142. löggjafarþing — 27. fundur.
Hagstofa Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 14. mál (upplýsingar um fjárhagsmálefni). — Þskj. 14, nál. 107 og 109, brtt. 108.

[16:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Herra forseti. Það væri auðvitað mjög æskilegt að ég fengi aftur fullan ræðutíma þannig að ég gæti haldið samfellu í málflutningi mínum en það er víst til of mikils mælst.

Ég var að fjalla aðeins um að það skipti máli að greina til hvers menn ætluðu að nota upplýsingarnar sem menn hyggjast láta Hagstofuna safna í tengslum við skuldavanda heimilanna. Eru menn þar að tala um húsnæðisskuldir eða almennar skuldir? Eru menn að tala um veðskuldir vegna húsnæðisöflunar sem stofna rétt til greiðslu vaxtabóta? Ef það er andlagið, t.d. í áformum stjórnarflokkanna um lækkun höfuðstóls húsnæðislána, er vandinn ekki mikill. Þá höfum við bestu fáanlegu upplýsingar um það mál frá þeim aðila sem safnar þeim reglulega saman og verður að gera eðli málsins samkvæmt vegna þess að á grundvelli skattframtala og samkeyrslu við fjármálastofnanir sem skattinum er nú heimil höfum við árlega aðgang að þeim upplýsingum og þær eru notaðar við álagninguna og útgreiðslu vaxtabóta.

Ef menn eru hins vegar að fjalla um skuldavanda heimilanna í víðara samhengi skil ég að menn telji meira þurfa til. Vandamálið er kunnugt og við stríddum við þetta á síðasta kjörtímabili. Ég minnist ársins 2010 þegar mikil umræða og vinna var lögð í skuldamál heimilanna í aðdraganda þess að samkomulag náðist við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði um 110%-leiðina svonefndu. Á haustmánuðunum var unnin mikil upplýsingavinna en það var djúpt á þeim upplýsingum á köflum, m.a. frá Íbúðalánasjóði. Eftir atvikum vorum við seint á árinu þannig að maður kannast vel við þetta vandamál. Sú hugmynd er gömul að Hagstofan verði þá tækið sem safni þessum upplýsingum, að hún fái þær frá öðrum aðilum.

Um leið er ljóst að vandasamt er að fela slíkri stofnun, sem er ætlað í grunninn annað hlutverk, hagsýslugerð, söfnun hagrænna upplýsinga, verkefni af þessu tagi. Það er nærtækt að minnast þess hvernig Hagstofan sjálf brást við þegar henni var ætlað hlutverk í sambandi við álagningu veiðigjalda. Þá var Hagstofan á því að það væri utan við hennar verksvið, að hún væri að nota upplýsingar úr sínum gagnagrunni eða vinna með öðrum aðilum eins og Fiskistofu með þau gögn og bar því meira að segja við að það yrði brot á evrópskum stöðlum. Nú veit ég ekki hvort það hefur komið upp í tengslum við þetta mál. Er Hagstofan í einhverri annarri stöðu hér en hún hefði þá orðið miðað við það hlutverk sem henni var ætlað í sambandi við álagningu veiðigjalda? Spyr sá sem ekki veit, ég hef ekkert heyrt um það.

Þó að ég gangist vissulega við því að þessi hugmynd um Hagstofuna hafi verið uppi á fyrri árum, Hagstofunni voru meira að segja lagðir til fjármunir til að hún gæti unnið betri gagnagrunna, bæði um fjármál heimila og fyrirtækja, áskil ég mér engu að síður rétt til að ræða opið hvernig þessu verður best fyrir komið bæði til skemmri og lengri tíma. Erum við kannski að sækja vatnið yfir lækinn með því að notast ekki einfaldlega við gögn skattsins?

Væri hægt að bæta úr þeirri gagnasöfnun með því að fjölga reitum í forskráða framtalinu? Væri þar hægt að afla samþykkis einhvers hluta framteljenda við því að þeirra gögn mætti nota í greiningarvinnu í sambandi við þróun skuldamála heimilanna? Ef andlagið er húsnæðisskuldir sem stofna rétt til vaxtabóta er þetta ekkert vandamál. Þá liggja þær algerlega fyrir í gögnum skattsins. Það mætti jafnvel hugsa sér að strax á fyrri hluta ársins mætti á grundvelli forskráðu upplýsinganna færa sig framar í tíma og strax í febrúarlok eða mars hefðum við aðgang að þeim gögnum í greiningarvinnu af þessu tagi. Mér finnst þessum spurningum ekki öllum hafa verið svarað nægjanlega í tengslum við svo stórt og afdrifaríkt mál eins og hér er undir því að við verðum að horfast í augu við að við erum að reka okkur þarna á mjög viðkvæma hluti samanber afstöðu Persónuverndar og umsagnir hér um.

Til lengri tíma litið held ég að við þurfum að eignast aftur eða eignast einhvers konar einingu sem ég hef í huganum kallað ráðgjafar- og greiningarstöð húsnæðismála í landinu. Á vissan hátt áttum við það á fyrri tíð meðan Húsnæðisstofnun ríkisins var og hét, blessuð sé minning hennar, því að í raun fór hún með húsnæðismálin, bæði almenna hlutann og þann félagslega, Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Þar var tæknideild og þar var fagdeild sem gat greint talsvert upplýsingar og var notuð sem slík. Þetta var allt lagt niður eins og kunnugt er og hin miðlæga þekking sem þarna var glataðist þar með. Markaðurinn hefur sjálfsagt átt að leysa þetta eins og allt annað, ekki satt? Og það tókst svona snilldarlega — eða hitt þó heldur.

Auðvitað þyrfti maður klukkutíma til að ræða hér sorgarsögu Íslands í húsnæðismálum og hvernig í ósköpunum við, þó þetta vel gefin þjóð að sögn, höfum getað klúðrað þessu svona hressilega. Því að það höfum við gert. Hér ræddu menn aðeins um einkaeignarstefnuna, í sérstakri umræðu sem ég gerði hlé á máli mínu fyrir, og þar nefndu margir réttilega að ógæfa okkar væri auðvitað sú glórulausa séreignarstefna sem hér hefur verið keyrð fram á pólitískum forsendum. Fólki sem alls ekki hefur greiðslugetu til er ætlað að rembast við það á lífsævi sinni að eignast og afskrifa húsnæði. Þetta er hvergi svona, jafnvel ekki í löndum þar sem lífskjör eru talsvert betri en á Íslandi. Þá horfast menn í augu við að það þarf fjölbreytt úrræði sem henta aðstæðum fólks og auðvitað verður að vera til almennilegur leigumarkaður.

