148. löggjafarþing — 53. fundur
 23. apríl 2018.
rafmyntir.
fsp. SMc, 341. mál. — Þskj. 455.

[15:48]
Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Það fer sífellt meira fyrir svokölluðum rafmyntum á borð við Bitcoin, Ethereum og Zcash í umræðunni. Hafa nær allir orðið varir við aukin umsvif ýmissa aðila í tengslum við þessar rafmyntir á Íslandi, kannski ekki síst hæstv. forsætisráðherra í nýlegu flugi. Við höfum til að mynda líka séð gagnaver spretta upp eins og gorkúlur, m.a. í gámum sem liggja eins og hráviði úti um allt, kominn er upp rafmyntarhraðbanki í Reykjavík og það er rekinn íslenskur skiptimarkaður fyrir rafmyntir.

Erlendis hafa bæði stjórnvöld og fyrirtæki á borð við jafnvel mjög stóra alþjóðlega banka brugðist við þessari þróun með margvíslegum hætti. Sum lönd hafa tekið þessari þróun fagnandi en önnur hafa ráðist í bönn. Kína hefur lagt í umtalsverð bönn á notkun rafmynta undanfarið, enn önnur lönd hafa haldið að sér höndum og svolítið reynt að sjá fyrir sér hvað muni gerast, en hér hefur engin afstaða komið fram hjá stjórnvöldum um hvað skuli gera. Fólk sem hefur verið í þessum geira og hefur leitað til Fjármálaeftirlitsins, ríkisskattstjóra eða annarra eftir ráðgjöf hefur fengið afskaplega fá svör.

Ástandið er svolítið eins og villta vestrið að því er virðist og er full ástæða til að byggja upp regluverk utan um þessar rafmyntir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, vegna þess að þetta gæti í vissum tilfellum ógnað stöðugleika okkar, og tryggja þjóðaröryggi. Í tilfellum þar sem umsvifin gætu orðið nógu umfangsmikil gætu einhverjir ákveðið að ráðast á okkar fjarskiptainnviði til að reyna að hafa áhrif á markaði. Auðvitað þarf líka að tryggja aðra þjóðarhagsmuni, ásamt því að gefa þeim aðilum sem eru að reyna að skapa nýja atvinnuvegi í kringum þessar rafmyntir einhvers konar skýrar leikreglur svo enginn þurfi að óttast handahófskennda reglubeitingu og skyndilegar sviptingar í löggjöf og öðru.

Í rauninni gengur þetta út á að allir viti hvað er í gangi og hvaða leikreglur eru til staðar.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi hvaða áform ráðherra hafi, og kannski ríkisstjórnin, um að bæta löggjöf og regluverk varðandi útgáfu og notkun rafmynta á Íslandi.

Í öðru lagi spyr ég hvaða reglur séu nú þegar í gildi sem hafa áhrif á útgáfu og notkun rafmynta á Íslandi.



[15:51]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að taka upp þetta mál sem er vanreifað í íslenskum stjórnmálum, eins og hann bendir réttilega á.

Hv. þingmaður talar sérstaklega um rafmynt í sinni fyrirspurn. Þá má spyrja sig hvort réttara hugtak væri kannski sýndarfé. Það hefur verið til umræðu að nýta það hugtak af því að rafmynt minnir kannski að einhverju leyti á rafeyri sem hefur verið nýttur um hefðbundna gjaldmiðla. Það sem við kölluðum sýndarfé væri þá eitthvað í ætt við Bitcoin, Auroracoin o.fl. en rafeyrir hefur tengingu við hefðbundna gjaldmiðla.

Seðlabankinn hefur skilgreint sýndarfé sem rafræna útgáfu sem hefur verðgildi en er gefið út af aðila sem hvorki er seðlabanki né eftirlitsskyldur aðili í skilningi laga og er í eigin mæli að reikna einingu hlutaðeigandi að verðmæti, en hins vegar er ekki komin fram algild skilgreining á sýndarfé, sem við getum kallað svo. Þar verðum við auðvitað að muna eftir því að við erum í alþjóðlegu samstarfi. Fjármálaregluverk okkar er að miklu leyti upprunnið á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hv. þingmaður vísaði til þess sem er að gerast á alþjóðavettvangi. Sýndarfé er enn í lagalegu tómarúmi þegar kemur að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar hefur hins vegar verið uppi töluverð umræða um möguleika til að ná utan um fyrirbærið með skilvirkri og góðri löggjöf, en það virðist vera nokkuð í land.

