144. löggjafarþing — 98. fundur
 29. apríl 2015.
framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 694. mál (umsjón og útgreiðsla beingreiðslna). — Þskj. 1168.

[18:04]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, lögum um Matvælastofnun og tollalögum, á þskj. 1168, mál nr. 694.

Með frumvarpi þessu sem samið er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er einkum brugðist við gagnrýni í skýrslum Ríkisendurskoðunar frá árunum 2010 til 2014. Í skýrslunum voru meðal annars gerðar athugasemdir við að ekki væri ljóst af lögum eða samningum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Bændasamtök Íslands að samtökin væru bundin af stjórnsýslu- og upplýsingalögum við framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðarmála. Með samkomulagi í desember 2013 milli ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands var ákveðið að unnið yrði að flutningi stjórnsýsluverkefna frá samtökunum og til stofnana ráðuneytisins, m.a. að frumkvæði Bændasamtakanna. Var það mat ráðuneytisins að hluta verkanna væri best fyrir komið hjá Matvælastofnun eins og skráning greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna og greiðslur beingreiðslna.

Í frumvarpinu er því að finna breytingar sem fela í sér að einfalda framkvæmd búvörulaga með þeim hætti að stjórnsýsluverkefni sem tilgreind eru í ákvæðum búvörulaga verði á hendi opinbers aðila, þ.e. Matvælastofnunar.

Í frumvarpinu er einnig að finna breytingar á búvörulögum sem snerta birtingu verðskráningar búvara, ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna í sauðfjárframleiðslu og söfnun upplýsinga um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna sem snúa að búfjáreftirliti í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu vegna breytinga sem urðu á búfjáreftirliti með lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, og laga nr. 38/2013, um búfjárhald.

Lagt er til að ákvæði um verðskerðingargjald af verði kinda- og hrossakjöts í V. kafla laganna verði fellt úr gildi. Þá er lagt til að heiti laganna verði framvegis búvörulög, en það er almennt notað yfir lögin í töluðu og rituðu máli.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun. Í kaflanum er skýrt hlutverk stofnunarinnar samkvæmt ákvæðum búvörulaga. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði til bráðabirgða sem snýr að þeim starfsmönnum Bændasamtaka Íslands sem sinnt hafa þeim stjórnsýsluverkefnum sem lagt er til að verði flutt frá samtökunum til Matvælastofnunar.

Í III. kafla frumvarpsins er að finna breytingu á ákvæði tollalaga nr. 88/2005, vegna breytingar á heiti laganna sem lagt er til að verði framvegis búvörulög, eins og áður var frá sagt.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á starfsemi Bændasamtaka Íslands sem hafa sinnt stjórnsýsluverkefnum á sviði landbúnaðarmála, en með flutningi verkefnanna verða gerð skýr skil á milli stjórnsýsluverkefna og hagsmunagæslu. Einnig mun samþykkt frumvarpsins hafa áhrif á starfsemi Matvælastofnunar, enda er gert ráð fyrir að stofnunin muni framvegis sinna þeim stjórnsýsluverkefnum sem Bændasamtök Íslands hafa sinnt til þessa.

Þá mun frumvarpið, verði það að lögum, ekki hafa íþyngjandi áhrif á bændur, þ.e. einstaklinga og lögaðila, sem falla undir ákvæði búvörulaga. Þess í stað munu þau stuðla að einfaldari og skýrari stjórnsýsluframkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.[18:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á þessu stigi máls ætla ég ekki að gera neinar athugasemdir við frumvarpið. Mig langar aðeins til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í 3. gr. frumvarpsins, þar kemur fram að ráðherra er skylt að setja reglugerð þar sem mælt er fyrir með nánari hætti um það hvernig á að ráðstafa skertum og ónýttum beingreiðslum. Samkvæmt 3. gr. á meðal annars að koma fram hvaða opinberi aðili ráðstafi þeim. Þá langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er sá aðili sem hingað til hefur ráðstafað ónýttum beingreiðslum?[18:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svokölluð framkvæmdanefnd búvörulaga sem fjallar um þetta á hverjum tíma og þarf til þess staðfestingu ráðherra samkvæmt núgildandi búvörulögum. Með þessari grein er með betri hætti skýrð aðkoma ráðherra til þess að setja þá reglugerð sem menn geta síðan farið eftir. Þetta er meðal annars til þess að mæta þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar.[18:10]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara. Ráðherra fór ágætlega yfir það í sínu máli hvað hér væri á ferðinni. Mig langar eftir sem áður að koma aðeins inn á tilefni frumvarpsins. Það er komið til vegna gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem taldi að herða þyrfti eftirlit með framkvæmd búvörusamninga.

