiskerfi til framtíðar. Við verðum að horfa til framtíðar, jafnt í málefnum Íbúðalánasjóðs sem öðrum.

Það þarf að loka endanlega á pólitísk ítök og hagsmunapot stjórnmálamanna. Framsóknarflokkurinn hefur einn flokka stigið það skref að skipta algjörlega um forustu eftir hrun. Enginn núverandi þingmanna flokksins sat á þingi þegar afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar í málefnum Íbúðalánasjóðs árið 2004. Sá sem hefur mestu starfsreynsluna kom inn árið 2007, síðan komu nokkrir inn árið 2009. Uppgjör við fortíðina má ekki bara eiga sér stað úti í þjóðfélaginu, heldur þarf það líka að eiga sér stað í stjórnmálaflokkunum sjálfum. (Gripið fram í: Rétt) Þar getur Framsóknarflokkurinn borið höfuðið hátt.

Það ber að þakka fyrir þessa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta er mikið plagg sem getur orðið góður vegvísir inn í framtíðina.



[14:26]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Framkvæmd kosningaloforða Framsóknarflokksins árið 2003 leiddi til gríðarlegs tjóns. Það mikilvæga nú er að við gætum þess að framkvæmd kosningaloforða Framsóknarflokksins árið 2013 verði ekki annað eins stórslys. (Gripið fram í.)Allt að 270 milljarða uppsafnað tap. Það er nærfellt 1 millj. kr. á hvert mannsbarn í landinu. (Gripið fram í.)Það eru liðlega 3 millj. kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu í landinu og það tekur venjulega fjögurra manna fjölskyldu langan tíma og mikið erfiði að leggja til hliðar svo háar fjárhæðir. Þess vegna er ábyrgðin mikil og mikilvægt fyrir okkur að læra af því sem gerst hefur.

Þegar ég segi framkvæmd kosningaloforða Framsóknarflokksins þýðir það ekki að Framsóknarflokkurinn beri einn þessa ábyrgð. Það voru margir sem komu að þeirri framkvæmd. Það þýðir ekki að efni kosningaloforðsins í sjálfu sér, 90% húsnæðislán, hafi verið kjarni þess sem fór úrskeiðis því að staðreyndin er sú að í velferðarríkjum allt í kringum okkur eru veitt 90% húsnæðislán án þess að það hafi haft (Gripið fram í.)hræðileg efnahagsleg áhrif. (Gripið fram í.)Mistökin sem gerð voru eru í útfærslunni og í framkvæmdinni, fyrst og fremst því að réttur Íbúðalánasjóðs til þess að greiða upp þau lán sem hann tók sjálfur var af honum tekinn. Þau mistök kostuðu 100 milljarða íslenskra króna. Þau mistök leiddu til þess að gríðarlegt lausafé hlóðst upp inni í sjóðnum. Í örvæntingunni dældi hann því fé út á markað og kynti undir bæði þenslunni á markaðnum og samkeppni fjármálastofnananna við sjálfan sig og á undraskömmum tíma leiddi útfærslan og framkvæmdin á þessu kosningaloforð Framsóknarflokksins 2003 til þess að á Íslandi voru fyrir hrun, fyrir efnahagshrun, skuldsettustu heimili í heimi.

Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við förum yfir þær tillögur sem við eigum eftir að fá á þessu kjörtímabili um framkvæmd á kosningaloforðum Framsóknarflokksins árið 2013. Án þess að ætla að vísa beint til einstakra orða sem komu fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag var þar lögð rík áhersla á að við alþingismenn skyldum muna og muna alltaf: Aldrei að gera allt fyrir alla vegna þess að það mun alltaf hafa í för með sér gríðarlegan kostnað.

Ég held að við skulum muna það þegar við tökumst á við útfærslurnar á kosningaloforðum Framsóknar árið 2013, kannski sérstaklega vegna þess að við hefðum mátt gera það betur þegar við fengumst við útfærslurnar á kosningaloforðum þeirra 2003.

Aldrei að gera allt fyrir alla af því það mun reynast öllum býsna dýrkeypt. En hvað annað getum við á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að fengum skýrsluna lært af því sem fór úrskeiðis? Það er að hér má ekki, hér má alls ekki, hvorki í Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, Ríkisendurskoðun né nokkrum öðrum lykileftirlitsstofnunum í samfélaginu stunda pólitískar ráðningar. Eftirlitsstofnanir okkar, kjarnaeftirlitsstofnanir okkar, sem eiga að hafa eftirlit með atvinnulífinu, með fjármálalífinu og með stjórnmálamönnunum, verða að vera lausar við pólitíska spillingu og úthlutanir embætta til flokksgæðinga, hvort sem það er í Seðlabankanum eða Fjármálaeftirlitinu.

Hvað getum við líka lært af þessu? Við getum lært að þegar stofnanir gegna miklu efnahagslegu hlutverki, eins og Íbúðalánasjóður, megum við ekki undanþiggja þær eftirliti þótt þær séu félagslegar stofnanir öðrum þræði, við megum ekki undanþiggja þær reglum um aðhald, við megum ekki taka af Fjármálaeftirlitinu eða hafa heimildir Fjármálaeftirlitsins neitt minni til inngripa í slíkar stofnanir heldur en aðrar, vegna þess að þegar við freistumst á einhverjum öðrum forsendum til þess að draga úr aðhaldi með mikilvægum efnahagslegum stofnunum eins og Íbúðalánasjóði fer illa. Þegar hér fara saman stór og dýr kosningaloforð, illa ígrunduð útfærsla, pólitísk spilling í embættisveitingum og lítið aðhald með starfsemi sjóðsins verður reikningurinn sá sem hann varð, allt að 270 þúsund milljónir. Það er áfall af slíkri stærðargráðu að við hljótum að fara yfir það, ekki bara í dag heldur hljótum við að taka þá daga sem ákveðið hefur verið að hafa þinghald í september til þess að fara enn betur yfir það, í millitíðinni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það hlýtur auðvitað að vera verkefni okkar áfram í vetur að vinna úr því sem hér er á borðinu.

Hér var einhver drullumokstur af hálfu nýs þingmanns Framsóknarflokksins sem minnti helst á gamla sendiboða úr þeim flokki, eins og menn þekkja héðan úr þinginu, þar sem reynt var að draga persónur úr mínum stjórnmálaflokki til ábyrgðar um þetta efni. Ég ætla ekki að segja margt um það, það er einhvern veginn ekki þess verðugt þegar menn standa hér og nafngreina einstaklinga sem þeir vilja draga til ábyrgðar fyrir (Gripið fram í: Ómálefnalegt) þau mistök sem þeir bera fyrst og fremst ábyrgð á.

Ég bendi á að rannsóknarnefndin sjálf sá ástæðu til þess að kalla fyrir sig tiltekna félagsmálaráðherra til þess að fara yfir störf þeirra sem ráðherra. Það voru ekki þeir sem þessi nýi þingmaður Framsóknarflokksins nefndi sem voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina vegna starfa sinna sem ráðherrar. Þar er þó undanskilinn Árni Páll Árnason því hann var kallaður til hafandi starfað sem lögfræðingur á sínum tíma og skrifað þetta álit sem nefnt er. Þegar menn draga það fram skulu þeir ekki reyna að setja ábyrgðina á lögfræðinginn sem skrifaði álitið, síst af öllu þegar fyrir liggur að bæði Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun höfðu sömu sjónarmið í málinu og hinn ungi lögfræðingur sem vísað var til.

Virðulegur forseti. Ég hvet Framsóknarflokkinn til þess að reyna að hafa þessa umræðu á ögn hærra plani og ögn minna persónulegu.



[14:34]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það dylst engum, við lestur þessarar skýrslu, að Íbúðalánasjóður var orðinn áhættusækin fjármálastofnun frá árinu 2004 sem leiddi til 270 milljarða taps fyrir sjóðinn og þar með skattborgara þessa lands. Félagslegt hlutverk sjóðsins var sett til hliðar og öll stefnumótun var í lágmarki og mikil markaðssókn var í kapphlaupi við einkavæddu bankana. Uppgreiðsluáhætta sjóðsins var gífurleg þegar samkeppni við bankana hófst af fullum þunga haustið 2004. Íbúðalánasjóður stóð samhliða frammi fyrir því að geta ekki greitt upp íbúðabréfin sem sjóðurinn fjármagnaði sig með.

Þrátt fyrir miklar uppgreiðslur hélt Íbúðalánasjóður áfram að fjármagna sig með íbúðabréfum og uppgreiðslur voru meiri en útlán hans árin 2004 og 2006. Það fjármagn sem sjóðurinn sótti sér á markað en hafði ekki þörf fyrir jók gífurlega á vanda hans. Allt ber þetta að sama brunni. Á árunum 2004–2008 fer sjóðurinn í áhættusamar fjárfestingar og tapaði við hrunið miklum fjármunum vegna þeirrar áhættutöku með lausafé sjóðsins. Sjóðurinn slakaði á í lánsskilyrðum og hækkaði lánshlutfall og hætti að gera kröfu um bankaábyrgð við lántöku til byggingaverktaka og leigufélaga í byggingu íbúðarhúsnæðis á markaði.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er litið á þessa ákvörðun þáverandi og núverandi stjórnarflokka sem ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna, mistök sem gerð voru með fullri þekkingu á mögulegum afleiðingum. Skýrslan um Íbúðalánasjóð er líka áfellisdómur um pólitískar ráðningar og hagsmunatengsl við ákvarðanatöku. Við lestur skýrslunnar eru pólitísk fingraför Framsóknarflokksins áberandi og eru til marks um óvönduð vinnubrögð sem ættu að verða Framsóknarflokknum víti til varnaðar í störfum sínum núna í stjórn landsins.

