145. löggjafarþing — 133. fundur.
námslán og námsstyrkir, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 794. mál (heildarlög). — Þskj. 1373.

[17:50]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta viðamikla mál og sjónarmið sem vakna þegar það er skoðað og rýnt. Ég vil í upphafi þakka ráðherra fyrir að taka tekið þátt í umræðunni af miklum krafti í dag. Það er mikilvægt að ráðherra fylgi svona mikilvægum málum vel úr hlaði og eigi samtal við þingmenn um málin. Við jafnaðarmenn höfum alltaf lagt mikla áherslu á fyrirkomulag námslána og finnum til mikils stolts yfir því að Gylfi Þ. Gíslason átti frumkvæðið að því að koma á því námslánakerfi sem við höfum lengi búið við. Það hefur í nærri hálfa öld tryggt jafnrétti til náms og mjög öfundsverðar aðstæður fyrir fólk til þess að afla sér háskólamenntunar innan lands og utan.

Mér finnst líka mikilvægt að halda því til haga að við höfum í meira en áratug haft sem stefnu okkar í Samfylkingunni að komið verði á fyrirkomulagi námsstyrkja. Mér finnst jákvætt og skynsamlegt að stíga það skref. Það skiptir máli með hvaða hætti það er gert.

Grundvallarhugmyndin um námslánakerfið eins og það er er að það sé jöfnunarkerfi og skapi jöfn tækifæri þeim sem gætu annars ekki stundað nám. Eðli námsstyrkjanna er hins vegar nokkuð annað. Það er eins og vel kemur fram í frumvarpinu og er rökstutt víða í frumvarpinu til þess að auka hagkvæmni í rekstri háskólakerfisins, hvetja til bættrar námsframvindu og stytta þann tíma sem líður fram að útskrift. Það eru færð fram ítarleg rök og margar tölur um að fólk ljúki námi mun seinna á Íslandi en í öðrum löndum.

Það segir á einum stað í frumvarpinu að ávinningur ríkisins af betri námsframvindu sé 3,1 milljarður á ári. Mér finnst þetta vera lykiltala. Þegar við horfum á málið eins og það liggur fyrir hér þá eiga að koma til styrkir. Það mun koma eitthvert viðbótarframlag frá ríkinu, vissulega, einhvers staðar á bilinu 1–2 milljarðar, en afganginn af kostnaðinum við kerfisbreytinguna eiga þeir nemendur að greiða sem þurfa á námslánum að halda. Þar finnst mér ekki rétt fram gengið. Ég held að við eigum að byrja á því að segja: Það er alveg öruggt að ríkið sjálft á að leggja til þennan 3,1 milljarð, það er bara hagnaður ríkisins af aukinni framleiðni í kerfinu. Ríkið mun auðvitað njóta þeirrar framleiðniaukningar með ýmsum öðrum hætti. Síðan skulum við taka summuna sem eftir er og spyrja: Hvaða breytingar þurfum við að gera á námslánakerfinu til að taka á ýmsum ágöllum þar? Það getur vel verið að þá sparist einhverjir peningar, það getur vel verið að breytingar þar kalli á aukin útgjöld að einhverju leyti, en mér finnst að við eigum að halda þessu aðskildu, ríkið eigi að kosta til því sem þarf við að koma á námsstyrkjunum og síðan eigi námslánin að koma til viðbótar. Það getur vel verið að hægt verði að finna einhvern sparnað við útfærsluna þar vegna þess að við erum öll sammála um að ákveðin óhagkvæmni er innbyggð í kerfið í dag. Ríkisstyrkurinn nýtist með ákaflega tilviljanakenndum hætti. Í frumvarpinu eru tölur um hæstu lánin undanfarin ár sem eru gríðarhá. Samkvæmt frumvarpinu eru það um 20% lántakendanna sem fá 74% af ríkisstyrknum. Það segir sig auðvitað sjálft að það er ekki endilega það sem við viljum.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga við þessar aðstæður að það eru líka kostir við það í núverandi kerfi að fólk geti farið í nám, ekki bara þegar það er kornungt. Það er kannski það sem mér finnst aðeins skorta á í umfjölluninni í frumvarpinu. Með fullkomlega eðlilegum hætti er stefnt að því að fólk geti ekki safnað upp miklum námslánaskuldum mjög seint á ævinni sem er augljóst að það nái aldrei að greiða, en mér finnst samt ekki nægjanlega skýr umfjöllun um hvernig ríkið ætlar að taka á þeirri staðreynd, ekki bara á Íslandi, heldur í mörgum öðrum löndum er fólk á orðið tvo, jafnvel þrjá, karríera á lífsleiðinni og þarf að endurmennta sig til algjörlega nýrra starfa. Mér finnst skorta aðeins umfjöllun um það.

Mér finnst líka galli að sumar af breytingunum sem blasa hér við finnst mér vera þannig að menn hafi farið í uppsóp til að passa að gera breytingar sem gætu mögulega sparað pening en eru allar stúdentum í óhag. Það er t.d. haldið áfram með það að greiða námslán út eftir á, sem þýðir að bankakerfinu á Íslandi er gert kleift að sjúga peninga út úr stúdentum. Ég vil meina að ef þetta verður að veruleika þá sé farinn að verða tími til kominn til þess að láta á það reyna fyrir Eftirlitsstofnun EFTA hvort það standist að þegar íslenska ríkið er með bankakerfi sem er meira og minna í ríkiseigu sé verið að gefa íslenskum bönkum með þessum hætti óheft tækifæri til að græða á námsmönnum. Ég trúi því bara ekki að það geti staðist. Mér finnst þess vegna full ástæða til þess í nefndinni að horfa sérstaklega til að breyta þessu.

Það er ekki heldur kveðið skýrt á um að skólagjaldalán eigi að vera dýrari en framfærslulán. Mér finnst eðlilegt að það sé gert. Það er sagt að þetta séu tvenns konar lán. En við vitum það líka, það er alla vega ýmislegt sem bendir til þess í fortíðinni, að við höfum séð mikla fjölgun háskóla sem byggja á skólagjöldum og það sé lánað til skólagjaldagreiðslna. Við þurfum aðeins að stemma þá á að ósi.

Það er líka athugunarefni og kemur fram í frumvarpinu að ein af ástæðunum fyrir breytingunum núna sé mikil fjölgun lánþega í kjölfar átaksins Ungt fólk til athafna og Nám er vinnandi vegur sem við réðumst í í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég er mjög stoltur yfir að hafa átt hlut að því að koma því verkefni á. En það var hluti af meðvitaðri ákvörðun um að nýta háskólana til að endurmennta fólk. Við þurfum að ákveða það þá núna og taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að tryggja að ríkisvaldið hafi tækifæri til þess að gera það sama í næstu kreppu, að nýta háskólana til þess að mennta fólk betur, fylla skólana frekar en að láta fólk vera á atvinnuleysisbótum, til að fólk auki hæfni sína og fari í frekara nám. Þarna þarf að taka efnislega afstöðu til álitamála.

Ég tek líka eftir enn einni breytingu sem mér finnst vera námsmönnum í óhag. Það er sú staðreynd að í stað þess að lánið sé gefið út í lok námstíma og taki þá vexti og verðbætur á það að vaxtareiknast og verðbætast allan námstímann. Það er nú svolítið kaldhæðnislegt fyrir framsóknarmenn að sitja í ríkisstjórn sem þeir töldu að ætti að vera ríkisstjórn um afnám verðtryggingar og fella verðbólguáhættu á námsfólk, koma henni af ríkinu og láta námsfólk bera áhættu af verðbólgu allan námstímann áður en fólk er byrjað. Eitt er að bera áhættu í gegnum verðtrygginguna þegar maður er búinn að ljúka námi og nýtur launahækkana sem eru einhvers staðar á pari við hækkun verðtryggingarinnar, en mér finnst býsna langt gengið að láta námsmenn bera verðbólguáhættu og vaxtaáhættu allan námstímann.

Ég tek líka eftir því að menn tala um 3% vexti, en það er afleidd stærð, það er ekki „prímer“ stærð. Það er ekki stærð sem byggir á því að menn segi: Það er vegna þess að við teljum það réttlátt eða eðlilegt. Það er byggt á því sem núna er fyrirliggjandi uppsafnaður fjármögnunarkostnaður sjóðsins. Hann hefur hæst farið í 6,79% segir á bls. 39 í greinargerðinni. Lægstur hefur fjármögnunarkostnaðurinn verið 2,32, en er í dag 2,94.

