145. löggjafarþing — 109. fundur.
sérstök umræða.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:16]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu frárennslismála hjá sveitarfélögunum með sérstakri áherslu á stöðuna í Skútustaðahreppi og ástand lífríkis Mývatns. Ég hreyfði við hliðstæðu máli á þingi í nóvember 2014 og spurði þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi hæstv. forsætisráðherra, út í mjög hliðstæða hluti hvað varðaði stöðu frárennslismála á náttúruverndarsvæðum og mögulega aðkomu ríkisins að því að aðstoða sveitarfélög við úrlausn mála.

Hæstv. ráðherra svaraði því m.a. til að nefnd hefði hafið störf um að endurskoða reglugerð um fráveitumál og að til stæði að setja í gang úttekt á innstreymi næringarefna í þessi tvö einstöku stöðuvötn, Mývatn og Þingvallavatn. Þær úttektir hafa nú litið dagsins ljós í skýrslu og er það vel en af störfum nefndarinnar um endurskoðun reglugerðarinnar hef ég ekkert heyrt.

Nú eru málefni Mývatns mjög í brennidepli. Skútustaðahreppur hefur undanfarin missiri leitað stuðnings ríkisvaldsins við að hefjast handa um úrbætur til að uppfylla hertar reglur um fráveitumál og þriggja þrepa hreinsun sem eðli málsins samkvæmt er gerð krafa um á bökkum vatnsins. Ætlunin er að byrja á fyrsta áfanga sem er þéttbýlið í Reykjahlíð og hótelin í Reynihlíð og Reykjahlíð. Sá áfangi einn kostar 250–330 millj. kr. og er augljóslega ofviða fámennu sveitarfélagi sem þar á ofan þarf að horfast í augu við 6–10 millj. kr. rekstrarkostnað þegar framkvæmdin verður komin í gagnið þannig að lágmark er að ríkið komi þarna til móts við sveitarfélagið eins og það hefur ríkar skyldur til.

Okkur berast núna neyðarköll vegna ástandsins í Mývatni og Laxá frá Veiðifélagi Laxár og Krákár, frá Fjöreggi, félagsskap heimamanna um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, og frá Landvernd. Umhverfisstofnun hefur haft Mývatn á válista sínum, rauðlistað, samfellt síðastliðin fjögur ár. Þannig er staðan.

Í lífríki vatnsins er nánast algert hrun. Bleikjustofninn er hruninn, hornsílastofninn er hruninn, kúluskíturinn er horfinn af botni vatnsins og vöxtur blágerla, þ.e. blágrænna baktería, verður æ meira áberandi í vatninu á hverju ári þannig að það verður ekki tært yfir sumartímann sem aftur hindrar sólarljósið niður á botninn og stöðvar vöxt þar.

Vissulega eru náttúrulegar sveiflur þekktar í lífríki Mývatns en það sem nú er að gerast og hefur verið að teiknast upp síðustu árin, jafnvel áratugina, er nýtt af nálinni. Svona hrun, samfellt og langvarandi, hafa menn ekki séð áður. Óháð því hversu stór þáttur umsvif mannsins á vatnsbökkunum, bæði búsetunnar og ferðaþjónustunnar sem vex hratt ár frá ári, eru í stöðunni í Mývatni verður að koma frárennslismálum þar í ásættanlegt horf. Annað er ekki boðlegt í návígi við þessa miklu náttúruperlu. Það er þáttur mannsins sem við getum haft bein áhrif á.

Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra:

1. Er ráðherra sammála því að ríkið hafi skyldum að gegna vegna náttúru og lífríkis Mývatns og Laxár, samanber sérstök lög þar um og náttúruvernd og friðun á þeim grundvelli, samanber Ramsar-sáttmálann og að þetta er eitt af þeim svæðum sem Ísland hefur tilnefnt og skuldbundið sig til að vernda sérstaklega á grundvelli þess sáttmála, samanber vatnsverndartilskipun o.fl.?

2. Hyggst ríkið koma að lausn frárennslismála í Skútustaðahreppi með beinum fjárframlögum? Ef svo er, hvenær og í hve ríkum mæli?

Mitt mat er að það sé lágmark að ríkið leggi til helming stofnkostnaðarins við hina nýju fráveitu, 150–170 millj. kr. Þá ættu að vera möguleikar á að heimamenn gætu í samstarfi við notendur klofið afganginn og tekist á við rekstrarkostnaðinn í framhaldinu.

Víðar en þarna er ástandinu áfátt og ég spyr áfram.