Mér finnst fínt að Samfylkingin leggur fram þetta þingmál núna. Hún hefur farið með þessi mál í sex ár samfellt að undanförnu og það stendur henni nærri að beita sér nú fyrir því að átak verði gert í þessum efnum.

Ég hefði sem sagt gjarnan viljað að það væri skoðað betur hvort við erum endilega á réttri leið þegar hingað er komið. Það er komið árið 2013. Það er ljóst að sem betur fer er skuldavandinn hjá heimilunum að réna. Það munar um minna en það að neikvæð staða í húsnæðislánum hefur helmingast á undangengnum tveimur, þremur árum eftir að þetta fór að lagast. Þar með er ekki sagt að vandinn sé ekki ærinn og mikill til staðar hjá mörgum en hann er það víðar. Hann er hjá leigjendum og vandi heimilanna stafar ekki síður af öðrum skuldum en skuldum vegna öflunar húsnæðis. Það sýna allar greiningar, því miður. Ég veit ekki hvort er að vænta tillagna um úrræði í þeim efnum.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi finnst mér þetta líka svolítið vandræðalegt mál orðið fyrir þingið, að við skulum ekki ná saman um lagfæringar eftir atvikum á þessu frumvarpi eða einhverja aðra úrlausn sem við teljum fullnægjandi. Það er ekki djúpstæður ágreiningur um að við viljum gera hvort tveggja, hafa aðgang að greinargóðum upplýsingum og einhver tæki til að fylgjast með þróun mála en um leið halda í heiðri nauðsynlega persónuvernd og ekki ganga á skjön við stjórnarskrána í þeim efnum. Það væri alveg einnar messu virði, finnst mér, að setjast betur yfir þetta mál. Þess vegna tel ég að tilboð minni hlutans hafi verið mjög gott, að heita því að halda þessari vinnu áfram í samstarfi og reyna að klára þetta til dæmis í októbermánuði og vita hvort við næðum ekki saman um málin.

Það kann að vísu að vera mönnum mikið metnaðarmál að fá þetta frumvarp samþykkt. Hæstv. forsætisráðherra er yfirmaður Hagstofunnar og flytur þetta mál, er það ekki þar með? Þetta er liður í hinum miklu kosningaáherslum Framsóknarflokksins, en það er hvort sem er búið að slátra þessu talsvert með breytingartillögum meiri hlutans. Kannski er það bara orðinn bitamunur en ekki fjár fyrir forsætisráðherrann hvort þær sem slíkar verða teknar hér í gegn eða þetta unnið betur. Hann á ekki orðið mikið í frumvarpinu, hæstv. ráðherrann, flytjandinn, eins og nefndin er búin að fara um það höndum. Það er vel, það á að hrósa nefndum þegar þær fara rækilega í gegnum mál og bæta þau ef við trúum því að verið sé að gera það. Það sýnist mér vera reynt hér af góðum vilja af hálfu meiri hluta nefndarinnar, en spurningin er hvort það er nóg og hvort ekki sé hægt að gera betur.

Menn segja núna að við ætlum að hafa þetta úrræði í gangi tímabundið og afmarka það. Gott og vel, en hvað svo? Á þá bara ekkert að gera aftur? Förum við þá bara í gamla farið, að stjórnvöld séu ekkert að fylgjast með þróuninni o.s.frv.? Ég er ekki viss um að það sé gott. Mér hefði fundist miklu betra ef við hefðum getað séð til lengri framtíðar hvernig við ætlum að skipa þessu og hafa eitthvert tæki og upplýsingar í okkar höndum sem við teljum fullnægjandi. Ég endurtek þá hugmynd að menn velti fyrir sér að einhvers konar eining verði til til frambúðar, einhvers konar greiningar- og ráðgjafarstöð um húsnæðismál eða skuldamál heimilanna. Ég gæti til dæmis séð fyrir mér að eitthvað af því tagi tæki við af embætti umboðsmanns skuldara, sem við þurfum vonandi ekki að reka, a.m.k. ekki í óbreyttri mynd, um aldur og ævi, einhver eining sem væntanlega ætti heima undir velferðarráðuneytinu og væri tæki stjórnvalda í þessum efnum.

Varðandi Íbúðalánasjóð væri þá til dæmis dálítið önnur staða uppi hvað varðar vistun hans, aðkomu og hlutverk, þ.e. ef menn hefðu ákveðið að taka á þessum málum með einhverjum slíkum hætti.

Við Íslendingar verðum einhvern veginn að setja okkur það takmark að ná betri tökum á þessum málaflokki. Það er ómögulegt að hugsa sér framtíðina þannig að þetta verði bara viðvarandi vandræði á okkur. Þetta kostar svo mikið, það hefur svo ofsaleg áhrif á lífskjörin í landinu og aðstæður fjölskyldna ef þessum málum er ekki nógu vel skipað. Þetta er á margan hátt eitt það allra mikilvægasta til að menn geti lifað sómasamlegu lífi, búið við sæmilegt öryggi og að það séu ekki einhverjar ægilegar girðingar á veginum úr foreldrahúsum út í fyrstu búsetu eða þegar menn þurfa að stækka við sig vegna stækkandi fjölskyldu, svo maður tali ekki um hvernig gaddavírsgirðingarnar hafa rist í gegnum íslenskt samfélag aftur og aftur vegna aðstöðumunar kynslóðanna fyrir og eftir verðtryggingu, fyrir og eftir misgengi eða núna fyrir og eftir hrun eða hvað það nú er. Sagan er vörðuð af þessu hjá okkur.