Mér finnst fullkomlega óeðlilegt að lántakar sem núna eru að fara að taka námslán borgi vanrækslusyndir fyrri áratuga. Er það þannig að leiðréttingarkynslóðin á ekki bara að fá pening úr ríkissjóði núna í leiðréttingu húsnæðislána sinna á kostnað námsmanna sem núna eru í skóla, heldur er það raunverulega þannig að námsmenn framtíðarinnar eigi að greiða niður þau fjármögnunarkjör sem urðu til á fyrri tíð? Mér þætti eðlilegt að ríkissjóður kæmi hér inn og jafnaði þetta út og segði: Frá og með þessum punkti verða það ríkisvíxlar plús álag sem ræður fjármögnunarkjörunum og ríkissjóður tekur á sig mismuninn. Mér finnst í öllu falli fullkomlega óeðlilegt að þær kynslóðir sem eru að koma eigi að borga þennan fjármagnskostnað niður.

Að síðustu eru í þessu nokkur sjónarmið sem mér finnst skipta máli að við horfum á. Ef menn ætla að fara í hreingerningu og uppsóp í lánasjóðnum þá blasir auðvitað líka við að það verður að taka afstöðu til ábyrgðarmannavandans sem hefur verið við lýði undanfarin ár þar sem sjóðurinn hefur gengið harðar fram gagnvart ábyrgðarmönnum vegna eldri lána en áður var gert. Sjóðurinn hefur nýtt til hins ýtrasta glufur sem hann hefur fundið til þess að ganga þar fram. Ég held út frá sjónarmiðum um lögmætar væntingar að það sé fráleitt að halda því fram að ábyrgðarmenn sem skrifuðu upp á fyrir námsmann fyrir 30 árum síðan hafi búist við því að lánið yrði t.d. gjaldfellt. Mér finnst algjörlega fráleitt að heyra það að sjóðurinn keppist við að gjaldfella lán og innheimta þau svo á markaðsvöxtum dagsins í dag. Mér finnst það lágmarkskrafa að ábyrgðarmenn fái að ganga inn í lánið eins og það stendur nú og greiða það til loka á þeim forsendum sem veitt var á í upphafi. Ég þekki a.m.k. marga sem hafa skrifað upp á námslán og hef gert það sjálfur, en ég veit ekki um nokkurn mann sem gerði ráð fyrir því að einhverjir gjaldfellingarmöguleikar yrðu nýttir og að menn mundu borga markaðsvexti af eftirstöðvum sem á þá féllu. Þetta er fyrir utan álitamálið um ábyrgðarmennina og það hvernig ábyrgðirnar erfast sem mér finnst mjög öfugsnúið og finnst mjög brýnt að finna lausn á því. Það er auðvitað ekki rökrétt að námslánið sjálft erfist ekki, en að ábyrgð ábyrgðarmannsins erfist.

Að síðustu, til að taka saman þessa þætti sem mundu gera þetta mál og þessar breytingar miklu, miklu skaplegri. Það er ef greitt væri út mánaðarlega eftir á og ekki verið að vísa fólki á yfirdrætti. Það væri ef menn tækju út þessa fortíðarsyndir í fjármögnuninni og miðuðu fjármögnunina við vænta fjármögnun næstu ára og ríkissjóður einfaldlega axlaði þetta í staðinn fyrir að senda þennan reikning á nýjar kynslóðir. Þá gætum við mögulega verið að horfa á 1% vexti, 2% vexti, einhvers staðar þar á bilinu. Mér finnst líka fullkomlega eðlilegt að tekjutengingin verði skoðuð aftur. Mér finnst einnig eðlilegt að segja að það eigi að vera hærri vextir á skólagjaldalánum. Ég held að það sé alveg rökrétt. Mér finnst líka óeðlilegt að vaxta- og verðtryggingaráhætta liggi á námsmönnum á námstímanum vegna þess að þeir njóta auðvitað ekki verðtryggðra launa á þeim tíma.

Nú er tími minn að renna út. Ég held að ég hafi náð að fara yfir flesta þætti en ítreka að það er gott að sjá breytingar í þá veru að farið verði að veita námsstyrki. En mér þykir eðlilegra að kostnaðurinn við þá sé greiddur að öllu leyti af ríkinu. Svo byggjum við upp námslánakerfi til viðbótar sem haldi í margt af því besta sem við höfðum í fortíðinni.[18:05]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og góða yfirferð. Fyrst vil ég segja að það er rétt að af þessu verður þjóðhagslegur ávinningur. Ef þær spár ganga t.d. eftir að ef 60% af þeim nemendum sem eru ekki núna að taka námslán taki síðan styrkinn og nái þeim námsárangri þá kemst Ísland reyndar í hóp þeirra þjóða sem eru að ná hvað bestri námsframvindu. Þá erum við að tala um að kostnaðurinn nálgist rúmlega 2 milljarða, þannig að það er langleiðina í þann þjóðhagslega ávinning sem við höfum verið að nefna hér.

Hvað varðar fjármögnunarkostnaðinn þá er það reyndar þannig að þessi tala, 2,5%, er kannski ekki beint fundin út frá fjármögnunarkostnaði sjóðsins, heldur er horft til þess hver er fjármögnunarkostnaður ríkisins, sem var ef ég man rétt um 2,8%. Við ákváðum að festa þetta í 2,5% sem er fyrir neðan þann kostnað, svo kemur hálft prósent ofan á.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að ef við horfum síðan á stöðu sjóðsins og þau vandamál uppsöfnuð sem felast í gömlum fjármögnunarkostnaði, sem var allt of hár, kallar það mjög á, og við höfum verið að „signalera“ það t.d. til Seðlabankans, að endurfjármagna þurfi sjóðinn með eðlilegum hætti, en það mundi ekki hreyfa akkúrat við þessari ákvörðun. Aftur á móti hefur verið bent á og ég tek undir það, ég held að það sé rétt og vona að nefndin skoði það, að í staðinn fyrir að festa 2,5% þá sé hægt að setja það sem þak. Þannig að ef fjármögnunarkostnaður ríkisins fer niður, sem er þá gólfið í þessu, þá njóti sjóðurinn þess og námsmenn.

Síðan vil ég segja um ýmislegt annað sem hér var nefnt, ég kem kannski að því á eftir. Varðandi uppsópið sem hv. þingmaður kallaði svo vil ég segja að það er alveg rétt að verið er að fara yfir lánasjóðinn og verið er að þétta ákveðna hluti. En hugsunin bak við það er að nýta betur fjármagnið þannig að við getum betur stýrt því til að hafa styrkinn hærri. Eftir því sem minni agi er hvað þetta varðar þá kostar það fjármuni, það er þá eitthvað sem fer út annars staðar, og þá muni þess sjá stað í því að það verður lægri styrkur. (Forseti hringir.) Það er auðvitað það sem liggur kannski að baki þeim áherslum sem hv. þingmaður benti á.[18:08]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra skýringarnar. Þær eru allar til glöggvunar. Það verður gott að sjá nefndina fara vandlega yfir þetta mál. Ég held hins vegar að gæta megi þess við svona breytingar að menn glati ekki því góða sem hefur einkennt þetta kerfi og skapað okkur sérstöðu. Það er auðvelt að segja að við viljum ekki að menn taki eða sem sagt — ég vil nú kannski orða þetta aðeins öðruvísi. Það er eftirsóknarvert að við höfum getað gert fólki kleift að sækja menntun í merkustu menntastofnunum vestan hafs og austan. Það hefur verið stoð fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki að þar er ekki einsleitur hópur, sérfræðingar útskrifaðir allir úr sama skólanum, heldur kemur fólk með þekkingu úr mjög ólíkum áttum og leggur saman. Við höfum grætt á því sem samfélag. Við megum ekki gleyma því að þessi fjölbreytni hefur byggt okkur upp sem samfélag og við höfum grætt á henni. Ég skil alveg að hæstv. ráðherra hafi áhuga á uppsópinu svona til þess að spara pening og finna matarholur hér og hvar með eðlilegum innheimtuháttum, en sumir hlutir eins og t.d. tekjutengingin er ómetanleg. Við upplifum það mörg á starfsævinni að fara upp og niður í tekjum. Það góða sem hefur verið í þessu kerfi er að þegar árar vel hjá manni og maður fær mikið þá greiðir maður námslánin hratt upp. Ég sé t.d. fram á það núna í haust eða næsta vetur að klára öll námslánin mín. Maður getur verið þakklátur fyrir það að hafa fengið til þess tækifæri, en það var líka mjög gott að þurfa ekki að borga meðan illa áraði.[18:10]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt fyrst sem hv. þingmaður nefndi varðandi ábyrgðarmennina og möguleika þeirra að ganga inn í lánin. Ég held að þetta sé mikilvægur punktur eða atriði sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að það sé sjálfsagt mál að skoða það alveg sérstaklega. Ég held að það sé réttlætismál ef þetta er svona. Ég játa það reyndar að ég þekki þetta ekki alveg. Mér finnst alveg eðlilegt að þetta verði skoðað sérstaklega.