3. Er í vændum átak af hálfu ríkisins til að aðstoða sveitarfélög almennt við að koma frárennslismálum í viðeigandi horf? Yrði þá gerður greinarmunur á sveitarfélögum sem taka til friðlýstra svæða, svo sem Skútustaðahrepps og Bláskógabyggðar, í öðru lagi landluktra sveitarfélaga sem eru í mun erfiðari stöðu en þau sem hafa aðgang að sjó og í þriðja lagi sveitarfélaga almennt?

4. Hyggst ráðherra og ríkisstjórn beita sér fyrir því, sem er líka rík þörf fyrir, að efla rannsóknir á svæðinu, úrvinnslu rannsóknargagna sem liggja fyrir í löngum seríum en ekki hefur verið mannafli eða fjármunir til að vinna úr (Forseti hringir.) og svo vöktun svæðisins?[14:21]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða fari fram á Alþingi. Mývatn er ein af okkar dýrmætustu náttúruperlum og lífríki vatnsins er auðugt og einstakt. Okkur ber að standa vörð um það. Kveðið er á um vernd Mývatns og Laxár í sérstökum lögum og í Ramsar-samningnum. Við hljótum því að bregðast við slæmum tíðindum af lífríkinu. Ég vil upplýsa hér um hvað stjórnvöld hafa verið að gera á undanförnum mánuðum í kjölfar upplýsinga um óvenjulegt ástand vatnsins og það höfum við gert frá því að við fréttum það síðastliðið sumar. Jafnframt vil ég upplýsa um hvaða skref ég hyggst taka á næstunni en ég reyni fyrst að svara spurningum hv. þingmanns.

Varðandi fyrstu spurninguna, hvort ráðherra sé sammála því að ríkið hafi skyldur, er raunverulega hægt að svara með einu orði: Sannarlega. Ég þyrfti ekki að hafa fleiri orð um það. En íslensk stjórnvöld bera ríka ábyrgð varðandi vernd náttúru Mývatns. Sérstök lög eru í gildi þess efnis og vatnið er á lista Ramsar-samningsins vegna hins auðuga lífríkis vatnsins, eins og hér hefur komið fram. Ráðuneyti mitt ber því ábyrgð á framkvæmd þessara laga og heyrir það undir Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem rannsakar og vaktar vatnið.

Fyrir rúmu ári skilaði stýrihópur á vegum ráðuneytisins mér tillögum um hvernig efla mætti og styrkja stofnanir okkar sem sinna rannsóknum og vöktun. Frumvarp um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og RAMÝ, sem ég hef mælt fyrir og umhverfis- og skipulagsnefnd hefur til umræðu, byggir einmitt á tillögum þessa hóps. Meginmarkmiðið var ekki síst að efla rannsóknir og vöktun á náttúru Mývatns og Laxár með kerfisbundnum hætti, efla þverfaglegt starf, auka skilning og úrvinnslu við gagnaöflun og auka miðlun upplýsinga. Nákvæmlega það sem hv. þingmaður tíndi hér til.

Því miður er þetta starf eitthvað í láginni í nefndinni.

En ekki er hægt að segja annað en að málefni Mývatns hafi stöðugt verið í meðhöndlun hjá okkur í ráðuneytinu og í kjölfar ástandsins síðastliðið sumar lét ég gera sérstaka úttekt á innstreymi næringarefna í Mývatn og hvaðan þau kæmu. Tilgangurinn var fyrst og fremst að skilja ástandið betur og orsakir þess og ekki síst að undirbyggja mögulegar aðgerðir til úrbóta. Úttektin birtist fyrr á þessu ári og er niðurstaðan í samræmi við það sem vísindamenn hafa sagt í fjölmiðlum nú á undanförnum dögum. Það er ekki auðvelt að benda á einn sökudólg eða finna töfralausn, en sennilega bætist álag af mannavöldum ofan á náttúrulegar sveiflur í vatninu. Ég túlka þessa niðurstöðu þannig að við eigum að fara í aðgerðir til að draga úr álagi strax þó að ekki sé víst að þær muni einar og sér ná að snúa ástandinu við á stuttum tíma. Þá vil ég ítreka að við megum ekki ræða um þessi mál saman, þ.e. um lífríki vatnsins sem hér er til umræðu, og náttúru svæðisins, sem er rétt að Umhverfisstofnun fjallar um og er á rauðum lista. Mér finnst það vera annað umræðuefni.

