142. löggjafarþing — 27. fundur.
Hagstofa Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 14. mál (upplýsingar um fjárhagsmálefni). — Þskj. 14, nál. 107 og 109, brtt. 108.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:58]

[17:35]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að þakka fyrir gagnlega umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, með síðari breytingum.

Mig langar að koma inn á tvö atriði sem komið hafa fram í umræðunum og byggja á einhvers konar misskilningi. Í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar kom fram að skilgreining á því hvaða upplýsinga er þörf hafi komið frá sérfræðingahópi forsætisráðherra. Þarna er einhver misskilningur á ferðinni því að Hagstofa Íslands hefur unnið að undirbúningi verkefnisins frá því að Alþingi fól stofnuninni verkefnið með fjárlögum 2012. Það voru því starfsmenn Hagstofunnar sem skilgreindu breyturnar sem þarf að skoða, þ.e. afmörkuðu verkefnin og upplýsingarnar til að vinna tölfræðiskýrslur. Grundvallaratriði varðandi tölfræðiskýrslur og störf Hagstofunnar (Forseti hringir.) er að þær verði ekki notaðar til stjórnvaldsákvarðana gagnvart einstaklingum eða lögaðilum.

Ég tek undir það að frumvarpinu verði vísað til nefndar á milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) ef það verður til þess að skýra málið frekar.



[17:37]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum til atkvæða eftir 2. umr. um hagstofumálið stóra en í þessu máli vegast á miklir og stórir hagsmunir. Á síðasta kjörtímabili höfum við öll fundið fyrir því, sama úr hvaða flokki við komum og sama hvort við höfum verið á þingi eða ekki, að það hefur skort á upplýsingar til þess að geta kortlagt greiðsluvanda heimilanna og það hefur gert stjórnvöldum erfitt að taka ákvarðanir um lausnir sem skila árangri. Þess vegna var farið af stað með þetta mál í tíð eldri ríkisstjórnar sem setti í þetta fjármagn og gerði ráð fyrir því að ekki þyrfti lagabreytingu til.

Það kom hins vegar á daginn að það þurfti og hér þurfum við, þingmenn þjóðarinnar, að vega og meta hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja af því að trúnaður ríki um fjárhagsupplýsingar þeirra á móti hagsmunum okkar og (Forseti hringir.) þjóðarinnar allrar af því að geta tekið ákvarðanir um lausnir til handa heimilum og fyrirtækjum á traustum grundvelli.



[17:38]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við göngum til atkvæða eftir 2. umr. um mál sem hér hefur verið til umræðu í dag. Ég vil segja það við lok umræðunnar að hér er farið á svig við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Hér er verið að ógna persónuverndarsjónarmiðum og mannréttindaákvæðum til að safna gríðarlegu magni af gögnum án þess að fyrir liggi nægilega skýrt til hvers á að nýta þau. Það er verið að veita heimildir fyrir verkefni sem er ekki nægilega skilgreint. Hagsmunamatið, þ.e. hvort almannahagsmunirnir eru nægilega ríkir til þess að gengið sé svo langt, er í okkar höndum og þar þurfum við að vanda okkur.

Ég vænti þess auðvitað að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki málið til gaumgæfilegrar skoðunar og að þar verði samviska þingmanna líka undir.



[17:39]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins við 2. umr. og treysti því að það fari til nefndar á milli umræðna og að þá fái hv. allsherjar- og menntamálanefnd skilgreiningu á því verkefni sem fram undan er í heimssögulega prógramminu þannig að við vitum hvaða upplýsingar þarf til að geta farið út í þær víðtæku aðgerðir sem boðaðar eru. Ég get ekki samþykkt að ríkisvaldinu verði gefnar heimildir til ítarlegrar öflunar miðlægra fjárhagsupplýsinga um einstaklinga nema tilgangur verkefnisins liggi ljós fyrir.



