145. löggjafarþing — 33. fundur.
náttúruvernd, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 140. mál (varúðarregla, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.). — Þskj. 430, brtt. 431.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:56]

[13:49]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum nú til atkvæða eftir 3. umr. um frumvarp til laga um náttúruvernd sem hefur átt sér langan aðdraganda eins og rakið hefur verið í þessum umræðum. Á síðasta kjörtímabili og við getum sagt í upphafi þessa kjörtímabils voru hörð átök um þetta mál og margvísleg sjónarmið komu upp. Skiptar skoðanir voru um mörg ákvæði laganna sem voru samþykkt hér vorið 2013 og hart deilt.

Ég tel að sú niðurstaða sem við höfum komist að í málsmeðferðinni í þinginu sé mjög góð. Ég held að hér sé um að ræða framfaraskref og það er mjög mikils virði að við höfum náð að lenda þeim helstu ágreiningsmálum sem uppi hafa verið í þessum efnum. Við höfum fundið lausnir sem eru kannski ekki eins og hver og einn í nefndinni hefði viljað hafa það en í sameiningu höfum við fundið lausnir sem menn eru tilbúnir að lifa við. Það er mjög gott og þó að umræðum og jafnvel ágreiningi um einstök mál sem snerta náttúruvernd og nýtingu náttúrunnar sé auðvitað ekki lokið með þessu (Forseti hringir.) er hér um mjög mikilvægan áfanga að ræða.[13:50]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða eftir 3. umr. frumvarps til laga um náttúruvernd. Við horfum á gríðarlega mikilvæga niðurstöðu. Við erum að tala um betri og sterkari náttúruverndarlög en eru samkvæmt núgildandi rétti, verulega réttarbót fyrir íslenska náttúru. Tíminn hefur unnið með náttúrunni og hefur unnið með náttúruvernd í þessu efni eins og svo ótal mörgum öðrum. Ég vil því nota þetta sérstaka tækifæri hér til að brýna okkur öll í því að taka saman höndum í næsta verkefni í þróun náttúruverndar á Íslandi sem er að stofna þjóðgarð á miðhálendinu en nú í mars síðastliðnum studdu ríflega 60% Íslendinga þá hugmynd. Það er vaxandi stuðningur við það, 5% fleiri en var árið 2011. Það er mikill stuðningur við þetta hér í þinginu. Nú er tillaga þess efnis hjá umhverfis- og samgöngunefnd og ég tel að það sé næsta skref sem við eigum að einhenda okkur í að setja saman myndarlegan þjóðgarð á miðhálendinu á Íslandi sem eftir verður tekið um allan heim.[13:51]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil örstutt ítreka það að sú breytingartillaga sem greidd verða atkvæði um hér á eftir í þessu máli um utanvegaakstur er til að hnykkja á og skýra það, sem ég veit að er afstaða allra nefndarmanna í umhverfisnefnd, að með orðalagi ákvæðis um utanvegaakstur er ekki verið að veita þeim sem starfa við landbúnað heimild til að aka utan vega inni á miðhálendinu, þannig að það sé alveg á hreinu. Það er skilningur allra sem í nefndinni eru og okkur greinir kannski fyrst og fremst á um hversu fast þurfi að kveða að orði í þeim efnum.[13:52]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg atkvæðagreiðsla sem við erum í, hún mun skýra og skerpa löggjöf um náttúruvernd allverulega frá því sem nú er. Það er mikið framfaraskref sem við stígum hér. Við erum loksins að lögfesta löggjöf sem deilt var um og sett var fram á vordögum 2013. Eins og margir hafa sagt hefur tíminn unnið með því máli og líka þær grundvallarbreytingar sem við sjáum hér á landi með komu þess fjölda ferðamanna sem raun ber vitni. Það er jákvætt vandamál en veldur því engu að síður að við þurfum að taka öðruvísi á málum en áður.

Ég ætla að segja um þetta mál að þó að við séum fylgjandi þessu og fylgjum þeirri sátt sem við höfum náð þá eru alltaf atriði sem við hefðum viljað sjá öðruvísi. Það breytir því ekki að við erum nú komin með sterkan grunn til að takast á við náttúruvernd vonandi inn í langa framtíð.[13:54]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta eru tímamót, þetta eru góð tímamót. Við erum nú að samþykkja lög um náttúruvernd sem munu vonandi standa til margra ára. Þessi niðurstaða náðist fyrst og fremst með góðri samvinnu og þegar fólk hugsar til baka þá vona ég að það hugsi fyrst og fremst um að með samvinnu er hægt að ná góðri niðurstöðu.

Við í meiri hlutanum munum ekki geta staðið að þeirri breytingartillögu sem kemur frá minni hlutanum. Það er kannski fyrst og fremst að ég tel að það sé skýrara og betra að hafa skýr ákvæði í lagatextanum sjálfum í stað þess að útdeila verkefnum til Umhverfisstofnunar. Ég hef verið þeirrar skoðunar að lagatextar eigi að vera skýrir. Þessi lög finnst mér einkennast af því að lagatextinn er skýr og það sé búið að fara í gegnum hann.

Að öðru leyti segi ég enn á ný: Til hamingju þingheimur og til hamingju Íslendingar allir.[13:55]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna og gleðst mjög yfir því að ný náttúruverndarlög eru að verða að veruleika. Þetta eru lög sem skýra leikreglur og þetta er stórt skref í að vernda náttúru Íslands. Þetta eru lög sem setja auknar kröfur á ráðuneyti og stofnanir þess en við erum tilbúin í það verk.

Góð mál þurfa stundum nokkuð langan tíma til að ná fullum þroska eða góðum þroska og þetta er eitt af þeim. Ég tel að við höfum þurft þennan tíma til að vera betur undir það búin, einnig vegna þess sem hér hefur komið fram í orðum manna að veruleiki okkar hefur breyst talsvert mikið á tveimur árum, ekki síst varðandi gríðarlegan fjölda ferðamanna. Þess vegna höfum við þurft þessi ár til að geta farið yfir málin. Ég óska okkur öllum til hamingju.Brtt. 431 felld með 22:19 atkv. og sögðu

  já:  BirgJ,  BjG,  BP,  HKH,  HHj,  HR,  KaJúl,  KLM,  LH,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VBj,  ÖS.
nei:  ÁsmD,  BÁ,  EKG,  ElH,  ELA,  FHB,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KÞJ,  SigrM,  SPJ,  UBK,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
22 þm. (ÁPÁ,  ÁsF,  ÁstaH,  BjarnB,  BN,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  HHG,  IllG,  KG,  KJak,  LínS,  REÁ,  RR,  SDG,  SÁA,  SIJ,  SilG,  ValG,  ÖJ) fjarstaddir.

Frv.  samþ. með 42 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  FHB,  HBK,  HarB,  HE,  HKH,  HHj,  HR,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LH,  LínS,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SigrM,  SPJ,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
21 þm. (ÁPÁ,  ÁsF,  ÁstaH,  BjarnB,  BN,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  HHG,  IllG,  KG,  KJak,  REÁ,  RR,  SDG,  SÁA,  SIJ,  SilG,  ValG,  ÖJ) fjarstaddur.