149. löggjafarþing — 11. fundur.
aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna, fyrri umræða.
þáltill. OH o.fl., 13. mál. — Þskj. 13.

[15:37]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun fyrir árið 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Yfirskrift tillögunnar hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2019–2022, til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggist m.a. á rétti barna eins og hann er skilgreindur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.“

Fyrst er í tillögunni fjallað um almennar aðgerðir og samráð og þar segir:

Þriðja valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem við köllum barnasáttmála, verði lögfest hér á landi á árinu 2019 að undangengnu átaki þar sem stjórnvöld og úrskurðaraðilar fá fræðslu um kröfur barnasáttmálans er varða þjónustu við börn. Viðeigandi ráðstafanir verði gerðar í kjölfarið, m.a. nauðsynlegar lagabreytingar. Útbúið verði barnvænt kynningarefni og kynning á framkvæmd bókunarinnar hér á landi gerð aðgengileg.

Til að tryggja samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins og sveitarfélaga verði skipaður samráðshópur fulltrúa ráðherra félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður hópsins verði skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra. Samráðshópurinn yfirfari tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2012 varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2011 til aðildarríkja um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur og Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun. Einnig yfirfari samráðshópurinn skýrslu umboðsmanns barna frá árinu 2017 um helstu áhyggjuefni ásamt nýlegum skýrslum umboðsmanns barna. Samráðshópurinn geri tillögur um með hvaða hætti skuli bregðast við þessum alþjóðasamþykktum og áhyggjuefnum til að treysta stöðu barna og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Jafnframt verði á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum verði litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, t.d. vegna veikinda þeirra eða fötlunar. Í því skyni að tryggja hag og réttindi barna og ungmenna sem best verði unnið að framkvæmd einstakra verkefna á vegum viðkomandi ráðuneyta. Verkefni skulu fjármögnuð og tryggður verði nægilegur mannafli og nauðsynleg gögn svo að markmiðum verði náð. Verkefnin verði árangursmetin reglulega og byggð sérstaklega á aðgerðum sem eru tilgreindar í sjö köflum í tillögunni.

Aðgerðir sem bæta afkomu barnafjölskyldna, aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðningur í uppeldisstarfi, almennar forvarnaaðgerðir, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda. Aðgerðir er vernda börn og ungmenni gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum og aðgerðir í þágu barna innflytjenda.

Alls eru aðgerðirnar taldar upp í 49 liðum og allt of langt mál að fara yfir þær allar hér en það er von mín að hv. velferðarnefnd fari vel yfir málin, kalli eftir umsögnum, vinni nefndarálit og búi tillöguna undir síðari umr. og atkvæðagreiðslu í þinginu.

Þessa tillögu má ekki salta í nefnd, eins og algengt er að gerist með tillögur frá stjórnarandstöðu. Þeirri frómu ósk kem ég hér á framfæri við hv. velferðarnefnd að þessi tillaga verði tekin til meðferðar og útbúin undir samþykkt í þingsal.

Í greinargerð með tillögunni er gerð grein fyrir helstu atriði kaflanna sem eru þessi:

1. Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði m.a. styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda þeirra eða fötlunar, eins og áður sagði.

2. Flutt verði frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði.

3. Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, m.a. með því að hækka barnabætur og sjá til þess að fleiri fjölskyldur fái barnabætur. Nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum og niðurgreiddan hádegismat og að aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi verði bætt, ekki síst þeirra sem búa við veikan fjárhag. Umgengnisforeldrum verði tryggður stuðningur til framfærslu og umgengni við börn sín.

4. Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu og í heilbrigðiskerfinu.

5. Aukinn verði stuðningur við langveik börn og börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik.

6. Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

7. Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin.

8. Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.

9. Áhersla verði lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, m.a. með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.

10. Forvarnastarf gegn hvers kyns ofbeldi og vanrækslu verði eflt og stuðningur jafnframt aukinn við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.

Í kaflanum um aðgerðir sem bæta afkomu barnafjölskyldna er kveðið á um aðgerðir sem eiga sérstaklega að beinast að bættri fjárhagsafkomu fjölskyldna. Í þeim kafla er lagt til að barnabætur hækki og að fleiri fjölskyldur fái barnabætur. Er miðað við að það barnabótakerfi sem er í öðrum norrænum ríkjum verði nálgast í skrefum og að staða umgengnisforeldra verði bætt. Einnig er lagt til að nemendur í framhaldsskólum njóti stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum og að hádegisverður verði niðurgreiddur. Fyrsta skrefið miðist við að nemendur beri helming þess kostnaðar.

Að lokum er í kaflanum fjallað um nauðsynlega upplýsingaöflun sem nýta skal í markvissri vinnu stjórnvalda til að bæta hag og skilgreina mörk sem segja til um hvenær grípa skuli til aðgerða. Í kaflanum um aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðning í uppeldisstarfi er m.a. rætt um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni á sérstökum gjaldfrjálsum námskeiðum um allt land sem hæfa mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins og fræðsla til foreldra barna með sérþarfir og langveikra barna.

