145. löggjafarþing — 111. fundur
 17. maí 2016.
veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald, 2. umræða.
stjfrv., 457. mál (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi). — Þskj. 731, nál. 1268, brtt. 1269.

[19:56]
Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/?2007.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald í því skyni að bregðast við breytingum í samsetningu gististaða og þróun framboðs á gistingu, einkum í ljósi mikils fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða. Lögð er til breytt skilgreining á því hvað felist í heimagistingu og er kveðið á um að sýslumenn fari með eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum sem bjóða upp á slíka gistingu. Jafnframt eru lagðar til breytingar á flokkun veitingastaða, m.a. til að fella brott rekstrarleyfisskyldu veitingastaða sem falla undir flokk I og til að hverfa frá því að lok afgreiðslutíma veitingastaðar ráði því hvort hann telst umfangsmikill eða umfangslítill.“

Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd hefur farið verulega gaumgæfilega yfir þetta mál, kallað til sín fjölda gesta og nefndin hefur einnig gert nokkrar breytingar á frumvarpinu sem við teljum að séu allar til bóta. Til dæmis er lagt til breytt orðalag á b-lið 1. gr. sem miðar meðal annars að því að hnykkja á því að ekki megi leigja húsnæðið út lengur en í 90 daga samtals á hverju almanaksári. Heildartíminn er því umræddur dagafjöldi, hvort sem viðkomandi leigir út eina eða tvær fasteignir. Nefndin leggur hins vegar til að bætt verði við skilgreininguna að húsnæðið megi aðeins leigja út fyrir allt að 2 millj. kr. á hverju almanaksári, þ.e. að þarna gildi það sem fyrr næst, 90 dagar eða 2 milljónir. Þessi breyting er veigamikil vegna þess að hún er ætluð til einföldunar fyrir skattyfirvöld og þá sem stunda þessa starfsemi.

Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að húsnæði þar sem boðið er upp á heimagistingu teljist ekki vera atvinnuhúsnæði í skilningi 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Það er því vilji löggjafans að húsnæði sem heimagisting fer fram í, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, teljist ekki vera atvinnuhúsnæði. Með þessu er líka stefnt að því að gera greinarmun á því, betur en verið hefur, hvaða gisting er heimagisting og hvaða gisting er atvinnustarfsemi.

Leitt hefur verið að því líkum að heimagistingarþátturinn, þ.e. hluti heimagistingar í þeim aragrúa íbúða og herbergja sem eru óskráð, til dæmis hér á höfuðborgarsvæðinu, sé í kringum 25% í skilningi lagafrumvarpsins. Það þýðir að 75% þess húsnæðis sem leigt er hér á höfuðborgarsvæðinu og telur nokkur þúsund einingar, og er ekki skráð, er undir atvinnustarfsemi. Það má því segja að með því að heimagistingin sé girt af með skýrari hætti sé einfaldara að leggja til atlögu við þá sem stunda atvinnustarfsemi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og án þess að vera skráðir.

Í þriðja lagi kemur fram að því sé bætt við að númer sem skráningaraðili fær úthlutað skuli vera sýnilegt á viðkomandi fasteign, þ.e. þegar sá sem kaupir gistinguna kemur að fasteigninni þá er hún með númer frá yfirvöldum og sýnir það ferðamanninum fram á að viðkomandi húsnæði sé skráð. Einnig er gert ráð fyrir því að þetta númer verði sýnilegt á heimasíðum þeirra aðila sem sjá um bókanir.

Lögð er til breyting á 18. gr. í þá veru að sýslumenn sinni einnig eftirliti með notkun á leyfisnúmeri í rekstrarleyfisskyldri starfsemi, sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna. Einnig er lögð til viðbót við 15. gr. frumvarpsins til að hnykkja á því að ekki aðeins lögreglustjóri heldur jafnframt slökkviliðsstjóri geti ákveðið kostnað af hlutaðeigandi ráðstöfunum sem og að bætt verði við tilvísun til öryggisvaktar af hálfu slökkviliðs sem mun hafa tíðkast gegn gjaldi á fjölmennum samkomum. Þarna eru menn að tala um stórar samkomur eins og, ef ég má nefna dæmi, þorrablót í Garðabæ þar sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur séð um gæslu og haldið uppi öryggi og séð til þess að allar rýmingarleiðir séu óheftar o.s.frv.