Það er rétt að minnast og rifja upp þau óábyrgu og miklu yfirboð sem Framsóknarflokkurinn fór út í fyrir síðustu kosningar, um niðurfærslu skulda vegna íbúðalána, sem nota bene eiga að stórum hluta rætur sínar að rekja til óábyrgrar útlánastarfsemi, bæði Íbúðalánasjóðs og bankanna á markaði, á árunum 2004–2008, þeirrar kollsteypu sem varð við bankahrunið og hins alvarlega forsendubrests sem fylgdi í kjölfarið fyrir alla lántakendur þessa lands.

Það má lesa út úr þessari skýrslu hvernig stjórnendur Íbúðalánasjóðs misstu algjörlega sjónar á grunnhlutverki sjóðsins, á því að búa landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum í stað áhættusækni á markaði. Fram kemur hjá skýrsluhöfundum að bankakerfið sé í dag fullfært um að sinna öllum almennum lánveitingum og þar með talið fasteignakaupum. Þar er ég alls ekki sammála því að víða á landsbyggðinni lána bankar ekki til fasteignakaupa vegna þess að þeir telja sig ekki geta tekið neina áhættu í veðum í fasteignum þó að það standist langt í frá alltaf skoðun.

Íbúðalánasjóður mun því áfram gegna lykilhlutverki í lánastarfsemi til húsnæðiskaupa á landsbyggðinni og sinna sínu félagslega hlutverki. Það er því mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að móta skýra húsnæðisstefnu og horft verði til þess að tryggja leigjendum öruggt húsnæði og þeim sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda. Einnig verði horft til landsbyggðarinnar og hennar hlutur tryggður í eðlilegri uppbyggingu og endurnýjun á íbúðahúsnæði.

Umrædd skýrsla ber vitni um gífurleg mistök sem valdið hafa samfélaginu miklu fjárhagstjóni. Allir sem hlut eiga að máli og þeir sem gegna ábyrgð í þjóðfélaginu verða að læra af þeim miklu mistökum.



[14:40]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla sem okkur barst í gær sagði mér svo sem ekki mikið nýtt. Ég held að mörgum hafi verið ljósar helstu niðurstöður, fyrir þó nokkuð mörgum árum, sennilega 2006 og 2007, um stóru atriðin. Það voru mörg varnaðaráhrif og nú þurfum við að velta fyrir okkur hvað brást, hverjir brugðust. Margir sem hafa tekið til máls hafa bent á stjórnendur sjóðsins, ráðgjafa þeirra, eftirlitsaðila. Ég held að stærstu mistökin liggi hjá stjórnmálamönnum, þeim sem ráða langmestu. Það voru ótrúlega mikil mistök að þessi sjóður lét af sínu félagslega hlutverki, hann fór í samkeppni við bankana, með ríkisábyrgð á bakinu, sem þýddi auðvitað lægri vexti, sem þýddi það að lánskjörin urðu betri, sem þýddi það að húsnæðisverð hækkaði. Þetta er ekki spurning um að hafa skoðun á þessu eða ekki. Þetta er það sem gerist við þessar aðstæður. Íbúðalánasjóður er bara orðinn venjulegt fjármálafyrirtæki á lánamarkaði í samkeppni með þeirri áhættu sem því fylgir og sú áhætta kemur nú í bakið á okkur öllum.

Stjórnendur tóku margar rangar ákvarðanir, það er alveg ljóst. Það var röng ákvörðun að fara að lána einkabönkunum með peningum sem fengust fyrir uppgreiðslu, og taka þar að auki meira lán til að lána bönkunum. Þetta voru mistök og hugsanlega, eins og niðurstaða rannsóknarinnar ber með sér, ekki einu sinni lögmætt að gera. Ef það er rétt þá eru þetta sennilega mestu umboðssvik sögunnar.

En varðandi eftirlitsaðilana sem margir benda á — hvaða eftirlit brást? Var það ekki aðallega eftirlit Alþingis og ráðuneytisins? Menn benda á Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn höfðu bara mjög takmarkaðar heimildir í lögum til að bregðast við, nánast engar. Enda lá fyrir pólitísk ákvörðun um að lög um fjármálafyrirtæki giltu ekki um Íbúðalánasjóð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna auðvitað. Þannig að stóra og mikla ábyrgðin er hjá stjórnmálamönnum. Við skulum ekki reyna að varpa henni allri á eftirlitsaðila og stjórnendur Íbúðalánasjóðs.

Auðvitað eru það kannski stærstu mistökin af öllum að Alþingi skyldi heimila uppgreiðslu lántakenda hjá Íbúðalánasjóði án uppgreiðslugjalds enda er það niðurstaða skýrslunnar að mesta tjónið stafi af því. Langstærsti hluti tjónsins sem við verðum fyrir er út af þessu. Þegar við erum að tala um pólitísku ábyrgðina þá hafa menn fyrst og fremst bent á Framsóknarflokkinn. Ég er ekkert viss um það — ekki ætla ég nú að verja Framsóknarflokkinn sérstaklega — að hann beri meiri ábyrgð en margir aðrir flokkar hér. (Gripið fram í.) Ég held að við berum öll ábyrgð, allir flokkarnir bera ábyrgð.

Ég var að vísu ekki hrifinn af því loforði sem var gefið sem vakti auðvitað ákveðnar væntingar. Það var vont loforð, slæmt loforð en þetta er ekki stóra málið. Hér fór fram umræða um það. En húsnæðismál hafa einhvern veginn alltaf verið á könnu félagshyggjuflokkanna eða þeirra sem kenna sig við félagshyggju. Við í Sjálfstæðisflokki höfum viljað að um þetta gildi almennar reglur og höfum bent á, sem rannsóknarnefndin gerir raunverulega líka, að það er eiginlega bara um tvennt að ræða. Annaðhvort er Íbúðalánasjóður í félagslegu hlutverki fyrir þá sem þess þurfa eða ekki, hann á ekki að bjóða öllum lán með ríkisábyrgð, það er hættulegt og það átti ekki að gera.

Ef menn fara í það, eins og var gert, að lána öllum er verið að taka alveg ótrúlega mikla áhættu fyrir hönd skattgreiðenda sem á endanum lendir á skattgreiðendum. Þetta eru ótrúlega stór og mikil mistök og þeir sem eru í stjórnarandstöðu tóku undir þetta á sínum tíma. Þó að þetta hafi verið loforð Framsóknarflokksins þá vildu meira að segja sumir ganga enn lengra og hafa lánin hærri en boðið var.

Við skulum passa okkur á að benda ekki bara á einhvern einn. Stjórnmálamenn, Alþingi, bera hér langmestu ábyrgðina. Við verðum einfaldlega að læra af þessu og við verðum að hugsa núna: Hvað eigum við að gera? Hvað er næst á dagskrá? Nú liggur þessi skýrsla fyrir.

Okkur ber skylda til að koma á húsnæðiskerfi, fara úr skotgröfunum, sem gerir að verkum að allir eigi möguleika á að fá þak yfir höfuðið með hliðsjón af greiðslugetu og aðstæðum í staðinn fyrir að lána með ríkisábyrgð til allra eins og hægt er. Fyrir þá sem þurfa, aðra ekki. Ef við ætlum á annað borð að halda Íbúðalánasjóði þá á hann að verða félagslegur sjóður, ef við ætlum að hafa hann í samkeppni þá skulum við einkavæða hann. Annað væri óeðlilegt í mínum huga. Við þurfum að taka ákvörðun um þetta en aðalatriðið er að koma á einhverju kerfi — sem við verðum að drífa okkur í því að tíminn er naumur, þetta er allt í uppnámi — þannig að við getum lágmarkað áhættu ríkissjóðs, þannig að aðeins þeir fái slíka aðstoð sem þess þurfa.



[14:48]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er eins og aðrir mjög hugsi yfir þessari skýrslu og get ekki beinlínis sagt að ég hlakki til að lesa hana en það er óhjákvæmilegt verkefni. Ég ákvað um jólin að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis orð fyrir orð og er rétt hálfnuð og ég verð að segja að lesturinn hefur valdið mér ómældu hugarangri og reiði.

Mig langar aðeins að nota tækifærið og rifja upp andrúmsloftið sem ríkti í þessu landi upp úr aldamótunum síðustu. Það var vissulega barnsleg bjartsýni sem ríkti og ofurtrú á fjármálakerfið alls staðar, það var ekki bundið við Ísland en við tókum þetta samt alveg alla leið. Við héldum því beinlínis fram að við hefðum einhverja sérstaka hæfileika á sviði viðskipta, stæðum jafnvel framar öðrum þjóðum. Við vorum áhættusækin og það var talinn kostur. Þegar gagnrýnisraddir fóru að berast frá útlöndum var ráðist í átak til að leiðrétta þennan misskilning. Við réðum erlendan ímyndarsérfræðing, mjög virtan, og hann kynnti niðurstöður starfshóps síns á viðskiptaþingi undir yfirskriftinni „Ísland best í heimi“. Þetta var árið 2007, kemur kannski ekki á óvart. Í kjölfarið var síðan skipuð nefnd um ímyndarmál sem átti að skoða hvernig styrkja mætti ímynd landsins.

