142. löggjafarþing — 26. fundur.
sérstök umræða.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:01]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni Reykjavíkurflugvallar eru í brennidepli eins og svo oft áður og kannski enn meira nú en oft áður. Ég held að málefni Reykjavíkurflugvallar hafi verið á borði síðustu fimm samgönguráðherra að minnsta kosti, þeirra Steingríms J. Sigfússonar, Halldórs Blöndals, Sturlu Böðvarssonar, þess sem hér stendur, Ögmundar Jónassonar og svo núverandi hæstv. innanríkisráðherra.

Það má segja að Reykjavíkurborg og borgaryfirvöld hafi dregið lappirnar og tafið málin leynt og ljóst og svikið ýmiss konar samkomulag sem gert hefur verið. Nægir þar að nefna sem dæmi samkomulag samgönguráðherra og borgaryfirvalda um byggingu samgöngumiðstöðvar eða flugstöðvar. Við lesum um það nú í fréttum að það hefur tekið mjög langan tíma að veita Isavia heimild til að stækka húsnæði sitt sem það notar undir hina miklu alþjóðlegu flugstjórnarmiðstöð.

Sem betur fer, og það ber að þakka fyrir, hafa nokkrir framtakssamir menn hafið undirskriftasöfnun sem ber heitið Hjartað slær í Vatnsmýri. Á nokkrum dögum eða tveimur vikum hafa rúmlega 66 þús. manns skrifað sig á þennan lista, meiri hluti af höfuðborgarsvæðinu. Nokkrar skoðanakannanir hafa verið gerðar sem sýna að 85% landsmanna vilja völlinn áfram í Vatnsmýrinni og 82% borgarbúa vilja völlinn áfram í Vatnsmýri og þar af leiðandi eru aðeins 18% andvíg því.

Til upprifjunar er tímasetningin 2016, þegar loka á tveimur flugbrautum, og 2024, þegar allt á að vera farið. Því má segja, virðulegi forseti, að lokaorrustan um Reykjavíkurflugvöll sé hafin og hún mun standa yfir næstu mánuði og næstu árin ef með þarf og ef til vill ná hámarki í næstu borgarstjórnarkosningum. Að mínu mati og fjölmargra annarra er þetta ekki einkamál borgarstjórnar Reykjavíkur. Hér er um almannahagsmuni að ræða sem snúa að öllum landsmönnum. Þar ber að taka inn í myndina alla hagsmuni en ekki bara takmarkaða hagsmuni Reykjavíkurborgar eða nokkurra borgarfulltrúa.

Þetta er sem betur fer ekki flokkspólitískt mál. Það eru skiptar skoðanir og andstæð sjónarmið í öllum flokkum. Aðrir hagsmunir koma þarna inn í eins og almennt farþegaflug, sjúkraflug — það má nefna að næstum því tvö sjúkraflug eru á Reykjavíkurflugvöll á degi hverjum allt árið um kring, hátíðisdagar meðtaldir. 50% af þeim eru bráðatilvik og oft og tíðum eru skilin milli lífs og dauða, að mati lækna sem ákveða sjúkraflug, þarna. Ef sjúkraflug færist til Keflavíkur skulum við hafa í huga að flutningstími lengist um allt að 60 mínútur, að minnsta kosti. Ég minni líka á þyrluflug með slasaða sem skiptir sköpum í öryggi þeirra. Þess vegna segi ég að ef borgaryfirvöld ætla að halda uppi þeim einstrengingshætti að Reykjavíkurflugvöllur fari tel ég að bygging Landspítalans eigi ekki að vera við Hringbraut heldur eigi að færa þá byggingu á Vífilsstaði.

Vatnsmýrin er mikilvæg og flugið er mikilvægt í atvinnulegu tilliti. Þegar um 1.000 störf, sem tengjast fluginu í Vatnsmýri, og 5.000 störf á Landspítalanum eru tekin með í reikninginn er það einstakt í sögunni ef ein sveitarstjórn ætlar að beita sér fyrir því að allt að 6.000 störf fari burt úr þeim bæ. Að mínu mati eru bara tveir kostir í stöðunni, núverandi staða þar sem völlurinn er í eitthvað breyttu formi eða Keflavíkurflugvöllur. Flugvöllur á Hólmsheiði verður aldrei gerður.

