143. löggjafarþing — 10. fundur.
Neytendastofa og talsmaður neytenda, 1. umræða.
stjfrv., 94. mál (talsmaður neytenda o.fl.). — Þskj. 94.

[16:15]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, með síðari breytingum. Það frumvarp sem hér um ræðir er liður í endurskipulagningu neytendamála sem byggir meðal annars á tillögum starfshóps sem falið var að fara yfir skipan neytendamála hér á landi. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta en auk innanríkisráðuneytisins komu umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að vinnunni.

Til upprifjunar má minna á að mikil breyting hefur verið gerð á stjórnskipulagi neytendamála innan Stjórnarráðsins á síðustu árum en árið 2009 voru neytendamál flutt að hluta frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og árið 2013 voru fleiri þættir neytendamála fluttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til innanríkisráðuneytis. Allur málaflokkurinn heyrir nú eins og þingheimi er kunnugt undir innanríkisráðuneytið. Margt bendir til þess að þörf sé þó á frekari breytingum á stofnanafyrirkomulagi innan málaflokksins en það bíður betri umræðu hér síðar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að verkefni talsmanns neytenda verði sameinuð verkefnum Neytendastofu. Reynslan hefur sýnt að mjög óhagkvæmt er að reka stofnun með eingöngu einum starfsmanni sem á að sinna öllu í senn; rekstrarlegum þáttum, öflugri faglegri starfsemi, halda úti upplýsingagjöf til almennings, reksturs heimasíðu o.s.frv.

Engin sambærileg embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndum og þar sem valdheimildir embættisins eru litlar setur það starfseminni nokkrar skorður. Einnig virðist í hugum neytenda ekki vera skýr verkaskipting milli embættis talsmanns neytenda og Neytendastofu. Þá er slíkt fyrirkomulag, að hið opinbera haldi annars vegar úti Neytendastofu og hins vegar embætti talsmanns neytenda, til þess fallið að skapa nokkurn misskilning. Bæði meðal neytenda svo og um aðgreiningu verksviðs hvorrar stofnunar fyrir sig.

Með hliðsjón af þessu svo og stærð lands og þjóðar er skynsamlegt að stefna að því að reka eina og skilvirka opinbera stofnun á sviði neytendamála líkt og hefur komið fram í áliti margra, m.a. í skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands sem gefin var út í maí 2008 undir heitinu Ný sókn í neytendamálum þar sem hvatt var til þessa verklags.

Þá er í frumvarpinu einnig lagt til að breyta ákvæði laganna um forstjóra Neytendastofu. Í gildandi lögum eru hæfisskilyrði forstjóra skilgreind mjög þröngt. Málefnasvið stofnunarinnar eru mjög víðtæk og er þetta ákvæði ekki í samræmi við sambærileg ákvæði um forstöðumenn ríkisstofnana og er því lagt til að því sé breytt til samræmis við það. Þess í stað verði skýrt kveðið á um skyldur forstjóra í lögunum. Þrátt fyrir breytingu á ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir að um rýmri ábyrgð sé að ræða en ella gildir um aðra forstöðumenn ríkisstofnana.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[16:18]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina. Þó að talsmaður neytenda hafi látið mjög að sér kveða meðan hann hefur starfað held ég að fyrir því geti verið sterk efnisrök að fara þá leið sem hæstv. ráðherra leggur til hér að leggja talsmann neytenda inn í Neytendastofu og breyta um leið skilyrðunum sem lúta að forstjóra þeirrar sameinuðu stofnunar.

Þegar við ráðumst í aðgerðir af þessu tagi, eins og að leggja saman opinberar stofnanir, þá fylgja því iðulega yfirlýsingar af hálfu ráðherra viðkomandi málaflokks um að þeim sem starfa hjá hlutaðeigandi stofnunum sem verið er að sameina muni við sameininguna bjóðast sambærileg verkefni á vegum hinnar nýju sameinuðu stofnunar eins og þeir höfðu áður hjá hinni. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvort einhver slík fyrirheit væru til þess sem starfar sem talsmaður neytenda í dag.



[16:19]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og kemur fram í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þessar tvær stofnanir, þ.e. talsmaður neytenda og Neytendastofa, verði sameinaðar. Ástæðan fyrir því að ég nefndi ekki sérstaklega það sem hv. þingmaður ræddi er sú að rætt hefur verið við talsmann neytenda um starfslok vegna þess að ekki er gert ráð fyrir, eins og kemur fram í frumvarpinu, að fjármagnið sem fylgdi talsmanni neytenda fari inn í nýju stofnunina. Um það hefur verið rætt og það er í vinnslu. Málið hefur verið unnið í góðu samstarfi við talsmann neytenda og hann hefur verið upplýstur um málið á fyrri stigum. Ég hef sjálf átt með honum fundi og málið hefur verið í ágætri sátt við hann enda hefur hann unnið gott og mikilvægt starf, ég tek undir það með hv. þingmanni. Þess vegna töldum við mikilvægt í þessu máli eins og ég vona að þingheimur taki eftir að það er ekki verið að vinna þetta þannig að ákveðið verkefni sé lagt niður heldur er verið að sameina þessi verkefni og talsmaður neytenda var sammála ráðuneytinu um að það væri eðlilegt og rétt að gera það svona. Hvað varðar framtíð hans og fyrirkomulag starfsloka þá er það í vinnslu innan ráðuneytisins.



[16:21]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hlý orð í garð talsmanns neytenda.

Ég átta mig ekki alveg á orðanotkuninni hér, að verið sé að leggja þessar stofnanir saman ef fjármunirnir fylgja ekki. Mér skildist á hæstv. ráðherra að því yrði þannig háttað að þeir fjármunir sem varið er til talsmanns neytenda rynnu ekki til Neytendastofu og starfsmaðurinn sem því hefur sinnt færi ekki á milli. Þá er væntanlega ekki nýtt starf sem sinnir þessu verkefni hjá Neytendastofu. Er þá ekki í raun réttri bara verið að leggja niður talsmann neytenda? Er þetta nokkur sameining, er ekki bara verið að leggja niður lið sem út af fyrir sig geta verið efnisrök fyrir að hætta að starfrækja?