[17:40]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hyggst greiða atkvæði með breytingartillögunum vegna þess að þær eru óneitanlega agnarögn til bóta, þ.e. fyrir lagatæknileg atriði. Hvílík skelfing sem það væri að fá upprunalegu útgáfuna í lög, ekki að það sé miklu skárra að fá breyttu útgáfuna vegna þess að ekki hefur verið tekið á meginatriðunum, nefnilega friðhelgi einkalífsins og meðalhófi. Þetta frumvarp stenst ekki meðalhóf, það eru til vægari aðgerðir, a.m.k. hugsanlega. Við höfum ekki rætt þær ítarlega. Það þýðir að þetta stenst ekki meðalhóf. Við þurfum bara meiri tíma. Það hefði verið hægt að gera þetta í sátt, það hefði verið gaman að fá meiri umfjöllun frá fulltrúum stjórnarinnar um þetta mál.

Svo mun ég að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn frumvarpinu og því að það fari til 3. umr.



[17:41]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er hryggilegt hvað þingmenn stjórnarflokkanna hafa algjörlega hunsað þessar umræður. Örfáir hafa setið hér og tekið þátt í samræðum. Við þingmenn Pírata vonuðumst til þess að þetta þing yrði kannski aðeins öðruvísi. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson lagði mjög mikið á sig til þess að geta átt í samræðu við þingmenn meiri hlutans og ég verð að segja að þetta er ákveðið veruleikasjokk fyrir þingmanninn út af virðingarleysinu sem aðrir þingmenn sýndu honum og öðrum í nefndinni sem fjölluðu hér um mjög mikilvægt mál.

Síðan verður spennandi að sjá hvort við eignumst hinn íslenska Stasi-flokk núna — það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunum — því að mér þætti ákaflega merkilegt ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að greiða atkvæði með jafnmiklum inngripum í friðhelgi einkalífsins og þetta frumvarp ber með sér.



[17:43]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stóra undrið sem ekki hefur verið upplýst í umræðu um þetta mál er í hvað á að nota allar upplýsingarnar. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir að niðurstöðu sé að vænta í nóvembermánuði en gögnin sem þetta mál tekur til eiga ekki að verða tilbúin fyrr en í mars eða apríl. Forsætisráðherra hefur nú bætt um betur í að kynna hið mikla veraldarsögulega undur sem skuldaleiðréttingar hans eiga að verða og hann hefur sagst vita hvað þær kosti upp á hár. Þær eru undir 300 milljörðum og þá spyr maður: Fyrst vitað er hver kostnaðurinn er, er þá ekki líka vitað hverjir eiga réttinn?

Allt þetta sullumbull er með þeim hætti að stjórnarmeirihlutinn verður að bera ábyrgð á þessu máli sjálfur. Við munum ekki standa í vegi fyrir því, en þær viðvaranir sem settar hafa verið fram um stjórnskipulega þætti þessa máls eru þannig að ég ráðlegg stjórnarmeirihlutanum að hugsa mjög sinn gang.



[17:44]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mig langar að gefnu tilefni að taka fram að mjög gott samstarf hefur verið í allsherjar- og menntamálanefnd um þetta mál. Um það hafa vitnað, ég held að ég fari rétt með, allir þeir fulltrúar úr nefndinni sem tekið hafa til máls. Það er rétt að halda því til haga. Menn hafa litið til sjónarmiða hver annars en mig langar að fjalla í örstuttu máli um þá fullyrðingu að hér sé verið að brjóta stjórnarskrá og í því efni er vísað til umsagnar Persónuverndar.

Í umsögn Persónuverndar kemur fram að hún telji að við höfum með breytingartillögum okkar í nefndinni komið til móts við þau sjónarmið er varða markmið og afmörkun þessa verkefnis. Síðan er vísað til þess að það skorti enn á rökstuðning um nauðsyn umræddrar upplýsingasöfnunar. Auðvitað er rétt að slíkur rökstuðningur kemur ekki fram í breytingartillögunum vegna þess að rökstuðningur okkar í nefndinni kemur fram í nefndaráliti okkar. Að sjálfsögðu hefur Persónuvernd hvorki fjallað um það nefndarálit né gefið álit sitt á því. Ég bið hv. þingmenn að kynna sér sjónarmiðin sem birtast (Forseti hringir.) í nefndaráliti okkar vegna þess að þar er rökstuðningurinn. Það nefndarálit er ítarlegt en það er okkar hér að meta hagsmunina, (Forseti hringir.) þ.e. hvort við teljum rétt að samþykkja þetta frumvarp. Ég tel að svo sé.



