144. löggjafarþing — 13. fundur.
merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja, 1. umræða.
stjfrv., 99. mál (EES-reglur). — Þskj. 99.

[16:10]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get glatt hv. þm. Frosta Sigurjónsson með því að ég er að koma með annað mjög keimlíkt mál hér, en það er breyting á öðrum lögum. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja.

Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB um ramma til að setja fram kröfur varðandi merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum. Núgildandi lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja byggja á forvera tilskipunar 2010/30/ESB sem er tilskipun nr. 92/75/EBE.

Meginmarkmið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku. Tilskipunin leggur skyldur á herðar þess aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð. Tilskipuninni er þannig ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara á innri markað Evrópusambandsins og að vörunni fylgi viðeigandi upplýsingar til hagræðingar fyrir neytendur. Bæði er því um neytendamál og orkumál að ræða.

Efnislega eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tvíþættar. Fyrra atriðið snýr að gildissviði laganna. Núgildandi lög gilda um vörur sem nota orku en verði frumvarpið að lögum munu lögin gilda um vörur sem eru orkutengdar, „energy related products“. Með því er gildissvið laganna víðtækara. Með orkutengdum vörum er þannig til dæmis átt við glugga eða einangrunarefni þar sem með betri hönnun má ná fram orkusparnaði.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að eftirlit með framkvæmd laganna verði alfarið í höndum á Mannvirkjastofnun. Er þetta á sama hátt og í frumvarpinu sem við ræddum hér áður til samræmis við nýleg lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar. Með frumvarpinu eru Mannvirkjastofnun fengin úrræði í samræmi við þau úrræði sem hún hefur í öðrum lögum til að tryggja að eftirlitið fullnægi kröfum.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi frekar en núgildandi lög mikil áhrif á íslenska framleiðendur þar sem framleiðsla fárra innlendra framleiðenda fellur undir ákvæði frumvarpsins. Hins vegar hefur frumvarpið áhrif á neytendur þar sem það leggur ákveðnar kröfur á framleiðendur á EES-svæðinu varðandi upplýsingaskyldu um orkunotkun viðkomandi vöru.

Þetta frumvarp er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Mannvirkjastofnun sem fer með markaðseftirlit og framkvæmd laga nr. 72/1994 auk Neytendastofu sem fór áður með málaflokkinn.

Í kostnaðarumsögn við frumvarpið kemur fram að verði frumvarpið að lögum er ekki ráðgert að það hafi í för með sér aukningu í útgjöldum ríkissjóðs þó svo að það kunni að fela í sér einhverjar auknar eftirlitsskyldur af hálfu Mannvirkjastofnunar.

Herra forseti. — Fyrirgefið, frú, nei, herra forseti. Já, þetta sýndist mér áðan. Með frumvarpi þessu er fyrst og fremst um að ræða ákveðna útvíkkun á gildissviði núverandi laga sem og breytingu á hlutverki Mannvirkjastofnunar hvað eftirlit með þeim lögum varðar. Til upplýsingar er einnig rétt að benda á að í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvílir skylda á íslenskum stjórnvöldum til að innleiða umrædda tilskipun í íslensk lög og hefur Eftirlitsstofnun EFTA sent íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit, svokallaða „reasoned opinion“, þar sem gerð er athugasemd við að ekki sé búið að innleiða tilskipunina. Að óbreyttu mun það mál fara fyrir EFTA-dómstólinn ef innleiðing dregst frekar á langinn.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.



[16:15]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að eftir svo sköruglegan maraþonlestur á flókinni ræðu þá ringlist menn með þeim hætti að þeir sjá út undan sér jafnvel hæstv. forseta birtast sem kvenlega gyðju. Það er nú önnur saga.