[16:22]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg skýrt og kemur fram í fylgiskjalinu sem er umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna málsins og líka í greinargerð með frumvarpinu að gert er ráð fyrir því að fjármagnið sem áður var sérstaklega eyrnamerkt talsmanni neytenda fylgir ekki beint inn í stofnunina. Það er verið að sameina verkefnin, það er alveg skýrt. Það er með Neytendastofu eins og öll önnur verkefni, hv. þingmaður, að gerð er hagræðingarkrafa sem gerir að verkum að í þessu felst ekki viðbótarframlag. Það skal vera alveg á hreinu og ekkert reynt að breiða yfir það. Við erum að fylgja eftir þeirri skýrslu og þeirri vinnu sem var unnin að mestu á síðasta kjörtímabili um að farsælla væri að málaflokknum yrði sinnt með þeim hætti að hann væri undir einni stofnun.

Það er alveg rétt að í fjárlögum er ekki gert ráð fyrir viðbótarframlagi til Neytendastofu. Vonandi tekst okkur það síðar enda verkefni næg en þarna er ekki gert ráð fyrir því að fjármagnið frá talsmanni neytenda fylgi inn í Neytendastofu. Það er engin dul dregin á það í frumvarpinu eða þeim gögnum sem fylgja með því.



[16:23]
Forseti (Óttarr Proppé):

Forseti vill áminna þingmenn um að þeim ber að ávarpa þingmenn með fullu nafni.



[16:23]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. innanríkisráðherra skuli stíga það skref að fækka stofnunum. Ég velti þó fyrir mér hvort ekki eigi að stíga stærri skref og sameina Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið. Ég held að það séu rök fyrir því að skera núna upp eftirlitskerfið, efla þær einingar sem eftir verða og gera þær betur í stakk búnar að sinna sínu löggilta hlutverki. Vandinn kann hins vegar að vera sá að Samkeppniseftirlitið er á forræði annars ráðherra en hæstv. innanríkisráðherra.

Spurning mín er til hæstv. innanríkisráðherra: Hafa farið fram einhverjar viðræður á milli atvinnuvegaráðuneytis annars vegar og innanríkisráðuneytisins hins vegar um hugsanlega sameiningu eða frekari samvinnu þessara tveggja stofnana? Ef svo er ekki, kemur það til greina? Hér er um verulega fjármuni að ræða. Samkeppniseftirlitið fær tæplega 400 milljónir króna á komandi ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi og Neytendastofa um 184 milljónir kr. Ég hygg að hægt sé að ná töluverðum sparnaði með samþættingu þessara stofnana.



[16:25]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir margt af því sem fram kemur í máli hv. þingmanns sem talaði hér á undan. Ég vil árétta að það þarf að fara fram skoðun, eins og ég nefndi í ræðu minni. Ég sagði orðrétt að margt benti til þess að þörf væri á frekari breytingum á stofnanafyrirkomulagi innan málaflokksins.

Ég tel að við þurfum að rýna það betur hvernig við höldum utan um neytendavernd og hvort við getum gert það betur, meðal annars með því sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Ég get upplýst hv. þingmann um að þær viðræður hafa átt sér stað á milli innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hvort hægt sé að vinna betur að málaflokkunum og hvort það sé endilega farsælasta framtíðarfyrirkomulagið að neytendamálin — og ég get alveg sagt það þannig að það sé alveg skýrt: Sá ráðherra sem hér stendur mun ekki verja það með kjafti og klóm að eins margar stofnanir og mögulegt er heyri undir hennar ráðuneyti. Mér finnst bara að þingið eigi að ræða það og að við eigum að velta því fyrir okkur hvort hægt sé að halda betur utan um málaflokkinn. Þá er þar ein lausn, sú sem hv. þingmaður nefndi hér áðan og ég hef rætt formlega við iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hana.



[16:26]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin, þau gleðja mig. Það er ekki alltaf sem maður heyrir hæstv. ráðherra tala með þeim hætti að hann sækist ekki eftir að auka völd sín heldur minnka áhrif sín og völd og færa þau annað, jafnvel út til almennings.

Ég hef nefnilega áhyggjur af því sem gerst hefur hér á síðustu árum þegar kemur að eftirlitsiðnaðinum sem er orðinn alveg gríðarlega stór iðnaður. Beinn kostnaður er líklegast á bilinu 16–18 milljarðar króna og óbeinn kostnaður þjóðfélagsins við að halda uppi eftirlitskerfinu öllu er líklegast á bilinu 35–40 milljarðar. Það er alveg ljóst að á endanum eru það neytendur sem bera þann kostnað. Það er því gríðarlega mikilvægt að huga að þeim þætti. Ég ætti nú kannski að beina orðum mínum einnig til hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, að hann hugi sérstaklega að því (Gripið fram í.) hvort ekki sé hægt að ná fram auknu hagræði og sveigjanleika í eftirlitskerfinu þannig að neytendur standi betur eftir og spari kannski eitthvað af þeim 35–40 milljörðum sem kerfið kostar þá á hverju ári.



[16:28]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að við hv. þm. Óli Björn Kárason deilum skoðunum í þessu eins og svo mörgu öðru. Ég nota tækifærið til þess að hvetja þingmenn og okkur öll til þess að skoða sameiningar stofnana, til þess að skoða það að vinna verkefnin öðruvísi, ég hvet okkur til þess að gera það þvert á ráðuneyti. Við eigum ekki að vera að velta því fyrir okkur nákvæmlega hvaða verkefni heyri undir hvaða ráðherra eða ráðuneyti heldur að vinna þannig með hlutina að okkur auðnist að þjónusta almenning eins vel og mögulegt er, að halda hér uppi góðri neytendavernd og halda hér uppi þeim réttindum sem við viljum sannarlega halda á lofti. En við verðum auðvitað að gera það með hagræðingu í huga og þannig að við nýtum fjármagnið sem best.

Óháð hagræðingarhópum þá finnst mér við hugsa þetta of mikið í hólfum og kössum í staðinn fyrir að hugsa um verkefnið í heild sinni og hugsa hvernig við þjónustum almenning best. Hv. þm. Óli Björn Kárason, ég held við getum verið sammála um að almenningurinn þarna úti er ekkert að velta því fyrir sér hvort þetta verkefni heyri undir einn ráðherra frekar en annan. Við erum einungis að hugsa um að þjónusta fólk sem best og á sem hagkvæmastan hátt og þannig að fjármagn skattborgara nýtist sem best.



