144. löggjafarþing — 92. fundur.
efnalög, 1. umræða.
stjfrv., 690. mál (EES-reglur og eftirlit o.fl.). — Þskj. 1164.

[16:56]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013. Gildistaka efnalaga 2013 var mikið framfaraspor því að brýn þörf var á nýjum heildarlögum um þann viðamikla og flókna málaflokk sem efnamálin eru. Með efnalögunum hefur fengist betri yfirsýn yfir málaflokkinn. Nú er lögð áhersla á eftirlit efst í aðfangakeðjunni, hjá þeim sem mesta ábyrgð bera, með hættulegustu efnavörunum til að vernda heilsu fólks og umhverfi. Horft er til efnavara í umhverfi barna, til almennra nota sem og í iðnaðarstarfsemi. Efnalöggjöfin er í stöðugri þróun.

Tilefni þessa frumvarps er að færa eftirlit með raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar, innleiða EES-gerðir, skerpa á tilteknum ákvæðum og breyta orðalagi í ljósi þeirrar reynslu sem er komin á framkvæmd efnalaga.

Meginefni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu á EES-gerðum. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum. Markmiðið með þeirri tilskipun er að bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Meðal annars er lagt til að allar nýjar bensínstöðvar skuli útbúnar kerfi til að endurheimta bensíngufu ef raunverulegt eða áætlað gegnumstreymi er umfram tiltekin mörk. Hið sama á við um allar bensínstöðvar sem fyrir eru og eiga að gangast undir meiri háttar endurnýjun. Einnig er lagt til að gufugleypibúnaður þurfi að uppfylla lágmarkskröfur um endurheimt bensíngufu. Það er því afar brýnt að innleiða umrædda tilskipun sem allra fyrst í ljósi þessa og ekki síður að Eftirlitsstofnunin ákvað þann 8. apríl sl. að vísa þessu máli gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins þar sem tilskipunin hafði þá ekki verið innleidd í íslenska löggjöf.

Frumvarpinu er einnig ætlað að styrkja lagastoð fyrir innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/33/EB um breytingu á tilskipun 1999/32/EB um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti. Í frumvarpinu er lagt til að brennisteinsinnihald í eldsneyti, bæði sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands, skuli fylgja þeim takmörkunum sem ráðherra setur í reglugerð. Frumvarpinu er einnig ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/30/EB um breytingu á tilskipun 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis og kerfi til að fylgjast með og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í frumvarpinu er lagt til að einungis verði heimilt að markaðssetja eldsneyti sem uppfyllir kröfur um innihaldsefni sem ráðherra setur í reglugerð. Þá er meðal annars gert ráð fyrir að eldsneytisbirgjar beri ábyrgð á vöktun og skýrslugerð í tengslum við umræddar kröfur.

Frumvarpinu er enn fremur ætlað að setja lagastoð fyrir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 517/2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, svokallað F-gas, og niðurfellingu reglugerðar nr. 842/2006. Með reglugerðinni eru settar reglur um aðgerðir til að draga úr losun, um viðskipti, takmarkanir og skerðingu á framboði flúoraðra gróðurhúsalofttegunda. Reglugerðinni er ætlað að styrkja núverandi aðgerðir til að draga úr losun þessara efna og setja fram markmið í þeim efnum.

Efni frumvarpsins snýr í öðru lagi meðal annars að því að færa eftirlit með hættulegum efnum í raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar, eins og ég kom að fyrr. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/65/ESB, um takmörkun á notkun tiltekinna hættulegra efna í raf- og rafeindatækjum, var innleidd á sínum tíma með reglugerð um takmarkanir á notkun tiltekinna hættulegra efna í raf- og rafeindabúnaði. Telja verður að eftirlit með framkvæmd tilskipunarinnar falli betur að því hlutverki Mannvirkjastofnunar að hafa markaðseftirlit með rafföngum og felur því í sér samlegðaráhrif og aukna skilvirkni. Lagt er til að um framkvæmd eftirlits og þvingunarúrræði fari samkvæmt lögum um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun.