Hvað varðar það hvert íslenskir námsmenn fara og hvaða hópar þetta eru sem við horfum til þá er það svo að einungis 1% námsmannanna okkar tekur námslán núna í dag sem eru yfir 17,5 milljónum. Það fyrirkomulag sem við horfum á núna, 15 milljónir í lán og síðan næstu 3 milljónir í styrki, nær til þess að gera yfir allan nemendahópinn. Þá koma auðvitað upp umræður, eðlilega. Menn fara í mjög dýra háskóla, einkum í Bandaríkjunum og Bretlandi líka — ef ég man rétt er hv. þingmaður menntaður í Bretlandi eins og ég (ÁPÁ: … ekki þar.)— ekki þar, þar eru góðir skólar. En ég hef haft þá skoðun að þegar menn fara í bestu bandarísku háskólana, einkaskólana, borga þar auðvitað heilmikil skólagjöld og við lánum fyrir því og inn í slíkt nám, þá finnst mér alveg eðlilegt að fólk sem kemur í gegnum það menntakerfi sem hefur miklu meira aflahæfi en flestir allir aðrir, mér finnst það ekkert ósanngjarnt eða rangt, ég held að það muni ekkert stöðva fólk í því að leita sér að slíku námi, að menn borgi eitthvað til baka. Á sama tíma eru opnir skólar á Norðurlöndunum, á Íslandi, í Evrópu og víðar þar sem eru mun lægri skólagjöld eða jafnvel ekki skólagjöld, sem eru mjög góðar menntastofnanir og veita alveg frábæra menntun. Þannig að ég held að þessir möguleikar séu allir opnir.

Ég tel svo vera að með því fyrirkomulagi sem við erum að leggja upp með hér sé með engum hætti verið að draga úr jafnrétti til náms. En við erum vissulega að breyta því hvernig styrknum er skipt. Þá erum við m.a. að horfa á það að ýmsar stéttir sem núna fá mjög lítinn styrk frá okkur, sem eru margar af þeim stéttum sem við ræðum oft um hvað varðar kaup og kjör og stöðu þeirra hér, (Forseti hringir.) taka lítið námslán en greiða til baka mjög hátt hlutfall. Við erum að segja: Við viljum að þið fáið líka styrk.[18:12]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kemur ekki að tómum kofanum hjá mér þegar kemur að námslánum því að ég hef tekið allar tegundir lána sem í boði hafa verið. Ég hef sem sagt tekið skólagjaldalán, framfærslulán, ég hef tekið barnalán, ég hef tekið makalán og lánasjóðurinn gerði mér kleift að öðlast frábæra menntun. Það er þess vegna sem ég held að skipti mjög miklu máli að halda mjög þétt utan um þetta fjöregg, þetta hefur skipt okkur miklu máli.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra þegar hann segir að einhvers staðar þurfi að setja mörkin. Ég hef talað lengi fyrir því að alveg væru rök fyrir því að gera einhvern greinarmun þannig að menn gætu ekki safnað lánum endalaust sem engin leið væri að borga til baka. Ég tek hann trúanlegan þegar hann segir að það séu sirka 99% sem rúmist innan þessara marka. Auðvitað er það þannig að það eru ekki endilega rök fyrir því að námslánakerfið fullnægi öllu algjörlega til fulls. Ég get alveg keypt þau rök að við ákveðnar aðstæður í dýrustu skólum þegar aðrir kostir jafn góðir eru annars staðar, þá séu alveg efnisrök fyrir því að menn leggi af mörkum á móti.

Ég vil undirstrika mikilvægi þess að fólk með alls konar bakgrunn og alls konar tækifæri og alls konar aðstæður í lífinu eigi að geta sótt í bestu skóla heims. Það er mjög mikilvægur þáttur þessa kerfis. Það er það sem þetta kerfi gaf mér og er mjög mikilvæg forsenda þess að við búum við hinn margháttaða samfélagslega ávinning af fjölbreytni í námsókn og fjölbreytni í bakgrunni fólks.[18:14]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og ekki síst það sem hann nefndi þar um mikilvægi þess að skoða hvort ekki væri unnt að taka upp samtímagreiðslur til námsmanna. Það er vissulega rétt að það hefur verið talin ansi dýr einskiptisaðgerð að skipta úr því yfirdráttarkerfi sem er núna fyrir hendi og er ekki ætlunin að breyta, það hins vegar mundi skipta mjög miklu máli, held ég, fyrir námsmenn að komast út úr þessu samspili við bankana. Ég tek því mjög undir þau sjónarmið.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um er sú staða sem hann fór yfir og lýtur að endurgreiðslubyrðinni, bæði vegna hærra vaxtastigs og afnáms tekjutengingar. Ég hef ekki náð að fara yfir þá greiningu sem hæstv. ráðherra vísaði til í svari við andsvari mínu fyrr í dag um hvernig þetta komi út fyrir ólíka hópa námsmanna. Það liggur fyrir að þetta kemur verr út fyrir einhverja hópa og þarf auðvitað að skoða sérstaklega hvernig þetta kemur út fyrir barnafólk, sem oft er með hærri lán en ella og þarf að mæta meiri útgjöldum en aðrir vegna þess að það er barnafólk. Það sem væri mjög mikilvægt að skoða, og það er það sem mig langar að orða við hv. þingmann, er samspilið við stefnu þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að skerðingu barnabóta og vaxtabóta og nýkynntum hugmyndum um að séreignarsparnaður sé nýttur til þess að hjálpa ungu fólki að öðlast húsnæði, séreignarsparnaður sem væntanlega er mestur hjá þeim sem hæstar tekjurnar hafa. Þá fer maður að spyrja sig: Hver eru heildaráhrifin af öllum þessum aðgerðum á ungt barnafólk sem er ekki í tekjuhæstu hópunum á Íslandi? Erum við að horfa á það að fólk komi verr út úr séreignarsparnaðarleiðinni sem ríkisstjórnin kynnti, verr út úr breytingum á námslánakerfinu og verr út úr þeim skerðingum á vaxta- og barnabótum sem hér hafa verið á undanförnum missirum?[18:17]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn var svo efnisrík að ég þyrfti heila ræðu til að svara henni til fulls. Þetta er nokkurt umhugsunarefni því að ef ég skil aðferðafræðina í nýju frumvarpi rétt er gert ráð fyrir að lán fari upp í fulla framfærslu, það verði lánað til fullrar framfærslu, en að bætur telji með upp í það þak. Vissulega verður lánsfjárhæðin minni. Sú staða sem er í dag er ekki heldur alveg að fullu æskileg, þ.e. að til viðbótar við lán komi bætur að öllu leyti, og getur líka valdið því að það verði beinlínis ákjósanlegt að vera í námi og fólk upplifi ákveðið sjokk við að fara af námslánum. Þarna þarf að finna skynsamlegt jafnvægi. En eins og ég sé þetta munu bæturnar telja með upp í framfærsluna.

Það er alveg gefið mál, og ég þekki nokkur dæmi þess, að fólk hefur fengið greiðslumat til kaupa á íbúðum á undanförnum árum miðað við tilteknar forsendur í vaxtabótakerfi sem svo hafi ekki staðist. Þegar ríkisstjórnin stærir sig af því að vaxtabætur lækki þá er það ekki vegna leiðréttingarinnar, það er vegna hækkandi húsnæðisverðs, vegna þess að fólk fær kauphækkanir sem allir aðrir eru að fá og viðmiðunarfjárhæðir hafa ekki verið verðbættar.

Ef þetta bætist við hef ég af því allnokkrar áhyggjur. Mér finnst svolítið verið að einkavæða félagslega aðstoð ef það er orðið þannig að leiðin til þess að fyrstu íbúðarkaupendur t.d. fái fullnægjandi stuðning sé sú að þeir borgi fyrir hann sjálfir með séreignarsparnaði, sem er undanskilinn aðför og var t.d. gríðarleg stoð fyrir fólk (Forseti hringir.) í hruninu að eiga aðgang að, hef ég af því þungar áhyggjur.[18:19]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ástæða þess að ég tek þetta upp hér er að við horfum upp á margar mjög stórar breytingar, grundvallarbreytingar, í því hvernig staðið er að stuðningi hins opinbera við almenning í landinu þegar kemur að húsnæði, þegar kemur að fjölskyldumyndun og barnabótum og þegar kemur að námi. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum grundvallarbreytingar eins og hér eru undir að setja þær í samhengi við aðrar breytingar sem ýmist hafa verið gerðar eða er verið að leggja til að gera.

Það sem ég held að væri mjög áhugavert að gera í meðförum þingsins væri að óska eftir því að láta vinna greiningu á því hvernig allar þessar breytingar samanlagt hafa áhrif á ungt fólk á Íslandi, hóp sem við sjáum að margir telja að hafi verið afskiptur í stefnumótun stjórnvalda og greinilega á að koma til móts við núna á lokametrum þessa kjörtímabils en kannski ekki alveg með fyrirsjáanlegum hætti, þ.e. hvernig breytingarnar munu hafa áhrif á stöðu ungs fólks. Ég vitna þá t.d. til ungs fólks sem er að koma út úr háskóla, ætlar sér af leigumarkaði inn á eignamarkað, ætlar sér að nýta einhvern séreignarsparnað, sem verður væntanlega meiri eftir því sem tekjurnar eru hærri, á að fara að endurgreiða námslán ef það hefur þurft á því að halda að taka námslán, þá væntanlega ótekjutengt líka.