Á þessu ferðalagi málsins í gegnum atvinnuveganefnd fékk nefndin nokkrar ábendingar og þar á meðal frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Þar var okkur bent á að þar sem við værum með lögin um veitingastaði opin væri gott að hnykkja á því að leggja til viðbót við frumvarpið í þá veru að bæta við ákvæði um viðurlög við því að brjóta gegn banni við nektarsýningum og því að gert sé út á nekt samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga. Þetta fannst okkur sjálfsagt að taka til athugunar og setja inn í frumvarpið, enda er það okkur öllum þyrnir í augum að gert sé út á nekt á veitingastöðum í Reykjavík og í landinu. Við höfum öll áhyggjur af því að oft og tíðum fylgir slíkri starfsemi mansal og annað sem við kærum okkur ekki um.

Við umfjöllun um málið kom fram að jafnvel á stærri veitingastöðum störfuðu ekki faglærðir matreiðslumenn. Nefndinni barst umsögn um málið þar sem bent var á að mikilvægt væri að virða 1. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga. Nefndin telur mikilvægt að atvinnugreinin uppfylli kröfur um fagmenntun en nefndin hefur upplýsingar um að á vegum stjórnvalda standi yfir vinna sem tengist menntun og gæðum ferðaþjónustu.

Í stuttu máli sagt þá snýst þetta um það að í þeirri hröðu uppbyggingu sem hér hefur verið, vegna vaxtar í ferðamennsku, hafa menn verið að freistast til þess að gefa afslátt, t.d. af matreiðslu, framleiðsluþekkingu, en eins og allir vita sem þessi mál hafa gaumgæft þá getur verið stórhættulegt að hafa í vinnu á stórum veitingastöðum fólk sem ekki er fagmenntað, t.d. bara vegna hættu á krosssmiti og ýmsum slíkum áhættuþáttum. Auðvitað eigum við ekki að gera minni kröfur til þess að menn sem elda mat ofan í ferðamenn séu með iðnaðarréttindi en þeir sem múra hótelið að utan og innan og leggja í það rafmagn. Á því var hnykkt að nefndin telur ekki æskilegt að gefa afslátt af iðnmenntun.

Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til laga um fjöleignarhús og bent á fordæmi kærunefndar húsamála fyrir því að ekki sé talin óeðlileg breyting á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi að þar fari fram atvinnurekstur. Þetta er kannski sérstaklega athyglisvert þessa dagana því að nýgenginn er héraðsdómur þar sem hnykkt var á því, varðandi 27. gr. laga um fjöleignarhús, að fyrir liggi samþykki allra eigenda áður en farið er að leigja út íbúðir í stórum fjöleignarhúsum, þ.e. að verið sé að taka hluta af fjöleignarhúsi í atvinnustarfsemi. Þessi dómur mun væntanlega ganga til Hæstaréttar og verður þá þar af leiðandi skýrari en nú er. Það verður mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig það mál gengur fram vegna fordæmisgildis.

Fram kom við umfjöllun um málið að ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum brysti grundvöllur fyrir rekstri þeirra sem nú hafa leyfi í flokki heimagistingar. Þegar þau leyfi renna út munu slíkir aðilar ekki lengur heyra undir skilgreiningu heimagistingar og þurfa að sækja um sem gistiheimili og munu því þurfa að gangast undir ríkari kröfur, mögulega kostnaðarsamar eða illframkvæmanlegar. Nefndin beinir því til ráðherra að í reglugerð verði kveðið á um misríkar kröfur til gistiheimila og þá með tilliti til fjölda gesta. Ég sagði áðan að eitt af því sem væri kannski mikilvægast við þetta mál væri að girða af þá sem eru með heimagistingu án þess að vera í atvinnurekstri en nefndin segir hér, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að húsnæði er leigt ferðamönnum án þess að tilskilið leyfi sé fyrir hendi og án þess að af því séu greiddir skattar. Nefndin telur brýnt að átak verði gert í eftirliti með slíkri starfsemi. Nefndin bendir á að ólögleg gististarfsemi skerði rekstrarskilyrði þeirra sem fylgja lögum og að auki geti hún raskað öryggi ferðamanna. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að ráðast í sérstakt átak til að tryggja að öll gististarfsemi fari löglega fram, m.a. með eftirlitsferðum lögreglu í húsnæði þar sem grunur leikur á um útleigu án leyfis.“

