145. löggjafarþing — 18. fundur.
upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

[10:52]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fá að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu hans gagnvart frumvarpi sem ég var að leggja fram fyrr í haust, um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Frumvarpið, sem hefur verið lagt fram í ýmsum myndum undanfarin 30 ár, af og til, á sér fyrirmynd í norskum, dönskum og sænskum lögum þar sem verið er að binda skyldu ráðherra til þess að segja satt og rétt frá og veita upplýsingar til Alþingis.

Erfitt er fyrir Alþingi og fyrir þing almennt að taka upplýstar ákvarðanir um það sem er að gerast á þingi, eða í samfélaginu yfir höfuð, ef ekki er hægt að treysta því að ráðherra veiti rétt svör, sönn svör, eða gefi þær upplýsingar sem við þurfum til að geta náð niðurstöðu í ákveðnum málum.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hans til þessarar upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra? Hvernig líst honum á þetta? Er þetta eitthvað sem hann vill fá í íslensk lög, að það væri hluti af ráðherraábyrgð ef í ljós kemur að ráðherra segir ekki satt og rétt frá?[10:54]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessu er auðsvarað. Ég lít svo á að sú regla sé í gildi hér, og hafi alla tíð verið, að á ráðherrum hvíli sú skylda að segja þinginu satt og rétt frá í öllu því sem til þeirra er beint, einmitt í þeim tilgangi, sem hv. þingmaður nefnir hér, að þegar kemur til úrlausnarefna hér á þinginu geti þingmenn gengið út frá því að þær upplýsingar sem þeir fá frá framkvæmdarvaldinu séu traustar og réttar. Hvernig um þetta er búið í lögum er ábyggilega til umhugsunar og skoðunar, en ég hef litið svo á að sú regla sé nú þegar hér til staðar.[10:55]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki alveg rétt, sem hæstv. menntamálaráðherra segir, að þessi reglugerð sé til staðar. Það er einfaldlega ekki raunin. Það er ekkert sem tryggir að ráðherra segi satt og rétt frá. En í ljósi þess að ráðherra þykir þetta nú þegar í gildi þá er kannski við hæfi að hann svari nokkrum spurningum sem hafa brunnið á íslenskri þjóð og fjölmiðlum undanfarið.

Ég spyr til dæmis: Á hverra vegum var ráðherra í Kína 2013? Hver greiddi veiðileyfi í Vatnsdalsá 2014? Og hver eru í raun tengsl ráðherra við Orku Energy?[10:56]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt, ljúft og skylt að svara þessu. Tildrög þeirra ferða sem hv. þingmaður vísar hér til eru þau að á undanförnum missirum og árum hefur fjöldi kínverskra ráðamanna, sem starfa á því sviði sem fellur undir mennta- og menningarmálaráðuneytið, verið hér í vinnuheimsókn. Síðan barst boð til ráðuneytisins frá kínverskum stjórnvöldum um að þessar vinnuheimsóknir yrðu endurgoldnar. Skipuð var sendinefnd. Í henni, ásamt mér sem ráðherra, áttu sæti embættismenn úr ráðuneytinu, þrír rektorar háskóla, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, ásamt forstöðumanni Rannís. Fundað var með fjölda ráðherra og vararáðherra, forstöðumönnum vísindastofnana, háskólastofnana og annarra sem endurspegla samsetningu þessarar sendinefndar.

Hitt er alveg hárrétt að á sama tíma voru í Peking fulltrúar frá fyrirtækinu Orku Energy, sem um hefur verið rætt hér, og einn fulltrúi frá fyrirtækinu Marel. Fleiri spurningar hafa verið bornar fram sem mér gefst þá kannski tækifæri til að ræða síðar.

Varðandi veiðiferð í Vatnsdalsá og kostnað við hana vil ég segja við hv. þingmann að ég hef í mínum fórum kvittun fyrir mínum greiðslum.