Í frumvarpinu eru í þriðja lagi lagðar til breytingar til að gera orðalag skýrara, einfalda og tryggja betur framkvæmd laganna í ljósi reynslunnar og laga hugtakanotkun að breyttri hugtakanotkun í nýrri EES-gerðum. Til að mynda er gert ráð fyrir að skylt verði að halda skrár um plöntuverndarvörur og útrýmingarefni og breytingar á framkvæmd við tilkynningu til Umhverfisstofnunar vegna markaðssetningar eiturefna og leyfisskyldra efna.

Enn fremur er lagt til að óheimilt verði að markaðssetja efni og efnablöndur sem ekki uppfylla ákvæði laganna um merkingar. Tilgangur þessa er að árétta þá ábyrgð rekstraraðila verslana að selja ekki vanmerktar vörur. Einnig er lagt til að Umhverfisstofnun hafi heimild til að beita verslanir stjórnvaldssektum brjóti þær gegn umræddu banni.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[17:03]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Bara örfá atriði í sambandi við þetta frumvarp sem er tæknilegt og kannski ekki léttur lestur eða skemmtilestur en engu að síður mjög mikilvægt. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra, efnalögin voru mjög mikilvægur áfangi. Það vantaði orðið sárlega upp á það að við hefðum með samræmdum hætti farið yfir þetta svið sem athygli manna hefur beinst að í auknum mæli á síðustu árum eða árabili í ljósi þess að alltaf eru að koma nýjar og nýjar upplýsingar um þau fjölmörgu efni sem við erum að notast við í okkar nútímasamfélagi og geta sum hver verið býsna varasöm ef ekki er vel að málum staðið. Hér er að einhverju leyti uppfærsla á ákvæðum gildandi laga og breytt skýring eða afmörkun hugtaka og svo að einhverju leyti verið að taka inn nýjar gerðir eða undirbúa komu annarra. Eins og sést í frumvarpinu er þetta býsna langur listi, satt best að segja, því að í enda frumvarpsins, í 34. gr., eru taldar upp að mér sýnist 13 tilskipanir á þessu sviði sem eru þarna heimfærðar inn í 69. gr. laganna og við komin í ónáð með eitthvað af þessu ef ég heyrði rétt hjá hæstv. ráðherra.

Ég hef enga sérstaka skoðun á þessari tilfærslu á eftirliti með rafvörum yfir til Mannvirkjastofnunar frá Umhverfisstofnun og treysti því að það sé vel ígrundað, en það eru nokkur önnur atriði sem ég staldra aðeins við. Í fyrsta lagi þetta með bensínstöðvarnar og búnaðinn til að endurheimta bensíngufu sem er talsvert viðamikill og er verið að innleiða hér. Í fyrsta lagi vaknar spurningin hvort eitthvað liggi fyrir um líklegan kostnað af þessum sökum þegar þetta verður tekið upp hér. Nú eru kannski stærðarmörkin þannig úr garði gerð að þetta komi ekki mikið við flestar minni bensínstöðvar í landinu. Ég þekki það svo sem ekki nákvæmlega en í fyrsta lagi, af því að ég finn hvergi neitt í greinargerð með frumvarpinu að um það hafi verið eitthvað skoðað, spyr ég hvort vænta megi þess að þarna leggist á allmikill kostnaður.

Það leiðir að annarri spurningu sem er um hvaða svigrúm við höfum til innleiðingar í þessum efnum í ljósi aðstæðna okkar. Er það fullnýtt með þessum stærðarmörkum eða höfum við umtalsvert svigrúm til að útfæra þetta í krafti aðstæðna hér? Mikill fjöldi mjög lítilla afgreiðslustaða er vítt og breitt um landið. Kannski sleppa þær allar undir þessi stærðarmörk en ég spyr engu að síður til fróðleiks: Hvað liggur fyrir um það og hvaða áhrif hefur þetta hér? Er það kannski bundið fyrst og fremst við stærstu afgreiðslustöðvarnar þótt þetta sé svo sem ekkert óskaplegt magn, 100 eða 500 tonn á ári eða rúmmetrar?