Lagt er til að á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga verði fjallað um útfærslu slíkra námskeiða. Starfsfólk í ungbarnaeftirliti, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eigi kost á þjálfun til þess að geta miðlað þekkingu til foreldra í uppeldismálum og þar með talið ráðgjöf vegna hegðunarerfiðleika barna. Komið verði á fót barnahúsi sem vinni með börnum foreldra sem eiga í forsjárdeilum, börnum sem búa við heimilisofbeldi og börnum sem leitað hafa eftir alþjóðlegri vernd. Þar verði jafnframt boðið upp á barnamiðaða fjölskylduráðgjöf.

Einnig er lögð áhersla á að dómstólar og sýslumenn virði ávallt rétt barna til að tjá sig áður en ákvarðanir er varða líf þeirra eru teknar og sifjadeildir sýslumannsembættanna verði efldar.

Í kaflanum um almennar forvarnaaðgerðir er áhersla lögð á heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu m.a. með því að bæta hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna og að sérstaklega verið hugað að fræðslu um offitu og forvarnir gegn ofþyngd og bættum úrræðum til meðferðar.

Mikilvægt er að stuðlað verði með forvörnum að ávana- og vímuefnalausu umhverfi barna og ungmenna. Ungmennum verði veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisdrykkju ekki síður en ólöglegra vímuefna. Þá verði veitt fræðsla í skólum um lyfjanotkun sem er ávanabindandi og hættuleg, ásamt skaðsemi tóbaksreykinga og notkunar rafrettna.

Sífellt fleiri börn og ungmenni þjást af kvíða og vanlíðan og nauðsynlegt er að aðgengi að sálfræðingum á öllum skólastigum verði bætt til muna. Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu hvað varðar andlega og félagslega líðan, ofbeldi og vanrækslu. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, m.a. hollar tómstundir fyrir öll börn og uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar. Jafna þarf aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra einstaklinga sem búa við veikan fjárhag.

Í kaflanum um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna er forgangsmál að vinna á biðlistum á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og barna- og unglingageðdeild Landspítalans með aðgerðum í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik. Leitað verði leiða til að efla sérhæft samstarf á milli ólíkra þjónustuaðila og stjórnsýslustiga og auka samvinnu allra þeirra sem koma að því að veita eða nota þessa þjónustu.

Á grundvelli úttektarinnar á skipulagi fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni með geð- og hegðunarraskanir á mismunandi landsvæðum verði teknar ákvarðanir um skipulagt samstarf þar sem skýrt verður kveðið á um ábyrgð veitenda þjónustunnar gagnvart notendum hennar. Lögð er áhersla á að vinna á biðlistum með þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og jafnframt lögð áhersla á að efla eftirfylgni með börnum og ungmennum með geðraskanir á vegum heilsugæslunnar og skóla- og félagsþjónustu sveitarfélaga að lokinni útskrift af göngu- eða legudeild barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.

Börn með geð- og hegðunarraskanir þurfa oft og tíðum þjónustu úr mismunandi þjónustukerfum og er þá bæði átt við þjónustu á ábyrgð ríkisins og á ábyrgð sveitarfélaga. Það er mikilvægt að eflt verði upplýsingaflæði og aukin samvinna milli þessara aðila til þess að samfella náist og sem bestur árangur í þjónustu við þennan hóp barna og fjölskyldna þeirra náist.

Mikilvægt er að nýta og efla þær leiðir sem flýtt geta fyrir greiningu og þar með tryggja þá þjónustu sem börn og ungmenni eiga rétt á, á öllum skólastigum og á vegum félagsþjónustu og sveitarfélaga um allt land.

Í kaflanum um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarvanda og vímuefnavanda er talað um aukna fjölbreytni og að foreldrunum sé veitt aðstoð og að gripið sé inn í hratt svo forða megi miklum veikindum og jafnvel dauða ungmenna sem eru í þessum vanda.

Í kaflanum um aðgerðir til að vernda börn og ungmenni gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum er fjallað um aðgerðir sem stuðla að öflugri vernd barna gegn slíku ofbeldi og sérstaklega þarf að huga að börnum í áhættuhópum, t.d. vegna fötlunar, barna á stofnunum eða þeirra sem búa við veika félagslega stöðu. Sérstaklega er mikilvægt að barnavernd, lögreglan og heilsugæslan vinni sem teymi að málefnum barna sem orðið hafa fyrir hvers kyns ofbeldi. Í því skyni er lagt til að komið verði á miðlægum gagnagrunni sem auðveldar slíkum teymum um allt land að grípa fyrr til aðgerða og verja börn gegn ofbeldi. Einnig að góð kynning fari fram á tilkynningarskyldu þeirra sem vinna með börnum og tilkynningarskyldu almennings, ásamt því að auðvelda nafnlausar tilkynningar hvort sem er fagmanna eða almennings.