[16:29]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér líst vel á þetta almennt. Ég skil reyndar ekki alveg hvers vegna þetta ættu að vera aðskildar stofnanir en þykir þetta almennt til bóta. En ég er með þrjár spurningar frekar en kannski gagnrýni. Mér sýnist Neytendastofa ekki taka við öllum réttindum eða störfum talsmanns neytenda. Þá sé ég ekki að Neytendastofa geti kallað eftir sömu gögnum og talsmanni neytenda er sérstaklega gert kleift að kalla eftir samkvæmt 8. gr. laga 63/2005. Það er ein af þeim greinum sem eru felldar út með frumvarpinu. Mig langar að vita hvort til komi að Neytendastofa hafi einhverjar slíkar heimildir.

Ég sé ekki heldur skýrt að Neytendastofa geti með þessum breytingum tekið við kvörtunum á sama hátt og talsmanni neytenda er ætlað að gera samkvæmt gömlu lögunum þótt vissulega sé í 4. gr. gömlu laganna svokölluð áfrýjunarnefnd neytendamála en hún virðist bara taka á stjórnvaldsákvörðunum en ekki taka við kvörtun frá neytendum. Þannig að ég velti fyrir mér hvort einhver prósess sé annaðhvort innbyggður í þetta eða ætlaður til að meðhöndla það.

Í þriðja lagi tek ég eftir því að talsmanni neytenda er ætlað sjálfstæði alveg sérstaklega samkvæmt 10. gr. gömlu laganna sem er felld út samkvæmt 3. gr. nýju tillögunnar á meðan í 2. gr. að nýju lögunum stendur sérstaklega að forstjóri beri ábyrgð á að starfsemi og rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Ég velti fyrir mér viðbrögðum hæstv. ráðherra við þessum spurningum.



[16:32]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Sumar af þeim nægir ekki að fara yfir í stuttu andsvari og verður sjálfsagt farið betur yfir á vettvangi nefndarinnar. Að stærstu leyti fara öll verkefni talsmanns neytenda, eins og kemur fram, undir stofnunina. Hins vegar fylgdu sérstakri stofnun að sjálfsögðu ákveðnar heimildir sem Neytendastofa hefur einnig heimildir gagnvart þannig að í frumvarpinu er verið að samræma þetta og vinna með það, en það á ekki að draga úr þeim þáttum er lutu að verkefnum talsmanns neytenda. Bara þannig að það sé á hreinu. Auðvitað eru ákveðnar breytingar sem fela í sér að þetta var sérstakt embætti. Nú er það það ekki lengur.

Við erum að gera það að einni stofnun sem veldur því að heimildirnar breytast örlítið en holt og bolt eru verkefnin alveg þau sömu. Eins og kemur fram í öllum þeim skýrslum, og þær eru fleiri en ein, sem hafa verið skrifaðar um neytendamál á Íslandi og mikilvægi þess að setja þau í þennan farveg er það álit og skoðun langflestra sem að málinu hafa komið og ég ítreka það, ég held allra sérfræðinga sem ég hef lesið gögn um, að það styrki stöðu neytenda á Íslandi að hafa þetta með þessum hætti, hin staðan hafi valdið ákveðnu óskýru verklagi. Ég held því að við séum að stíga framfaraskref. Hvað varðar einstakar valdheimildir hverfa þær að sumu leyti vegna þess að stofnunin er ekki lengur til og verkefnin fara undir aðra stofnun en það er ekki gert ráð fyrir því að verkefnin breytist.



[16:33]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýrt svar. Hvað varðar spurningarnar skil ég hæstv. ráðherra þannig að það komi alveg til greina að styðja umbætur, væntanlega eftir meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar, til að skýra betur hvað eigi nákvæmlega að flytjast yfir. Ég tek eftir því að hér er vissulega verið að styrkja neytendarétt og dreg ekki úr því. Ég er algjörlega hlynntur framtakinu í heild sinni þótt kannski sé eitthvað sem bæta mætti við. Ég vona því að ég skilji hæstv. ráðherra rétt með það að kannski þurfi að bæta aðeins við og þá væntanlega eftir meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[16:34]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að endurtaka svarið sem ég gaf áðan en ég tek undir það með hv. þingmanni að telji hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd þörf á því að skerpa þau heimildarákvæði sem vísað var til áðan er það að sjálfsögðu í höndum nefndarinnar. Telji nefndin að það sé óljóst er það að sjálfsögðu einnig í höndum nefndarinnar að ákveða að skerpa á, ef talin er þörf á því.



[16:35]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé klárlega skref í rétta átt. Ég ætlaði að spyrja út í fjármagn, það fjármagn sem sparast þegar þetta embætti er lagt niður eða sameinað Neytendastofu en hæstv. ráðherra hefur svo sem svarað því. Í starfshópi sem skilaði skýrslu um skipulag neytendamála var reyndar lagt til að embætti talsmanns neytenda yrði lagt niður og fjármagni sem sparaðist yrði skipt á milli neytendaréttarsviðs Neytendastofu og Neytendasamtakanna og þá eyrnamerkt kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna. Ég skil það þá þannig að engir peningar færist til þessara stofnana sem mér finnst aðeins miður. Mér finnst að við eigum að horfa meira til þriðja geirans og félagasamtaka og nýta þann kraft sem þar er, við fáum oft mikið fyrir peningana.

Aðeins af því að komið var inn á það áðan að talsmaður neytenda hefði tekið á móti kvörtunum og hvað yrði þá um það. Þetta er eitt af því sem sýnir hvað það var allt of flókið að hafa Neytendastofu, talsmann neytenda og svo frjáls félagasamtök sem eru Neytendasamtökin. Nú er það þannig að Neytendasamtökin eru með þjónustusamning við ríkið og fá 8,4 milljónir á ári til þess einmitt að taka við kvörtunum frá neytendum. Það er því mjög einkennilegt ef talsmaður neytenda hefur á sama tíma verið að taka við kvörtunum frá neytendum og Neytendastofa á heldur ekki að vera að því, ekki nema það séu þá kvartanir sem snúa að þeim þáttum sem Neytendastofa er með eftirlit með.

Mig langar líka til að leggja til við hæstv. ráðherra að taka tillit til skýrslunnar sem kom út 2008, sem er einmitt fjallað um í frumvarpinu, sem er ný sókn í neytendamálum. Þar er ágætiskafli, sérstaklega lagakaflinn, þar sem verið er að tala um að afmarka hlutverk Neytendastofu. Til dæmis er bent á að fyrirtæki sækja þangað og fá skorið úr um firmaheiti og lén og annað þess háttar og má alveg velta því fyrir sér hvort það eigi heima þar undir. Þannig að ég hef ekki séð að þær tillögur sem þar eru unnar — að eitthvert tillit hafi verið tekið til þeirra. Það er svona með þessar skýrslur, þær eru oft skrifaðar og svo er lítið gert með þær.