Ég kem hér til þess að lýsa stuðningi við þetta frumvarp. Ég tel að þetta sé til marks um það að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu feli í sér mjög mikilvæga neytendavernd. Ég veit það að ýmsir hv. þingmenn eru mér ósammála og telja að þetta leggi aðeins á okkur alls konar kvaðir og skyldur. Í tengslum við það og væntanlega ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, að ég segi nú ekki fyrri ræður hans hér í dag, þá er staðan einfaldlega þannig að það er alveg sama hvað við rembumst í þessum málum, við verðum að taka því sem að okkur er rétt frá Evrópusambandinu vegna aðildarinnar að EES. Það er einfaldlega þannig. Það má vel vera að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að hægt sé að setja atgervi í það að skoða málin fyrr í ferlinu, en reynslan sýnir að það er ákaflega erfitt að breyta þeim.

Þess vegna hef ég stundum sagt við þann ágæta hv. þingmann að honum væri nær að slást í för með mér og ríða í herfylkingu inn í Evrópusambandið vegna þess að þar getum við haft þessi áhrif. Þar höfum við valdið til þess.

Þetta var nú ekki efni ræðu minnar. Ég er þegar búinn að lýsa stuðningi við þetta mál, en ég ætla líka að óska hæstv. ráðherra til hamingju með það hvað hún er dugleg að ryðja hér í gegn hverju Evrópufrumvarpinu á fætur öðru. Það hefur engin ríkisstjórn staðið sig svona vel. Það var nýlega upplýst í fjölmiðlum að helmingurinn af öllum þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram er Evrópufrumvörp. Þetta er fólkið sem var á móti Evrópusambandinu en enginn stendur sig jafn vel í að koma fyrirmælum og skipunum Evrópusambandsins til skila og það fólk. Ég segi bara: Batnandi fólki er best að lifa.



[16:17]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með að hv. þingmaður getur skemmt sér yfir þessum ræðuhöldum hérna. Maður á að passa sig á því hvað maður segir í fortíðinni, þetta kemur allt í hausinn á manni. En það sem ég get þó sagt er að við erum hér að glíma við innleiðingarhalla frá fyrri ríkisstjórn og þess vegna þurfum við að klára þessi ágætu mál.

Að öllu gríni slepptu erum við hv. þingmaður, og það kemur honum svo sannarlega ekki á óvart, ekki alveg sammála í Evrópumálunum. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar eftir að hafa unnið og skoðað hvernig við höfum látið tækifærin fram hjá okkur fara í fortíðinni. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að við getum komið athugasemdum okkar, sjónarmiðum og fyrirvörum miklu fyrr og miklu sterkar á framfæri en við höfum gert og ég held að það sé alveg sama í hvaða flokki menn eru eða hvenær þeir hafa setið á þingi. Við fórum mjög ítarlega yfir þetta í utanríkismálanefndinni frá 2007–2009 í tíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem utanríkisráðherra. Utanríkismálanefndin fór vel yfir þetta og þegar við röktum okkur aftur til ársins 1991 og 1992 þegar menn voru að setja sér reglur um það hvernig ætti að hafa samskiptin og koma athugasemdum á framfæri voru allir sammála um að þessum reglum var aldrei framfylgt. Ég held að við eigum að gera gangskör að þessu og ég veit að það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur áform um.



[16:19]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá var kannski munurinn á mér sem ráðherra og hæstv. forseta þegar hann fór með handhöfn framkvæmdarvalds að við fórum ekkert á tauginni gagnvart ESB. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að það hafi verið hyskni okkar sem veldur því að hún er hér sveitt við að troða Evróputilskipunum í gegn en það var einfaldlega þannig að við fórum á þeim hraða sem okkur þótti ESB verðskulda. Við erum alla vega ekki að tapa svefni yfir því þótt tilskipanir af þessu tagi séu skoðaðar ákaflega vel af þinginu. Hæstv. ráðherra vísar auðvitað til þess að það er verið að skaka skellum úti í Evrópusambandinu. Ég bendi hæstv. ráðherra á að taka sér til fordæmis hv. formann utanríkismálanefndar. Hann tekur sér allan þann tíma eins og vera ber fyrir hönd nefndarinnar til að skoða málið út í hörgul jafnvel þótt verið sé að láta hnútasvipu ríða á herðablöðum manna með einhvers konar hótunum um dagsetningar á fundi úti í Brussel. Við ráðum þessu sjálf.

