148. löggjafarþing — 20. fundur
 1. feb. 2018.
þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður, 1. umræða.
frv. BLG o.fl., 19. mál (leyfi frá opinberu starfi og starf með þingmennsku). — Þskj. 19.

[16:21]
Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég hef lítinn tíma áður en ég þarf að ná í krakka í leikskóla þannig að ég ætla að fara fljótt yfir sögu. Með frumvarpinu er verið að breyta lögum um þingfararkaup alþingismanna, 4. gr. laganna fellur brott, mjög einfalt. Þá falli brott ákvæði sem mælir fyrir um rétt alþingismanna til leyfis frá opinberu starfi sem hann gegnir í allt að fimm ár og tryggingu á sambærilegu starfi hjá hinu opinbera í fimm ár eftir það, afsali hann sér starfinu. Ekki er gert ráð fyrir því að alþingismaður geti gegnt starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku og notið launa fyrir það starf.

Að okkar mati eru þetta ekkert endilega réttindi heldur forréttindi. Þannig er engin ástæða til að hygla opinberum starfsmönnum umfram öðrum og því er lagt til að lagagreinin falli brott.

Þegar lögin voru sett þá var fyrri málsgreinin tekin úr eldri lögum frá 1968 þar sem talað er um að eðlilegt þyki að alþingismaður geti fengið leyfi frá störfum fram á annað kjörtímabil sitt, þ.e. að hann verði að sleppa starfinu ef hann er kosinn á Alþingi í annað sinn. Og sanngjarnt þyki að þingmaður sem þannig verður að velja á milli opinbers starfs og þingmennsku hafi tryggingu fyrir hliðstæðu starfi hjá hinu opinbera í nokkurn tíma, eða fimm ár, ef hann afsalar sér því starfi sem hann er skipaður eða ráðinn í.

Skipanir og ráðningar í opinber störf eru allt öðruvísi núna. Það er minna um lengri ráðningar eða lengri skipanir og þær eru flestar til fimm ára. Og hæstaréttardómarar hafa til dæmis ekki einu sinni kjörgengi til Alþingis.

Síðari málsgreinin er hins vegar úr núgildandi lögum, er samhljóða gildandi ákvæðum um launagreiðslur til alþingismanna — hún var í eldri lögum fyrirgefið: Þá kom til greina að fella niður ákvæði þessarar málsgreinar þar sem fátítt er orðið að þingmenn gegni öðrum störfum fyrir hið opinbera en horfið var frá því. Það er um að gera að taka það upp núna 23 árum seinna eða eitthvað svoleiðis. Það er orðið enn sjaldgæfara. Þetta mál þarf ekki að vera flóknara en það.

Ég var til dæmis í opinberu starfi áður en ég byrjaði sem þingmaður. Ég vil endilega minnka forréttindi mín hvað þetta varðar. Við erum með alveg nóg af þeim.



[16:24]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að eiga smá orðastað við hv. þingmann, flutningsmann frumvarpsins, Björn Leví Gunnarsson. Ég hef nefnilega þá skoðun að við eigum ekkert að gera sem í raun og veru gæti frekar takmarkað það hverjir munu bjóðast fram til Alþingis. Mér er það annt um að allir bjóði sig fram til Alþingis að ég hef áhyggjur af því að frumvarp af þessu tagi myndi verða til þess að það myndi draga úr því, hvort sem það væri tímabundið eða til lengri tíma, hverjir það væru sem bjóði sig fram til Alþingis.

Ég er í grundvallaratriðum herfilega ósammála flutningsmönnum frumvarpsins þegar kemur að þessari setningu hér, með leyfi forseta:

„Að mati flutningsmanna gerir ákvæðið að verkum að augljóslega er betra að verða alþingismaður eftir að hafa sinnt störfum fyrir hið opinbera en að koma af hinum almenna vinnumarkaði.“

Mér finnst þetta nú eiginlega slíkur rökfræðilegur útúrsnúningur að ég varð eiginlega að hnýta í það.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. flutningsmann: Væri ekki betra ráð að snúa þessu við? Væri ekki bara frekar ráð að víkka þessi réttindi út frekar en að takmarka þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa í þessu tilfelli? Við ættum kannski frekar að reyna að huga að leiðum þar sem við myndum frekar víkka þau út á almenna markaðinn, ekki jafna niður á við, eins og flutningsmenn gera ráð fyrir, heldur jafna upp á við. — Hv. flutningsmaður má flissa með sjálfum sér eins og hann vill og þykir tilhlýðilegt. — Við höfum gert þetta t.d. hvað varðar fæðingarorlof. Við höfum víkkað það út þannig að fólk getur farið úr vinnu og komið aftur eftir fæðingarorlof.