Þetta er mál sem sá sem hér stendur hefur nokkrum sinnum tekið upp, líklega við þrjá ráðherra. Ég lýsi sérstakri ánægju minni með að tekið sé fram í nefndarálitinu að nefndin sé einhuga um að slíkt átak sé gert. Það er auðvitað óþolandi fyrir okkur öll að þessi atvinnugrein, sem er að verða svo ríkjandi og áhrifarík í þjóðfélaginu, skuli byggð upp á svartri atvinnustarfsemi. Við vitum að í geiranum, þ.e. í samtökum aðila í ferðaþjónustu, hafa menn lýst áhyggjum sínum af því að hér séu aðilar óskráðir sem lúta ekki sömu lögmálum og þeir sem hafa allt sitt á hreinu. Um leið og búið er að skilgreina með skýrum hætti hvað er heimagisting, hvað er gisting í atvinnuskyni, þá er hægt að snúa sér af öllu afli — yfirvöld geta gert það, skattyfirvöld, lögreglan — að sjá til þess að þeir sem óskráðir eru verði skráðir.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála og nefndin hvetur iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að mæla þar fyrir um að bókunarþjónusta skuli skila stjórnvöldum upplýsingum um viðskipti sín hér á landi. Þetta er gert víða erlendis, þ.e. að bókunarþjónustur skila yfirvöldum niður á nafn gististaðar þeim upphæðum sem þær hafa séð um bókun á. Þetta léttir skattyfirvöldum lífið við að hafa eftirlit, því að eins og hér kom fram áðan eru það fjölmargir aðilar sem hafa þarf eftirlit með. Þess vegna er mjög brýnt að þetta verði gert.

Að lokum vil ég segja: Það er mikið ánægjuefni að um þetta mál skuli hafa skipast og náðst svona mikil samstaða í nefndinni, en hún stendur öll að þessu nefndaráliti. Reyndar vildi svo til að Kristján L. Möller og sá sem hér stendur voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en við rituðum báðir undir með heimild í 4. mgr. starfsreglna fyrir starf fastanefndar Alþingis. Nefndin er einhuga um þetta nefndarálit og hvetur mjög til þess að málið fái hraðan framgang og verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er sérstök grein fyrir í breytingartillögu í átta liðum sem fylgir nefndarálitinu.



[20:10]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir það hversu grandgæfilega hún hefur farið yfir þetta frumvarp. Hugurinn með frumvarpinu var mjög góður en að mörgu leyti var það meingallað. Hér eru 12–14 breytingartillögur við frumvarp sem þó er bara 25 greinar. Þetta lítur samt allt miklu betur út en áður.

Hv. þingmaður kom víða við í sinni yfirgripsmiklu ræðu, allt frá því að nefna hið þjóðþekkta þorrablót í Garðabæ yfir í það að vera með aðfinnslur gagnvart stórum matreiðslustöðum þar sem hann segir að fyrir komi sá ósiður að menn hafi þar í vinnu fólk sem ekki sé faglært. Þá vil ég, vegna kynna minna af hv. þingmanni, segja að miklu frekar vildi ég koma á matreiðslustað sem hann, ófaglærður, mundi standa fyrir matreiðslu á fremur en margur matreiðslumeistarinn. Þar með er lofi mínu lokið um nefndina og hv. þingmann.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út í 1. gr. breytingartillagnanna. Þar er hinu upphaflega frumvarpi breytt með þeim hætti að húsnæði sem er leigt út er ekki skilgreint sem atvinnuhúsnæði ef um er að ræða leigu sem nær ekki yfir 90 daga eða tekjurnar fara ekki yfir 2 millj. kr. Nú mun ég í umræðum um frumvarp sem er næst á dagskrá gera athugasemd við 2 milljónirnar en mun ekki gera það á þessu stigi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju hverfum við ekki frá því að hafa þetta fasta upphæð í lögunum og tengjum þess í stað við verðlag? Við vitum að það er með reglulegu millibili verið að breyta þessari upphæð. Hvers vegna sláum við þetta ekki bara í gadda í eitt skipti fyrir öll, tökum ákvörðun um tiltekna upphæð — ég er reyndar þeirrar skoðunar að hún ætti að vera hærri — og tengjum hana við verðlag? Þá þurfum við ekki að standa hérna þriðja hvert ár og breyta.



[20:12]
Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og nefndarinnar, en ástæðan fyrir því sem hann nefnir hér réttilega, að hér séu lagðar til 2 milljónir og ekki talað um verðlagshækkanir, er í stíl við ýmsar gjaldskrárheimildir sem eru í lögum. Þessi tala er tvöföldun á því sem áður var. Hún hefur farið úr 500 þús. kr., eins og var fyrir nokkrum árum, í þessa upphæð núna. Það er rétt að benda á það, þó að það frumvarp komi fram síðar, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að þeir sem eru undir þessari veltutölu, af framteljendum til virðisaukaskatts, eru að fá nettó töluvert mikinn innskatt greiddan út, þ.e. þeir eru með meiri innskatt en útskatt. Þar munar þó nokkrum milljörðum.