Í mars 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrsluna Útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands og í niðurstöðu skýrslunnar segir:

„Matvælastofnun annast ýmsa stjórnsýslu vegna landbúnaðarmála og Bændasamtök Íslands fara með fyrirsvar fyrir framleiðendur búvara lögum samkvæmt. Samtökin annast einnig fag- og fjárhagslega framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðarmála sem stjórnvöld og Alþingi hafa falið þeim með lögum, reglugerðum, samningum og ýmsum stjórnvaldsákvörðunum. Samtökunum hefur því að nokkru leyti verið falið opinbert vald sem felst m.a. í ákvörðunum um opinberar greiðslur til bænda, útreikningi, afgreiðslu og eftirliti með framkvæmd þeirra.“

Öllu þessu finnst mér að þurfi að halda til haga, því í raun og veru skarast þarna hagsmunir, má segja, og í því felst auðvitað gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Þá er í niðurstöðum skýrslunnar bent á að hvorki í lögum né samningum ráðuneytisins við Bændasamtök Íslands sé kveðið á um að samtökin séu bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum upplýsingalaga við framkvæmd verkefna. Þess vegna var það mat Ríkisendurskoðunar að samtökunum bæri að gæta að ákvæðum laganna við framkvæmd verkefnanna. Í skýrslunni eru einnig rakin helstu verkefni sem Bændasamtök Íslands sinna samkvæmt samningi Matvælastofnunar við Bændasamtökin frá árinu 2010.

Ég vil taka fram að ég tel að Bændasamtökin hafi sinnt þessu verkefni af stakri prýði, en það er eðlilegt að Ríkisendurskoðun geri athugasemdir við þessa tilhögun mála. Skýrslu Ríkisendurskoðunar var fylgt eftir með Skýrslu um eftirfylgni: Útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands í mars 2014 og er hægt að kynna sér báðar skýrslunnar á vef þeirrar stofnunar. Það kemur fram í frumvarpinu að ráðuneytið hefði brugðist við athugasemdum Ríkisendurskoðunar m.a. með samningum við Bændasamtökin um verkefni samkvæmt búvörulögum og búvörusamningum og þá gerðu Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun samning um verkefni í umboði Matvælastofnunar.

Eins og hér hefur komið fram er markmið frumvarpsins að bregðast við þeirri gagnrýni sem var sett fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og um leið að einfalda framkvæmd búvörulaga þannig að stjórnsýsluverkefni sem tilgreind eru í ákvæðum laganna séu í hendi eins aðila, sem sé undirstofnunar ráðuneytisins. Frumvarpið er því hluti af öðrum áfanga samkomulags ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands um að flytja stjórnsýsluverkefni frá Bændasamtökunum til undirstofnana ráðuneytisins. Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsemi Bændasamtaka Íslands og starfsemi Matvælastofnunar, en þá snertir frumvarpið einnig bændur og þá einstaklinga, lögaðila og stofnanir, sem eiga samskipti við Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun vegna stjórnsýsluverkefna samkvæmt ákvæðum búvörulaga.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á starfsemi Bændasamtaka Íslands sem hafa sinnt stjórnsýsluverkefnum en með flutningi verkefnanna verða gerð skýr skil á milli stjórnsýsluverkefna og hagsmunagæslu. Þykir mér rétt að undirstrika það. Einnig mun samþykkt frumvarpsins hafa áhrif á starfsemi Matvælastofnunar, enda er gert ráð fyrir að stofnunin muni framvegis sinna þeim stjórnsýsluverkefnum sem Bændasamtökin hafa áður sinnt. Hér kemur fram að stofnuninni verði heimilt að ráða þá starfsmenn Bændasamtakanna sem sinnt hafa stjórnsýsluverkefnum. Ég held að það sé mjög gott að taka þetta fram, því það er auðvitað þekking til staðar hjá þeim aðilum sem hafa sinnt þessari vinnu.