Ég dreg þá ályktun af fyrirspurn hv. þingmanns, eins og hann orðar hana, að hann sé fyrst og fremst að hugsa um hina efnahagslegu hlið. Auðvitað eru aðrir þættir sem við þurfum líka að taka til umræðu á vettvangi stjórnmálanna. Ég nefni sérstaklega þá auðlindanotkun sem felst í því sem við getum kallað námagröft, eða hefur verið kölluð námagröftur, af því að hv. þingmaður nefndi samferðamann minn í flugi um daginn, námagröft t.d. í Bitcoin. Þar þurfum við að velta fyrir okkur bæði auðlindanýtingu og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja.

Ef við horfum á efnahagshliðina fyrst og fremst er unnið að innleiðingu ákvæða fimmtu peningaþvættistilskipunar Evrópusambandsins um sýndarfé á vegum dómsmálaráðuneytisins.

Hv. þingmaður nefndi hér hraðbanka. Þar er verið að fella viðskipti í hraðbönkum þar sem má kaupa og selja Bitcoin. Ég veit ekki hvort þessi hraðbanki er þegar kominn upp en a.m.k. hafa borist fregnir af því að til standi að setja hann upp undir tilkynningarskyldu peningaþvættislaga. Samkvæmt Europol er notkun hraðbanka af fyrrgreindu tagi vaxandi vandamál á meginlandi Evrópu. Þetta eru sem sagt fyrirhuguð áform en að öðru leyti hafa íslensk stjórnvöld fylgst með umræðunni innan Evrópska efnahagssvæðisins af því að við höfum litið á þetta sem hluta af hinu evrópska regluverki um fjármálamarkaðinn.

Í ljósi þess sem hv. þingmaður nefnir held ég hins vegar að það sé full ástæða til að við setjum þetta meira aktíft á okkar innlendu dagskrá. Það er til að mynda spurning hvort ekki eigi að fjalla um þessi mál á vegum þeirrar nefndar sem er að gera hvítbók um fjármálakerfið af því að við sjáum mjög hraða þróun í þessum geira þó að ég sé þeirrar skoðunar að á endanum þurfum við að finna alþjóðlegar lausnir til að skapa gott og skilvirkt regluverk, eins og hv. þingmaður nefndi.

Eitt af álitaefnunum sem þarf að takast á við í þeirri umræðu er að hugmyndafræðin sem þessi kerfi byggja á er ekki persónugreinanleg og er án miðstjórnarvalds. Það er að hluta til það sem fólki hefur fundist spennandi við þetta sýndarfé, já, sem er bara gott orð, og þessi leynd um útgefendur sýndarfjár er í algjörri andstöðu við þá lagaumgjörð sem við höfum innleitt um fjármálamarkaðinn, þar sem við leggjum aukna áherslu á gagnsæi, við gerum ráð fyrir mjög margháttuðu varfærniseftirliti, að auka gagnsæi með starfsemi fjármálastofnana og eftirlitið byggist á því að við ætlum að byggja undir nauðsynlegt traust á fjármálakerfinu. Þetta er það sem við erum búin að vera að tala um í þessum sal, að auka gagnsæi um fjármálakerfið og styrkja allar heimildir til að auka það, og svo fáum við skyndilega inn þennan nýja veruleika sem byggir á algjöru ógagnsæi.

Eins og ég sagði áðan höfum við ekki innleitt sérstakt regluverk. Seðlabanki Íslands hefur fylgst mjög vel með þróun þessara mála. Fram til þessa hefur sýndarfé mjög lítið verið notað í greiðslumiðlun á Íslandi. Seðlabankinn telur að svo stöddu ólíklegt að notkun eða viðskipti með sýndarfé muni raska fjármálastöðugleika í náinni framtíð. Eins og við höfum dæmi um getur það þó breyst hratt þannig að svona til að draga málið saman í lokin verður fylgst áfram með þróun í Evrópu. Á vettvangi Evrópusambandsins er unnið að lausn sem mun væntanlega fela í sér breytingu á samevrópska regluverkinu. Það er mikilvægt að horfa til alþjóðlegra lausna því að þessi heimur virðir engin landfræðileg mörk.

Af því að hv. þingmaður nefndi afstöðu stjórnvalda vil ég þó nefna að Fjármálaeftirlitið sendi frá sér aðvörun um sýndarfé til almennings 31. janúar á þessu ári. Hið sama gerði fjármála- og efnahagsráðuneytið 1. febrúar þessa árs (Forseti hringir.) þannig að stjórnvöld hafa varað almenning við þeim hættum sem kunna að felast í notkun sýndarfjár.