Þá kem ég að samkomulagi ríkis og borgar frá í vor, sem var óheillaskref að mínu mati. Það var leynd og pukur sem enginn vissi af, það sem gert var, en sem betur fer var það háð samþykki innanríkisráðherra. Fyrirvari fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, er alveg skýr. Þar var sett fram að ef ekki næst lausn hvað varðar framtíð Reykjavíkurflugvallar og byggingu flugstöðvar og aðra þá þætti til langs tíma sem þar eru nefndir er það samkomulag ekki í gildi. Þetta er mikilvægt. Þarna var hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem þáverandi innanríkisráðherra, í raun og veru að framfylgja stefnu sem margir undanfarnir samgönguráðherrar hafa sett fram, sá sem hér stendur úr Samfylkingu, aðrir úr Sjálfstæðisflokki, úr Vinstri grænum og úr Framsóknarflokki. Þarna var hann að setja það fram.

Það er því meðal annars spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra hvort þeir fyrirvarar í samkomulaginu sem hann undirritaði séu ekki alveg skýrir og hvort núverandi hæstv. innanríkisráðherra muni ekki halda það í heiðri.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra líka út í það sem við heyrum í fréttum um viðræður hæstv. innanríkisráðherra við Reykjavíkurborg um framtíð (Forseti hringir.) Reykjavíkurflugvallar. Hvernig ganga þær viðræður? Hver er staðan?

Og ég spyr hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) út í viðbrögð hennar við þeirri miklu undirskriftasöfnun sem þegar liggur fyrir en ég veit að á þeim lista á nöfnum eftir að fjölga.



[16:07]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að taka upp umræðu um þetta mál hér á Alþingi. Það er mikilvægt að hafa í huga það sem hv. þingmaður nefndi að þetta er mál sem snertir alla þjóðina með einhverjum hætti enda um að ræða eina stærstu samgöngumiðstöð landsins. Það sem skiptir hins vegar mestu í mínum huga hvað varðar þetta mál, og er lykilhlutverk mitt sem samgönguráðherra, er að reyna að ná sátt um framtíðarskipulag innanlandsflugvallar í Reykjavík. Það kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og ég hef sjálf ítrekað sagt það sem mína skoðun, að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera í Reykjavík. Það hvort flugvöllurinn verður um alla framtíð í Vatnsmýrinni eða annars staðar í höfuðborginni eða á höfuðborgarsvæðinu er mál sem við verðum að leysa í góðri sátt við ríkið, Reykjavíkurborg og ekki síður við landsbyggðina.

Þess vegna tek ég nú ekki alveg undir það sem nefnt var hér af hv. þingmanni um alla erfiðleikana sem Reykjavíkurborg hefur skapað í málinu. Ég hef verið hinum megin líka og tel að tveir hafi verið að tala saman um þetta og get ekki alveg tekið undir að Reykjavíkurborg hafi alla tíð og alltaf hagað sér með óábyrgum hætti í þessu máli. Ég ítreka þá skoðun mína, líka sem ráðherra sveitarstjórna, að skipulagsvaldið er hjá Reykjavíkurborg í þessu máli. Skipulagsvaldið er heilagt vald sveitarfélaganna og við verðum sem ríkisvald að virða það þrátt fyrir að við séum ekki endilega sammála áherslum Reykjavíkurborgar í þessu máli.

Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá neinum, eins og nefnt var, að nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í óbreyttri mynd. Ég fagna því sérstaklega að almenningur láti til sín taka með þessum hætti og finnst jákvætt að almenningur láti í sér heyra þegar um er að ræða mál sem varða hag allra landsmanna. Ég get líka, líkt og spurt var um hér af hv. þingmanni, upplýst þingheim um það, og þar með svarað spurningunni, að allt frá því að aðalskipulag Reykjavíkur var auglýst í byrjun sumars hef ég átt í viðræðum við forsvarsmenn borgarinnar, aðallega formann borgarráðs, um mikilvægi þess að völlurinn fái að starfa með fleiri en einni braut lengur en gert er ráð fyrir í auglýstu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem er til ársins 2016.

Eins og við þekkjum í þessari aðalskipulagstillögu sem Reykjavíkurborg hefur auglýst stendur til að taka norður/suðurbrautina af árið 2016. Það má öllum vera ljóst að flugvöllurinn verður þannig illa notaður og því hef ég verið, og mun áfram beita mér fyrir því sem samgönguráðherra, að ræða við Reykjavíkurborg, og við höfum átt mjög góðar viðræður um að vinna að því að við getum tryggt það að leysa þessa stöðu.

