142. löggjafarþing — 26. fundur.
um fundarstjórn.

ávarpsorð í þingsal.

[16:38]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég stíg í pontu til þess að lesa aðeins upp úr bókinni Háttvirtur þingmaður þar sem segir um ávarpsorð og upplestur, með leyfi forseta:

„Það er föst þingvenja að alþingismenn eru ávarpaðir á þingfundum „háttvirtur þingmaður“ … og hafa forsetar jafnan gert athugasemdir ef út af er brugðið“ eins og athugasemdin sem var gerð við mig rétt áðan.

Við þetta vil ég gera athugasemd. Ég vil að við sýnum hvert öðru virðingu sem þingmenn og ráðherrar og ég mun ávarpa alla þingmenn eins og ég ávarpa forseta Alþingis sem er herra, frú eða jafnvel fröken. Tökum okkur ekki sjálfkrafa virðingartitil sem þjóðinni finnst ekki að við eigum skilið.



[16:39]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni sem talaði um að við yrðum að vinna okkur inn virðingu. Þegar hins vegar á samkundu eins og þessari hafa viðgengist í áratuganna rás ákveðnar hefðir og venjur er líka spurning hvort eigi að breyta þeim af einstökum þingmönnum eða hvort þingmenn eigi að vera sammála um að hefðum og venjum verði breytt.



[16:40]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, grunngildin eru góð. Þau eru þau að tryggja að við séum kurteis við hvert annað, að við þar af leiðandi notum ávarpið herra eða frú eða fröken. Háttvirtur, hæstvirtur — við höfum ekki unnið fyrir því. Þjóðin segir að við höfum ekki unnið fyrir því. Við ættum því kannski að taka þetta upp eins og frú Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir. (Gripið fram í: Er hún frú?) Það er góð spurning. Er hún frú? spyr hún. Ég þarf að tékka á þessu. En þetta er gott, við þurfum að taka þetta upp.



[16:40]
Forseti (Silja Dögg Gunnarsdóttir):

Forseti bendir á að það er föst þingvenja með stoð í 66. gr. þingskapa að þingmenn ávarpi hver annan sem háttvirta og ráðherra sem hæstvirta. Beinir forseti þeim orðum til allra þingmanna að virða þá venju og hafa hana í heiðri.