145. löggjafarþing — 149. fundur.
almannatryggingar o.fl., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 857. mál (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.). — Þskj. 1624.

[12:28]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að ræða um kerfisbreytingu á íslenska almannatryggingakerfinu. Lengi hefur verið beðið eftir þessu réttlætismáli og vonbrigði að það hafi tekið ráðherra allan þennan tíma að koma því inn í þingið. Hæstv. ráðherra talaði sjálf um að þetta væri mál sem hefði verið unnið í bútum. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér eru loksins að koma breytingar sem kosta einhverja peninga og hún hefur væntanlega ekki treyst sér til að kreista þá úr hnefa hinnar nísku hægri stjórnar, hægri stjórnarinnar sem hefur aðallega verið að koma fé frá þeim efnaminni til þeirra efnameiri.

Hvað varðar þá kerfisbreytingu sem hér er lagt upp með er verið að einfalda kerfið og það er mjög jákvætt. Það sem er líka verið að gera er að verið er að afnema krónu á móti krónu skerðingu sem er mjög réttlát aðgerð og nauðsynleg. Þessu fagna ég. En það eru þættir sem ég hef áhyggjur af og það mun auðvitað koma fljótlega í ljós í nefndinni hvort eitthvað er hægt að gera í því og hvaða áhrif það hefur á afgreiðslu frumvarpsins.

Þegar eru komnar fram athugasemdir um að skerðingarprósentan sé of há, 45%, og þá ekki síst í samspili við það að engin frítekjumörk verða í kerfinu. Einföldunin felst í því að verið er að sameina bótaflokka og afnema frítekjumörk og slíkt, en það voru mismunandi frítekjumörk á mismunandi tekjum í mismunandi bótaflokkum. Sá fjöldi fólks sem reiðir sig á framfærslu úr þessu kerfi bjó við þær ömurlegu aðstæður að vera kannski aldrei alveg viss hvaða áhrif það kynni að hafa ef tekjur þeirra ykjust, hvort sem það voru fjármagnstekjur, lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða leigutekjur.

Þarna er auðvitað um stóra kerfisbreytingu að ræða og við í nefndinni munum þurfa að fara mjög ítarlega yfir afleiðingar hennar. Síðan stendur það í okkur mörgum, þó að um það séu mjög deildar meiningar í samfélaginu, að grunnlífeyririnn sem er í dag og lífeyrissjóðstekjur, þ.e. mjög margir halda að sumt fólk hætti að fá greiðslur úr almannatryggingunum, en ég persónulega er þeirrar skoðunar að almannatryggingakerfið eigi að vera sameign okkar allra og allir eigi að eiga einhver grunnréttindi í því kerfi. En deildar meiningar eru um slíkt. Þetta er líka einn af þeim þáttum sem ég veit að munu koma til umræðu í nefndinni. Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa kerfisþætti. Þetta er bara eitthvað sem við munum fá inn umsagnir um og velta fyrir okkur og nefndin mun fara yfir.

Það sem ég hef áhyggjur af er að ekki er verið að hækka greiðslur lífeyristrygginga. Þó að fjöldi fólks hækki um einhverjar krónur þá er það vegna afnáms krónu á móti krónu skerðingarinnar, en hámarksréttindin verða áfram 212.776 kr. fyrir þann sem býr með öðrum og 246.902 kr. fyrir þann sem býr einn. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Mér finnst þetta metnaðarleysi og mér finnst í ljósi þeirra særinda í garð stjórnvalda út af almannatryggingakerfinu og þeirra láta sem hér voru þegar við í Samfylkingunni reyndum að knýja í gegn hækkanir, en þær voru felldar af stjórnarmeirihlutanum, þá finnst mér merkilegt að ráðherra yfir höfuð hafi kjark til að koma með þessar fjárhæðir óbreyttar.