Ég get að öðru leyti ekki upplýst nákvæmlega um þær viðræður. Miðað hefur verið við að þær standi þar til að fresti til að skila inn athugasemdum lýkur, sem er 20. september. Viðræðurnar ganga vel og markmið ríkisvaldsins í þeim er alveg skýrt. Það er að tryggja að völlurinn fái að vera fullvirkur í lengri tíma en nú er gert ráð fyrir, þ.e. að tvær brautir verði opnar lengur en til ársins 2016. Mér hefur þótt Reykjavíkurborg sýna ríkisvaldinu skilning í þessum viðræðum og talandi um auglýsingar er varða til dæmis uppbygginguna í kringum Isavia þá hefur það þegar verið auglýst — var auglýst í júní — þannig að Reykjavíkurborg hefur líka verið að koma til móts við ríkið í því. Ég get fullvissað hv. þingmann og þingheim um að ég mun gæta almannahagsmuna í því og þeim skyldum sem ég ber sem samgönguráðherra, sem er að tryggja að völlurinn geti virkað. Vísað var til samkomulagsins sem undirritað var síðasta vor. Fyrirvararnir sem þar eru standa og það er einmitt ein af undirstöðum þess að við séum að ræða málið, þ.e. að til þess að það samkomulag geti að fullu tekið gildi þurfum við að ná samkomulagi um þessa hluti líka.

Ég þekki mjög vel þær aðvaranir sem hafa verið í gangi og varða öryggissjónarmið og lúta að sjúkraflugi og öðru sem tengist flugvellinum, sem er mjög mikilvægt. Þær athugasemdir sem koma fram til dæmis í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru til sérstakrar skoðunar í innanríkisráðuneytinu. En við verðum líka, finnst mér, í þessari umræðu — og ég sakna þess stundum sem fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík að menn ræði ekki líka öryggisþáttinn er lýtur að staðsetningu vallarins í miðborg Reykjavíkur. Það er líka öryggissjónarmið sem lýtur að því hvar völlurinn er staðsettur í Reykjavík og það lýtur að öryggissjónarmiðum er varða þá sem búa í borginni. Að þeim öryggisþáttum þarf líka að huga. Með því er ég ekki að gera lítið úr hinum öryggisþáttunum en finnst mikilvægt að við tökum þetta allt til skoðunar.

Ég ítreka að viðræðurnar við Reykjavíkurborg hafa staðið í þennan tíma, í allt sumar. Þær ganga vel og markmið ríkisvaldsins eru alveg skýr þar og eru í takt við það sem áður hefur verið sagt. En skipulagsvaldið er hjá Reykjavíkurborg og með þeim viljum við þess vegna vinna í málinu. Ég er sannfærð um að hægt er að ná sátt, að hægt er að ná góðri niðurstöðu og tryggja að völlurinn gegni því hlutverki sem hann gegnir í dag. Það verðum við að gera í sem bestri sátt við Reykjavík og það er markmiðið.



[16:12]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Reykjavíkurflugvöllur er nú til umfjöllunar í tengslum við tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur að nýju aðalskipulagi. Um málið eru að vonum afar skiptar skoðanir vítt og breitt um land. Því miður hefur umræða um málið þó einkennst af gagnkvæmum upphrópunum skoðanaandstæðinga allt of lengi. Nú heyrist jafnvel lagt til að borgarstjórn verði rænd forræði skipulagsmála flugvallarsvæðisins og það flutt til Alþingis. Ég er í hópi þeirra sem telja að flugvallarsvæði í sjálfri miðborginni sé tímaskekkja en vil um leið undirstrika mikilvægi allra samgangna til höfuðborgarsvæðisins. Það eru hins vegar margar hliðar á málinu sem allar eiga rétt á að vera teknar alvarlega í umræðunni eins og hæstv. innanríkisráðherra rakti.

Ég nefni öryggismálin í kringum flug og þá hættu sem íbúum höfuðborgarsvæðisins kann að stafa af flugrekstrinum. Það eru skipulagshagsmunir borgarinnar, einkum sá mikli samfélagslegi kostnaður í formi vannýttra innviða og umhverfis- og slysakostnaður sem er fylgifiskur dreifðrar byggðar. En það eru líka sjónarmið um greiðan aðgang landsmanna að höfuðborginni, hagsmuni sjúkraflugs og fleira mætti ugglaust tína til.

Í mínum huga er sérstaklega brýnt að tryggja hagsmuni sjúkraflugsins. En þarf sjúkraflugið á að halda fullkomnum þriggja flugbrauta innanlandsflugvelli? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sjúkrafluginu sé tryggð góð flugbraut í Vatnsmýrinni þó að dregið sé úr umfangi flugvallarins að öðru leyti og þannig komið til móts við sjónarmið borgarinnar um uppbyggingu á svæðinu. Um það á að geta tekist sátt.