Sjá þarf til þess að löggæslan nái einnig til þess sem á sér stað á veraldarvefnum. Taka þarf til skoðunar lagaheimildir er varða beitingu öryggisráðstafana eftir afplánun refsidóma gagnvart kynferðisbrotamönnum með barnagirnd á háu stigi. Þá er gert ráð fyrir því að starfsemi Barnahúss sem þverfaglega miðstöð vegna kynferðisbrota á börnum allt til 18 ára aldurs verði styrkt, einkum að því er varðar skýrslutöku á börnum og meðferð fyrir fjölskyldur þar sem hvers kyns ofbeldi hefur verið beitt.

Síðasti kaflinn er um aðgerðir í þágu barna innflytjenda. Þar er lagt til að stjórnvöld, atvinnulíf og samfélagið allt taki höndum saman um að berjast gegn fordómum. Kaflinn fjallar einnig um aðgerðir bæði almennar og sértækar til að tryggja fólki af erlendum uppruna sem flytur hingað til lands góðar móttökur og auðvelda því að taka þátt í íslensku samfélagi um leið og það ræktar sína eigin menningu og móðurmál. Órjúfanlegur þáttur í því starfi er að styrkja stöðu barna innflytjenda. Þar gegnir menntakerfið lykilhlutverki, einkum í íslenskunámi og móðurmálskennslu, sem er lykill innflytjenda að virkri þátttöku í samfélaginu. Skólar þurfa að gera foreldrum barna af erlendum uppruna kleift að taka þátt í foreldrasamstarfi skólanna og verður að þjónusta innflytjendur sérstaklega í heilbrigðiskerfinu.

Herra forseti. Þessi tillaga er löng og hún er ítarleg og í mörgum liðum og ég kemst ekki yfir að fara yfir allt saman á 15 mínútum. Tillagan er byggð á tillögu sem samþykkt var fyrir 11 árum síðan og unnin var í félagsmálaráðuneytinu og flutt af þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, en til viðbótar er brugðist við áhyggjuefnum og nýjum skýrslum og gagnrýni á það hvernig Íslendingar fara með barnasáttmálann. Undir tillöguna skrifa, ásamt þeirri sem hér stendur, allir þingmenn Samfylkingarinnar.



[15:52]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir einstaklega yfirgripsmikla og góða þingsályktunartillögu. Hluti af henni er einmitt þriðja valfrjálsa bókun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem liggur líka fyrir þinginu sem sérstök þingsályktunartillaga, þannig að ef þessi tillaga nær ekki nógu langt, af því að hún er mjög fjölbreytt og gæti verið erfitt út af ýmsum hlutum að klára, hún fari ekki alveg í gegn en ég hvet að sjálfsögðu hæstv. velferðarnefnd að klára, hún klárar yfirleitt, þá getum við alla vega klárað þann hluta.

Ég kem einmitt til að hvetja hv. velferðarnefnd til að vinna í gegnum þessa tillögu og vil hvetja nefndir almennt til að klára mál sem vísað er til þeirra og afgreiða úr nefnd til 2. eða síðari umr. Ég hef orðið vitni að ýmsum nefndarskapaæfingum þar sem mál eru stöðvuð með ýmiss konar hætti til þess að komast hjá því að þurfa að afgreiða málin út úr nefnd. Það eru vinnubrögð sem mig langar til þess að hverfi.

Mig langaði til þess að eiga örstuttan orðastað við hv. þingmann og flutningsmann þessarar tillögu, einmitt af því að þessi tillaga er svona viðamikil og kemur væntanlega til með að krefjast mjög yfirgripsmikillar vinnu velferðarnefndar og margra og fjölbreyttra umsagna. Mig langar að ræða hvernig við, allir þingmenn, getum hjálpast að við að klára afgreiðslu mála en að við séum ekki sífellt í seinni hluta afgreiðslu mála í nefndum að kalla eftir nýjum og nýjum og nýjum umsögnum og heimsóknum o.s.frv., sem virðist eingöngu vera til þess að koma í veg fyrir að málið komist úr nefnd.



[15:55]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari tillögu þar sem fjallað er um marga hluti er reynt að draga saman það sem þarf að gera til þess að bæta stöðu barna hér á landi. Það er auðvitað hægt að taka hér út einstök mál. Það eru fleiri liðir þarna inni sem eru annaðhvort þingmál eða ég veit að þingmál eru á leiðinni og það er allt í fína lagi. Þarna er bara gerð tilraun til þess að bregðast við athugasemdum bæði alþjóðaskýrslna og nefnda og áhyggjuefni umboðsmanns barna, og það tekið saman í eina heild.

Auðvitað eru þingmenn að vinna með einstaka þætti, en framkvæmdarvaldið er líka að gera það. Það er gott og vel. En það er afar mikilvægt að þingheimur bregðist við, ekki síst núna þegar við vitum að í góðærinu býr allt of stór hluti barna við hreina vanrækslu og fátækt. Það eru biðlistar í geðheilbrigðisþjónustu svo dæmi sé tekið. Við eigum auðvitað að taka utan um þetta og bregðast við. Við eigum að sjá um stefnumótunina og færa framkvæmdarvaldinu niðurstöðuna.