Að öðru leyti óska ég hæstv. ráðherra líka til hamingju með það að hún er samkvæm sjálfri sér. Hún er í ríkisstjórn sem lýsti því beinlínis yfir, sem kom mér mjög á óvart, að hin nýja Evrópustefna fælist í því að flýta innleiðingu tilskipana og hún hefur staðið sig vel í því, eins og ég hef þegar rakið, miklu betur heldur en ég. Þessi ríkisstjórn hefur nú þegar á skömmum ferli sett Íslandsmet þegar hún tróð hér í gegn með dæmafáum flýti tilskipun sem ekki var búið að staðfesta úti í Brussel og var ekki orðin formlega til. Ég held að það sé heimsmet en ég læt mér það í léttu rúmi liggja þó að slík met séu slegin og hyggst ekki reyna að keppa við hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Varðandi það hvort hægt er að hafa áhrif er auðvitað hægt að hafa einhver áhrif. Það er hægt að benda á svolítið dæmi um það, þau eru ekki mjög stór. Í öllum hinum stærri málum sýnir reynslan að það er alveg sama hvað menn skakast, það gengur ekki neitt. Það er bara ein leið til. Ég ætla ekki að pirra hæstv. ráðherra með því að rifja hana enn einu sinni upp.



[16:21]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því að það sé af hræðslu við Evrópusambandið sem við erum að klára innleiðingarhallann sem fyrrverandi ríkisstjórn skildi eftir sig. Auðvitað snýst þetta í grunninn bara um það. Við erum í samstarfi um Evrópska efnahagssvæðið, samstarfi sem við af fúsum og frjálsum vilja undirgengumst og við erum þar þátttakendur. Þetta snýst ekki um að skoða ekki málin út í hörgul, það á að sjálfsögðu að skoða mál út í hörgul. Ég dreg það ekkert í efa að hv. formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, stendur sig afar vel í því að sinna þeim málum sem á hans borði lenda.

Þetta snýst líka um það að þau mál sem við erum sannarlega skuldbundin til að taka upp og eru komin í ákveðinn farveg, hvort sem það er kæra eða svokallað „reasoned opinion“, afsakið að ég skuli sletta, herra forseti, það er ekki bara að þetta taki tíma frá okkar smáu stjórnsýslu við að sinna kærum og kvörtunum heldur kostar það stórfé. Ég tel að við eigum að koma okkur í þá stöðu að við getum einbeitt okkur að þeim málum sem eru á þeim stigum þar sem við getum og höfum sannarlega tækifæri til að gera athugasemdir og afgreiða þau, þegar við höfum gert á þeim allar þær breytingar sem við teljum skynsamlegar, en vera ekki að drattast með þau í löngum röðum fyrir EFTA-dómstólnum eða fyrir ESA. Ég held að það sé öllum til hagsbóta.



[16:23]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., með síðari breytingum. Hér er líkt og í því máli sem við ræddum á undan þessu verið að tryggja samræmi og víkka út gildissviðið þannig að það nái ekki aðeins yfir vörur eða heimilistæki sem nota orku heldur að teygja það út yfir vörur sem tengjast orkunotkun.

Hér er einnig verið að innleiða mikla refsigleði því að sektir gegn brotum á þeirri upplýsingaskyldu sem hér á að leiða í lög skulu nema allt að 500 þús. kr. á dag. (Iðnrh: Lögreglan var með þetta áður.) Á tíu dögum eru það 5 millj. kr. fyrir að hafa ekki veitt upplýsingar um eitthvað sem okkur langar ekki einu sinni að vita. Það er engin sérstök ástæða til að vera með slíka refsigleði. Ég vona að hv. atvinnuveganefnd komi einhverju viti í þetta. Þetta er í engu samræmi við það tjón sem hægt er að baka með því að upplýsa ekki um það hvort einhver vara sé í orkuflokki A eða B eða draga þessa upplýsingagjöf í einn dag. Ég skil þetta ekki. Ég má kannski beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé áskilnaður Evrópusambandsins í þessari tilskipun að sektin nemi allt að 500 þús. kr. á dag, til að knýja fram upplýsingar um það hvort varan sé þetta mörg vött eða ekki. Ég vona að við séum hér ekki á óheillabraut.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hrósaði hæstv. ráðherra fyrir þann dugnað að innleiða allar þessar íþyngjandi reglugerðir yfir þjóðina þegar honum og hans ríkisstjórn hefði tekist að draga það. Ég heyrði ekki betur en að hann væri að gefa góð ráð um hvernig hægt væri að halda áfram að draga þetta. Ég vil hrósa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir það og þakka honum fyrir öll góð ráð í þessu efni.

