143. löggjafarþing — 107. fundur.
efling tónlistarnáms, 2. umræða.
stjfrv., 414. mál (nám óháð búsetu). — Þskj. 751, nál. 1054.

[11:51]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti nefndarinnar, en með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags sem ríkið gerði við sveitarfélög um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar samkomulags um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, en það var undirritað 13. maí 2011.

Hér er gert ráð fyrir því að fjármögnun þeirra verkefna sem þar er um getið verði áfram á ábyrgð sveitarfélaga og er fjármögnun þeirra tryggð með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda.

Nefndin lítur svo á að það hafi við undirritun samkomulagsins verið skýrt af hálfu ríkisvaldsins að um viðbótarframlag var að ræða sem átti að efla tónlistarnám á framhalds- og miðstigi. Það kom fram, við meðferð nefndarinnar á málinu, nokkur gagnrýni á túlkun sveitarfélaga á samkomulaginu. Margir umsagnaraðilar telja að við það hefðu sveitarfélögin kosið að draga úr fjárveitingum til tónlistarnáms. Við gagnrýnum þetta og ítrekum þann skilning okkar að samkomulagið hefði átt að efla og jafna aðstöðu til tónlistarnáms. Við áréttum jafnframt mikilvægi þess að fundin verði ásættanleg lausn og varanleg niðurstaða varðandi fjármögnun tónlistarnáms í stað tímabundinnar lausnar. Það verður að vera skýrt hvar ábyrgðin liggur.

Það kom fram í vinnslu nefndarinnar að yfir stendur vinna við heildarendurskoðun málaflokksins. Við teljum mjög mikilvægt að þegar niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir verði búið að beina sjónum sérstaklega að þessum ágreiningi og þess verði gætt að slík álitamál verði ekki uppi að heildarendurskoðun lokinni. Það er mikilvægt að mati nefndarinnar að þeirri vinnu verði hraðað svo að fram komi ný heildstæð löggjöf sem marki skýran lagaramma um starfsemi tónlistarskóla.

Að þessu nefndaráliti standa eftirfarandi hv. þingmenn: Sú sem hér stendur, Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Nefndin stendur öll að þessu máli og við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.[11:53]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hyggst nú ekki lengja þessa umræðu, en vil bara ítreka hér að það skiptir verulegu máli að um er að ræða tímabundið samkomulag. Verið er að framlengja það þannig að það gildi áfram til áramóta, en heildarendurskoðun stendur yfir. Ég tel mjög nauðsynlegt að í þeirri heildarendurskoðun verði tekið tillit til þess að höfuðborgin hefur sérstakar skyldur og sérstakt hlutverk í þessu. Þetta leggst af meiri þunga, held ég að megi fullyrða, á höfuðborgina en önnur sveitarfélög, til dæmis vegna þess að hér er í boði kennsla sem ekki er í boði annars staðar. Þess vegna flytur fólk kannski frekar til Reykjavíkur vegna þess að þar er framboð á kennslu sem ekki er hægt að finna annars staðar. Einnig má líka segja að þegar fólk kemur í framhaldsnám í háskóla, t.d. í Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík eða hvar sem það er, sækir það kannski áfram framhaldsnám í tónlist, meðfram öðru námi.

Ég vil leggja áherslu á það hér, virðulegur forseti, að ég tel mjög nauðsynlegt að þegar þetta samkomulag verður endurskoðað verði tekið sérstakt tillit til Reykjavíkur, til höfuðborgarinnar, í þessu sambandi. Ég veit og við vitum það öll að auðvitað vill höfuðborgin eins og önnur sveitarfélög styðja þetta og leggja sitt fram, en það verður líka að taka tillit til þess að það leggst meira á Reykjavík í þessu atriði en á önnur sveitarfélög.

Það var bara þetta sem ég vildi vekja athygli á við þetta tækifæri.