Varðandi afgreiðslu í nefndum þá þekkjum við það auðvitað að það eru of mörg mál sem eru bara sett ofan í skúffu og þingmenn draga þau fram aftur og aftur til þess að reyna að vekja athygli á þeim og þau komast ekki áfram og inn í þingið. Ég hef skilning á því að nefndir hafi ekki tíma til þess að vinna öll mál, það er þannig, en það kemur of oft fyrir að í þingnefndum sé fundafall af því að það er ekkert stjórnarmál til þess að vinna með. Þá á auðvitað að nýta tímann til þess að fara í málin sem bíða. Ég vona að það verði breyting á slíku vinnulagi frá og með þessu þingi.



[15:57]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður sagði. Ég hef séð tilbúið mál, mál með nefndaráliti, vera í rauninni stöðvað inni í nefnd. Þegar komið er á það stig málsins að búið er að afgreiða umsagnir og nefndarálit fyrir nefnd er tilbúið þá á að hleypa því, að því að mér finnst, til 2. umr. í þinginu, nefndin er búin að klára sitt ferli. Ég ber líka mjög mikla virðingu fyrir því að að sjálfsögðu eru nefndir að glíma við mjög mörg mál og það er forgangsröðun á tíma þar o.s.frv. Sum mál þurfa kannski ekki heimsóknir af því að skriflega umsögnin á að duga. Það ætti ekkert í heimsókn til nefndar að koma fram aukalega á munnlegum vettvangi sem er ekki til í skriflegri umsögn. Það getur gerst auðvitað í spurningum fram og til baka, en skrifleg gögn ættu að vera það sem við byggjum á, m.a. vegna þess að nefndarfundir eru ekki opnir og aðgangur fólks að upplýsingum sem koma fram munnlega í nefndinni er erfiður, verða oft bara orð á móti orði þegar komið er síðan inn í þingsal og verið að togast á um það, þessi sagði hitt og hinn sagði þetta. Það er mjög erfitt viðfangs.

Nú er þetta mjög viðamikil þingsályktunartillaga og mjög vel gerð að því leyti til. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé einhvers konar innbyggt ferli í þessu, t.d. kostnaðaráætlun, svo ég komi að þessu frá fjárlaganefndarsjónarmiðinu.



[15:59]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að gerð verði áætlun til fjögurra ára og hún verði tímasett og sett verði inn viðmið þannig að hægt verði að árangursmeta með reglulegu millibili.

Mér finnst það mjög mikilvægt. Við getum auðvitað sett fram einhver falleg orð eins og við erum að gera og samþykkt alls konar stefnur sem eru ekki fjármagnaðar og ekki tímasettar og ekki árangursmetnar, en þarna erum við að tala um málefni barna á Íslandi. Í fyrsta lagi eigum við ekki að leyfa okkur að vera ekki með áætlun í þessum efnum þannig að það er mjög mikilvægt að setja áætlunina niður. Það er mjög mikilvægt að hún sé fjármögnuð. Ég hef ekki reiknað út hvað það kostar að bæta þessa stöðu, en það mun kosta. Ein tillagan er t.d. að nýtt barnahús verði sett á laggirnar, það mun kosta. En það mun margborga sig. Það borgar sig fyrir öll ríki að huga vel að börnunum sínum. Það er sama hvernig á það er litið. Þessi tillaga er innlegg inn í það. Við getum gert betur hér á landi þegar kemur að því að bæta hag barna og styrkja stöðu þeirra.

Svo er það spurningin hvernig við vinnum hérna í þinginu. Tíminn hefur mikið að segja og auðvitað erum við stundum að vinna bara að tæknilegum málum. Oft erum við að vinna að málum sem við erum öll 100% sammála en samt komast þau ekki áfram. Svo erum við líka í pólitík. Þá er kannski erfitt stundum fyrir meiri hlutann að hleypa einhverju máli í gegn ef minni hlutinn er ekki sammála um málið. Þegar við erum sammála þá eigum við að ganga frá hlutunum sem ég vona að eigi við um þessa tillögu.



[16:01]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þessi tillaga skuli vera komin fram. Hún leysir eitt stærsta vandamál þegar kemur að velferð barna á Íslandi sem er að þótt börn hafa réttindi og búið sé að samþykkja þau í lög, þótt barnasáttmálinn sé í lögum á Íslandi og vinna ætti eftir honum, búið er að útfæra það í alls konar reglugerðum og slíku, þá er það bara ekki gert. Oft er svarið: Það eru ekki til peningar fyrir því. En það er ekki nógu gott svar. Ég held að allir hérna inni geti sagt við sjálfan sig: Já, velferð barna á að vera hafin yfir allan vafa. Við ætlum sem samfélag að sameinast um að hafa það þannig.

