148. löggjafarþing — 33. fundur.
kjör öryrkja.

[15:03]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum öll fóru fjárlög fyrir árið 2018 á ljóshraða í gegnum þingið í desember sl. Þar var í engu gert ráð fyrir því að bæta hag öryrkja eða þeirra sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi. Þá er ég að tala um að bæta hag þeirra beint, ekki óbeint, ekki í formi þess að veita þeim afslátt hér eða hvar eða aðgengi að einu eða öðru. Ég er að tala um framfærslu. Ég er að tala um möguleika á því að ná endum saman. Ég er að tala um fæði, klæði, húsnæði fyrir alla. Ég er að tala mat á diskinn.

Hæstv. forsætisráðherra var í stjórnarandstöðu í fyrrahaust. Við vitum nú hvernig stöðugleikinn hefur verið í þessu húsi hvað pólitíkina varðar og vonum náttúrlega að hann fari að verða styrkari hér eftir. Staðreyndin er sú að þá talaði hæstv. forsætisráðherra um að öryrkjar gætu ekki beðið lengur eftir því að fá aðstoð, eftir því að fá bættan hag. Þess vegna liggur beinast við að ég spyrji hæstv. forsætisráðherra, því að undir hennar stjórn er ekkert verið að gera til að bæta hag öryrkja:

Hvenær skipti hæstv. forsætisráðherra um skoðun? Er hún búin að skipta um skoðun? Eða hvað er um að vera? Er ekkert að marka það sem sett er á borðið hér, úr þessum hv. ræðustóli Alþingis? Hvað er ríkisstjórnin að gera fyrir öryrkja?



[15:05]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á mjög mikilvægu efni. Það er ekki rétt sem sagt er að ekkert hafi verið gert fyrir öryrkja í fjárlögum fyrir árið 2018. Þar skiluðu sér inn ákveðnar kjarabætur til öryrkja þannig að nú er staðan sú að 29% öryrkja fóru upp í 300.000 kr. greiðslur um áramótin og var bætt í við meðferð fjárlagafrumvarpsins samkvæmt tillögu frá hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, bara svo við höldum staðreyndum til haga.

Síðan liggur fyrir að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hefur sömuleiðis átt samtöl við forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar um viðræðuáætlun því að þegar þeirri vinnu lauk sem allir fulltrúar stjórnmálaflokkanna áttu sæti í á sínum tíma, fulltrúar þessara samtaka, fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, náðist ekki samstaða um þær kerfisbreytingar sem þar voru undir í málefnum örorkulífeyrisþega. Hins vegar náðist ákveðin samstaða um kerfisbreytingar á almannatryggingum hvað varðar aldraða.

Það liggur hins vegar fyrir, af því að hv. þingmaður nefnir hér þá sem höllustum fæti standa, að eldri borgarar hafa komið á fund minn og óskað eftir því að metnar verði þær breytingar sem þá voru gerðar og hvernig þær hafa birst þeim sem höllustum fæti standa í hópi eldri borgara. Ég held að það sé mjög mikilvægt í ljósi þessara breytinga, sem áttu að skila sér í auknum kjarabótum til eldri borgara, að við förum yfir hvort þær hafi skilað sér. En um leið hef ég lagt á það mikla áherslu, varðandi þær viðræður sem nú munu hefjast við forsvarsmenn öryrkja um kerfisbreytingar og kjarabætur til handa örorkulífeyrisþegum, að sú vinna verði unnin eins hratt og mögulegt er. Þar tel ég mikilvægt að við horfum til þess að stefnt sé á mannsæmandi kjör en líka til aukinnar samfélagsþátttöku og sömuleiðis hvað við getum gert sem samfélag til þess að grípa fyrr inn í þegar kemur að fjölgun örorkulífeyrisþega.

Þetta eru stór verkefni sem ég held þó að sé mikilvægt (Forseti hringir.) að við vinnum hratt.



[15:07]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta innlegg sem mér þótti frekar dapurlegt í ljósi þess að hér standa enn eftir tæp 80% öryrkja sem ekki hafa fengið neitt nema einhverja vísitöluleiðréttingu launa sinna 1. janúar sl. Öryrkjar sem sviknir hafa verið um að kjarabætur þeirra fylgi launavísitölu samkvæmt 1. mgr. 69. gr. almannatryggingalaga, öryrkjar sem ekki ná endum saman, öryrkjar sem ekki hafa mat á borðið nema hálfan mánuðinn, borða núðlur hinn helminginn af mánuðinum, öryrkjar sem ekki geta keypt sér lyf, öryrkjar sem líður illa. Og þeir skipta þúsundum.

Þannig að ég segi einfaldlega: Það má segja að góður vilji sé í allar áttir, en ég vil sjá framkvæmdir, ég vil sjá athafnir, ég vil sjá gjörðir. Þetta er í rauninni frekar rýrt, með fullri virðingu, hæstv. forsætisráðherra.



[15:08]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held nú samt að meiri hluti hv. þingmanna sé alveg sammála um að það er mikil þörf á kerfisbreytingu þegar kemur að almannatryggingum og greiðslum til örorkulífeyrisþega. Erum við ekki sammála um að það er mikilvægt að við greinum orsakir þess að öryrkjum hefur fjölgað og við grípum inn í með einhverjum hætti? Eða ætlum við bara að horfa á þá þróun án þess að aðhafast? Erum við ekki sammála um að það er mikilvægt að skoða af hverju nýja kostnaðarþátttökukerfið, sem við vorum öll sammála um þegar við samþykktum það á sínum tíma, skilar sér ekki sem skyldi til eldri borgara og öryrkja?

Við vorum öll sammála um, og samþykktum það í fjárlögum, að setja frá og með miðju yfirstandandi ári hálfan milljarð í að greiða niður tannlækningar öryrkja og aldraðra, sem er búin að vera algjör skömm að hversu langan tíma hefur tekið að greiða niður.

Ég held, hv. þingmaður, að við eigum að taka hér höndum saman um það hvernig við getum náð fram góðum breytingum á þessu kerfi og tryggt þannig mannsæmandi kjör, gagnsærra og skilvirkara kerfi, en líka gert þær breytingar sem við þurfum að gera til þess að grípa fyrr inn í áður en fólk fer á örorkulífeyri. (IngS: Byrjum kannski á því að afnema …)