145. löggjafarþing — 96. fundur.
um fundarstjórn.

tímasetning kosninga.

[13:33]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þurfti að láta segja mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hæstv. forsætisráðherra hefði fundað með stjórnarandstöðunni í morgun — og það væri ekkert að frétta. Engin dagsetning er komin á kosningarnar. Hvernig stendur á þessu? Eru menn ekki búnir að hafa helgina til að fara yfir hvaða mikilvægu mál það eru sem ríkisstjórnin ætlar að klára og getur sett niður dagsetningar þannig að búið sé að negla það?

Áttar þessi ríkisstjórn sig ekki á því að almenningur og stjórnarandstaðan hefur frekar slæma reynslu af því að treysta þessari ríkisstjórn þegar hún segist ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslur eða kosningar? Það er ekki mjög gott, svo ég leyfi mér að sletta, „track record“, virðulegur forseti, í þeim efnum. Við viljum fá dagsetningu á það hvenær kosningar verða haldnar. Það dugar ekki að bregðast við ástandi sem skapast í samfélaginu með því að segja: Já, við ætlum að kjósa fyrr, en við ætlum bara að fá að klára öll okkar mál í einum rykk áður en það verður gert og sjáum bara til hvernig stjórnarandstaðan hagar sér.

Það kemur ekki til greina. Dagsetningu á þessar kosningar, takk, og svo getum við talað saman um hvaða mál þarf að klára fyrir þær.



[13:34]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hvenær fær íslenska þjóðin að kjósa til Alþingis? Við þurfum að fá svar við þeirri spurningu. Forráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa lofað að það verði kosið í haust en þráast við að nefna dagsetningu. Við höfum þá reynslu af þessum aðilum að þeir hafa áður lofað kosningu um til dæmis Evrópusambandið sem hefur ekki gengið eftir. Til að við getum haldið áfram á þinginu þurfum við að vita fyrir víst hvaða dag íslenska þjóðin fær að ganga til kosninga. Það þýðir ekki að það sé eitthvert prívatmálefni tveggja aðila, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, eða tveggja flokka. Það er atriði sem varðar (Forseti hringir.) alla í þessu samfélagi.



[13:36]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það eru 22 þingfundadagar eftir af starfsáætlun Alþingis og auðvitað með öllu óviðunandi fyrir Alþingi Íslendinga að vera sett í þá stöðu að stjórnarflokkarnir með sinn 38 manna meiri hluta hafi tilkynnt okkur að það verði kosið fyrr, kosið verði í haust, en síðan liggi ekkert meira fyrir um tímasetningu þeirra kosninga né heldur þau mál sem stjórnarflokkarnir telja svo mikilvæg að ekki megi kjósa núna í vor, eins og við í stjórnarandstöðunni lögðum til fyrir helgi og var fellt. Ég hefði talið það eðlilegast. Ég hefði talið eðlilegast að við hefðum samþykkt þá tillögu og boðað hefði verið til kosninga í vor. Þá kom fram sá skýri vilji ríkisstjórnarinnar að flýta kosningum en ekki svo mikið, þær yrðu í haust, en ríkisstjórnin hefur ekki notað tímann til að setja niður þau mál sem hér hefur verið tönnlast á að séu svo mikilvæg að það þurfi að ljúka þeim. Við erum engu nær (Forseti hringir.) um þau. Við erum engu nær um tímasetningu. Það er óviðunandi staða fyrir Alþingi, herra forseti.



[13:37]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með þeim sem gera athugasemdir við það að við skulum koma saman til þings núna eftir þá dramatísku atburði sem áttu sér stað í síðustu viku án þess að fyrir liggi dagsetning um kosningar og málaskrá hinnar nýju ríkisstjórnar sem fékk andlitslyftingu í lok síðustu viku. Það loforð var gefið almenningi og það þýðir ekki að hafa í hótunum við stjórnarandstöðuna eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gerði síðast þegar við þinguðum vegna dagsetningar um kosningar. Það á ekki að hóta stjórnarandstöðunni neinu í því samhengi. Loforðið var gefið íslenskum almenningi. Almenningur á rétt á að fá að vita hvenær hann fær að ganga til kosninga. En þingið á rétt á því líka vegna þess að ef við eigum að taka hér til starfa og sinna þingstörfum með eðlilegum hætti þá er auðvitað lágmark að fyrir liggi hver dagskráin er. Það er sanngirniskrafa, (Forseti hringir.) eðlileg krafa að dagsetning verði í það minnsta gefin upp ætli menn sér ekki að ganga til kosninga strax, sem ekkert bendir til að þeir hafi hugsað sér.



[13:38]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Kvöldið fræga í síðustu viku sagði hæstv. fjármálaráðherra í stiganum að það yrði klippt eitt þing af kjörtímabilinu. Það þýðir að þá ber að kjósa væntanlega fyrir miðjan september næstkomandi vegna þess að síðasta þing á kjörtímabilinu er næsta vetur. Þannig skildi ég hæstv. fjármálaráðherra. Frá þeim tíma hefur verið dregið í land aftur og aftur. Menn eru eitthvað að pukrast með þessar tímasetningar og ofan í það koma hótanir frá einstaka stjórnarþingmönnum í garð stjórnarandstöðunnar. Það gengur ekki, ef leiðangurinn snýst um það að ætla að fara að byggja upp trúnaðartraust, að byrja á því að segja eitthvað og svíkja það svo og byrja á því að segja eitthvað og fara svo að hóta og setja skilyrði. Komið bara með þessa tímasetningu og höldum svo áfram að vinna. Hvers vegna þetta pukur? Hvers vegna geta menn ekki einfaldlega sagt hvenær á að kjósa? Þá getum við haldið áfram.



[13:40]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ágætt í sjálfu sér að nýr forsætisráðherra boði stjórnarandstöðuna til viðræðna en það er öllu verra að ekki neitt kom út úr þeim fundi, nákvæmlega ekki neitt, ekki dagsetning á kosningar, ekki einu sinni fyrstu drög að forgangsröðun mála. Með öðrum orðum, herra forseti, ríkisstjórnin sem taldi svo óskaplega mikilvægt út frá einhverjum gríðarlegum verkefnum að hún sæti áfram í nokkra mánuði í óþökk þjóðarinnar veit ekkert hvað hún vill. Henni hefur ekki dugað helgin og gærdagurinn til að átta sig á því þannig að ekkert kom út úr fundinum. Ég held að hæstv. forseta vorum hljóti að vera órótt í sinni, eða mér væri það í hans sporum. Starfsáætlun Alþingis er í fullkomnu uppnámi og það er tilgangslaust eða tilgangslítið að hefja vinnu í nefndum vegna þess að nefndirnar vita ekkert í hvaða mál þær eiga að fara. Ég get tekið velferðarnefnd sem dæmi sem er með gríðarlegan stabba af stórum málum, augljóst mál að ekki er raunhæft að afgreiða nema eitt eða tvö þeirra Hver þeirra eiga það að vera? Við þurfum að fá einhverjar línur í þetta.