Ég veit að formaður velferðarnefndar, hv. þm. Halldóra Mogensen, er mjög skilvirk þegar kemur að því að gæta jafnræðis þegar mál fara í gegnum nefndina. Ég veit því að hún mun passa upp á að málið verði unnið vel. En það er, eins og var nefnt í andsvörum áðan, ákveðin hætta þegar pólitíkin fer að þvælast fyrir og menn eru að passa upp á að þessi eða hinn fái ekki viðurkenningu fyrir þetta og hitt o.s.frv. Ég vona að menn fari ekki þangað og ef þeir fara þangað finni þeir einhverja lendingu þannig að velferð barna sé alltaf hafin yfir vafa, að það sé alltaf grunnstefið. Kannski mun vinnsla málsins þýða að gerð verður eitthvað sameiginlegt með það svo að enginn geti eignað sér heiðurinn umfram aðra. Lykilatriðið verður að vera að velferð barna sé hafin yfir vafa. Ég myndi segja að þessi tillaga sé, miðað við það sem ég veit um stöðuna, það stærsta sem hægt er að gera í einu stökki. Við þurfum að stilla upp og vera með aðgerðaáætlun um hvernig ætlum við að innleiða þessa hluti.

Ég er talsmaður barna og hef verið það í tæpt ár fyrir þingflokk Pírata. Allir þingflokkar eru með talsmann barna og við hittum UNICEF í gær sem sér um að meginhlutverk starfsstöðvarinnar á Íslandi sé að benda okkur og stjórnvöldum á að búið sé að lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Það eina sem vantar er stefnumótunin, að lögunum sé raunverulega framfylgt. Eitt af því sem mun auka líkurnar á að það sé gert er það sem kemur fram hér, að þriðja valfrjálsa bókun um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði lögfest hér á landi. Það gefur barninu í raun heimild, ef réttindi barns eru ekki uppfyllt getur barnið kvartað til Sameinuðu þjóðanna og Sameinuðu þjóðirnar fara þá í að láta virkja þetta með ríkari hætti og beina því til stjórnvalda: Þið hafið ekki staðið ykkur í stykkinu. Þið eruð búin að samþykkja samninginn. Þið eruð búin að lögfesta hann. Þið standið ykkur ekki í stykkinu.

Ég vona að þetta mál fái góðan framgang. Ég veit að það mun fá það hjá minni hlutanum í velferðarnefnd, ég trúi ekki öðru. Ég mun alla vega fylgjast vel með því ef menn ætla að reyna að stöðva málið á ómálefnalegan hátt eða þvælast fyrir, slíkt getur gerst í pólitíkinni á þinginu. En ég vil segja, eins og flutningsmaður málsins, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir: Látum ekki pólitíkina þvælast fyrir. Lykilþemað í samtölum okkar á alltaf að vera réttindi barnsins, velferð barnsins verður að vera hafin yfir vafa. Tillagan gengur langt í þá átt.



[16:05]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir þessa flottu og góðu þingsályktunartillögu. Hún er viðamikil og mér þykir vænt um þessa „samþættu nálgun“ — ég ætla að orða það þannig; ég er að reyna að finna íslensk orð fyrir enska orðið „intergrate“, með leyfi forseta, vona að það sé rétt. Það er nefnilega svo mikilvægt að það sé heildarsýn í þessu og að hin mörgu og mismunandi ráðuneyti komi að og taki þátt í þessari vinnu út af því að þetta á við um svo marga hluta af þjóðfélaginu okkar sem þarf að skoða til að tryggja velferð barna okkar og fjölskyldna og samfélagsins alls. Mér þykir ótrúlega vænt um það.

Ég ætla að taka fram sérstaklega það sem höfðar til mín eða talar til mín þegar verið er að tala um að það yrði samráðsvettvangs ríkisins og aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga að móta tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Það er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutímann sveigjanlegri. Við getum tekið þetta til okkar hér á þingi að huga að því að gera þetta starf fjölskylduvænna því að ekki veitir af því.

Ég hef mikið talað fyrir því að við þurfum að sníða vinnumarkaðinn að þörfum fólksins, að þörfum fjölskyldna í landinu, en ekki öfugt eins og gert er í dag. Það eru þessi helstu atriði sem mig langaði til að undirstrika. Ég tek líka eftir því að það eru margþættar aðgerðir sem eru allar mjög flottar; að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði, það skiptir ofboðslega miklu máli. En eins og ég hef alltaf talað fyrir þá finnst mér einnig mikilvægt að hugað sé að einstæðum foreldrum sem eiga ekki rétt á jafn löngum tíma og tveir foreldrar. Ég veit að það skiptir gríðarlega miklu máli að við reynum að hvetja báða foreldra til að taka þátt í uppeldi barna sinna en við verðum samt að horfast í augu við þá staðreynd að stundum er bara ekki vilji til staðar og stundum er það mögulega ekki einu sinni æskilegt. Það er bara staðreynd sem við verðum að horfa á þegar við tökum þessar ákvarðanir.