Ég vil vara við því að innleiða hér mjög íþyngjandi ákvæði sem gengur þvert á þann tilgang gerðarinnar sem er ýjað að, að tryggja samræmi í merkingum. Það er í raun verið að reisa tæknilega viðskiptahindrun þannig að íslenskir innflytjendur á vörum, t.d. vörum utan Evrópska efnahagssvæðisins, frá Kína, Asíulöndum, Bandaríkjunum eða löndum Mið- og Suður-Ameríku, geta lent í stappi við að flytja þær inn. Að sjálfsögðu eru einhverjir menn í Suður-Kóreu sem framleiða hugsanlega mjög vandaða og góða vöru ekki tilbúnir til að búa til upplýsingar á íslensku um það hvað varan er mörg vött, hver orkunotkunin er eða hvaða hávaða hún framleiðir.

Ég held, ef það er einhver leið til þess, að við eigum að reyna að innleiða þetta þannig að það valdi sem allra minnstu tjóni og liður í því getur ekki verið að hafa sektarupphæðir allt upp í 500 þús. kr. á dag.



[16:27]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara hv. þingmanni varðandi sektarákvæðin þá eru þetta hefðbundin úrræði sem Mannvirkjastofnun hefur í sambærilegum málum. Ég get upplýst hv. þingmann um að þessu hefur aldrei verið beitt. Ég get líka upplýst hv. þingmann, sem hafði áhyggjur af refsigleði, að þetta eftirlit var áður í höndum lögreglu. Við töldum það ekki rétt og breyttum því.



[16:28]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fyrst ætla ég að byrja á því að segja að ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni þegar hann nánast skellir upp úr og slær sér á lær af mikilli undrun yfir þessari refsigleði. Hann kom hér með mjög fína og beinskeytta spurningu sem ég tók eftir að hæstv. ráðherra vék sér undan að svara. Hv. þingmaður spurði hvort það væri öruggt að það væri krafa Evrópusambandsins að skella svona svakalegri sekt á menn fyrir að skirrast við það að koma á framfæri tilteknum upplýsingum. Það kom ekkert svar við því. Ég get ekki svarað því heldur. En ég vil hins vegar segja það, svo það komi fram, af því að eins og hæstv. forseti og reyndar aðrir þingmenn og sérstaklega hv. þm. Frosti Sigurjónsson vita er ekki hægt að telja mig til hóps óvildarmanna ESB, miklu frekar mundu menn segja að ég væri óhóflega hrifinn af þeim samtökum, að sé það ESB sem fyrirskipar svona fáránlega háar sektir get ég ekki annað en tekið undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að þarna skíni í gegn óþarfarefsigleði. Þá finnst mér að nefndin eigi að skoða það mjög rækilega. Ég er þeirrar skoðunar að í svona efnum geti ekki verið annað en að við höfum eitthvert vald, þó að lýðræðishalli innan EES sé þannig að við verðum að standa og sitja eins og Brussel vill í þessum efnum þangað til við gerumst aðilar að ESB.