Það er því mín tillaga, sem ég hef áður talað fyrir hér í þingsal, að hafin verði vinna við að skipuleggja flugvallarsvæðið þannig að sem best sé komið til móts við ólík sjónarmið. Að þeirri vinnu komi borgaryfirvöld, samgönguyfirvöld, Samtök sveitarfélaga og ýmsir hagsmunaaðilar sem láta sig málið varða, bæði af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Markmiðið á að vera að ná sátt. Hún gæti falist í því að áfram verði flugvallarstarfsemi í Vatnsmýri, flugbrautum verði fækkað og þeim hnikað til og byggðin verði þétt. Fyrsta skrefið í þá átt væri að fresta ákvörðun um skipulag flugvallarsvæðisins um nokkur ár enda verði sá tími nýttur til að finna viðvarandi lausn til frambúðar að teknu tilliti til hinna ólíku hagsmuna. Ég vona að borgaryfirvöld og samgönguyfirvöld taki vel í sáttahugmyndir í þessa veru (Forseti hringir.) því að það er okkur öllum mikilvægt að nálgast þetta viðfangsefni með opnum og lausnamiðuðum huga í stað þess að rífa hvert annað á hol í heiftúðugum deilum.



[16:14]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er sérstakur áhugamaður um flugvelli og sérstakur áhugamaður um borgir. Ef það er eitthvað sem ég hef lært þá er það að þessi tvö fyrirbæri eru með því flóknasta í mannheimi og mörg sjónarmið sem þarf að skoða þegar maður hugsar um borgir og flugvelli. Þess vegna finnst mér leiðinlegt að umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur tilhneigingu til að snúast um hina einu sönnu lausn. Það er gjarnan talað um að finna þurfi sátt en allir virðast sammála um að sú sátt geti bara falist í því að allir sættist á þeirra eigin tillögu. Mín reynsla er að samtal sem fjallar bara um það sem mér finnst er ekki alvörusamtal og ekki líkur á að það leiði til sáttar þó svo að það geti leitt til lausnar.

Reykjavíkurborg hefur skipulagsvaldið eins og hæstv. innanríkisráðherra benti á í góðri ræðu sinni. Það er ekki bara réttur borgarinnar heldur skylda að setja fram aðalskipulag þar sem eru framtíðarlausnir, framtíðarhugsun í skipulagi borgarsvæðisins. Við höfum margoft heyrt það í umræðunni að staðsetning Reykjavíkurflugvallar hafi ýtt á dreifða byggð sem hefur margt neikvætt í för með sér fyrir borgina. Við skulum ekki gleyma því að það búa 20 þús. manns fyrir vestan flugvöllinn og það eru líka Íslendingar. Það er ekki fólk af annarri tegund en fólk sem býr úti á landi. Þetta er sameiginlegt hagsmunamál Reykvíkinga og þeirra sem búa úti á landi, hvort sem þeir eru að fljúga burt eða til borgarinnar.

Ég vildi bara þakka innanríkisráðherra kærlega fyrir góða ræðu og þær góðu fregnir sem hún bar okkur um uppbyggilegt samtal (Gripið fram í.) við borgina og ég vænti góðs af því.



[16:17]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að taka þetta brýna mál upp hér á Alþingi. Spurningin er þessi: Er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni einkamál Reykvíkinga og borgarfulltrúa þeirra? Nei er svarið og mér heyrist að þeir sem talað hafa í þessari umræðu séu sammála um það. Þetta snýr að almannahagsmunum, þetta snýr að öllum landsmönnum.

Í raun er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál hinna dreifðu byggða á landinu. Hvernig sem fer, ef einhverjar flugbrautir verða teknar í burtu, mun það rýra lífsgæði stórs hluta landsmanna. Í raun eigum við ekki að vera að ræða þetta mál hér á Alþingi ef þetta er einkamál Reykvíkinga. En okkur kemur þetta við og þess vegna erum við að ræða þetta og þess vegna tel ég eðlilegast að skipulagsvaldið sé hjá kjörnum fulltrúum allrar þjóðarinnar en ekki kjörnum fulltrúum borgarinnar. Ég held að það sé eðlilegt.

Ég held að flestir séu sammála um að það sé eðlilegast að skipulagsvaldið sé hjá Alþingi hvað snertir Keflavíkurflugvöll, þ.e. að einstakir fulltrúar Reykjanesbæjar geti ekki hlutast til um framtíð landsins sem hann hvílir á. Ég held líka að flestir séu sammála um að þau sveitarfélög sem ná inn fyrir mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum hafi ekki ein eitthvað um það að segja hvernig hlutast verði til um málefni þjóðgarðsins. Til þess höfum við Þingvallanefnd, ekki satt?

