Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum.
Nefndin fjallaði um málið að nýju eftir 2. umr. og fékk sent minnisblað frá dómsmálaráðuneyti þar sem fram kemur afstaða þess til breytingartillögu á þskj. 1156, þar sem lagðar voru til breytingar á 2. gr. frumvarpsins sem varðar orðskýringar, sem og gildistöku frumvarpsins. Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 8. júní 2018, er vísað til sjónarmiða í öðru minnisblaði sem ráðuneytið sendi nefndinni á fyrri stigum og er dags. 30. maí 2018.
Í minnisblaðinu frá 8. júní segir að ráðuneytið telji óheppilegt að víkja frá þeim skilgreiningum sem horft var til við gerð frumvarpsins og bendir á að í athugasemdum um 2. gr. í greinargerð frumvarpsins er að finna upptalningu í dæmaskyni á starfsemi sem fellur utan gildissviðs frumvarpsins.
Nefndin fjallaði um þetta. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þau sjónarmið ráðuneytisins og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Þorsteinn Sæmundsson skrifar undir álitið með fyrirvara um að stafrænt veski sé ekki skilgreint í lögunum. Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
Undir þetta rita Óli Björn Kárason formaður, Brynjar Níelsson framsögumaður, Þorsteinn Víglundsson, Birgir Ármannsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásgerður K. Gylfadóttir og Þorsteinn Sæmundsson, með áðurnefndum fyrirvara.