Mig langar líka að spyrja: Talað er um að sérstaklega hafi verið mælt fyrir um það í lögum að Neytendastofa skuli stuðla að fræðslu til almennings um neytendamál, þ.e. neytendafræðslu. Ég velti þessu fyrir mér, hef örlitlar efasemdir um þetta, það þarf þá alla vega að eyrnamerkja einhverja peninga í þetta. Ég spyr líka: Í hverju á þessi fræðsla að felast, með hvaða hætti á þetta að fara fram? Nú er það þannig að neytendafræðsla, alla vega á Norðurlöndunum þar sem ég þekki til, fer mjög mikið fram í gegnum fjölmiðla. Fjölmiðlar eru mjög duglegir, þeir hafa líka tekið sig á hér á Íslandi. Og líka skólarnir, neytendafræðsla á að vera bæði inni í grunnskólum og framhaldsskólum. Síðan erum við með ótal stofnanir og samtök sem að einhverju leyti sinna neytendafræðslu. Það má bara nefna Matvælastofnun, upplýsingar þar, Neytendasamtök og fullt af öðrum samtökum og stofnunum. Ég er því bara að velta fyrir mér hvort þetta verði til að dreifa kröftunum því að ég veit að Neytendastofa hefur í nógu að snúast. Ég bið um svar frá hæstv. ráðherra um neytendafræðsluna, hvað menn eru að hugsa þar.



[16:39]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum sem þekkir mjög vel til neytendamála og er betur að sér í mörgu þar en sú sem hér stendur. Ég get tekið undir langflest ef ekki allt sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að hér er stigið skref í rétta átt en auðvitað ekkert fullnaðarskref enda er tillagan ekki kynnt þannig og á ekki að þjóna þeim tilgangi.

Margt af því sem hv. þingmaður nefndi varðandi kvartanir og fleira tek ég undir. Það hefur ekki verið nægilega skýrt hvernig á því hefur verið haldið og þess vegna fylgja til dæmis ákveðnar heimildir ekki undir þessa löggjöf. Það er til þess að skerpa á ákveðnum hlutum og tryggja að ljóst sé hver sinni ákveðnum verkefnum.

Ég tek líka undir það heils hugar með hv. þingmanni er varðar skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands, sem var gefin út í maí 2008 og ég nefndi hér aðeins í upphafi, þar sem var varpað fram ákveðinni framtíðarsýn um yfirstjórn og skipulag neytendamála. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að í þessu frumvarpi birtist það ekki nákvæmlega. Það er samt afar margt þar sem ég held að við getum notað í því sem við vorum að ræða hér áðan um framtíðarskipan þessara mála og fyrirkomulag.

Varðandi fræðsluna þá er ekki, eins og hægt er að lesa í frumvarpinu og athugasemdum við einstaka greinar, fjallað um það hvernig eigi að taka á því máli þó að viðbótin sé sannarlega þarna inni. Talað er um að það sé ekki sérstaklega mælt fyrir um hvernig Neytendastofa skuli stuðla að slíkri fræðslu enda eigi stofnunin að hafa ákveðið sjálfdæmi um það hvernig hún og forsvarsmenn hennar telja farsælast að halda á því.

Ég held ég hafi svarað öllu sem hv. þingmaður beindi til mín.



[16:41]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki reglurnar ekki alveg nógu vel. Ég vildi bara þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, hefði kannski getað gert það úr sæti mínu.



[16:41]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í þessa umræðu. Þetta er stór málaflokkur, neytendamál standa okkur öllum nærri og hefur verið svolítið dreifður, eins og hér hefur komið fram, innan stjórnsýslunnar og margt mjög ruglingslegt þar. Þetta er því hið besta mál enda kemur fram í þeirri ágætu skýrslu sem vitnað er til í frumvarpinu að mikil þörf sé á að einfalda það sem kallað hefur verið leiðakerfi neytenda og skipulagningu neytendamála á Íslandi.

Það er oft og tíðum flókið fyrir okkur neytendur og villandi hvert og hvar við eigum að leita leiða til að fá úrlausn okkar mála. Hlutverk stjórnsýslunnar hlýtur alltaf að vera að stuðla að skilvirku, hagkvæmu og öflugu kerfi til að tryggja rétt neytenda í viðskiptum þannig að við velkjumst ekkert í vafa um það hvert við eigum að leita þegar við viljum láta úrskurða um réttindi okkar.

Hér hefur verið komið inn á afar margt í þessu samhengi sem ég hafði ætlað að gera að umtalsefni. Ég tek undir það sem hefur komið fram og er skilgreint í lögunum, að talsmaður neytenda geti líka tekið upp mál að eigin frumkvæði en sjálfstæði hans er ekki nógu skýrt í þessu frumvarpi. Mér finnst það ekki vera alveg tryggt að einhver einn aðili haldi utan um þessi mál og sé í sömu stöðu gagnvart stjórnsýslunni og nú. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því.

Ég tek undir það sem hér var talað um áðan, um fræðsluna, af því að ef við ætlum að búa til virka neytendur sem eru sæmilega meðvitaðir um umhverfi sitt og réttindi og skyldur þá held ég að það þurfi að koma til fjármagn þar sem það er skilgreint að Neytendastofa skuli sinna fræðslu eða útbúa efni fyrir skólana eða með hvaða hætti það á nú að gera. Ég held að það þurfi að byrja þar eins og með svo margt annað ef við eigum að ná að hafa hér virka þegna.

Það er auðvitað rétt að sparnaðurinn er til staðar en ekki nema hluti af þeim tillögum sem þessi ágæti starfshópur skilaði af sér — og það kemur fram í frumvarpinu — mun koma til framkvæmda von bráðar. Langar mig því að spyrja hæstv. ráðherra hvaða tillögur það eru sem koma til framkvæmda von bráðar.

Að öðru leyti mundi ég vilja vita með hvaða hætti sjálfstæði viðkomandi aðila sem á að sinna þessum málum innan Neytendastofu verður tryggt. Ég er hlynnt sameiningu þessara stofnana. Ég held að þetta sé hluti af því að gera þetta skilvirkara en hef ákveðnar áhyggjur af þessu.