Sá ráðherra sem hér stendur hefur ekki ein vald til þess að veita fé til fráveitna í einstöku sveitarfélagi en ég tel rétt að draga betur fram allar staðreyndir og sjónarmið til að auðvelda ákvarðanatöku í þessum efnum. Slík vinna er hafin í ráðuneytinu og ég vona að hún taki skamman tíma.

Varðandi þriðju spurninguna, hvort í vændum sé átak af hálfu ríkisins til að aðstoða sveitarfélög almennt, hefði mér nú fundist rétt að þeirri spurningu hefði verið beint til fjármálaráðherra en ekki umhverfisráðherra, en vissulega höfum við áhyggjur af því og viljum taka til hendinni í umhverfisráðuneytinu, enda er unnið að endurskoðun fráveitureglugerðar, eins og komið hefur fram, og á ég von á að hún líti dagsins ljós innan mjög skamms tíma.

Mér finnst erfitt að við blöndum saman umræðu um þá stöðu sem við erum nú í varðandi Mývatn við annað mál vegna þess að við verðum að horfa þar til sérstakrar verndarstöðu og verndargildis vatnsins og ástandsins sem nú er varðandi bakteríublóma sem kallar á aðgerðir okkar. Einnig þarf að skoða fleiri þætti en fráveitur varðandi bakteríublóma í Mývatni. Skoða þarf áfok og áburð frá landbúnaði sem og áform um nýjar framkvæmdir á svæðinu og fleira.

Ég tel því rétt að skoða málefni Mývatns alveg sérstaklega. Við erum að ýta úr vör samráðshópi sem skila mun mér áliti fyrir 17. júní næstkomandi. Við viljum virkja sem breiðastan hóp, bæði heimamanna og sérfræðinga, til ábyrgðar og lausnar í þessu máli.[14:27]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er tímabær, löngu tímabær, því að áhrif mannlegra athafna á lífríki Mývatns eru ekki ný af nálinni. Þetta er margra ára syndasaga og a.m.k. þrír áratugir síðan það rann upp fyrir mönnum að t.d. kísilnámið í vatninu hefði óheillavænleg áhrif á lífríkið þar. Ofan á það álag hefur nú hraðvaxandi ferðaþjónusta með tilheyrandi ágangi valdið fosfórmengun í vatninu því að þangað fer jú frárennslið, svo nú er ekki bara bleikjan horfin heldur líka kúluskíturinn og tærleiki vatnsins farinn forgörðum. Þeir sem til þekkja telja að nú þurfi drastískar aðgerðir, eins og það var orðað í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins í gær. En til hvaða drastísku aðgerða er hægt að grípa? Getur 350 manna sveitarfélag staðið undir þeim frárennslis- og hreinsunarkröfum sem gera þarf til að endurheimta lífríki vatnsins? Er eðlilegt að lítið sveitarfélag standi undir slíku? spyrja menn. Vitanlega finnum við öll til samábyrgðar og til ábyrgðar ríkisins því að Mývatn er náttúruperla sem okkur finnst við eiga í sameiningu.

Ég ætla samt að vera líka svo djörf að leiða hugann að öðru í þessu samhengi, þ.e. ábyrgð ríkisins annars vegar og hins vegar lítils sveitarfélags sem hefur vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir um mikla atvinnuuppbyggingu en ekki bolmagn til að taka afleiðingunum af því. Það vekur ákveðnar spurningar um valdsmörk og samstarf ríkis og sveitarfélaga, sem mig langar til að (Forseti hringir.) koma betur að í seinni ræðu minni. Það leiðir líka hugann að tekjuleiðum sveitarfélaganna, sem ég fæ að koma að síðar.[14:29]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það er öllum nokkuð augljóst að staða Mývatns er grafalvarleg og þarf að taka hraustlega til og fara í sérstakar aðgerðir ekki einungis til þess að koma í veg fyrir að illa fari heldur til að snúa við þróun sem er löngu komin af stað. Það verður að gera myndarlega. Við verðum að gera það með samstarfi eða alla vega þátttöku bæði sveitarfélagsins, sem er fámennt og vanmáttugt að mörgu leyti, og ríkisins. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til dáða þegar þar að kemur.

En þetta er líka enn einn kaflinn í mjög sorglegri sögu okkar, ekki síst þegar kemur að umhverfismálum, að við tökum aldrei á málunum fyrr en allt er komið í óefni. Í nokkra áratugi er búið að vera að vara við þessari þróun í sambandi við uppbyggingu í kringum vatnið, í sambandi við kísilnámið o.s.frv., en einhvern veginn hefur alltaf verið skellt við skollaeyrum og sagt: Þetta virðist nú allt vera í lagi, það er enn þá vatn þarna, þangað til allt er komið í rugl.

