149. löggjafarþing — 20. fundur.
heilbrigðisþjónusta o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 185. mál (dvalarrými og dagdvöl). — Þskj. 189.

[19:13]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar. Frumvarpið byggist á frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 148. löggjafarþingi, 426. mál, en hlaut ekki afgreiðslu.

Frumvarpinu er ætlað að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða beiðnum eftir þörf. Einnig eru gerðar ákveðnar breytingar sem nauðsynlegar eru taldar til samræmingar og skýringar.

Ákvæði um dvalarrými og dagdvöl er nú einungis að finna í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, en ekki í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Rétt þykir að bæta í þau lög ákvæðum um dvalarrými og dagdvöl svo og í lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Í lögum um málefni aldraðra kemur fram að þótt hjúkrunarheimili séu skilgreind fyrir aldraða sé heimilt að bjóða yngri einstaklingum dvöl þar hafi þeir verið metnir í þörf fyrir slíkt úrræði. Samkvæmt gildandi ákvæðum eru úrræði um dagdvöl og dvalarrými einungis ætluð öldruðum. Um langa hríð hafa komið upp tilvik þar sem óskað hefur verið eftir undanþágum til dvalar í dvalarrýmum og í dagdvöl fyrir einstaklinga sem eru yngri en 67 ára. Lagastoð fyrir slíkum undanþágum hefur vantað, en með þeirri breytingu á löggjöfinni sem hér er lögð til verður heimilt að veita undanþágu frá aldursskilyrði varðandi dvalarrými og dagdvöl. Má því segja að í raun sé hér gefin lagastoð fyrir framkvæmd sem hefur verið við lýði um allnokkurt skeið.

Við samningu þessa frumvarps var haft samráð við Sjúkratryggingastofnun Íslands og Tryggingastofnun. Þá voru einnig haldnir samráðsfundir með Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, NPA-miðstöðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Við endurflutning þessa frumvarps hefur verið leitast við að mæta athugasemdum og ábendingum sem fram hafa komið eftir því sem mögulegt var. Fram kom ánægja með þá fyrirætlun sem lögð er til í frumvarpinu, að faglegt inntökuteymi mæti þörf á dagdvöl. Sú heimild sem felst í frumvarpinu, að opna úrræðin fyrir þá sem eru yngri en 67 ára, mun helst koma til álita þegar um er að ræða unga einstaklinga með minnissjúkdóma eða sérstaklega erfiða sjúkdóma. Bent var á að þarfir fólks eru mismunandi á mismunandi aldursskeiðum, sem er sannarlega rétt, og að tillit þurfi að taka til þess í þjónustu við fólk. Mikilvægt er að matsnefndir og/eða inntökuteymi hafi slík sjónarmið til hliðsjónar þegar mat á þörf fyrir dagdvalarþjónustu fer fram.

Stofnanaþjónusta eins og í dvalarrýmum og reyndar líka í hjúkrunarrýmum á einungis að koma til þegar faglegt mat er að það þjónustuúrræði mæti best þörfum viðkomandi og önnur úrræði duga ekki til. Mikilvægt er að þjónustan sé veitt í samræmi við þarfir hvers einstaklings og í samráði við hann.

Í frumvarpinu er lagt til að 24. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, verði breytt þannig að skýrt sé að sjúkratrygging nái til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl, sem samið hefur verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Breytingin er til þess fallin að skýra orðalag núgildandi laga að því er varðar dvalarrými og dagdvöl.

Í frumvarpinu er einnig að finna reglugerðarheimild sem ætlunin er að setja í lög um málefni aldraðra til handa ráðherra til að kveða nánar á um fyrirkomulag faglegs inntökuteymis og skilyrði mats á þörf fyrir dagdvöl.

Þá er gert ráð fyrir breytingu á lögum um málefni aldraðra þannig að í stað þess að hámark kostnaðarþátttöku fyrir dagdvöl einstaklings miðist við óskertan grunnlífeyri verði miðað við 18% af fullum ellilífeyri samkvæmt 23. gr. laga um almannatryggingar. Svokallaður grunnlífeyrir ellilífeyrisþega var afnuminn frá 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, þegar bótaflokkar ellilífeyrisþegar voru sameinaðir. Fjárhæð hins nýja ellilífeyris er mun hærri en fjárhæð eldri grunnlífeyris og því þykir nauðsynlegt að breyta ákvæðinu þannig að miðað verði við ákveðið hlutfall af fullri fjárhæð hins nýja ellilífeyris sem samsvarar fyrri fjárhæð grunnlífeyris ellilífeyrisþega að teknu tilliti til þeirra hækkana sem orðið hafa á bótum almannatrygginga.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps en vil segja í lokin á framsögu minni að á síðasta þingi hafði hv. velferðarnefnd forvera þessa frumvarps, ef svo má að orði komast, til umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu, sem mér fannst rétt og málefnaleg, að málið væri ekki nægilega unnið til að ljúka afgreiðslu þess frá Alþingi, enda hefði þurft að gera betur að því er varðaði samráð við þá sem löggjöfina varðaði. Af þeim sökum hefur ráðuneytið nú brugðist við þeim athugasemdum, auk fleiri sem fram komu í meðferð nefndarinnar á síðasta þingi, en ég vænti þess núna, virðulegur forseti, að búið sé að svara þeim spurningum sem upp komu í umfjöllun nefndarinnar á fyrri stigum. Málið ætti núna að teljast fullbúið til að ljúka að þessu sinni og ég vænti þess að eiga gott samstarf við hv. velferðarnefnd í þeim efnum.