Herra forseti. Skynsamlegast er (Forseti hringir.) núna og yrði mjög vinsælt að gefa þinginu sólarfrí í tvo, þrjá daga þannig að ríkisstjórnin geti unnið heimavinnuna sína.



[13:41]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að leita ásjár forseta með það að kalla fram upplýsingar um kjördag. Eins og málum er háttað akkúrat núna höfum við ekkert í höndunum nema þingmálaskrá ríkisstjórnar sem er farin frá, þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er farin frá. Það er komin önnur ríkisstjórn og hver er þingmálaskrá þeirrar ríkisstjórnar? Hver er þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar? Nefndirnar eru með verkefni og nefndirnar eru að vinna og í hvaða forgangsröð á að vinna? Á hvaða mál á að leggja áherslu? Hvernig eigum við að vinna á Alþingi Íslendinga þegar ekki er vitað hver forgangurinn er? Við vitum að ríkisstjórnin er umboðslaus. Við vitum að það er flotið algjörlega undan henni. Það er einhver sýndarríkisstjórn að störfum núna. Við þurfum að vita hvaða mál þetta eru. Við þurfum að vita hvenær kjördagur á að vera. Og forseti þarf að vera með okkur, Alþingi, í liði með það að setja þessu vandræðaframkvæmdarvaldi skorður og kalla kjördaginn fram.



[13:42]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með félögum mínum sem hafa talað. Það er auðvitað ekki hægt að hafa það þannig að hér ríki fullkomin óvissa, ekki aðeins í þingsal heldur líka í samfélaginu. Það er ekki komin nein staðföst dagsetning. Við höfum loforð hæstv. forsætisráðherra en það var enginn fulltrúi frá Sjálfstæðisflokknum á þessum fundi. Fyrir vikið, þekkjandi hefðbundnar leikfléttur hjá flokkum í valdastólum, er hætt við því að það sem var talað um á fundinum dragist. Það er mjög hætt við því að við fáum ekki neinar upplýsingar um það hvenær eigi að rjúfa þing. Því miður virðist ekki vera nein almennileg yfirsýn eða verkstjórn hjá þessari ríkisstjórn því að ríkisstjórnin veit ekki hvaða mál hún vill leggja áherslu á. Það er ekki í boði, forseti.



[13:43]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að undrast það að herra forseti láti sér detta í hug að setja á fund við þessar aðstæður. Við skulum rifja upp af hverju ástandið er svona. Það er út af því að Ísland nýtur þeirrar vafasömu sérstöðu að þrír ráðherrar úr ríkisstjórninni sem hrökklaðist frá áttu eignir í skattaskjólum á einhverju tímabili. Tveir sitja enn í ríkisstjórn, annar sjálfur fjármálaráðherrann sem fór með eignir í skattaskjól.

Krafa almennings er skýr. Hér er búið að mótmæla dögum saman, hæstv. forseti, og krefjast kosninga strax. Nýr forsætisráðherra, hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson — jú, hann hélt þó fund með stjórnarandstöðunni en hann gat engin svör gefið. Ég tel ekki fundarfært hér, herra forseti, á meðan dagsetning fyrir kosningar liggur ekki fyrir.



[13:45]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér í stiganum um það að kjósa skyldi í haust á þjóðin heimtingu á því að það verði gefin upp dagsetning á því hvenær eigi að ganga til kosninga. Krafa fólksins sem hefur verið hér á Austurvelli hefur verið sú að það eigi að kjósa strax. Það var líka krafa stjórnarandstöðunnar sem var felld af meiri hluta þingsins, þannig að núna er komið að því að þessi ríkisstjórn verður bara að standa við sín orð og koma með dagsetningu. Það finnst mér vera aðalmálið. Þjóðin á heimtingu á því. Svo er það líka praktískt atriði upp á vinnulag okkar hér í framhaldinu hvernig við eigum að geta hagað þessum málum. Við getum ekki komið neinu skikki á það fyrr en dagsetningin á kosningunum liggur fyrir. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. forseta að hann leggi þinginu lið í því að fá þessi mál á hreint.



[13:46]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er eins og upp séu komnar svolítið kunnuglegar íslenskar kringumstæður þegar einstaklingar fara á mikið skrall og muna svo ekki alveg daginn eftir hvað þeir sögðu. Það gekk hérna mikið á í síðustu viku og mér finnst eins og ríkisstjórnarflokkarnir séu að vakna upp svolítið þunnir og séu að rifja upp hvað þeir sögðu. Bíddu, töluðum við um einhver mikilvæg mál? Hvað meinti ég með því? Sagði ég virkilega að það ætti að kjósa?

Já, þeir hlutir voru sagðir hérna í miðjum klíðum á hlaupum í síðustu viku og þeir voru mikilvægir. Þeir voru mjög skiljanlegir og rökréttir, að segja inn í þetta allt saman að það þyrfti að kjósa. Vissulega, já, það þarf örugglega að klára einhver mál áður en kosið verður. En er það virkilega svo að á hlaupunum í síðustu viku vissu ráðherrarnir ekkert hvað þeir voru að tala um? Nú er talað um að byggja upp traust en menn geta ekki einu sinni svarað því þá hvenær þessi kjördagur verður. Hvenær verður kosið? Hvaða mál voru menn að tala um? Hvaða mál eru það sem þarf að klára í hvelli fyrir kosningar? (Forseti hringir.) Þetta eru augljósar spurningar.