Skást var þetta, held ég, á meðan Húsnæðisstofnun ríkisins var við lýði og meðan Byggingarsjóður verkamanna var raunverulegt félagslegt úrræði og menn horfðust í augu við að það þurfti stuðning við tekjulægstu fjölskyldurnar til að komast í sómasamlegt húsnæði. Hann var að vísu sambland af leiguúrræðum og sjálfseignarstefnu. Það var farvegur fyrir menn að eignast líka sitt eigið húsnæði í því kerfi, en það var horfst í augu við að það yrði að gera með stuðningi við þá sem vildu þá leið, ættu svo kauprétt o.s.frv.

Virðulegur forseti. Þar sem ég sé að tíma mínum er að ljúka ætla ég bara að endurtaka þá hugmynd að menn leyfi þessu máli aðeins að þroskast. Ég held að það farist ekki himinn og jörð, ég sé ekki að það breyti eiginlega neinu um þau áform stjórnvalda, stjórnarflokkanna um heimsmetið í sambandi við skuldaaðgerðir í þágu heimila miðað við þá tímalínu sem nú hefur verið upplýst að sé í gangi í þeim efnum. Ég held ekki að endilega þurfi að hugsa þetta mál í því samhengi. Andlagið hlýtur að vera skuldirnar, lánin eins og þau standa og það liggur nokkuð vel fyrir hver þau eru. Það verða ekki þannig stökkbreytingar á þeim í sjálfu sér á milli ára að menn þurfi að setja þetta í gang þess vegna, enda yrðu menn þá að bíða. Ef menn segja að þetta sé nauðsynleg (Forseti hringir.) forsenda aðgerðanna yrðu þær samt alltaf að bíða eftir því að þetta færi í gang, upplýsinganna yrði aflað og að Hagstofan ynni úr þeim. Það er væntanlega ekki verið að tala um það.



[16:47]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Hagstofuna og opinbera hagsýslugerð með síðari breytingum. Verið er að leita heimildar með breytingum á lögunum til þess að Hagstofan geti aflað tölfræðilegra upplýsinga um skuldir heimila og fyrirtækja. Markmiðið með þessu frumvarpi, eins og því er lýst eða við höfum skilið, er að undirbyggja aðgerðir stjórnvalda í þágu skuldsettra heimila sem voru boðaðar sérstaklega í aðdraganda kosninganna í vor. Eins og hér hefur komið fram lýsti forsætisráðherra því í ræðu sinni nú fyrr í vikunni að fyrir dyrum væri heimsmet í aðgerðum í þá veru.

Nú held ég að okkur sem höfum verið að störfum á þingi undanfarin ár sé það alveg ljóst að vandi íslenskra heimila og íslensks efnahags- og atvinnulífs er mikill eftir efnahagshrunið 2008. Að sjálfsögðu hefur verið gripið til margháttaðra aðgerða til að glíma við afleiðingar hrunsins, koma til móts við heimili, koma til móts við atvinnulífið til þess að koma hjólum samfélagsins í gang á nýjan leik. Sumt hefur tekist ágætlega, annað miður og ég held að við getum öll verið sammála um að margt er ógert enn þá í þeim efnum. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að menn boði frekari aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í samfélaginu.

Þá geta menn velt fyrir sér: Er þá nokkuð að vanbúnaði að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir eða eru menn ekki hlynntir markmiðinu í sjálfu sér? Þeirri spurningu er kannski ekki alveg auðsvarað, það getur verið nokkuð flókið. Það hefur komið fram í umræðunni og kemur fram í gögnum málsins, m.a. í nefndarálitum, að frumvarpið eins og það var lagt fram upphaflega hafi í raun ekki verið tækt og nefndin hafi þurft að gera á því mjög miklar breytingar. Það eitt og sér er til merkis um að ekki sé hlaupið að því að samþykkja frumvarpið sisvona af því að tilgangurinn sé góður eða jákvæður. Það breytir ekki því að vanda þarf lagasetninguna í landinu og gæta að mörgum álitamálum sem upp hafa komið við meðferð málsins og í umræðunni og hafa mörg hver verið rakin hér.

Ég er dálítið upptekinn af því sem fjallað er um nokkuð ítarlega í nefndaráliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í málinu, um stjórnarskrána og samræmi þessa máls við hana. Í minnihlutaálitinu er umsögn Persónuverndar um þetta mál reifuð. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu.“

Síðar í nefndarálitinu kemur einnig fram að Persónuvernd hafi veitt aðra umsögn á síðari stigum þar sem fjallað er um breytingartillögur meiri hlutans og þar telur stofnunin enn skorta á rökstuðning fyrir nauðsyn umræddrar upplýsingasöfnunar sem af ákvæðum frumvarpsins er ljóst að er mjög víðtæk og þar segir, með leyfi forseta:

„Þá er til þess að líta að samkvæmt orðum fulltrúa sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og kosti og galla leiðréttingarsjóðs, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar hinn 2. september 2013, ættu upplýsingar um útlán á skattframtölum að nægja hópnum við gerð tillagna um aðgerðir í þágu skuldugra heimila. Fyrrgreind umsögn Persónuverndar, dags. 25. júní 2013, byggist m.a. á því að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við og áréttar því fyrri umsögn hvað það varðar.“

Ég minnist þess í aðdraganda kosninganna í vor að þetta ætti ekkert að verða mjög flókið mál. Því var lýst yfir, ef ég man rétt, með þeim orðum að það yrðu engar nefndir, engir starfshópar, aðgerðir strax. Þá var enginn að tala um að fara þyrfti í flókið ferli við að afla Hagstofunni heimilda til þess að safna persónuupplýsingum til að vinna með tölfræðilega, sem síðan ætti að vinna úr og tæki tíma. Hér var upplýst í umræðunni í gær að það gæti orðið með vorinu sem þeirri vinnu lyki. Þetta er ekki það sem var lagt fyrir kjósendur og landsmenn í aðdraganda síðustu kosninga.

Hér kemur sem sagt fram í umsögn Persónuverndar að hún telji enn þá forsendu eiga við sem hún setti fram við málið upphaflega, að það sé óljóst hvers vegna þessi upplýsingaöflun öll sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins, og byggir það m.a. á ummælum fulltrúa í sérfræðingahópi ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Þeir telja þessar upplýsingar ekki nauðsynlegar. Af hverju er þá verið að hraða þessu máli svona þegar augljóslega eru ágallar á því eins og það liggur fyrir? Það er mjög erfitt að skilja.