[16:45]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Margt af því sem hér var nefnt af hv. þingmanni hefur þegar komið fram og þess vegna ætla ég ekki að lengja umræðuna með því. Það hefur líka komið fram í umræðunni að þingmenn hafa ákveðnar — við skulum ekki kalla það áhyggjur, vangaveltur um sjálfstæði stofnunarinnar og frumkvæði hennar og heimildir til slíks, að þær verði minni við sameiningu en þær voru fyrir. Þá minni ég á að í lögunum um Neytendastofu eru ákveðnar heimildir til slíks. Ég ítreka að telji allsherjar- og menntamálanefnd ástæðu til þess að skerpa á því þá er ekkert því til fyrirstöðu. Markmið okkar er einungis, og það er mjög skýrt í þeirri vegferð sem við erum hér að tryggja, að skýrar verði á höndum hvers þessi verkefni eru. Við erum að reyna að stíga, eins og nefnt var hér áðan af hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, fyrsta skrefið í átt til þess að bæta stöðu neytendamála á Íslandi. Ég ítreka að ég treysti hv. allsherjar- og menntamálanefnd vel til að fara yfir það í nefndinni vilji menn skerpa á einstaka þáttum.



[16:46]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar aðeins í restina til þess að hvetja ráðherra og hv. allsherjar- og menntamálanefnd, af því að komið hefur fram að fyrirtæki hafa gjarnan farið að tilmælum talsmanns neytenda þegar komið hafa fram ábendingar um það sem betur má fara en stjórnvöld hafa ekki staðið sig eins vel. Á það hefur verið bent að það sé sýnilegur munur á milli ráðuneyta varðandi samráð þegar kemur að reglum eða einhverju slíku þar sem forsendan er sú að talsmaður geti stuðlað að aukinni neytendavernd eins og lög gera ráð fyrir.

Ég hvet því nefndina til að kalla eftir þessu og fá tölulegar upplýsingar um þetta hjá ráðuneytunum. Eins liggur væntanlega fyrir hjá talsmanni neytenda rökstuðningur fyrir þessum orðum þar sem hann hefur sagt að þetta sé svona.



[16:48]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi einungis nota tækifærið hér í lokin til að þakka þessa brýningu sem sjálfsagt verður farið yfir á vettvangi hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég ítreka einnig að mikilvægt er við þá breytingu sem gerð verður með sameiningunni að menn nýti þá reynslu sem fengist hefur með þeim starfsmanni sem var talsmaður neytenda og hefur sinnt því starfi ljómandi vel. Það er mikilvægt að menn nýti þann reynslugrunn sem þaðan hefur fengist og yfirfæri hann yfir í þessi verkefni. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að fá þann aðila og þann ágæta starfsmann á sinn fund til þess að tryggja að við nýtum sem best að það verði samfella í því. Ef einhverjar athugasemdir eru varðandi það hvernig menn hafa unnið með þá úrskurði og þá vinnu vil ég að það verði skoðað í vinnunni á þinginu.



[16:49]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Svo að því sé haldið til haga í þessari umræðu þá hefur talsmaður neytenda, sem er embætti sem þetta lagafrumvarp mun leggja niður, verið einn ötulasti málsvari lántakenda hjá hinu opinbera. Þegar ég heyri að leggja eigi embættið niður og að sú tillaga hafi komið frá hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, þá set ég strax spurningarmerki við það.

Talsmaður neytenda krafðist þess ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna að fá heimild frá innanríkisráðuneytinu — samkvæmt lögum um lögbann og dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda — til að geta lagt fram lögbann og hafið dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda út af því að innanríkisráðherra var ekki að sinna því á þeim tíma, en hann hefur líka heimild samkvæmt þeim lögum til að krefjast lögbanns og hefja öll dómsmál sem þarf til að tryggja heildarhagsmuni neytenda og í þessu tilfelli lántakenda.

Talsmaður neytenda fór ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna fram á lögbann hjá sýslumanni á innheimtum gengistryggðra lána og talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna kærðu svo ákvörðun sýslumanns sem hafnaði lögbannsbeiðninni og þau kærðu alla leið upp í Hæstarétt. Þó að Hæstiréttur hafi á endanum hafnað lögbannsbeiðninni hafa talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna bætt hag neytenda, þ.e. lántakenda, gríðarlega.

Hæstiréttur hafnaði lögbannsbeiðninni á þeim forsendum að þeir sem hefðu misst heimili sitt á nauðungaruppboði gætu farið fram á skaðabætur síðar. Skaðabótakrafan hefur því verið staðfest af Hæstarétti vegna þess að talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna fóru af stað í þessa vegferð. Í öðru lagi hefur Hæstiréttur staðfest að lögin um lögbann og dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda eru virk og að þau eru virk á Íslandi milli lögaðila sem báðir eru staðsettir á Íslandi og eru íslenskir. Um þetta var vafi, en þetta hefur fengist staðfest.

Hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur því heimild, samkvæmt þessum lögum, til að hefja dómsmál sem þarf til að tryggja heildarhagsmuni neytenda. Þetta er skýrt vegna þess að talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna fóru í þessa vegferð. Hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefði getað farið í þessa vegferð en talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna kröfðust þess lengi vel, og þurftu virkilega að hafa fyrir því, að fá þessa heimild og fara í þessa vegferð.

Spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er þessi: Þegar það embætti er lagt niður sem verið hefur einn ötulasti málsvari innan hins opinbera fyrir hagsmunum lántakenda í þessu landi, þegar það embætti er lagt niður með þessum lögum og fellt inn í Neytendastofu, fylgir þá heimildin, sem talsmaður neytenda hefur til að krefjast lögbanns og að fara í dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda, þessum samruna inn í Neytendastofu?



[16:53]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Já, Neytendastofa hefur sömu heimild og talsmaður neytenda hafði hvað þetta varðar, til þess að svara því alveg afdráttarlaust og skýrt í byrjun. Síðan hvet ég þingheim og hv. þingmann til þess, og ég ítreka það í umræðunni um þetta, að með þessu erum við að taka verkefni, sannarlega embætti sem var sjálfstætt og sérstök stofnun en við erum ekki í þeim skilningi — auðvitað erum við að breyta talsvert, við erum að færa verkefnin undir Neytendastofu. Við erum að taka verkefnin saman. Þannig að þegar hv. þingmaður lætur að því liggja, finnst mér, að verið sé að henda þessum verkefnum til hliðar og þau verði ekki lengur til staðar þá er það ekki hugsunin. Hugsunin er í anda þess, sem mörgum sinnum hefur komið fram í umræðunni um neytendamál, að taka verkefnin á einn stað en sú heimild sem þingmaðurinn nefndi — hún var stórmál á sínum tíma, hárrétt, hún er hjá Neytendastofu þrátt fyrir þessa breytingu.