[17:45]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það skringilega við þetta mál og það sem hefur birst í umræðum í nefndinni, þó að málið hafi tekið breytingum til batnaðar þar, er að markmið þess eru svo óljós. Ég hef enn ekki áttað mig á því út frá þeim umræðum sem hér hafa verið hvaða markmiðum eigi nákvæmlega að ná og hvernig nákvæmlega þetta frumvarp á að ná þeim.

Hitt sem ég vil nefna er að hv. þingmenn hljóta að taka það mjög alvarlega þegar stofnun á borð við Persónuvernd mælir gegn frumvarpi á borð við þetta. Það er einn af þeim lærdómum sem okkur var ætlað að draga af skýrslu þingmannanefndar á sínum tíma og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þ.e. að það væri mjög mikilvægt að þingheimur og löggjafarvaldið litu til þess þegar slíkar stofnanir settu álit fram. Þó að Persónuvernd hafi sent frá sér það álit að frumvarpið hafi tekið breytingum til batnaðar telur hún enn (Forseti hringir.) að þessi forsenda hafi ekki breyst og leggst því gegn málinu. Á það tel ég að þingheimur eigi að hlusta.



[17:47]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er sterkur þráður í mér sem borgara í þessu landi að bregðast bara við þessu frumvarpi þannig að það kemur engum öðrum við en mér hvernig fjárhagsstaða mín er. Ef það á að brjóta bankaleynd, persónuvernd og stjórnarskrárákvæði til að afla miðlægt upplýsinga um fjármál allra borgara á Íslandi þarf tilgangurinn að vera mjög skýr og afmarkaður. Hér er hann það ekki, þetta er afskaplega óljós tilgangur og í öllu falli mjög umdeilanleg pólitísk markmið sem búa að baki. Hér er í raun leitast við að uppfylla kosningaloforð og til þess á að brjóta ákvæði í stjórnarskrá og virða persónuverndarsjónarmið að vettugi. Þetta er mjög varhugaverð braut sem við erum á (Forseti hringir.) og við erum á móti þessu.



[17:48]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Persónuvernd segir ekki að þetta muni endilega brjóta stjórnarskrána en hún varar við að það gæti gert það. Ef það er möguleiki á því að við séum að brjóta stjórnarskrána með lögum á Alþingi eigum við að láta stjórnarskrána njóta vafans og friðhelgi einkalífsins sem við höfum öll svarið eið til að verja. Eins og ég nefndi í dag legg ég til að þegar gengið verður endanlega til atkvæðagreiðslu um þetta eftir 3. umr. skulum við gera það með nafnakalli þannig að kjósendur og landsmenn fái að heyra hverjir eru tilbúnir að spila rússneska rúllettu með réttindi landsmanna.



[17:49]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hér er tekin upp efnisleg umræða um það sem fáir voru til að ræða hér fyrir stuttu, en vegna þess að sérstaklega er rætt um Persónuvernd er mikilvægt að halda því til haga að umsögn Persónuverndar í júní er áréttuð í september og þar segir, með leyfi forseta, að fyrrgreind umsögn byggist meðal annars á því „að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins“.

Þannig er það og þetta er umsögn sem við eigum að láta okkur varða og sem við eigum að láta verða okkur leiðarljós í því hvaða afstöðu við tökum í þessu mikilvæga máli. Við í þingflokki Vinstri grænna greiðum atkvæði gegn því.



[17:50]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að þingmenn greinir á í þessu máli. Það er ekkert ólíkt öðrum málum sem okkur greinir á um. En þá er engu að síður algjörlega óásættanlegur sá málflutningur sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hafði uppi, að líkja þeim sem hugsanlega ætla að styðja þetta frumvarp, eins og þeir telja að hægt sé að afla upplýsinga til þess síðan að koma til móts við þau heimili í landinu sem illa eru stödd, við nýjan Stasi-flokk.

Hæstv. forseti. Þetta er þingmaðurinn sem daglega talar um að við eigum að sýna hvert öðru virðingu og að við eigum að tala okkur saman í málum. Þetta er ekki málflutningur til þess.