Mig langar kannski að nefna aðeins út af því að nú hefur verið rætt um það hvernig þetta verður afgreitt í nefndinni og pólitíkin í kringum þetta allt saman. Það eina sem ég sé fyrir mér sem myndi kannski standa í vegi fyrir þessu, og ég hefði átt að koma í andsvör við hv. þingmann um, er hvort það væri kannski ekki bara sniðugt í nefndarstarfinu, nú velti ég þessu bara upp, að fá einhvers konar kostnaðaráætlun frá fjármálaráðuneytinu á kostnaðinum við þessa þingsályktunartillögu sjálfa, við aðgerðirnar, eða við að setja saman þennan hóp og vinna þessa vinnu bara svo að við höfum einhverja upphæð sem við getum unnið með. Ég get nefnilega ímyndað mér að þetta gæti mjög auðveldlega verið skotið niður út af því að ekki sé gert ráð fyrir þessu í fjárlögum þannig að það er gott að vita hvaða upphæðir við erum að tala um.

Ég er sammála því að þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni og það á ekki að falla á því að við höfum ekki efni á því. Þetta er verkefni sem við eigum að hafa efni á, en það skiptir kannski máli að vita hvaða upphæðir við erum að tala um.

Ég get sagt það fyrir mitt leyti sem formaður velferðarnefndar að þá verður ekki og hefur ekki verið fundarfall í velferðarnefnd ef ekki liggur fyrir stjórnarmál til að afgreiða. Það skiptir mig gríðarlega miklu máli að við afgreiðum þingmál stjórnarandstöðuflokkanna og þau fái góða umfjöllun og við afgreiðum þau út úr nefndinni. Þótt það sé pólitískt erfitt fyrir ríkisstjórnarflokkana að fella þau í atkvæðagreiðslu, þá á samt að gera það. Ég mun alla vega hafa það að leiðarljósi í minni vinnu við þetta. Ég hlakka bara til að taka á þessu flotta máli.



[16:09]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún veltir fyrir sér fjárhagsáætlun, að það sé veikleiki að ekki sé búið að græja hana. Mér finnst fín hugmynd að reyna að átta sig á því hvað það kostar að gera svona áætlun. Síðan endurskoðun við fjármálaáætlun til fimm ára á hverju ári og komum með nýtt fjárlagafrumvarp á hverju ári, þannig að það er hægur vandi að bregðast við áætluninni og setja hana niður í fjármálaáætlun og síðan í fjárlög.

Ef vilji stendur til að taka utan um málefni barna eins og tillagan gerir ráð fyrir þá höfum við efni á þessu öllu — það aðeins spurning um forgangsröðun. Með þessari tillögu erum við í Samfylkingunni að segja: Málefni barna, það á að raða þeim framar.



[16:10]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Ég er bara alveg gjörsamlega sammála seinasta ræðumanni og hef ekki mikið meira um það að segja.



[16:11]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. „Það eina sem skiptir í rauninni virkilegu máli er að vera góður við börn.“ Svo mælti hin vísa og hagyrta Vigdís Grímsdóttir. Held ég að með þessari þingsályktunartillögu séum við að fanga svolítið kjarnann í því til hvers við erum hérna. Þetta er einhvern veginn svo rétt. Það eina sem skiptir raunverulegu máli er að vera góður við börn. Börnin eru nútíminn og börnin eru framtíðin. Börnin eru fræið okkar, jurtin okkar og akurinn allur. Ef við ræktum þau ekki sem skyldi, ef við hlúum ekki almennilega að þeim og gætum ekki að því að þau blómstri, þá er voðinn vís.

Þess vegna var ég svo innilega ánægð þegar hv. þm. Oddný Harðardóttir viðraði fyrst hugmynd sína um þessa þingsályktunartillögu sem hún mælti fyrir í dag um aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna af því að þau eru nútíminn og framtíðin okkar allra, þau eru blómin okkar og akurinn.

Í þessari þingsályktunartillögu má sjá magnaða áætlun í 49 ígrunduðum liðum. Sumir liðirnir eru svo sjálfsagðir að við getum öll verið sammála um að sæti furðu að séu ekki nú þegar í framkvæmd. Aðrir liðir eru smærri, varða afmarkaða þætti en ekki minna sjálfsagða. Öll varða þessi atriði djúpa hagsmuni barna og eru til þess að auka jafnræði á meðal barna á Íslandi, gæta þeirra ýtrustu hagsmuna og til þess að veita þeim þá vernd sem okkur ber skylda til þess að veita, bæði okkur sem einstaklingum, okkur sem foreldrum, en líka okkur sem stjórnvöldum. Það er í lögum landsins að við verðum að veita þeim vernd.

Einhverra hluta vegna þá er þetta ekki hávær hópur. Þetta eru ekki háværir hagsmunaaðilar, börnin okkar. Þess vegna færast þau oft aftar í röðina þegar kemur að úthlutun fjármuna í ákveðna málaflokka. Það þarf að auka við fjárhagslegan, heilbrigðislegan og samfélagslegan stuðning við börnin okkar og við getum það svo vel.

Þetta eru 49 atriði. Mig langar að koma örlítið inn á nokkur sem ég tengi mjög við, sérstaklega vegna fyrra starfs míns sem lögmaður.