Það er hugsunarháttur sem við getum ekki leyft okkur í umhverfismálum, sérstaklega ekki hér á norðurhjara þar sem við búum við mjög viðkvæma náttúru sem á erfitt með að ná sér aftur á strik. Við þekkjum að skemmdir á náttúru á Íslandi geta verið nokkra áratugi eða aldir að laga sig af sjálfsdáðum, sem gerist á færri árum annars staðar. Þetta er víti til varnaðar. Við eigum að leggja verulega (Forseti hringir.) á okkur til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga þessari mikilvægu perlu (Forseti hringir.) íslenskrar náttúru og íslenskrar þjóðar, en við eigum (Forseti hringir.) líka að læra af þessu og horfa til lengri tíma þegar kemur að náttúrunni.[14:32]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Einstök og viðkvæm náttúra Íslands verður fyrir vaxandi álagi vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu. Það er kannski hin dökka hlið á annars þeim góðu fréttum sem almennt berast úr þeirri atvinnugrein sem skiptir okkur stöðugt meira máli. Við því verður að bregðast og er alveg ljóst í tilfelli Mývatns að uppbygging innviða til að bregðast við svona álagi til að vernda íslenska náttúru og náttúruundur eins og þar er á ferðinni, er ofviða litlum eða fámennum sveitarfélögum. Ekki viljum við fara út í þá róttæku aðgerð að loka svæðum, geri ég ráð fyrir.

Það sem er svo hrópandi við stöðuna í Mývatni, eins og svo oft þegar kemur að þessum málum, er að þar eru menn ekki á eitt sáttir um hvað veldur, en þó má ljóst vera af þeim upplýsingum sem eru fyrir framan okkur að það eru ákveðnir hlutir sem við getum brugðist við og aðra þarf að setja í enn frekari rannsóknir. Viðbrögð okkar við þessu ástandi verða að vera mjög markviss og ákveðin. Það er mikið undir og ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi boðað hér að hópur manna verði settur saman til að meta þessar aðstæður og koma með tillögur.

En ég tel líka að við þurfum að bregðast við strax með þeim verkum sem hægt er að grípa til. Þá komum við að fjármögnun þessara verkefna. Inn í þá mynd kemur auðvitað gjaldtaka af ferðamönnum og aðgengi sveitarfélaga á borð við sveitarfélagið við Mývatn, hvernig við getum fjármagnað þessa hluti. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel að við eigum að hefja gjaldtöku af ferðamönnum, (Forseti hringir.) byggja upp sjóð sem getur nýst okkur við þessar aðstæður. Ég tel að fyrst og fremst þurfi að leita til þeirra sveitarfélaga (Forseti hringir.) sem í vök eiga að verjast til að verja þessa staði en (Forseti hringir.) ekki endilega að leita til þeirra staða þar sem flestir þeirra gista.[14:34]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er gott að rætt sé um þessi mál á þingi þrátt fyrir að tilefnið sé mjög dapurlegt. Það hefur verið hörmulegt að fylgjast með hvernig lífríkinu í Mývatni hefur sífellt hrakað undanfarna áratugi.

Nú er svolítið deilt um hvort þetta sé af mannavöldum eða ekki og mér finnst það í sjálfu sér ekki skipta máli. Það sem skiptir máli er ástandið á lífríkinu í Mývatni og viðbragða er vænst og krafist. Ef ekki er brugðist við því núna er alveg ljóst að það verður brátt of seint að gera eitthvað.

Það minnir mig mjög á umræðuna um loftslagsvána, um loftslagsbreytingar. Margir vilja ekki trúa því að þær séu af mannavöldum, reyndar ekki margir, heldur örfáir en háværir, og hafa staðið í vegi fyrir að brugðist sé við þeirri miklu vá sem við stöndum frammi fyrir sem mannkyn, í stað þess að horfa á veruleikann. Það er óumdeilt að það eru loftslagsbreytingar í heiminum og afleiðingar þeirra verða sífellt skelfilegri með degi hverjum.

Ég vona því að hæstv. umhverfisráðherra beiti sér af miklum krafti og þrýsti á hæstv. fjármálaráðherra að leggja fé í verkefnið varðandi fráveiturnar, sem nauðsynlegt er að gert verði strax.

