146. löggjafarþing — 77. fundur.
fyrirtækjaskrá, frh. 2. umræðu.
frv. BLG o.fl., 116. mál (aukinn aðgangur að fyrirtækjaskrá). — Þskj. 175, nál. m. brtt. 923.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[21:56]

[21:52]
Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er afar gott mál sem eykur til muna gagnsæi í skráningu fyrirtækja. Mjög góð sátt var um málið í nefndinni og ég þakka fyrir þá samstöðu. Nefndin tók þá ákvörðun að leggja fram breytingartillögu þess efnis að þetta tæki gildi um næstu áramót. Það er til þess að ráðrúm gefist til að fjármagna starfsemi ríkisskattstjóra á móti fyrir þær 20 millj. kr. sem eru vegna þessa. Þetta er, held ég, eitthvað sem við verðum að leysa í fjárlögum í haust, en ég þakka kærlega fyrir góða vinnu í þessu máli.

(Forseti (UBK): Forseti vill benda fólki á að það er hættulegt að halla sér yfir atkvæðagreiðsluborðið hjá nágrönnum sínum [Skellihlátur í þingsal.] og breyta þar með atkvæðum þeirra í rautt.)



[21:54]
Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hygg að við séum hér að stíga ágætt skref sem mun örugglega leiða til þess að við gerum viðskiptalífið aðeins heilbrigðara, opnara og aðgengilegra. Ég minni þingheim hins vegar á að við eigum eftir að taka afstöðu til þess hér í haust og tryggja að við veikjum ekki með þessum hætti embætti ríkisskattstjóra eins og hv. þm. Smári McCarthy minnti á. Ég vek líka athygli á því að um stjórnarandstöðufrumvarp er að ræða sem fær greiðan framgang og er til fyrirmyndar. Ég ætla að þakka hæstv. fjármálaráðherra alveg sérstaklega fyrir framgönguna. Það er til dæmis óvenjulegt að upplifa það að ráðherra sé tilbúinn að mæta til fundar við nefnd til að ræða frumvarp stjórnarandstöðuþingmanns.



 1. gr. samþ. með 61 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 923 (ný 2. gr.) samþ. með 61 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.