[13:47]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fram til þessa hefur nú svolítill hroki einkennt ríkisstjórnina sem hefur farið fyrir völdum síðustu þrjú árin. Það að halda því fram enn og aftur, þrátt fyrir nýja forustu í forsætisráðuneytinu, að enginn geti séð um einhver tiltekin mál nema þessir flokkar, að stöðugleiki verði að vera til staðar til þess að hægt sé að fara í aflandsuppboð — stöðugleikinn er ekki meiri en svo að hér bankar fólk og ber í bumbur úti á Austurvelli reglulega. Það er ekki hægt. Krafan var ekki uppklapp um að halda áfram með ríkisstjórnina heldur vildi fólkið og vill fá kosningar strax. Það er það sem stór hluti þjóðarinnar hefur verið að tala um úti á Austurvelli og fyrir austan, vestan, norðan. Það er mótmælt víðar en á Austurvelli.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að „strax“ hafi verið teygjanlegt hugtak í huga sumra fulltrúa (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar þá getum við ekki misskilið þjóðina sem stendur hérna úti dag eftir dag eða hluti (Forseti hringir.) hennar og segir: Við viljum kosningar strax.



[13:49]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Hér í síðustu viku var rík krafa um að forsætisráðherra stigi til hliðar og það gerði hann í síðustu viku. En það var jafnframt fullur vilji til þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem hafa 38 manna meiri hluta á þinginu, héldu áfram og kláruðu þau stóru verkefni sem unnið er að. Eitt þessara verkefna er á dagskrá hér í dag.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, átti fund með stjórnarandstöðunni nú í hádeginu til þess meðal annars að fara yfir þessi mál og ítreka mikilvægi þess að þau mál sem ríkisstjórnin ætlaði að koma með hygðist hún klára. Það væri svo og við værum með 38 manna meiri hluta hér á þinginu. (Gripið fram í.)

En hins vegar, virðulegur forseti — það er svo mikið stress hér í stjórnarandstöðunni að maður fær ekki frið til þess að tala. (Gripið fram í.) Hins vegar er alveg ljóst að það er líka mögulegt að kjósa fyrr og klára þessi mál. Það er það sem er lagt upp með.

Það sem kemur mest á óvart hér er þessi pirringur stjórnarandstöðunnar. [Hlátur í þingsal.] Þegar hæstv. forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur talað við stjórnarandstöðuna og er að reyna að leita leiða til þess að samræma sjónarmið þá veður (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan uppi með miklum pirringi og miklum látum.

Virðulegur forseti. Okkur er ekkert að vanbúnaði að ganga til dagskrár sem liggur fyrir þessum fundi. (Gripið fram í.)



[13:50]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eftir hneykslismál síðustu viku, eftir fumið og fátið og loforð um að flýta kosningum, er það eðlileg krafa af hálfu hv. þingmanna og almennings í landinu að kjördagur verði settur niður. Ég hefði haldið að hæstv. forsætisráðherra, sem stígur öðruvísi fram en sá sem er nýfarinn frá og kallar til sín stjórnarandstöðuna til að ræða málin, sæi það líka að það skiptir máli fyrir vinnufrið í þinginu og fyrir farsæla lausn á þeim mikilvægu málum, sem við vitum reyndar ekki hver eru, að kjördagur yrði ákveðinn og síðan mundum við raða vinnunni inn í tímarammann sem fyrir liggur. Eftir orð hv. þingmanns, formanns þingflokks Framsóknar, kemur efasemd upp í hugann: (Forseti hringir.) Bíddu, getur verið að menn séu enn að spekúlera í því að kjósa ekki í haust heldur aðeins að sjá svona til hvernig verkast vill með 38 manna meiri hluta í þinginu?



[13:51]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að menn ætla strax að reyna að draga úr með kosningar í haust eins og svo sem mátti búast við. Hv. þingmaður kemur hér og segir að nú sé unnið að því að samræma þau sjónarmið að klára málin og halda kosningar í haust. Það svona gefur tóninn. Trúverðugleiki þessa meiri hluta fyrir því að halda kosningar og atkvæðagreiðslur er ekki mjög mikill. Ekki var farið í þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB. Ekki var farið í þjóðaratkvæðagreiðslur um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningum eins og stóð til og var eina réttlætingin fyrir bölvanlegum 40% þröskuldi í tímabundnu ákvæði í stjórnarskrá um breytingar þar á. Stærstu mótmæli Íslandssögunnar voru hér fyrir utan og krafist var kosninga strax. Það voru mjög skýr skilaboð. Hæstv. þáverandi forsætisráðherra sóttist sjálfur eftir þingrofi og kosningum. Hæstv. fjármálaráðherra var til í það. Hv. stjórnarandstaða krafðist þess. Menn geta ekki einu sinni gefið tímasetningu fyrir því hvenær þeir ætla að halda kosningar undir þessum trúverðugleika.

Virðulegi forseti. Það er erfitt að finna orð til að lýsa því rugli sem (Forseti hringir.) hér á sér stað.



[13:53]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þessi nýja ríkisstjórn er strax frá fyrsta degi rúin trausti. Það er ekki hægt að trúa neinu sem kemur frá hæstv. ráðherrum eða stjórnarliðum. Þetta er allt á floti. Maður hefði haldið að það yrði fyrsta verk ríkisstjórnarinnar, eftir þessa helgi, í upphafi þessarar þingviku, að leggja spilin á borðið um það hvernig hún ætlar að vinna að framkvæmd þeirra mikilvægu verkefna sem hún telur að hún sé með á sinni könnu, að það liggi þá fyrir skilgreining á þeim mikilvægu málum. En svo er ekki. Það er bara boðað til kaffisamsætis og ljósmyndatöku eins og fermingarbörn séu á ferðinni.

Það er ekki verið að kalla eftir þessu. Það er verið að kalla eftir að menn standi einu sinni við orð sín og komi með eitthvað borðleggjandi; hvort sem okkur líkar það betur eða verr að kosið verði í haust frekar en nú í vor eins og við viljum þá standi ríkisstjórnin að minnsta kosti við sín eigin (Forseti hringir.) orð og komi með eitthvert plan. Nei, nei, menn mega bara vera sælir og glaðir með að þessi frábæra ríkisstjórn er komin til valda eða hitt þó heldur.



[13:54]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég skil óþolinmæði hv. stjórnarandstöðu. Ég var í sömu sporum á síðasta kjörtímabili þegar jafnréttisráðherra landsins, Jóhanna Sigurðardóttir, var dæmd fyrir (Gripið fram í.) — eða fór gegn jafnréttislögum, þegar ógilding ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur árið 2011 í Hæstarétti var staðfest — Héraðsdómur Suðurlands, var staðfest. Hvorugur þessara ráðherra baðst þá afsökunar á einu eða neinu, brutu þó lög.

