148. löggjafarþing — 43. fundur.
fjármálastefna 2018–2022, frh. síðari umræðu.
stjtill., 2. mál. — Þskj. 2, nál. 548, 554 og 563, frávísunartillaga 564, breytingartillaga 583.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[22:08]

[22:03]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af því að í fjármálastefnunni segir: „Alþingi staðfestir að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga um opinber fjármál“, en það er hins vegar ekki útskýrt í greinargerð fjármálastefnunnar hvernig fjármálastefnan sé samkvæm grunngildum laga um opinber fjármál getur Alþingi ekki staðfest að fjármálastefnan sé samkvæm þeim grunngildum. Því er lagt til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Hlutverk og ábyrgð þingsins er að fara yfir tillögur frá ríkisstjórn og gæðavotta þær. Það kemur upp úr krafsinu að tillaga ríkisstjórnarinnar um fjármálastefnu er ekki rökstudd samkvæmt grunngildum í lögum um opinber fjármál og það er því hlutverk okkar að vísa henni aftur til ríkisstjórnarinnar.



[22:04]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér göngum við til atkvæða um stefnu sem á að gilda óbreytt í fimm ár. Þetta er stefna sem fær falleinkunn hjá nánast öllum hagsmunaaðilum sem hana hafa lesið. Stefnan er sögð vera ógn við stöðugleikann, vera óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug. Þetta er mat sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Þá er í stefnunni að finna vonda hagstjórn, hagstjórn sem gerir ráð fyrir lækkun skatta á sama tíma og útgjöld eru þanin. Enginn heilvita maður sér þetta dæmi ganga upp. Samfylkingin mun því greiða atkvæði gegn þessari gjaldþrota fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og greiða atkvæði með frávísun hennar.



[22:05]
Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ganga til atkvæða um frávísunartillögu um fjármálastefnu. Ég vil benda á það að hér er almenn túlkun á grunngildum í greinargerð stefnunnar og það er sterkt samhengi við fjármálareglur, töluleg gildi stefnunnar og alveg fráleitt að vísa stefnunni frá. Þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn þessari frávísunartillögu.



[22:06]
Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki aðeins að það vanti allan rökstuðning með því hvernig þessi fjármálastefna eigi að uppfylla þau grunngildi sem hér liggja til grundvallar. Það er einnig alveg ljóst af öllum þeim umsögnum sem við höfum fengið að hún er hvorki sjálfbær, varfærin, né felst í henni nokkur festa í ríkisfjármálum. Þessi stefna hefur fengið algjöra falleinkunn í umsögnum. Þess vegna styðjum við frávísun hennar.



[22:07]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir að fjármálastefnu lýsir góðri stöðu ríkissjóðs og góðri stöðu opinberra fjármála. Hún byggir á því að við horfum fram á dvínandi hagvöxt og það er þörf fyrir það að ríkið nýti það svigrúm sem það hefur til að byggja upp innviði, sem er það sem hefur verið kallað eftir í samfélaginu en er líka til marks um góða hagstjórn. Það er líka áhugavert að benda á það að þessi fjármálastefna er sú ítarlegasta sem hefur verið lögð fram til þessa, til muna greinarbetri en þær fjármálastefnur sem hafa áður verið lagðar fram. Þannig að ég myndi segja að við séum hér í lærdómsferli með það hvernig við getum horft til lengri tíma í fjármálum og að okkur sé að fara fram í þeirri stefnumótun og að þessi fjármálastefna sé töluvert raunsærri en þær sem við höfum áður séð.

Það er horfið frá þeirri stefnu sem hér áður var í tíð síðustu ríkisstjórnar um sérstakt útgjaldaþak og horft til þess hvernig við getum náð samræmi í því að lækka með markvissum hætti skuldir ríkissjóðs en byggja líka upp þá nauðsynlegu innviði sem við eigum öll að vera sammála um að sé eitt mikilvægasta hagsmunamál þessa samfélags. Þannig að ég mun alfarið leggjast gegn þessari frávísun og styð það að fjármálastefna verði afgreidd hér á Alþingi.



Till.  564 um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar felld með 32:26 atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AKÁ,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HVH,  HHG,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  JBM,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  PawB,  SDG,  SPJ,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞSÆ.
nei:  AIJ,  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
5 þm. (GIK,  RBB,  SÁA,  SSv,  ÞKG) fjarstaddir.