[19:20]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og framlagningu á þessu frumvarpi. Ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp og ræða svipaða þætti og ég ræddi þegar hún lagði fram þetta frumvarp síðast. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir í ræðu sinni kemur þetta frumvarp nú fram aftur og mér finnst mjög gott að búið sé að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið hjá hagaðilum.

Ég hef lengi haft efasemdir um það hvort rétt væri að inni á hjúkrunarheimilum byggi fólk sem væri miklu yngra en 67 ára. Ég hef fullan skilning á því að upp kunni að koma aðstæður þar sem eðlilegt er að mismuna fólki ekki eftir aldri, en þegar við erum aftur á móti að tala um ungt fólk sem mun búa inni á slíku heimili í fjölda ára finnst mér það líta svolítið öðruvísi út. Ég ætla alls ekki að leggjast gegn frumvarpinu, ég styð það og hef fullan skilning á því að í ljósi þess að við erum með regluverk í kringum hjúkrunarrýmin okkar sé eðlilegt að hið sama gildi um dagdvalir og dvalarheimili. Oft og tíðum er verið að ræða um eitthvert stutt árabil.

Ég vek máls á þessu af því að ég held að við þurfum að huga sérstaklega að þörfum ungs fólks sem býr á hjúkrunarheimilum og þá ætti það sama að eiga við um fólk sem býr í dvalarrýmum.

Ég hygg að þetta fólk þurfi oft annars konar þjónustu en þeir sem eldri eru. Ég fagna því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að bent er á að við eigum auðvitað að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og að þjónustuþörfin geti verið mjög ólík óháð aldri en það breytir því ekki að félagsleg staða þeirra sem yngri eru er oft og tíðum öðruvísi.

Ég held að það sé mikilvægt verkefni fyrir okkur á næstu misserum þegar þjóðin er vissulega að eldast, og það er ljóst að það er mikil þörf á fleiri hjúkrunarrýmum en líka dvalarrýmum og dagdvalarrýmum, að horfa til þess hvort við þurfum í auknum mæli að bjóða upp á sérstaka þjónustu þegar um yngri einstaklinga er að ræða og jafnframt að velta því þá upp hvort það sé frekari fjárþörf þegar um yngri einstaklinga er að ræða.

Ég vísa sérstaklega til máls sem ég þekki býsna vel og varðar unga einstaklinga sem búa á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ. Ég veit að Mosfellsbær hefur sótt til hæstv. ráðherra um auknar greiðslur með þeim ungu einstaklingum. Ráðuneytið hefur að einhverju leyti komið til móts við slík sjónarmið. Ég veit að í Reykjavík er rekin á Brekkubæ sérstök deild sem er tilraunaverkefni þar sem ungir einstaklingar sem þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda búa saman.

Ég vildi bara vekja athygli á þessu máli og brýna okkur sem hér erum inni og sérstaklega hæstv. ráðherra til að horfa sérstaklega til þess máls þegar kemur að þessum málaflokki.

Þá langar mig líka að nefna grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun eftir Pétur Magnússon, formann Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þar sem hann spyr: „Gleymdust dagdvalirnar eða er ætlunin að leggja þær niður?“

Ég hygg að svar okkar hér sé að það sé alls ekki ætlunin að leggja þær niður og vil bara ítreka hversu mikilvæg þjónusta það er fyrir einstaklingana sem hennar njóta og aðstandendur. Við verðum líka að velta upp kostnaðarþættinum. Dagdvalarþjónustan er mjög hagkvæmt úrræði fyrir hið opinbera og þar af leiðandi held ég að það sé mikilvægt að við gefum í ef eitthvað er þegar kemur að þeim þjónustuþætti.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar. Ég vildi bara benda á þetta þegar við erum að ræða um að opna enn frekar á það að yngri einstaklingar geti nýtt sér slíka þjónustu. Ég ítreka að ég hef skilning á því að oft og tíðum kunni það að vera besta lausnin en ég held að það mikilvægasta sé að það sé ekki eina lausnin sem í boði er, að einstaklingarnir og aðstandendur þeirra hafi val þegar kemur að þjónustu og það að við tryggjum fyrst og fremst að þjónustan sé miðuð við þarfir viðkomandi aðila.