Sömuleiðis er mjög erfitt að skilja það þegar Persónuvernd segir að málið, eins og það er búið, fari í bága við 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hvernig bregst meiri hlutinn við því? Ég fæ ekki betur séð en að hann bregðist við því í aðalatriðum með því að setja tímatakmörkun á gildi ákvæðisins, fjögur ár. Meiri hlutinn er þá í raun að segja að hann taki undir þessar athugasemdir Persónuverndar að því leyti til að lögin megi ekki gilda um alla eilífð en þau megi gilda í fjögur ár. Ég skil ekki hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu og hvers lags lögfræði það er. Mér dettur nú bara í hug að horfa á hv. þm. Brynjar Níelsson sem situr hér úti í sal: Hvers lags lögfræði er þetta? Er þetta í lagi? Má brjóta mannréttindi ef gildistími mannréttindabrotsins er bara fjögur ár en ekki ef hann er fjögur ár og einn dagur? Þessi röksemdafærsla, herra forseti, gengur ekki upp. Menn verða að færa sterkari rök fyrir máli sínu eða gera breytingar á málinu þannig að sett verði undir þann augljósa leka sem er í því hvað þetta varðar.

Í áliti meiri hlutans er mikið fjallað um almannahagsmuni og það séu ríkir almannahagsmunir sem hér séu undir og þess vegna megi víkja ákvæðunum um friðhelgi einkalífsins til hliðar. Hafa menn fært rök fyrir því að þeir almannahagsmunir séu svo ríkir? Hverjir meta þá almannahagsmuni andspænis því hverjir taka síðan ákvarðanir í málinu? Virðulegur forseti, ég held að það sé augljóst og bersýnilegt að þetta mál þurfi miklu meiri yfirlegu. Það er ekki vegna þess að menn séu andsnúnir því að þannig sé búið í haginn að hægt sé að grípa til ráðstafana í þágu skuldsettra heimila. Það var holur hljómur í því þegar menn sögðu í vor að það ætti strax að grípa til ráðstafana. Svo var það ekki hægt. Nú á sumarþingi er komið með frumvarp sem á að gera þessar aðgerðir mögulegar með því að safna persónuupplýsingum af hálfu Hagstofunnar. Síðan kemur í ljós að Hagstofan þarf tíma og vinnur úr þessum gögnum eftir á þannig að þeirri úrvinnslu gæti lokið með vorinu. Bíddu, er það þá þannig að líka eigi að bíða með aðgerðirnar í þágu heimilanna? Er verið er að segja þingi og þjóð í umræðunni hér og nú að það eigi að bíða með aðgerðir í þágu skuldsettra heimila a.m.k. fram á vor? Forsætisráðherra sagði hér í vikunni að tillögur sérfræðingahópsins lægju fyrir í nóvember. Sérfræðingahópurinn verður þá ekkert búinn að fá þessi gögn unnin frá Hagstofunni jafnvel þó að þetta frumvarp yrði samþykkt á morgun eða eftir helgi. Það er ekki þannig.

Hér rekst því hvað á annars horn. Það er ekki hægt að segja: Við þurfum að fá þetta frumvarp í gegn núna til þess að unnt verði að vinna tillögur í þágu skuldsettra heimila — þegar ljóst er að þessar upplýsingar verða ekki tilbúnar fyrr en í vor, og segja svo í hinu orðinu að tillögurnar eigi að koma í nóvember. Nú getur vel verið að tillögurnar komi í nóvember en þá er bersýnilega ekkert hægt að gera í málinu fyrr en þessar upplýsingar hafa verið unnar, sem verður í vor. Hafi menn skoðað starfsáætlun Alþingis fyrir næsta þing er ljóst að þingi lýkur óvenju snemma vegna sveitarstjórnarkosninga, um miðjan maí eða svo. Ég spái því að ekkert verði búið að afgreiða áður en næsta þingi lýkur. Þá er kannski komið haustið 2014 og farið að styttast í að kjörtímabilið verði hálfnað, a.m.k. þegar því þingi lýkur vorið 2015. Þetta er ekki alveg það sem almenningur í landinu átti von á, held ég, þegar hann kaus Framsóknarflokkinn.

Ég vil líka gera hér að umræðuefni það sem meðal annars er fjallað um í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem er meðalhófið. Þar er aðeins fjallað um það og sagt, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið samþykkt bendir minni hlutinn á að ef látið yrði reyna á stjórnskipulegt gildi laganna muni stjórnvöld þurfa að sýna fram á að markmið frumvarpsins lúti að brýnum almannahagsmunum og enn fremur að ekki hafi verið unnt að beita vægari úrræðum en víðtækri söfnun persónuupplýsinga um alla íslenska borgara sem eiga í viðskiptum við fjármálafyrirtæki og lánastofnanir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvarpinu, …“

Þetta er grundvallarregla í íslenskri stjórnskipun, þ.e. meðalhófsreglan, að stjórnvöld eigi ávallt að beita vægustu úrræðum sem unnt er til þess að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt. Í þessari umræðu hefur verið bent á að hugsanlega væri hægt að taka ákveðið úrtak. Það væri hugsanlegt að nýta upplýsingar sem nú þegar liggja fyrir í skattframtölum og ríkisskattstjóri hefur með höndum. Það væri hugsanlegt að byggja inn í grunn með ríkisskattstjóra möguleikann á því að menn gætu með jákvæðum hætti veitt heimild til að upplýsingar þeirra væru nýttar í þessum tölfræðilega tilgangi án þess að það gilti almennt.

Ég fæ ekki betur séð en að þessu hafi öllu verið hafnað af hálfu meiri hluta nefndarinnar þrátt fyrir að ég hafi heyrt þá sem eiga sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd tala hér um að það hafi verið góður andi, gott vinnulag í nefndinni og menn hafi náð vel saman og ekkert sé upp á það að klaga nema síður sé. Samt sem áður hefur á einhverjum tímapunkti brotið á og stjórnarmeirihlutinn ekki verið reiðubúinn til þess að vinna málið eins vel og minni hlutinn óskaði eftir.