Það sem vakti fyrir nefndinni var að hækka þetta þannig að þarna væri klárt að af þessum 2 milljónum yrði þá greiddur fjármagnstekjuskattur; þetta væri til einföldunar, þetta væri ekki til þess að skatturinn væri að eltast við þessa aðila sem eru, ef ég man rétt, 7.500. Það er líka verið að hugsa um að þetta sé einfaldara fyrir skattyfirvöld að fylgjast með. Auðvitað mætti hugsa sér að binda þetta einhverri vísitölu en þessi leið var farin að þessu sinni, að negla þessa upphæð í 2 milljónum. Og, nota bene, það er ekki bara fyrir þessa starfsemi heldur aðra starfsemi einnig þannig að menn sem baka flatkökur í bílskúrnum eru undir sömu sök seldir svo að ég nefni dæmi.

Eins og ég segi var þessi leið farin að þessu sinni.



[20:15]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er það alls kostar rétt hjá hv. þingmanni að þessi leið hafi verið farin „að þessu sinni“. Þetta er í fjórða sinn sem þessi leið er farin. Við höfum ekki alltaf búið við það að verðlag sé tiltölulega stöðugt eins og hefur verið síðustu ár, alveg frá því að við risum eins og fuglinn Fönix upp úr öskustó bankahrunsins. Við þekkjum það líka að þingið er ekki mjög fúst til þess að taka mjög oft á svona málum. Þess vegna líður alltaf töluverður tími á milli og á meðan lækkar þessi upphæð að raungildi. Það getur vel verið að eftir nokkur ár verði hún orðin að raungildi miklu lægri en hún er í dag. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það sé best að tengja þetta við verðlag, þessa upphæð í lögunum, og sömuleiðis þá upphæð sem er í skylduákvæði í því frumvarpi sem verður rætt hér á eftir. Þetta er nú mín skoðun og mér fannst að skýringar hv. þingmanns væru svona „af því bara skýringar“. Ég undrast að þeir nákvæmnismenn sem eru nú í forustu atvinnuveganefndar skuli ekki hafa tekið gerr á þessu.

Hafi ég skilið upphafssetningu í andsvari hv. þingmanns rétt er ríkið á svona breytingum, sem er að finna í fyrstu tillögugreininni og í því frumvarpi sem við ræðum hér á eftir, að spara sér milljarða. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi. Ef svo er, og ég geri engar athugasemdir við það, er ég hins vegar þeirrar skoðunar að málið eigi að koma út á sléttu þannig að upphæðin sem menn velja, þ.e. sú sem hugsanlega ætti að vera þarna í staðinn fyrir 2 milljónirnar, eigi að ákvarðast með þeim hætti að ljóst sé að ríkið komi út á sléttu. Ég geri mér grein fyrir því að það hefði tiltekinn ávinning fyrir þá sem þessu sæta en að öðru leyti má líta svo á (Forseti hringir.) að í þessu felist tillaga um skattahækkun. Ég undrast að formaður hv. atvinnuveganefndar skuli standa í svoleiðis bixi. Hv. þingmaður skýrir það hugsanlega út á eftir og þá fellir hann kannski niður það dauflega bros sem leikur um varir hans núna.



[20:17]
Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á það augljósa, að landsmenn séu nú orðnir vanir því, síðan þessi góða ríkisstjórn sem nú situr kom til valda, að stöðugleiki í verðlagi hefur aldrei verið meiri þannig að það munar ekki mikið um verðhækkanir þessa mánuðina. Hitt er svo annað mál að það er alveg sjálfsagt, og mér finnst það bara eðlilegt og okkur er það ljúft og skylt, að taka málið til nefndar milli 2. og 3. umr. og fara yfir það hvort rétt sé að tengja þessa upphæð virðisaukaskattsviðmiðum þannig að hún taki breytingum. Það er ekkert sem mælir á móti því.

Hv. þingmaður skildi mig sem svo að það yrði sparnaður af því að gera þetta vegna þess að við mundum spara marga milljarða í innskatti en það er kannski ofmælt vegna þess að þeir sem stunda þessa starfsemi hafa enn þann möguleika sem áður að telja fram eins og þeir hafa gert. Það er hins vegar, líkt og ég sagði í mínu fyrra andsvari, fyrst og fremst um það að ræða — allur þessi fjöldi sem er í þessum flokki, 7.500 eða hvað þeir nú eru — að þetta sparar kannski ríkinu þó nokkuð í eftirliti. Eftirlitið getur þá beinst að þeim sem eru í færum til að svíkja undan ef þannig er og hafa stærri og meiri rekstur undir og er mikilvægara að fylgst sé gaumgæfilega með.