Síðan finnst mér ekki síður mikilvægt að hafa í huga og hlusta vel á það sem koma mun fram í næstu ræðu hjá hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, því að eitt er að ætla að fá að bíta í kökuna og hitt er síðan að maður getur ekki borðað af báðum endum í einu og ekki verið tilbúinn að axla ábyrgð (Forseti hringir.) á þeim ákvörðunum sem maður tekur í litlu sveitarfélagi. Það sama á við um stór sveitarfélög.

Mér finnst mjög mikilvægt að hlusta vel á það sem koma mun fram í ræðu hv. þingmanns.[14:37]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna. Nokkur atriði til viðbótar við þau sem hér hafa verið nefnd. Í fyrsta lagi liggur náttúrlega fyrir að þarna hefur verið innstreymi næringarefna í vatnið um langt skeið. Það er ákveðið álag á vatnið af mannavöldum. Við vitum ekki að hve miklu leyti því er um að kenna þegar ástand vatnsins er skoðað. Hins vegar er það svo að í nýjum náttúruverndarlögum sem við samþykktum í vetur kemur fram í 9. gr., með leyfi forseta:

„Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.“

Þetta samþykktum við öll á Alþingi Íslendinga í vetur sem leið, þ.e. varúðarregluna samkvæmt Ríó-yfirlýsingunni. Þessi regla segir að við getum ekki skákað í því skjóli að við vitum ekki hversu mikið er um að kenna sambúðinni við manninn, að hve miklu leyti er um að ræða náttúrulegar sveiflur o.s.frv. Okkur ber að grípa inn í og okkur ber að láta náttúruna njóta vafans. Og ég vil biðja hæstv. ráðherra að segja nokkur orð um þessi mál í lok þessarar umræðu, þ.e. hvort við séum ekki alveg sammála um að nýsamþykkt náttúruverndarlög skeri úr um okkar skyldu gagnvart vatninu þegar þetta ástand blasir við.

Svo vil ég segja varðandi yfirstandandi virkjunarframkvæmdir við Þeistareyki og í Bjarnarflagi þar sem verið er að bora, að við vitum líka að þar gæti verið um áhrif að ræða. Ég velti því upp hvort við þurfum ekki að skoða þau mál enn frekar með hliðsjón af hagsmunum vatnsins.[14:39]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Kveikjan að þessari umræðu er ályktun Veiðifélags Laxár og Krákár sem birtist fyrir skömmu. En árið 2010 var verndarsvæði Laxár og Mývatns á appelsínugulum lista samkvæmt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Árið 2012 var svæðið sett á rauðan lista og hefur verið þar síðan. Margt hefur áunnist og verið rannsakað, en betur má ef duga skal.

Af sjálfu leiðir að verði ekki brugðist við mun vistkerfinu hnigna svo allt og allir munu tapa. Fuglarnir hætta að koma, ferðamennirnir hætta að koma og byggð raskast. Það er allt undir og átaks er þörf að reisa kerfið við. Annað væri óábyrgt. Þess vegna reynir á að sýna skynsemi í umræðunni, ekki leita að sökudólgum heldur að meta stöðuna og komast að niðurstöðu.

Rannsóknir hafa markvisst farið fram á lífríki Mývatns síðan 1974. Miklar sveiflur hafa orðið í lífríki svæðisins bæði af náttúrulegum og mannanna völdum. Það skortir hins vegar á að rannsaka betur vistspor mannsins á svæðinu. Það er lykilatriði að rannsaka ágang mannsins á umhverfið því að það er sú stærð sem við þekkjum og getum auðveldlega ráðið við.

Það er engin áætlun til þess að fara eftir til þess að bregðast við. Íbúar svæðisins, sveitarstjórnarfólk, landeigendur og við öll stöndum frammi fyrir því að taka ákvarðanir um framhaldið. Í fyrsta lagi þarf að vinna bug á þeim gamla hugsunarhætti að lengi taki hafið við. Í öðru lagi þarf að skoða, kortleggja og leysa frárennslismál við Mývatn. Þá reynir á hæstv. fjármálaráðherra að setja fé í verkefnið sem er samvinnuverkefni.

Ég tel að það sé samstaða meðal heimamanna um aðgerðir og við eigum að nýta þann samtakamátt.

Ég mundi jafnframt fagna því ef ráðherra ferðamála tæki frumkvæði í þessu erfiða máli með fjárframlagi.