Menn geta verið ósammála um þá stöðu sem er uppi og ekki ætla ég að standa hér og mæla fyrir aflandsfélögum, (Gripið fram í.) víðs fjarri, (Gripið fram í.) virðulegur forseti. Síðasta ríkisstjórn skipaði líka stjórnlagaráð þrátt fyrir ógildingu kosninga í Hæstarétti. Svo kemur þetta sama fólk og talar hér (Forseti hringir.) eins og helgislepjan sé engin í heiminum — og valdhroki þingflokksformanns Pírata, sem sendir sínu eigin fólki þannig tóninn að það sé best fallið til þess að þrífa, stendur svo hér eins og heilög kýr og segir öðrum fyrir verkum. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Þetta er fáránlegt. (Gripið fram í.) Nei, það vil ég ekki … (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.]



[13:56]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það var ætlunin að reyna að hleypa hv. 11. þm. Reykv. s., Óttari Proppé, í ræðustól ef þingmenn gefa honum hljóð.



[13:56]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við erum stödd á fordæmalausum stað í íslenskri pólitík. Gerningaveður síðustu vikna og daga er með eindæmum. Við í stjórnarandstöðunni lögðum fram tillögu í síðustu viku um kosningar strax í takt við mjög sterkar raddir almennings. Sú tillaga var felld í þinginu á föstudaginn af meiri hluta stjórnarflokkanna. Það er mjög mikilvægt að við fáum sem allra fyrst að sjá dagsetningu á kosningum í haust. Við megum ekki gleyma því, stjórnmálamennirnir á Alþingi, að kosningar eru ekki fyrir okkur. Kosningar eru ekki haldnar fyrir stjórnmálaflokka. Þær eru leið almennings til að setja sitt mark á íslensk stjórnmál. Við skuldum almenningi þessa dagsetningu, ekki stjórnarandstöðunni.



[13:57]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú á að halda áfram að finna afsakanir til að svíkja loforðið, ekki við stjórnarandstöðuna heldur þjóðina, loforðið um að gengið yrði fyrr til kosninga, að þetta þing yrði klárað og síðan boðað til kosninga.

Maður heyrir hjá stjórnarliðum að það á ekki að standa við stóru orðin heldur á að reyna að benda á hina og þessa sem bera ábyrgð á ástandinu. Gleymum því ekki að það var ríkisstjórnin sjálf, þó að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi ekki verið á landinu og orðið vitni að þeim samtölum sem áttu sér stað í þingsal og setur sig hér á háan hest, sem lofaði þjóðinni eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar að þing yrði rofið.

Síðan hafa þingmenn stjórnarinnar og ráðherrar komið hver á fætur öðrum og hótað því að ekki verði staðið við þetta heldur velti það algjörlega á stjórnarandstöðunni að fylla út eða taka þátt í að leysa út óútfylltan tékka ríkisstjórnarinnar.

Þetta er óboðlegt ástand. Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta eins og ekkert hafi gerst á landinu er ekki í boði. Það er bara ekki í boði. (Forseti hringir.)

Látið okkur fá dagsetningu. Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu. (Forseti hringir.) Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti.



[13:59]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þá höfum við það. Hér verða engin hefðbundin þingstörf á meðan minni hlutinn á þingi fær ekki kröfum sínum framgengt. (BirgJ: Kröfum? Þið lögðuð þetta til.) Meðan þið gerið ekki eins og við viljum þá verða engin hefðbundin þingstörf. Endurspeglast ekki einmitt það sem við stjórnarþingmenn óttuðumst fyrir helgi? Er ekki nákvæmlega það að gerast? Vitleysan heldur áfram af hálfu stjórnarandstöðunnar (BirgJ: Já, ókei.) með tilheyrandi ásýnd almennings á þingstörfin, sem er ekki til fyrirmyndar. (Gripið fram í.) Það er bara svoleiðis. Hér gasprar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fram í og þetta fer mikið fyrir brjóstið á henni. (Gripið fram í.) Ég skil það vel. (Gripið fram í.) Og kemur nú öll hjörðin á eftir. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Við getum með samkomulagi lokið þingstörfum til þess að kjósa í haust tiltölulega sómasamlega. (Forseti hringir.) Hér er á dagskrá eitt af mikilvægu málunum sem við ætlum að klára, (Forseti hringir.) en það eru sjúkratryggingar, hámarksgreiðslur (Forseti hringir.) sjúklinga. (Forseti hringir.) Er það málið sem stjórnarandstaðan ætlar núna, (Forseti hringir.) hv. þm. Birgitta Jónsdóttir og hennar hjörð sem hrópar fram í, (Forseti hringir.) að stoppa? (Gripið fram í.) Það að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga? (Forseti hringir.) Það er hér á dagskrá. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Höldum áfram og reynum að fara (Gripið fram í.) að klára vinnuna okkar. (Gripið fram í: Yfirklór.)



[14:01]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í fyllstu einlægni, er til of mikils mælst að biðja um dagsetningu á kosningum? Er það dónaskapur og heimtufrekja að fá að vita hvenær kosningarnar verða haldnar?

Gerum okkur grein fyrir því um hvað við erum að tala. Við erum að tala um að verða við kröfu fólks sem kom hérna tugþúsundum saman út á Austurvöll og krafðist kosninga strax. Strax, ekki breytinga á stólaskipan í ríkisstjórninni, heldur kosninga strax.

Hér er mjög einföld krafa uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hvenær eiga þessar kosningar að verða haldnar?

Hæstv. forsætisráðherra fráfarandi, sem fór frá í síðustu viku, sat beggja vegna borðs í samningum við kröfuhafa. Hann var kröfuhafi og leiddi samninga við kröfuhafa. Hann hafði forskot á aðra kröfuhafa af því að hann vissi nákvæmlega hvers virði kröfurnar voru. Það er aðstöðumunur. Að sama skapi er aðstöðumunur milli (Forseti hringir.) stjórnmálaflokka sem vita hvenær kosningarnar verða — ég trúi ekki að núverandi stjórnarflokkar séu ekki búnir að velta upp (Forseti hringir.) möguleikum í þeim efnum — og þeirra sem vita ekki hvenær þær verða. (Forseti hringir.) Ég vil líka fá að vita hvaða mikilvægu mál það eru sem stjórnin ætlar að klára. Við eigum heimtingu á að fá að vita það.