En það er sjálfsagt að taka þessa tillögu hv. þingmanns og að nefndin gaumgæfi hana milli 2. og 3. umr.



[20:19]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir ábendinguna frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þetta er góð ábending. Í nefndarálitinu er talað um þessa 90 daga eða 2 milljónir og um 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. að þetta teljist ekki vera atvinnuhúsnæði. Í þriðja lagi er talað um skráningarnúmerið. Er það rétt skilið að þeir sem eru í þessum heimagistingum fái líka skráningarnúmer? Mér finnst það ekki alveg ljóst þegar ég les nefndarálitið.

Svo langar mig aðeins til að spá í þetta eftirlit. Ég bý í litlu samfélagi og veit að ekki eru allir skráðir sem eru að leigja út í mismunandi langan tíma. Í lok álitsins er hvatning til ríkisstjórnarinnar um átak með eftirlitsferðum og allt það, en ég spyr: Hvernig á beinlínis að hafa eftirlit með dagafjöldanum, ef maður fer sýnilega yfir 2 milljónirnar en ekkert endilega yfir 90 dagana? Ég veit ekki hvernig ég á að segja þetta: Ég er kannski að leigja í gegnum Airbnb, ég leigi í gegnum Booking og svo er ég ekki að leigja í gegnum neinn nema tölvupóstinn minn eða eitthvað slíkt. Getum við náð utan um þetta? Það er bara það sem ég er að velta fyrir mér. Og hvernig getum við þá gert það? Það eru, eins og við þekkjum, töluverð vandræði í þessari svörtu starfsemi í litlum sem stórum samfélögum, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar aðeins að fá fram nánari sýn þingmannsins á það.



[20:22]
Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar hugleiðingar. Jú, ég hef skilið það þannig að þeir sem á annað borð skrá sig sem gististað fái númer. Það er bæði til þess að auðvelda þeim sem hafa uppi rafrænt eftirlit að fylgjast með á bókunarsíðum og ekki síður, þess vegna var það nú sett inn að merkja húsnæðið, til þess að auðvelda eftirlitsaðilum eins og lögreglunni að sjá það á færi hverjir eru merktir og hverjir ekki; auk þess, eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, að gefa þeim sem gista til kynna að viðkomandi gistiheimili sé skráð á lögmætan hátt.

Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að það verður alltaf erfitt að fylgjast með þessari starfsemi í þaula. Spurningin er líka hvað eftirlitið megi kosta til að það borgi sig. Þess vegna fór nefndin þá leið að reyna að einfalda málið, gefa mönnum tvo möguleika, annars vegar 90 dagana — það fór mikil umræða í það hvort það ætti að vera styttra o.s.frv., en lendingin var sú að taka þessa 90 daga en segja og/eða 2 milljónir, hvort sem kemur fyrst. Með því töldum við að við værum að koma til móts við sem flesta, af því að þessi hópur er ekki einsleitur, hann er margvíslegur. Við vorum líka að hugsa um, þess vegna voru 90 dagarnir settir inn, bændagistingu og gistingu sem er fjarri höfuðborgarsvæðinu sem er kannski einungis með þessa 90 daga að hámarki virka á ári. Þess vegna vildum við reyna að hlaupa í föt Salómons heitins og reyna að finna þarna einhvern einn tón sem væri til þess fallinn að allir gætu við unað.



[20:24]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er ágætt að þetta liggi nokkuð ljóst fyrir af því að ég tel að þetta geti verið vandkvæðum bundið. Hér er talað um, eins og hv. þingmaður fór yfir, að beina því til iðnaðar- og viðskiptaráðherra að bókunarþjónustan — ég skil það sem svo að það séu Booking og Airbnb og fleiri erlendar veitur — eigi að skila upplýsingum. Ég veit ekki alveg hvernig það nær yfir höf og lönd, það getur vel verið að það sé vel gerlegt og ég vona það. Það skiptir máli í þessu samhengi.

Ég er í sjálfu sér ánægð með breytingarnar sem frumvarpið hefur tekið. Ég ræddi það töluvert þegar það kom til 1. umr. Mér sýnist að breytingarnar séu allar til góðs sem hér eru settar fram.

