149. löggjafarþing — 5. fundur.
samningar við sérfræðilækna.

[15:34]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þar sem mér þótti lítið til svara hæstv. fjármálaráðherra koma fær hann tækifæri til að svara aðeins skýrar núna. Ýmsir hafa áhyggjur af þeirri leið sem við erum á í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöld hafa skrúfað fyrir nýja samninga við sérfræðinga þrátt fyrir að nokkrir tugir sérfræðilækna hafi horfið af samningi og að mikill skortur sé á heilbrigðisþjónustu sem þeir hafa sinnt mjög víða, svo mikill að við þurfum að senda sjúklinga úr landi með ærnum tilkostnaði vegna einhverrar pólitískrar kreddu um að við viljum ekki semja við jafnvel sömu lækna og sinna þessum aðgerðum erlendis með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga. Við treystum okkur ekki til að semja við þá hina sömu um kostnaðarþátttöku hér heima fyrir með ærnum kostnaði fyrir stjórnvöld.

Það er ekki aðeins sá sem hér stendur eða hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem hafa þessar áhyggjur. Þrír samflokksmenn hæstv. ráðherra skrifuðu ágæta grein í Morgunblaðið um helgina. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra þeirrar einföldu spurningar: Deilir hann þeim áhyggjum sem samflokksmenn hans lýsa í þeirri ágætu grein?

Í öðru lagi, þar sem hæstv. ráðherra er einmitt fjármálaráðherra: Telur ráðherra það vera skynsamlega nýtingu á opinberu fé þegar við sendum sjúklinga erlendis í aðgerðir sem hægt er að sinna hér á landi með mun minni tilkostnaði og þar af leiðandi væntanlega sinna mun fleiri aðgerðum og ganga hraðar á biðlista en ella? Er það skynsamleg nýting opinbers fjár? Er þessi sama nýting opinbers fjár í samræmi við siðareglur þær sem ríkisstjórnin hefur sett sér, einmitt um að ráðherrar sýni ráðdeild við meðferð fjármuna hins opinbera?

Það er kannski einfalt að svara síðustu spurningunni.



[15:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að segja það einu sinni enn hérna, ég hef sagt það margoft áður í fjölmiðlum og annars staðar, að það er auðvitað ekki góð ráðstöfun á opinberu fé þegar við sitjum uppi með kostnað vegna aðgerða sem hægt væri að gera hér heima fyrir þær sakir einar að sjúklingar hafa rétt til þess að fara til útlanda og við fáum þrefaldan reikning. Væntanlega eru allir sammála um þetta, en það dugar bara ekki að svara þessari spurningu. Það þarf aðeins að fara dýpra.

Við erum með tæpan 1 milljarð í fjárlögunum núna fyrir næsta ár til að stytta biðlista. Það er grunnvandinn. Ég held að það væri ágætt að menn byrjuðu á að spyrja sig: Af hverju eru að myndast biðlistar? Hvert getur hlutverk einkarekinna heilbrigðisstofnana í landinu verið til að hjálpa til við að koma í veg fyrir að þeir myndist? Hvernig getum við fengið hámarksnýtingu fyrir það fé sem er úr að spila í heilbrigðismálum almennt? Ríkið þarf að geta stýrt nýtingu fjármuna, bæði þegar það kemur að kaupum á heilbrigðisþjónustu af opinberum stofnunum, og þar er ég t.d. að vísa til Landspítalans, og af öðrum. Við þurfum að geta skilgreint það vel til hvers við ætlumst af Landspítalanum þegar við tryggjum honum fjárveitingar og það sama á að gilda annars staðar í heilbrigðiskerfinu hjá öðrum stofnunum, sama hvar þær eru á þessu einkarekna litrófi, frjáls félagasamtök, einkareknar stofur í eigu lækna, heilbrigðisstofnanir eða heilsugæslurekstur eða hvað það er.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum, eins og ég sagði áðan, með aðeins of stagbætt kerfi og það sé þörf fyrir heildarstefnumótun. Ég fagna því að ráðherrann vinni að henni núna, það skiptir máli að það takist góð samstaða um heildarstefnumörkunina. Ég vil að lokum koma því að hér að það er í gildi samningur við sérfræðilækna, honum hefur ekki verið sagt upp og það er fullur vilji hjá (Forseti hringir.) ráðherranum, sem hún gæti svo vel svarað fyrir hér, til að ná að nýju samningum (Forseti hringir.) en ég tek hins vegar undir að það er mikilvægt að það fari að gerast.



[15:38]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þekki það nú reyndar frá fyrri störfum að til að ná samningum þarf að hefja samningaviðræður, sem mér skilst að hafi nú ekki hafist enn þá þrátt fyrir að aðeins þrír mánuðir séu þar til að þessir samningar renna út. Þannig að ég hef vissulega áhyggjur af því hversu seint er farið af stað og hversu mikla óvissu ríkisstjórnin skapar með því að neita að hefja samningaviðræður við sérfræðilækna þegar aðeins þrír mánuðir eru til stefnu.

Það verður ekki undan því vikist að segja og það er alveg augljóst að það er stefnuleysi í þessum efnum, það er ekki hægt að nota önnur orð um stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér er einhvern veginn allt stopp, allt í frosti þar til ríkisstjórnin hefur mótað sér stefnu í málaflokknum. Ekki eru gerðir samningar við sérfræðilækna, ekki er bætt við nýjum sérfræðilæknum á gildandi samninga.

Í ljósi þess að þetta er með ærnum tilkostnaði á endanum fyrir ríkissjóð sem leiðir til þess að við sendum sjúklinga í mun dýrari aðgerðir erlendis, og það sem er auðvitað dýrast er að sjúklingar fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa, hlýt ég að spyrja: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir breytingu á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar eða mun hann láta greinaskrif samflokksmanna sinna duga?



[15:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að spyrja mig um svið sem heyrir undir annan ráðherra. Ég skal svara því fyrir mitt leyti. Auðvitað þarf að ná samningum. Ég tel að það verði gert. Ég er sammála því að þar til nýir samningar hafa fengist er ákveðin óvissa sem er óþægileg. Ég heyri eins og við öll að þeir sem þar eiga í hlut myndu vilja eyða þeirri óvissu sem fyrst. Ég held að það eigi einfaldlega við um okkur öll, líka heilbrigðisráðherrann og -ráðuneytið. Það er langæskilegast að fá niðurstöðu sem fyrst.

Ég er líka þeirrar skoðunar að við eigum að hafa umhverfi hér heima sem laðar heim til Íslands alla þá lækna sem vilja gjarnan búa hér og byggja framtíð fyrir sínar fjölskyldur, að það sé aðlaðandi umhverfi á Íslandi í einu og öllu.

Það er viðvarandi verkefni að hlúa að heilbrigðiskerfinu. Markmiðið á að vera tekið út frá sjónarmiðum sjúklinganna og hvernig við tryggjum sem besta (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu, jafnan aðgang fyrir Íslendinga í nýrri heilbrigðisstefnu til framtíðar.