Þetta með meðalhófið, mér sýnist ekki sýnt fram á það. Í nefndaráliti meiri hlutans er að vísu komið inn á það og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegur forseti, að ég skil ekki það sem meiri hlutinn segir í nefndaráliti sínu. Til dæmis ofarlega á bls. 5, þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallaði einnig um þann möguleika að kveða á um að einstaklingar og lögaðilar geti undanskilið sig þessari tímabundnu heimild þar sem það gæti einnig skekkt niðurstöður þegar litið er til einstakra hópa. Notkun heildargagna tryggir öryggi niðurstaðna og gerir kleift að birta ítarlegar niðurstöður.“

Ég skil ekki þessa setningu, virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hún hefur ekki farið í prófarkalestur en mér er alveg ómögulegt að skilja hvað meiri hlutinn á við með því sem þarna stendur. Það er því bersýnilegt að víða er pottur brotinn í málflutningi meiri hlutans í málinu.

Eins og hér hefur oft komið fram í þessari umræðu þá lyktar málið dálítið af því að vera orðið eitthvert kappsmál, eitthvert voðalegt kappsmál flutningsmanns, hæstv. forsætisráðherra, sem á eins og einnig var bent á kannski ekki lengur mikið eftir í þessu frumvarpi, en engu að síður sé það honum mikið kappsmál að ná þessu máli fram til að geta sýnt fram á að verið sé að vinna eftir þingsályktuninni, tíu punkta plagginu. Það er ekki nægileg efnisleg ástæða til þess að víkja til hliðar mikilvægum sjónarmiðum eins og um persónuvernd, um stjórnarskrána, mannréttindasáttmála Evrópu, meðalhóf, góða stjórnsýsluhætti og vandaða lagasetningu. Það dugar ekki til þess. Hæstv. forsætisráðherra verður að brjóta odd af oflæti sínu, að mínu viti, og fallast á að þetta mál er enn vanbúið til afgreiðslu á hv. Alþingi. Það þarf að vinna það betur. Það kemur fram hjá fulltrúum minni hlutans í nefndinni að þeir hafi einmitt lagt á það áherslu að þeir væru reiðubúnir til þess að vinna að góðri lausn á málinu sem sem víðtækust samstaða og sátt gæti tekist um, gera á því nauðsynlegar breytingar og/eða eftir atvikum flytja nýtt þingmál þar sem markmið þessa frumvarps væru tryggð.

Það er sérstaklega bent á það í niðurlagi í minnihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar að uppi séu sterkar efasemdir um að frumvarpið standist stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasáttmála, eins og ég hef nú þegar rakið, og þess er krafist að málið fái vandaðri undirbúning og jafnframt bent á að rökstuðningur fyrir nauðsyn á þeirri víðfeðmu upplýsingasöfnun sem frumvarpið felur í sér sé mjög gloppóttur. Þetta er meðal annars undirbyggt af viðhorfum Persónuverndar. Persónuvernd er ekki hvaða stofnun sem er. Hún er ekki stofnun sem hefur einhverja persónulega hagsmuni í málinu, það er ekki þannig. Það er ekki verið að safna upplýsingum um Persónuvernd, stofnunina sem slíka. Hún hefur enga hagsmuni í því aðra en þá að fylgja eftir lögmætum skyldum sínum, þ.e. að gæta að því að réttindi borgaranna séu vernduð eins og lög mæla fyrir um, stjórnarskrá, alþjóðlegir mannréttindasáttmálar o.fl. Persónuvernd gerir verulega alvarlegar athugasemdir við þetta mál. Það er algjörlega óskiljanlegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skuli ekki taka þær athugasemdir alvarlega, taka þær til sín og hugsa: Halló, þetta þurfum við skoða betur.

Við getum ekki farið í gegnum þingið með þingmál sem fer svona í bága við viðhorf og röksemdir Persónuverndar.

Mér er, eins og ég sagði, algjörlega fyrirmunað að skilja af hverju nefndin skoðar málið einfaldlega ekki betur. Auðvitað á hún að geta það og ætti væntanlega að geta það í góðri sátt við minni hlutann sem hefur í málflutningi sínum og í nefndaráliti sínu lagt áherslu á og telur skynsamlegast að nefndin taki málið aftur upp á haustþingi með þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umræðunni að leiðarljósi og í umsögnum. Minni hlutinn lýsir miklum vonbrigðum með það að meiri hlutinn nýti ekki þá samstöðu sem að öðru leyti náðist í vinnu nefndarinnar um meginmarkmið frumvarpsins til þess að ná sátt um útfærsluna.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vildi aðeins árétta þau mikilvægu sjónarmið sem ég tel að séu enn í fullu gildi í þessu máli og að meiri hlutanum og ríkisstjórn sé í lófa lagið að sýna að hún meinar eitthvað með orðum á tyllidögum um góða samvinnu og gott samráð og að hún vilji vanda til verka í lagasetningu. (Forseti hringir.) Ég hvet eindregið til þess að menn brjóti odd af oflæti sínu og snúi af villu síns vegar.



[17:07]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Persónuvernd er sú stofnun sem falið er eftirlit með brotum á ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi einkalífsins. Hún hefur varað okkur þingmenn við því að samþykkja þetta frumvarp.

Það á ekki að vera þægilegt að spila með stjórnarskrána, taka áhættu með hana, gambla með réttindi landsmanna. Þegar við þingmenn greiðum atkvæði um möguleg stjórnarskrárbrot, er það þá ekki lágmark að við gerum það í heyranda hljóði? Þegar þingmenn spila, ef við getum sagt sem svo, rússneska rúllettu með réttindi landsmanna skulu landsmenn alla vega fá að heyra rödd þeirra þingmanna sem ætla að taka í gikkinn.

Við píratar munum því fara fram á að atkvæðagreiðslur í þessu máli fari með nafnakalli.



