145. löggjafarþing — 96. fundur.
útdeiling skúffufjár ráðherra.

[14:46]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni frétt um fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sem greiddi tæpa milljón af skúffufé sínu síðasta dag í starfi.

Mig langar að rifja það upp í upphafi að fyrrverandi forsætisráðherra var varla sestur í ráðherrastól þegar hann var farinn að deila út styrkjum í verkefni sem tilheyrðu áhugasviði hans og fram hjá hefðbundnum leiðum, samkeppnissjóðum og öðru sem við höfum komið okkur upp til að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir og spillingu, til að gæta jafnræðis við útdeilingu á almannafé.

Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við þessar embættisfærslur fyrrverandi forsætisráðherra, enda var verið að fúska með fjárlagaliði. Ég man ekki eftir því að nokkur í ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra hafi gert athugasemdir við það.

Við upplifðum það líka í fjárlagavinnunni fyrir árið 2015 og 2016 að meiri hlutinn tók sig til og tók aftur inn alls konar safnliði sem höfðu verið færðir yfir í ráðuneytin og fór að deila út fé til félagasamtaka og ýmissa verkefna, örugglega ágætisverkefni, fram hjá hefðbundnu leiðum.

Nú lesum við enn og aftur fréttir af skúffufé ráðherra, sem ég hafði litið á sem einhvers konar neyðarsjóð þegar eitthvað kæmi upp á. Hæstv. ráðherra hefur svarað því til, það náðist í hann, að ekkert óeðlilegt sé við þetta, það séu verkefni sem falli á milli skips og bryggju. Við erum að tala um 40 milljónir í öllum ráðuneytunum.

Ég verð að segja að mér finnst þetta gríðarlega mikil vonbrigði. Ég hélt að við værum komin á þann stað að við ætluðum að reyna að gæta jafnræðis við útdeilingu á almannafé.

Ég verð að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort honum finnist þetta eðlilegt. Ef menn telja að það séu verkefni sem falla á milli skips og bryggju, t.d. menningarmál á landsbyggðinni, af hverju er þá ekki settur meiri peningur í þann málaflokk þannig að við tryggjum að útdeilingin sé fagleg og jafnræðis gætt, allir geti sótt um styrki, farið sé yfir umsóknir og (Forseti hringir.) geðþóttaákvarðanir og aðgengi að ráðherrum skipti ekki máli? Er hæstv. forsætisráðherra sáttur við þetta?



[14:49]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Á síðasta ári jukum við einmitt fjármuni til menningartengdra styrkja til landsbyggðarinnar í gegnum sóknaráætlanir og menn hafa verið að feta þá leið. Það urðu breytingar á fyrirkomulagi styrkja í þinginu fyrir nokkrum árum þar sem safnliðir sem áður höfðu verið styrktir, þar sem hver fagnefnd þingsins kom að, voru færðir inn í ráðuneytin. Ég er ekki viss um að það hafi endilega skilað því sem hv. þingmaður lagði til, meiri fagmennsku eða tryggingu fyrir því að verkefni hljóti stuðning. Þetta eru lágar upphæðir en geta skipt miklu máli fyrir þau verkefni sem er verið að sækja um. Því fleiri sem koma að því, þeim mun betra.

Síðan vék hv. þingmaður að þeim peningum sem ráðherrar hafa úr að spila, svokölluðu ráðstöfunarfé, sem eðli máls hefur oft verið spurt um í þinginu og allir listar hafa verið birtir og ekkert athugavert við það. Það eru lítil verkefni, eins og hv. þingmaður minntist á, sem detta á milli skips og bryggju sem fá stuðning úr slíkum ráðstöfunarsjóði, yfirleitt mjög lágar upphæðir. Ég tel ekki neitt athugavert við það fyrirkomulag.



[14:50]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þá erum við ekki sammála. Það voru reyndar ekki mín orð að þessi verkefni féllu milli skips og bryggju heldur hæstv. ráðherra. Eftir að þessir safnliðir fóru inn í ráðuneytin hefur mér stundum fundist ýjað að því að þá sé í rauninni ekkert eftirlit með þeim og embættismennirnir hafi þar úr einhverju að spila, en það er ráðherra yfir hverju ráðuneyti sem ber ábyrgð og getur sett verklagsreglurnar. Þessi svör koma mér því töluvert á óvart.

Ég veit að það getur verið að þarna sé verið styrkja ágætisverkefni en mér finnst þetta svolítið eins og menn séu að kaupa sér hollustu, atkvæði jafnvel. Þá vil ég benda á að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn fékk 74 milljónir á fjárlögum á síðasta ári fyrir það eitt að vera til og eiga fulltrúa á þingi. Af hverju fara þeir peningar ekki bara úr sjóðum flokkanna? Þetta finnst mér óásættanlegt. Ég hafði skilið það þannig að þetta skúffufé væri einhvers konar varasjóður ef eitthvað kæmi upp, ef bregðast þyrfti við einhverju sem raunverulega væri að falla milli skips og bryggju, ekki fyrir verkefni sem eiga að fara undir þá sjóði og safnliði sem þegar eru til.

Svör ráðherra valda mér vonbrigðum en ég (Forseti hringir.) hef fengið ítrekað hér að honum finnst þetta eðlilegt (Forseti hringir.) og að ef flokkur hans verður áfram við stjórn (Forseti hringir.) verði áfram deilt út pening af skúffufé ráðherra.



[14:52]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað verklagsreglur í kringum allar úthlutanir í ráðuneytum. Hv. þm. mátti ekki skilja mig þannig að þegar um er að ræða þá safnliði sem voru færðir frá þinginu inn í ráðuneytin hafi fagmennska minnkað, síður en svo. Ég var aðeins að segja að færri hefðu komið að því að skoða þá hluti. Þar sem Ísland er býsna stórt land, þótt við séum ekki mörg og landið dreifbýlt, þá getur þekking á einstökum litlum verkefnum, sem skipta miklu máli ef þau hljóta lítils háttar styrk, verið meiri því fleiri sem koma að því. Það var það sem ég minntist á. Að sjálfsögðu eru verklagsreglur. Það eru einnig verklagsreglur um ráðstöfunarfé ráðherra. Þetta eru litlar upphæðir. Það er fullkomið gegnsæi og upplýst á hverjum tíma hverjir hljóta þann styrk. Ég tel því einfaldlega ekki vert að setja stór spurningarmerki við það eða velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað óeðlilegt við slíkt fyrirkomulag.