Hvernig munu þær breytingar saman hafa áhrif á stöðu ungs fólks á Íslandi? Ég held að þetta hljóti að vera umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn sem hér sitjum, því að við erum að reyna að sjá lengra en fram á næsta kjörtímabil og fram að næstu kosningum, sem eru skammt undan. Hvernig búum við í haginn fyrir þetta fólk? Og það sem við þurfum að fá greiningu á er sérstaklega hvernig þessar breytingar koma við barnafólk, endurgreiðslurnar ekki síst (Forseti hringir.) en líka auðvitað ólík áhrif milli tekjuhópa og ólík áhrif t.d. á karla og konur. Þarf ekki að fara fram slík greining áður en við ákveðum svona breytingar?[18:22]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er sammála því. Ég held að mikilvægt sé að það fari fram slík heildstæð greining. Ég hef verið svolítið hissa, ég verð að viðurkenna það, á viðhorfi ríkisstjórnarinnar gagnvart vaxtabótum og barnabótum og að menn segi það opið að markmiðið sé að það sé ekki nema fátækasta fólk sem eigi að fá þær. Upphaflegt markmið bæði vaxtabóta og barnabóta — þetta var hluti af kynslóðasáttmála — var að það átti að styðja við fólk þegar útgjöldin væru mikil vegna húsnæðisöflunar og vegna uppeldis barna, síðan greiddu menn þetta til baka í sköttum þegar fólk væri farið að borga ríflega skatta síðar á starfsævinni. Grundvallarhugmyndin var því alltaf að þetta færi upp drýgsta hluta tekjustigans. Svo alltaf þegar hefur á bjátað og þurft að spara í ríkisfjármálum settu menn einhverjar hömlur en síðan hefur alltaf verið markmið að hækka þetta aftur. Nú eru hins vegar góðæristímar og við erum með ríkisstjórn sem setur að markmiði að lækka þetta og segir einfaldlega: Markmið okkar er að enginn sé á barnabótum og vaxtabótum nema hann sé bláfátækur. Það er grundvallarbreyting. Það mun hafa mikil áhrif og þess vegna held ég að það þurfi einhvers konar, eins og hv. þingmaður stingur eiginlega upp á, ákveðna lífskjaraanalýsu. Ef við gefum okkur að skerðingarmörk barnabóta og vaxtabóta verði eins stíf og þau eru núna, hvaða framtíð bíður þá t.d. leikskólakennara eða grunnskólakennara sem eru á þeim launum að þeir rétt skríða yfir skerðingarmörkin og fá þá skertar eða litlar barnabætur eða vaxtabætur, borga með eigin séreignarsparnaði fyrir lækkun húsnæðislána og eiga engan varasjóð í formi séreignarsparnaðar í næstu kreppu, því að það vitum við nú á Íslandi að það kemur alltaf kreppa? Það var mjög athyglisvert að sjá hvað séreignarsparnaðurinn nýttist vel í kreppunni síðast. Ég held að þetta sé heildstæð analýsa sem væri gott að færi hér fram.[18:24]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í mjög fínar og málefnalegar umræður. Við erum að ræða nokkuð stórt og mikilvægt mál í menntakerfi okkar sem snýr að því að aðstoða og jafna tækifæri fólks, ekki bara ungs fólks, heldur jafna tækifæri fólks til náms. Mig langar til að fagna í heild þessu frumvarpi sem við erum að taka til meðferðar og skoðunar. Ég fagna líka uppsetningu og uppbyggingu á frumvarpinu og hvernig hæstv. menntamálaráðherra setur það fram. Þá vil ég sérstaklega nefna að markmiðið er að bæta námsframvindu sem kemur ríkinu, samfélaginu og einstaklingunum til góða. Svo er verið að auka gegnsæi í þessu kerfi og það er m.a. það sem námsmenn hafa kallað eftir.

Ég er mjög ánægður að sjá að hér sé verið að greina í sundur styrk annars vegar og lán hins vegar en þegar það er gert verður að sjálfsögðu lánið öðrum megin en ekki hinum megin og þess vegna hækkar lánahlutinn. Mig langar að nefna líka tekjutenginguna sem hefur talsvert verið rædd í dag. Mér sýnist eftir að hafa lesið þetta frumvarp að það sé jákvætt skref. Ég er þannig gerður að mér finnst að það sem maður fær lánað eigi maður að greiða til baka. Eins og hitt kerfið var gerðist það ekki. Mér finnst þetta alla vega jákvætt skref í þá áttina að það sem maður fær lánað greiðir maður til baka, því að í upphafi skyldi endinn skoða. Mér finnst mjög rökrétt að það eigi að losa sig við skuldir áður en maður fer á ellilífeyrisaldur.

Það er fleira sem ég vil nefna. Mér finnst líka gríðarlega jákvætt að inn í frumvarpið eru sett tilfinningaleg eða persónuleg hjálp eða naglar þannig að hægt er að aðstoða fólk þegar eitthvað kemur upp í lífi þess sem kallar á breytingar, eins og þegar fólk lendir í fjárhagserfiðleikum, er að kaupa sína fyrstu eign eða jafnvel að stækka við sig. Ég held að við í þingheimi og í menntamálanefnd ættum að huga að því hvort það séu fleiri naglar sem við þyrftum að negla þarna inn í til að aðstoða fólk við að lenda ekki í vandræðum með að greiða upp lán sín.

Ég fagna líka þeirri viðleitni að við séum að reyna að auka aðgang og hjálpa fólki að fara í frumgreinanám, gera iðngreinar lánshæfar og styrkhæfar og auka þar af leiðandi þær greinar en á síðustu árum hefur mikið verið kallað eftir því að við útskrifum fleiri nemendur þar.

Svo ætla ég að nýta restina af tímanum í tvennt sem mér finnst við þurfa að huga betur að í frumvarpinu. Ég ætla að byrja á byggðavinklinum. Ég er með mér til stuðnings umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem kemur með mjög gagnlegar ábendingar og tillögur frá Noregi þar sem veitt er aukin námsaðstoð til þeirra sem búa úti á landi. Við vitum að þeir sem koma utan af landi eiga ekki möguleika á að vera í foreldrahúsum og þar af leiðandi verður dýrara fyrir þá að stunda nám, sér í lagi í bænum.

Síðan leggur sambandið áherslu á að hvetja það fólk sem stundar nám, sem í flestum tilvikum á Íslandi er í Reykjavík, til að fara til baka á heimaslóðir eða annað með þekkingu sína. Sambandið nefnir hér 10% niðurfellingu á námsláni. Í Noregi er það að hámarki 25.000 kr. norskar. Það er meira sem býr þarna að baki en bara að aðstoða námsmanninn og hvetja hann til að flytjast búferlum og fara í nám, t.d. í Reykjavík, og fara síðan aftur til baka. Það er meira sem er á bak við þessa umsögn hjá sambandinu, það er líka það að svona þekkingargrunnur getur verið nærsamfélaginu úti í hinum dreifðari byggðum gríðarlega nauðsynlegur til að ákveðin starfsemi og fjölbreytt atvinnustarfsemi geti þrifist þar. Mér þykir mjög áhugavert að nefndin geti skoðað einhverjar tillögur í þessa átt til að hvetja þá sem koma að hinum dreifðari byggðum, hvort sem það er í fjarnámi eða að koma í staðarnám og síðan fara með þekkinguna til baka.

Síðasti punkturinn sem ég ætla að fjalla um er endurgreiðslan á námslánunum. Ég hef af því ekki bara smááhyggjur, ég hef eiginlega af því virkilegar áhyggjur og ég vona að þeim áhyggjum verði eytt, annaðhvort með rökum eða í umfjöllun málsins eða með breytingu, það á eftir að koma í ljós. Áhyggjur mínar snúa að því að endurgreiðslan á námslánum er að jafnaði, eða á að vera, 40 ár, jafnar greiðslur og verðtryggt. Þetta heitir í námslánakerfi fyrir íbúðalán Íslandslán og eru lán sem ég held að allir í dag séu sammála um að séu ekki góð. Þau eru ekki góð að því leytinu að þau eru mjög ógagnsæ, námsmenn hafa ekki mikið tækifæri til að vita hvernig námslánin eru, hvernig greiðslur muni þróast yfir greiðsluferilinn. Þetta er meira að segja svo flókið að hagfræðingar Seðlabankans geta ekki sagt okkur með nægilega mikilli vissu hvernig verðbólgan muni þróast. Ég mun leggja alveg gríðarlega áherslu á það í vinnu nefndarinnar að skoða hvort þetta sé það eina rétta eða hvort við eigum að gera breytingar á því.