Í II. kafla er fjallað um aðkomu dómstóla og sýslumanna að málefnum barna. Þar er rætt sérstaklega um mikilvægi þess að dómstólar og sýslumannsembætti tryggi rétt barns til að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir er varða málefni þess, hvort sem verið er að gera það í fyrsta sinn eða þegar endurmeta skal fyrri ákvarðanir um forsjá, umgengni eða búsetu. Hér er um að ræða öll mál, hvort sem um er að ræða deilu milli foreldra eða deilur þar sem stjórnvöld eru að hlutast til um þessi mál, þ.e. barnaverndarnefndir eru í málarekstri við foreldri barna eða foreldra.

Það er eitt gríðarlega mikilvægt atriði líka sem ég vil benda sérstaklega á, sem er að efla sifjadeildir sýslumannsembættanna þannig að þær geti betur sinnt lögbundnum skyldum sínum um flýtimeðferðir í málum er varða börn, þannig að t.d. umgengnismál fái sérstaka flýtimeðferð. Í þessum málum er algjört ófremdarástand á Íslandi í dag. Þegar ákveðið var að sameina sýslumannsembættin um land allt þá var t.d. talað um það hér á höfuðborgarsvæðinu að sifjadeildirnar yrðu efldar sérstaklega af því að það hafði verið ófremdarástand fyrir sameiningu. Langir málahalar höfðu safnast upp þannig að sviðin, embættin, gátu ekki sinnt sinni lögbundnu skyldu. Það var ákveðið að fara sérstaklega í það að efla sifjadeildina þannig að mál sem varða forsjá, lögheimili og umgengni barna, fengju almennilega meðferð hjá embættinu.

Eins og staðan er núna þá starfa níu löglærðir fulltrúar á sifjasviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, en þeir voru ellefu fyrir sameiningu. Sérfræðingar í málefnum barna voru fjórir hér á höfuðborgarsvæðinu, en það eru sérfræðingar sem sinna þeim lögbundnu hlutverkum að koma að sáttameðferð milli foreldra þegar deilt er um forsjá, lögheimili og umgengni. Það er í barnalögum að foreldrar verða að mæta í þessa sáttameðferð af því að það er talið ótvírætt hagsmunum barna fyrir bestu að foreldrar reyni að komast að samkomulagi. Þessir fjórir sérfræðingar sinntu öllum þessum viðtölum. Hlutverk þeirra er líka að tala við börnin og kanna afstöðu þeirra til málsins. Ef ekki kemst á samkomulag milli foreldranna þá gefa þeir út svokölluð sáttavottorð sem verður að hafa, ætli maður að fara fyrir dóm með málið. Ef ekki takast sættir þá verður fólk að hafa þetta vottorð um að það hafi farið í sáttameðferð.

Eins og áður sagði voru þessir sérfræðingar í málefnum barna fjórir en eru núna á öllu landinu tvö og hálft stöðugildi. Engu umgengnismáli hefur verið úthlutað hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu frá því í apríl sl., ekki einu. Það er þvílíkt ástand þarna að starfsfólkið getur ekki tekið við fleiri málum.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að þarna úti eru börn sem líða kvalir út af þessari vanrækslu stjórnvalda. Börn sem fá ekki að hitta foreldra sína. Börn sem fá ekki að hitta annað foreldri sitt. Börnum sem er meinað að hitta það foreldri sem fer eitt með forsjá. Alls konar svona mál sem bíða úrlausnar, bíða bara eftir að fá þetta vottorð, bíða vegna þess að það er ekki hægt að afgreiða þessi mál. Þótt ég myndi bara tala um þetta atriði þá verðum við að bæta málin þarna.

Mig langar líka að vekja sérstaka athygli á ákvæði 2. liðar í II. kafla sem varðar gjaldfrjálsa uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni. Það er nefnilega eitthvað sem við eigum ekki að venjast. Við förum á alls konar hlýðninámskeið með gæludýrin okkar. Hundaeigendur leggja mikið á sig til þess að læra hvernig á að fá hund til þess að ganga samhliða eiganda sínum og eru vikum saman í alls konar námskeiðum til þess að fá hunda til þess að hætta að hafa hátt, en það spyr enginn hvort við getum þjálfað börnin okkar í góðum háttum. Ég tel líka að það sé mjög mikilvægt að þetta sé gjaldfrjálst, þá verður það að sjálfsögðum hlut fyrir okkur að leita aðstoðar áður en í óefni er komið, og að það sé búið til einhvers konar kerfi sem tekur utan um unga foreldra sérstaklega eða foreldra sem eru að eignast sitt fyrsta barn. Við þurfum ekki bara að fara á námskeið til að læra hvernig á að koma börnunum í heiminn, við þurfum líka að læra hvernig við eigum að hugsa um þau eftir að þau eru komin. Ég fagna því þessu ákvæði mjög.