[16:54]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Gott að vita til þess að heimildin er til staðar hjá Neytendastofu til að krefjast lögbanns og hefja dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda. Þá er það spurning um verkefni. Eitt stærsta verkefni sem þarf að fara í til þess að tryggja hagsmuni neytenda, lántakenda á Íslandi, er að skoða dóminn sem féll í Evrópudómstólnum 14. mars á þessu ári um að ekki mætti vísa fólki út af heimilum sínum þrátt fyrir að landslög eða lánasamningar kvæðu á um að það þyrfti ekki að fara fyrir dómstóla, það mætti gera slíkt. Evrópudómstóllinn dæmdi 14. mars á þessu ári að það mætti ekki.

Hann dæmdi meðal annars á grundvelli laga um neytendaverndartilskipun Evrópusambandsins sem hefur verið innleidd í íslensk lög. Þannig að stóra spurningin er: Á það við á Íslandi? Og hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, eða Neytendastofa sem hefur þá heimild samkvæmt lögum til að hefja dómsmál sem þarf að hefja til að tryggja heildarhagsmuni neytenda, það er stórt verkefni. Þetta er stóra verkefnið, að fá úr því skorið hvort tilskipunin frá Evrópu sem hefur verið innleidd í íslensk lög um neytendalán verji ekki neytendur, verji ekki heimili neytenda, heimili lántakenda. Það er stóra verkefnið. Er það ekki verkefni sem hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir er til í að fara í?



[16:56]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er klárlega hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eru stór verkefni. Ég ítreka samt að tilgangur frumvarpsins sem við ræðum nú er ekki einvörðungu þessi. Hann er til að taka utan um á ákveðinn hátt öll málefni er lúta að neytendamálum á Íslandi. Ekki einungis með hliðsjón af því sem hv. þingmaður talaði um og við höfum áður rætt í þessum sal og ég hef átt orðastað við hv. þingmann um þau mál.

Ég þekki dóminn sem hv. þingmaður vísar til ágætlega. Hann er eins og hv. þingmaður þekkir líka ekki endilega talinn eiga við hér á landi og það veit hv. þingmaður og um það er ákveðinn ágreiningur. Tíminn leyfir okkur ekki að fara í efnislega (Gripið fram í.) umræðu um það. Fyrst og síðast erum við að ræða, hv. þingmaður, með mikilli virðingu, um breytingu á þessu verklagi.

Það sem hv. þingmaður virðist vera að bera á borð er að með þessu séum við að breyta eða koma í veg fyrir að verkefni sem talsmaður neytenda hefur haft með höndum — að verið sé að koma í veg fyrir það. Það er alls ekki verið að því. Það er verið að sameina það undir einum hatti þannig að sú barátta sem hv. þingmaður hefur ótal oft talað fyrir á þingi, það er ekki eðlisbreyting á henni, það er einungis formbreyting á því að nú heitir þetta Neytendastofa og verkefnin eru sameinuð. Út á það gengur það frumvarp sem er til umræðu. Efnisleg umræða um þann dóm sem hv. þingmaður nefnir bíður betri tíma og leyfir ekki lokaumræðu í gegnum stutt andsvör um þetta frumvarp.



[16:58]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef skilið frumvarp hæstv. ráðherra með þeim hætti að það væri síður en svo verið að leggja niður verkefni sem talsmaður neytenda hefur sinnt af nokkrum skörungsskap, heldur væri verið að færa það undir Neytendastofu.

Þá er rétt að greina frá því að í upphafi voru menn ekki á eitt sáttir um það ferðalag sem menn fóru í til þess að þróa neytendavernd á Íslandi. Ég var t.d. á meðal þeirra sem töldu verkaskiptinguna óljósa og að hægt væri og betra að hafa þetta með öðrum hætti. Ég hef jákvæða afstöðu gagnvart þessu frumvarpi, ég áskil mér auðvitað rétt til þess að skoða það betur eftir því sem vinnu nefndarinnar vindur fram. En það er nú nokkur trygging fyrir mig að málið sé ágætt þegar bæði fulltrúar borgaralegra anarkista hér, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, og hægri sinnaður stjórnmálamaður, eins og hæstv. innanríkisráðherra, eru nánast sammála. Ég tók eftir því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson taldi að þarna væri verið að þétta neytendavernd á Íslandi.

Ég er líka ánægður með að hæstv. innanríkisráðherra fetar áfram á þeirri braut sem fyrri ríkisstjórn markaði með að fækka ríkisstofnunum með því að sameina þær. Það var stefna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fylgdi mjög skýrt. Er rétt að rifja það upp að við fækkuðum stofnunum, lögðum saman mörg lítil embætti og ég man ekki eftir neinni nýrri stofnun sem við bjuggum til nema Fjölmiðlastofu sem mig minnir að hafi kostað undir 50 millj. kr. á ári, það var nú ekki meira.

Ég fagna því þegar hæstv. ráðherra segir að hún vilji leita leiða til að hagræða og beita aðhaldi með því að sameina stofnanir. Ég er líka sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni — þó að það sé svakalegt að vera sammála honum tvo daga í röð — um að það á eftir því sem hægt er að draga úr og gera eftirlitsiðnaðinn skilvirkari. En herra trúr, þegar menn eins og hv. þingmaður halda því fram að hér sé verið að reka eftirlitsiðnað sem sé meira og minna ónauðsynlegur og kosti íslenska skattgreiðendur 16–18 milljarða, ja, þá verða menn að rökstyðja það með einhverjum hætti.

Hv. þingmaður bætti reyndar um betur og var erfitt að henda nákvæmar reiður á máli hans, en eftir að hafa kastað því inn í þessa umræðu að hægt væri að spara 16–18 milljarða þá gaf hann svolítið í undir lok ræðu sinnar, sem er nú ekki háttur hv. þingmanns því að hann er venju fremur varkár í tali eins og við vitum, og sagði að hægt væri að meta allan eftirlitsiðnaðinn, eins og hann kallaði það, upp á 30–40 milljarða.