Ég mun leggja fram frumvarp þar sem ég legg til að þetta skipulagsvald verði fært til fulltrúa Alþingis. Ég tel eðlilegt að við ræðum það hér í rólegheitum hvar best sé að skipulagsvaldið sé. Ég er sannfærður, (Forseti hringir.) eftir að hafa kynnt mér þetta mál, um að best sé að það sé í höndum kjörinna fulltrúa allra landsmanna. En ég vil taka það fram (Forseti hringir.) að Framsóknarflokkurinn er einarður (Forseti hringir.) í þeirri afstöðu að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni og fyrir því liggja samþykktir flokksins.



[16:19]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka það saman að allir þingmenn og ráðherrar sem ræða málið í þingsalnum í dag virðast vera sammála, það varðar almannahagsmuni. Herra Kristján L. Möller, þm. Samfylkingarinnar, bendir réttilega á að það eru tvö sjúkraflug sem lenda á Reykjavíkurflugvelli á hverjum degi. Frú Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir í ræðu sinni að hún fagni, að málið varði hag allra landsmanna og ég fagna því að hún fagni. Hún segir að almenningur hafi látið til sín taka með undirskriftasöfnun.

Herra Árni Þór Sigurðsson, þm. VG, talar líka um sjúkraflug en hann talar einnig um hættuna hvað varðar borgarbúa. Herra Óttarr Proppé, þm. Bjartrar framtíðar, bendir á að þetta sé sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna og herra Höskuldur Þórhallsson, þm. Framsóknar, segir það snúast um almannahag. Við virðumst því öll vera sammála um að málið varði almannahag. Stefna Pírata er mjög skýr varðandi ákvarðanir almennings, að allir eigi að hafa rétt á að koma að ákvörðunum sem varða þá og þetta mál varðar almannahag. Ég fagna líka frumvarpi herra Höskuldar Þórhallssonar um að færa skipulagsvaldið til að skera úr um málið til Alþingis, það varðar almannahag. Það þarf vandaða og upplýsta umræðu um málið.

Við þekkjum tvær leiðir til þess að fá þjóðina til að koma að slíkri umræðu. Það er annars vegar þjóðfundur, sem hefur reynst mjög vel á síðustu árum, að fá alla þjóðina að málinu sama hvernig hún skiptist eftir efnahag og aldri o.s.frv. Svo er önnur leið og það eru þjóðaratkvæðagreiðslur. Við vitum að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna á sér stað mjög vönduð umræða. Við þekkjum að í upphafi getur orðið ákveðið skítkast, (Forseti hringir.) en við þekkjum einnig að umræðan hefur þróast í að verða vönduð, djúp, yfirgripsmikil og þegar það hefur verið kosið næst þjóðarsátt.



[16:21]
Forseti (Silja Dögg Gunnarsdóttir):

Forseti minnir þingmenn á að ávarpa aðra þingmenn sem háttvirtur og ráðherra sem hæstvirtur. (Gripið fram í.)



[16:22]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við upphaf og lok vinnudags er umferðarteppa á stoðbrautunum frá nágrannasveitarfélögum og úthverfum Reykjavíkur frá austri til vesturs vegna þess að stórir vinnustaðir eru vestar í borginni en íbúabyggðin meiri í austurhlutanum og nágrannasveitarfélögunum. Fram til ársins 2030 er áætlað að íbúum höfuðstaðarins fjölgi um 25 þús. manns og það þurfi 14.500 íbúðir til að hýsa þetta fólk. Það kostar bæði peninga og tíma að ferðast langt í vinnu. Það þarf að þétta byggðina, það er beinlínis kjaraatriði fyrir fólkið hér í kring.

Á kjörbyggingarlandi höfuðborgarinnar er flugvöllur sem með vissu árabili verður uppspretta heiftúðlegra deilna sem reynt er að snúa upp í deilur á milli landsbyggðar og höfuðborgar, jafnvel svo að taka eigi skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg. Það er ekki hættulaust að hafa flugvöll í miðri borg og óhjákvæmilega takmarkar staðsetningin vaxtarmöguleika starfseminnar. Ef umferð um flugvöllinn eykst mun slysahættan aukast og ég furða mig á því að sá þáttur skuli ekki vera meiri í umræðunni. Hægt er að hafa jákvæð áhrif á dreifingu ferðamanna um landið með því að gera þeim kleift að skipta um vél á alþjóðaflugvellinum í Keflavík og ég trúi því að margir íbúar landsbyggðarinnar mundu fagna því að þurfa ekki að hafa viðkomu í höfuðborginni á leið til útlanda.