Það er eitt sem ég vil spyrja um í þessu samhengi líka svo að það sé skýrt: Ef ég á tvær fasteignir og þær eru báðar merktar með þessu númeri jafnvel þótt önnur þeirra sé heimili mitt og ég leigi hana bara viku á ári, þá fellur hún samt undir þetta. Hér er verið talað um 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, erum við þá að tala um fasteignagjöldin? Ef ég á tvö húsnæði í dag og annað þeirra hefur fengið á sig fasteignagjöld atvinnuhúsnæðis, af því að það hefur farið yfir tiltekinn dagafjölda í leigu, þá mundi það falla út núna fari það ekki upp fyrir þessi viðmiðunarmörk eða fara aftur í hefðbundið viðmið íbúðarhúsafasteignar.

Ég vil lýsa ánægju minni með þetta og ég vona að við getum tekið á því sem hér kemur fram varðandi fjöleignarhúsin, að þessi dómur falli tiltölulega fljótt í Hæstarétti þannig að við getum klárað þann fasa. Það er auðvitað mjög bagalegt og það (Forseti hringir.) tekur meðal annars á því sem þingmaðurinn fór yfir varðandi nektarsýningar og mansal eða annað slíkt — blokkaríbúðir hafa hreinlega verið leigðar út í partístand og ýmislegt fleira. Ég held að það sé eitthvað (Forseti hringir.) sem við þurfum að huga vel að og fylgjast með og taka fyrir um leið og dómsniðurstaða liggur fyrir.



[20:26]
Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá hvatningu sem fram kemur hér í restina þá vorum við vissulega nokkuð óþreyjufull í nefndinni eftir því að þetta samband milli bókunarþjónustu og ríkisskattstjóra og skattyfirvalda kæmist á. Við vildum hins vegar ekki tefja þetta mál með því að bíða eftir lyktum í því máli. Þess vegna settum við þessa hvatningu hér inn og þess vegna settum við líka hvatningu inn til innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að eftirlitið skuli hert á þeim sem verða eftir þegar þessi girðing er komin utan um heimagistinguna. Við vonum vissulega að það hafi í för með sér að það náist að koma böndum, ef ég get orðað það þannig, á þessa starfsemi, því að líkt og ég sagði áðan þá er það óþolandi fyrir okkur öll að atvinnugrein sem stendur undir öllum þessum tekjum skuli hafa þetta orð á sér, fyrir utan eins og ég sagði áðan að Samtök ferðaþjónustunnar vilja skiljanlega ekki una við þetta ástand og hafa marglýst því yfir á fundum og í umsögnum.

Hvað það varðar að leigja út tvær fasteignir: Jú, hægt er að leigja út tvær fasteignir eins og t.d. frístundahús og íbúð sem maður býr í sjálfur og dagafjöldinn er samtals 90 dagar á hverju almanaksári.

Jú, það er erfitt að fylgjast með þessu. Við teljum reyndar, og höfum svo sem fengið upplýsingar um það, að nærumhverfið fylgist vel með. En hvað varðar spurningu hv. þingmanns um gjöld sveitarfélaga þá er það rétt að við erum hér að tala um fasteignagjöldin sem verða allmiklu hærri þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða.



[20:29]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Öll atvinnuveganefnd stendur að þessu nefndaráliti og hefur góð samstaða verið um að vinna málið sem best og reyna að ná utan um fyrst og fremst heimagistingu eða deilihagkerfi sem hefur oft verið nefnt og er auðvitað ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim og er að vaxa víða eins og hér á landi.

Fram hefur komið að bara í Reykjavík séu um 4.000 íbúðir og herbergi í heimagistingu. Það er auðvitað vandi að gera greinarmun á milli þess hvenær um er að ræða heimagistingu og hvenær menn eru komnir út í atvinnustarfsemi. Ég tel að með því að gera þetta með þeim hætti eins og þetta mál liggur fyrir núna, að skilgreina það miklu betur, þá hafi okkur tekist að gera það. Það að hafa þetta hvort tveggja, að það miðist við 90 daga og/eða 2 milljónir að hámarki sem útleiga má vera eða hafa tekjur af, held ég að sé mjög góð lending. Það kom vissulega fram gagnrýni frá aðilum eins og Ferðaþjónustu bænda að miklu strangari reglur og leyfisveitingar fylgdu því að vera með gistingu eins og hún er hjá Ferðaþjónustu bænda og þessi tegund af heimagistingu mundi þá losna við kostnað við leyfisveitingar en hefði möguleika á að hafa álíka tekjur og sá geiri. Núna má segja að verið sé að bjóða upp á það að menn hafi þá þetta val, t.d. í heimagistingu hjá bændum, að ganga inn í þetta kerfi eins og það er, að það sé ekki flokkað undir atvinnustarfsemi heldur að það sé innan þess ramma að geta ekki nýtt sér virðisaukaskatt og hafi þá möguleika á að hafa tekjur upp að 2 milljónum, eða að vera inni í virðisaukaskattskerfinu þar sem hægt er að nýta innskattinn og getur verið hagkvæmara fyrir marga að gera það með þeim hætti sem eru kannski með ýmsan annan rekstur sem fellur undir þetta og nýtist vel að geta þá verið í virðisaukaskattskerfinu.