Það sem við í Samfylkingunni viljum og vildum um síðustu áramót og viljum enn er að leiðrétting á almannatryggingum nái aftur til 1. maí 2015 og sé þá með sama viðmiðunartíma og fyrir launafólk á vinnumarkaði. Við hefðum viljað meiri hækkanir og skýr áform um að lífeyrir fylgi kjaraþróun í kjarasamningum. Hættan er sú að núna þegar launaskrið verður og ef ekki er gripið í taumana og almannatryggingar lagaðar að því, þá myndist kjaragliðnun. Kjaragliðnun veldur ójöfnuði. Ójöfnuður er vondur. Hann er ranglátur fyrir hvern þann einstakling sem fyrir honum verður, en hann er líka samfélagslegt mein. Þess vegna segir OECD við þjóðir heims: Lítið þið sérstaklega til þróunar jafnaðar því jöfnuður er svo mikilvægur, ekki síst fyrir hagvöxt. En hann er mjög mikilvægur fyrir heilsu. Hann er mjög mikilvægur fyrir félagslega samheldni í samfélögum og þess vegna megum við ekki láta reka á reiðanum með almannatryggingakerfið og láta greiðslur þar dragast aftur úr þróun þeirra sem eru á vinnumarkaði.

Samantekið, frú forseti, er ég ánægð með að loksins eigi að gera einföldun á kerfinu og afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Ég er ósátt við að við ætlum að hætta að hafa kerfið almannaeign. Ég hef efasemdir um ákveðnar útfærslur þarna, og svo virðist vera sem töluvert alvarlegar athugasemdir séu m.a. frá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Síðan tel ég greiðslurnar koma allt of lágar og hefði viljað sjá hækkun á þeim.

Þá langar mig að tala um tvo aðra þætti, annan sem ég tel mjög til bóta, sem er bráðabirgðaákvæði í 18. gr. Eins og staðan er í dag ef fólk fer inn á hjúkrunarheimili þá fara allar greiðslurnar þeirra inn á hjúkrunarheimilið upp að vissu marki og fólk fær bara ráðstöfunarfé, hámark um 70 þús. kr. á mánuði. En hér er verið að breyta þessu þannig að fólk fái inn sínar greiðslur eins og vanalega og borgi svo fyrir þjónustuna á hjúkrunarheimilunum.

Farið var yfir það í gær, ég tel það rétt munað hjá mér, frú forseti, að það hafi verið hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sem benti á að þetta gæti falið í sér þá gildru að einhverjir hópar lentu í vandræðum með greiðslur. Ég tek undir þær áhyggjur. En þetta er tilraunaverkefni þar sem á að gera samkomulag við eitt eða fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili um að prófa þetta fyrirkomulag. Kallað hefur verið eftir þessu mjög lengi og ég fagna því og tel mjög mikilvægt að við stígum nú fyrsta skrefið og sjáum hvað sé mögulegt í þessum efnum.

Þá er það ákvæðið um hækkun á lífeyrisaldri. Nú hafa verið umræður um þetta í nefndinni. Það sem ég hef hvað mestar áhyggjur af hvað þetta varðar er þegar við hugsum um örorkulífeyrisþega. Mjög margar konur um sextugt fara á örorkulífeyri vegna stoðkerfisvanda af því að þær vinna álagsstörf og vinna við þannig aðstæður að þær hafa ekki líkamlega burði til þess að vinna til 67 ára aldurs. Konur sem eru vanar að vinna mikið og vinna fyrir sér, standa uppi og geta það ekki vegna líkamlegs álags. Mér finnst í raun og veru ekki hægt að gera svona kerfisbreytingu nema það sé gert með frekari lýðheilsugreiningu. Og vinnuvernd er þarna lykilatriði. Nú er það þannig að 67 ár eru ekki greipt í stein. Þetta er aldur sem tilheyrir gamla Bismarck-kerfinu og er orðið nokkuð eðlislægt viðmið. Ég ætla ekkert að draga í efa að það kunni ekki að vera full ástæða til að hækka eftirlaunaaldur því að við erum miklu heilbrigðari og verðum miklu eldri. En ég hef áhyggjur af því að þetta kunni að koma illa niður á ákveðnum hópum. Mér finnst við þurfa að skoða þetta í því samhengi að þó að við sem tökum ákvarðanir í samfélaginu búum yfirleitt yfir meðaltali við velmegun þá er fjöldinn allur af vinnandi fólki í samfélaginu sem hefur ekki starfsþrek til sjötugs. Þá þurfum við að vera miklu metnaðarfyllri í vinnuvernd ef við ætlum að fara að breyta þessum viðmiðum.

