142. löggjafarþing — 23. fundur.
stjórnarskipunarlög, frh. 3. umræðu.
frv. ÁPÁ o.fl., 5. mál (tímabundið ákvæði um breytingu á stjórnarskrá). — Þskj. 5.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[00:26]

Frv.  samþ. með 42:15 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  FrH,  GuðbH,  GÞÞ,  HarB,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  OO,  PVB,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SII,  SkH,  SJS,  SSv,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁsmD,  BirgJ,  ELA,  GBS,  HHG,  JMS,  JÞÓ,  KG,  PJP,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  VigH,  ÞorS,  ÞórE.
6 þm. (EyH,  HE,  LínS,  SDG,  SilG,  UBK) greiddu ekki atkv.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[00:21]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin frá 1944 hefur sætt stöðugri endurskoðun sem hefur, í sumum tilfellum, leitt til breytinga á stjórnarskránni allt frá 1944. Stjórnarskráin hefur staðist vel tímans tönn, meira að segja ákvæði hennar um breytingar hafa ekki komið í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni. Það kann þó vel að vera að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni um einhver atriði. Mikilvægt er að slíkar breytingar séu gerðar í nokkurri sátt og án allrar geðshræringar.

Þetta frumvarp er komið til vegna ómaklegra ásakana í garð stjórnarskrárinnar í kjölfar hruns fjármálastofnana á árinu 2008. Frumvarpið heimilar einhvers konar flýtimeðferð á stjórnarskrárbreytingum og hins vegar breytingar á stjórnarskránni (Forseti hringir.) einungis í þágu einhvers konar uppdiktaðra þarfa (Forseti hringir.) einhvers konar atvinnuþrefara. Með þessari breytingu er vikið til hliðar þeirri yfirvegun sem nauðsynleg er, að ég tel, við breytingar á stjórnarskránni. Í því ljósi greiði ég ekki atkvæði með frumvarpinu.



[00:23]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er með erfiðari málum, hefur mér fundist, að greiða atkvæði um. Maður vill auðvitað sem pírati greiða atkvæði með því sem auðveldar þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnarskrárbreytingar til að vinna áfram að mikilvægum stjórnarskrárbreytingum. En þetta tiltekna frumvarp býður hins vegar ekki upp á raunhæfa leið til þess að breyta stjórnarskránni, þetta er ekki raunhæf aðferð. Það er þess vegna sem svona margir stjórnarliðar samþykkja þetta. Þeir vita að þetta er í skásta falli gagnslaust, í versta falli hræðilegt fordæmi og í reynd vopn til að finna afsakanir til að bjóða upp á einhverjar stjórnarskrárbreytingar, sem væru kannski til gagns, fara þessa leið og tryggja þar með að þær gangi aldrei í gegn. Þetta frumvarp er slæmt, við segjum nei, píratar allir.



[00:24]
Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með það að eitt af mínum síðustu verkum hér meðan ég sit hér fyrir hönd hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar sé að greiða þessu frumvarpi atkvæði mitt. Ég vona að það muni leiða til jákvæðrar þróunar við áframhaldandi vinnu við stjórnarskrána.



[00:25]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það voru vissulega mikil vonbrigði á síðasta kjörtímabili að ekki skyldi takast að ljúka þeirri heildarendurskoðun sem sett var af stað á stjórnarskrá lýðveldisins. Það var gríðarlega merkt ferli frá upphafi og þar til að það strandaði hér á Alþingi á lokadögum síðasta kjörtímabils. Ljósið í því myrkri var svo sannarlega frumvarp formannanna þriggja um tímabundið ákvæði um breytingu á stjórnarskránni. Það ákvæði og samþykkt þess nú er mikið fagnaðarefni og gefur vonir um að það takist að ljúka að minnsta kosti hluta af þeirri miklu og merkilegu vinnu sem var unnin af þjóðfundinum, stjórnlagaráði og á Alþingi í kjölfarið. Vonandi tekst þinginu að ljúka að minnsta kosti mikilsverðustu breytingartillögunum, þeim sem snúa að sameign þjóðarinnar á auðlindum sínum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er mjög ánægjulegt að þetta gangi til atkvæða nú og verði samþykkt.