[17:51]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég biðst velvirðingar ef þetta hefur farið vitlaust ofan í fólk en þetta eru mjög sambærilegar aðgerðir og Stasi stóð fyrir og NSA. Þetta eru sambærilegar aðgerðir. Við erum að greiða fyrir því að hægt sé að fá aðgengi að persónuupplýsingum Íslendinga sem er óþarfi. Það er óþarfi að fara þessa leið. Það hafa komið fram tillögur að öðrum leiðum. Þetta frumvarp er ónýtt.

Ég vil jafnframt segja að ég var ekki að vísa til nefndarstarfsins. Ég veit að þar hefur farið fram mjög góð vinna. Ég er aftur á móti að segja að nánast enginn hefur verið í þingsalnum til að ræða þetta mál við þá sem hafa áhyggjur af því. Það er dónalegt.



[17:52]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hnaut í orðræðunni um það að menn höfðu áhyggjur af því að hér væri verið að aflétta bankaleynd. Mig langar að minna þingmenn á að fyrir hrun voru ýmsir aðilar, jafnvel á Alþingi, sem höfðu áhyggjur af stöðu mála, að hér gæti jafnvel orðið hrun. Þá var vísað í orðið bankaleynd. Það var ekki hægt að afla þessara upplýsinga og svo fór sem fór, ekki satt?

Allt síðasta kjörtímabil skeggræddum við hér nánast á hverjum einasta degi um það hver væri raunveruleg skuldastaða heimilanna í landinu. Nú er verið að auka heimildir Hagstofunnar. Hún hefur þær að hluta til en þær koma seint og illa.

Að sjálfsögðu vill enginn brjóta mannréttindaákvæði í stjórnarskránni og menn reyna af fremsta megni að tryggja að svo verði ekki en þessar upplýsingar eru að sjálfsögðu nauðsynlegar til að við fáum raunverulega stöðu og getum farið í það að leiðrétta skuldir heimilanna. Ég held að formaður Samfylkingarinnar ætti að koma hér upp og svara því hvort hann sé ekki bara (Forseti hringir.) reiðubúinn að aðstoða okkur (ÁPÁ: Jú.) í að koma til móts við skuldug heimili í staðinn fyrir að finna því alltaf allt til foráttu. (Forseti hringir.)



[17:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum hv. þingmönnum fyrir að vera mættir í þingsal til þess að tala, að því er virðist, efnislega um frumvarpið. Við erum búin að tala um þessi mál. Það var hérna meira en gott tækifæri til að ræða þau í pontu efnislega en núna þurfum við að gera það hér. Hér var tækifæri til að laga þetta vandamál.

Hvað varðar þessa Stasi-aðdróttun ætla ég ekki að taka undir hana, bara svo það sé á hreinu, nema að því leyti að hérna er til staðar freistnivandi. Ef við segjum já við þessu, hvenær segjum við nei? Seðlabankinn, með fullri virðingu fyrir þeirri mjög mikilvægu stofnun, var meðal annars kominn með plan um hvernig hægt er að nota þessi gögn til eftirlits af því að það væri ofboðslega mikilvægt. Og það væri það og það mundi laga fullt af vandamálum ef við einfaldlega notuðum þessi gögn til eftirlits hjá ríkislögreglustjóra og hvar sem er. Þetta kom fram í efnislegu umræðunni sem varð hér.



[17:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég best veit, af því að ég hef nokkuð fylgst með þessum umræðum, verður þetta sem hv. þingmaður nefndi áðan ekki leyfilegt, sem betur fer. Ég vil bara taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, ég vil að þingmenn segi eins og er ef þeir virkilega trúa því að við séum að koma einhverju Stasi-fyrirkomulagi af stað. Stasi var leyniþjónusta í alþýðulýðveldi Þýskalands og það var fyrirkomulag þar sem börn voru látin njósna um foreldra sína, nágrannar hver um annan. Þetta voru stórfelld mannréttindabrot með öllu tilheyrandi. (Gripið fram í.)

Og ef við ætlum að nota — veistu, mér er ekki hlátur í huga, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að nota þessar samlíkingar er allt leyfilegt í þessum þingsal og það er sannarlega ekki liður í því, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að tala af virðingu við hvert annað, svo mikið er víst.