Um leið þetta: Fámennt sveitarfélag sem háð er ýmsum skilyrðum getur ekki eitt og sér staðið undir þeim kostnaði sem til fellur. Heimamenn þurfa aðstoð við úrlausn málsins. Um leið verða sveitarstjórnir sem fara með valdið á svæðinu að sýna ábyrgð, t.d. þegar kemur að úthlutun lóða og varðandi kröfur um ýmsar byggingar ef yfir höfuð ætti að leyfa slíkar byggingar á þessum stað, samanber skilyrði við Þingvallavatn.

Í kjölfarið þurfum við svo að taka umræðuna enn lengra, t.d. varðandi vegarstæðið á hringveginum. Ímyndum okkur nú að fulllestaður olíubíll færi út af við Kálfastrandarvoga.[14:41]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál sýnir okkur vanda íslenskrar ferðaþjónustu í hnotskurn, þ.e. hvað af getur hlotist þegar magn ógnar gæðum og þegar framtíðarsýn og langtímaáætlanir skortir.

Ísland er ein stór og viðkvæm náttúruperla sem hentar ekki fyrir þá fjöldaferðamennsku sem virðist vera hérna alls ráðandi. Það er áhyggjuefni og þess vegna er þetta Mývatnsmál stefnukrefjandi mál sem vekur okkur til alvarlegrar umhugsunar um samvist atvinnulífs og umhverfis. En líka um það hvernig ábyrgð þarf að fylgja valdi.

Lítil sveitarfélög hafa vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir fyrir umhverfi og náttúru. Þau geta leyft umfangsmikla atvinnustarfsemi án þess að hafa það bolmagn sem þarf til að mæta afleiðingunum fyrir umhverfið og náttúrugæðin.

Auðvitað er það umhugsunarefni og vekur þá hugrenningar um hvort ekki sé tímabært að auka tekjumöguleika sveitarfélaganna, t.d. gjaldtökuheimildir þeirra í sambandi við ferðaþjónustuna þannig að þau rísi undir því að geta nýtt sér þá möguleika sem í henni felast.

Nú væri gott að eiga auðlindasjóð sem í rynni arður af ferðaþjónustunni. En það hafa menn ekki haft hugrekki til þess að gera enn sem komið er þó að sú umræða hafi verið hávær um alllangt skeið hér í þingsölum.

Auðvitað hlýtur ábyrgð ríkisins að vera einhver þegar um er að ræða stað eins og Mývatn. En þá er líka spurning: Hvernig kemur ríkið best að málum? Er það með fjármagni? Er það með því að opna tekjulindir fyrir sveitarfélögin eða með annarri löggjöf, breytingum á skipulagslöggjöf (Forseti hringir.) og annarri stefnumótun sem sveitarfélögin geta þá nýtt sér?

Auðvitað væri farsælast að margir aðilar gætu tekið höndum saman um að leysa þetta mál, (Forseti hringir.) en ljóst er að aðgerðir hvað Mývatn varðar geta ekki beðið. (Forseti hringir.) Það hafa sérfræðingar sagt. Það þarf að stöðva strax þetta fosfórrennsli í vatnið.[14:44]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég er ánægð með að þetta mál komi með svo afgerandi hætti inn í þingið og í umhverfis- og samgöngunefnd og eins að hæstv. ráðherra sé með málefnið á sínu borði.

Ég get svo sem bara tekið undir allt sem sagt hefur verið í fyrri ræðum. Það er brýnt að fara í frárennslismálin. Því fylgir kostnaður og við höfum heyrt það, þingmenn kjördæmisins, að sveitarfélagið telur sig ekki hafa bolmagn til að fara í þær aðgerðir án aðstoðar frá ríki.

Mér skilst að einhvern tíma hafi ríkið aðstoðað einhver sveitarfélög í sama vanda. Það væri rétt að skoða þau fordæmi. Ég treysti því að ráðherra eða nefndin geri það.

Við vitum að ekki er allt af mannavöldum sem er í gangi við Mývatn. Vandinn getur verið af ýmsum toga og í mjög viðkvæmu lífríki getur verið að ágangur mannsins sé kornið sem fyllir mælinn. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum að við séum ekki að auka á vandann með því sem við getum haft stjórn á.

Mér finnst alveg hræðilega sorglegt að kúluskíturinn sé horfinn úr vatninu. Það var alveg einstakt fyrirbæri. Ég held að þetta náttúrufyrirbæri sé nú bara til í Japan. Einhvern veginn horfðum við á kúluskítinn hverfa úr Mývatni. Kannski gátum við ekkert gert í því, ég veit það ekki. En við getum alla vega gripið til aðgerða núna.