[17:09]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég finn mig knúna til þess að koma og taka þátt í 2. umr. þótt ég hafi ekki komið og fjallað um málið við 1. umr. fyrr í sumar. Það er náttúrlega búið að vera hér inni í þinginu og mikil fyrirstaða var við að afgreiða málið fyrr í sumar, ekki eingöngu úr liði minni hlutans heldur einnig úr stjórnarþingflokkunum. Mér finnst leiðinlegt eftir allan þann tíma sem þetta mál hefur verið hér til umfjöllunar að ekki hafi verið hægt að ganga lengra með það að mæta kröfum minni hlutans, kröfum sem eru lagðar fram ekki út frá pólitískum dyntum heldur út frá áhyggjum Persónuverndar varðandi persónuvernd og mannréttindi.

Fram kemur í áliti minni hlutans að nefndarmenn störfuðu af fullum heilindum með meiri hlutanum að því að endurbæta frumvarpið en telja alls ekki nógu langt gengið og telja jafnframt að hægt sé að ná sátt um annað frumvarp um svipað efni og leggja fram á haustþingi.

Það sem mér finnst setja málið í einkennilegra ljós, af því að hér erum við að tala um frumvarp sem kann að ógna ákvæðum stjórnarskrár, er af hverju þurfi að fara með það í gegn núna. Mér finnst óeðlilegt að setja þingmenn í þá stöðu. Þetta á að greiða fyrir úrlausn skuldavandans. Við erum að heimila gríðarlega söfnun fjármálalegra persónulegra upplýsinga til að greiða fyrir úrvinnslu á skuldavandanum, en við höfum engar upplýsingar um með hvaða hætti sú vinna á að fara fram. Það liggur ekki fyrir hvaða lán eru undir. Talað hefur verið um forsendubrest, leiðréttingar, afnám verðtryggingar. Þetta ræddum við allt hér í sumar. Ég átti samræður við hæstv. menntamálaráðherra en hann gat ekki gefið skýr svör um hvort Lánasjóður íslenskra námsmanna félli undir hið heimssögulega plan Framsóknarflokksins, hann gat ekki svarað því. En við ætlum svona til vonar og vara að gefa Hagstofunni tækifæri til þess að afla upplýsinga um stöðu fólks sem er með lán hjá sjóðnum. Af hverju, ef ekki liggur fyrir hvert hið stóra heimssögulega plan er?

Ég vil áður en hægt er að ljúka málinu í þinginu segja að eðlilegt sé að við fáum skýrari upplýsingar sem sé þá hægt að leggja fram í nefndinni og taka til umræðu í þingsal um hvers konar aðgerðum við eigum von á. Það að ógna persónuverndar- og mannréttindakafla stjórnarskrárinnar til að afla upplýsinga um aðgerðir sem enginn veit hvernig eiga að líta út finnst mér of langt gengið.

Varðandi stóra skuldavandamálið, heimssögulega prógrammið frá Framsóknarflokknum, þá samþykkti þingið, meiri hluti þingsins, heilmikla áætlun í þeim efnum sem fól í sér fyrst og fremst nefndastarf og nefndir sem áttu að skila tillögum á mismunandi tímum. (Gripið fram í: Það var líka heimssögulegt.) Heimssögulegt.

Það var mjög erfitt að festa hendur nákvæmlega á hvað þær nefndir áttu að gera. Það var frekar óljóst og gefur ekki tilefni til svo ítarlegrar upplýsingasöfnunar fyrir fram sem þetta frumvarp boðar.

Síðan kemur fram þegar maður les gögn málsins að upplýsingar samkvæmt þessu munu ekki liggja fyrir áður en starfshópar forsætisráðherra og fleiri ráðherra ljúka störfum, þannig að þeir virðast þá vera að skila upplýsingum um vanda sem þeir þekkja ekki umfangið á. Þessi upplýsingaöflun mun ekki styðja þau störf með neinum hætti.

Herra forseti. Mér finnst í raun óviðunandi að við séum með þetta mál á dagskrá varðandi þessi íþyngjandi ákvæði án þess að vita til hvers það er. Það er stórum spurningum ósvarað þannig að ég geri ráð fyrir að það fari — eða ég mun a.m.k. beita mér fyrir því og ég hygg að minni hlutinn hafi íhugað það, að málið fari til nefndar á milli umræðna og þar fáist svör við því hvernig Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skilgreina forsendubrest, hvernig þeir skilgreina leiðréttingu og segja okkur þá að það séu örugglega öll verðtryggð lán undir í heimssöguplaninu. Ég hef leitað eftir svörum við því, enda algjörlega forkastanlegt ef einhverjum dettur í hug að leiðrétta sum verðtryggð lán og ekki önnur, en hef ekki fengið skýr svör frá menntamálaráðherra, ég á það í einhverri fréttaklippu að hv. formaður fjárlaganefndar taldi þau lán ekki undir enda kannski ekki talið mikils virði af núverandi ríkisstjórn að fólk fjárfesti í menntun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri. Ég vil bara segja að ég tel fráleitt að málið komist til 3. umr. nema fyrir liggi af hverju hæstv. ríkisstjórn telur sig þurfa að sveigja ákvæði stjórnarskrár sem lúta að persónuvernd og mannréttindum.



[17:18]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Nú höfum við rætt þetta frumvarp á Alþingi og nær einvörðungu hin svokallaða stjórnarandstaða, sem ætti auðvitað síst af öllu að vera stjórnarandstaða í þessu máli. Mér þykir stundum svolítið leiðinlegt þegar ég hef einhverja skoðun og tjái þá skoðun þegar viðmælandinn fer einfaldlega og útskýrir ekki fyrir mér hvers vegna ég hafi rangt fyrir mér.

Hér hefur enginn stigið upp í pontu og útskýrt fyrir okkur hv. þingmönnum sem erum á móti frumvarpinu hvers vegna, af góðum og gildum ástæðum, við höfum rangt fyrir okkur. Það ætti að vera hægt. Það ætti kannski ekki endilega að vera mjög auðvelt en það ætti að vera mögulegt. Það er ekki eins og stjórnina vanti þingmenn, 38 stykki ættu að duga.