Hefur flutningsmaður engar áhyggjur af því að þetta myndi jafnvel draga úr því hverjir væru tilbúnir að gefa kost á sér til setu á Alþingi og væri þannig lýðræðinu (Forseti hringir.) ekki til heilla?



[16:26]
Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Draga úr, nei, fjöldi flokka og framboða undanfarið hefur aukist gífurlega, þannig að ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af því. Munurinn hérna er að þeir þingmenn sem koma úr opinberu starfi geta gengið að starfi vísu í allt að tíu ár, sem er mjög mikil skekkja miðað við hvað aðrir launamenn hafa úr almenna geiranum. Og að reyna að fara að segja við almenn fyrirtæki úti í bæ: „Nei, þið verðið að halda stöðu opinni í allt að tíu ár“. — Nei.



[16:27]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég man þá tíð að hægt var að eiga í rökræðum við hv. þingmann þar sem hann var ekki eins og í einhverri Morfískeppni, flissandi og gerandi lítið úr málflutningi þess sem er að spyrja hann einfaldlega heiðarlegra spurninga.

Ég hef raunverulegar áhyggjur af því, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að þetta muni draga úr því hverjir fara í framboð. Ég er ekki þrátt fyrir útúrsnúning hv. þingmanns að leggja það til, eins og hv. þingmaður hefði heyrt ef hann hefði hlustað á ræðu mína áðan, að almenni vinnumarkaðurinn haldi störfum opnum í tíu ár. Ég er einfaldlega að segja: Væri ekki frekar ráð ef við viljum gera breytingar að við horfum í þá átt að við gerðum það að verkum að auðveldara væri fyrir fólk að hverfa úr starfi sínu, taka sæti á Alþingi og hverfa svo aftur til sinna starfa hvort sem það er nákvæmlega sama starfið eða svipað starf. Ég hef enga töfralausn á því, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hvort þetta eigi að vera fimm ár sem starfið bíður og svo fimm ár í sambærilegu þar á eftir, ég er tilbúinn að skoða hvað sem er í því.

Ég held hins vegar að ef við horfum í hina áttina værum við að horfa til þess að það yrði bara meira um það að fólk kæmi, sæti á þingi einhvern tíma, en kannski myndi það minnka þaulsetu á Alþingi. Ég held að þetta myndi bara verða lýðræðinu jafnvel til heilla ef við horfðum á það þannig og myndi gefa fleirum færi á að sinna því að fá að setjast hér á hið háa Alþingi.

Ég minni á, eins og ég kom inn á áðan, að þegar við vorum að ræða það að útvíkka t.d. fæðingarorlof, ég er alls ekki að segja að hv. þingmaður hafi verið með slík rök, en það voru margir sem fussuðu og sveiuðu yfir því, fannst það algjörlega fáránlegt, það er akkúrat það sem hann er að gera.

Við erum að jafna upp á við, ekki niður á við eins og hv. flutningsmenn (Forseti hringir.) frumvarpsins leggja til.



[16:29]
Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég meina ekkert slæmt með þeim orðum, ég er stundvís maður og verð ógeðslega pirraður ef ég er of seinn að ná í dóttur mína í leikskóla, þannig að það er eina ástæðan fyrir því að ég er dálítið stuttur í spuna. (Gripið fram í.) Ég bað forseta vinsamlegast um að færa málið með hinum tveimur málunum sem ég flutti hér fyrr í dag, það hefði verið mjög auðvelt að laga það vandamál.

Ég hugsaði um það þegar ég samdi frumvarpið að útvíkka réttindin, en ég sá enga gerlega leið til þess að skylda almenna markaðinn í rauninni til að halda störfum opnum í tíu ár og þar af leiðandi jafna réttinn. Þannig að ég get ekki gefið meira svar við því. Ef það er engin sjáanleg lausn, þá hef ég enga gáfulega uppástungu hvað það varðar. Ég hef í rauninni ekkert meira um það að segja.



[16:30]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs í kjölfar samskipta tveggja hv. þingmanna sem töluðu á undan mér. Ég er meðflutningsmaður á þessu máli. Mér er afskaplega annt um að gera rétt, mér er afskaplega annt um að lögin séu sanngjörn. Það er þess vegna sem ég er meðflutningsmaður að þessu máli. Ef fram koma einhver rök sem gera að verkum að mér hættir að finnast þetta frumvarp sanngjarnt þá skipti ég um skoðun eins og ég geri frekar reglulega — geri það algerlega með köldu blóði án þess að skammast mín nokkuð fyrir það.