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp hérna er sú að ef við erum ófær um að líta í eigin barm og taka gagnrýni alvarlega breytist ekki neitt. Og ef við svo mikið sem leyfum okkur að trúa því eitt augnablik að við séum eitthvað merkilegri en aðrar þjóðir, að við búum yfir einhverjum yfirburðum, skiptir engu máli hvað við fáum mörg þúsund blaðsíður í formi rannsóknarskýrslna, það mun ekkert breytast. Hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir kom inn á það áðan hversu mikilvægt það er að við séum auðmjúk og tökum gagnrýni alvarlega og ég ítreka það og tek undir málflutning hennar.

Ég er oftast bjartsýn og trúi því að hrunið hafi vakið okkur og að við getum og viljum læra af þessum mistökum. Við erum í raun heppin, það er gríðarlega dýrmætt að hafa mistökin skjalfest og geta beinlínis farið systematískt yfir söguna með það að markmiði að búa til betri og öruggari framtíð.

En svo þyrmir yfir mig og ég spyr: Munum við læra eitthvað? Við erum enn sama þjóðin. Hrunið var á okkar ábyrgð, það er sameiginleg ábyrgð okkar allra sem þjóðar. Það er ekki bara eitthvað eitt sem klikkar, það er meira og minna allt. Eftirlitið klikkar, eftirlitið yfir höfuð. Pólitískar ráðningar og stöðuveitingar gera illt verra, allt of oft virðast menn hafa verið að vasast í málum sem þeir höfðu ekki þekkingu á. Og ég segi menn vegna þess að þetta voru mikið til karlmenn.

Aðgerðaleysi var viðhaft þegar þurfti nauðsynlega að grípa til aðgerða en svo var mikil athafnasemi þegar betra hefði verið væri að draga andann og meta stöðuna, samanber breytingar á Íbúðalánasjóði 2004. Síðan finnst mér skína í gegn, eftir lestur á rannsóknarskýrslunni og svo þessari nýju skýrslu sem ég hef aðeins náð að glugga í, að það er allt of algengt að fólk haldi að einhver annar muni bregðast við. Hlutverk eru ekki skýr, ábyrgð er ekki skýr og samráð og heildarsýn er lítil.

Ég held að við séum samt öll sammála um að við þurfum og verðum að læra af þessari skýrslu, hvað sem það kostar. Það sem veldur mér áhyggjum er að skrifaðar hafa verið skýrslur sem vara við ákveðinni þróun en við hlustum ekki. Hvernig fór til dæmis með skýrslur erlendra greiningardeilda sem gagnrýndu stöðuna hér? Síðan rakst ég á daginn á skýrslu sem Seðlabankinn gaf út árið 2000 og heitir Fjármálakerfið: styrkur og veikleikar og þar er beinlínis fjallað um það hvernig eigi að koma í veg fyrir fjármála- og gjaldeyriskreppu. Þar er varað við öllu því sem átti eftir að gerast, þenslu, viðskiptahalla, útlánabólu, of mikilli styrkingu krónunnar til að nefna nokkur dæmi. Eftir lesturinn hugsaði ég: Ókei, við erum hérna með skýrslu sem segir okkur hvernig við eigum að forðast hrun og gjaldeyriskreppu — og við tókum meðvitaða ákvörðun um að gera allt þveröfugt.

Við verðum að lesa skýrslur og þessar upplýsingar sem við höfum og taka þær alvarlega. Þá komumst við vonandi á þann stað að við lesum skýrslur um fyrirbyggjandi aðgerðir og tökum mark á þeim og þá þurfum við engar rannsóknarskýrslur.



[14:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Spakur maður sagði mér eitt sinn að maður ætti alltaf að hafa „frontinn“ í lagi. Það er sjálfsagt speki sem þykir sérstaklega mikilvæg í pólitík en einnig er oft sagt í pólitík að ekki sé ráð að líta til fortíðar heldur beri að horfa til framtíðar. Það er hin hryllilegasta stjórnmálaspeki sem virðist þó því miður vera einhvers konar almenn skynsemi. Í því sambandi langar mig að rifja upp árin 2003–2007 í víðara samhengi en út frá þessari skýrslu því að hún er birtingarmynd andrúmsloftsins á þeim tíma og vil ég vara sérstaklega við því að sá lærdómur verði ekki dreginn af þeirri umræðu sem hér á sér stað.

Því má halda til haga að þetta var í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en gagnrýni mín varðar ekki einungis þá flokka, og reyndar ekki einungis Alþingi, heldur Ísland allt, samfélag okkar og menningu. Það virtust ekki margir finna fyrir því á þeim tíma en ég fann fyrir því. Maður sá ekki alveg hvað það var og gat ekki endilega komið því í orð en það var eitthvað óþægilegt, lúmskt, jafnvel undirförult en freistandi, eitthvað óheilbrigt og sjúkt við menningu okkar. Á þeim tíma voru það góð og gild tæki að tala efnahaginn upp og tala efnahaginn niður. Í fúlustu alvöru voru það lögmæt tæki. Það er einfaldlega rangt að viðvaranirnar hafi verið engar, þær voru hins vegar óvelkomnar. Viðvörunarljósin voru allsráðandi í umræðunni en af einhverjum ástæðum dugði það ekki til.

Ég vil nýta tækifærið og þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að sannfæra mig endanlega í kringum 2006 eða 2007 um að stórhrun væri í vændum þegar hann fullyrti í sjónvarpsviðtali að krónan væri of sterk og hún hlyti að veikjast að einhverju leyti. Þá átti að vera augljóst, alla vega þeim sem höfðu mætt í tíma og unnið heimavinnu sína í besta háskóla heimsins, internetinu, að krónan gæti ekki lækkað lítillega, hún hlyti að hrapa. Sá sem hér stendur sá þetta fyrir. Hvers vegna ekki þeir aðilar sem stóðu að kerfinu? Jú, af sömu ástæðu og við stöndum nú frammi fyrir þessari skýrslu, því að fólkið sem stóð að kerfinu var blindað af vondri en umfram allt rangri speki: Að hægt væri að blekkja lögmálið um orsök og afleiðingu. Þeirri speki að til dæmis bjartsýni, kjarkur og þor kæmi í stað heilinda, athygli og ábyrgðar, að svo lengi sem „fronturinn“ væri í lagi væri allt í lagi.

Stjórnmálamenn voru skammaðir hatrammlega fyrir að láta hafa eftir sér nokkuð sem líkja mátti við svartsýni. Raunsæi og heiðarleiki voru orðin tabú. Við fengum gjörvallan efnahaginn að láni með hrokann einan að veði. Eftir stendur sú mikilvæga lexía sem ég vona að fólk fari að læra: Það er einfaldlega ekki nóg að hafa „frontinn“ í lagi.



[14:56]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég vil sérstaklega þakka þeim sem óskaði eftir því að hún yrði skrifuð, en um leið taka fram að við þingmenn Framsóknarflokksins studdum það í hvívetna. Það er okkur hollt, okkur sem nú erum á Alþingi, að líta okkur nær og læra af mistökum fortíðarinnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra nefndi að þessi skýrsla gæti verið okkur leiðarljós inn í framtíðina og ég tek undir þau orð. Um leið og það er sagt verð ég samt að segja að það vantar ýmislegt í þessa skýrslu sem eftir á að hyggja hefði verið ágætt að þar hefði komið fram, til að mynda hvort um einhvers konar refsiábyrgð sé að ræða. Það var ekki kannað af nefndarmönnum. Ekki var beðið um að það yrði kannað og þeir töldu að það væri algjörlega fyrir utan hlutverk sitt.

Ég hafði líka talið að embættisverk ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins, frá árinu 2007 til 2009, væru til skoðunar. Ég skildi það þannig, í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fram um málið, að það ætti að gera, en því miður litu skýrsluhöfundar svo á að það væri ekki sérstaklega til skoðunar. Þessi skýrsla fjallar því í meginatriðum um embættisverk sem unnin voru í kringum árið 2004. Ég hef reynt að kynna mér efni skýrslunnar eins og mér er unnt á stuttum tíma, en það vantar inn í hana. Við verðum að horfast í augu við það. Hún er, eins og öll önnur mannanna verk, ekki hafin yfir gagnrýni. (Gripið fram í: Nei.)

Við sem höfum tekið við keflinu eigum oft erfitt með að meta og gagnrýna gjörðir fyrirrennara okkar á þingi, hvað vakti fyrir þeim, hver var tíðarandinn og hver viðhorfin voru á þessum tíma. Ég tók mig til og fór aðeins yfir þær ræður sem fluttar voru á Alþingi þegar þessar ákvarðanir voru teknar svona til að sjá hvort þetta hafi eingöngu verið Framsóknarflokkurinn eins og ítrekað hefur verið gefið í skyn af þeim sem mælt hafa fyrir hönd stjórnarandstöðunnar — ekki öllum reyndar, svo að því sé haldið til haga — hvort aðrir hafi kannski stutt, verið sammála eða jafnvel viljað ganga lengra en tillögur voru um á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að fara yfir það jafnvel þó að hv. þm. Helga Hjörvar finnist óþægilegt að verið sé að taka út einhver nöfn eins og hv. þm. Karl Garðarsson gerði áðan í ágætri ræðu. Þar vitnaði hann eingöngu til þess sem kemur fram í skýrslunni sjálfri og er hér til umræðu. (Gripið fram í.) Hann vísaði líka til gagna sem liggja fyrir um gjörðir og viðhorf núverandi stjórnarandstöðuþingmanna á þessum tíma. Ég skil það svo sem ágætlega, þegar reynt er að koma höggi á Framsóknarflokkinn, að hv. þm. Helgi Hjörvar og fleiri ágætir þingmenn í þessum sal vilji ekki minnast þess sem þeir bæði sögðu og gerðu. Það er nefnilega því marki brennt að þeir vildu jafnvel ganga lengra. Ég ætla að koma aðeins seinna inn á það í ræðu minni, mér skilst að ég hafi ágætistíma.