Talandi um krísur, þá verða alltaf einhverjar krísur sem réttlæta einhvers konar brot á friðhelgi einkalífsins, takmarkanir á tjáningarfrelsi o.s.frv. Það er krísa á leigumarkaðinum. Ekki ætlum við að halda áfram að hafa auðlegðarskatt til að laga það ástand. Það er algjör krísa í heilbrigðismálum. Ætlum við að brjóta mannréttindi til að laga það? Ég heyri engar slíkar hugmyndir. Það er krísa í löggæslumálum. Lögreglumenn fá skammarlega lág laun, vinnuálagið er fáránlegt og virðing fyrir þeim á meðal almennings því miður allt of lítil. Það er efni í lengri umræðu hvers vegna nákvæmlega það er, en allt byggist það á því að löggæslumál eru í molum eins og næstum því allt á Íslandi í dag sökum annarrar krísu sem við eigum við að stríða sem eru fjármál ríkisins.

Við tölum alltaf um þessa köku sem á að skipta og ég velti fyrir mér hvort hún verði hérna eftir einn eða tvo eða þrjá áratugi. Þá spyr ég: Hvaða mannréttindi ætlum við að skerða þá ef við ætlum að leyfa okkur að skerða þessi núna? Og aftur ítreka ég: Hvað með fíkniefnavandann? Fíkniefnavandinn er mjög alvarlegt vandamál og þótt við píratar séum með sérstaka stefnu í því máli sem miðar ekki að hinu hefðbundna dópstríði verða menn að spyrja: Má ganga svona langt til að bjarga fólki frá gjaldþroti? Athugið að hér á ekki að bjarga fólki frá einhverjum hræðilegum sjúkdómum, ekki frá dauða, ekki einu sinni frelsismissi heldur frá eignamissi, fasteignamissi, þegar fólk fer á hausinn. Svo er það búið eftir tvö eða fimm eða sjö ár eða hvernig svo sem löggjöfin er á hverjum tíma.

Eru það mannréttindi að fara ekki á hausinn? Fyrirgefið, en einhver þarf að spyrja. Eru það mannréttindi að fara aldrei á hausinn? Eru það mannréttindi að hafa aðgang að skynsamlegum lánum? Er það virkilega? Það er svolítið það sem hér er verið að segja, óhjákvæmilega. Hvað með friðhelgi einkalífsins? Svarið við því er já. Friðhelgi einkalífsins eru mannréttindi. Það eru réttindi sem við fáum fyrir það eitt að vera til. Við þurfum ekki að vinna okkur inn þann rétt, okkur er ekki leyft að hafa hann, yfirvöld geta ekki tekið hann burt, þau geta bara brotið á honum.

En ég velti fyrir mér hvað gerist þegar það verður annað hrun. Það kemur annað hrun vegna þess að við höfum ekki lagað það sem olli hruninu, en það er önnur umræða. Það mun verða annað hrun. Þá velti ég fyrir mér hvernig fólk sjái þetta fyrir sér þegar það lítur til fortíðarinnar: Hversu langt þurftum við að ganga seinast í stað þess að vera aðeins vakandi, geta tekið mark á viðvörunarorðum til tilbreytingar og kannski tekið þátt í umræðunni. Hér hefur ekki átt sér stað umræða milli þeirra sem styðja frumvarpið og þeirra sem eru á móti því. Það hefði verið hægt frá upphafi. Fólk getur alveg sakað okkur um málþóf ef það vill, en þetta var ekkert málþóf. Það komu fram skýrir punktar. Það hafa komið fram nýir punktar í hverri ræðu sem sá sem hér stendur hefur flutt. Í hvert einasta sinn býð ég upp á andsvar, þetta ferli býður upp á andsvar. Einn eða tveir eða þrír eða allir 38 meðlimir stjórnarmeirihlutans ríkisstjórnarinnar hefðu getað setið hér, hlustað, velt þessu fyrir sér og sagt: Ég er ósammála, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Þeir hefðu getað komið hingað og útskýrt fyrir mér hvers vegna. Ég hefði verið mjög þakklátur fyrir það og ég er mjög þakklátur þeim sem þó hafa komið upp í pontu hvort sem var í andsvari eða til að fara með aðalatriðin.

Nú fer frumvarpið aftur fyrir nefnd, hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ætli við verðum ekki að gera það litla sem við virðumst geta gert til þess að bæta þetta mál eitthvað, vonandi með því að finna leið til að tryggja samþykki þeirra sem við hyggjumst núna brjóta á.



[17:22]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem þó hefur verið, eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, ögn einhliða. Hér hafa þeir talað fyrst og fremst sem hafa haft efasemdir um þetta frumvarp sem hér er rætt en minna hefur farið fyrir innblásnum sannfæringarræðum þeirra sem standa með málinu. Það er áhyggjuefni vegna þess að við erum ekki á hefðbundnum lendum í umræðunni heldur erum við á gráu svæði gagnvart stjórnarskrá Íslands. Það er því eins og hér hefur margoft komið fram ekki neitt sem við afgreiðum með léttúð eða bara af því að við höfum ekki tíma eða bara af því að við nennum því ekki eða bara af því að okkur finnst svo mikilvægt að ríkisstjórnin fái að klára sín mál. Það er ekki boðlegt þegar svona stór grundvallaratriði eru undir að afstaðan sé tekin á grundvelli slíkra sjónarmiða.

Það er, virðulegur forseti, ekkert minna en hlægilegt þegar hér hafa verið haldnar ræður undir ýmsum liðum í dag, núna síðast um húsnæðismál, og það jaðraði við að hæstv. ráðherra væri klökkur í ræðustól að kalla eftir samráði, samstöðu, samtali, samvinnu og ég veit ekki hverju. Þetta átti allt að verða svo stórkostlegt af því að við ætluðum að tala svo mikið saman. Við ætluðum að komast að niðurstöðu af því að við ætluðum að tala svo mikið saman.

Svo þegar kemur að raunverulegum vilja til þess að leiða mál til lykta í sátt er enginn áhugi á slíkum vinnubrögðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er froða og þetta eru orðin tóm. Það er nefnilega við svona tækifæri eins og akkúrat núna sem reynir á hvort innstæða er fyrir því að kalla sig samvinnumenn, að kalla sig samvinnustjórnmálafólk eða hvað það er sem passar eða hentar í ræðum hv. þingmanna og ráðherra hverju sinni.