[14:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins brattur í málsvörn sinni að fara að draga inn í hana málaferli sem ríkið hefði tapað á síðasta kjörtímabili. Það vill svo til að á undanförnum nokkrum dögum hefur þessi ríkisstjórn og tveir ráðherrar í henni tapað dómsmálum, að vísu í héraði enn sem komið er. Annars vegar fyrir að hafa atvinnuleysisbætur af atvinnulausum með óréttmætum hætti og hins vegar að standa ekki við gerða samninga við Reykjavíkurborg.

En svo vil ég segja um efni málsins að úr því að það er svo hjá ónefndum framsóknarmönnum að orðið strax er teygjanlegt hugtak þá er haustið mjög teygjanlegt, er það ekki? Úr því að strax er teygjanlegt í Framsóknarflokknum þá er haustið ansi opið hugtak. Er það eitthvað skrýtið að menn vilji hafa fast land undir fótum í þessum efnum? Ef það er svo að ríkisstjórnin getur ekki komið sér niður á neitt, þá er þingið í þeirri stöðu að þurfa að ákveða hvernig það tekur næstu skref. Ég sé ekki annað en að það sé þá verkefnið að skipuleggja hvernig við nýtum vormissirið fram undir lok maí (Forseti hringir.) því að ekki fundum við í júní vegna forsetakosninga og svo verðum við bara að sjá til hvort þessi ríkisstjórn kemur sér niður á það til hvers hún er, hvað hún ætlar að gera.



[14:04]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er talað um leiðinlega og ljóta ásýnd Alþingis. Alþingi setur niður í hugum fólks. Fólk ber ekki traust til Alþingis. (Gripið fram í: Það er ekki skrýtið.) Það verður ekki aukið í dag, held ég. Það er þó í hendi eins manns að allt falli hér í ljúfa löð á tíu mínútum. Ef hann segir okkur, hæstv. nýorðinn forsætisráðherra, hvenær á að kjósa þá fellur allt hér í ljúfa löð.



[14:04]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Yfirlætið í hv. þingflokksformanni Ásmundi Einari Daðasyni áðan sem og oft endranær er dónaskapur. Það er dónaskapur gagnvart því fólki sem hefur komið hér og eytt tíma sínum í það að halda því fram að mótmælin séu vegna þess að ákvörðunartakan sé í höndum 38 þingmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ríkisstjórnin er rúin trausti. Hún er rúin trausti. Þess vegna kallar fólk á kosningar strax.

Forsætisráðherra fyrrverandi vék af ráðherrastól en hann vék ekki af þingi. Hann er nákvæmlega jafn vanhæfur og rúinn trausti sem þingmaður og sem ráðherra. Það sama á við um fleiri. Ég skil ekki þegar þingmenn ætla að reyna að skýla sér á bak við það, ekki það að innáskiptin voru afskaplega góð með þeim þingmanni sem kom inn (Forseti hringir.) í staðinn fyrir hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það breytir (Forseti hringir.) því ekki að við þurfum að fá að vita þetta til þess að hafa starfsfrið (Forseti hringir.) í nefndum. Við erum að ræða millidómstig, (Forseti hringir.) risavaxið mál í allsherjar- og menntamálanefnd. Á það að afgreiðast? Ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra: Á það að afgreiðast? Hvenær fáum við að vita það? Eigum við að halda áfram að vinna …



[14:06]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það á við um alla hv. þingmenn að þeim ber að hlíta tímamörkum.



[14:06]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þeim málflutningi sem meiri hlutinn hefur um að það séu 38 þingmenn hér sem ráði ríkjum. Ég er bara með mjög einfalda spurningu til hæstv. forseta: Er þingræði á Íslandi eða er meirihlutaræði?

Þá langar mig einnig til að spyrja hæstv. forseta: Er hæstv. forseti þingforseti meiri hlutans og minni hlutans, allra þingmannanna 63 sem sitja hér, eða er hann bara þingforseti þeirra 38?

Þar að auki: Ætlar hæstv. forseti að beita sér í því að reyna að hafa milligöngu um það að komast að einhverri niðurstöðu í þessu risavaxna máli?

Ég krefst þess að fá svör við þessum spurningum þegar í stað.



[14:07]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er þingræði á Íslandi. Forseti Alþingis er forseti Alþingis, þar með talið forseti allra alþingismanna, og hefur reynt að rækja hlutverk sitt þannig. Það gefur hins vegar augaleið þegar tekist er á um mál þar sem skoðanaágreiningur er uppi að ekki eru endilega allir sammála öllu því sem forseti gerir hverju sinni. Hann reynir þó að sýna sanngirni í störfum sínum og fyrst og fremst hlíta þeim lögum og reglum sem hann starfar eftir og stjórnarskránni.

Nú hafa átt sér stað samtöl milli stjórnar og stjórnarandstöðu og forseti vonar að þau leiði til góðrar niðurstöðu.



[14:08]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér koma fram mjög eðlilegar spurningar sem eru viðbrögð stjórnarandstöðunnar við því sem stjórnarliðar hafa sagt. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að kjósa eigi í vor og að það liggi fyrir að þau vilji afgreiða einhver mál fyrir þann tíma. Þá er ósköp eðlilegt að fá að spyrja hvaða mál það séu í fyrsta lagi og hvaða dag eigi að kjósa. Mér finnst mjög skrýtið að við séum að eyða tíma í það og fáum ekki bara hrein svör um það strax. Af hverju er stjórnin að víkja sér undan þessum spurningum? Er ekki eðlilegast að svara þessu bara? Ég spyr í fullri einlægni. Hvaða mál eiga að fara í gegn? Ég hlakka til að fara að ræða breytingar á lögum um sjúkratryggingar. (Forseti hringir.) Það er gott mál og við þurfum að ræða okkur í gegnum það. Það munum við gera þegar við erum búin að fá svar við þessum ofureinföldu spurningum.



[14:09]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með flokkssystur minni, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur: Friðurinn hér í þessum sal þessa stund er í höndum eins manns. Hæstv. forsætisráðherra þarf bara að gefa einfalt svar við fullkomlega réttmætri spurningu um það hvenær hann hyggist ganga til kosninga.