Í þriðja lagi spyr ég um aðlögunartímann sem er veittur til að breyta þeim stöðvum sem eru það stórar að þær þurfa að ráðast í þessar framkvæmdir í ljósi þess að við erum væntanlega seint á ferðinni með þessa innleiðingu. Hér er gefinn tími til 2018, ef ég tók rétt eftir. Er það allur sá tími sem til staðar er? Er okkur skylt að hafa lokið þeim breytingum fyrir þann tíma? Kannski er það bara metnaðarfullt markmið að láta þetta ekki dragast lengi ef ráðherra hefur einhverjar upplýsingar um það eða eftir atvikum að þetta verði skoðað í nefnd.

Svo kem ég að brennisteinsinnihaldi í eldsneyti og þá sérstaklega í flotaolíunni. Þar er á ferðinni innleiðing sem hefur þó nokkur áhrif, geri ég ráð fyrir, á Íslandi í ljósi þess að við erum með nokkuð stóran fiskiskipaflota og einhver fraktskipafloti er nú að sigla til landsins þó að hann sé væntanlega allur á erlendum fána en það breytir ekki því að þegar hann kemur inn í okkar lögsögu verður hann að uppfylla þær reglur sem hér eru. Vandinn við þetta er sá að skipaflotinn er ekki allur staðbundinn og hann fer á milli lögsagnarríkja. Eins og þetta er innleitt af hálfu annarra eru viðmiðunarmörkin oft ólík eftir því hvort um siglingu á innhafi eða við strendur er að ræða eða á úthafinu.

Á norrænum vettvangi hefur þetta verið talsvert til umræðu og skoðunar og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta hafi að einhverju leyti verið unnið í samráði við Norðurlöndin eða tekið mið af undirbúningi þeirra undir innleiðinguna. Ég hef tekið þátt í því á norrænum vettvangi að sitja langa fundi og hlusta á margar ræður, sérstaklega frá vinum vorum við Eystrasaltið sem eru uppteknir af þessu þar sem þeir hafa velt upp möguleikunum og jafnvel viljað skora á stjórnvöld að samræma innleiðinguna yfir Norðurlöndin þannig að menn lentu ekki í því að ólík viðmiðunarmörk giltu í lögsögum mismunandi ríkja af augljósum ástæðum. Það væri að sjálfsögðu að mörgu leyti heppilegast að þetta væri samræmt sem allra mest yfir stór svæði, þau samgöngusvæði þar sem skip ferðast um. Einhver undirbúningur hlýtur að hafa átt sér stað að þessu leyti í ráðuneytinu um hvert brennisteinsinnihaldið eða brennslupunkturinn eigi að vera.

Nú er litlar upplýsingar að hafa um þetta í frumvarpinu, í raun engar vegna þess að málið á að afgreiðast með reglugerð. Það getur vel verið að það sé besta útfærslan en við erum þá mjög litlu nær um það hvaða viðmiðunarmörk verða sett hér. Verða þau metnaðarfull, ströng eða verða þau minna ströng, verða þau ólík fyrir til dæmis strandveiðiflotann og flota sem er hér við landið og inni í höfnum dagsdaglega yfir í aftur fraktskip sem sigla náttúrlega meira á úthafinu eða stærri fiskiskip sem fara í úthafið og jafnvel að einhverju leyti til veiða innan lögsögu annarra ríkja? Mér leikur forvitni á að vita, m.a. í ljósi þeirrar umræðu sem ég hef lent í á norrænum vettvangi, hvaða undirbúningur hefur átt sér stað að þessu leyti hvað varðar viðmiðunarmörkin sem sett verða hér, samræminguna við innleiðingarnar í nágrannalöndunum og sömuleiðis hvaða samráð hafi verið haft við atvinnugreinina um þennan undirbúning. Er hann kannski eftir í ljósi þess að þetta á svo að klárast með reglugerð?