Vandinn var að á þessum tíma átti ungt fólk í erfiðleikum með að kaupa sér húsnæði. Það er vandi sem við glímum við í dag. Ég vona að við séum öll sammála um að það sé vandi sem þarf að leysa. Leigumarkaðurinn er gríðarlega erfiður. Það er enn erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sitt fyrsta húsnæði.

Hér hafa margir komið og sagt að grípa þurfi til aðgerða, en ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnarandstöðuþingmann koma með tillögur í þá veruna. Stjórnarandstaðan skilar einfaldlega auðu. Við höfum nefnt að við værum reiðubúin að skoða tillögur ASÍ, sem komu fram rétt fyrir kosningar, þær væru þess verðar að skoða. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur upplýst að hún vilji koma á fót aðgerðahóp, samvinnuhóp, sem ég held að menn ættu að fagna gríðarlega þannig að við getum öll staðið að þeim breytingum sem þurfa að verða á húsnæðiskerfi Íslendinga. Það var ekki bara unga fólkið sem var í erfiðleikum, það var líka fólk sem var búsett úti á landi. Það var jafnvel stærri vandi.

Þá komum við inn á hið félagslega hlutverk sem Íbúðalánasjóður átti að gegna, það var að lána til þeirra einstaklinga sem vildu búa úti á landi. Það var og er væntanlega markmið okkar allra að reyna að hafa landið allt í byggð. Bankarnir voru ekkert á þeim buxunum að lána til þeirra einstaklinga sem áttu hús með lágu veði, því miður. Þannig var staðan. En þetta var ekki bara viðhorf Framsóknarflokksins. Þetta var viðhorf margra aðila og það er rétt að félagshyggjuflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og vinstri flokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, voru sammála um að gæta þyrfti að þessum viðhorfum.

Þegar maður nefnir tíðarandann þurfum við líka að átta okkur á því hver staðan var. Staðan var einfaldlega þannig að nægir peningar voru í umferð eins og skýrsluhöfundar benda réttilega á, ekki bara hér á Íslandi heldur í hinum vestræna heimi. Því miður. Aðgangur að lánsfé var gríðarlegur, enda varð ekki bara bankahrun hér á Íslandi. Það var harður skellur hér en það varð víðar þó að okkur muni takast að komast fyrr upp úr þessu — kannski vegna þess að við búum við sjálfstæðan gjaldmiðil, sem betur fer. En við verðum að horfast í augu við að þetta er alþjóðlegt vandamál.

Á árinu 2004 var ákveðið að leggja niður húsbréfakerfið og íbúðabréfakerfið var tekið upp. Þeir þingmenn sem vildu hækka lánshlutfallið upp í 90%, þ.e. þeir þingmenn sem þá voru í meiri hluta, vildu fara varlega. Þeir vildu bíða eftir áliti ESA. Það vildu hv. þingmenn Samfylkingarinnar hins vegar ekki gera. Ég vona, virðulegi forseti, að mér sé heimilt að nafngreina þá aðila sem lögðu fram breytingartillögu á lögunum þess efnis að strax yrði ráðist í hækkunina. Það eru Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, og hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Katrín Júlíusdóttir, núverandi þingmenn Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.)(GuðbH: Hann er kominn með sökudólginn.)(Gripið fram í: Það er alveg ljóst.)

Ef þeir sem eru í stjórnarandstöðunni [Háreysti í þingsal.] mundu nú halda þræði (HHj: Mér finnst þetta …) og ég verð að (Forseti hringir.) gera þær kröfur, virðulegi forseti, að andsvör þeirra séu kannski (Gripið fram í.) jafn skemmtileg og þau voru hjá okkur í síðustu stjórnarandstöðu og kannski aðeins minna biturleg eins og vill því miður verða … (Gripið fram í.)[Hlátur í þingsal.]

En eins og staðan er núna, virðulegi forseti, held ég að það sé ágætt að halda þessu til haga. (Gripið fram í: Rétt.) Ég held það sé nefnilega ágætt (SSv: Rangt.) — er rangt að halda því til haga? (Gripið fram í: Nei, nei.) Er hv. þm. Svandís Svavarsdóttir að segja að það sé rangt að halda því til haga? (Gripið fram í.) Hverjir vildu raunverulega ganga lengra varðandi 90% lánin en þáverandi stjórnvöld? (Gripið fram í.)

Bíðið nú við. Við skulum halda aðeins áfram. Þessi tillaga kom til atkvæða á Alþingi. Með henni greiddu atkvæði — ég ætla að vona að hv. þingmenn sem sitja hér í sal bresti ekki í mikil ræðuhöld þó að ég nefni að hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson sögðu já, studdu þetta. Þetta eru bara einfaldlega gögn sem liggja fyrir hér á Alþingi. (Gripið fram í: Þau eru í skýrslunni.) — Eru í skýrslunni. Það er bara ágætt að fara yfir þetta.

Skýrsluhöfundar ákveða meira að segja — vegna þess að þeir vilja varpa ljósi á þann tíðaranda sem er í gangi — að nefna orðaskipti sem áttu sér stað á þessum tíma. Þar er vitnað í hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem segir um hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður talar með mjög neikvæðum hætti um hugsanlegar afleiðingar af þróuninni á íslenskum fasteignamarkaði og er augljóslega að lýsa því yfir að það gæti orðið bankakreppa. Eða lendum við ekki í bankakreppu, herra forseti, ef þessi niðursveifla á fasteignaverði sem hv. þingmaður var að lýsa í öðrum löndum verður líka hér?“

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson svarar ásökunum Össurar á þá leið að hann vildi einungis fara yfir málið og vekja athygli fólks á áhættunni sem fylgdi því að taka 90% eða 100% lán. Mögulega hefði hann hrætt Össur til þess að sjá fyrir sér bankakreppu. Guðlaugur sagðist hins vegar engar áhyggjur hafa og hann sæi enga bankakreppu fyrir.

Svo, með leyfi forseta, segja höfundar skýrslunnar:

„Ef framangreind orðaskipti Guðlaugs og Össurar eru lýsandi fyrir þann anda sem ríkti á Alþingi á miðjum fyrsta áratug aldarinnar virðist ekki hafa mátt vekja athygli á eða ræða möguleika á óheppilegri þróun á fasteignamarkaði án þess að uppskera háðsglósur.“

Það er nú bara það sem við erum að reyna hér, við erum að reyna að varpa ljósi á það hvernig umræðan var á þessum tíma. Ég vona að okkur sé heimilt að gera það hér í þingsal án þess að hljóta sömu háðsglósur og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, viðhafði á þessum tíma þegar hann var að lýsa yfir stuðningi við 90% lánin og hafði áhyggjur en … (ÖS: Ég er aldrei með neinar háðsglósur.)

Virðulegi forseti. Nú er komið að því sem er í raun stærsta vandamálið í þessu öllu saman, það var hinn svokallaði uppgreiðsluþáttur. Þar segja skýrsluhöfundar að mestu mistökin hafi verið gerð, það sé sérstaklega alvarlegur þáttur. Á þeim tíma sem veita átti heimild til uppgreiðslu á lánum frá Íbúðalánasjóði komu fram viðvaranir. Þær viðvaranir leiddu til þess að þáverandi ráðherra lagði til svokallað uppgreiðsluálag og þá mundu menn reyna með einhverjum hætti að stemma stigu við þeim uppgreiðslum sem svo raunverulega áttu sér stað.

Ég held að það sé ágætt, vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði hér eftir ábyrgð, að vísa til þess að BSRB, sem hann var formaður í á þeim tíma, hafði fyrirvara gagnvart 12. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra er einhliða veitt heimild til að ákveða aukaþóknun sem rennur til ríkissjóðs ef lántakandi ákveður að hraða greiðslum eða greiða að fullu ÍLS-veðbréf.

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega tíðarandinn sem var þegar þessar afdrifaríku ákvarðanir voru teknar. Ég er sannfærður um að ef umræðan væri á þessu plani, að Alþingi allt hefði gert mistök, að eftirlitsstofnanirnar hefðu brugðist í staðinn fyrir að vera í þessum pólitísku skotgröfum, um að allt sé þetta Framsóknarflokknum að kenna, gætum við hugsanlega komist eitthvað áfram — okkur gæti miðað áfram.

Það voru fleiri mistök gerð, virðulegi forseti. Það var þegar Íbúðalánasjóði, vegna þess að það söfnuðust gríðarlegir fjármunir þar sem Íbúðalánasjóður hafði ekki heimild til að greiða upp eigin skuldabréf, var veitt heimild til að lána bönkum og sparisjóðum. Hv. þm. Karl Garðarsson nefndi það í ræðu sinni að sá aðili sem hafði talið þennan gjörning löglegan væri núverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason.