Mönnum verður tíðrætt um öll stóru verkefnin sem þessi ríkisstjórn þurfi að vinna, en það vefst fyrir þeim að segja okkur hver þau eru. Það liggur engin málaskrá fyrir þinginu. Er það ekki dæmigert að halda uppi einhverju loðmullutali, tala um að samræma sjónarmið vegna kosninga í haust þegar almenningur er bara að spyrja: Hvað eigið þið við með loforðinu sem þið gáfuð hér í síðustu viku um að það yrði kosið í haust?

Mönnum verður líka tíðrætt um 38 þingmanna meiri hluta í þessum sal. Valdið er þeim mjög hugleikið og það er auðséð að það ætlar að verða þeim erfitt að sleppa því valdi því nú eru þeir greinilega að gæla við þá hugmynd að standa ekki við loforðið um kosningar í haust. Meðan þeir ekki gefa dagsetningu er ekki hægt að taka það loforð alvarlega eða líta svo á að það liggi nein merking á bak við það.



[14:11]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekki eingöngu þannig að almenningur beri ekki traust til ríkisstjórnarinnar. Það er líka þannig að hæstv. forsætisráðherra virðist ekki hafa það afl sem þarf til að hægt sé af stjórnarflokkunum að koma sér saman um dagsetningu fyrir kosningar. Þetta er mjög alvarleg staða. Fyrir utan það að ekki liggur fyrir málaskrá og eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á er þetta mál í höndum hæstv. forsætisráðherra. Ef hann getur nefnt hér kjördag og lagt fram málaskrá þá getum við rætt hvernig hægt er að ljúka þessu með sómasamlegum hætti. Ég árétta því ósk mína til forseta um að funda ekki frekar fyrr en dagsetning fyrir kosningar og málaskrá liggur fyrir.



[14:12]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti hefði ekki sett á dagskrá þessi tilteknu mál ef það væri ekki ætlun hans að halda áfram efnislegri umræðu á Alþingi um þau mál sem eru á dagskrá.

Forseti reyndi að velja þessi mál af kostgæfni og ákvað að setja á dagskrá þessa fyrsta fundar í vikunni mál sem hefur verið kallað eftir annars vegar og hins vegar mál sem afgreitt var samhljóða út úr nefnd.

Með þessu vildi forseti koma til móts við ákall sem hefur komið fram bæði í þjóðfélaginu og á þingfundum um tiltekið úrlausnarefni í heilbrigðismálum og (Gripið fram í.) hins vegar að taka á dagskrá mál sem samstaða var um í þingnefnd og hefur verið afgreitt til síðari umræðu.



[14:13]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Upp kom dæmalaust, fordæmalaust ástand í síðustu viku. Til að bregðast við því voru vissulega gerðar mannabreytingar í ríkisstjórn og nýr forsætisráðherra tók sæti, en þegar tilkynnt var um þær mannabreytingar horfðu forustumenn stjórnarflokkanna framan í fjölmiðla, horfðu og töluðu til þjóðarinnar með þeim hætti að viðbrögðin væru tvenns konar. Annars vegar að skipta um forsætisráðherra, að sá fyrri viki til hliðar, og svo hins vegar að kosið yrði í haust. Það sem meira er, hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að kjörtímabilið yrði stytt sem nemur einu löggjafarþingi. Hann hefur verið hér það lengi að hann veit hvað eitt löggjafarþing er. Síðasta löggjafarþing þessa kjörtímabils hefst í byrjun september. Núna er annaðhvort verið að gera hann að ómerkingi eða þá að sagt var ósatt. (Forseti hringir.) Hvort var það, virðulegi forseti?



[14:14]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega alltaf meira og meira hissa. Það er mikið talað um, og hæstv. forsætisráðherra var í viðtali hérna um helgina, mikilvægi þess að byggja upp traust. Það er augljóst og hefur verið augljóst undanfarin ár. Björt framtíð er meðal annars stofnuð um það verkefni og þá trú okkar að byggja þurfi upp traust í íslensku samfélagi. Hvernig sjá menn fyrir sér að gera það? Menn stóðu hér í stiganum í síðustu viku og sögðu alveg skýrt, af augljósum ástæðum, að það ætti að kjósa í haust, að það ætti stytta kjörtímabilið um eitt þing. Ástæðurnar voru augljósar. Nú eru að vakna grunsemdir um að menn ætli einhvern veginn að tala sig út úr því, þetta hafi ekki verið meint svona og sé ekki alveg ljóst. Væri ekki langbesti leikurinn í þessari stöðu, ef menn meina það að þeir vilji byggja upp traust, að koma fram og segja: Kjördagurinn er þarna og þetta eru (Forseti hringir.) málin sem við viljum klára. (Forseti hringir.) Er það ekki langbest? (Forseti hringir.) Skapar ekki allt annað glundroða og óvissu? Horfum við ekki (Forseti hringir.) upp á það ástand í þinginu núna?



[14:15]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég ætla að nota þennan dagskrárlið til að óska eftir því að menntamálaráðherra verði fenginn til að ræða nýundirritaðan þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Um það var gefið sérstakt loforð í umræðu um fjárlagafrumvarpið og ég vænti þess að þessi beiðni dugi til að hæstv. mennta- og menningamálaráðherra fari yfir þau mál sérstaklega með þinginu eins og lofað var. Það er mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að víða er verið að herða pólitísk tök, ekki síst á opinberri umræðu og fjölmiðlum.

Síðan vil ég segja að mér finnst ástæða til að fara yfir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvað það þýðir að vera dæmdur fyrir eitthvað. Ágreiningur ráðherra við sveitarfélag vegna skipulagsmála er alvanalegur. Það kemur stundum á borð umhverfisráðherra, stundum á borð innanríkisráðherra eins og er núna í nýgengnu máli Ólafar Nordal við Reykjavíkurborg, það kemur upp ágreiningur (Forseti hringir.) um skipulagsmál. Niðurstaðan liggur fyrir og þegar niðurstaðan (Forseti hringir.) lá fyrir í því máli sem vísað er til undirritaði sú sem hér stendur það skipulag sem (Forseti hringir.) ágreiningurinn var um og lögin voru skýrð í framhaldi af því. Ég frábið mér það, forseti, að það sé (Forseti hringir.) látið óátalið að hv. þingmaður tali ítrekað, bæði á Alþingi og í fjölmiðlum, (Forseti hringir.) um að sú sem hér stendur sé dæmd manneskja — því að það er rangt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:17]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill upplýsa að hæstv. menntamálaráðherra hefur óskað eftir því við forseta að skapað verði rými til að fram geti farið umræða um þennan nýja þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Forseti vill að sjálfsögðu reyna að verða við þeirri beiðni og treystir því að við getum fundið tíma til þess að sú umræða geti farið fram, hvenær sem það getur svo sem verið. Forseti vill gjarnan að hún fari fram fyrr en síðar.



