142. löggjafarþing — 20. fundur.
veiðigjöld, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 15. mál (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.). — Þskj. 15, nál. 52 og 59, brtt. 60.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:17]

[16:02]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera grein fyrir afstöðu Bjartrar framtíðar til þessa frumvarps og þá jafnframt mínu atkvæði.

Hér er lagt til að lækka veiðileyfagjöldin svo um munar. Flestir eru sammála um að við séum að tala um 9–13 milljarða í tekjutap fyrir ríkissjóð á þessu og næsta ári. Þetta er stóra málið.

Hér hafa margir tekið til máls og menn eru ósammála og það hefur verið athyglisvert. Þetta hefur verið athyglisverð umræða því að við erum ekki að tala um það sem við erum sammála um, ekki það sem sameinar. Það er meira í þessu máli sem við erum sammála um en það sem skilur okkur að. Við eigum að vera að vinna saman út frá þeim pól því að það er leiðin til lausnar.

Það hefði verið góður bragur á því ef atvinnuveganefnd hefði gert sameiginlega breytingartillögu við þetta frumvarp, en við höfum því miður ekki látið reyna á það. Minni hlutinn lagði hins vegar fram breytingartillögu sem er til bóta og ég vona að þingmenn stjórnarflokkanna hafi lesið hana. Þingflokkur Bjartrar framtíðar leggst gegn lækkun á veiðileyfagjaldi og greiðir atkvæði á móti 2. og 3. gr. en við tökum ekki afstöðu til 1. gr. Þar er margt ágætt en ákvæðið um heimildir ráðherra er (Forseti hringir.) óljóst.



[16:03]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um lækkun veiðigjalda. Allt mælir gegn því að lækka veiðigjöldin frá því sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Afkomutölur sjávarútvegsfyrirtækja bera það með sér að hagnaður er mikill og eykst milli ára. Greinin getur með góðu móti borið þá auðlindarentu sem henni ber að gera.

Staða ríkissjóðs er með þeim hætti að hann þarf á öllum sínum tekjum að halda og við blasir að fjöldi framkvæmda sem veiðigjöldin áttu að standa undir verður í uppnámi og mikill niðurskurður blasir við ef skerða á tekjur ríkissjóðs um tug milljarða á þessu og næsta ári. Tæknileg framkvæmd við álagningu veiðigjalds réttlætir ekki að veikja stöðu ríkissjóðs um tug milljarða.



[16:05]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál sýnir í hnotskurn þá stefnu sem þessi ríkisstjórn rekur. Hér þarf engar nefndir, bara vaða beint í það að lækka veiðigjöldin á sínu fyrsta þingi. Þannig eru áherslur ríkisstjórnarinnar.

Ég er andsnúin þessum áherslum og við í Samfylkingunni og við munum greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Ástæðan er einföld. Hér er lögð til lækkun á veiðigjöldum samkvæmt núgildandi lögum en þau eru sanngjörn og hófleg auðlindarenta. Meira og minna allir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina hafa sýnt fram á að sjávarútvegurinn þolir vel þau veiðigjöld sem eru í núgildandi lögum og því er algjört óráð að ætla að lækka þau.

Sérfræðingar hafa jafnframt sýnt fram á að þessar tillögur þýða að fyrirtæki sem eru í bolfisksveiðum greiða nánast núll í auðlindarentu og það er ekki það sem kallað hefur verið eftir í okkar samfélagi þegar þjóðin hefur kallað á það ítrekað að fá hlutdeild (Forseti hringir.) í þeirri auðlindarentu sem svo sannarlega er til staðar í íslenskri útgerð.



[16:06]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kemur vel fram í þessari umræðu um atkvæðaskýringar hvað umræðan er á miklum villigötum hjá okkur. Hér er fullyrt að tekjutap ríkissjóðs á þessu og næsta ári sé upp í 13 milljarða sem þegar fyrir liggur ef menn skoða frumvarpið að það er nær 7–8 milljörðum. Það er talað um að bolfisksfyrirtækin greiði nánast núll. Þetta er alrangt. Afsláttarreglurnar eru þannig að við erum að hjálpa þeim fyrirtækjum sem eru í vanda og eru illa stödd þannig að þau geti staðið í skilum. Þau fá afslátt en hin sem eru sterkari borga fullt veiðigjald.