Þetta er orðrétt úr þessari skýrslu. Ég sé að hv. þm. Helga Hjörvar þykir miður að þetta sé nefnt í umræðunni. Þá spyr ég: Eru einhverjir fleiri kaflar í þessari skýrslu sem þola ekki dagsljósið? Eru einhverjir fleiri kaflar í þessari ágætu skýrslu sem ekki má ræða efnislega úr pontu Alþingis?

Hv. þingmaður heyrði það vel á fundi nefndarinnar í morgun að formaður hennar taldi að þetta hefði ekki staðist lög og vísaði í greinargerð Jóhannesar Sigurðssonar prófessors þar sem hann taldi að lánasamningar sem ÍLS gerði við banka og sparisjóði væru ólöglegir.

Virðulegi forseti. Ég get vel ímyndað mér að þetta sé óþægilegt. En eigum við að ræða þetta og hafa þetta uppi á borðinu? Eða eigum við að loka þetta ofan í kistu svona eins og þegar Samfylkingin kannast ekki við að hafa verið í ríkisstjórn á árunum 2007 til 2009?

Það er eitt sem fer í taugarnar á mér í þessari umræðu. Það skal bara sagt hreint út. Það er þegar núverandi stjórnarandstæðingar tengja saman kosningaloforðin 2003 og kosningaloforð Framsóknarflokksins á árinu 2013. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að loforðin hefðu verið allt fyrir alla og það ætti að varast vegna þess að það mundi leiða af sér þenslu og aukinn kostnað annars staðar í kerfinu. Kosningaloforð Framsóknarflokksins eru ekki þannig. Það veit hv. þingmaður. Hann hefur væntanlega lesið loforð okkar. Ég ætla að fara yfir þau.

Það sem hins vegar var sagt í morgun var að almennar aðgerðir, eins og t.d. tillögur Samfylkingarinnar um að taka upp evru og fá bara lægri vexti fyrir alla, það eitt og sér getur leitt af sér stærra vandamál. (SII: … fyrir alla) Loforðin (SII: Þú ert bara að …) um að hægt sé að lækka hér vexti (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll …

(Forseti (ÞorS): Engin samtöl við ræðumanninn.)

… standast enga skoðun. Við skulum bara ræða það fyrst hér var verið að hnýta út í kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Ég spyr hv. þingmann: Það liggur fyrir að stór hluti heimila í landinu er í vanda, þeirra sem tóku verðtryggð lán. Hverjum var bjargað með neyðarlögunum svokölluðu? Voru það ekki þeir sem áttu peninga í banka? Þeir sem áttu peninga í peningamarkaðssjóðunum? Og Hæstiréttur dæmdi gengistryggðu lánin ólögmæt. Eftir situr þjóðfélagshópur sem við í Framsóknarflokknum höfum sagt mjög skýr og skilmerkilega að við ætlum að reyna að aðstoða af fremsta megni. Það er loforðið.

Bíðum nú við. Þá stöndum við frammi fyrir einu. Niðurstaða skýrslunnar er í raun ein. Hún er sú að þingmenn eiga að vanda sig. Þeir eiga að taka sér tíma og vanda sig.

Við ákváðum að skipa nefndir til að reyna að framfylgja þessum loforðum. Það var gagnrýnt. Efndir strax. (SII: Þið eruð búnir að gaspra í fjögur ár …) Efndir strax. (SII: Búnir að gaspra í fjögur ár.)Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Samfylkingin í ríkisstjórninni …) Þetta var þannig.

Virðulegi forseti. Þegar í ljós kom að staða ríkissjóðs er verri en áður var talið og fjármálaráðuneytið vill gefa sér (Gripið fram í.)tíma (Gripið fram í.) til að fara yfir fjárlögin (SII: … Íbúðalánasjóðs …)

(Forseti (ÞorS): Engin samtöl við ræðumann.)

Virðulegi forseti. Þegar við ætlum að vanda okkur, þá er það gagnrýnt. Stjórnarandstaðan, sem reyndar byrjaði að kvarta yfir því að ekki væri búið að framfylgja kosningaloforðum áður en ríkisstjórnin var mynduð, gagnrýnir það nú að við erum að reyna að vanda okkur. Við ætlum ekki að ræða hér — þetta eru svona samræðustjórnmál, ég áttaði mig á því að samræðustjórnmál Samfylkingarinnar eru það að tala um hluti eins og velferðarmál án þess að framkvæma. Við ætlum að framkvæma en við ætlum að vanda okkur, virðulegi forseti. Við skulum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, hafa það að leiðarljósi í störfum okkar á þessu kjörtímabili. (SII: Eins og 2003.)



[15:18]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka fyrir þessa ágætu skýrslu. Það er mikilvægt að fá hana. Það er fagnaðarefni að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skyldi eiga frumkvæðið að því að biðja um hana á sínum tíma. Mér finnst ekki mikill bragur á því að vera að reyna að velta þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu upp úr því hvað þeir sögðu hér í umræðu um mál. Auðvitað ber stjórnarandstaða ekki ábyrgð á því hvernig mál eru framsett og hefur ekki þær upplýsingar sem ríkisstjórn hefur á hverjum tíma. Það er ekki hægt að reyna að koma á stjórnarandstöðuna ábyrgð á ákvörðunum sem voru teknar árið 2004.

Þegar þingmenn í þessum sal kölluðu eftir efndum á loforðum um 90% lán vissu þeir ekki betur en það væri mikilvægt að koma þeim strax í framkvæmd. Það sem stjórnvöld vissu var að það þurfti að tilkynna þau áform til Eftirlitsstofnunar EFTA og höfðu fengið um það ráð, m.a. frá þeim sem hér stendur.

Aðeins um það til að hafa það alveg á hreinu. Lögmenn ákveða ekki stefnu opinberra stofnana sem þeir vinna fyrir, það ákveða stofnanirnar sjálfar og taka ákvarðanir sínar sjálfar. Ég hef aldrei kveinkað mér undan því að bera ábyrgð á hinum svokölluðu Árna Páls-lögum þótt tugir lögmanna hafi komið að undirbúningi þeirra. Aldrei hefur mér dottið í hug að vísa ábyrgð á þeirri löggjöf á þeirra hendur. Hún er mín að því sem kemur að tilurð þess frumvarps.

Varðandi spurninguna, sem er mjög mikilvægt að halda utan um, sem kom fram hjá hv. þm. Karli Garðarssyni um hvað ráðherrar Samfylkingarinnar gerðu ætla ég að rekja hvað gerðist frá því að samfylkingarráðherrar settust í ríkisstjórn. Það voru settar hæfniskröfur til stjórnar. Það voru settar hæfniskröfur til ráðningar framkvæmdastjóra, en það er sérstaklega gagnrýnt og fjallað um það ítarlega hversu losarabragurinn var mikill þar. Stofnunin er felld undir eftirlit Fjármálaeftirlits. Það var hafinn undirbúningur að útgáfu útdraganlegra bréfa, en breytingin frá 2004 þegar öll skuldabréfin voru gerð óútdraganleg er upphafið að ógæfunni. Síðan hefur ekki reynt á þetta vegna þess að það hefur ekki verið gefið út, en það er alveg ljóst að gefin voru fyrirmæli úr félagsmálaráðuneytinu strax frá minni tíð um að hefja undirbúning á útdraganlegum bréfum til að draga úr áhættunni. Svo kom beiðni um þessa skýrslu sem er auðvitað nauðsynleg forsenda frekari umgerðar.

Ég held að stór hluti af þeim vanda sem við erum að fást við hér sé tálsýnin mikla um hið stéttlausa Ísland, að á Íslandi sé hægt að búa til einhvers konar umgjörð þar sem allir hafi það gott og ekki sé til nein misskipting í landinu. Við heyrðum þá meinloku í ræðuflutningi hæstv. forsætisráðherra 17. júní að Ísland væri stéttlaust land og engin misskipting í landinu. Þannig hefur það aldrei verið og þannig er það ekki. Þess vegna hefur alltaf þurft félagslegar lausnir í húsnæðismálum á Íslandi. Grundvallarhugmyndin sem varð að mistökum árið 2003 og 2004 var að halda að þeir tímar væru einhvern veginn runnir á enda, hægt væri að búa til úr Íbúðalánasjóði áhættusækinn banka og ríkið þyrfti ekki með neinum sérstökum hætti að sjá fyrir félagslegum þörfum á húsnæðismarkaði. Það var rangt. Það var kostnaðarsamt að hætta húsbréfakerfinu sem Jóhanna kom á. Það var skynsamlegt kerfi. Það fól í sér algjöra lágmarksáhættu fyrir ríkissjóð sem rak kerfið og það voru söguleg mistök að kasta á bálköst tilraunastarfsemi árið 1999 næstum því 100 ára uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis á Íslandi, arfleifð sem væri okkur svo mikilvæg í dag ef við ættum það kerfi enn þá og er vandamál núna að við eigum engar alvörulausnir fyrir fólk í alvarlegum vanda sem hefur ekki tekjur til að standa undir lánum á kaupum á venjulegri íbúð og getur ekki staðið undir markaðsleigu.