Að lokum, frú forseti, er algjörlega óviðunandi að ekki sé verið að gera sambærilegar breytingar fyrir örorkulífeyrisþega og að þeir eigi að sitja eftir með krónu á móti krónu skerðingu, sá hópur sem kannski einna helst verður fyrir barðinu á þessu ákvæði. Nú hefur heyrst að eitthvað sé verið að skoða þetta í ráðuneytinu. En það er nú líka þannig að við ætlum að kjósa 29. október en ekkert mál um þetta hefur komið inn á okkar borð og er afskaplega óheppilegt að við séum ekki að ræða þetta allt í samhengi. Ég harma það að örorkulífeyrisþegar séu ekki þarna inni og að sjálfsögðu munum við í nefndinni ræða við Öryrkjabandalagið og meta hvort ásættanlegt sé að skilja þá eftir í þessari breytingu.



[12:41]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hana út í 19. gr. Hv. þingmanni er tíðrætt um jöfnuð og réttlæti og í 19. gr. er fjallað um þá sem dvelja á hjúkrunarheimili. Þangað fara engir nema þeir sem uppfyllt hafa færni- og heilsumat. Þeir einstaklingar sem þarna eru geta ekki hugsað um sig sjálfir og þurfa aðstoð og þjónustu. Áður hefur þetta fólk oft verið inni á sjúkrahúsum vegna þess að ekki er pláss fyrir sömu einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Ef einstaklingur fer vegna heilsubrests á sjúkrahús er hann þar án þess að greiða fyrir það. En ef sjúklingur eða fullorðið fólk fer inn á hjúkrunarheimili vegna heilsubrests greiðir það fyrir þjónustu þar. Þeir sem hafa lífeyristekjur eða tekjur upp að ákveðnu marki, allt að 378 þús. kr. eða meira, þurfa en leggja að jafnaði 378 þús. kr. inn til hjúkrunarheimilisins.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Er fólginn jöfnuður og réttlæti í því að verða fullorðinn og hafa fengið færni- og heilsumat vegna þess að maður getur ekki séð um sig sjálfur, en ef maður er svo óheppinn að eiga annað hvort lífeyristekjur eða eignir þannig að maður hefur meiri fjárráð en grunnlífeyrir eða lífeyristekjur almannatryggingakerfisins segja til um, sé fólki mismunað sem getur í raun ekki séð um sig sjálft, og þarf að vera þarna inni? Ef fólk er svo óheppið að eiga góðan lífeyrissjóð eða eignir þarf það að greiða þar umfram aðra íbúa á sama svæði, en ef það væri á sjúkrahúsi fengi það allt frítt. Hvar er jöfnuðurinn og réttlætið í þessu kerfi, virðulegur forseti, og hv. þingmaður?



[12:43]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði mig um jöfnuðurinn og réttlætið í þessu kerfi þá tel ég lítið sjást til þess í þar, enda sagði ég sérstaklega að ég fagnaði því að reyna ætti að komast út úr þeirri stöðu.

Ég talaði áðan um að ráðstöfunarfé fólks væri um 70 þús. kr. Það var rangt hjá mér, frú forseti. Ég ætla að leiðrétta það, það er 58.529 þús. kr.