Ég hef hins vegar ekki heyrt nein rök fyrir því að þetta ætti að vera eins og þetta er. Það sem við erum að tala um er 4. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Ég fletti upp frumvarpinu sem gerði það að lögum og fletti upp athugasemdum um 4. gr. þess frumvarps. Ég finn einfaldlega engan viðunandi rökstuðning. Það er einfaldlega fullyrt að það sé á einhvern hátt sanngjarnt að opinberir starfsmenn hafi þann rétt að geta gengið að starfinu vísu í fimm ár eftir að þeir taka sæti, hafi forgang í fimm ár eftir það, sum sé alls um tíu ár. Það er einfaldlega fullyrt að þetta sé á einhvern hátt sanngjarnt og vísað í hluti sem ég sé ekki að rökstyðji að þannig sé það.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé sem talaði hér áðan, í andsvörum við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að við viljum að sem flestir geti boðið sig fram til Alþingis. Mér finnst hins vegar persónulega að það eigi að vera jafnræði þar og sem mest jafnræði. Ég skil engan veginn af hverju opinberir starfsmenn ættu að hafa þennan rétt umfram fólk sem er á almenna vinnumarkaðnum. Enn fremur sé ég ekki, frekar en hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hvernig hægt væri að láta þessa reglu gilda fyrir almenna markaðinn. Ég sé ekki betur en það gangi einungis fyrir opinbera markaðinn vegna þess að það er opinberi markaðurinn sem er að mestu fjármagnaður með skattfé og þar eru stofnanir sem vissulega hafa burði til að standa undir þessari kvöð. Að sama skapi átta ég mig ekki á því hvers vegna þessi kvöð ætti að vera til staðar. Það er þess vegna sem ég er hlynntur því að hún falli brott.

Ef frekari rök koma fyrir því að þetta fyrirkomulag í 4. gr. þessara laga sé á einhvern hátt rökrétt eða sanngjarnt þá er ég allur eitt eyra, eins og maður segir á hörmulegri íslensku, en ég hef bara ekki heyrt þau rök.

Mig langar að nefna í leiðinni að það er fleira sem mætti alveg laga í þessum lagabálki. Ég ætla ekki að fara út í það, en þetta er ekki eina lýtið á þessum lögum sem ég sé. Mér hefur sýnst að í gegnum tíðina hafi alþingismenn kannski leyft sér skrýtna tegund af metnaði, stundum hefur mér fundist það. Ég nefni sem dæmi þegar ákveðið var að formenn stjórnarandstöðuflokka, eða formenn flokka sem ekki sitja í ríkisstjórn, fengju 50% álag, eitthvað sem við í Pírötum höfum ávallt hafnað, enda erum við ekki með formann nema að forminu til. Svo erum við reyndar með formann FR-nefndar, það er öðruvísi tegund af formanni.

Að öllu jöfnu finnst mér mikilvægt að jafnræði sé í samfélaginu, jafnræði fyrir lögum og að fólk hafi jafnan rétt og þar á meðal rétt til að bjóða sig fram til Alþingis. Ég velti því fyrir mér, kannski meira sem spurningu út í kosmosið, eins og er sagt nú til dags: Hvað ef maður ætlaði að bjóða sig fram til Alþingis, mundi einhverjum detta í hug að sækja fyrst um vinnu, bara einhverja vinnu, hjá hinu opinbera, og bjóða sig síðan fram til Alþingis svona til þess að hafa einhverja leið út?

Það er annað í þessu. Það er þekkt á Íslandi, eða mér er alla vega sagt það, að það sé frekar erfitt fyrir fyrrverandi þingmenn að fá vinnu eða geti verið erfitt, sér í lagi ef þeir eru mjög áberandi í umræðunni. Þeir þurfa ekkert að vera óvinsælir til þess. Bara það að vera áberandi stjórnmálamaður með skoðanir á samfélaginu getur gert þingmönnum erfitt að fá vinnu að þingstörfum loknum. Mér er sagt að þetta sé akkúrat öfugt í flestum öðrum löndum. Þar sé það reiknað til tekna og þyki gott að hafa þetta á starfsferlinum. En ekki hér. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta er. Það eina sem mig grunar er að það sé vegna þess að fólk sé feimið við að hafa starfsmann sem viðskiptavinur fer að gefa sér einhverjar fyrir fram mótaðar skoðanir um, sem eiga svo kannski ekki við rök að styðjast eða koma starfseminni ekkert við. Ég veit það ekki alveg. Reyndar hef ég rannsakað sérstaklega sannleiksgildi þessarar kenningar.

Ég verð að segja fyrir mig að ef við ætlum að fara að hugsa um þessi mál út frá jafnræðisgrundvelli finnst mér að við ættum frekar að líta í hina áttina eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé nefndi hér áðan. Ég sé ekki hvernig það er mögulegt. Aftur — ég er allur eitt eyra á þessari hörmulegu íslensku — en ég bara heyri ekki rök fyrir því að hafa þetta öðruvísi en lagt er til í frumvarpinu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.