Ég held að það sé ákveðinn lærdómur sem við eigum að draga af þessu. Ég fagna sérstaklega orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég ætla að hrósa þeim fyrir að vísa í að pólitíkin hefði brugðist.

Ég ætla að segja alveg hreinskilnislega að við verðum að passa okkur á því að ræða kosti og galla ólíkra lausna í þessu máli með jafn opnum huga og við ætlum að gera í öðrum málum. Mér hefur þótt bera um of á því í umræðu um Íbúðalánasjóð á undanförnum árum að menn hafi getað stokkið í einhvers konar helg vé og sagt að Íbúðalánasjóður væri góður og við skyldum ekkert tala um það frekar. Það er ekki skynsamlegt og það er hættulegt. Það þarf að greina kost og löst. Stjórnmálin verða að ráða við það.

Ég hef oft sagt úr þessum ræðustól, sem félagsmálaráðherra sagði ég það mörgum sinnum, að rekstur Íbúðalánasjóðs er ekki markmið í sjálfu sér, Íbúðalánasjóður er tæki til að ná markmiðum. Markmið félagslegrar og skynsamlegrar húsnæðisstefnu í landinu náðust betur, að mínu viti, með verkamannabústaðakerfi og húsbréfakerfi heldur en með Íbúðalánasjóði eftir breytinguna 2004. Það er mín bjargfasta skoðun og ég hef fært fyrir henni ítarleg rök. Ég held að við getum mörg verið sammála um það hér.

Núna er það verkefni okkar að ná saman um þetta, en ég ætla að lýsa því yfir fyrir fram að ég hef enga sérstaka trú á að stjórnmálin ráði við það. Það verður prófsteinn á stjórnmálin hvort við ráðum við að gera þetta af viti, vegna þess að það eru svo margar meginlínur sem birtast aftur og aftur í úttektum sem gerðar hafa verið.

Úttekt starfshóps um framtíðarfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs var skilað rétt fyrir kosningar og var hún í mjög miklu samræmi við úttekt sem ég lét vinna 2010, sem var akkúrat í umtalsverðum samhljómi við úttekt sem unnin var í félagsmálaráðherratíð Magnúsar Stefánssonar. Það er auðvitað búið að vinna býsna mikinn grunn sem á að vera hægt að byggja á. Nú reynir á að stjórnmálin ráði við að vísa veginn áfram.

Ég held líka að við þurfum að hemja óheft vald stjórnmálanna til að gera stórkostlegar breytingar gegn faglegri ráðgjöf. Ég held að það sé stórhættulegt hversu opið íslenskt samfélag er fyrir gríðarlegum breytingum þar sem engar hömlur eru á meirihlutavaldi Alþingis. Ég hef oft kallað þetta hið óhefta og óbeislaða meirihlutaræði í landinu. Það er vont. Það verður að hemja völd stjórnmálamanna.

Í Bretlandi er búið að koma á fyrirbæri sem heitir „Major Project Authority“, með leyfi forseta. Það er stofnun sem metur stór áform stjórnvalda og gefur þeim einkunn, hvort hægt sé að framkvæma þau, hvort þau standist eðlilegar forsendur. Hér vantar okkur algjörlega slíkt. Við þurfum að hlusta á aðvörunarorð og við þurfum að taka þau til okkar þótt þau komi frá skammstöfun, jafnt innlendum sem útlendum skammstöfunum. Það hlýtur að vera lærdómurinn sem við verðum að draga.

Við verðum sérstaklega í þessu ljósi að horfa af mikilli ábyrgð á þau stórfelldu áform sem við erum nú með á borðinu fyrir framan okkur, sem ríkisstjórnin er búin að kynna með þingsályktunartillögu í skuldamálum þar sem er auðvitað gefinn upp bolti um hluti sem geta haft gríðarleg áhrif á velsæld á Íslandi, á efnahagslegt öryggi almennings og skiptir gríðarlega miklu máli hvernig til tekst. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við athugasemdum við þá þingsályktunartillögu gefa ekki ástæðu til að ætla að menn hafi lært mikið í vinnubrögðum. Við munum ganga ríkt eftir því á haustþingi að þess sjái stað í vinnu ríkisstjórnarinnar að menn vinni öðruvísi, að menn taki til sín gagnrýni og að við eigum uppbyggilegt samtal um það sem getur farið aflaga og metum áhættu rétt.



[15:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þessi skýrsla er því miður dapurleg lesning og hún er stórfelldur áfellisdómur yfir ráðsmennskunni í Íbúðalánasjóði og reyndar standa árin 1999–2004 upp úr. Þeirri ábyrgð deila Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, þótt ég telji réttara að hafa það í þeirri röð en ekki hinni eins og skýrsluhöfundar gera. Þeir segja einmitt í samandregnum niðurstöðum sínum að ábyrgðinni á þessu deili Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eða ríkisstjórn þeirra flokka.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson flutti hér ræðu og tókst honum að komast í gegnum heila ræðu, langa ræðu, þar sem hann réttlætti Framsóknarflokkinn, án þess að nefna hann mikið á nafn, í hverju einasta tilviki með tilvísun í tíðarandann, með því að einhverjir í stjórnarandstöðu hefðu haft svipuð viðhorf eða einhver samtök úti í bæ hefðu talið að þetta eða hitt ætti að vera svona. Framsókn var með öðrum orðum í máli hans hvítþvegin með þessari aðferð. (HöskÞ: Það sagði ég ekki.) Ábyrgðarlaus með öllu, bara „árangur áfram, ekkert stopp“. (HöskÞ: Það er mjög málefnalegt.) Já, þetta var svona og svipað var upp á teningunum í ræðu hv. þm. Karls Garðarssonar.

Ég hef engan sérstakan áhuga á því að útlista þátt Framsóknarflokksins í þessari skýrslu enda þarf þess ekki, hana lesa menn. En eftir málsvörn af þessu tagi þar sem vottar ekki fyrir auðmýkt af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins er varla annað hægt en að draga aðeins fram þeirra hlut. Hér eru svo stórfelld mistök á ferð og svo dýr að þetta verður stórt í sögunni, í sögu hrunsins og áranna fyrir hrunið. Við erum að tala um einn af þremur stærstu reikningunum sem íslenskir skattborgarar framtíðarinnar munu bera. Þetta er á pari við gjaldþrot Seðlabankans. (HöskÞ: Minna en …) Þetta er svipuð (Gripið fram í.) upphæð og tengd þó hallarekstri ríkissjóðs á árunum 2008–2013. (HöskÞ: Icesave.) Ég held að hv. þingmaður ætti að reyna að hafa örlitla biðlund. Já, við getum líka farið yfir Icesave. Hver ætli niðurstaðan af því verði? Þótt það mál hefði verið leyst með fyrstu samningum hefði það orðið brot af þessum kostnaði og hann er þó sannarlega á Framsókn.

Það er ágætt að helmingaskiptaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eftir ráðsmennsku sína deili með sér reikningunum nokkurn veginn 50:50. Gjaldþrot Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar er svipað kjaftshögg á íslenska ríkið og höggið á Íbúðalánasjóð undir forustu Framsóknarflokksins, helmingaskipti þar 50:50. Þannig er það.

Auðvitað liggja rætur þessa dýpra. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að mistökin byrja strax með því að leggja niður félagslegan hluta húsnæðislánakerfisins á Íslandi. Það gera sömu flokkar þegar Byggingarsjóði verkamanna er lokað og félagslegar úrlausnir í húsnæðismálum fyrir tekjulágt fólk hverfa út úr myndinni. Þetta er röð pólitískra og embættislegra mistaka sem rekur sig aftur til upphafsára samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar þeir lögðu niður félagslega kerfið á Íslandi, sem við hefðum betur átt allan tímann og hefði væntanlega leitt til þess að umsvif Íbúðalánasjóðs í framhaldinu hefðu orðið mun minni á almennum markaði og höggið minna sem því nemur. Hér talar maður sem sat í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins (Gripið fram í: Og ríkisstjórn …) og þekkti það mjög vel. Ég var ákaflega ósáttur við það allan tímann hvernig farið var að ráðum þar.

Þessi gríðarlegu mistök eru í sjálfu sér ekki fyrst og fremst tengd hinu dæmalausa kosningaloforði Framsóknar um 90% húsnæðislán. Það er framkvæmdin og ráðsmennskan í sjóðnum sem kostar mest. Ég tel að vísu að það hafi verið offari að fara upp í 90% veðsetningarhlutfall, en látum vera að það væri hækkað eitthvað úr þeim 65–70 sem það hafði verið. (Gripið fram í: Samþykktin upp í 90.) En það þurfti að standa almennilega að því að útfæra það og það eru mistökin sem eru gerð varðandi uppgreiðsluáhættuna, það er sú ráðsmennska að Íbúðalánasjóður skuli halda áfram að gefa út bréf og sækja sér lán þótt hann sé að fyllast af peningum vegna uppgreiðslulána. Hann gefur út 60 milljarða í viðbót sem hann hefur ekkert með að gera, þarf að koma í ávöxtun og það eykur lausafjárstýringarvandann og tapið þegar upp er staðið. Þar fóru miklir fjármunir þegar Íbúðalánasjóður tapaði verulegum fjárhæðum af því lausafé sem hann átti í hruninu og var í ávöxtun hér og þar vegna þessara hluta. Þetta er ótrúleg ógæfa og mistök og verður ríkissjóði Íslands mjög dýrt. Við erum búin að greiða 50 milljarða inn á þennan reikning og það er bara innágreiðsla, því miður. Það er þannig.