Ég hef áður lýst stuðningi mínum við þetta frumvarp. En mig langar aðeins til að ræða hér orð hæstv. ráðherra um að Íslendingar ætli nú loksins að taka á honum stóra sínum og láta finna fyrir sér í Brussel. Þeir ætli sér að hafa áhrif fyrr í ferlinu og brjóta mál á bak aftur ef hagsmunir krefjast. Þetta er partur af hinni nýju Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég velti því fyrir mér hvort þá sé farsælt til að koma þessu í kring að draga heldur úr starfsemi sendiráðsins í Brussel. Þar hefur árum saman verið að fækka starfsmönnum sem þangað eru sendir af hálfu einstakra ráðuneyta. Ég leit oft svo á að þeir starfsmenn, sem voru beinlínis fulltrúar einstakra ráðuneyta, væru kannski langmikilvægastir hvað þetta varðar.

Eigi að síður veit ég ekki betur en að þessi ríkisstjórn hafi skrælt enn frekar utan af sendiráðinu. Nóg var nú gert þegar ég og hæstv. forseti sátum í ríkisstjórn og vorum nauðbeygðir til að reyna hvar sem hægt var að skera öll fitulög og jafnvel dýpra. Við reyndum þó að snúa við af þeirri braut einmitt til að verja þessa hagsmuni. Ef hæstv. ráðherra telur að þetta sé mikilvægt þá verður maður að spyrja sig þeirrar spurningar: Af hverju sýnir hæstv. ríkisstjórn það ekki í verki með því að bæta við fjárveitingum til að kosta þá vinnu?

Það er kannski af því að hæstv. ráðherra hefur skoðað málið vel. Hugsanlega hefur hún leitað ráða hjá Norðmönnum. Ef til vill hefur hún lesið skýrsluna sem kennd var við Sejersted, sem við ræddum á sínum tíma í þinginu. Það er 980 blaðsíðna úttekt á því hvernig aðild að EES hefur haft áhrif á norskt samfélag, norskt stjórnkerfi og úttekt á möguleikum Norðmanna til að hafa áhrif á ákvarðanirnar sem þar eru teknar og varða Norðmenn. Í skýrslunni kemur fram að Norðmenn hafa 80 manna sendilið í Brussel beinlínis til að vinna að þessu og hver varð niðurstaða skýrslunnar? Hún var sú að það voru engin tækifæri fyrir Norðmenn með sitt 80 manna herlið í Brussel til að hafa nokkur áhrif sem einhverju næmi. Það er reynsla þeirra. Hver er staðan fyrir okkur? Hvað er umfangið mikið af þeim störfum sem við þurfum að sinna ef við ætlum okkur að vera alltaf á varðbergi, fylgja hverju máli eftir? Þetta eru 400 nefndir. Íslendingar þyrftu að fylgjast með 400 nefndum ef þeir ætluðu að nýta sér allan sinn rétt til að fylgjast með öllum málum frá vöggu og fram á sokkabandsárin. Hvernig á ríki eins og við að geta sinnt því? Það er mjög erfitt, jafnvel þótt allir væru af vilja gerðir.

Hvað höfum við gert? Við höfum farið þá leið að leita til Norðmanna. Við höfum í mörgum og langflestum tilvikum reynt að vera í þannig sambandi við Norðmenn að þeir láti okkur vita ef þeir telja að í sömu málum, sem við höfum ekki getað sinnt eða fylgt eftir, sé eitthvað að gerast sem kynni að varða okkar hagsmuni. Þannig er það. Hvernig er hægt að ætlast til þess, ef Norðmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir hafi ekki getað haft áhrif á löggjöf sem kemur frá Brussel með margfalt meira lið en við, að við leitum síðan til þeirra? Þar seilast menn um hurð til lokunnar. Hins vegar getur hæstv. ráðherra verið vígreif og sagt: Við ætlum að gera þetta allt miklu betur, krakkar, við skulum bara taka á því, vera Íslendingar og vinna málin.

En svona er staðan: Frá því að við urðum aðilar að EES á sínum tíma hafa hlutirnir gerbreyst innan Evrópusambandsins. Lýðræðishallinn innan sambandsins hefur verið þannig að menn hafa neyðst til að reyna að vinna gegn honum. Því hefur Evrópuþingið fengið miklu meiri völd. En völdin sem fara til Evrópuþingsins þýða um leið að vægið sem við höfðum til að geta haft áhrif á mál minnkar allverulega.