En af því að þetta hefur mikið verið gagnrýnt og margir hafa verið ósáttir við þetta, sem eðlilegt er, verðum við bara að segja það beinum orðum: það hefur enginn treyst sér til þess að breyta þessu því að það er kostnaðarsamt. Þar hefur hnífurinn staðið í kúnni. Þess vegna fagnaði ég því að nú ætti að stíga skref til að breyta því. Það verður ekki einfalt. En ef við byrjum ekki á að reyna að leysa verkefnið þá leysum við það auðvitað ekki. Ég fagna því þess vegna og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið með þessa tillögu inn í frumvarpið.



[12:45]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja um álit hv. þingmann á því hvernig best sé að meðhöndla þetta kerfi. Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar lengi að eitt stærsta vandamálið, eða reyndar stærsta vandamálið við almannatryggingakerfið sé flækjustigið, sérstaklega í samhengi við önnur úrræði sem bjóðast hjá sveitarfélögum og svoleiðis. Ég, eins og aðrir þingmenn, fæ reglulega kvartanir frá notendum þessa kerfis. Þeir kvarta yfirleitt undan upphæðum og fara oft í miklar málalengingar um hvers vegna kerfið sé eins og það er og vekja athygli mína á því sem er algjörlega fáránlegt að þeirra mati. Yfirleitt hefur það nú verið þannig í gegnum tíðina að ég skil ekki hvernig endanleg niðurstaða fæst. Þetta er allt miklu flóknara en maður mundi vilja hafa það.

Þetta kerfi þarf að vera flókið að einhverju leyti. Ég held að það verði aldrei mjög einfalt. En ég hygg hins vegar að flækjustigið sé eitt stærsta vandamálið, sérstaklega þegar kemur að því að reyna að leysa þetta með einhverjum umræðum og tillögum og úrbótum. Eitt af því sem ég ætla að ræða stuttlega er að hér erum við að tala um nokkra hluti í einu. Við erum annars vegar að tala um einföldun kerfisins og hins vegar um upphæðir. Auðvitað er alltaf einhver tenging þar á milli. Væri ekki eðlilegast að takast á við verkefnið með því annars vegar að aðgreina það svolítið og einfalda, og hins vegar að reyna að gera það sanngjarnara varðandi upphæðir o.þ.h.? Hvert mat er hv. þingmanns sem formanni hv. velferðarnefndar á því? Þegar þetta er haft saman hafa mér þótt tvö ólík markmið blandast saman, annars vegar hin hefðbundnu vinstri/hægri átök um hvað sé sanngjarnt og hvað sé réttlátt, og hins vegar það markmið sem allir hljóta að eiga sameiginlegt, þ.e. að gera það einfalt. Ég hefði gaman af því að fá álit hv. þingmanns á því.



[12:47]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, og já, kerfið er svo sannarlega flókið. Það er mikið réttlætismál að einfalda það svo fólk skilji betur réttindi sín. Svo ber líka að hafa í huga að ef maður nýtur ekki ákveðinna réttinda í almannatryggingakerfinu missir maður líka önnur réttindi sem varðar félagslega aðstoð og slíkt. Þetta er því mjög margslungið.

Hér er verið að greina á milli. Hér er verið að gera kerfisbreytingu án þess að gera neitt við fjárhæðirnar. Það koma aðeins meiri peningar inn í það af því að króna á móti krónu skerðingin fer út, en það er sannarlega hægt að gera slíkar breytingar án þess að hækka upphæðirnar. En í ljósi þess að þessi ríkisstjórn hefur skilið lífeyrisþega eftir, hefur ekki sinnt almannatryggingakerfinu eins og skyldi, finnst mér einkennilegt að hún leyfi sér að koma loksins með þessa breytingu sem er nánast sambærileg við tillögur sem lagðar voru fram fyrir tæpum fjórum árum, og vera ekki búin að útvega fjármuni til þess að bæta eitthvað í. En breytingarnar er hægt að gera í tvennu lagi.

Spurningin er: Er það forsvaranlegt gagnvart öllum þeim tugum þúsunda sem reiða sig á framfærslu úr þessu kerfi og hafa ekki fengið sambærilegar hækkanir á við aðra samfélagsmeðlimi?