Ég er sammála því að við þurfum ekki að kenna einhverjum um. Þetta gerðist bara. En lærum af þessu og grípum til aðgerða núna. Ég treysti því að umhverfisráðherra geri allt sem hún getur til þess að tryggja að lífríki Mývatns sé eins gott og hugsast getur. Ef eitthvað þarf að ýta á fjármálaráðherra hljótum við að geta lagt hæstv. ráðherra lið í því efni.[14:46]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Já, það er komin upp alvarleg staða við Mývatn, eina helstu náttúruperlu okkar. Ég mundi setja Mývatn í flokk með þjóðargersemum eins og handritunum okkar. Slík verðmæti eru þar á ferðinni. Ómetanleg.

Það er augljóst að bregðast verður hratt og örugglega við þeirri stöðu sem upp er komin. Við gætum séð fram á það, ef ekki verður skorist í leikinn strax, að allt lifandi í vatninu deyi, með tilheyrandi áhrifum á náttúru og fuglalíf.

Samkvæmt því sem vísindamenn segja hefur orðið gjörbreyting í lífríki Mývatns á síðustu 10–12 árum vegna hinnar svokölluðu blágrænu bakteríu. Menn deila svo um hvað er af mannavöldum og hvað er af náttúrulegum orsökum. Það skiptir engu máli, ef við getum komið í veg fyrir það sem er af mannavöldum og minnkað áhrifin af því þá eigum við að gera það.

Sjónir beinast fyrst og fremst að frárennslismálum og landbúnaðarmálum og ljóst er að setja þarf upp nýtt hreinsikerfi fyrir byggðina í Reykjahlíð. Áætlað er að það kosti 300 millj. kr. og að rekstrarkostnaður á ári verði um 10 millj. kr. Skútustaðahreppur getur engan veginn staðið undir þeim kostnaði og þá verður ríkið að koma að málinu.

Fara verður fram á að þau hótel sem verið er að byggja við Mývatn uppfylli strangar kröfur um hreinsibúnað af frárennsli. Einnig verður að gera slíkar kröfur til þeirra hótelbygginga sem eru þar nú þegar.

En dugar þetta? Það er alveg óljóst. Það þarf að auka rannsóknir og vöktun á vatninu. Ég skora á þingheim að standa saman í að afstýra þessu náttúruslysi. Málið er brýnt og ég vil að hafist verði handa strax og af fullum þunga. (Forseti hringir.) Ég vil að stofnaður verði sérstakur aðgerðahópur embættismanna, vísindamanna og heimamanna án tafar. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)[14:48]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta hafa verið mjög góðar umræður og ég vil hvetja hæstv. umhverfisráðherra til dáða og skora á ráðherrann að ganga ákveðin til verks því að málið getur ekki beðið. Það er bara þannig.

Ef við finnum okkur afsakanir eins og ráðherrann gerir, sem lætur á einhvern torkennilegan hátt eins og hún sé ekki í ríkisstjórn með fjármálaráðherra — auðvitað á það að vera þannig að ef þau vinna saman í ríkisstjórn þá ræðir umhverfisráðherra við fjármálaráðherra um að finna lausnir á málinu. Það á í raun ekki að vera í verkahring þingsins.

Ef umhverfisráðherra er mikið í mun að finna lausnir á málinu tafarlaust þá beinir hún sjálf tilmælum sínum til fjármálaráðherra um að tekið verði á því tafarlaust. Það er nú bara þannig.

Síðan fannst mér dálítið furðulegt þegar ég heyrði viðtal við hæstv. ráðherra um þessi mál og m.a. áskorun Landverndar. Maður hefði haldið að umhverfisráðherra fagnaði því innilega að þau skyldu benda á og þrýsta á að eitthvað yrði gert í málunum, að hún mundi hlusta vel og vandlega og vinna náið með umhverfisverndarsamtökum í staðinn fyrir að hnýta í þau.

Mér finnst það eiginlega bara skammarlegt, ég verð að segja alveg eins og er. Það er ekki í boði að umhverfisráðherra hnýti í ein öflugustu umhverfissamtök landsins. Ég mundi frekar rétta fram höndina og vinna með þeim sem hlúa að landinu okkar nótt sem nýtan dag. Það á umhverfisráðherra að gera af einlægni og einurð.

Síðan verð ég að segja að það er alveg ljóst eftir þessar umræður í dag að það er þverpólitískur vilji til þess að taka á þessu máli. Og nú ætti umhverfisráðherra að fara inn í sitt ráðuneyti og inn á ríkisráðsfund og krefjast þess að fjármunir til verksins verði settir í það tafarlaust.[14:50]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og undirtektir hv. þingmanna og brýningar, og tek undir með síðasta ræðumanni. Það hefur kristallast hér pólitískur vilji til þess að ríkið komi að lausn málsins og geri það strax.