Ef upp koma deilumál innan Evrópusambandsins þar sem er ágreiningur á milli ráðherraráðsins, framkvæmdastjórnarinnar annars vegar og Evrópuþingsins hins vegar fer málið í ákveðið ferli þar sem leitað er samráðs. En ef það ferli leiðir ekki til niðurstöðu sem sátt er um, þá ræður þingið, eins og dæmin sýna. Þó að við höfum sannarlega rétt til að hafa aðkomu á allra fyrstu stigum að mótun löggjafar og reglna frá Evrópusambandinu rýkur það allt út í veður og vind ef ágreiningur kemur upp sem er leystur með þessum hætti.

Ég hef stundum velt því fyrir mér: Hvar höfum við möguleika til að hafa áhrif í þeim tilvikum þegar um er að ræða stóra hagsmuni fyrir Ísland? Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin væri sennilega að þekkjast boð sem á sínum tíma var beint til okkar Íslendinga frá þingflokkunum sem eiga sæti á Evrópuþinginu. Það fól í sér að íslensku stjórnmálaflokkarnir gætu haft áheyrnarfulltrúa með fasta setu í þingflokkunum á Evrópuþinginu.

Ég held að ef það kæmi upp stórt álitamál sem varðaði íslenska hagsmuni miklu þá mundu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi væntanlega allir vera sammála um hvernig ætti að bregðast við í því máli og reyna að breyta því. Þá mundu þeir, hver með sínum hætti í gegnum fulltrúa sína eða seturétt í þessum þingflokkum, geta haft áhrif. Það væri besta leiðin, í gegnum flokkahópa sína. Ég held að það sé eina leiðin við núverandi aðstæður þar sem við gætum haft möguleika utan Evrópusambandsins á að hnika til verulega stórum málum ef til kæmi. Ég vísa bara til Sejersted-skýrslunnar. Norðmenn komust að þessari niðurstöðu og sama hvað ríkisstjórnin talar hátt um að hún ætli að reyna að breyta þessu ferli, sýna meiri aðgæslu og vera fyrr á ferðinni hefur það ákaflega lítil áhrif. Það sýnir reynslan. Ég tel líka að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir þessu því á sama tíma og hún heldur þessu fram skrúfar hún niður fjármagnið sem á að fara til að standa þessa varðstöðu, þannig að hún skilur þetta alveg jafn vel og ég.



[16:36]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hressilegt að vera komin hér í Evrópuumræðu. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki tekið þátt í henni um nokkurra mánaða skeið en hún er alltaf athyglisverð.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér, lýðræðishalla innan Evrópusambandsins, 400 nefndir, hvernig getum við sinnt þessu, þá er það mjög góð umræða. Hún á við hvort sem við erum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið eða innan Evrópusambandsins vegna þess að okkur Íslendingum fjölgar ekkert við það að ganga í Evrópusambandið, þó að hv. þingmaður kynni að halda það. Það þarf að dekka þessa pósta hvort sem er. Auðvitað eigum við að halda áfram að vinna náið með Norðmönnum.

Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um niðurstöðu skýrslunnar sem hann nefnir. Nú er dálítill tími síðan ég las hana en í minningu minni er niðurstaða hennar ekki svo afdráttarlaus að Norðmenn hafi ekki haft nein áhrif. Þar er meðal annars sett fram gagnrýni á lýðræðishallann í Evrópusambandinu, hvort sem ríki eru innan þess eða utan.

Varðandi samstarf við þingflokkana á Evrópuþinginu get ég tekið undir með þingmanninum að það er auðvitað eitthvað sem við eigum að gera, enda var það ein af tillögunum sem kom út úr fyrrnefndri vinnu okkar í utanríkismálanefnd á sínum tíma, að styrkja samskipti þingsins og flokkanna við Evrópuþingið. Ég er þar þingmanninum alveg sammála, ég held að það sé lykilatriði enda hafa flokkarnir held ég flestir hverjir verið að gera það, hvort sem er, til þess að komast nær ákvarðanatökunni þar. Ég held að við eigum að forgangsraða hvar við eigum að vera á vaktinni og passa upp á að við séum til staðar (Forseti hringir.) þar sem við höfum tækifæri til að gera athugasemdir.