Ég held að í þessu frumvarpi hafi tekist að jafna mjög þær álögur milli þeirra greina innan útgerðanna sem við leituðumst við. Það var vitlaust gefið í þeim lögum sem gilda. Bolfisksfyrirtækin hafa greitt allt of mikið og það hefur lagst með miklu mildari hætti á uppsjávarfyrirtækin. Við erum að dreifa þessu, við erum að lækka veiðigjöldin. Það er ekkert sem sýnir okkur annað en að hér hafi of mikil veiðigjöld verið lögð á. Það sýna okkur allar tölur. Við þurfum að fara í framtíðarvinnu og endurskoða með hvaða hætti við ætlum að gera þetta, en það verður ekki búið við stöðuna (Forseti hringir.) eins og hún er.

Nefndin mun skoða þetta á milli 2. og 3. umr. og gera á því þær breytingar sem geta orðið til að gera þetta enn (Forseti hringir.) betra.



[16:07]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stefna Pírata í þessu máli ætti að vera öllum ljós. Það er verið að lækka þann hlut sem þjóðin fær fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er enginn ágreiningur um það. Þetta er það sem er verið að gera. Það eru minnst 3 milljarðar á næsta ári, svo eru þetta minnst 7–8 milljarðar þegar allt er tekið til, kannski verður lækkunin meiri.

Úr því að verið er að lækka hlut þjóðarinnar finnst okkur að þjóðin eigi að hafa lokaorðið um það hver hlutur hennar af nýtingu auðlindarinnar á að vera og við köllum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Við vonum að forsetinn synji þessum lögum staðfestingar og vísi þeim til þjóðarinnar.



[16:08]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í kjölfar efnahagshruns þegar tekjustofnar höfðu hrunið og útgjöld aukist þurfti að taka á í ríkisrekstri. Leið okkar jafnaðarmanna var skýr. Hún var sú að auka gjaldtöku af afnotum af sameiginlegum auðlindum en stilla í hóf álögum á fólk og verðmætaskapandi fyrirtæki. Það er sú leið sem við höfum farið.

Ný ríkisstjórn vill hverfa frá þessari leið, hún vill snúa til baka. Afleiðingin verður niðurskurður á opinberri þjónustu og/eða auknar álögur á almenning í landinu. Það er það sem er boðað hér.

Það er eðlilegt að menn spyrji spurninga um það hvernig veiðigjöld eru lögð á. Við höfum boðað einfaldar leiðir til að bregðast við öllum málefnalegum athugasemdum sem settar hafa verið fram. Eftir stendur það mat allra helstu sérfræðinga á þessu sviði hér á landi og þeirra íslensku sérfræðinga sem starfa erlendis, erlendra alþjóðastofnana, skammstafananna allra saman, að þetta sé skynsamleg leið til tekjuöflunar fyrir íslenskt samfélag og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er að hafna henni.



[16:09]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Næg atvinna er undirstaða velferðar. Við verðum í sameiningu að hlúa að atvinnulífinu, sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, skilaði áliti til atvinnuveganefndar og niðurstaðan var sú að fyrirliggjandi frumvarp væri betra en fyrri lög. Skref í rétta átt, ekki fullkomið en sanngjarnara.

Um er að ræða bráðabirgðaákvæði til eins árs. Það er nauðsynlegt að samþykkja frumvarpið svo hægt sé að innheimta sanngjörn veiðileyfagjöld á næsta fiskveiðiári.



[16:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta frumvarp hefur dregið fram hversu langt fram úr sér menn eru komnir í umræðu um auðlindagjöld almennt í þinginu. Það er fært fram sem sérstök röksemd að ríkissjóður hafi þurft mjög á því að halda eftir fjármálaáfallið að hækka hressilega veiðigjöldin. Við erum komin óravegu frá yfirvegaðri umræðu um það hvað einstakar greinar þola til lengri tíma.

Við erum líka komin óravegu frá einhverri yfirvegaðri umræðu um það hvar hagsmunir þjóðarheildarinnar liggja. Þeir liggja ekki síst í því að hér sé rekinn arðbær sjávarútvegur sem hafi hvata til að fjárfesta og skila góðri afkomu til langs tíma á grundvelli sjálfbærra veiða. Menn geta ekki endalaust fært bága stöðu ríkissjóðs fram sem röksemd fyrir því að tífalda, tuttugufalda eða þrjátíufalda hæstu veiðigjöld sem við höfum áður séð í framkvæmd. (HHj: Segið svo að þið getið ekki lækkað …) (VigH: Alltaf jafn kurteis, Helgi Hjörvar.)



[16:11]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar, forgangsmál sem snýst um það í fyrsta lagi að draga úr tekjum ríkissjóðs og hleypa fjárlögum yfirstandandi árs í uppnám sem og fjárlagavinnu fyrir næsta ár, og í öðru lagi að hverfa frá þeirri hugmyndafræði sem hér hefur verið farið yfir í ítarlegum umræðum um þetta mál að innheimta eðlilega rentu hjá þeim sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.

