149. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2018.
andlát vegna ofneyslu lyfja.

[10:54]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki endilega að koma hérna upp í óundirbúnar fyrirspurnir að þessu sinni. En ég bara get ekki annað í ljósi þeirra ummæla sem hæstv. heilbrigðisráðherra lét falla í svari við fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar, þar sem hún talaði um hversu vel við stæðum að okkar geðheilbrigðismálum samanborið við aðrar þjóðir, sem tjóðri jafnvel veika fólkið sitt og loki það inni í búrum. Ef þetta er mælikvarðinn á það að við séum með gott geðheilbrigðiskerfi, þá er nú ansi illa fyrir okkur komið.

Það er komin út skýrsla um að það eru 39 einstaklingar sem hafa dáið vegna lyfjaeitrunar það sem af er ári, fleiri en allt árið í fyrra, 39 einstaklingar. Er þetta ásættanlegt, hæstv. heilbrigðisráðherra?

Hvað getum við gert raunhæft í stöðunni og gert það strax án þess að vera að bíða eftir að horfa á eftir fleirum? Það stefnir hér í stórslys. Það er vöxtur í fjölda deyjandi ungmenna og fólks vegna lyfjaeitrunar. Hvað eigum við að gera í stöðunni? Getum við eitthvað gert á einum sólarhring eins og þegar við hjálpuðum brothættum byggðum sunnanverðra Vestfjarða og tókum höndum saman öll sem eitt? Ég efast ekki um það, hæstv. heilbrigðisráðherra, að hér inni myndi hver einasti þingmaður, ég ætla að alhæfa hér og nú, vilja taka þetta mál í fangið með þér af öllu hjarta og fylgja því svo vel úr garði að við sæjum lækkun í fjölda þessara dauðsfalla frekar en sívaxandi hækkun.



[10:56]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er auðvitað mikilvægt að eiga orðaskipti í gegnum ræðustól Alþingis en ég vil biðja um að orð mín séu ekki mistúlkuð, vegna þess að það er alvarlegt að gera. Þegar ég segi að staða okkar í geðheilbrigðismálum sé góð miðað við það sem sums staðar gengur og gerist í heiminum en að við getum samt gert betur er það nákvæmlega það sem ég er að segja. Ég er ekki að segja að það dugi til og að við þurfum ekki að gera meira. Ég bið hv. þingmanna að láta mig um að túlka orð mín og hún sér svo um sín.

Er ásættanlegt að 39 einstaklingar hafi dáið? Dettur einhverjum í hug að svarið sé já? Dettur einhverjum í hug að það sé ekki daglegt viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda í ábyrgu ríki að hafa áhyggjur af slíku? Hvers konar umræða er það að gefa því rými yfir höfuð að einhver heilbrigðisráðherra í einhverri ríkisstjórn í einhverju landi á einhverjum tímum segi: Já, það er ásættanlegt. Ég vil biðja þingmanninn að gæta að því að þetta er grafalvarleg umræða. Hún er ekki til þess fallin að gera því skóna að fólk hafi ekki áhyggjur af stöðunni. Það hef ég sannarlega og hef beitt mér í þá veru að breyta umgjörð lyfjamála til að draga úr læknadópi, eins og það er kallað, í umferð. (Forseti hringir.) Ég hef kallað (Forseti hringir.) eftir tillögum og upplýsingum þeirra sem best þekkja til eftir aðgerðum. Mörgum þeirra hefur verið komið (Forseti hringir.) til framkvæmda. Betur þarf að gera, enn þá frekar, bæði í forvarnamálum og meðferðarmálum. En þetta er, virðulegur forseti, mál sem er á dagskrá á hverjum degi í ráðuneyti heilbrigðismála.



[10:59]
Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Ég túlkaði orð hennar, með fullri virðingu, nákvæmlega eins og þau voru sögð, ekki á neinn annan hátt. Hæstv. ráðherra verður að vanda orðavalið betur í pontu Alþingis ef á að túlka orð hennar einhvern veginn öðruvísi en þau eru matreidd.

Ég ætlaði að benda á að þegar við tölum um að 39 einstaklingar hafi látist hér af lyfjaeitrun þá er stærsti hlutinn af því fólki á biðlista eftir aðstoð og meðferðarúrræðum hjá SÁÁ. Það vantar nokkur hundruð milljónir inn í fjármálin hjá SÁÁ til að geta staðið undir þeirri þörf sem þar er, til að standa undir því sem kallað er eftir bæði í samfélaginu og af bestu sérfræðingum okkar.

Þá er spurningin: Er virkilega ekki hægt að koma til móts við og a.m.k. athuga hvort það yrði ekki til góðs að gefa betri kost og gefa fólkinu okkar meiri möguleika á því að komast fyrr í hjálpina en raun ber vitni?



[11:00]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður. Mér finnst mikilvægt að umræðan um slík mál sé ekki í upphrópunarstíl heldur snúist frekar um að við horfum á verkefnið með þeim alvarlegu augum sem okkur ber.

Eitt af því sem er til skoðunar og ég hef áður rætt við hv. þingmann undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir eru meðferðarúrræði fyrir yngsta hópinn, þ.e. krakkana sem eru yngri en 18 ára. Komið hefur á daginn að sá hópur þarf sérstaka athygli og af þeim sökum höfum við, ég og hæstv. félagsmálaráðherra, freistað þess að stilla saman strengi betur en áður hefur lánast að gera. Þetta er alls staðar vandamál í stjórnsýslunni, sílóin og veggirnir milli ráðherra og ráðuneyta, en vegna þess að okkur finnst málið alvarlegt finnst okkur mikilvægt að stilla saman strengi bæði er varðar meðferðarúrræði og aðkomu og hlutverk barnaverndar á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Það verkefni er í forgangi hjá báðum ráðuneytunum. Ég fullvissa hv. þingmann (Forseti hringir.) um að þau orð mín eru þannig að þau er ekki hægt að misskilja.