Hér hefur ýmislegt verið sagt og ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði, að hér er hægt að ná sátt. Hvað varðar öryggi sjúklinga hef ég meiri áhyggjur af því rannsóknarleysi (Forseti hringir.) sem er á hugsanlegum læknamistökum (Forseti hringir.) á spítalanum en á staðsetningu flugvallarins og tel að hægt sé að ná sátt (Forseti hringir.) eða viðunandi niðurstöðu um staðsetningu sjúkraflugs (Forseti hringir.) í nágrenni Reykjavíkur.



[16:25]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi ágreiningur um staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs á landinu hefur verið allt of lengi. Það er löngu tímabært að höggvið verði á þann hnút og reyndar alveg nauðsynlegt allra hluta vegna, ekki síst auðvitað vegna flugstarfsemi en ekki síður vegna þeirra hagsmuna sem Reykjavíkurborg hefur af því hvernig hún skipuleggur framtíð sína varðandi byggingarland.

Það er gott að horfa bara á staðreyndir máls og gera sér grein fyrir því að við erum ekki að fara að byggja nýjan flugvöll á næstu árum eða áratugum. Til þess höfum við ekkert svigrúm. Við erum ekki að fara að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur á næstu árum eða áratugum. Það er ósköp einfalt. Ef við flytjum flugið til Keflavíkur erum við að skerða þjónustuna, um það getur aldrei orðið sátt. Út frá þeim staðreyndum verðum við að vinna, virðulegi forseti. Við verðum að einfalda þetta fyrir okkur og vinna út frá þessu. Borgarfulltrúar jafnt og aðrir verða bara að vinna út frá þeim staðreyndum. Þá leiðir það okkur að því að við þurfum að ná einhverju samkomulagi um að flugvöllurinn verði á næstu árum eða áratugum í Reykjavík og í Vatnsmýrinni. Hann verður ekki annars staðar. Það verður að reyna að laga byggðina að því. Það er mikilvægt að gera í skipulagsmálum innan núverandi svæðis frá Reykjavíkurflugvelli og Reykjavíkurborg hefur vissulega mörg önnur tækifæri til að þétta byggð. Þetta verða menn bara að fara að sætta sig við og horfa á.

Það leysir ekki stöðuna að framlengja þetta um örfá ár. Það leysir ekki stöðuna að fara örfá ár fram í tímann vegna þess að það verður að hefja þá uppbyggingu sem nauðsynleg er á Reykjavíkurflugvelli til að miðstöðin standi undir því að vera miðstöð innanlandsflugs, geti þjónað farþegum og starfsfólki (Forseti hringir.) sómasamlega. Það er góð reynsla margra annarra þjóða af því að hafa flugvöll í borgum. Við getum nefnt Stokkhólm (Forseti hringir.) þar sem teknar voru ákvarðanir um að framlengja leyfi fyrir flugvellinum um 30 ár. Það eru slíkar leiðir sem við þurfum að horfa til, virðulegi forseti.



[16:27]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er í senn mikilvægt og merkilegt hlutverk sveitarfélags að vera höfuðborg. Því fylgja mikil forréttindi og fátt er eins mikil lyftistöng mannlífs og þróunar og að hafa slíkt hlutverk með höndum. Í höfuðborginni okkar er stærsti hluti opinberrar stjórnsýslu, mennta- og menningarstofnanir, þjóðarspítalinn sem og margvísleg önnur sérhæfð þjónusta sem landsmenn þurfa á að halda og vilja sækja.

Umræða og átök um Reykjavíkurflugvöll undanfarna áratugi hafa sýnt að nauðsynlegt er að treysta undirstöður Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands. Til að höfuðborg standi undir nafni þarf hún að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Höfuðborg þarf að vera síkvik og lifandi, íbúar hennar og þeir sem kosnir hafa verið til ábyrgðarverka verða í starfsháttum og skipulagi að taka tillit til þjónustuhlutverks borgarinnar fyrir alla landsmenn. Að sjálfsögðu á höfuðborgin sín réttindi, þar á meðal þau að samráð sé haft við stjórnendur hennar um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnutækifæri, skipulag og yfirbragð.