Loks fagna ég líka mjög þeirri tillögu sem má sjá einnig í II. kafla, sem er mér mjög hugleikinn, að komið verði á fót sérstöku barnahúsi sem vinni með börnum foreldra sem eiga í forsjárdeilum, búa við heimilisofbeldi eða leita eftir alþjóðlegri vernd og það sé jafnframt boðið upp á barnamiðaða fjölskylduráðgjöf. Þetta atriði skiptir mjög miklu máli. Þó að vissulega aðstoði Barnahús börn sem hafa lent í heimilisofbeldi þá er það í rauninni ekki viðurkennt á Íslandi að forsjárdeila, hatröm forsjárdeila, sé heimilisofbeldi. Það getur á köflum verið heimilisofbeldi og bitnað mjög harkalega á börnum sem sýna mikil streituviðbrögð í langvarandi forsjárdeilu. Þetta skiptir líka mjög miklu máli. Vil ég þakka höfundi kærlega (Forseti hringir.) þingsályktunartillögunnar fyrir að setja þetta líka inn.



[16:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmanni fyrir ágæta ræðu áðan og að mér sýnist öllum þingflokki Samfylkingarinnar fyrir að leggja fram þetta mál. Ég held að þarna sé verið að snerta á ákaflega mikilvægum þáttum. Í rauninni er verið að taka saman í eina tillögu marga afar mikilvæga þætti sem geta verið leiðarljós fyrir stjórnvöld í sambandi við það hvernig við eigum að koma heildrænt að málefnum barna. Það held ég að sé afar mikilvægt.

Flutningsmenn vita náttúrlega eins og sá sem hér stendur að sum þessara mála eru í vinnslu hjá stjórnvöldum um þessar mundir og um sum málanna hafa verið teknar ákvarðanir. En mér finnst andinn í tillögunni vera svolítið að heildarsýn vanti. Það kann vel að vera að sú hugsun sem kemur fram í nýjum titli hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra eigi að einhverju leyti að fanga þá sýn sem það ráðuneyti á að fara að sýna, það er vel ef svo er. En hér má segja að klukkaðir séu nánast allir þeir þættir, ef svo má að orði komast, sem þarna þurfa að vera undir. Ég held að það sé mjög gott.

Það eru nokkur atriði sem ég velti fyrir mér. Það er til að mynda liður 7 í kafla II um barnahúsið. Ég velti fyrir mér hvort slíkt hús eða starfsemi gæti verið í samstarfi við það barnahús sem þegar er til eða hvort það þyrfti að vera algjörlega aðskilið. Það er ein vangavelta.

Ég velti líka fyrir mér með þá liði sem snúa að geðrænum vanda barna og ungmenna, sérstaklega lið 3 og 4 sem snúa beint að Landspítala – háskólasjúkrahúsi, hvort félagsmálaráðherra sé endilega aðilinn sem eigi að halda utan um það. Kannski ættum við að fá umboðsmanni barna alla þá þræði að halda í og til að vera hinn stóri samhæfingaraðili. Ef svo ætti að vera þyrfti náttúrlega að efla það embætti umtalsvert.

Ég hef fylgst ágætlega með umræðunni og til að mynda hafa sumir þingmenn komið inn á að allt muni þetta kosta peninga og svoleiðis. Auðvitað er það rétt, en samfélagið ver þegar töluvert miklum fjármunum til stuðnings börnum og barnafjölskyldum og þá kannski meira hitt stjórnsýslustigið, þ.e. sveitarfélögin, þar sem í mjög mörgum sveitarfélögum fara alveg upp undir 3/4 af öllum fjármunum sveitarfélaganna í rekstur leikskóla og grunnskóla. Féð er því notað á skynsamlegan hátt, en hins vegar vantar, eins og ég skil anda tillögunnar, samhæfinguna og yfirsýnina.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna neitt rosalega mikið. Ég hlakka til að taka á málinu í hv. velferðarnefnd og eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Halldóra Mogensen, sagði áðan munum við fjalla vel og vandlega um það og reyna að klára það og koma því í gegnum nefndina. Þetta er ljómandi gott mál og þarft og mikilvægt og þarft að þingið sýni vilja sinn í því að taka á málefnum barna af myndugleik.



[16:26]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil aðeins örstutt þakka fyrir þessa góðu umræðu. Tillagan gengur út á það að ráðuneytin sem hafa eitthvað með málefni barna að gera og sveitarfélögin, fulltrúar þeirra, setjist niður og vinni þessa áætlun; að fólk á vegum ráðuneytanna vinni áætlunina, en hvert og eitt ráðuneyti sjái auðvitað um sitt.

Hættan er sú, og því miður eru nokkur svæsin dæmi um það, að börn lendi einhvern veginn á milli stjórnsýslustiganna. Ríkið segir sveitarfélögin eiga að sjá um þetta og sveitarfélögin segja ríkið eiga að sjá um þetta, þess vegna er svo mikilvægt að sveitarfélögin séu með í þessari áætlunargerð.

Ég hlakka til að fá tillöguna aftur inn til síðari umr. og til atkvæðagreiðslu. Ég vona að þetta þing afgreiði hana. Ég óska hv. velferðarnefnd alls hins besta í þeirri vinnu. — Takk fyrir umræðuna.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.