Nú get ég staðið hér eins og hvítskúraður engill því að ekki ber ég ábyrgð á því. Meira og minna allur þessi eftirlitsiðnaður kom upp undir forustu Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Það tekur ekki réttinn frá hv. þingmanni til þess að gagnrýna hann og það er frekar ávinningur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og alla flokka að hafa gagnrýna menn og konur í sínum röðum. En mig langar til þess að spyrja hv. þm. Óla Björn Kárason: Getur hann fært rök fyrir þessu?

Við höfum aðeins fyrr á þessum degi rætt hagræðingarnefndina, niðurskurðarnefndina svokölluðu, sem er undir forustu tveggja hv. þingmanna, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Vigdísar Hauksdóttur. Það er svo sem að renna upp fyrir öllum að sú nefnd hefur beitt upp, það kemur ekkert úr henni. Hún skammast sín meira að segja svo fyrir verk sín að hún þorir ekki að reiða fram gögnin eða fundargerðir sem hana varða. Ég held að það væri meira en einnar messu virði ef hv. þingmaður mundi kannski gefa okkur í stuttri ræðu einhverjar útlínur af þeim mögulegu breytingum sem hægt væri að grípa til í því sem hann kallar eftirlitsiðnað, sem mundu í senn skapa hagræði og spara þótt ekki væri nema brotabrot af þessum miklu upphæðum sem hv. þingmaður hefur nefnt, en um leið tryggt hag borgaranna og neytenda. Væntanlega var þessi eftirlitsiðnaður, sem hv. þingmaður kallar svo, settur á stofn af hans góða flokki á sínum tíma til þess að tryggja hag neytenda á Íslandi og líka til þess að tryggja hag útflutningsgreina, til þess að greiða útflutningi Íslendinga leið inn á markað erlendis með þeim vottorðum og stimplum og öllu því sinnepi og tómatmauki sem við þarf að éta.

Ég vildi því gjarnan fá að heyra frá hv. þingmanni hvort það sé eitthvað annað á bak við þetta og hvort þetta sé eitthvað meira en orðin tóm. Það er ekki mín reynsla af hv. þingmanni að hann tali eins og tóm tunna, yfirleitt er eitthvert andlag á bak við þegar bylur í hv. þingmanni. En gaman væri að heyra þetta og sennilega væri það happadrýgst fyrir hagræðingarnefndina góðu að fá hv. þingmann sem dráttarklár og hugmyndasmið fyrir sig því að ekki virðist hún ætla að skila miklu.



[17:03]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ekki skildi ég orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar svo að þetta frumvarp mundi þétta neytendavernd á Íslandi eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gefur til kynna. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi einmitt mörg atriði, margar heimildir sem talsmaður neytenda hefur í dag sem færast ekki yfir til Neytendastofu. Ég skil því orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar ekki þannig að þetta sé endilega þétting á neytendavernd á Íslandi.



[17:04]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir auðvitað slæmt ef ég hef rangfært þær áherslur sem hv. þingmaður og flokksbróðir eða hreyfingarbróðir hv. þingmanns sem hér talaði áðan fór með, en svo æfður er ég nú á langri setu á þessu þingi að ég hef þokkalega gott skyn á það sem menn segja og það var alveg klárt. En hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er mættur til fundar og hann getur þá borið af sér sakir. En ég heyrði það alveg skýrt að hv. þingmaður var jákvæður gagnvart þessu frumvarpi alveg eins og ég er, án þess að ég vilji lýsa yfir skýrum stuðningi við það.

En ég held að við séum á réttri braut og hugsanlega það eina sem ég get orðið sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni með er að við eigum að róa fyrir allar víkur til að reyna að nýta fé skattborgaranna betur. Ég held að það sé hægt með þessari aðferð. Ég hefði talið að það væri kannski rétt í ferðinni, eða a.m.k. í upphafi þess ferðalags, að gera það sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan að dreifa valdinu með því að láta hluta af þeim sparnaði sem til verður í svigrúmi renna til Neytendasamtakanna til að styrkja hina frjálsu rödd neytenda á þessu sviði.

Að öðru leyti segi ég við hv. þingmann að ég held að hugsanlega beri ég ekki minna skyn á það hvað hans ágæti hreyfingarbróðir sagði áðan en hann sjálfur — og þetta sagði hann.



[17:06]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég hélt því fram áðan að kostnaður við eftirlitskerfið væri á bilinu 35–40 milljarðar, ég held að ég hafi sagt það en ekki 30–40, er ég að tala um beinan og óbeinan kostnað. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson mundi gera vel í því að heimsækja til dæmis matvælafyrirtæki á Íslandi eða bifreiðaverkstæði, næst þegar hv. þingmaður fer með bílinn sinn á verkstæði, og ræða við forráðamenn fyrirtækja um þann kostnað sem þau verða fyrir við að sinna opinberu eftirliti sem verður stöðugt meira og meira og dýrara og dýrara. (ÖS: Þú veist allt …) Við getum tekið umræðu um það, hv. þingmaður, ég get tekið umræður um það. En það er alveg ljóst að beinn og óbeinn kostnaður þjóðfélagsins er á bilinu 35–40 milljarðar og ég byggi meðal annars á skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann og var birt árið 2004 fyrir forsætisráðuneytið þar sem fram komu upplýsingar sem ég hef síðan farið í gegnum og endurnýjað eða uppfært.

Það sem ég segi er: Við eigum að gera okkur grein fyrir því að fjöldi eftirlitsstofnana hefur ekkert með það að gera hvort hagsmunir neytenda séu tryggðir. Fjöldi eftirlitsstofnana hefur ekkert með það að gera að tryggja hér eðlilega og sanngjarna samkeppni. Það er ekki fjöldi eftirlitsstofnana eða hversu dýrar eða hversu mikið fjármagn fer til þessara eftirlitsstofnana sem tryggir hag neytenda eða leiðir til þess að eðlileg og sanngjörn samkeppni verði á milli fyrirtækja.



[17:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er vasklega gert hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni að gera tilraun til að skýra í einu tveggja mínútna andsvari hvernig hann ætlar að spara stórkostlegar upphæðir og sú tilraun mistókst. Hv. þingmaður gerði ekki annað en vísa í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem mat umfang þess sem hv. þingmaður kallar eftirlitsiðnaðinn, en ég minnist þess ekki að sú ágæta stofnun hafi bent á stofnanir eða eftirlit sem mætti leggja niður. Staðreyndin er sú, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að þetta er ekki bara til verndar neytendum, þetta er líka til verndar útflutningsgreinum Íslands.

