145. löggjafarþing — 111. fundur.
stefna stjórnvalda í raforkusölu.

[13:34]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um stefnu stjórnvalda í raforkusölu. Forsvarsmenn Landsvirkjunar fögnuðu því nýverið að hafa náð almennilegum samningi við Norðurál en þeir sjá fram á að hinn nýi samningur muni skila mikilli tekjuaukningu fyrir Landsvirkjun og þá væntanlega til þjóðarbúsins. Norðurál hefur allt of lengi náð að halda meðalverði á raforku niðri en samkvæmt greiningum Péturs Sigurjónssonar, sérfræðings í orkumálum, greiðir Norðurál lægsta raforkuverðið til Landsvirkjunar. Lágt verð til Norðuráls á Grundartanga og Fjarðaáls á Reyðarfirði hefur dregið niður meðalverð á raforku til álvera hér á landi, niður í rúmlega 26 dollara á megavattsstund. Nýi samningurinn tekur því miður ekki gildi fyrr en í nóvember 2019 en þangað til gildir gamli útsölusamningurinn. Það er vert að halda því til haga að Norðurál beitti öllum meðölum til að halda til streitu útsöluverði á orkusölu til sín.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi látið kanna hve miklum tekjum þjóðarbúið hefur orðið af vegna þessarar útsölustefnu á orkuverði og hvort hann boði stefnubreytingu þar á.

Það er í raun og sann dapurlegt að horfa upp á að póstnýlendustefna er enn við lýði þegar kemur að því að halda sjálfsvirðingu okkar og gæta hagsmuna komandi kynslóða. Í stað þess að selja orkuna okkar á besta mögulega verði er enn unnið að því að selja hana á útsöluverði til erlendra stórfyrirtækja. Samkvæmt fréttum frá árinu 2012 kemur fram að Landsvirkjun hyggist laða til sín gagnaver með sambærilega stefnu um lágt verð á orku. Þó er verðið sem boðið er upp á gagnvart þeim um 46 dollarar á megavattsstund.

Nú lifum við á þannig tímum að fyrirtæki, þar með talin gagnaver, vilja gjarnan greiða meira fyrir græna orku og því finnst mér það sérkennilegt að hér er enn rekin stefna um útsöluorkuverð. Það er svo margt annað sem laðar til dæmis gagnaver til landsins en ódýr græn orka. Jafnhitastig er meðal annars eitthvað sem litið er til og Ísland talið eitt af bestu löndunum þegar kemur að því að hafa nánast sama hitastigið allt árið um kring miðað við lönd sem við berum okkur gjarnan saman við.



[13:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðu um stöðu orkumarkaða á Íslandi og eftir atvikum starfsemi Landsvirkjunar. Þetta er afskaplega brýn og mikilvæg umræða á hverjum tíma vegna þess að um er að ræða eina af meginstoðum hagkerfisins.

Sumar fullyrðingar hv. þingmanns eru þannig að ég get samsinnt þeim, t.d. þeirri að Norðurál hafi, í samanburði við önnur stóriðjuver á Íslandi, á þessum síðari hluta samningsins notið hagstæðra kjara. En það er alltaf þannig með samninga sem gerðir eru langt fram í tímann að það er auðvelt að koma undir lok samningstímans og gagnrýna aftur í tímann. En á þeim tíma sem sá samningur var gerður er alveg augljóst að það stóðu ekki margir í biðröð fyrir utan Landsvirkjun eftir að kaupa orku. Það verður að skoða svona langtímasamninga með hliðsjón af því.

Ég fagna því að Landsvirkjun nái hagstæðari samningum þegar horft er á langtímahagsmuni fyrirtækisins og treysti stjórn og stjórnendum mjög vel til þess að halda utan um þá hagsmuni sem ríkið hefur þarna. Þetta er ein verðmætasta eign ríkisins.

Spurningarnar sem við eigum að hafa uppi varðandi Landsvirkjun eru til dæmis þessi hér: Er arðsemi af fjárfestingum Landsvirkjunar? Hér er spurt: Hversu miklum tekjum höfum við orðið af vegna lægra raforkuverðs en hefði þurft að vera? Ég held að þetta sé eiginlega ótæk spurning. Í fyrsta lagi höfðum við engan annan kaupanda sem við slepptum í staðinn fyrir þann sem við fengum. Hérna er komið ágætisdæmi um það að við eigum að bera saman þann ávinning sem við höfum haft af þessum samningi við það að hafa ekki gert neitt, hafa ekki virkjað, hafa ekki selt neina raforku, (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er vatn sem hefði ella bara runnið til sjávar. Svarið við umræddri spurningu er: (Forseti hringir.) Það birtist í eiginfjárstöðu Landsvirkjunar sem er komin með eigið fé upp á rúma 200 milljarða.



[13:39]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta er sérkennilegur málflutningur af því að margir hefðu haft áhuga á að kaupa orku hér í millitíðinni. Nú skulum við aftur koma að núgildandi samningum um raforkusölu og víkjum okkur þá að þeim samningi sem gerður var við Alcoa á Reyðarfirði. Útsöluraforkuverð er á þeim samningi og hann byggir á mjög svipuðum grunni og hinn gamli, vondi samningur við Norðurál. Vert er að minna á að samningurinn gildir til ársins 2048. Hvað ætli við töpum miklu á því að hafa gert svo vondan samning á þeim tíma og hefur hæstv. fjármálaráðherra, sem ég geri ráð fyrir að muni ekki svara þessu, látið reikna það út?

Telur hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson að unnt sé að gera eitthvað varðandi þjóðhagslega ómögulegan samning við Alcoa? Telur hæstv. ráðherra einhverja möguleika á að opna þennan gjafaorkusamning áður en hálf öld taps líður?



[13:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þeir eru til — mér sýnist að hv. þingmaður sé í þeirra hópi, enda, ef ég man rétt, var hún ein þeirra sem var í hópi mótmælenda við Kárahnjúka — sem hefðu síður viljað nýta orkuna í landinu (Gripið fram í.) og kalla orkusamninga (BirgJ: … málflutningur.) sem gerðir hafa verið (Gripið fram í.) gjafa… (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)

Það er erfitt að svara fyrir sig á einni mínútu ef menn ætla stanslaust að vera að gjamma fram í. Þegar menn koma í þennan ræðustól — (Gripið fram í.) ætlar hv. þingmaður að fá svar frá mér? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Hv. þingmaður er einn þeirra sem hafa verið að mótmæla virkjunarframkvæmdum í þessu landi og talar hér um langtímasamninga sem gerðir hafa verið sem einhvers konar gjafasamninga. Ég er algjörlega á öndverðri skoðun. Þegar við horfum á þann mikla ávinning sem samfélagið hefur haft af uppbyggingu raforkukerfisins, af því raforkuverði sem almenningur á Íslandi nýtur vegna þess að við höfum farið í orkuframkvæmdir og gert langtímasamninga þar sem keypt er rafmagn, (Forseti hringir.) allt rafmagn sem framleitt er, allan daginn, hvern einasta dag ársins, fá menn aðeins skýrari mynd.

En við erum í sama liðinu þegar kemur að því að fá hámarksverð fyrir rafmagnið.