Ég tel að búið sé að girða þarna fyrir ýmsa gagnrýni með því sem kemur fram í breytingartillögum frá nefndinni og styrkja þá útleigu sem hefur verið mjög á gráu svæði og hefur verið gagnrýnd mikið, að þetta væri svört atvinnustarfsemi að mestu leyti. Þarna séum við bæði að auka eftirlit og flokka þetta þannig að algjörlega sé ljóst að þetta sé ekki atvinnustarfsemi en menn þurfi að vera með leyfisveitingar og númer og annað sem ýtir allt undir að það sé sýnilegra og skýrara.

Það sem mér fannst vera mjög athyglisvert í umfjöllun nefndarinnar var að þeim síðum, sem bjóða upp á heimagistingu, ýmsum bókunarsíðum, t.d. í Bandaríkjunum, er skylt að gefa upplýsingar til skattyfirvalda um hvað fer þar í gegn. Ég tel það vera eitt af grundvallaratriðum fyrir því að hægt sé að gera það hér á landi, að ná utan um þetta, fá allt upp á yfirborðið, að skatturinn hér á landi fái slíkar upplýsingar frá þeim síðum, að þær síður verði að veita upplýsingar og starfa undir þeim lögum sem eru í hverju landi fyrir sig. Það virðist vera að löggjöfin sé þannig í Bandaríkjunum að þeim sé skylt að gera þetta. Við fengum þær upplýsingar hjá skattinum að verið væri að vinna að þessu og leita eftir því við umræddar síður að veita slíkar upplýsingar. Ef það yrði ekki gert með góðu móti þyrfti að skýra íslenska löggjöf sem skyldaði síðurnar til að veita þessar upplýsingar. Í dag eru bókunarsíðurnar sjálfar að skila virðisauka og þurfa að gera skil á því, síðurnar sem slíkar, en hafa ekki hingað til verið að veita upplýsingar um þá starfsemi sem fer í gegnum síðurnar varðandi bókanir í heimagistingar hér á landi.

Ég skildi það þannig að ef þetta gengi ekki eftir með góðu eins og sagt er yrði látið reyna á það í dómsmáli og reyna á þessa upplýsingaskyldu og hvort nauðsynlegt væri að breyta lögum til að fylgja því eftir.

Mér finnst þetta vera svona kjarninn í þessu, að ná algerlega utan um þetta og að skattur af þeirri starfsemi skili sér og önnur starfsemi í gistingu, þ.e. annars konar gisting í atvinnustarfsemi, að samkeppnisumhverfi milli þeirra aðila sé með eðlilegum hætti.

Það hefur aðeins verið komið inn á að verið sé að lyfta þessu þaki upp, frá 1 milljón upp í 2 milljónir. Mér finnst það vera bara mjög eðlilegur hlutur. Það eru um 7.900 einstaklingar í dag sem gefa upp tekjur af starfsemi undir 1 millj. kr., en það eru viðmiðunarmörk í dag. Í dag er það þannig að skila má virðisaukaskatti einu sinni á ári upp að 3 milljónum, sem í því máli sem verður mælt fyrir á eftir er lagt til að verði 4 milljónir.