Brtt. 108,1 (1.–4. og 6. gr. falli brott) samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  LínS,  PVB,  PJP,  PHB,  RR,  RM,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS.
15 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjG,  BP,  GStein,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  OH,  ÓP,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
14 þm. (ÁÞS,  ÁsF,  GuðbH,  HBK,  HHj,  IllG,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  REÁ,  SDG,  SIJ,  ÞórE,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:56]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp til þess að undirstrika að starfið í nefndinni var mjög gott. Þar var unnið af heilindum og menn lögðu sig alla fram við að reyna að finna lausn á þessu máli, en við teljum í minni hlutanum að við séum ekki búin að ná góðri lausn. Það hefði verið hægt að ná betri lausn og vægari úrræðum í þessum málum.

Ég saknaði þess að ekki skyldu koma fleiri hérna upp til þess að ræða þessi mál þegar það var hægt, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokknum því að þar er nú mörg mannvitsbrekkan þegar kemur að persónufrelsi og eignarréttarákvæðum og öðru. Reyndar kom Brynjar upp, þar fer mjög vitur maður og hv. þm. Pétur Blöndal. En ég hefði viljað fá að heyra fleiri tjá sig um málið því að hér eru margir mjög góðir og lögfróðir menn sem hefðu getað lagt sitt af mörkum við að reyna að leysa þetta mál. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Hv. þm. Brynjar Níelsson kom sem varamaður inn í nefndina og það var virkilega gott. Hann er einlægur maður og fór ekki í launkofa með hvað hann hefur mikinn — já, ég ætla ekki að segja meira, ég ætla ekki að búa eitthvað til. (Gripið fram í.) En hann kom með spurningu til Persónuverndar: Hvar endar þetta? (Forseti hringir.) Það er stóra spurningin. (Gripið fram í.)(Gripið fram í: Heyr, heyr.)



 5. gr. (verður 1. gr.) samþ. með 29 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  LínS,  PJP,  PHB,  RR,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS.
17 þm. (BirgJ,  BjG,  BP,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjÓ,  GuðbH,  HBK,  HHj,  IllG,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  REÁ,  SDG,  SIJ,  ÞórE,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:59]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um það ákvæði sem er einmitt ætlað að tryggja að upplýsingarnar sem hér mun verða heimilt að fara með til Hagstofunnar, að óheimilt verði að afhenda þær öðrum stjórnvöldum. Ég tel því að allur þingheimur hljóti að geta verið sammála um að hér sé ákvæði sem sameinar okkur öll í þessu máli. Ekki satt?



Brtt. 108,2.a (ný grein, verður 2. gr.) samþ. með 30 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  LínS,  PJP,  PHB,  RR,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS.
17 þm. (BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
16 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  GuðbH,  HBK,  HHj,  IllG,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  REÁ,  SDG,  SIJ,  ÞórE,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[18:00]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um ákvæði sem varðar þagnarskyldu og er ætlað að tryggja það að þeir starfsmenn Hagstofunnar sem fá þessi gögn til meðferðar séu bundnir ströngum skilyrðum varðandi þagnarskyldu og vísað er til 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki í því sambandi. Ég segi já.



Brtt. 108,2.b. (ný grein, verður 3. gr.) samþ. með 29:8 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  LínS,  PJP,  PHB,  RR,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS.
nei:  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  GStein,  KJak,  ÓP,  SJS,  SSv.
10 þm. (BP,  HHG,  JÞÓ,  KLM,  OH,  PVB,  RM,  SII,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
16 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  GuðbH,  HBK,  HHj,  IllG,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  REÁ,  SDG,  SIJ,  ÞórE,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[18:01]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um bráðabirgðaákvæðið sjálft sem allt málið í raun og veru snýst um. Hér birtast okkur markmiðin með þessari lagasetningu og umgjörðin og þau skilyrði sem við höfum verið að reyna að smíða í allsherjar- og menntamálanefnd til að koma til móts við þær athugasemdir sem okkur hafa birst í meðförum nefndarinnar. Ég segi já.



 7. gr. (verður 4. gr.) samþ. með 29:8 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  LínS,  PJP,  PHB,  RR,  SigrM,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS.
nei:  BirgJ,  BjG,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  SJS,  SSv.
9 þm. (BjÓ,  BP,  KLM,  OH,  PVB,  RM,  SII,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  GuðbH,  HBK,  HHj,  IllG,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  ÓP,  REÁ,  SDG,  SIJ,  ÞórE,  ÖJ) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til allsh.- og menntmn.