146. löggjafarþing — 45. fundur.
þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, 1. umræða.
frv. BjG, 215. mál (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna). — Þskj. 299.

[17:33]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Það varðar endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa barna.

Ég ætla að fara aðeins í gegnum frumvarpið, þ.e. hvað það er sem breytist.

Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Enn fremur annast stofnunin umsýslu vegna þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugnakaup barna.

2. gr. Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gleraugnakaup barna.

Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Þar skal m.a. mæla fyrir um að:

1. börn njóti greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum allt að tvisvar á ári til tíu ára aldurs,

2. börn frá 11 ára aldri að 18 ára aldri njóti greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum einu sinni á ári,

3. fjárhæð endurgreiðslu sé 75% af verði sjónglerja í hverjum verðflokki og 75% af verði umgjarðar,

4. börn til tíu ára aldurs, sem hafa þörf fyrir gleraugu sem hluta læknismeðferðar til að sjón þeirra þroskist eins eðlilega og kostur er, njóti fullrar greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum tvisvar á ári (sjónglerja og umgjarðar) enda sé umgjörð valin í samráði við augnlækni eða sjóntækjafræðing. Sá aðili sem annast þjónustu við sjónskerta fyrir hönd ríkisins leitar árlega tilboða í sjóngler og umgjarðir hjá gleraugnasölum og miðast fjárhæð greiðsluþátttöku við lægsta tilboðsverð.

3. gr. Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018.

Ég flutti frumvarp sama meginefnis og fyrirliggjandi þingmál, en það varð ekki útrætt, það var á 145. þingi. Eftir að hafa mælt fyrir málinu voru sendar umsagnarbeiðnir vegna þess til 23 aðila.

Í umsögn Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga frá 8. apríl 2016 var áætlað að samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér um 167 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð vegna aukinnar þátttöku í gleraugnakaupum barna og einnig aukinn kostnað við starfsemi stofnunarinnar vegna verkefna sem hljótast myndi af að breyttu hlutverki hennar á þessum vettvangi sem gæti numið einu stöðugildi. Eru fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á ríkissjóð í samræmi við það.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð benti einnig á að enda þótt stofnunin hafi annast framkvæmd endurgreiðslna vegna gleraugnakaupa allt frá því að starfsemi hennar hófst 1. janúar 2009 sé þessi umsýsla ekki meðal skilgreindra verkefna hennar.

Brugðist er við þessari ábendingu í 1. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að umsýsla vegna þátttöku ríkisins í gleraugnakaupum verði meðal skilgreindra verkefna Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar. Með því yrði núverandi tilhögun staðfest og tekin af öll tvímæli um skyldur stofnunarinnar á þessu sviði.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til við lög nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, eru hinar sömu og í frumvarpinu sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi. Lagt er til að við lögin bætist ný grein þar sem kveðið verði skýrt á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Breytingin miðar að því að rýmka reglur um greiðsluþátttöku ríkisins þannig að börn njóti greiðsluþátttöku við kaup á tvennum gleraugum á ári til tíu ára aldurs. Sjónþroski barna undir tíu ára aldri getur krafist þess að þau skipti um gleraugu oftar en einu sinni á ári og því er eðlilegt að ríkið taki þátt í kostnaði við kaup á gleraugum tvisvar á ári á þessu aldursskeiði. Jafnframt er lagt til að frá 11 ára aldri og þar til börn ná 18 ára aldri taki ríkið þátt í kostnaði við kaup á einum gleraugum á ári.

Í 4. tölulið er kveðið á um fulla endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa fyrir börn sem þurfa gleraugna við til þess að sjón þeirra þroskist eðlilega. Í þeim tilvikum eru viðeigandi gleraugu svo þýðingarmikil fyrir eðlilegan þroska barnsins að rétt virðist að þau séu greidd að fullu úr sameiginlegum sjóði landsmanna þannig að tryggt verði að ekkert barn þurfi að vera án þeirra enda eru gleraugu fyrir þennan hóp barna í rauninni hluti læknismeðferðar en ekki hjálpartæki.

Í gildandi reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu, nr. 1155/2005, er kveðið á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum barna tvisvar á ári til loka þriðja aldursárs, árlega frá fjögurra til átta ára aldurs og annað hvert ár á aldrinum 9 til 17 ára aldurs. Breytingin felst í því að auka greiðsluþátttöku ríkisins við kaup á gleraugum fyrir eldri börn.

Lagt er til að greiðsluþátttaka ríkisins verði 75% af tilboðsverði á sjónglerjum og gleraugnaumgjörðum sem sá aðili sem annast þjónustu við sjónskerta aflar árlega með útboði eða lætur afla fyrir sína hönd. Gæti vafalaust komið til mála að Ríkiskaup önnuðust þennan þátt.

Engin ákvæði eru í gildandi reglugerð um uppfærslu eða endurskoðun fjárhæðarinnar vegna verðlagsbreytinga og hafa engar slíkar breytingar verið gerðar frá því að reglugerðin tók gildi í desember 2005, samanber þskj. 335 á 145. löggjafarþingi. Það varðaði fyrirspurn sem ég lagði fram til þáverandi félagsmálaráðherra. Þetta hefur orðið til þess að gildi stuðnings hins opinbera við gleraugnakaup barna hefur rýrnað í samræmi við verðbólguþróun og markmið aðgerðarinnar þannig farið forgörðum að nokkru leyti. Flutningsmaður telur því bæði rétt og tímabært að gera þá breytingu að greiðsluþátttaka verði miðuð við ákveðið hlutfall af kostnaði, eins og að framan greinir.

Þetta eru ekki svo margir einstaklingar sem um ræðir sem falla sérstaklega í þann hóp sem snýr að því að þurfa gleraugu til þess að sjón þeirra þroskist eðlilega. Því held ég að til þess að þau standi jafnfætis öðrum og að ekki sé komið í veg fyrir að þau geti öðlast sjón eðlilega eins og aðrir, heldur verði jafnvel öryrkjar sökum þess að sjónin þroskast ekki sem getur leitt til blindu. Við erum að tala um slíka sjúkdóma m.a., þá eigi ríkið auðvitað að bregðast við.

Það er líka til háborinnar skammar að verðviðmiðin skuli ekki hafa hækkað í svo langan tíma eins og kom fram í svari við fyrirspurn minni til fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra um þessi mál. Þetta er líka hluti af því að brúa bilið milli þeirra sem minna hafa á milli handanna, þeirra sem búa við fátæktarmörk eða þeirra sem hafa hreinlega ekki efni á því að kaupa gleraugu handa börnunum sínum þrátt fyrir veittan stuðning. Stuðningurinn minnkar ár frá ári, ekki bara fyrir yngstu börnin, heldur fyrir þau eldri líka. Þess vegna held ég að sá kostnaður sem hér er tekinn fram séu smámunir í samanburði við í rauninni hvað það leiðir af sér mikil lífsgæði fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að þetta mál nái fram að ganga og fái góðar umsagnir um leið og það verður tekið fyrir í velferðarnefnd — ég geri ráð fyrir að það fari þangað þó að ég sé hreinlega ekki viss um það. En mér finnst líklegt að málið fari til þeirrar nefndar miðað við að það tilheyrir félagsmálaráðherra og því kerfi.

Ég ætla að láta þetta duga um þetta mál. Ég vona svo sannarlega að það drukkni ekki í lokamálum ríkisstjórnar heldur fái faglega umfjöllun í nefndinni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.