Við vitum að hámarkslánsfjárhæð sem hægt er að taka miðað við þetta frumvarp er 15 milljónir. Eftir alla vinnuna við skuldaleiðréttinguna komumst við að því að margt fólk var með verðtryggð húsnæðislán sem voru þó ekki nema upp að 15 milljónum, 12–15 milljónir, og fólk lenti í vandræðum með þau. Ég ætla að vera alveg viss þegar ég samþykki þessi frumvörp, og vonandi gerist það áður en við menntamálaráðherra hverfum á aðrar brautir fyrir kosningar, að við náum að samþykkja þetta. Ég vil vera alveg viss um að við séum ekki að búa til kerfi sem gerir það að verkum að ungt fólk eða námsmenn lenda í vandræðum með að greiða þetta upp eftir 10 ár, 20 ár, 30 ár. Gallinn við verðtrygginguna er að við borgum ekki verðtrygginguna. Verðtryggingin er í rauninni ekki vextir, hún er uppfærsla á höfuðstólnum. Þegar við uppfærum höfuðstólinn í 40 ár erum við komin fram yfir þann tíma sem við erum með hæstar tekjurnar. Flestir eru með hæstar tekjur um fimmtugt til 55 ára og síðan fara tekjur að minnka aftur. Raungildi á láninu er enn það sama, alla vega miðað við jafnar greiðslur. Þá mundi ég halda að eftir 55 ára til 67 ára muni þyngslin af þessu aukast. Það er léttast fram að 55 ára, svo fer það að þyngjast.

Mig langar einnig að nefna hvort rétt sé að hnykkja á því, af því að hér hefur verið talað um, sem ég er alveg sammála, að við eigum að reyna að hafa þetta létt í upphafi og fólk eigi að ráða við þetta í upphafi, hugsanlega eitthvað sem maður skoðar sem er svipað eftir tekjutengingunni, að þegar fólk hefur meira á milli handanna geti það lagt inn á lánið án þess að greiða uppgreiðslugjald. Ég segi þetta með fyrirvara, ég á eftir að skoða hvernig það mun koma við sjóðinn, en að það sé uppgreiðslugjald líkt og í verðtryggðum húsnæðislánum þannig að þegar fólk hefur meira á milli handanna sé alla vega ekki einhver neikvæður hvati til þess að greiða það upp eða minnka byrðina af því.

Virðulegur forseti. Þetta hafa verið helstu vangaveltur mínar. Í heildina er ég sammála þessu frumvarpi og mér finnst það mjög gott. Ég vona að þingheimur sjái sér fært að klára málið því að svo sannarlega er þetta bót fyrir flesta nemendur og námssamfélagið kallar eftir þessu. Ef ég skildi umræðuna á undan rétt var verið að velta fyrir sér hvernig annars vegar styrkja- og námslánakerfið kæmi á móti barnabótum og vaxtabótum og því um líkt. Ég hef þá misskilið frumvarpið hrapallega og líka góðar umsagnir frá stúdentaráði og öðrum á mínum aldri sem hafa skrifað um þetta frumvarp, um að barnabætur og vaxtabætur skerði ekki námslán eða það sem er verið að lána eða styrkja í frumvarpinu.

Mig langar að benda á góða úttekt eða góða samantekt hjá strák sem heitir Kristófer Már sem var birt á síðunni romur.is í dag. Þar er talsvert ítarlega listað upp eftir stöðu. Hér er m.a. námsmaður í foreldrahúsi, einhleypur í eigin húsi og svo í sambúð, skráðri eða ekki og með börnum. Það er mjög áhugavert að sjá hver niðurstaðan er fyrir hvern hóp fyrir sig. Það er alls ekki verst fyrir þá sem eiga börn eða eru í skráðri sambúð þannig að ég fagna þessu frumvarpi og hlakka til að hlýða á frekari góðar umræður hér í dag.[18:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og vil aðeins koma inn á þá umræðu sem hann hóf máls á um hin svokölluðu Íslandslán eða 40 ára lán. Í núgildandi námslánakerfi eru mjög löng lán og þau eru verðtryggð. Þau fylgja mönnum reyndar alveg til grafar ef því er að skipta. Ég fagna því ef hægt er að koma auga á betri leið en lagt er upp með með þessu lánsformi sem kemur betur út fyrir lántakendur, ef það er hægt þá hljótum við að sjálfsögðu að vera opin fyrir því og algjörlega eðlilegt að það sé rætt.

Ég vil þó nefna að það er hægt að nálgast þetta þannig að menn geta stillt af lánstímann sjálfir ef þeir vilja borga hraðar upp. Þetta eru vissulega verðtryggð lán en við þekkjum það úr íslensku efnahagsumhverfi að vaxtaprósentan á óverðtryggðum lánum er þannig að ég mundi hafa áhyggjur af því að það væri nægilegt jafnrétti til náms ef við værum með þetta í óverðtryggðu umhverfi.

Síðan vil ég nefna það sem hv. þingmaður velti fyrir sér varðandi lánsfjárhæðina. Það er þó þannig að ef við skoðum hversu stór hluti námsmanna er með lán undir 10 milljónum þá eru það 93% námsmanna og undir 15 milljónum, það eru einungis 2% þar fyrir ofan, 98% eru undir 15 milljónum. Síðan kemur styrkurinn, reyndar lánsmöguleikarnir núna eða styrkmöguleikinn í það heila er þá 15 milljóna lán og 3 milljónir í styrk, 18 milljónir, þannig að meginstabbi námsmannanna er á bilinu 0–5 milljónir. Það sem við erum að gera með þessu fyrirkomulagi er að dreifa að mínu mati með sanngjarnari hætti styrk til aðila sem hafa fengið mjög lítinn styrk hingað til, sem eru reyndar einmitt þær stéttir sem við viljum gjarnan (Forseti hringir.) styðja meira við og gerum það í gegnum námslánakerfið með þessum hætti. Ég held að það sé ágætt.[18:40]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir andsvarið. Eins mikið og ég er á móti verðtryggðum lánum þá ákvað ég einmitt að slá það ekki út af borðinu og gera lítið úr þeirri vinnu sem búið er að leggja í þetta frumvarp þegar ekki er víst að neitt betra finnist. Mig langaði hins vegar að nefna þessar vangaveltur mínar. Ég hef líka áhyggjur af því að ef við ætlum að fara í óverðtryggt kerfi þar sem væru kannski 3–3,5% hærri vextir, hvort við værum á verri braut þar.

Svo er ég sammála hæstv. ráðherra og ég sé í frumvarpinu að flestir eru með á bilinu 0–5 milljónir í námslán. Nú þegar styrkurinn nær upp í rúmlega helminginn af því þá sýnist mér að það yrði, alla vega fyrir mig og marga í kringum mig, hvatning til þess að vera í litlu hlutastarfi með, sleppa því að taka námslán upp á svo lága upphæð, halda þá annaðhvort að sér höndum í þann tíma sem maður er í námi, því að það er ekki óeðlilegt, og/eða taka að sér litla aukavinnu sé maður í þannig námi að það sé mögulegt. Ég held að það gæti verið meiri hvatning en við áttum okkur á í fyrstu að hafa námsstyrk sem gæti brúað bilið fyrir stóran hóp ef ekki stærstan hóp.[18:42]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, styrkirnir eru ótekjutengdir þannig að með því að vinna með þeim, og það er auðvitað mikill fjöldi nemenda sem gerir það, má brúa bilið. Enn og aftur, af 25.000 nemendum sem eru í lánshæfu námi taka rétt rúmlega 10.000 lán.

Ég held að þetta verði til mikilla bóta og geti haft veruleg áhrif. Ég vil líka minna á annað, það hefur lítið farið fyrir því í umræðunni, en við erum að opna með þessu frumvarpi á það að þeir sem eru í iðn- og verknámi og hafa til þess aldur geti fengið og muni fá þennan styrk ef þeir standast námskröfur. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það séu verulegar úrbætur og stórt skref sem við værum að taka þar.

Síðan vil ég segja hitt að mér finnst áhugavert sem þingmaðurinn nefndi og vil árétta að þegar við horfum á samspilið, þegar við horfum til barnabóta og meðlaga, styrksins og síðan þess að tekin séu námslán sem þá fari með viðkomandi námsmann upp í framfærsluviðmiðið sem liggur fyrir, t.d. fyrir einstætt foreldri með eitt eða tvö börn, er niðurstaðan sú, ef horft er á það mark, framfærsluviðmiðið, kemur þetta kerfi betur út. Auðvitað er hægt að taka meiri lán og fara umfram það og alveg upp í topp, það er þá önnur staða sem myndast, en ef horft er á (Forseti hringir.) þetta hlýtur það auðvitað að vera mikið gleðiefni að þessir einstaklingar komi betur út hvað varðar endurgreiðslurnar.[18:43]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nefndi að styrkurinn væri ótekjutengdur. Ég hef heyrt í kringum mig að núverandi kerfi hafi verið letjandi til að finna sér öflugt sumarstarf og vinna mikla vinnu, þéna pening þannig að menn geti nýtt hann yfir veturinn. Núverandi kerfi hefur verið letjandi þannig að hugsanlega eru áhrifin stærri en við sjáum í fyrstu. Ég vona það, ég hef alla vega trú á fólkinu í kringum okkur.