[12:49]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar kostnaðargreininguna eins og ég skildi hana í frumvarpinu er ekki verið að hreyfa mikið við upphæðum þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Það er auðvitað alveg rétt. En þetta varðar einnig breyttan lífeyristökualdur í frumvarpinu. Þetta er ekki mikil gagnrýni á frumvarpið af minni hálfu, þetta er miklu frekar vangavelta um það hvernig við eigum að nálgast viðfangsefnið. Ef við erum alltaf að blanda saman annars vegar sanngirnissjónarmiðum um hvaða upphæðir séu sanngjarnar og hverjar ekki, og hins vegar því hvernig hægt sé að einfalda kerfið, hef ég áhyggjur af því að það sem allir ættu í raun að vera sammála um blandist að óþörfu saman við eitthvað sem ágreiningur er um þegar markmiðið er í raun einföldun kerfisins. Hins vegar þegar við ræðum upphæðirnar og sanngirnisspurningarnar er þar eðlilega miklu meiri og pólitískari ágreiningur.

En mér finnst í raun gott við þetta frumvarp að það virðist mestmegnis stefna að einföldun. Eins og ég sagði áðan varðar það alltaf upphæðina, það hefur alltaf áhrif á upphæðina þannig að þetta blandast alltaf eitthvað saman. Við ættum auðvitað að reyna að hafa þessa þætti sem minnst saman, þ.e. ef markmiðið er augljóslega að einfalda bótakerfið.

Þá velti ég fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi sjálf fara að þessu, fyrir utan það væntanlega að gera þetta hraðar miðað við gagnrýni hv. þingmanns. Ef hv. þingmaður væri velferðarráðherra, mundi hún þá ekki leggja fram mismunandi frumvörp sem reyndu að aðskilja þessa þætti eftir bestu getu? Væru hér þá kannski tvö frumvörp í stað eins? Ég velti fyrir mér verklaginu vegna þess að mér er annt um að einfalda kerfið hreinlega til þess að geta betur svarað þeim spurningum sem ég fæ þegar ég geng um bæinn. Ég á erfitt með að svara þeim og segi það hreint út og fæ þakkir fyrir þá játningu vegna þess að allir aðrir eiga við sama vanda að stríða. Mér sýnist það vera stærsti vandinn.



[12:51]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í febrúar 2013 lagði velferðarráðherra Samfylkingarinnar fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar. Þau frumvörp sem hafa verið að mjatlast hér inn á þessu kjörtímabili eru niðurbrot á því frumvarpi. Smávægilegar breytingar og fjöldi nefnda hafa ekki náð neinum sérstökum árangri og litlum framförum. þannig að ég væri ekki í neinum vandræðum með það sem velferðarráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það þarf að gera kerfisbreytingu. Það hefðum við getað gert fyrir þremur árum. Hins vegar eru almannatryggingar grundvöllurinn að tekjujöfnunarkerfinu hér á landi. Við erum annars vegar með skattkerfið og hins vegar með almannatryggingakerfið. Þessi tvö kerfi saman mynda kerfi sem jafna tekjur til þess að tryggja framfærslu allra Íslendinga.

Eftir þær deilur sem hér hafa staðið yfir bendi ég á að þegar verið er að leggja fram svo veigamikið frumvarp finnst mér það makalaust að ekki sé samtímis verið að svara kallinu um hækkun á almannatryggingum. Það var punkturinn í mínu máli, en það er líka það sem þessi ríkisstjórn þarf að horfast í augu við gagnvart kjósendum nái þetta frumvarp fram að ganga. Og eins og ég kom (Forseti hringir.) að í máli mínu er mjög margt sem mér hugnast í frumvarpinu, en það er margt sem við þurfum að ræða (Forseti hringir.) sem þarna er. Svo er það skandall að ekki sé verið að hækka greiðslurnar.