Afar mikilvægt er að höfuðborg sé í nánum tengslum við alla staði landsins og þangað verða allir íbúar að eiga góðan og greiðan aðgang. Þess vegna geta ráðamenn höfuðborgar ekki tekið einhliða og þröngt ígrundaðar ákvarðanir. Af þessu leiðir að vegasamgöngur, flugsamgöngur og samgöngur á sjó þurfa að vera góðar. Fyrir landsbyggðarfólk snýst flugvallarmálið ekki um það hvort það taki jafn langan tíma að komast úr Vesturbænum í Reykjavík á Kjalarnesið eða að aka úr Grafarholtinu til að komast í innanlandsflug eða umferðaröngþveitið í Reykjavík eða þörfina fyrir nýrri miðborg. Byggðir á Vestfjörðum, Norðurlandi og annars staðar verða áfram og um ókomna tíð verulega háðar góðum og öruggum flugsamgöngum til og frá höfuðborginni. Flugvöllur í Vatnsmýrinni í Reykjavík er spurning um það hvort fólk á landsbyggðinni eigi áfram kost á að njóta þeirrar þjónustu sem það kemst ekki hjá að sækja til höfuðborgarinnar með skjótum og öruggum hætti að því marki sem flugið býður upp á. Höfuðborg getur ekki vísað á dyr þessum skyldum sínum, höfuðborg án vega, flugvalla eða (Forseti hringir.) hafnar rís ekki undir nafni. Ég treysti því að Alþingi og borgarstjórn sjái til þess að við öll, íbúar þessa lands, getum áfram verið stolt af höfuðborginni okkar sem axlar vonandi alla þessa miklu ábyrgð með þarfir allra landsmanna að leiðarljósi.



[16:30]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að hefja þessa umræðu. Við sem búum úti á landi og notum flugvöllinn höfum auðvitað sterkar skoðanir á þessu máli og þekkjum af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa gott aðgengi að höfuðborginni. En ég hef líka fullan skilning á því að Reykjavíkurborg vilji nýta þetta landsvæði í Vatnsmýrinni undir byggð. Að sama skapi vænti ég þess að höfuðborgarbúar geri sér grein fyrir mikilvægi flugvallarins fyrir okkur sem sækjum þjónustu hingað suður, hvaða nafni sem hún kann að nefnast, og jafnvel vinnu.

Ég held að það sé til mikils að finna lausn sem allir geta sætt sig við. Sú leið er ekki að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur eða langt út úr borginni. Ótal lausnir hafa verið nefndar. Sumar miða að því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í einhverri mynd, t.d. með lengingu austur/vesturbrautar út í sjó en að sama skapi styttingu norður/suðurbrautar. Ef við horfum til framtíðar hefur verið talað um að byggja upp flugvöll á Lönguskerjum, jafnvel á Álftanesi. Ég horfi gjarnan á Álftanesið þegar ég flýg heim. Þar finnst mér vera stórt og mikið svæði ónýtt og svo mætti bara vera brú beint yfir.

Ég tel mikilvægt að við skoðum allar lausnir með opnum huga og setjum plan til langs tíma. Mér finnst ekki ásættanlegt fyrir okkur sem treystum á þessa samgönguleið að fá ítrekað fréttir af því að flugvöllurinn sé að fara án þess að nokkur geti svarað því hvert förinni sé heitið.

Ég vona að við finnum lausn sem allir geta sætt sig við. Ég fagna þeim sáttatón sem ég heyri hjá hæstv. innanríkisráðherra.



[16:31]
Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tilheyri þeim stóra hópi Reykvíkinga sem vilja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn styrkir óneitanlega stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins, ekki síst vegna mikilvægis þess að samgöngur séu sem greiðastar við stjórnsýslustofnanir landsins. Þá eru Reykvíkingar svo lánsamir að hafa Landspítala – háskólasjúkrahús í borginni. Viljum við ekki veita öllum Íslendingum sem bestan aðgang að því öryggi sem er að komast á sem stystum tíma á spítala ef neyð knýr dyra?

Flugvöllurinn er í mínum huga líka nauðsynlegur með tilliti til þess að við viljum efla atvinnustarfsemi um land allt, eins og til dæmis ferðaþjónustuna.

Þó að ekki verði byggt í Vatnsmýrinni í fyrirsjáanlegri framtíð verður Vatnsmýrin áfram á sínum stað. Erfitt er að spá hvort þar verður flugvöllur, byggð eða votlendi, ef við viljum endurheimta votlendið, um alla framtíð. En út frá öryggissjónarmiðum sem og stöðu ríkissjóðs er það fráleit hugmynd að ætla að flytja flugvöllinn í Reykjavík í bráð. Ég tel því meiri hluta borgarstjórnar á villigötum í þessu máli.



[16:33]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka bæði hæstv. innanríkisráðherra og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu fyrir hana. Hér hefur auðvitað endurspeglast það sem ég hef áður sagt, skoðanaágreiningur milli manna og innan flokka. Svo er og það er allt í lagi með það.

Ég fagna því sem hæstv. innanríkisráðherra sagði hér um undirskriftasöfnunina, að almenningur hefði sitt að segja. 66 þúsund manns hafa þegar skrifað undir og ég hygg að þeim eigi eftir að fjölga töluvert þegar allt verður komið fyrir 20. september.