[15:56]
Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu yfirferð hjá hæstv. forsætisráðherra. Það er vissulega rétt sem hún segir, auðlindanýting er atriði sem við verðum að leggja töluvert mikla áherslu á að taka til greina í þessari umræðu. Hún er orðin töluverð, að mér skilst, en ekki hefur legið fyrir nein mæling á nákvæmlega hversu mikil hún er og það veldur mér áhyggjum. Ég veit að það eru fleiri, t.d. rekstraraðilar þeirra rafmagnsframleiðslustöðva sem þurfa að sjá fyrir þessu rafmagni, sem hafa líka áhyggjur.

Það er áhugavert með skilgreiningu Seðlabankans. Nú er hún takmörkuð að því leyti að hún nær t.d. ekki yfir snjallsamninga. Það sýnir svolítið að þetta er allt á iði. Þetta er svo ný tækni að það er verið að finna upp nýja hluti nánast á hverjum degi og því er mjög erfitt að negla niður nákvæma skilgreiningu. Þetta er eitt af því sem mun vefjast fyrir stjórnvöldum.

Vissulega er líka töluverð áhætta á peningaþvætti, einmitt út af þessu ógagnsæi, að þetta verði notað af skipulagðri glæpastarfsemi. Regluverkið er nauðsynlegt, en í ljósi þess hversu lítið er til af alþjóðlegri löggjöf er tækifæri fyrir Ísland til að leiða umræðuna um málið. Ég þykist vita að á Íslandi séu hagsmunaaðilar með svona starfsemi sem hafa áhuga á að taka þátt í að búa til góðan og almennan leikvöll fyrir þetta þannig að jafnvægi finnist milli þjóðarhagsmuna og þeirra nýsköpunarhugmynda sem eru málinu til grundvallar. Kannski ætti þessi hvítbók algjörlega að taka undir þetta en það að leita til hagsmunaaðilanna væri gott ráð.

Ég spyr að lokum hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra hvort ekki sé tilefni til að reyna að búa kannski til sérvinnuhóp um þetta sýndarfé eða rafeyri eða hvað á að kalla það sem tæki á tæknilegu þáttunum.



[15:59]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að taka málið upp. Fram til þessa hefur sýndarfé borið einkenni áhættufjárfestinga fremur en gjaldmiðils í hefðbundinni merkingu. Enn sem komið er uppfyllir sýndarfé illa þau skilyrði sem við gerum til þess sem við notum til að geyma verðmæti, þ.e. hefðbundinna gjaldmiðla. Þetta byggir fyrst og fremst á framboði og eftirspurn og engin stjórnvöld eru ábyrg fyrir stöðugleika eða öryggi slíks kerfis. Það er á einhvern hátt eðli þess sýndarfjár sem við höfum séð nú þegar, við getum sagt að hluti af aðdráttarafli sýndarfjár sé að því er ekki miðstýrt, það lýtur ekki hefðbundnum gjaldmiðilsreglum, en um leið er þar af leiðandi mikil áhætta sem tengist notkun þess og mjög svo óstöðugt verð sem hefur einkennt sýndarfé sem hægt er að finna á vefsíðum þar sem hægt er að fletta upp verðgildi helstu sýndarfjármiðla. Nú er ég í nýsköpun orðanna. Þar kemur fram að þetta er mjög rokgjarn miðill.

Eins og ég nefndi áðan hefur þróunin í raun verið í algjörri andstöðu við það hvernig við höfum viljað þróa fjármálakerfið. Þarna verður til ákveðið skuggahagkerfi, getum við sagt.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem nefnir hér að við þurfum á einhvern hátt að setja málið á dagskrá, kannski meira en bara að fylgjast með þróun mála úti í Evrópu. Ég nefndi áðan hvítbók um fjármálakerfið. Ég held að ég taki það bara með mér að kanna hvernig við getum tekið þetta til frekari skoðunar á vettvangi þingsins og framkvæmdarvaldsins. Hér á þingi á að taka til starfa framtíðarnefnd og kannski er þetta verkefni sem gæti átt heima þar í samvinnu við Seðlabankann, forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið því að það er mikilvægt að við séum mjög meðvituð um þá áhættu sem felst í notkun sýndarfjár en líka hugsanlega möguleika eins og hv. þingmaður bendir á.

Ég held að þetta sé ekki það síðasta sem við munum ræða (Forseti hringir.) um þessi mál.