[17:11]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og þær spurningar sem hann bar fram. Í fyrsta lagi er alveg rétt að þetta er mjög tæknilegt. Ég tel mig ekki mjög tæknilega konu, hv. þingmaður, en ég skal reyna eftir bestu getu að svara þeim spurningum sem vöknuðu hjá honum.

Varðandi skipin, ég byrja þar, var ekki haft sérstakt samband við Norðurlönd og býst ég við að þingmaðurinn sé þar með fróðari en sú sem hér stendur varðandi hvað þar hefur verið rætt. Við erum sem sagt í þessu frumvarpi að fara eftir lögum, reglugerðum og tilskipunum frá ESB um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti og hún verður innleidd með reglugerð en við höfum horft með þetta til gömlu reglugerðarinnar um þessi 2%. Ég veit ekki hvort þetta svarar spurningu hans.

Einar fjórar stórar bensínstöðvar eru komnar með gufugleypana og byrjaðar að innleiða þetta en vitaskuld leggur frumvarpið auknar skyldur á herðar fyrirtækjum sem selja eldsneyti. Hin árlega sala á bensíni hérlendis nær ekki 500 þúsund lítrum á bensínstöð nema að litlu marki. Eins og ég segi eru fjórar bensínstöðvar sem selja meira en 3 milljónir lítra og þær hafa þegar sett upp þennan nauðsynlega búnað.



[17:13]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherra hafi ekki á reiðum höndum án undirbúnings svör við ýmsum tæknilegum spurningum, enda má vel upplýsa um það síðar. Mér bauð í grun að ekki væru mjög margar bensínstöðvar sem afgreiddu meira en 500 þúsund tonn á ári en einhverjar þeirra eru þó taldar í milljónum lítra. Síðan er auðvitað ákvæðið þannig að þetta tekur til endurnýjunar á búnaði starfandi stöðva og allra nýrra sem kæmu til sögunnar og gætu lent upp fyrir þessi mörk. Ég geri ráð fyrir að flestir vilji auka bensínsölu sína þannig að menn mundu væntanlega velta því vel fyrir sér ef þeir væru að opna nýja bensínafgreiðslu, a.m.k. á fjölmennum stöðum, að uppfylla þessar kröfur til að lenda þá ekki í því síðar.

Varðandi brennisteinsinnihaldið ætla ég ekki að fullyrða meira en ég hef efni til þar sem ég hef ekki gögn í höndunum og ekki annað til að reiða mig á en minni mitt en þetta hljómar sem hátt innihald, 2%. Ef ég veit rétt eru menn sums staðar með þetta niðri í 1%, kannski er það á strandsvæðum eða innhöfum, en einhvern veginn slær það mig að sem áframhaldandi 2%, eins og hafa verið í reglugerð sem hámarksinnihald, séu há viðmiðunarmörk ef þau eiga að gilda fyrir allan íslenska flotann.



[17:15]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vonast til að frumvarpið fari sem allra fyrst til nefndar og þá verði hægt að kalla þar til gesti og líka þá t.d. sem einhver kostnaður lendir á.

Af því að ég kláraði ekki að svara alveg í fyrra svari verður, eins og segir um mat á áhrifum, á 103 bensínstöðvum skylt að setja upp gufugleypa þegar þær undirgangast meiri háttar endurnýjun eða nýjar stöðvar verða byggðar. Krafan er ekki meiri en svo.

En varðandi brennisteinsinnihaldið finnst mér rétt að það verði skoðað bæði í nefndinni sem og þegar reglugerð verður sett þannig að ég ætla mér ekki að fara dýpra ofan í það á þessu stigi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.