Ég tek undir það sem ráðherrann segir um iðn- og verknámið, sjálfur er ég iðnmenntaður. Það er gríðarleg hjálp í því og hvatning að iðnnemar geti komist inn í þetta kerfi líka.[18:44]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, það er ánægjulegt að sjá stjórnarliða taka þátt. Mér finnst það mikilvægt. Ég held að margt í þessu frumvarpi sé ágætt en svo hafa komið athugasemdir við ýmislegt. Eitt af því er þessir styrkir sem fara jafnt til allra. Í fyrstu fannst mér það hljóma nokkuð vel en ef það er í raun á kostnað þeirra sem raunverulega neyðast til að taka lán vegna þess að þeir munu þá borga hærri vexti fóru að renna á mig tvær grímur. Það er alltaf spurning hvort við eigum að beina ríkisstyrkjum til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda. Þá er ég að hugsa m.a. til skuldaniðurfellingarinnar sem var aðgerð sem var mér mjög á móti skapi. Það eru mjög mismunandi aðstæður hjá námsmönnum. Eins og bent hefur verið á býr fólk úti á landi en einnig fer fólk t.d. til Akureyrar, í Háskólann á Akureyri, í nám og þarf að leigja og býr þar af leiðandi við allt aðrar aðstæður en nemar sem eru í heimahúsi og lifa á foreldrunum þannig séð. Þeir eru auðvitað fjölmargir.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi eitthvað spáð í það að hægt væri að nýta þennan styrk á annan hátt, t.d. til að ganga harðar fram í því að niðurgreiða húsnæðiskostnað fyrir nema. Við erum í rauninni ekki með jafnræði þegar sumir þurfa að sækja nám fjarri heimili og við erum jafnvel í sumum tilfellum að tala um nema sem hafa verið í heimavist og fjölskyldan hefur haft kostnað af því. Er þingmaðurinn sáttur við það að við ætlum í raun að styrkja alla óháð því hvernig aðstæður þeirra eru, hvort þeir búa í heimahúsi eða leigja, um sömu upphæð eða sér hann fyrir sér einhvern veginn að stokka þetta aðeins upp og jafnvel beina þessum stuðningi þá sérstaklega í húsaleigubætur til nema þannig að húsaleigukostnaður verði aldrei íþyngjandi fyrir þá sem stunda háskólanám?[18:47]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hugleiðingarnar. Svar mitt við þessu er: Nei, ég held að þetta sé mjög gott kerfi sem verið er að hugsa hér upp. Endurgreiðslurnar hjá allt að 85% nemendum munu lækka við þetta þannig að við erum að ná þarna til 85% nemenda sem munu þá borga minna í lán eða ekki. Síðan veit ég ekki hvernig það muni virka í praktík að pikka út þá sem þurfa á því að halda og þurfa ekki á því að halda. Við erum með misdýrar skólabækur, við erum misnægjusöm þannig að ef við pikkum einhvern út sem ríkið telur að þurfi ekki á þessu að halda þarf hann kannski bara að fara að leita sér að vinnu í staðinn. Ég held að það sé mjög erfitt.

Eitt af því sem mér finnst svo gott, það góða við þetta kerfi er að það er gegnsætt, það er gegnsærra en það sem er núna. Mín skoðun er sú að við ættum ekki að leitast við það að flækja það sem við vildum gera einfalt. Það sem námsmenn vildu að væri einfalt væri gegnsætt og jafnræði væri, það væri sama fyrir alla. Frekar ættum við að — núna setjum við líklega um 2,3 milljarða auka í kerfið ef 60% af þeim sem voru áður á námslánum fari á styrk, hugsanlega eigum við að setja meiri pening eða þá aðrar aðgerðir til að ná til þessa hóps sem hv. þingmaður nefndi.[18:49]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ef við hefðum ótakmarkað fjármagn væri þessi hugmynd, að styrkja alla um ákveðna upphæð, verulega góð. En við höfum ekki ótakmarkað fjármagn. Þess vegna erum við í rauninni að hækka á móti lán til þeirra sem raunverulega þurfa að taka lán, t.d. fólk sem fer í nám eftir að hafa eignast börn eða aðstæður eru bara þannig að það þurfi að taka lán. Það er spurning hvort það sé réttlætanlegt að hækka kostnað hjá því fólki. Þegar ég segi: Hvernig ætlum við að pikka út þá sem þurfa og þurfa ekki á að halda? er alveg augljóst að nemar sem eru á leigumarkaði þurfa á aðstoð að halda. Það er í mínum huga alveg kristaltært. Það er í rauninni ekki erfitt að pikka þá út og þess vegna spyr ég: Væri ekki góð hugmynd að niðurgreiða eða styðja miklu betur við þá háskólanema sem þurfa að vera á leigumarkaði á meðan þeir stunda sitt nám?

Ég tek líka fram að það getur verið hið besta mál (Forseti hringir.) fyrir Reykvíkinga að fara norður til Akureyrar og leigja þar og stunda nám og það er líka bara eitthvað sem víkkar sjóndeildarhringinn þannig að það ætti líka að vera hvati til þess að fara að heiman og stunda nám úti á landi eða í útlöndum eða hvar sem er.[18:50]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði áðan, þetta gagnast 85% betur. Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega börn bendi ég henni á að skoða grein á romur.is sem birtist í morgun. Þar er komið inn á þá einstaklinga eða það sambúðarfólk sem er með börn á framfæri og það fólk kemur ekki verr út úr því sem fólk þarf að hafa, þannig að kerfið er að spila saman. Ég held að eftir því sem umræðunni vindur fram hérna eigi meira eftir að koma upp og skýrast betur. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu.[18:52]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil taka undir það sem var sagt hér áðan, ég gleðst yfir því að þingmaður úr stjórnarliðinu taki þátt í umræðum því að ég held að það sé mikilvægt, ekki bara vegna þess að það sé gaman að fá þá í umræðuna heldur einmitt vegna þess að við þurfum að fá breidd inn í þessa umræðu og þess vegna tel ég mikilvægt að fá fram þau sjónarmið sem hv. þingmaður rakti í ágætri ræðu sinni. Hv. þingmaður sagði að hann teldi að það sem maður fái lánað eigi maður að greiða til baka. Ég er því alveg sammála, en ég held að við getum velt fyrir okkur hvernig leiðin er, þ.e. hvernig það gerist og hvort aðferðin sem við notum til þess að greiða til baka sé sanngjörn. Ég set verulega stór spurningarmerki við þetta þar sem endurgreiðslurnar verða ekki tekjutengdar eins og er í núverandi kerfi.

Það sem ég hef m.a. áhyggjur af þar er að þetta muni hafa ólík áhrif á kynin og að þarna muni halla á konur. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að það sé mikilvægt að fá góðar greiningar á því hvort þær áhyggjur séu á rökum reistar, að kerfið eins og það er sett upp í þessu frumvarpi muni þegar upp er staðið gera stöðu kvenna (Forseti hringir.) verri og hvort ekki verði þá að taka sérstaklega á því og breyta einhverju.[18:54]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka Steinunni Þóru Árnadóttur þessar vangaveltur. Mitt svar er: Jú, að sjálfsögðu, ef við sjáum augljóslega að einhver hópur fer illa út úr þessum tillögum og þessu frumvarpi þurfum við að laga það. Hins vegar hef ég aðeins rýnt í tillögur stúdentaráðs og ef ég man rétt er meiri hluti í því ráði konur og niðurstöðurnar eru ekki á þá leið að það komi konum illa. Hugsanlega þurfum við að ræða það eitthvað frekar og rýna það meira en eftir að hafa rýnt það þá sló alla vega á þær áhyggjur. Auðvitað ber að hafa áhyggjur af þessu og skoða það því að ég held að um 70% af nemendum, alla vega í Háskóla Íslands, séu konur. Ef við skoðum þann hóp sérstaklega erum við með rosalega stór hóp undir, þannig að ég held að það sé mjög gott að eiga umræðu um þetta.

