145. löggjafarþing — 125. fundur.
útlendingar, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 728. mál (heildarlög). — Þskj. 1440, brtt. 1420.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:40]

[15:35]
Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum vonandi að samþykkja þetta mikilvæga mál. Í því samhengi tek ég fram að þetta er endahnykkurinn á áralangri vinnu með aðkomu fjöldamargra innan úr pólitíkinni, utan úr málaflokkunum, stofnunum, ráðuneytum o.s.frv. Ég þakka sérstaklega fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi innanríkisráðherra, fyrir vinnu sem hófst á hans tíma, hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal og hæstv. velferðarráðherra Eygló Harðardóttur fyrir þeirra aðkomu að þessu máli. Síðan vil ég þakka sérstaklega samþingsmönnum sem störfuðu í þverpólitískri þingmannanefnd um málið og leggja til og leggja áherslu á að þingmannanefndin starfi áfram og fylgi málaflokknum eftir. Það er ekki hægt annað en að leggja líka áherslu á það að (Forseti hringir.) réttarbótin sem felst í þessum lögum krefst þess að málaflokkurinn sé almennilega fjármagnaður og vel haldið utan um hann á vegum framkvæmdarvaldsins.



[15:37]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ítreka fyrirvara mína hérna sem ég hef nefnt áður. Ég vil hins vegar nefna það í sambandi við breytingartillöguna á þskj. 1420 að við höfum þegar greitt atkvæði um þær greinar sem þar er fjallað um, 114. og 115. gr. frumvarpsins. Við höfum þegar greitt atkvæði með þeim greinum, þar á meðal sá sem hér stendur. Breytingartillagan varðar hins vegar það að þessar tvær greinar taki gildi strax en ekki um næstu áramót. Stór hluti af því að ég treysti mér til að greiða atkvæði með frumvarpinu í heild er sú staðreynd að gildistakan er við næstu áramót. Því ætla ég að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um breytingartillöguna á þskj. 1420, en ítreka þó að við höfum þegar greitt atkvæði um þessar tvær greinar, þar á meðal sá sem hér stendur.

Að lokum bara fagna ég því eins og aðrir hafa gert að við séum komin á þennan stað og óska þinginu til hamingju með þessi vinnubrögð. Megi þau oftar verða á sömu nótum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:38]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim tveim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um þessi mál og tek undir með síðasta ræðumanni hvað varðar atkvæðagreiðslu um breytingartillögu sem hér kemur fram varðandi 114. og 115. gr. Við vinstri græn komum til með að sitja hjá við þær greinar enda búin að greiða þeim í sjálfu sér atkvæði í heildarfrumvarpinu eins og hér kom fram en ekki í þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til á gildistöku.

Það er allra mikilvægast í þessu máli að áfram verði eitthvert eftirlit í formi þingmannanefndarinnar þar sem hægt verður að fylgja því eftir í framkvæmd að inntak laganna skili sér í framkvæmdinni. Mér finnst það mjög mikilvægt í ljósi þess að við teljum að hér sé framkvæmdin fyrst og fremst bágborin, lögin ekki nógu skýr í kringum hana og ekki nógu góð. Við erum að reyna að laga rammann, en það er virkilega mikilvægt að því verði fylgt eftir með fjármunum og að eftirlit verði áfram í höndum þingmannanefndarinnar sem kann málið hreint ansi vel.



[15:39]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þingmenn Pírata munu sitja hjá eins og aðrir sem hafa hér tjáð sig varðandi breytingartillöguna um gildistímann. Mig langaði svo mikið að leggja áherslu á það, eins og kom fram í atkvæðaskýringu þegar við vorum hér með þetta í 2. umr., að þingmannanefndin haldi áfram störfum með eftirfylgni til þess að hægt sé að taka á móti ábendingum ef það er meinbugur á framkvæmd laganna.