Þetta mál snýst ekki bara um það tekjutap sem það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð, það snýst líka um hugmyndafræði, hvernig við viljum sjá auðlindir þjóðarinnar og hvort við meinum eitthvað með því í alvöru þegar við segjum að þær eigi að vera í sameiginlegri eigu þjóðarinnar og að þjóðin eigi að fá eðlilega rentu af auðlindunum.



Brtt. 60,1 felld með 30:19 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BSB,  BP,  FrH,  GuðbH,  HHj,  KJak,  KLM,  LRM,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁsmD,  ÁsF,  BjarnB,  BN,  ElH,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE.
4 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  PJP) greiddu ekki atkv.
10 þm. (BÁ,  EKG,  ELA,  HBK,  KaJúl,  OH,  PHB,  SIJ,  VBj,  VilÁ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:13]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér blasa við okkur þau vinnubrögð sem minni hlutinn hefur stundað í þessu máli sem og á síðasta kjörtímabili. Hér er um mjög óvandaða breytingartillögu að ræða sem ekki stenst lög en það er svo sem engin breyting fyrir minni hlutann. Í fyrstu meginreglu í verklagsreglum í hagskýrslugerð er kveðið á um sjálfstæði hagskýrsluyfirvalda gagnvart stjórnmálaöflum og annarri utanaðkomandi íhlutun við gerð og dreifingu opinberra hagskýrslna sem er bundin lögum. Í lögum um Hagstofu Íslands er ekki gert ráð fyrir að hún taki þátt í álagningu skatta enda ekki um tölfræðigerð að ræða. Hagstofan telur því að þátttaka í álagningu veiðigjalds stríði gegn þeim lögum sem um starfsemi hennar gilda, gegn lögum sem gilda um evrópska hagskýrslugerð og gegn verklagsreglum um evrópska hagskýrslugerð. Með öðrum orðum værum við að fara gegn þeim samþykktum sem við höfum samþykkt á alþjóðavettvangi og þeim lögum sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi. Þetta vita menn.

Það er ekki hægt að breyta þessum lögum með því að smella fingrum eins og gefið hefur verið í skyn til að veiðigjaldsnefndin fái þær upplýsingar sem hún þarf til að vinna sína vinnu. Ráðherra setti af stað sérstakan tæknihóp (Forseti hringir.) sem átti að vinna þessa vinnu og var að því í margar vikur en kom með enga niðurstöðu. Þessi breytingartillaga gengur ekki, hún er gegn (Forseti hringir.) lögum og þeir sem greiða henni atkvæði sitt eru tilbúnir að brjóta þau lög sem gilda um stofnanir í landinu. Auk þess mun þetta leggja (Forseti hringir.) 5 þús. milljóna viðbótargjald á bolfisksfyrirtækin í landinu.



[16:14]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um fyrstu tillögu af þremur frá minni hluta í atvinnuveganefnd um þetta mál, veiðigjöldin. Við erum með tillögu um að veiðigjaldsnefnd verði gert kleift að fá þær upplýsingar sem hún þarf til að geta lagt hér á veiðigjöld. (Gripið fram í.) Það er tilgangur þessarar tillögu. (Gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Jón Gunnarsson fái að ræða hér um atkvæðagreiðsluna á eftir og geti þá talað úr ræðustóli Alþingis frekar en úr sæti sínu þannig að ég legg til að honum verði gefið orðið.

Í öðru lagi felur þessi tillaga líka í sér annað sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fjallaði um áðan og það eru litlu og meðalstóru fyrirtækin. Í þessari tillögu er einmitt fjallað um það að við ætlum að hækka fríkvótamörkin fyrir litlu og meðalstóru fyrirtækin, það lægsta úr 30 þúsundum í 50 þúsund (Forseti hringir.) þannig að komið verði til móts við þau. Þessa tillögu ætlar stjórnarmeirihlutinn hér að fella.



[16:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við í minni hlutanum leggjum fram breytingartillögu og eins og komið hefur fram hefur verið mikil umræða um að tæknilega séð hafi ekki verið hægt að leggja á veiðigjöld. Við leggjum til að styrkja þá lagastoð að Hagstofan hafi heimild til að taka við þeim gögnum sem hún þarf til að leggja á veiðigjöld. Við teljum að það sé vel mögulegt að styrkja það með þessari tillögu. Þá mætum við þeim sem eru í útgerð í litlum og meðalstórum fyrirtækjum með því að hækka frítekjumark og veita aukinn afslátt og að fullt gjald í sérstöku veiðigjaldi verði einungis greitt eftir 250 þús. þorskígildiskíló. Þessi aðgerð er raunveruleg til að mæta litlum og meðalstórum fyrirtækjum og kostar ríkissjóð aðeins 310 milljónir. Það yfirvarp (Forseti hringir.) sem nú er, að verið sé að mæta þessum útgerðum, er einungis til að lækka á stórútgerðina sem er í bullandi hagnaði.