Ég læt staðar numið hér.[18:56]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég hef ekki haft tækifæri enn þá til að kynna mér þessa útreikninga frá stúdentum. Það er sjálfsagt að leggjast yfir það og sjá hvaða forsendur menn gefa sér en í mínum huga rímar þetta mjög illa, annars vegar þar sem á að falla frá eða hætta að tekjutengja greiðslur þar sem við vitum að það er launamunur kynjanna þannig að hlutfallslega ættu konur þá að þurfa að borga meira til baka, og að konur fara síðar í nám á lífsleiðinni eins og hreinlega kemur fram á bls. 40, minnir mig að sé, í þessum fylgitexta og að greiðslubyrðin verður þyngri eftir því sem fólk fer seinna í nám. Það þarf að skoða þetta alveg gríðarlega vel og ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður sé til í að leggjast vel yfir þessar tölur. En þar með ætla ég alls ekki að segja að stúdentaráð (Forseti hringir.) hafi á einhvern hátt rangt fyrir sér, ég hef einfaldlega ekki getað kynnt mér útreikninga þess, en mér finnst eins og að hérna hljóti eitthvað að vanta inn í.[18:57]
Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er nákvæmlega það sem mér finnst að við eigum að gera, skoða allar tölur og fara yfir alla hópa og taka allar umsagnir og skoða þær. Hvað varðar síðan endurgreiðslur sem fara hækkandi þá kemur aftur inn á það prinsipp, alla vega hjá mér, að maður eigi að borga til baka það sem maður fær lánað. Ef maður á að vera búinn að borga til baka fyrir 67 ára segir það sig í rauninni sjálft. Ég er hlynntur því að þegar maður byrjar seint í námi hafi maður færri ár til að greiða lánið niður.

Síðan varðandi verðtryggða kerfið. Það er ágætt að því leytinu til að maður borgar raunafborganir. Maður er alltaf með sömu afborgun miðað við hagkerfið á hverjum tíma. Kannski er það ekki slæmt, kannski eigum við bara eftir að taka dýpri umræðu um það í nefndinni.[18:58]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Eitt af því sem mér finnst að hver þjóð ætti að leggja mikinn metnað í er jafnrétti til náms og það er einn af hornsteinum hvers samfélags að ég tel. Það hefur ekki alltaf verið hér á Íslandi en hefur kannski verið að þokast hægt og hægt í rétta átt. Þegar ég fór að hugsa um þetta mál, en þar sem ég er ekki í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar hef ég kannski ekki farið algjörlega ofan í botn á frumvarpinu en fylgst með umræðunni og skoðað það í grófum dráttum, þá kom upp í hugann frændi minn, Ólafur Þ. Þórðarson heitinn, fyrrverandi alþingismaður, sem var mikill skólamaður og skólastjóri og sat á þingi í þó nokkuð mörg ár. Það er bautasteinn á Stað í Súgandafirði þar sem hann er fæddur og ólst upp. Á þann bautastein hefur verið settur hluti úr ræðu sem hann flutti á Alþingi á árum áður. Þar segir, með leyfi forseta:

„Dýrasta lausnin í menntakerfi nokkurrar þjóðar er að taka svo vitlausa ákvörðun að það eigi að fara eftir efnum og ástæðum hverjir halda áfram skólanámi.“

Ég tek svoleiðis hjartanlega undir þessi orð og geri þau að mínum, því að það er mjög hættulegt ef fólki er mismunað eftir búsetu og eftir tekjum en ekki horft fyrst og fremst til þess að allir sitji við sama borð og geti nýtt sér hæfileika sína á þeim vettvangi þar sem þeir nýtast best.

Margt sem kemur fram í þessu frumvarpi er ágætt en annað finnst mér vera því hættulegra gagnvart því að það sé í raun jafnrétti til náms. Ég tel mjög brýnt að fram fari ítarleg greining á því hvernig frumvarpið mætir þeim námsmönnum sem þar eiga í hlut eftir tekjum, aldri, kyni, búsetu og svo mætti áfram telja. Ég hef lengi haft áhyggjur af því að smátt og smátt sé verið að draga úr möguleikum fólks á landsbyggðinni til að sækja sér svokallaða æðri menntun eða fara í lengra nám. Það fæli frá hversu dýrt það er og mikill kostnaður sem fylgi því og að fjölskyldur þurfi að rífa sig upp með rótum, þar með er verið að ýta undir brottflutning af landsbyggðinni. Við þekkjum það að foreldrar skoða oft stöðuna og meta það þegar börn þeirra færast nær þeim aldri að fara í háskólanám hvort þau eigi að styðja börn sín í langskólanám og flytja af landsbyggðinni þar sem er langt í að sækja háskólanám og flytja þá annaðhvort á höfuðborgarsvæðið og kannski í einhverjum tilfellum til Akureyrar þar sem háskólanám er einnig í boði. Þetta ætti ekki að vera svona. Það á ekki að vera þannig að fólk þurfi að rífa sig upp með rótum eingöngu vegna þess að það vill halda heimili fyrir, kannski ekki börn lengur heldur unga fólkið sitt þegar það fer í langskólanám til þess að auðvelda því að framfleyta sér á þessum tíma.

Hér er verið að bjóða upp á nýjar leiðir, að fá styrk. Það lítur kannski ágætlega út við fyrstu sýn en þegar við skoðum þetta allt í samhengi og sjáum að vextir á námslánum hækka þetta mikið þá hefur maður virkilegar áhyggjur af því hvernig þetta skiptist á milli þeirra sem þurfa á því að halda. Það er stór hópur sem þarf á meiri aðstoð að halda vegna mikils framfærslukostnaðar eins og fram hefur komið í umræðunni við það að flytja á höfuðborgarsvæðið og leigja sér húsnæði dýrum dómi. Það er ekki sjálfgefið að komast inn í hagstæðara húsnæði hjá Byggingarsjóði námsmanna eða á stúdentagarðana. Allt þetta gerir að verkum að það er stórmál. Ég er hrædd við að mál séu að þróast í átt að ákveðinni stéttaskiptingu gagnvart möguleikum til náms og ójöfnuði eftir búsetu fólks. Það er ekki gott veganesti ef við ætlum að leggja metnað okkar í það að allir, burt séð frá búsetu, tekjum og aðstæðum, geti nýtt hæfileika sína sem best og menntað sig eftir áhugasviði í framhaldinu.

Þá er það líka endurgreiðslan, að hafa hana ekki tekjutengda, að greiðslubyrðin sé sú sama burt séð frá því hvaða tekjur menn hafa að námi loknu. Þarna finnst mér að þurfi að koma fram greining á frumvarpinu gagnvart þeim sem hafa lægri tekjur upp úr krafsinu eftir langt framhaldsnám eða háskólanám. Það hefur líka komið fram í umræðunni að oftar en ekki eru það konur sem eru á lægri launum að námi loknu. Þá er verið að auka greiðslubyrði þeirra. Þurfum við þá ekki að horfa til þess að við séum að leggja auknar byrðar á tekjulágt fólk, konur, utan af landi? Ég tengi þetta nú bara svona saman. Tekjulág kona utan af landi sem hefur lægri tekjur að námi loknu er ekki vel stödd miðað við það hvernig þetta frumvarp lítur út. Erum við að afsetja ákveðinn hóp í þjóðfélaginu? Þá er ekki horft til þess hvaða hæfileikum sá einstaklingur býr yfir til þess að gera þjóðfélaginu gagn með því að nýta hæfileika sína á sem bestan hátt og mennta sig til þess, heldur er verið að horfa í, að mér finnst, eitthvert excel-skjal sem hinn dæmigerði stúdent á að falla inn í. Hvernig er það excel-skjal? Það er stúdent sem býr á höfuðborgarsvæðinu og hefur möguleika á að vera í heimahúsi eins lengi og hann kýs og stunda háskólanám þaðan og fær síðan í meðgjöf þennan styrk upp á 65 þús. kr. á mánuði og hefur kannski sáralitla þörf á að taka námslán með þessum hærri vöxtum sem þarna er verið að bjóða upp á.

Eigum við að horfa til þess að þetta sé svona staðlað, að þetta henti akkúrat þessum dæmigerðu einstaklingum sem fara algjörlega beinu brautina og hafa möguleika á að búa stutt frá háskóla og í heimahúsi? Mér hugnast það ekki og ég óttast að það verði til þess að færri fari í nám eða að fólk geri það eftir sem áður en ráði illa við greiðslubyrðina í hverjum mánuði. Það hefur líka komið fram að fólk sem sækir nám á höfuðborgarsvæðið þarf auðvitað að framfleyta sér í dýru leiguhúsnæði og tilheyrandi. Þetta er stórmál fyrir fólk sem leggur virkilega mikið á sig til þess að sjá fyrir sér og sínum, því að oft er ungt fólkið komið með börn á þessum aldri.