Ég vil segja í fyrsta lagi um eflingu rannsókna og vöktunar að það snýst fyrst og fremst um fjármuni og mannskap. Það snýst ekki um fyrirkomulag, stjórnunarfyrirkomulag. Það má allt saman leysa. Í öðru lagi vil ég segja að ég veit að sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekur ábyrgð sína mjög alvarlega í þessum efnum. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps, sú sem nú situr, er mjög metnaðarfull í umhverfismálum og vill sjá farsæla úrlausn þessara mála. Ég hef ástæðu til að ætla að sveitarstjórn Skútustaðahrepps muni ekki veita framkvæmdaleyfi fyrir frekari uppbyggingu á vatnsbakkanum nema tryggt sé að frárennslismál verði þá í lagi, í fyrsta flokki hvað það snertir. Auðvitað rekur það á eftir því að taka á þessu máli að menn geti þá sameinast um aðgerðir af því tagi.

Það er rétt. Skýrslurnar draga ekki fram einhvern einn orsakavald, en margt bendir til að aukið álag af völdum mannsins og mikillar ferðamennsku sé samverkandi þáttur ásamt e.t.v. hlýnun veðurfars og að eitthvert jafnvægi hafi raskast, sem leiðir m.a. til þess að auðgunin og þörungablóminn, leirlosið eins og heimamenn kalla það, er orðið stjórnlaust í vatninu og mengar vatnið og Laxá til sjávar.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ráðherra getur ekki einn og sér ákveðið fjárveitingar, en ráðherra hefur tillöguvald. Erindið liggur fyrir og hefur gert það í ár og í fyrra hjá ráðherra og fjárlaganefnd. Ráðherra getur lagt til við félaga sína í ríkisstjórn og okkur á Alþingi að við ákveðum tafarlaust að gera það sem gera þarf nú í vor, að heita Skútustaðahreppi 150–170 millj. kr. framlagi í fyrsta áfanga frárennslismálanna og 10–20 millj. kr. í efldar rannsóknir og úrvinnslu gagna. Það er það sem þetta snýst um. (Forseti hringir.) Verum ekkert að gera málin flókin. Er hæstv. ráðherra tilbúin til að koma með slíkar tillögur fram? Hún hefur stuðning (Forseti hringir.) hér í þinginu. Það liggur fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)[14:53]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Umhverfisráðherra er mjög tilbúin að koma með slíka tillögu, hv. þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem þekkir nú hvernig kaupin gerast á eyrinni. En ég fagna mjög þeirri samstöðu sem ég skynja hér um að standa vörð um lífríki Mývatns og þær hvatningar sem verið hafa í þessu máli. Ég tel að í sjálfu sér þurfi ekki að hafa miklar hvatningar uppi hvað mig varðar og það hef ég verið að reyna að segja undanfarið í fjölmiðlum af því að við höfum verið að taka á þessum málum í ráðuneytinu. Ég setti fyrir meira en ári síðan í gang rannsóknir og skýrslugerð til þess að vita meira um Mývatn vegna þess að við í ráðuneytinu höfðum áhyggjur.

Ég fagna því mjög að við séum að ná hér samstöðu um að herja á að við fáum fjármagn í framkvæmdir við Mývatn við fráveituframkvæmdir, að Skútustaðahreppur fái einhverja aðstoð.

Það er nú þannig varðandi Mývatn að sérstök rannsóknastöð hefur verið starfandi þar í áratugi þannig að maður skyldi ætla að við hefðum meiri yfirsýn og meiri vitneskju um þetta vatn en margar aðrar perlur okkar. Á því verðum við náttúrlega að byggja.

Varðandi heimamenn og hvað við viljum gera — ég taldi mig vera að efla rannsóknastarfið og geta eflt það þannig að það yrði víðtækara með sameiningu RAMÝ og Náttúrufræðistofnunar, en það hefur ekki alveg fallið í kramið. Mér finnst spennandi að kanna hvort sem við getum búið til einhvers konar hreiður eða þekkingarsetur eða Nýheima á Mývatni af því að við erum með margar rannsóknastöðvar (Forseti hringir.) þar, t.d. fjórar undirstofnanir umhverfisráðuneytisins plús Minjavernd. Hvernig væri það að við reyndum að gera það (Forseti hringir.) til þess að koma þessu öllu í enn betra lag?