Það sem blasir við núna, virðulegi forseti, er að 2. umr. lýkur og málið verður kallað til nefndar samkvæmt ósk okkar í minni hlutanum. Þá kemur í ljós hvort þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð hafi náð eyrum hv. þingmanna sem skipa meiri hluta stjórnarflokkanna. Eða er það svo að menn ætli að halda sýndarfundi til þess eins að drífa málið síðan í atkvæðagreiðslu í næstu viku og klára það sem lög frá Alþingi? Eða hafa menn til þess þrótt og kjark og jafnvel sjálfstæða sýn til að segja sem svo: Þegar við erum með viðfangsefni þar sem persónuverndarsjónarmiðum, mannréttindaákvæðum er ógnað þurfum við að staldra við.

Og hverju er verið að safna? Við erum að veita heimildir til að safna gríðarlegu magni upplýsinga fyrir óskilgreint verkefni. Upplýsingarnar þarf ekki fyrir tillögurnar í nóvember en hugsanlega fyrir einhverjar aðrar tillögur einhvern tíma seinna. Á fundum nefndarinnar kom fram og hefur komið fram í máli þeirra fáu sem hafa talað fyrir hönd stjórnarmeirihlutans að það er bara gott að vera með svona mikið af gögnum, það er frábært að vera með svona mikið af gögnum af því að okkur gæti dottið eitthvað í hug. Við gætum kallað það, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson nefndi: Erum við ekki alltaf að gera eitthvað fyrir heimilin? Erum við ekki alltaf að gera eitthvað fyrir heimilin hérna í þinginu?

Jú, við erum alltaf að gera eitthvað fyrir heimilin. Við getum skilgreint nákvæmlega hvað sem er sem almannahagsmuni, ríka almannahagsmuni, með þau gleraugu á nefinu. Er þá stjórnarskráin hvað þetta varðar einskis virði? Eru það skilaboðin? Persónuvernd hefur ítrekað, ekki bara í september heldur líka í júní, sagt nei, frumvarpið brýtur gegn stjórnarskrá. Og hvað gerum við? Hvað eigum við þá að gera, virðulegur forseti? Hvað gera þá hinir vösku ungu þingmenn stjórnarflokkanna? Yppta öxlum. Þeir yppta öxlum gagnvart broti á stjórnarskrá. Það er það sem þeir gera. Mannréttindaákvæði, hvað er það? Persónuvernd, hvað er það?

Við erum nefnilega hér komin saman til þess að ná pólitískum markmiðum sem er hægt að skilgreina hvernig sem er, á hvaða tíma sem er. Það er eiginlega niðurstaðan eftir daginn í dag. Það hefur enginn fókus eða brennipunktur orðið skýrari í dag með þessari umræðu. Spurningunum fjölgar, efinn vex.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ræddi áðan skilgreiningar flokkanna á hugtökum eins og forsendubresti og leiðréttingum. Hvað stendur til? Hvar eru eldræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins fyrir höfuðstólslækkun verðtryggðra lána? Hér koma þingmenn, hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Brynjar Níelsson og segja: Ja, það væri nú gott að skoða ýmislegt annað, af hverju er ekki verið að skoða leigumarkaðinn og af hverju er ekki verið að skoða þetta og hitt? Bíðum við, hv. þingmenn eru í ríkisstjórn sem hefur ákveðið að skoða ekki annað, sem hefur ákveðið tilteknar aðgerðir. Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki með í þessari ríkisstjórn? Út á hvað gengur þetta samkomulag eiginlega? Út á hvað gengur samningurinn sem er samstarfssamningur ríkisstjórnarflokkanna? Heimsmetin, veraldarmetin eða hvað þetta er nú kallað, sem hvarflar að manni að hljóti að toppa allt sem hefur gerst merkilegt í vetrarbrautinni eins og hæstv. forsætisráðherra talar. (Gripið fram í: Vetrarbrautarmet.) Já, þetta er orðið brautarmet. Það er svo yfirgengilegt og gengur svo gjörsamlega út yfir allt sem maður hefur séð í íslenskum stjórnmálum að ég verð að segja að maður er hugsi yfir erfiðri stöðu sjálfstæðismanna. Sem betur fer gutlar á einum og einum þeirra sem koma hér upp og efast. Þeir gera það á hófsaman hátt, þeir segja: Er hægt að gera hvað sem er til að ná pólitískum markmiðum? Þeir draga fram þær efasemdir.

Hvað gera þeir svo? Þeir fara inn í allsherjar- og menntamálanefnd, klára málið, mæta í þingsal, greiða atkvæði með málinu með sínum manni, með sínu liði, algjörlega óháð efnislegu innihaldi máls, af því að svoleiðis vinnur maður þegar maður er í ríkisstjórn eða hvað, virðulegur forseti?

Það þarf nefnilega kjark til þess að vanda undirbúning og það þarf kjark til þess líka að vera þingmaður. Og það þarf kjark til þess að efast um þann matseðil sem manni er réttur úr Stjórnarráðinu sem kemur fyrir að er með réttum sem eru ekki efst á vinsældalistanum.

Ég vonast auðvitað til þess að félagar mínir í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sjái það sem kemur svo skýrt fram í nefndaráliti minni hluta að það er raunverulegur vilji til að ná saman um málið. Við munum gera tillögu, raunverulega tillögu sem þarf að taka afstöðu til, um að við tökum höndum saman um að nálgast þau markmið sem lagt er upp með.

Ég hef enn þá ekki fengið neina skýringu á því af hverju menn vilja ekki ná sátt um þetta mál. Af hverju vilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ekki ná sátt, samstöðu, eindrægni um málið þegar viljinn er fyrir hendi? Af hverju ekki? Því hefur ekki enn þá verið svarað. En ég vænti þess að málið fái að minnsta kosti umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. og í þinginu og að við náum að snúa bökum saman fyrir þingræðið og þetta mikilvæga mál. Ekki fyrir ríkisstjórnarflokkana eða fyrir okkur sjálf sem einstaklinga, heldur fyrir Ísland.