Ég hef líka ákveðnar áhyggjur af því sem þarna kemur fram varðandi það að ef einhver hefur lent í því að það hefur þurft að afskrifa hjá honum lán þá sé enginn möguleiki á að fá lán aftur. Mér finnst að það þurfi ekki að vera þannig að ekki sé hægt að hafa einhverja glufu aftur inn í kerfið þó að ýmsar aðstæður hafi orðið til þess að fólk hafi lent í erfiðleikum sem hafa valdið því að afskrifa hefur þurft hjá því lán. Það geta verið svo fjöldamargar ástæður fyrir því að svo fer. Fólk sem hefur lent í því að missa húsið sitt út af einhverjum erfiðleikum hefur möguleika á að komast inn í bankakerfið síðar meir ef það uppfyllir greiðslumat og getur aftur reynt að koma undir sig fótunum. Það tel ég líka að þurfi að vera gagnvart þeim sem þarna eiga í hlut. Þó að vissulega þurfi að hafa ákveðið aðhald varðandi þessa hluti þá finnst mér ekki gott að það sé verið að loka algjörlega á þann möguleika að fá aftur lánafyrirgreiðslu.

Það kemur líka fram að námsaðstoð er takmörkuð við 50 ára aldur. Af hverju er það? Er ekki sagt að svo lengi læri sem lifi? Á þetta nútímaþjóðfélag ekki að vera þannig að fólk sitji við sama borð og fólk sé ekki hólfað niður eftir aldri og það geti byrjað í námi og fengið sambærilega aðstoð og býðst fyrir yngra fólk? Ég sé ekki af hverju þessi aðgreining ætti að vera og hvaða tilgangi hún þjónar, því að það er ekki sjálfgefið að fólk sem er orðið 50 ára sé svo vel stætt að það þurfi ekki á stuðningi að halda ef það missir t.d. vinnuna og þarf að afla sér menntunar til þess að fá annars konar vinnu. Við þekkjum það að það er ekkert auðvelt fyrir fólk sem er orðið 50 ára að komast út á vinnumarkaðinn ef það hefur þurft frá að hverfa af einhverjum ástæðum, verið sagt upp vegna hagræðingar eða misst vinnuna af einhverjum öðrum orsökum. Fjöldinn allur af fólki 50 ára og eldri er í miklum erfiðleikum með að finna vinnu og vinnumarkaðurinn er bara þannig að hann hefur ekki endilega boðið þetta fólk velkomið. Það vill kannski mennta sig meira til þess að styrkja sig á vinnumarkaði en þarf á stuðningi að halda, en því býðst ekki stuðningur miðað við þetta frumvarp.

Ég ætla ekki að segja að frumvarpið sé alvont. Ég vona að það verði unnið vel áfram í nefndinni. En mér finnst það langt í frá vera nógu góð vegferð í framtíðina ef við höfum þann metnað að vilja jafnrétti til náms og við viljum mennta okkar fólk burt séð frá efnahag og búsetu.[19:14]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir ræðu hv. þingmanns og spyrja hana um námsmenn sem koma utan af landi, af því að ég heyrði að hv. þingmaður reifaði að það væru sér í lagi konur utan af landi, námsmenn utan af landi sem eru konur, sem nýja kerfið mundi mögulega ekki gagnast að öllu leyti. Þá langar mig að fá að heyra frá hv. þingmanni hvort hún gæti séð eitthvert annað kerfi sem mundi mögulega gagnast námsmönnum utan af landi betur. Eins og staðan er núna taka þeir námslán sem þurfa á því að halda og þeir sem ekki þurfa á námslánum að halda gera það ekki. Þarna virðist vera búið til ákveðið kerfi þar sem er bæði styrkur sem námsmenn geta fengið ef þeir klára ákveðið margar einingar á önn og svo lán. Ég hugsa að það sé möguleiki á því, eins og hv. þingmaður reifaði áðan, að stúdentar sem eiga heima á höfuðborgarsvæðinu taki síður lán. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það muni hafa fyrir stúdenta sem koma utan af landi, fyrir þá sem þurfa að flytjast búferlum til þess að geta stundað nám? Nú er t.d. enginn stór háskólakjarni á Vestfjörðum eða á Vesturlandi, reyndar Bifröst en ekki á Vestfjörðum sjálfum. Það er spurning hvað sé hægt að gera til þess að komast til móts við námsmenn sem þurfa að flytjast búferlum til að geta stundað nám, því að ef þetta á að vera félagslegur jöfnunarsjóður eins og hæstv. ráðherra vill meina þarf náttúrlega að taka tillit til þess, ekki satt?[19:16]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þurfa að skoða sérstaklega hvernig er hægt að styðja við fólk vegna húsnæðiskostnaðar sem fylgir því að flytja sig búferlum utan af landi hingað á höfuðborgarsvæðið. Oftar en ekki er það tímabundið. Auðvitað vonum við það sem viljum að landsbyggðin haldist sem sterkust í byggð að það fólk sem kemur hingað á höfuðborgarsvæðið hugsi það sem tímabundið meðan á námi stendur og hugsi sér að fara aftur heim eða út á land, hvort sem það er nákvæmlega á fæðingarstaðinn eða ekki, til þess að efla það svæði með menntun sinni og annað því um líkt. En það þarf að vera, finnst mér, eitthvað sem styrkir fólk í búsetu, því að það er mikið ójafnræði þarna á ferðinni. Ef við erum í raun að tala um að allir eigi að sitja við sama borð þá verðum við að koma á einhvern hátt sterkar að því að hafa búsetustyrki. Af hverju mátti ekki nýta þessar 65 þús. kr. í þeim tilgangi? Af hverju er verið að dreifa þeim flatt yfir burt séð frá því hvort fólk þurfi á því að halda, með fullri virðingu fyrir öllu unga fólkinu á höfuðborgarsvæðinu sem býr í heimahúsi og getur verið þar eins lengi og það vill? Þarf það endilega eitthvert tannfé upp á 65 þús. kr.? Þarf ríkið að koma með þann stuðning? Væri ekki þeim stuðningi betur varið í að stuðla að jafnrétti til náms og horfa á landið okkar sem eitt land og eina þjóð með sömu tækifæri?[19:18]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Núna langar mig að snúa mér að öðru. Það eru mögulegar styrkveitingar sem EES-ríkisborgarar munu eiga rétt á. Í Danmörku hefur þetta valdið svolitlu vandamáli. Ég er hérna með skýrslu frá uddannelses- og forskningsministeriet, eða mennta- og tryggingamálaráðuneytinu. Þar kemur bersýnilega í ljós að eftir að dómur féll í Evrópudómstólnum þess efnis að EES-ríkisborgarar ættu allir rétt á sömu ívilnunum, skattaívilnunum, ef þeir ynnu lágmarksvinnu upp á 10–12 tíma á viku, fjölgaði nemendum um 43% á árunum 2011–2015. Í skýrslunni segir líka að nemendur haldist áfram í Danmörku einfaldlega út af tekjumöguleikum. Það virðist því vera smásamspil milli tekjumöguleika og þess að vilja búa einhvers staðar. Þetta rímar náttúrlega svolítið við það sem við vorum að ræða áðan um landsbyggðina.

Það sem mig langar að velta fyrir mér með hv. þingmanni er það hvort Ísland þurfi að íhuga það hvort beinir styrkir séu til þess fallnir að gera Ísland meira aðlaðandi fyrir ríkisborgara Evrópska efnahagssvæðisins og hvort og hvernig ríkissjóður eigi að standa straum af því. Við sjáum að útgjöld danska ríkissjóðsins stóraukast þegar kemur að styrkjum, þótt styrkirnir í Danmörku séu töluvert ríflegri en hérna. Þá er spurningin hvort þetta sé nóg til þess að fólk vilji koma hingað til lands og hvort ríkissjóður muni mögulega geta staðið undir því.[19:20]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að velta þessu fyrir sér. Við erum aðilar að EES og eigum auðvitað að undirgangast það regluverk sem þar er. Reynsla er komin á þetta, eins og hv. þingmaður nefnir, annars staðar á Norðurlöndunum. Ég óttast ekki endilega að það komi hingað bylgja af fólki sem kemur fyrst og fremst út af þessum styrk og miklum tekjumöguleikum. Ég óttast ekki að það verði flóðbylgja í því sambandi. En mér finnst alveg eðlilegt að taka þennan möguleika inn í myndina varðandi kostnaðargreiningu á málinu sem slíku, þessu frumvarpi. Það á að sjálfsögðu að hafa alla varíanta þar inni.

Ég vil í lok máls míns nefna eitt sem ég nefndi ekki fyrr í ræðu minni og það er varðandi möguleika á að breyta námsláni í styrk, eins og hefur verið gert í Norður-Noregi. Mér finnst alveg vanta þá umræðu að skoða þann möguleika og hvata til þess að gera slíkt. Það ætti að vera alvöruhvati til þess að hvetja menntafólk úti um land til að fara til starfa og hægt að útfæra það hliðstætt því sem gert er í Norður-Noregi, þannig að möguleiki sé á að hluti af námsláninu falli niður og verði styrkur. Það ætti frekar að gera það en að smyrja þessum 65 þús. kr. á alla burt séð frá því hvort þörf er þar til staðar eða ekki. Það er hægt að nýta þá fjármuni miklu betur á annan hátt, að ég tel.