[16:39]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er Evrópusinni en ég geri mér alveg grein fyrir hvernig staðan er. Ísland er utan Evrópusambandsins og það eru ekki líkur á því að við hoppum þangað inn meðan núverandi ríkisstjórn er við völd. Þá hugsa ég sem góður borgari: Hvernig getum við þá komið árum okkar best fyrir borð til að hafa áhrif?

Ég er þeirrar skoðunar að sterkasta leiðin sé sú að þingflokkarnir hefðu fulltrúa í samsvarandi pólitískum hópum á Evrópuþinginu. Þá ætti þingið einfaldlega að sjá til þess að menn gætu það og veita fjármagn til þess, ekki með þeim hætti sem hæstv. ráðherra talar hér um að flokkarnir, sem eru allir skítblankir og meira og minna utanveltu fjárhagslega, kosti slíkt. Það eru engin sambönd, það eru engin tengsl ræktuð þannig.

Ég held hins vegar að ástæðan fyrir því að menn hafa aldrei hugsað þessa hugsun til enda sé sú — og ég vona að hv. þm. Frosti Sigurjónsson misvirði það ekki við mig og telji að ég sé að gera honum upp skoðanir en ég tek hann sem dæmi — þá finnist mönnum eins og hv. þingmanni að ef við færum þessa leið værum við komin með eina tá inn í Evrópusambandið. Menn mega ekki til þess hugsa. Þeir þora sem sagt ekki að hugsa þá hugsun til enda og taka þessa ákvörðun. En ég held að þetta væri best fyrir íslenska hagsmuni í núverandi stöðu. Það er mín skoðun.

Hæstv. ráðherra segir réttilega að hér töluðu menn um þetta síðasta kjörtímabil í utanríkismálanefnd. Herra trúr, ég sat í nefnd undir forustu Björns Bjarnasonar þar sem ég kom fram með þessa tillögu. Mig minnir að hún hafi verið partur af Evrópuskýrslunni. Hér var samþykkt ályktun að tillögu núverandi hæstv. forseta Einars K. Guðfinnssonar. Hefur eitthvað gerst í því? Nei, ekki neitt, því miður. Það er eins og menn hafi ekki trú á því að hægt sé að láta reyna til þrautar að hafa áhrif þarna. Ég held að það sé hægt með einni aðferð en bara einni, ef um stóran hlut er að ræða. Það er sú sem ég reifaði hérna áðan.



[16:41]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar erum við í grundvallaratriðum ósammála. Ég hef trú á því og ríkisstjórnin að við getum haft meiri áhrif en við höfum haft. Og varðandi tillögur um að styrkja samskipti þingsins við Evrópuþingið þá fylgdu þeim tillögum einmitt fjárútlát. Þær komu fram síðla árs 2008 þannig að við efnahagshrunið voru þetta kannski ekki þær tillögur sem voru settar fyrst í framkvæmd. En ég held að við ættum, þegar betur fer að ára, að draga þær fram að nýju því að þetta er lykilatriði.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að til að styrkja þetta starf þurfum við að kosta til fjármunum. Það er einfaldlega þannig. Við þurfum að styrkja utanríkisþjónustuna, til að mynda með því að forgangsraða verkefnum. Það hefur til dæmis losnað um talsverðan fjölda starfsfólks frá tíð hv. þingmanns sem utanríkisráðherra sem var upptekið í aðildarviðræðum og sinnir þá núna frekar ýmissi hagsmunagæslu á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins og fylgir þeim samningum eftir. Það þarf því ekki alltaf að kosta til auknum fjármunum heldur er þetta líka spurning um til hvaða verkefna við leggjum fjármuni og hvernig við nýtum þá best.

