143. löggjafarþing — 59. fundur.
almenn hegningarlög, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 109. mál (kynvitund). — Þskj. 112, nál. 550, brtt. 556.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:23]

[17:15]
Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú erum við að greiða atkvæði um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem þeim hópi með kynáttunarvanda er bætt inn í tvær lagagreinar. Þetta hefur fengið mikla og almenna umfjöllun í nefndinni og algjör sátt er um það, alla vega um aðra greinina um breytinguna, en hins vegar varð umræða um það sem tengist þeirri breytingu sem við erum líka að greiða atkvæði um, þ.e. um refsirammann, að breyta honum. Það var álit meiri hluta nefndarinnar án þess að taka afstöðu til þeirrar tillögu, að ekki væri verið, þó að opnaðist fyrir breytingu á almennum hegningarlögum, að opna fyrir breytingu á refsiramma laganna. Þess vegna er meiri hlutinn sammála því að breytingartillaga um afnám fangelsisrefsingar nái ekki fram að ganga í þessu þingmáli.



[17:16]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. talsmanni allsherjar- og menntamálanefndar var samstaða um málið að mestu leyti í nefndinni, þ.e. um þá breytingu sem lagt var upp með að bæta orðinu kynvitund inn í þennan lagabálk. En fram kom tillaga um að breyta ætti og taka út ákvæði um það að fangelsisrefsingar gætu komið til varðandi slík brot, þ.e. það yrði þá almenn breyting. Það var álit mitt og fleiri í nefndinni eða meiri hluta nefndarinnar að það væri ekki ástæða til að tengja þetta saman en mikill vilji fyrir því að taka málið sjálfstætt upp í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og skoða refsirammann þar. Ég heiti að vinna að því með nefndinni en treysti mér ekki til að greiða atkvæði með breytingartillögum frá Pírötum og mun greiða þar atkvæði á móti en um leið lýsa yfir vilja til þess að fara heildstætt yfir refsirammann hvað varðar þá þætti í löggjöfinni.



[17:18]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég legg þessa breytingartillögu fram til að fella burt fangelsisrefsingar fyrir tjáningarbrot. Þá vil ég ítreka að fangelsisrefsingar eru við ýmsum tjáningarbrotum á Íslandi, t.d. eins og því að gantast með trúarbrögð, sem dæmt hefur verið í í Hæstarétti árið 1983, mál nr. 16. Það þykir mér mjög óeðlilegt og því legg ég þessa breytingartillögu fram með það að markmiði að bæta frumvarpið á þann hátt að hægt sé að segja með ótvíræðum hætti að hér séum við bæði að sinna viðbótarbókuninni sem frumvarpið byggir á, en einnig að styrkja tjáningarfrelsið. Þá væri hægt að greiða atkvæði með þessu frumvarpi. Verði breytingartillagan felld, sem ég því miður býst við að verði, munum við píratar sitja hjá. Við munum leggja breytingartillöguna fram í frumvarpi á svokölluðum öðrum vettvangi samkvæmt nefndaráliti hv. meiri hluta.



[17:19]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir flestallt það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði í umræðunni enda endurspegla rök hans afstöðu meiri hluta nefndarinnar tel ég vera, þ.e. þau að hér er fyrst og fremst verið að bæta einum hópi inn í lögin í samræmi við þróun mannréttindamála í löndunum í kringum okkur og stöðu þess hóps sem um ræðir í samfélagsumræðunni almennt. Við teljum að af því tilefni sé ekki rétt, vegna þess að lögin opnist þess vegna, að fara inn í refsirammahlutann almennt en höfum hins vegar tekið undir þau sjónarmið að rétt sé að skoða bæði stöðu tjáningarbrota svokallaðra í hegningarlögum, en ekki síður almennt refsiramma við hegningarlagabrotum. Ég sé fyrir mér að full ástæða sé til að hvetja Pírata áfram í því að útbúa sérstakt þingmál til að skoða þetta ítarlega.