Það sem ekki er rætt hér er tjónið fyrir almenning í landinu og ógæfan sem þetta hefur leitt yfir okkur í húsnæðismálum. Þar liggja rosalegir reikningar sem við skulum ekki gleyma, því að þetta er hluti af ógæfunni sem skrúfast upp í húsnæðismálunum og veldur því hvað vandinn varð mikill við hrunið og er enn.

Það er talað um að ekki megi bera saman loforð Framsóknarflokksins nú og þá. En er annað hægt? Það ömurlega er að sagan endurtekur sig með tíu ára millibili. Kosningabaráttan 2003 varð einhver dýrasta kosningabarátta Íslandssögunnar vegna þess að hún er að mörgu leyti uppskriftin að hruninu. (Gripið fram í: Þú varst að segja að hún væri …) Og hvernig voru þau loforð, eigum við að fara yfir það? Sjálfstæðisflokkurinn lofaði gríðarlegum skattalækkunum og Framsóknarflokkurinn lofaði í húsnæðismálum. Hafið þið heyrt þetta aftur? (Gripið fram í.)Seðlabankinn og fleiri vöruðu við, en samt var þetta gert. Hver er staðan núna? Hvernig voru kosningarnar 2013? Sjálfstæðisflokkurinn lofar skattalækkunum og Framsókn lofar í húsnæðismálum og Seðlabankinn er byrjaður að vara við loforðum Framsóknar.

Þetta er fullkomin endurtekning þegar þessir flokkar ná saman og þeir tala sig inn á þjóðina, mér er annað ofarlega í huga en ég ætla ekki að nota það hér, með nákvæmlega sömu formúlunum með tíu ára millibili. Það er ástæða til að hafa af því stórkostlegar áhyggjur. Sporin hræða. Þau gera það heldur betur. Sagan endurtekur sig. Nú man ég ekki nafnið á kvikmyndinni þar sem mannauminginn vaknar alltaf upp sama morguninn aftur og aftur og aftur. (Gripið fram í: Groundhog day.) Groundhog day, já. Þetta er eiginlega þannig að við erum að vakna hérna upp aftur á sama degi og 2003 eftir skelfilega ábyrgðarlausa kosningabaráttu þar sem menn svífast einskis til þess að ná atkvæðum og eiga algerlega eftir að vinna úr því hvað þau loforð kunna að hafa í för með sér efnahagslega, pólitískt og fyrir landið. Það er mikið áhyggjuefni.

Að síðustu vil ég þó segja að ég tek að sjálfsögðu undir það eins og aðrir að okkur beri skylda til þess núna að setjast mjög rækilega yfir þessi húsnæðismál. Það er ein af ógæfusögum Íslands hversu ólánlega okkur hefur tekist, sérstaklega síðustu 15 árin eða svo, að kunna fótum okkar forráð í húsnæðismálum. Það er dapurlegt hvað það hefur orðið þessu samfélagi dýrt að við skulum ekki hafa náð að byggja hér upp stöðugleika og trúverðugleika og einhverja ábyrgð þannig að fólk geti með sæmilegu (Forseti hringir.) öryggi leyst úr þessum brýnustu þörfum allra venjulegra fjölskyldna.



[15:35]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrsluna um Íbúðalánasjóð. Mig langar að byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu. Áður hafa verið unnar úttektir og skýrslur um starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjallað var um hana í stóru skýrslunni frá rannsóknarnefnd Alþingis. Í megindráttum var okkur hér á þingi ljóst, og hefur verið nú í nokkur ár, hver vandi Íbúðalánasjóðs er og að á honum þurfi að taka.

Mig langar að hvetja menn til að anda með nefinu, átta sig á verkefninu, okkar sameiginlega verkefni, og vinda okkur svo í það.

Ég saknaði þess á liðnu kjörtímabili, ég tók hér sæti fyrir fjórum árum, að við eyddum ekki meiri tíma í að fara yfir hvernig við ætluðum að breyta Íbúðalánasjóði af því okkur var öllum ljóst að það þurfti að gera; það þarf grundvallarbreytingar á starfsemi sjóðsins. Fyrir ári, í júnímánuði, áttum við hér orðastað um Íbúðalánasjóð. Verið var að gera breytingar á ákvæðum í lögum varðandi stjórn sjóðsins og hæfi æðstu starfsmanna hans. Við sjálfstæðismenn kölluðum mjög eftir því í þeirri umræðu að farið yrði í það verkefni að ræða hvernig við ætluðum að breyta starfsemi sjóðsins til framtíðar. Það voru ekki margir sem tóku undir það með okkur að sjóðurinn ætti að einbeita sér að sínu félagslega hlutverki í stað þess að vera í bullandi samkeppni við einkabanka á markaði með ríkisábyrgð að baki sér. Það er það sem að mínu mati er augljós niðurstaða og augljóst verkefni okkar hér á þinginu að takast á við þær spurningar og þær niðurstöður sem birtast okkur í þessari skýrslu. Þær koma meðal annars fram í meginniðurstöðukafla skýrslunnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Raunar er ekki að sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir voru seldir.“

Síðan segir:

„Ríkisábyrgð var notuð til þess að laða meðal annars að erlent áhættufé til þess að lækka vexti. Uppgreiðsluáhætta Íbúðalánasjóðs var stóraukin og var þar farið gegn ráðleggingum sérfræðinga.“

Þess vegna finnst mér mjög leitt að heyra það hér í þessari umræðu að menn vilji ekki horfa á þessa niðurstöðu. Ég vísa til orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem greinilega ætlar að velja hvaða köflum hann ætlar að trúa og hvaða köflum ekki, þar sem megininntak ræðu hans var það að hin félagslegu öfl vilji halda í þetta kerfi, að ná vöxtum niður í skjóli ríkisábyrgðar, að félagslegu öflin hafi fagnað því að 90% lánin kæmu til, fagnað lægri vöxtum sem að sjálfsögðu er mjög gott. Það er markmið okkar að ná lægri vöxtum, en ekki þannig að á grundvelli þess kerfis lendi reikningurinn allur á skattgreiðendum á endanum. Það getur bara ekki verið það sem við ætlum okkur að gera til framtíðar, ég trúi því ekki.

Þess vegna vil ég sérstaklega fagna ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Þar kvað við nýjan tón frá því í umræðunni hér fyrir ári. Formaður Samfylkingarinnar sagði að við ættum að hlusta á viðvörunarorð stofnana. Í því máli sem við ræddum fyrir ári var ESA að gera athugasemdir við starfsemi Íbúðalánasjóðs þar sem hann væri í skjóli ríkisábyrgðar í samkeppni við einkabanka. Á því þyrfti að taka. Ekki var farið í það að koma til móts við þessar athugasemdir. Lítillegar breytingar voru gerðar til að sýna fram á að einhver vilji væri til að gera breytingar. Menn hér, bæði í þessari umræðu og þá, sögðu að ekki væri rétt að þrengja að starfsemi sjóðsins vegna þess meðal annars að það væri enginn annar sem lánaði út á land.

Þetta er rangt. Við erum hér með á þskj. 1704 frá 140. löggjafarþingi svar við fyrirspurn minni til innanríkisráðherra. Þar spurði ég ráðherrann að því, og hann tók saman upplýsingar fyrir mig um það, hvert hlutfall þinglýstra lána með veði í íbúðarhúsnæði eftir landsvæðum væri, annars vegar frá Íbúðalánasjóði og hins vegar frá öðrum kröfuhöfum á árunum 2007–2012. Þetta svar er mjög athyglisvert vegna þess að það sýnir okkur svart á hvítu að þær fullyrðingar að það sé bara Íbúðalánasjóður sem lánar út á land eru ekki réttar. Við erum hér með tölfræðina um það. Þetta eru rangar fullyrðingar og menn geta ekki skýlt sér á bak við þær og neitað að ræða þetta mál. Það er bara ekki hægt.

Ég vona svo sannarlega að við öll hér inni treystum okkur í að breyta Íbúðalánasjóði, treystum okkur til að horfast í augu við það að kannski höfðum við bara mörg hver í einhverjum atriðum rangt fyrir okkur gagnvart Íbúðalánasjóði og málefnum hans. Eigum við ekki bara öll að reyna að setja upp þau gleraugu? Það er í lagi að hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Það er hins vegar ekki í lagi að játa það ekki þegar manni er sýnt fram á að maður hafi rangt fyrir sér og halda áfram á sömu vitlausu brautinni. Það er vandamál. Ég hvet hv. þingmenn til að leyfa sér að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Það er ótrúlegt frelsi í því fólgið. Það er það. (SJS: Getur þú ekki bara …?)

Það er kannski það sem ég vona að við öll tileinkum okkur. Ég hef gert það. Ég vona svo sannarlega að þeir elstu þingmenn sem hér sitja inni prófi, (Gripið fram í.) hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að gera þetta alla vega einu sinni. Tökum bara þetta mál, Íbúðalánasjóð, leyfum okkur aðeins að hugsa þetta upp á nýtt. Ég vona að við gerum það. Ég vil í því sambandi benda á að OECD hefur hvatt til einkavæðingar Íbúðalánasjóðs frá því að Húsnæðismálastofnun varð til. Við hljótum öll að þekkja einhvern í okkar flokkum sem hafa einhvern tímann lesið þessar ábendingar frá OECD og ættu að hafa hugsað til þess að skoða hvort þetta væru nú kannski réttmætar ábendingar, ábendingar sem rétt væri að kíkja á.