Samkvæmt búvörulögum heldur Matvælastofnun utan um beingreiðslur vegna sauðfjár- og mjólkurframleiðslu, en Bændasamtök Íslands hafa sinnt þessum verkefnum síðustu ár samkvæmt samningi þar um. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti hefur framkvæmdin á undanförnum árum verið á þann veg að ráðuneytið hefur greitt Bændasamtökum Íslands þóknun fyrir að annast þessi stjórnsýsluverkefni og sú þóknun hefur byggst á heildarupphæð beingreiðslna einstakra viðfangsefna í fjárlögum sem samtökin hafa annast greiðslu eða ráðstöfun á.

Samkvæmt núgildandi samkomulagi fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að þóknunin nemi 59 millj. kr., en sú fjárhæð er síðan dregin frá heildarbeingreiðslum á viðkomandi fjárlagalið. Það er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á þessum umsýslukostnaði fyrir næsta ár og verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að sama upphæð, 59 millj. kr., færist yfir til Matvælastofnunar vegna flutninga á þessu stjórnsýsluverkefni.

Ég vil í lokin fagna frumvarpinu og tel að það mæti þeirri almennu gagnrýni sem hefur komið fram í þjóðfélaginu á stjórnsýslulegar ákvarðanir og hagsmunagæslu þegar miklir fjármunir eru annars vegar og þætti vænt um að hv. þingmenn hugsuðu það vel og lengi.[18:18]
Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar og kem hér einungis upp til þess að segja eins og hv. þingmaður að ég fagna framkomu þessa frumvarps, það er löngu tímabært. Ég tel mig hafa ákveðna þekkingu á því að Bændasamtökin hafi í langan tíma beðið eftir því að vera hreinsuð af þeim grun um að misfara með opinbera fjármuni eins og oft hefur verið látið liggja að í opinberri umræðu. Hv. þingmaður nefndi réttilega að í skoðunum Ríkisendurskoðunar hefur aldrei neitt slíkt komið upp eða nokkur vafi verið uppi um það.

Við ágæta ræðu hv. þingmanns held ég að megi bæta að menn þurfa að kunna svolítið söguna í þessum efnum. Bændasamtökin eru sett saman úr þremur einingum. Þau urðu til árið 1995 þegar Búnaðarfélag Íslands, sem á árum áður var hálfgildings ríkisstofnun, sameinaðist Stéttarsambandi bænda og þá voru verkefni framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem var raunar að sama skapi hálfgildings ríkisstofnun eða framkvæmdastofnun á sviði landbúnaðarmála, flutt árið 1999 til Bændasamtakanna. Því liggja þessi verkefni þar inni.

Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann hér í andsvari við ræðu hennar heldur vildi ég einungis árétta þessa forsögu um leið og ég tek undir með hv. þingmanni að það er framfaraskref að gera skýran aðskilnað þarna á milli og fleiri slík skref þurfum við að taka í framhaldi af þessu.[18:20]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns um að við þurfum að horfa til fleiri þátta og stofnana þannig að framkvæmd og eftirlit sé ekki á sömu hendi. Ég þekki það líka ágætlega að Bændasamtökin voru ekkert endilega yfir sig hrifin að hafa þessi verkefni hjá sér, hv. þingmaður kom inn á forsögu þess að þau tóku þau að sér. Þau hafa verið með verkefnin í fanginu en ekki endilega vegna þess að þau hafi ásælst þau til að hafa tekjur af þeim, það er ekki þannig. En auðvitað varð skýrsla Ríkisendurskoðunar til þess að ýta við því að koma fram þessum aðskilnaði og koma verkefnunum undir eftirlitsstofnun ráðuneytisins, Matvælastofnun, eða í þann farveg. Ég tel að það hafi unnist mjög vel úr þessu og það er líka ekkert gott fyrir bændastéttina að sitja undir ósanngjarnri gagnrýni varðandi þessa hluti. Ég tel að það sé nú allt of oft þannig að bændur sitji undir ósanngjarnri gagnrýni og það er gott að umbúnaður sé orðinn þannig að ekki sé hægt að hafa uppi þá gagnrýni að þeir sjálfir séu að fá tekjur af því að sinna framkvæmd (Forseti hringir.) í þessum málum.[18:23]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Ég þakka umræðu um þetta mál og vil koma hingað upp til þess að árétta að það er rétt sem fram kom hjá þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls, að fyrirkomulagið hefur verið nánast án aðfinnslna, verið mjög hagkvæmt fyrir ríkisvaldið, en vegna þeirra ábendinga sem hafa ítrekað komið fram hjá Ríkisendurskoðun um hver nákvæmlega staða bændasamtakanna sé varðandi stjórnsýslulöggjöfina og upplýsingalöggjöfina þá er mjög skiljanlegt að Bændasamtök Íslands, að þeirra frumkvæði, vilji losna við þetta verkefni til þess að skýra aðskilnaðinn betur. Við viljum gjarnan stíga það skref til þess að það verði skýrt.

Ég man eftir því í skýrslunni frá 2011, þegar blásið var til mikillar sóknar gegn bændasamtökunum á síðasta kjörtímabili af hálfu síðustu ríkisstjórnarflokka, að fulltrúi Ríkisendurskoðunar kom á fund atvinnuveganefndar þáverandi og þegar var búið að fara yfir skýrsluna var ekki margt bitastætt í henni annað en þetta, sem við erum að bregðast hér við, og þá viðurkenndi viðkomandi fulltrúi að það væri víðar pottur brotinn í verkefnum sem þó væru hjá ríkisstofnunum, til að mynda Barnaverndarstofu sem ég man skýrt eftir. Það er rétt að þetta hefur verið unnið mjög samviskulega og framkvæmt mjög vel, en það er hins vegar bæði skynsamlegt og nútímalegt að höggva á þann hnút sem er þarna á milli, aðskilja þetta.

Varðandi andsvar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar vildi ég bæta því við, og vona að viðkomandi þingmaður heyri mál mitt, að þessum skertu og ónýttu beingreiðslum hefur verið ráðstafað undanfarin ár af framkvæmdanefnd búvörusamninga og þeir staðfesta síðan þær ákvarðanir og þeim hefur verið ráðstafað til markaðssetningar á kindakjöti. Bændasamtökin hafa ráðstafað skertum og ónýttum beingreiðslum í gegnum samstarfsvettvang samtakanna, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa um málefni sauðfjárræktar, þ.e. í gegnum Markaðsráð kindakjöts. Það er mat okkar að betra sé að hafa nánari fyrirmæli um ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna og því er lagt til í 3. gr. að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um ráðstöfun beingreiðslna með reglugerð. Í henni verði þá mælt fyrir um til hvaða verkefna í sauðfjárrækt beingreiðslunum verði ráðstafað og hvaða opinbera aðila verði falið að ráðstafa fjármununum í samræmi við markmið um framleiðslu sauðfjárafurða eins og þeim er lýst í 36. gr. laganna, hvort sem þeim fjármunum verður ráðstafað til markaðsaðgerða eða annarra verkefna sem nýtast muni greininni sem best. Það er því mat okkar, verði frumvarpið að lögum, að ráðstöfun ónýttra og skertra beingreiðslna verði gegnsærri og skýrari. Þetta kemur fram í skýringum við 3. gr. í frumvarpinu.

Að því loknu þakka ég þingmönnum fyrir góða umræðu um þetta mál.Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.