[17:20]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er ánægjulegt að heyra að þingmenn séu tilbúnir til að skoða þá miklu tímaskekkju sem felst í því að hægt sé að fangelsa fólk fyrir að tjá skoðanir sínar. Ég fagna því og vona að þingmenn meiri hlutans séu jafnframt opnir fyrir þessum breytingum, því það á ekki við á 21. öldinni að fólk geti þurft að sitja í fangelsi fyrir að segja skoðanir sínar þó að þær falli ekki öllum í geð. Ég vil ítreka að við erum ekki að leggja til að það verði refsilaust, en aftur á móti að fólk þurfi ekki að sitja í fangelsi fyrir það að hafa skoðanir.



[17:21]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál sé að verða að lögum. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa lagt málið fram og allsherjar- og menntamálanefnd kærlega fyrir góða vinnu. Málið er nánast samhljóða frumvarpi sem ég lagði sjálf fram sem sneri að því að bæta við kynvitund, að sérstakt ákvæði þyrfti til að vernda fólk vegna kynvitundar og að sá hópur þyrfti sérstaklega á vernd laganna að halda. Þetta er gott skref, en við þurfum að gera meira.

Ég vonast til þess að eitt af næstu skrefunum sem við tökum verði að samþykkja frumvarp sem lýtur að því að vernda fólk almennt gegn mismunum á vinnumarkaðnum þar sem tekið verður á hinum ýmsu hópum sem geta og hafa orðið fyrir mismunun.

Ég fagna því líka að Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að huga enn frekar að málefnum (Forseti hringir.) hinsegin fólks. Ég hlakka til að vinna þá vinnu.



[17:22]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil í tilefni af þessari atkvæðagreiðslu nota tækifærið og þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnuna í kringum þetta mál og þakka þingmönnum allra flokka fyrir hversu vel hefur verið tekið á málinu og hversu góð samstaða hefur náðst um það. Það er ekki sjálfgefið að þingheimur og fulltrúar allra flokka taki saman höndum um svona mál, það er ekki sjálfgefið. Ísland hefur hins vegar fyrir löngu ákveðið að vera hugrakkt og framsýnt hvað varðar þau mál. Ég er stolt af því að tilheyra Alþingi sem tekur á málunum á þennan hátt. Það skiptir miklu máli fyrir hópa í samfélaginu og þá fjölbreytni sem við viljum hafa til staðar hér að við höfum tekið það skref að samþykkja þessi lög í dag.



Brtt. 556 felld með 52:3 atkv. og sögðu

  já:  BirgJ,  HHG,  JÞÓ.
nei:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  ElH,  ELA,  EyH,  EIS,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHj,  HöskÞ,  IngÓ,  JMS,  JónG,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SIJ,  SKjær,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞórE,  ÖS.
8 þm. (ÁsmD,  GBS,  IllG,  JKB,  KJak,  KaJúl,  SDG,  SigrM) fjarstaddir.

Frv.  samþ. með 53 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  ElH,  ELA,  EyH,  EIS,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHj,  HöskÞ,  IngÓ,  JKB,  JMS,  JónG,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SigrM,  SIJ,  SKjær,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞórE,  ÖS.
3 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ) greiddu ekki atkv.
7 þm. (ÁsmD,  ÁsF,  GBS,  IllG,  KJak,  KaJúl,  SDG) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þar sem breytingartillagan var felld verðum við að sitja hjá að þessu sinni. Þó vil ég árétta að 1. gr. frumvarpsins sem miðar að breytingu á 180. gr. almennra hegningarlaga er eitthvað sem við tökum heils hugar undir. Sömuleiðis vil ég árétta að það er ekki viðbót orðsins „kynvitund“ sem er vandamálið við breytinguna á 233. gr. a, heldur fyrst og fremst orðalagsbreytingin. Þar sem frumvarpið er ekki klárlega hlutlaust eða bót á tjáningarfrelsinu sjáum við okkur ekki fært að styðja það.

Ég vildi árétta sérstaklega að við hefðum stutt 1. greinina ef hún væri ein og sér. Í því sambandi langar mig að nefna, af því að það hefur komið fram að breytingartillaga okkar eigi kannski ekki heima í þessu tiltekna þingmáli, að 1. og 2. gr. eru eðlislega ólíkar, bæta báðar við kynvitund, en breytingin sem á við í 2. gr. frumvarpsins er ólík þeirri sem er í 1. gr. Það er gott og vel að okkar mati en þess vegna lögðum við fram breytingartillögu og sitjum hjá af þeim (Forseti hringir.) sökum.