Brtt. 583 (tölul. 3) felld með 42:4 atkv. og sögðu

  já:  IngS,  JSV,  PawB,  ÞorstV.
nei:  AFE,  AIJ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  BN,  GÞÞ,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HarB,  HVH,  JónG,  JÞÓ,  JBM,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  NF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
12 þm. (AKÁ,  ÁlfE,  BergÓ,  BirgÞ,  GBS,  HHG,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
5 þm. (GIK,  RBB,  SÁA,  SSv,  ÞKG) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:09]
Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Í þessari atkvæðagreiðslu greiðum við atkvæði um það hvort eigi að koma aftur inn sú kvöð sem mörkuð var í síðustu fjármálastefnu um að öllu óreglulegu og einskiptisfjárstreymi í ríkissjóð verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum í því skyni að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Það held ég að sé ábyrgt og verður gaman að sjá hvernig íhaldsmennirnir, hægri mennirnir, Sjálfstæðisflokkurinn, greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu.



[22:10]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin mun styðja tvo fyrstu liði þessarar breytingartillögu sem koma til atkvæðagreiðslu hér á eftir, en þeir lúta að meiri afgangi hjá hinu opinbera og hraðari niðurgreiðslu skulda en gert er ráð fyrir í núverandi stefnu. Við gerum það með svipuðum rökum og finna má í umsögn fjármálaráðs sem leggur áherslu á að sé ætlunin að treysta og styrkja innviði samfélagsins þurfi að styrkja tekjugrunn ríkisins á sama tíma. Það dugar ekki einungis að líta til gjalda þegar litið er til aðhalds, því að einnig þarf að líta til tekjuhliðarinnar.

Við munum hins vegar ekki styðja 3. lið breytingartillögunnar þar sem hann gerir ráð fyrir að öllum einskiptistekjum verði varið í niðurgreiðslu skulda. Samfylkingin telur að vel komi til greina að hluti af einskiptistekjunum renni í einskiptisfjárfestingar í innviðum samfélagsins.



[22:11]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við Píratar leggjumst einnig á móti því að öllu óreglulegu og einskiptisfjárstreymi verði varið til skuldalækkunar af því að það gætu einfaldlega verið til arðbærari leiðir til þess að verja peningnum, jafnvel innviðauppbygging sem kostnaðar- og ábatagreining myndi sýna að skilaði meiri arði en niðurgreiðsla skulda. Hún er þó auðreiknuð á meðan aðeins erfiðara er að reikna út innviðauppbyggingu, t.d. til einhverra framkvæmda. Við þurfum samt eins og fjármálaráð hefur kallað eftir að fá þær upplýsingar. Við þurfum að fá góðan lista af verkefnum sem eru kostnaðarmetin og ábatagreind til þess að við getum tekið upplýsta umræðu um það og tekið ákvarðanir um forgangsröðun á slíku einskiptisfjármagni. Þess vegna greiðum við atkvæði gegn 3. lið.



Brtt. 583 (texti brtt. að öðru leyti) felld með 32:16 atkv. og sögðu

  já:  AFE,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BLG,  GuðmT,  HallM,  HVH,  HHG,  JÞÓ,  JSV,  JBM,  LE,  OH,  PawB,  ÞorstV,  ÞSÆ.
nei:  AIJ,  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
10 þm. (AKÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  GBS,  IngS,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
5 þm. (GIK,  RBB,  SÁA,  SSv,  ÞKG) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[22:12]
Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn samanstendur af nokkrum flokkum. Einn þeirra flokka vill auka verulega útgjöld ríkissjóðs. Einn þessara flokka vill ekki hækka skatta. Það er hægt að sameina þetta tvennt og það er gert í þessari fjármálastefnu sem hér liggur fyrir. En það þýðir að eitthvað þarf undan að láta. Það sem lætur undan er afkoma ríkissjóðs. Við teljum þetta ekki ábyrga stefnu. Við í Viðreisn teljum hins vegar þessa breytingartillögu fela í sér mun ábyrgari stefnu og greiðum því atkvæði með henni.



[22:13]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Allar umsagnir sem við höfum fengum vöruðu við kólnun hagkerfisins þannig að í ljósi þess væri eðlilegt að auka aðhald ríkisins. Það kemur hins vegar ekki einungis fram í þeim tölum sem eru hérna þó að þær sýni aukið aðhald á blaðinu miðað við fjármálastefnu ríkisins sem er núna til umfjöllunar. Það er meira undir eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði hér í ræðu áðan, með tekjuöflun og því um líkt. Þessi breyting myndi þó sýna eilítið aðhaldsstig sem er nauðsynlegt núna við kólnun hagkerfisins til þess að ná þessari mjúku lendingu sem allir vonast eftir.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 32:16 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
nei:  AFE,  ÁÓÁ,  ÁlfE,  BLG,  GuðmT,  HallM,  HVH,  HHG,  JÞÓ,  JSV,  JBM,  LE,  OH,  PawB,  ÞorstV,  ÞSÆ.
10 þm. (AKÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  GBS,  IngS,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS) greiddu ekki atkv.
5 þm. (GIK,  RBB,  SÁA,  SSv,  ÞKG) fjarstaddir.