Ég vil taka upp hér það sem nokkrir hafa rætt um hvað varðar almannahagsmuni og vitna þar í grein sem hv. þm. Brynjar Níelsson skrifaði nýlega á Facebook-síðuna sína, sem er um skipulagsvald. Þar talar lögmenntaður maður. Ég get tekið dæmi: Eigum við að sætta okkur við það að ef sveitarfélagið sem hefur til dæmis Búrfellsvirkjun mundi taka þá ákvörðun að breyta skipulagi sínu og segja að Búrfellsvirkjun ætti að fara eftir þrjú ár, eða tvö og hálft ár? Nei, það er ekki hægt. Þá þarf einhver annar að grípa inn í og þá er það æðsta lýðræðisstofnun landsins, Alþingi. Ef Mosfellsbær mundi allt í einu segja: Þjóðvegurinn til Reykjavíkur á ekki lengur að liggja í gegnum sveitarfélag okkar, hann verður að fara í burt eftir tvö ár. Nei, það gengur ekki. (Gripið fram í.)

Um stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hún talar um að miðstöðin eigi að vera áfram í Reykjavík: Er það ekki alveg skýrt, virðulegi forseti, að þá erum við að tala um völlinn í Vatnsmýri? Að mínu mati er það svo. Eða er verið með einhverjar hártoganir hér? Er Hólmsheiði í Reykjavík? Að mínu mati er hún það ekki.

Hér hefur verið talað um deilu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það er rétt, það er svoleiðis, en fyrst og fremst sýnist mér þetta vera deila 82% höfuðborgarbúa gagnvart 15 borgarfulltrúum sem sitja í borgarstjórn í dag. Það eru þeir sem hlusta ekki á (Forseti hringir.) hvað meiri hluti Reykvíkinga vill. Mörg okkar á landsbyggðinni sem höfum þá skoðun að völlurinn eigi að vera áfram (Forseti hringir.) í Vatnsmýri erum sammála þessum 82%.



[16:36]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn þakka fyrir þessa ágætu umræðu og ítreka það sem ég hef sagt um málið í umræðunni í dag, að ég tel að hægt sé að ná sátt um það.

Verkefnið er skýrt, það er að reyna að tryggja það, alla vega yfir stóran hluta af þeim tíma sem þetta aðalskipulag nær, að völlurinn verði virkur og hægt sé að nýta hann til fulls. Það er verkefnið og það er mín vegferð og von að það takist í góðri sátt við Reykjavíkurborg. (Gripið fram í.) Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og ég vona og mun auðvitað upplýsa þingheim um það hvenær niðurstaða liggur fyrir í því og að það takist í sem bestri sátt við borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég minni hins vegar aðeins á það, af því að aftur slær hjartað eilítið í borgarfulltrúanum fyrrverandi, að borgarstjórn Reykjavíkur er líkt og Alþingi Íslendinga lýðræðislega kjörin af fólkinu í Reykjavík sem ég held að hafi alveg vitað hvað var verið að kjósa og hverja var verið að kjósa. Það fólk fer með hið lýðræðislega umboð. Ég hef heldur aldrei heyrt borgarfulltrúana í Reykjavík tala þannig, en hér tala menn dálítið eins og borgarfulltrúar vilji völlinn endilega út úr Reykjavík. Það hefur ekkert verið afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur heldur hefur það verið afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur að ekki sé óeðlilegt að sveitarfélagið sé reiðubúið að skoða aðra staðsetningu í Reykjavík en bara þessa einu. Reykjavíkurborg hefur aldrei talað hátt og skýrt fyrir því að innanlandsflugvöllur skuli vera annars staðar. Reykjavíkurborg hefur alveg verið reiðubúin að axla sitt höfuðborgarhlutverk en hefur óskað eftir því að fá að skoða aðrar staðsetningar. Ég kannast ekki við þá umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur að það sé vilji fyrir því að innanlandsvöllurinn fari úr Reykjavík heldur að möguleiki sé á að hann verði annars staðar.

Ég ítreka það sem ég hef oft sagt í þessu máli: Ég er mjög sáttfús í því. Ég held að það sé hægt að ná góðri sátt við borgarstjórn Reykjavíkur, alveg sama hvort það er núna eða eftir næstu kosningar. Ég held að borgarstjórn Reykjavíkur sé hópur af skynsömu fólki eins og hér er líka þannig að ég treysti því og vona að við náum sameiginlegri niðurstöðu sem tekur auðvitað mið af því sem menn hafa nefnt hér, hagsmunum allra landsmanna.