Ég hef starfað mikið með innflytjendum og flóttamönnum og ég verð að segja að það skortir verulega á í samfélaginu að tekið sé á þessum málum af mannúð. Það sem mér finnst gott við vinnuna sem átt hefur sér stað í þinginu og við drög að þessum lögum og gerð laganna er að ég upplifi anda mannúðar. Við náðum ekki öllu sem við vildum sem viljum fara eins langt og hægt er til að sýna (Forseti hringir.) mannúð í lögum og verki, en við erum komin ansi nálægt því og því vil ég óska þingheimi og öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessu starfi til hamingju.



Brtt. 1420 samþ. með 36 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsmD,  BÁ,  BP,  ElH,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  JMS,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LínS,  ÓÞ,  ÓP,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  SÁA,  SII,  SigrM,  SilG,  UBK,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
11 þm. (ÁsF,  ÁstaH,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BN,  HHG,  KJak,  RM,  SÞÁ,  SSv) greiddu ekki atkv.
16 þm. (BjarnB,  EKG,  FSigurj,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KG,  LRM,  OH,  SDG,  SIJ,  SJS,  VigH,  ÖJ) fjarstaddir.

[15:41]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þetta frumvarp sé að verða að lögum. Ég vildi bara við lokaatkvæðagreiðsluna koma inn á lítinn bút í lokunum á frumvarpinu sem snýr að auknum réttindum og tækifærum varðandi möguleika fólks af erlendum uppruna til að koma hingað og starfa. Ítrekað hefur komið fram hjá ýmsum fyrirtækjum að það hefur verið erfitt og flókið að fá hingað til lands erlenda sérfræðinga þannig að það var unnið að breytingum á þessu frumvarpi í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins enn á ný. Það er einkar ánægjulegt að sjá þá samstöðu sem er um þær breytingar sem munu efla vinnumarkaðinn til framtíðar.



[15:42]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ítreka ánægju mína með að við séum að greiða atkvæði um þetta frumvarp sem nú verður að lögum. Ég tek undir þá hvatningu sem hefur komið fram frá mörgum þingmönnum hér í dag varðandi þetta mál, að verklagið sem viðhaft var við undirbúning frumvarpsins og það gríðarlega mikla samráð og samtal sem átti sér stað við undirbúninginn og sú þekking sem hefur skapast verði nýtt í stærri verkefnum varðandi lagasetningu í framtíðinni. Þetta er hægt, við getum þetta. Til hamingju, allir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:43]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ítreka þakklæti mitt til þeirra sem komu að þessu máli. Það misfórst hjá mér að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir hennar vinnu, sérstaklega formanninum. Ég veit að við áttum okkur á því sem höfum komið að málaflokknum en kannski átta sig ekki allir á því hvað við erum að taka risastórt og mikilvægt skref, að Ísland sé að nálgast þessi verkefni með þeim hætti að allir í þessum sal séu nokkuð sáttir, ekki endilega alsælir. Þetta er ótrúlega stórt verkefni, sérstaklega í máli sem veldur svo miklum hindrunum og erfiðleikum mjög víða.

Þá ítreka ég skoðun mína í þessum málaflokki sem er sú að menn hætti að skilgreina þessi mál sem vandamál. Fjölbreytileiki er tækifæri, fjölbreytileiki er nokkuð sem öll samfélög eiga að vilja hafa. Í mínum huga er það versta tegundin af forræðishyggju þegar við ætlum að setja okkur í þau spor að ákveða hvert fólk vill flytja eða hvar það á að búa.

Í mínum huga er þetta risastórt frelsismál, risastórt samstöðumál og risastórt skref fyrir Ísland að taka forustu í þessum málaflokki. Til lukku með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



Frv., svo breytt, samþ. með 46 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsmD,  ÁstaH,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  ElH,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  JMS,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LínS,  OH,  ÓÞ,  ÓP,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SÁA,  SII,  SigrM,  SilG,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
2 þm. (ÁsF,  BN) greiddu ekki atkv.
15 þm. (BjarnB,  EKG,  FSigurj,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KG,  LRM,  SDG,  SIJ,  SJS,  VigH,  ÖJ) fjarstaddir.