144. löggjafarþing — 82. fundur.
húsnæðismarkaður og afnám verðtryggingar.

[10:54]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að það er gríðarlegur vandi á húsnæðismarkaði hér á landi og ekki síst á leigumarkaði og einnig fyrir þá sem eru að koma inn á markaðinn núna í fyrsta sinn. Flokkur hæstv. ráðherra lofaði öllu fögru í þessum efnum, bæði í kosningabaráttu og líka þegar hann tók hér við fyrir bráðum tæpum tveimur árum. Síðan þá hefur ekkert gerst. Lofað var afnámi verðtryggingar. Menn hafa talað digurbarkalega um að gera eigi breytingar á húsnæðiskerfinu en enn þá er ekkert að frétta tveimur árum síðar annað en einhverjar nefndir og niðurstöður einhverra nefnda.

Förum þá aðeins yfir það hverju þær nefndir hafa verið að skila af sér. Ein þeirra skilaði því af sér að í byrjun árs 2015 ætti að stíga fyrstu skref í afnámi verðtryggingar. Nú erum við komin aðeins í rúmlega byrjun árs 2015 og það er ekkert að frétta.

Virðulegi forseti. Það er engin mál komin inn í þingið önnur en þau að búið er að opna löggjöfina þannig að menn eru að horfa til þess að fara að taka upp gengistryggð lán að nýju og heimila þau. Fyrir tæpu ári samþykkti Alþingi sömuleiðis þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um bráðaaðgerðir varðandi leigumarkaðinn og samþykkti að vísa þeirri þingsályktun til ríkisstjórnarinnar. Nú er liðið ár og það er ekkert komið fram af þeim.

Ég spyr því enn og aftur: Hvað er að frétta af húsnæðismálum og afnámi verðtryggingar? Vegna þess að við og fólkið sem bíður eftir svörum fær þau ekki. Það heyrir engar fréttir af þessum málum.

Með öðrum orðum, hér hafa stór loforð verið gefin, hér bíða stórir hópar eftir úrræðum, hér hafa verið samþykkt þingmál sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram en það gerist ekki neitt annað en að málin virðast bara vera að sofna í einhverjum nefndum.



[10:56]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og ég hef svarað áður hér í ræðustól er verið að vinna hörðum höndum að frumvörpunum í ráðuneytinu. Við höfum átt í töluverðu samráði tengt þeirri vinnu til þess að tryggja það að málin komi sem best undirbúin inn í þingið. Við í velferðarráðuneytinu höfum náttúrlega fyrst og fremst verið að huga að þeim málum sem heyra undir þann ráðherra, það er erfiðara að koma að þeim lagabreytingum sem snúa að lagabálkum sem heyra undir aðra ráðherra. Ég mundi því hvetja hv. þingmann til að spyrja spurninga varðandi lög um vexti og verðtryggingu þann ráðherra sem það heyrir undir.

Við erum núna með frumvarp sem snýr að húsnæðisbótunum. Við erum með frumvarp sem snýr að stofnframlögum til uppbyggingar á félagslegum leiguíbúðum og stuðning við byggingu á íbúðum í húsnæðissamvinnufélögum. Við erum með verulegar breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög þannig að þau geti eflst og að við getum lært af þeirri reynslu sem við höfum farið í gegnum á undanförnum árum í framhaldi af hruninu. Og við erum síðan með mjög viðamiklar breytingar sem snúa að húsaleigulögunum. Þetta eru stórir lagabálkar. En eins og ég hef sagt áður geri ég ráð fyrir að koma með þau hingað inn fyrir þann frest sem við gefum til að leggja fram þingmál.



[10:57]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki benda á mig, er það sem hæstv. ráðherra segir varðandi verðtrygginguna. Málið var töluvert einfaldara í aðdraganda kosninga þegar átti að vera hægt að gera þetta bara sisvona eftir hádegi, að afnema verðtryggingu. Það eina sem hefur gerst síðan og heyrir beinlínis undir hæstv. ráðherra er að Íbúðalánasjóður hefur hætt við að opna fyrir óverðtryggð lán, bjóða upp á óverðtryggð lán. Það er það sem hefur gerst. Það heyrir beint undir hæstv. ráðherra. En hvað er þá hæstv. ráðherra að segja varðandi afnám verðtryggingar sem lofað var með svo stórum orðum í aðdraganda kosninga og sömuleiðis hér úr þessum ræðustól og síðast núna á haustþingi að yrði gert á næstunni? Þar segir hæstv. ráðherra: Ekki horfa á mig, horfið eitthvert annað, horfið á hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki boðlegt af hálfu ráðherra sem hefur fengið titilinn félags- (Forseti hringir.) og húsnæðismálaráðherra. Hún á að geta svarað fyrir ríkisstjórnina í málum (Forseti hringir.) sem snúa að lánveitingum til húsnæðislána, virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki (Forseti hringir.) boðlegt en segir mér það að málin eru að sofna.



[10:59]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur margítrekað komið fram í máli forustumanna stjórnarflokkanna að við erum að setja heimilin í fyrsta sætið. Stóra verkefnið var náttúrlega skuldaleiðréttingin. Við lofuðum síðan því að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Það er verið að vinna að því. Ég vísa hins vegar til þess að þeir lagabálkar heyra einfaldlega ekki undir mig. Öll ríkisstjórnin er sammála um að vinna að þeim tillögum sem komu fram frá nefnd sem var undir forustu forsætisráðherra varðandi afnám verðtryggingar af neytendalánum. Ég fór síðan í gegnum þau frumvörp sem heyra beint undir mig og ég mun mæla fyrir, mér heyrðist að þingmanninum litist ágætlega á þau, alla vega nefndi hún ekki að hún hefði einhverjar athugasemdir við þau frumvörp. En ég er viss um að við munum eiga mjög góða umræðu um þau mál þegar þau koma inn í þingið, enda verulega stór mál, þar sem við munum svo sannarlega sjá hag heimila í landinu batna þegar við erum búin að samþykkja þau.