148. löggjafarþing — 8. fundur.
málefni fatlaðs fólks og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 28. mál (notendastýrð persónuleg aðstoð). — Þskj. 28, nál. 70.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:08]

[12:05]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um framlengingu á bráðabirgðaákvæði vegna NPA. Eins og kemur fram í nefndaráliti hv. velferðarnefndar er nefndin samstiga í þessu máli, hún er sammála um að vinda bráðan bug að því að klára lagasetningu sem þarf vegna málsins og fagnar því að á þessu ári verði, þrátt fyrir að ekki sé enn búið að fullklára lögin, bætt í þennan málaflokk og tryggt að fjármagn til fleiri samninga fáist á árinu. Þetta er afar mikilvægt og fagnaðarefni og ég hlakka til atkvæðagreiðslunnar síðar á þessu þingi þegar við afgreiðum þau mál endanlega.



[12:06]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér. Mig langar að fagna því að þær aukalegu 70 milljónir sem við báðum um í nefndinni að fá inn í þennan málaflokk til að auka við samninga virðast vera komnar. Það er stórgott. Ég hlakka til að taka á málinu og klára þessi tvö stóru frumvörp á næsta ári.



[12:07]
Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum, það er fagnaðarefni að tekist hafi að fjölga samningunum enn meira. Ég legg þó sérstaka áherslu á það sem var algjör samstaða um í hv. velferðarnefnd, það að svokallaður öndunarvélahópur muni njóta forgangs og að tekið verði tillit til hans þegar aukafjárveitingin kemur til þannig að hægt sé að gera notendasamninga við hann strax á nýju ári.



[12:07]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Líkt og aðrir þingmenn fagna ég því að þetta sé hingað komið og í góðri sátt frá velferðarnefnd. Ég þakka líka gott samstarf við velferðarnefnd í þessu máli og vonast til þess að eiga gott samstarf við nefndina áfram í þeim tveim stóru málum sem eru í nefndinni.

Enn fremur fagna ég líkt og aðrir breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar þar sem ráðgert er að auka um 70 millj. kr. í þennan málaflokk á milli umræðna. Það kom einmitt fram í nefndaráliti frá hv. velferðarnefnd og ég þakka fyrir það. Enn fremur þakka ég fyrir gott samstarf nefndarinnar og vonast til að eiga gott samstarf við hana áfram.



 1. gr. samþ. með 57 shlj. atkv.

 2. gr. samþ. með 57 shlj. atkv.

 3. gr. samþ. með 56 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.