144. löggjafarþing — 97. fundur.
Norðurlandasamningur um erfðir og skipti á dánarbúum, 1. umræða.
stjfrv., 670. mál. — Þskj. 1140.

[21:49]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á Norðurlandasamningi um erfðir og skipti á dánarbúum.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fullgilda samning sem gerður var 1. júní 2012, um breytingar á samningi Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar frá 19. nóvember 1934, um erfðir og skipti á dánarbúum. Einnig er lagt til að breytingarsamningurinn öðlist lagagildi hér á landi með sama hætti og upprunalegi samningurinn, samanber lög nr. 108/1935.

Norðurlandasamningurinn um erfðir og skipti á dánarbúum tekur á þeim aðstæðum að ríkisborgari eins Norðurlandanna er við andlát sitt búsettur í öðru þeirra. Samningurinn felur í sér tiltekna málamiðlun milli reglna ríkjanna og tryggir samfellu í meðferð slíkra mála á Norðurlöndunum.

Breytingarsamningurinn var undirbúinn á vettvangi sérfræðinefndar Norðurlandanna á sviði fjölskylduréttar. Að baki þeirri vinnu lá í upphafi það markmið að færa efni samningsins frá 1934 til nútímalegra horfs. Á síðari stigum var jafnframt horft til þess að samræma efni hans, eftir atvikum, nýrri reglugerð Evrópuþingsins á þessu sviði sem mun skuldbinda Svíþjóð og Finnland frá gildistöku reglugerðarinnar í ágúst á þessu ári.

Breytingarsamningurinn felur í sér að Norðurlandaþjóðirnar munu áfram geta beitt ákvæðum Norðurlandasamningsins í málum sem varða arf og erfðaskrá eftir þá sem voru ríkisborgarar eins Norðurlandanna og jafnframt búsettir í öðru þeirra við andlátið, nema annað leiði af framangreindri reglugerð hvað varðar Svíþjóð og Finnland. Samningurinn mun því áfram stuðla að einfaldari málsmeðferð og auknu réttaröryggi á þessu sviði á Norðurlöndunum.

Helsta efnislega breytingin sem nýi samningurinn felur í sér varðar val á hvaða reglum skuli beitt við búskipti. Meginregla samningsins frá 1934 er svokölluð fimm ára regla sem felur það í sér að beitt skuli reglum búseturíkisins hafi hinn látni verið þar búsettur í a.m.k. fimm ár fyrir andlátið. Að öðrum kosti skuli beitt reglum ríkisfangsríkisins komi fram ósk um það frá þar til bærum aðila. Samkvæmt ákvæðum breytingarsamningsins verður það áfram meginreglan að beitt skuli reglum búseturíkisins, en arfleifanda verður nú hins vegar heimilað að kveða á um það í erfðaskrá að beitt skuli reglum ríkisfangsríkis.

Þá eru felldar brott úr samningnum sérreglur um rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi. Ekki þykir lengur þörf á slíkum sérreglum í samningnum þar sem eftirlifandi makar njóta nú fullnægjandi verndar í löggjöf allra aðildarríkjanna auk þess sem slíkar sérreglur þykja illa samrýmanlegar þeirri heimild sem arfleifanda er nú fengin til að kveða á um hvaða reglum skuli beitt við búskiptin.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg því til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.