[14:17]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá kröfu sem hér hefur komið fram um að dagsetning kosninga komi fram sem fyrst. Það skiptir miklu máli, ekki bara fyrir þá sem eru í stjórnmálunum, kannski síst fyrir okkur, við eigum að geta hoppað í kosningar með stuttum fyrirvara, heldur skiptir líka máli fyrir þjóðina að vita hvenær er kosið. Það þarf að undirbúa, það þarf að taka ákvarðanir, það eru kjörnefndir, það eru skólar, það er ýmislegt, það geta verið aðrir atburðir í kringum kosningar sem þarf að taka tillit til. Það er eitthvað svo skrýtið að ætla að sitja á þessu. Mig langar líka að minna á að ríkisstjórnin er ekkert að gera okkur einhvern greiða með því að boða til nýrra kosninga og nefna dagsetningu. Þetta er krafan hérna úti. Forsætisráðherra hefur sagt af sér. Það er ekki eins og ekkert sé búið að ganga á. Stundum velti ég fyrir mér: Lesa stjórnarliðar og ríkisstjórnin ekki blöðin? Og sjá hvað er búið að ganga á? Við erum höfð að athlægi erlendis fyrir það hvernig við höfum hagað okkur. (Forseti hringir.) Og að bera þetta saman við einhver mál frá fyrra kjörtímabili, (Forseti hringir.) einhverjar ráðningar sem voru dæmdar ólöglegar, fyrirgefðu, ég veit ekki hvað hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins er að fara.



[14:19]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það lá fyrir yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að hér yrðu kosningar í haust, að næsta löggjafarþing sem ætti að hefjast í september mundi falla niður og það yrði kosið í haust.

Af hverju standa menn ekki við það? Þetta er ekki flókið. Þetta eru ekki geimvísindi. Það er látið eins og það sé svo flókið verkefni fram undan að ekki sé hægt að standa við það. Mér finnst kominn tími til að hæstv. forseti taki líka ábyrgð þingsins alvarlega. Samkvæmt starfsáætlun eru bara 22 dagar eftir. Hvernig sér forseti fyrir sér að það gangi upp að ljúka hér störfum á 22 dögum og að það verði boðað til kosninga áður en þing kemur saman í haust eða að löggjafarþingið sem á að hefjast í haust falli niður?

Er ekki unnið eftir neinu plani? Á þetta að bara að ráðast frá degi til dags?

Ég vorkenni okkur í stjórnarandstöðunni ekki neitt. Þetta er bara svo ljót ímynd fyrir (Forseti hringir.) þingið og þingstörfin að það er ekki bjóðandi upp á slíkt. Það eru svo óþægileg vinnubrögð sem mest má vera í upphafi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem er skipuð við þessar hörmulegu aðstæður sem menn ættu ekki að gleyma strax á fyrstu viku — að hún fór frá vegna (Forseti hringir.) hneykslis og peninga í skattaskjóli hjá ráðherrum þessarar ríkisstjórnar.



[14:20]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Enn áréttar forseti það við hv. þingmenn að þeir virði tímamörk. Það gildir um alla þingmenn.



[14:20]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það hefði komið skýrt fram í máli mínu að ég teldi vel hægt að samræma þau sjónarmið sem komu fram hér í síðustu viku við, alveg rétt, fordæmalausar aðstæður þegar forsætisráðherra segir af sér en ríkisstjórnin ákveður að sitja áfram.

Þar var talað um að hægt væri að flýta kosningum og að menn væru tilbúnir til þess. Um það á að vera hægt að mynda samstöðu. Það var líka talað um að það ætti að klára ákveðin mál áður en að kosningum kæmi. Ég held að mögulegt sé að samræma bæði þessi sjónarmið, að flýta kosningum og klára þau mál sem ríkisstjórnin ætlar sér að koma fram með og klára.

Hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði stjórnarandstöðuna til sín og átti góðan fund með henni fyrr í dag. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að menn skuli núna ekki vilja byrja að ræða þau mál sem er alveg ljóst að verða meðal annars á þessum lista, eins og til að mynda kostnaðarþátttöku sjúklinga.

Er ekki kominn tími til að við vindum okkur í þau mikilvægu mál sem liggja fyrir þessum fundi? Hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hefur sagt að þessi listi komi fram og að menn geti þá rætt eðlilega hvernig þurfi að breyta starfsáætlun þingsins o.s.frv. (Forseti hringir.) Í guðanna bænum, förum að koma okkur í að ræða mikilvæg mál sem liggja fyrir þessum fundi.



[14:22]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú hefur forseti og hæstv. forsætisráðherra hlustað á þingmenn, bæði hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og líka forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna. Ég bið forseta og hæstv. forsætisráðherra — sem að vísu er farinn úr salnum — að meta stöðuna. Er ekki alveg augljóst mál og er það nokkuð flókið að setja þurfi niður dagsetningu fyrir kosningar? Ef það er af einhverjum ástæðum ekki hægt að gera í dag, getur hæstv. forsætisráðherra þá beitt sér fyrir því að það verði gert, sagt hvenær hann verði tilbúinn með dagsetningu? Verður hann tilbúinn með dagsetninguna á morgun? Eða hinn daginn? Við verðum að fá einhverja festu í þessi mál til að (Forseti hringir.) þingstörf geti haldið áfram með sómasamlegum hætti.



[14:23]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Vegna orða Svandísar Svavarsdóttur áðan þá taldi ég mig hafa sagt …(ÓÞ: Hv. þingmanns.) Hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þakka þér fyrir ábendinguna, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Ég taldi mig hafa sagt að ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra hefði verið dæmd ógild, ekki að ráðherrann hefði verið dæmdur í Hæstarétti. Ef mér hefur orðið fótaskortur á tungunni bið ég hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur afsökunar á því. Ég taldi mig segja að ákvörðun hennar hefði verið ógild í Hæstarétti.