Herra forseti. Kaflinn í þessari skýrslu í 3. bindi þar sem fjallað er um lærdóm sögunnar, 17. kaflinn, er athyglisverður. Þar er farið yfir það hvert við gætum stefnt varðandi Íbúðalánasjóð. Hér er fjallað um að það séu ókostir við að reka opinbera banka sem lúti öðrum skorðum en aðrar fjármálastofnanir en starfi í samkeppni við þær. Hér er líka fjallað um það að niðurgreiðsla lána til almennings skili fyrst og fremst aukinni skuldsetningu og veikari eignastöðu heimilanna en dragi lítið úr greiðslubyrði vegna þess að fasteignaverð, eins og fjallað hefur verið um hér í umræðunni, rjúki upp eða hafi tilhneigingu til að hækka þegar greiðslugetan eykst. Við höfum upplifað þetta hér á landi. Við þekkjum þetta. Við hljótum að ætla að bregðast við.

Það er jafnframt niðurstaða nefndarinnar, miðað við þennan kafla, að það sé ljóst að bankakerfið sé fullfært um að sinna öllum almennum lánveitingum þar á meðal vegna fasteignakaupa. Það er niðurstaða hér.

Í kafla 17.2 er síðan farið yfir það hvernig hægt væri að aðstoða þá sem á þurfa að halda við að koma sér upp húsnæði. Taldir eru upp nokkrir flokkar um mismunandi form aðstoðar: engin aðstoð, aðstoð í formi bóta, aðstoð í formi skattafsláttar, aðstoð við að taka lán til húsnæðiskaupa með veitingu ríkisábyrgðar, eins og við þekkjum, aðstoð við að taka lán til húsnæðiskaupa með niðurgreiðslu vaxta og síðan annað, svo sem niðurgreiðsla á byggingarkostnaði. Við höfum því hér heilan kafla sem ég vona að við ætlum okkur að setjast yfir með nýju gleraugunum okkar og athuga hvort við sjáum ekki eitthvað gott sem við getum byggt á til framtíðar.

Í kaflanum, svo að minnst sé á það, um skattafsláttinn er jafnframt fjallað um skattafslátt og leigumarkað. Þetta er gríðarlega áhugaverður kafli. Í þessum niðurstöðukafla, sem er sá kafli þar sem við reynum að draga lærdóm af fortíðinni og skýrslunni í heild, eru ábendingar um það hvernig hægt sé að bregðast við núverandi ástandi Íbúðalánasjóðs. Þetta eru í raun tvö verkefni: Hvernig við ætlum að bregðast við því ástandi sem Íbúðalánasjóður er kominn í og hins vegar hvernig við ætlum að byggja upp húsnæðiskerfið okkar til framtíðar.

Það er alveg ljóst að við þurfum að taka umræðu um það hvort setja eigi gjald á uppgreiðslur viðskiptavina sjóðsins. Við þurfum að taka umræðu um það. Það er ekkert auðvelt. Það er ekkert skemmtilegt. Það var ekki gert á síðasta kjörtímabili. Ég hvet okkur öll til að hætta í því sambandi að benda á sökudólga, það getur að vísu verið mjög skemmtilegt í rökræðum og umræðum í þessari pontu að rífast og verða blár í framan af æsingi og kalla fram í o.s.frv., en það skilar okkur engum árangri og sérstaklega ekki fólkinu í landinu sem bíður eftir því að við byggjum upp kerfi sem er nothæft til að fólk geti fengið öruggt húsnæði yfir höfuðið á sér og sinni fjölskyldu.



[15:46]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því, eins og flestir aðrir, að þakka fyrir þessa skýrslu og þá sérstaklega hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að koma þessu af stað. Það er eins með þessa skýrslu og allar aðrar, það er mjög ánægjulegt þegar Alþingi tekur upp á því að vinna skýrslur af þessu tagi og finna niðurstöður, orsök og afleiðingar mistaka. Ég vona þá að þessi skýrsla verði okkur sú lexía sem hún á að vera. Það er ekkert langt síðan hin margumrædda skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út, árið 2010 að mig minnir, hún virðist ekki hafa verið rædd neitt eftir það. Ég man ekki eftir því að hún hafi verið rædd nema einu sinni hér á þingi eða tvisvar. Því miður finnst mér eins og hún hafi bara gleymst. Menn töluðu reyndar um að þetta væri að þvælast fyrir einhverjum eitthvað tímabundið, og mér finnst mjög alvarlegt ef menn tala þannig um svona skýrslur.

Þetta var gríðarlega vel unnin skýrsla, skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Þótt ég hafi alls ekki lesið hana alla hef ég aðeins gluggað í hana og að mínum dómi ætti allt okkar stjórnmálastarf í dag að grundvallast á niðurstöðum þessarar skýrslu. Þar kemur fram margt sem læra má af um það hvernig við getum unnið í stjórnmálum Íslandi til heilla. Því miður virðist sú alls ekki hafa orðið raunin með þessa skýrslu að menn fari neitt eftir því. Það er nóg að horfa til síðasta þings þar sem ástandið var, að því er mörgum finnst, bara hryllilegt.

Mig langar að vitna aðeins í skýrsluna, með leyfi forseta. Það er kafli um stjórnsýslu, stjórnsiði og stjórnmál, II. kafli í 8. bindi. Þar er talað um íslenska stjórnmálamenningu og þann lærdóm sem draga megi af þessari skýrslu og því sem gerst hafi. Með leyfi forseta:

„Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum. Í því skyni þyrftu þingmenn meðal annars að setja sér siðareglur og skýra þar með fyrir sjálfum sér og almenningi hvernig þeir skilja meginskyldur sínar og ábyrgð.

Draga þarf úr ráðherraræði og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis.

Efla þarf góða rökræðusiði meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa hennar. Í því skyni þyrfti að vinna skipulega að því í skólum landsins að búa nemendur undir þátttöku í lýðræðissamfélagi með þjálfun í málefnalegri rökræðu og skoðanaskiptum.“

Síðan stendur, með leyfi forseta:

„Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa.“

Þetta finnst mér mjög góður punktur, af þessu má draga mikinn lærdóm. Þetta er eitthvað sem við ættum að gera og einhenda okkur í það öll hér.

Í III. kafla, Samfélagið, segir um þann lærdóm sem við megum draga af þessu:

„Sporna þarf gegn hugmyndafræði afskiptaleysisins með raunhæfri fræðslu um takmarkanir markaðarins og mikilvægi öflugs eftirlits með honum.

Glæða þarf skilning á hlutverki ríkisstofnana í því að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf, réttarríki og velferðarsamfélag.

Leggja þarf rækt við raunsæja, ábyrga og“ — takið eftir — „hófstillta sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar sem byggist á þekkingu og skilningi á menningu okkar og samfélagi.

Þjálfa þarf gagnrýna hugsun og efla læsi borgaranna á hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð.“

Þetta finnst mér mjög gott. Þetta er til eftirbreytni og ég vona að við förum eftir þessu.

Mig langar líka til þess að minna og vitna í lokaorð 8. bindis þar sem segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnmálamenning hefur einkennst um of af átökum og kappræðu þar sem sanngildi staðhæfinga er lítilvægt í stað rökræðu og sjálfstæðis löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það voru ekki aðeins eftirlitsstofnanir með fjármálakerfinu sem brugðust hlutverki sínu heldur einnig sú stofnun sem framar öðrum á að gæta almannahagsmuna — Alþingi.“

Þarna stendur skýrum stöfum hvað klikkaði. Hér standa menn og benda hver á annan út og suður, kenna þessum flokki og hinum flokki um hvernig komið er. Við eigum ekkert að standa í því að vera að kenna hvert öðru um. Sagan dæmir sig sjálf. Saga okkar Íslendinga einkennist af ótrúlegum mistökum, hagstjórnarmistökum og öðru. Maður veltir því fyrir sér sem nýr þingmaður: Hvar enda þessi ósköp eiginlega sem dynja á okkur, milljarðar á milljarða ofan sem alltaf hefur lent á almenningi að borga? Það er líka viss hópur alltaf í þjóðfélaginu sem stendur í lappirnar og þarf aldrei að borga neitt, en þessi mistök stjórnmálamanna í gegnum tíðina lenda alltaf á almenningi. Við erum hér á Alþingi til að gæta þeirra hagsmuna.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að við, þessir 63 kjörnu fulltrúar á Alþingi, komum til með að vinna saman, tökum þessa skýrslu alvarlega, og þessar skýrslur báðar, snúum bökum saman og vinnum að heildarlausn fyrir íslenskt samfélag. Ég treysti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fullkomlega til að leiða þá vinnu. Það segi ég eftir að hafa fylgst með henni á þingi undanfarin ár. Þar er traustur þingmaður. Ég treysti henni fullkomlega til að takast á við þetta. Ég er tilbúinn, og við í mínum flokki, að hjálpa til við það.

Það krefst hugrekkis að hlusta á hjarta sitt. Það krefst hugrekkis að fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlusta á rök og upplýsingar. Það krefst hugrekkis að standa í fæturna og axla ábyrgð.