149. löggjafarþing — 12. fundur.
skýrsla um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins.

[10:37]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra hefur nú tekið við skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Þar er fjallað um margt mikilvægt, m.a. hluti sem var löngu tímabært að skoða formlega. Nokkrir af vinstri kanti stjórnmálanna hafa að vísu sett út á að í skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins sé of mikið fjallað um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, of lítið um skoðanir þeirra sjálfra á innanlandspólitíkinni. Í leiðinni hafa menn hnýtt í aðalhöfund skýrslunnar og persónu hans, jafnan sama fólk og heldur því fram að það sé algjörlega óforsvaranlegt að gagnrýna fræðimenn. Það á þá væntanlega bara við um nógu vinstri sinnaða fræðimenn.

En hvað finnst hæstv. fjármálaráðherra um niðurstöður skýrslunnar og hvernig hyggst hann fylgja málinu eftir? Verða þessi mál tekin upp við fulltrúa erlendra ríkja og alþjóðastofnana og verður til að mynda farið fram á afsökunarbeiðni frá breskum stjórnvöldum?



[10:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta innlegg í umræðuna um skýrsluna, um erlenda áhrifavalda í aðdraganda hrunsins. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er orðið tímabært og mikilvægt að fylla inn í heildarmynd umræðunnar með því að skoða sérstaklega erlendu áhrifaþættina.

Það er auðvitað þannig að við höfum á fyrri stigum mála breytt lögum, fengið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, meira að segja komið á fót Landsdómi og gengið til kosninga í nokkur skipti, og öll umræðan hefur snúist um innlenda áhrifavalda. Þess vegna taldi ég á sínum tíma mikilvægt að skoða erlendu þættina. Það sem við erum með í höndunum núna er samantekt, yfirlit yfir ýmsa þætti sem miklu skipta, t.d. að Íslendingar voru greinilega einangraðir á sínum tíma. Það gildir bæði hvað varðar samstöðu innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en eins og allir muna tók marga mánuði að fá niðurstöðu í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna pólitískra deilna á þeim vettvangi um það hvort ætti að koma Íslandi til aðstoðar, og sömuleiðis voru nágrannaþjóðir okkar mjög tregar nema undir sérstökum stífum skilyrðum að styðja við þá efnahagsáætlun. Þetta er mjög athyglisvert og mikilvægt að halda til haga.

Hvað varðar Bretland sjáum við í skýrslunni samantekt um að þeir bankar sem voru felldir þar, Singer & Friedlander og Heritable-bankinn, voru alls ekki í neinum greiðsluvanda og greiddu til baka skuldir sínar ólíkt mörgum bönkum sem bjargað var og voru í miklu verri stöðu.

Þetta er afskaplega mikilvægt að sé aðgengilegt á einum stað í heildaryfirliti. Hér hef ég aðeins snert á örfáum atriðum sem ég tel mikilvægt að séu opinber, (Forseti hringir.) séu til staðar, þau eru núna til reiðu á ensku til þess að fylla inn í og vera til aðstoðar við að skýra ýmsa áhrifavalda í aðdraganda hrunsins á Íslandi.



[10:41]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er hægt að taka undir það sem hæstv. ráðherra fór yfir í máli sínu og gerði ágætlega, en hvað með svarið við spurningunni um það hvernig ráðherrann hyggist fylgja málinu eftir? Hyggst hann ekki vinna úr þessu áfram, rétt eins og hæstv. ráðherra nefndi að fyrri vinna við að skoða ýmsa áhrifaþætti bankahrunsins hefði leitt til einhvers konar aðgerða, sumra kannski vel heppnaðra og annarra síður? Fyrst við erum sammála um mikilvægi þess sem þarna er haldið til haga og fjallað mjög ítarlega um og færð í mörgum tilvikum mjög sterk rök fyrir, er þá ekki nauðsynlegt að mati hæstv. ráðherra að fylgja málinu eftir, t.d. með formlegum athugasemdum við hlutaðeigandi aðila, hvort sem það eru fulltrúar erlendra ríkja eða fulltrúar alþjóðastofnana sem var jafnvel misbeitt, eins og fram kemur í skýrslunni, og hvað með Bretland sérstaklega (Forseti hringir.) og þá aðkomu sem lýst er í skýrslunni hvað varðar það ríki?



[10:42]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Sumt af því sem er rætt um í skýrslunni eru atburðir sem liðnir eru og það þjónar litlum tilgangi að reyna að benda á að hlutirnir hafi verið með einhverjum hætti. Tökum sem dæmi efnahagsaðstoðina innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það mál er frágengið, öll lán eru endurgreidd í dag.

Annað er þess eðlis að ekki síst varð tjón hjá einkaaðilum vegna þess. Það er þá fyrir þá að gæta að réttarstöðu sinni og hafa uppi athugasemdir.

Síðan eru hlutir sem varða beint samskipti við erlend stjórnvöld. Ég vil halda því til haga í þessari umræðu að við höfum í gegnum tíðina margoft haft uppi athugasemdir, t.d. gagnvart breskum ráðamönnum vegna þeirrar framgöngu sem Ísland varð fyrir af þeirra hálfu á sínum tíma. Það hef ég gert við mörg tækifæri sjálfur, persónulega, en ég ætla alls ekki að útiloka að skýrslan gefi tilefni til þess að taka upp þráðinn sérstaklega í einhverjum tilvikum án þess að ég sé tilbúinn til þess að úttala mig um hvaða mál það yrðu (Forseti hringir.) nákvæmlega sem þar ættu í hlut.