Matvælaeftirlitsstofnanirnar, sem eru fleiri en ein eins og hv. þingmaður veit, eru fyrst og fremst settar upp til að tryggja að meginútflutningur Íslands, sem eru sjávarafurðir, komist á markað án þess að vera stöðvaðar á landamærum vegna þess að þeim sé áfátt hvað varðar gæðaeftirlit. Um það snýst málið.

Ef hv. þingmaður treystir sér til að benda á stofnanir á því sviði sem væri hægt að leggja niður, fínt, þá getum við sparað peninga. En getum við þá komið vörum okkar á markað? Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að fjöldi stofnananna segir ekkert til um gæði eftirlitsins og gæti meira að segja bent honum á leiðir til að skoða sameiningar viðamikilla eftirlitsstofnana. Það gæti sparað, tel ég, án þess að gæði eftirlitsins minnkuðu en það er mjög erfitt eigi að síður að gera það. Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmaður mega reyna sig á því en gæti hv. þingmaður nefnt mér einhver dæmi um stofnanir sem hann vill leggja saman eða leggja niður eða einhverja tegund eftirlits sem hann vill leggja niður?



[17:10]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get nefnt fjölda stofnana en ég ætla að taka eitt fram áður en ég geri það. Ég er ekki að tala um að kostnaðurinn, 35–40 milljarðar, falli bara niður. Ég er ekki talsmaður þess að hér verði ekki eftirlit. Ég er talsmaður þess að við komum á skynsamlegu og hagkvæmu skipulagi sem er neytendum og fyrirtækjum til góða.

Ég ætla að nefna eitt. Ég held að það eigi að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Ég held að það sé eitt af stærstu málunum sem við eigum að vinna að. Það mundi spara gríðarlega peninga. Ég held að það eigi að skoða ýmsar stofnanir er viðkoma til dæmis Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Landmælingum Íslands. Mér sýnist að hugsanlega mætti skoða samvinnu þeirra stofnana sem og Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Vinnueftirlitið, Geislavarnir ríkisins, Matvælastofnun o.s.frv. Við gætum líka skoðað, og ég skal gera það með hv. þingmanni og við gætum jafnvel fengið hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson og Unni Brá Konráðsdóttur til að vera með okkur í þeirri athugun, að einfalda innheimtukerfi ríkissjóðs. Það kostar skattkerfið, innheimtukerfið kostar 6,4 milljarða kr. á þessu ári. Þar af eru 6,3 í beinan rekstur. Ég held að augljóst sé að með einfaldara og skilvirkara innheimtukerfi opinberra gjalda sé hægt að ná fram verulegum sparnaði.

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort sameina eigi embætti tollstjóra og skattstjóra o.s.frv. Það er af nógu að taka. En fyrst mundi ég leggja niður þá stofnun sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson tók þátt í að stofna og það er Fjölmiðlastofa eða fjölmiðlanefnd eða guð má vita hvað hún heitir í dag.



[17:13]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að geta komið í veg fyrir Fjölmiðlastofu hefði hv. þingmaður þurft að stuðla að því með mér að Ísland gengi í Evrópusambandið. Það var meðal annars, og ekki síst, vegna fyrirmæla þaðan sem menn réðust í stofnun hennar. Þetta var hins vegar vasklega gert hjá hv. þingmanni. Hann kom hingað og nefndi fjölmörg dæmi. Það er kannski til marks um hvernig þróunin í stjórnmálum er að verða að helmingnum af þeim dæmum sem hv. þingmaður nefndi áðan er ég sammála. Ég er til dæmis, öndvert við þann ágæta mann sem situr hér úti í sal, þeirrar skoðunar að það eigi að skoða mjög rækilega að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Hins vegar hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjölda raka gegn því eins og ég hef komist að raun um á nokkuð þokkalegri og farsælli vegferð okkar saman síðustu árin.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni fyrr í umræðunni eins og það mætti skera burt margt af þessu eftirliti en nú hef ég komist á þá skoðun að hv. þingmaður er eftir allt saman ekki á móti því sem hann kallar sjálfur eftirlitsiðnað og vill bara að því sé hagað á annan hátt.

Það kann vel að vera að töluvert mikið megi spara með því að leggja sumar af þessum stofnunum niður. Ég var til dæmis þeirrar skoðunar á sínum tíma að það ætti að skoða samruna Skipulagsstofnunar og Landmælinga eða frekar Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar. Ég var þeirrar skoðunar. Ég hef kannski sérskoðanir á Landmælingum Íslands en ef hann þekkir mína sögu í því efni þá veit hann hvað ég vildi gera við hana á sínum tíma, en af pólitískum ástæðum tel ég ekki rétt að ég fari að rifja það upp hér á þessum degi.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans en sakna þess auðvitað að hann skuli ekki, okkur til upplýsingar, hafa haldið eina af sínum snjöllu ræðum til að leggja þetta enn gerr fyrir okkur. Ég treysti því að hann geri það þá að minnsta kosti skriflega til hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og annarra þeirra sem sitja í hagræðingarnefndinni sem, eins ég hef áður sagt þegar hv. þm. Unnur Brá var ekki hér, er greinilega búin að (Forseti hringir.) beiða upp og er ekkert að koma út úr. (UBK: Takk fyrir.)



[17:15]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil einungis í lokin þakka fyrir umræðuna. Hún hefur ekki bara málefnalegt og fræðslulegt gildi heldur á köflum líka mikið skemmtigildi og það er ekki verra. Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt, og ítreka það sem ég sagði áðan, að hér er verið að stíga ákveðið skref í neytendavernd. Ég held að það sé hárrétt sem hv. þingmaður sem talaði síðast, Össur Skarphéðinsson, talaði um, að við getum öll verið sammála um að við viljum tryggja hóflegt eftirlit og hóflegar ráðstafanir í þessu öllu. Ég vona að málið fái góða og málefnalega umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og að menn hugi að þeim breytingum, ef menn telja svo, eins og hér var rætt. Það sem situr helst í huga mér eftir umræðuna er í anda þeirra sáttastjórnmála sem ég trúi á. Það væri stórkostlegt afrek ef Alþingi mundi sammælast um þó ekki væri nema að nýta skattpeningana eins vel og við mögulega getum og að fækka ríkisstofnunum. Þá held ég að við hefðum náð talsverðum árangri.

En fyrst og síðast þakka ég fyrir umræðuna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.