 1. gr. samþ. með 32:14 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  ElH,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  GuðbH,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  SII,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS.
9 þm. (BirgJ,  BjÓ,  BSB,  BP,  FrH,  HHG,  JÞÓ,  PVB,  RM) greiddu ekki atkv.
8 þm. (EKG,  ELA,  HBK,  OH,  PHB,  SIJ,  VBj,  VilÁ) fjarstaddir.

[16:18]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja til töluverða lækkun á veiðigjöldum til bolfisksfyrirtækja. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur komið fyrir hv. atvinnuveganefnd og sýnt okkur fram á að hér sé gengið allt of langt. Það er verið að rjúfa mikilvægan frið sem var skapaður með setningu veiðigjalda á síðasta kjörtímabili, (Gripið fram í: Frið?) frið um sjávarútveginn og það mikilvæga verkefni stjórnvalda hverju sinni að skapa sátt um undirstöðuatvinnugreinar sínar.

Hér er verið að reka fleyg inn í þá sátt. (Gripið fram í: Sátt?) Með íslenskri þjóð verður aldrei full sátt um sjávarútveginn fyrr en það er ljóst að hún fái sanngjarna, hóflega auðlindarentu fyrir nýtingu íslenskra náttúruauðlinda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er það sem menn eru í raun að afnema hér. Þess vegna leggjum við til að þetta standi (Forseti hringir.) óbreytt í í núgildandi lögum.



Brtt. 60,2 felld með 30:20 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BSB,  BP,  FrH,  GuðbH,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  ElH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE.
4 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  PJP) greiddu ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  EyH,  HBK,  OH,  PHB,  SIJ,  VBj,  VilÁ) fjarstaddir.

 2. gr. samþ. með 30:20 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  ElH,  EyH,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BSB,  BP,  FrH,  GuðbH,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS.
4 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  PJP) greiddu ekki atkv.
9 þm. (EKG,  ELA,  GÞÞ,  HBK,  OH,  PHB,  SIJ,  VBj,  VilÁ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:20]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér kemur meginefnisgrein frumvarpsins til atkvæða. Þar er lögð til mjög mikil lækkun á sérstöku veiðigjaldi fyrir botnfisk, um 16 kr. á þorskígildiskíló. Að vísu er lögð til nokkur hækkun á uppsjávarveiðar á móti og fyrir því standa að sjálfsögðu gild efnisleg rök, og afkoma þar mjög góð, en þetta leiðir engu að síður til þess að tekjur ríkissjóðs munu, miðað við fyrirliggjandi ríkisfjármálaáætlun, lækka um áætlaða 10 milljarða kr. á þessu ári og því næsta — samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, hv. þm. Jón Gunnarsson. Það standa engin efnisleg rök fyrir svona mikilli lækkun, alls ekki nokkur. Þetta 10 milljarða tekjutap ríkissjóðs er umtalsvert, borar gat í fjárlög yfirstandandi árs og skapar verulega erfiðleika við að koma saman hallalausum fjárlögum á næsta ári. Þetta er ábyrgðarlaust af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og þetta mun ekki greiða götu þess að menn nálgist eitthvert samkomulag um fyrirkomulag sjávarútvegsmála (Forseti hringir.) á Íslandi, þvert á móti. (Gripið fram í.)



[16:21]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð að þetta mál fari í gegnum þessa umræðu enda hefur því verið lýst yfir að málið fari aftur inn í nefnd og þar verði það skoðað enn betur og þær athugasemdir sem borist hafa. Ég lýsi því enn fremur yfir að ég er ekki sammála þeim athugasemdum sem hér hafa verið bornar upp um þetta mál af hálfu stjórnarandstöðunnar og hlakka til að fylgjast með störfum nefndarinnar og sjá hvaða afrakstur þau bera á milli umræðna.



Brtt. 60,3 felld með 31:20 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BSB,  BP,  FrH,  GuðbH,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  ElH,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE.
4 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  PJP) greiddu ekki atkv.
8 þm. (EKG,  ELA,  HBK,  OH,  PHB,  SIJ,  VBj,  VilÁ) fjarstaddir.

 3. gr. samþ. með 31:20 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  ElH,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BSB,  BP,  FrH,  GuðbH,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS.
4 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  PJP) greiddu ekki atkv.
8 þm. (EKG,  ELA,  HBK,  OH,  PHB,  SIJ,  VBj,  VilÁ) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til atvinnuvn.