145. löggjafarþing — 125. fundur.
kosningar til Alþingis, 1. umræða.
frv. VBj o.fl., 58. mál (persónukjör þvert á flokka). — Þskj. 58.

[18:33]
Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég hef flutt þetta frumvarp alloft áður og fyrst á 139. þingi, sem stóð árið 2010–2011. Meðflutningsmenn mínir í þetta sinn eru hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir og Óttarr Proppé. Í frumvarpinu er mælt fyrir því að fólk geti í kjörklefanum, með því að krossa við nöfn, valið einstaklinga til þings en gert það þvert á lista, að fólk geti kosið af öllum listum. Þetta er auðveld aðgerð og ekki flókin að skilja en það er kannski svolítið flókið að reikna það saman á eftir hverjir ná kjöri. Það er vel skýrt í greinargerð með frumvarpinu, þannig að ég tel ekki ástæðu til að fara ofan í það hér, virðulegi forseti. En þetta kerfi rúmast mjög vel innan kosningalöggjafarinnar eins og hún er; hægt er að breyta kosningalöggjöfinni og þetta rúmast þar inni, sérfræðingar hafa farið vandlega í gegnum það með mér.

Mig langar að geta þess, virðulegi forseti, að í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, sem var 20. október 2012, hljóðaði ein spurningin svona: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? 68,5% þeirra sem tóku þátt svöruðu spurningunni játandi. Þrátt fyrir það er enginn áhugi á þessari ágætu samkomu til að verða við vilja meiri hluta þjóðarinnar í því efni. Í öll þau skipti sem ég hef verið fyrsti flutningsmaður að slíkri tillögu hefur hún aldrei verið afgreidd til nefndar. Ég geri mér fulla grein fyrir því að tillagan er róttæk. Eins og ég sagði í upphafi gerir hún fólki kleift að kjósa þingmenn þvert á framboðslista. Sumum þykir þetta fullmikið og ég hef verið spurð að því af hverju ég biðji fólk ekki frekar að flytja með þér frumvarp sem gengur skemur, t.d. á þann veg að flokkarnir geti boðið fram óraðaða lista og látið kjósendum eftir að ráða hvernig frambjóðendur raðast í sæti, eða eins og tíðkast til dæmis í Svíþjóð, þ.e. að ákveðið hlutfall, t.d. 8%, kjósenda lista merki við einn frambjóðanda og þá lyftist hann upp fyrir aðra. Að þessu hef ég verið spurð. Ég hef vissulega velt því fyrir mér að kannski yrði það frekar til þess að auka áhuga samþingsmanna á því að hlusta á vilja yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar um aukið persónukjör.

Ég hef komist að niðurstöðu: Af hverju á ég að semja við sjálfa mig fyrir fram? Ég hef alltaf lýst því yfir, í þeim ræðum sem ég hef haldið um þetta mál hér, að ég væri mjög tilbúin til að líta til annarra leiða í þessu; ég átta mig á því að sumum finnst fullbratt að það eigi að vera mögulegt að kjósa fólk af mismunandi listum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég ætli ekki að byrja á því að semja við sjálfa mig vegna þess að mér finnst þetta vera sú leið sem eigi að fara. Mér finnst þá að aðrir, þeir sem finnst hún of brött, eigi að segja hvað það sé sem þeir geta hugsað sér og við getum rætt okkur saman að niðurstöðu. Staðreyndin er sú að í þessu húsi er mjög lítill áhugi á því að auka vald kjósandans í kjörklefanum. Fólk kemur hér úr stjórnmálaflokkum. Það er nú bara sá bragur á stjórnmálaflokkum að þeir vilja helst ráða öllu sjálfir og það er svolítið spari, finnst mér oft, sem þeir tala um að veita eigi kjósendum meiri rétt. Ef menn segja: Það er nú fulllangt gengið að segja þetta, við erum öll til í að gera þetta, þá skora ég á þingmenn hér í salnum að tala við félaga sína, sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þangað sem þetta frumvarp mun fara eina ferðina enn, og hvetja menn til að ræða þetta þar og koma þá með aðrar tillögur.

Eitt af því sem sagt er þegar þetta er rætt er: Ja, það er hægt að hreyfa til á listum núna. Við vitum öll, ef við tölum mannamál, að það virkar ekki neitt að strika út. Það er meira að segja þannig að hægt er að númera upp á nýtt, en það er svo illa kynnt að ég tel að fæstir viti það. Menn segja líka að þetta sé stórhættulegt fyrir kynjajafnréttið; til er fullt af rannsóknum um það og það er ekki rétt. Það eru engar rannsóknir sem sýna að þar sem persónukjör er meira en minna sé meira kynjamisrétti á ferðinni. Ég segi bara: Menn finna alltaf einhverjar mótbárur við það að breyta. Það væri auðveldasti hluturinn, virðulegi forseti, að setja inn í lög sem yrðu samþykkt að flokkum yrði þá heimilt, ef það raðast ekki jafnt samkvæmt kynjahlutföllum, að færa til á listanum þannig að það náist.

Í kosningum til stjórnlagaráðs kusu menn persónur. Sett var inn ákveðið rými í lögin sem átti að gera það kleift eftir á að jafna kynjahlutföll, en þess þurfti ekki vegna þess að kynjahlutföll voru í lagi í kosningunni sjálfri. Við erum þó orðin það skynsöm eftir öll þessi ár að okkur finnst sjálfsagt að kjósa kynin jafnt. Ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég tel þetta vera eina af þeim mótbárum sem fólk kemur alltaf með sem vill ekki breytingar og vill að allir hugsi eins og það. Svo segja menn: Já, ef kosið er persónukjöri þá er fólk ekki jafn trútt stjórnmálaskoðuninni sem það stendur fyrir. Það er bara ekki rétt, virðulegi forseti. Hver heldurðu að fari að bjóða sig fram í persónukjöri fyrir Samfylkinguna sem væri ekki allsæmilegur krati, allsæmilegur (Gripið fram í: Sumir eðalkratar.) — sumir eðalkratar, já það er rétt, ekki ég þó. Nú ruglaði hann mig alveg.

Virðulegi forseti. Ég held því fram að röksemd af þessu tagi komi frá fólki sem ekki þolir að blæbrigðamunur sé á skoðunum fólks. Við getum verið sammála í stórum dráttum, við þurfum ekki að vera sammála um allar útfærslur, en það á að vera blæbrigðamunur á skoðunum fólks. Við eigum að fara eftir stóru línunum. Við eigum ekki að setja reglur um smámuni.

Tíminn er úti, virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.