Eins og ég kom inn á er verið að styrkja ýmsa þætti. Nefnd hafa verið atriði um fjölbýli sem dómur hefur fallið um í héraðsdómi sem gengur örugglega upp í Hæstarétt og þar þarf að fá niðurstöðu í þeim málum sem skiptir miklu fyrir heimagistingu í fjölbýli. Gera þarf breytingar á lögum um fjölbýli ef dómur Hæstaréttar gengur á sama veg og héraðsdómur féll í því máli fyrir stuttu síðan, en það gengur út á það að ef breyta á nýtingu á íbúð þarf leyfi annarra eigenda og samþykki meiri hluta ef íbúðarhúsnæði er breytt í aðra notkun. Ég tel líka mjög nauðsynlegt að fá niðurstöðu í það mál varðandi slíka útleigu sem hefur vaxið fiskur um hrygg og ýmis gagnrýni komið á en er komin til að vera og er að mörgu leyti mjög góð vegna þess að hún léttir í sjálfu sér á mikilli uppbyggingu í gistingu, hvort sem það er hótel eða annars konar gisting, og tekur kannski af svona uppsveiflur, því að alltaf verða uppsveiflur og svo geta niðursveiflur komið. Slík útleiga er sveiflujafnandi, er kannski hægt að segja, í sjálfu sér og auðvitað bara góð nýting á húsnæði sem er til staðar. Ég tel að það sé af hinu góða og þó að ekki sé búið að róa fyrir allar víkur í þessu máli sé það þess eðlis að það þarf að vera svolítið lifandi löggjöf, eins og sagt er um mörg mál. Ég held að vandað hafi verið vel til verka í vinnu atvinnuveganefndar en ég reikna samt með að við förum yfir málið milli 2. og 3. umr. ef hnykkja þarf á einhverju sem hefur komið fram í umræðunni hér og nú. Ég er mjög ánægð með hve góð samstaða náðist um málið í atvinnuveganefnd.



[20:39]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Öllum kom hann til nokkurs þroska, sagði Snorri Sturluson í frægum orðum um Erling Skjálgsson og hið sama má segja um hv. framsögumann og formann atvinnuveganefndar. Á seinni tímum hefur brotist fram í honum áður óþekktur vilji til friðar og sátta, svo ríkur að það smitar yfir á aðra nefndarmenn. Hér hefur verið gerður töluverður rómur að þeirri miklu eindrægni sem ríkir í atvinnuveganefnd og ég sá af viðbrögðum hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar við ábendingum mínum áðan að það er fullur vilji til þess að halda áfram á þeirri miklu friðarbraut sem hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, hefur rutt. Hv. þm. Þorstein Sæmundsson sagði í mjög jákvæðum undirtektum við ábendingum mínum að það væri sjálfsagt að taka málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. og skoða þar hvort ekki væri rétt að tengja þetta við breytingar á vísitölu. Ég tel að það væri mjög vel til fallið.

Sömuleiðis vil ég, og það er aðalerindi mitt í þennan stól, herra forseti, þakka hv. framsögumanni, Þorsteini Sæmundssyni, fyrir þessar jákvæðu undirtektir. Svona eiga menn að vinna. Ég verð að segja að það frumkvæði sem hv. atvinnuveganefnd hefur tekið af því að skoða þetta mál í tætlur og koma með gagngerar breytingartillögur er mjög jákvætt. Það er í reynd í annað skipti á þessum degi sem kemur í ljós að í sumum málum leyfir þingið sér að taka sjálfstætt frumkvæði og skoða rækilega frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni og breyta þeim svo að segja í grundvallaratriðum. Ég lít svo á að þær breytingar sem voru t.d. gerðar hér og samþykktar fyrr í dag á frumvarpi um almennar félagsíbúðir hafi verið grundvallarbreytingar þar sem nefndin stóð öll saman að og breytti málinu mjög með jákvæðum hætti. Hið sama sjáum við í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir, að nefndin undir forustu hv. þingmanns, friðarhöfðingjans Jóns Gunnarssonar, hefur skoðað málið og breytt því í grundvallaratriðum þannig að það horfir miklu betur við þeirri atvinnustarfsemi sem málið á að varða.

Það ber auðvitað að þakka. Ég hef að vísu lagt hér fram ýmsar hugmyndir sem jaðra við aðfinnslur en hv. framsögumaður málsins, Þorsteinn Sæmundsson, hefur sýnt mér fram á það að innan nefndarinnar er fullur vilji til þess að taka tillit til ábendinga þingheims og hefur lýst því yfir mjög skýrt að málið verði skoðað milli 2. og 3. umr. Ég leyfi mér að taka það sem fyrirheit um að þessi hugmynd verði skoðuð, hver sem niðurstaðan verður, en skora bæði á hv. framsögumann og formann nefndarinnar að halda áfram á þeirri sáttabraut sem hér er að leiða til áður óþekktrar eindrægni um jafn viðkvæmt mál og þetta.

Þetta voru þau orð og þetta var erindi mitt í ræðustól, að þakka þeim hv. þingmanni sem nú situr hér bak mér og stýrir þinginu fyrir þær jákvæðu undirtektir sem hann galt við máli mínu áðan.