Ég held að aðalmarkmiðið sé að gæta íslenskra hagsmuna. Þar veit ég að hv. þingmaður og ég erum sammála jafnvel þótt við séum ekki, eins ótrúlega og það hljómar, sammála um alla hluti.



[16:43]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skilur varla nokkur maður af hverju ég er ekki sammála öllu sem hæstv. ráðherra segir. En hún hefur sterka trú á að þetta sé hægt. Það er jákvætt, trúin flytur fjöll og það er margt hægt að gera ef menn eru bjartsýnir og hafa trú á því sem þeir eru að gera.

Ég óttast það hins vegar að ríkisstjórnin deili ekki þeirri fjallgrimmu vissu hæstv. ráðherra um að þetta sé hægt. Ef hún gerði það hefði hún látið meira fjármagn til málaflokksins. (Gripið fram í.) Það hefur hún ekki gert. Þá segir hæstv. ráðherra: Það þarf að forgangsraða. Þá verður hæstv. ráðherra að rifja það upp í sínu góða minni að það voru engir nýir ráðnir í utanríkisráðuneytið til að sinna Evrópumálum. Það má vel vera að gengið hafi verið á fyrningar þar, ég ætla ekki að segja að þær séu eyddar, en vissulega væri örugglega hægt að forgangsraða þannig að hægt væri að setja meiri mannafla til sendiráðsins í Brussel. En það hefur ekki verið gert að neinu sérstöku marki. Það er einfaldlega þannig. Hins vegar er hárrétt hjá ráðherra að það eru margir mjög góðir starfsmenn í utanríkisráðuneytinu sem hafa mikla þekkingu á einmitt þessum málaflokkum.

Oft er það þannig eins og t.d. varðandi mál sem við höfum verið að ræða hér í dag, visthönnun vöru, neytendamerkingar, að það eru sérfræðingarnir innan ráðuneytanna sem eru best til þess fallnir að fjalla um slík mál. Það vill svo til, sökum smæðar íslensks samfélags, að í ráðuneytunum höfum við á mörgum stöðum einstaklega hæfa einstaklinga sem eru mjög fjölhæfir. Sérfræðingar íslensku ráðuneytanna eru fjölfræðingar, hafa það umfram marga kollega sína erlendis. Þau þurfa að sinna mjög mörgum málum og eru ákaflega vel að sér á víðu sviði. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem á að sinna þessari vinnu úti í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem menn reyndu áður fyrr að senda þangað sem fulltrúa ráðuneytanna, (Forseti hringir.) en þessi ríkisstjórn sér ekki af peningum til þess.



[16:45]
Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Af því að við vorum að tala áðan um merkingar og upplýsingaskyldu langar mig til að taka undir það að ég styð heils hugar að almenningur sé eins vel upplýstur og mögulega hægt er um þær vörur sem eru verslaðar. Mér finnst það mjög mikilvægt. Mér finnst leiðinlegt hversu mikið ósamræmi er í því hvernig eftirlitið virkar með þessu. Til dæmis var það í janúar 2011, minnir mig, sem innleidd var reglugerð varðandi merkingar á erfðabreyttum matvörum. Eftirlitið með þessu er ekki neitt. Þið voruð að tala um refsigleði áðan en það er engin refsigleði þar. Það má nefna merkingar um uppruna matvara. Það kemur allt of oft fyrir að vörur eru ekki merktar og starfsfólk í búðum hefur ekki hugmynd um hvaðan vörurnar koma. Kannski virkar refsingin. Ef eftirlitið er svona slakt þarf að vera einhver refsing sem gerir það að verkum að fólk tekur ekki sénsinn en það væri skemmtilegt ef það væri hægt að samræma þetta yfir allt. Þetta er allt saman mjög mikilvægt, að fólk sé upplýst um þá vöru sem það verslar.

Skemmtilegast væri að sjá að í framtíðinni, af því að þetta gæti orðið dálítið löng ritgerð af upplýsingum um vöruna, yrði þetta sett á einhvers konar rafrænt form og hægt væri að skoða það í snjallsímanum sínum. Ég sé það í framtíðinni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.