Ég vildi einfaldlega koma þessu á framfæri. Ég ítreka aftur að í ræðu minni áðan var ég að benda á þann tvískinnung sem mér fannst vera í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Ég er mér líka meðvituð um það, virðulegur forseti, að tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa tapað máli í Hæstarétti. Það gildir nákvæmlega sama … (Gripið fram í.) í héraði, fyrirgefið, (Forseti hringir.) og það gildir nákvæmlega sama um þá og um hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. (Forseti hringir.) Ákvörðun hennar var dæmd ómerk og ég ítreka afsökunarbeiðni mína, (Forseti hringir.) hafi mátt taka orð mín þannig að ráðherrann hefði verið dæmdur í Hæstarétti.



[14:24]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er sama hvernig hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Ásmundur Einar Daðason reyna að snúa umræðunni, boltinn liggur hjá hæstv. ríkisstjórn um það að koma með dagsetningu á kosningum. Meðan hún er ekki gefin upp er eðlilegt að tortryggni ríki um það hvort yfirleitt eigi að standa við fyrirheitin um kosningar. Það er ekkert annað hægt en að setja spurningarmerki við það.

Enn og aftur verður hv. þingmönnum tíðrætt um mikilvæg mál, en aftur verð ég að segja að boltinn liggur hjá hæstv. ríkisstjórn, hún verður þá að koma fram með þessi mikilvægu mál. Það er algjörlega óboðlegt að það eigi að ráðast frá degi til dags hvaða mál eiga að vera á dagskrá þá 22 daga sem eftir eru af starfsáætlun þingsins. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega ríkisstjórnarinnar að koma fram með málin og með dagsetninguna og þá erum við komin með einhvern umræðugrundvöll.



[14:26]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti hefur lýst því hér fyrir okkur að hann hafi sett mál á dagskrá sem hann telji að við viljum ræða og getum rætt. Ég þakka honum fyrir að hafa ekki sett einhver byltingarmál á dagskrá þennan dag, það er nú víst nóg samt.

En ég ætla að ítreka það að þessar deilur í þingsal er hægt að leysa. Það er hægt að koma hér fram og segja: Það verður ekki kosið — hvað á ég að segja, ég veit það ekki — fyrr en 20. september og ekki síðar en 15. október, eða eitthvað svoleiðis.

Þá yrði þetta bara búið hér í dag, forseti. Og þá er það næsta að ríkisstjórnin setji niður lista um þau mál sem hún vill klára og ræði það við stjórnarandstöðuna. Ég held að stjórnarandstaðan sé orðin jafn leið á því þvargi sem er hér í þessum sal og fólkið fyrir utan.

Við viljum starfa hér (Forseti hringir.) vel og af heilindum og undir almennilegri og góðri verkstjórn. En ég bið virðulegan forseta að gera það fyrir mig að reyna að koma skikki á ríkisstjórnina, hvernig hún nálgast okkur hér.



[14:27]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er kallað eftir því af stjórnarandstöðunni að sá sem hér stendur lægi öldur. Ég skal reyna það. Það er ekkert óeðlilegt við það að þingmenn kalli eftir dagsetning á kosningum í haust. En það er óeðlilegt hvernig farið er fram til þess að fylgja þeirri kröfu eftir. Það getur engan veginn talist eðlilegt að þau vinnubrögð séu viðhöfð sem við verðum vitni að nú. Auðvitað tekur það einhvern tíma fyrir forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi að setjast niður og ná samkomulagi um þetta. (Gripið fram í: Já, já.) Þetta er ekki lítið mál sem um ræðir og mikið undir. Það er bara það sem er verið að vinna að.

Það fólk sem raðar sér í umræður um fundarstjórn og tefur þingstörf svo að ekki er hægt að taka mikilvæg mál á dagskrá sem við erum öll sammála um viðhefur ósæmileg vinnubrögð og lagar ekki ásýnd þingsins.

Og svo aðeins að hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og þeim dómi sem hún hlaut á sínum tíma. (Gripið fram í: … Það erum einmitt við sem … ásýnd þingsins … ) Já, það er alveg rétt, það er nefnilega málið (Forseti hringir.) að ákvörðun hennar var dæmd ógild. (Forseti hringir.) En viðbrögð hæstv. ráðherra á þeim tíma (Gripið fram í.) voru að hún sagði að henni væri slétt sama, hún væri í pólitík. (Forseti hringir.) Það var öll virðingin fyrir lögunum á þeim tíma. (Forseti hringir.) Það var ekki mikil auðmýkt í því. (Gripið fram í.)



[14:29]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Hér heldur leikritið áfram sem ríkisstjórnin fór af stað með fyrir nokkrum vikum síðan.

Hér er þess krafist að nefnd sé sögð dagsetning kosninga. Það er bara sjálfsögð krafa.

En það hefur í mínum augum ekkert breyst síðan fyrir helgi. Hér situr enn ríkisstjórn sem er algjörlega rúin trausti. Hvers vegna? Vegna þess að hún braut trúnað við þjóðina. Tveir æðstu menn hennar sviku þjóðina, lugu að henni.

Það er krafa samfélagsins, kannski ekki allra, en stórs hluta samfélagsins, að boða til kosninga strax. Það væri það einfaldasta sem nýr hæstv. forsætisráðherra mundi gera, að rjúfa þing og boða til kosninga. Hreinsa borðið. Hann er hér í boði kjósenda og við erum fulltrúar fyrir þjóðina, fyrir fólkið, og við eigum að hlusta á það hvað það vill.

Það langbesta sem hann gerði væri að rjúfa þing strax því að það er krafan í samfélaginu. Ef hann gerir það ekki þá er alveg lágmark að hann segi (Forseti hringir.) okkur hvenær eigi að kjósa í haust svo það verði vinnufriður því að ég er alveg tilbúinn að vinna að góðum málum sem menn hafa nefnt hér. (Forseti hringir.) En við gerum það ekki undir þessum kringumstæðum. Það er ekki hægt.



[14:30]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson hélt því fram að vegna niðurstöðu Hæstaréttar í ágreiningi mínum við tiltekið sveitarfélag varðandi skipulagsmál hafi ég brugðist við með því að segja að ég væri í pólitík.

Það lýsir ástandinu hér, og þá kannski sérstaklega í þingflokki Sjálfstæðisflokksins — sem situr uppi með það að verja formann og varaformann, sem báðir eru á Panama-skjölunum, og ættu auðvitað að víkja — að hv. þingmaður skuli standa hér og að hans eina málsvörn skuli vera að fara með lygar, bera ósannindi á aðra þingmenn. Það er óþolandi, forseti, og ég óska mjög eindregið eftir því að hv. þingmaður verði áminntur fyrir það.