[19:25]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði bara að koma stutt upp. Þetta þingmál kom til okkar í velferðarnefnd á seinasta þingi. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir kom þar í ljós að ekki hafði verið haft nægilega gott samráð og var málið þá sent aftur í ráðuneytið. Ég fagna þeirri ákvörðun að taka málið upp aftur og fara í samráðsferli. Þetta er ótrúlega gott og það er rosalega mikilvægt að við gerum þetta. Ég vona að við séum meira að komast í vanann að hafa þann hátt á þegar verið er að vinna þingmál í ráðuneytunum, að það sé haft alvörusamráð. Ég tel mjög jákvætt skref og gott að við séum að gera það á þann hátt og hlakka til að skoða þetta mál í velferðarnefnd. Ég vonast til að sjá uppbyggilegri umræðu um þetta mál þar þar sem margir gestir sem munu koma fyrir nefndina hafa fengið að eiga þetta góða samráð við ráðuneytið.



[19:26]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og fleiri lögum. Málið hefur verið kallað dagdvalar- og dvalarrýmismálið. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan kom málið fyrir þingið á síðasta þingi en að lokinni umfjöllun í hv. velferðarnefnd var það samdóma álit ráðuneytisins og nefndarinnar að málið þyrfti að fá að þroskast meira og að leitað skyldi eftir meira samráði en hefði verið gert í aðdraganda flutnings þess þá. Það hefur nú verið gert og það er vel.

Ég held mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu að þau ákvæði sem við erum að breyta hér eru ákvæði til að taka á undantekningartilfellum. Það var einmitt sú gagnrýni sem kom hvað sterkast fram í umfjöllun nefndarinnar, að menn höfðu áhyggjur af því að hér væri verið að búa til farveg fyrir almenn úrræði fyrir yngra fólk. En auðvitað er það ekki svo, hér er verið að skýra leiðir og tryggja að einstaklingum sem þurfa á tiltekinni þjónustu að halda verði ekki meinað um þá þjónustu á grundvelli aldurs. Það er fyrst og síðast það sem við erum að gera.

Við megum heldur ekki gleyma því að dagdvalar- og dagþjálfunarþjónusta er mjög mikilvæg fyrir marga aldurshópa. Ráðherra kom inn á að við erum kannski í þessum hópi fyrst og fremst að tala um einstaklinga með minnissjúkdóma sem þurfa í einhverjum tilfellum á þessari þjónustu að halda og afar mikilvægt að þeim sé ekki neitað um hana. Varðandi það sem hefur aðeins verið komið inn á í umræðunni, að hér sé um að ræða úrræði sem henti ekki alltaf yngri einstaklingum, þ.e. bæði dvalarrýmin og dagdvalirnar, getur það auðvitað verið en ég held að með tíð og tíma muni menn aðlaga þjónustuna. Sú krafa hefur líka verið uppi í samfélaginu að við reynum að bregðast við því eins og hægt er.

Sem betur fer er það þannig að með aukinni áherslu á utanstofnanaþjónustu og með aukinni áherslu á lausnir eins og notendastýrða persónulega aðstoð minnkar vonandi smátt og smátt þörf fyrir stofnanaþjónustu fyrir yngri einstaklinga, hvort heldur þeir eru með alvarlega sjúkdóma eða heilabilanir. Vonandi mun þetta frumvarp ekki eiga við um mjög marga einstaklinga á hverju ári, en það er mikilvægt að hafa þessa heimild.

Dagdvöl og dagþjálfun eru tiltölulega ódýr úrræði eins og hefur raunar komið fram í umræðunni. Við erum að tala um úrræði þar sem hægt er að sinna býsna mörgum einstaklingum fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir og um leið auðvelda þessum einstaklingum og fjölskyldum þeirra að halda áfram sjálfstæðri búsetu. Það er gríðarlega mikilvægt og það má ekki gera lítið úr því.

Ráðherra kom aðeins inn á heimildarákvæði í reglugerð um inntökuteymi fyrir dagdvalir og dagþjálfanir. Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd muni ræða það atriði eitthvað frekar. Það er spurning hvort setja þarf upp mikinn strúktúr í kringum það þegar við erum að ræða um að dagdvöl og dagþjálfun er meðferðarúrræði, það er í rauninni meðferð þessara einstaklinga sem um ræðir. Það er spurning hvort það eigi að vera einhvers konar nefnd sem eigi að segja til um meðferð. Það er kannski alveg nóg að tilgreina hvaða heilbrigðisstéttir eða heilbrigðisstarfsmenn geta óskað eftir þessu úrræði og að þeirra faglega mat á hverjum tíma dugi. Við munum ræða þetta nánar í nefndinni.

Eitt hefur ekki verið rætt hér sem ég ætla að lokum að koma aðeins inn á, kostnaðargreining á dagdvalar- og dagþjálfunarúrræðum. Við höfum heyrt það úti í samfélaginu, raunar kom hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir aðeins inn á það áðan, að þeir sem reka dagdvalir og dagþjálfanir bera sig illa af þeim framlögum sem koma frá Sjúkratryggingum vegna þeirra, þ.e. að framlögin séu of lág. Þetta hefur raunar verið í umræðunni um þó nokkurt skeið. Ég vænti þess að þótt það komi ekki beint þessu frumvarpi við noti hæstv. ráðherra ferðina og noti það tilefni sem frumvarpið vekur til að velta þessum málum upp, nefndin mun vafalítið gera það líka, og ræða jafnvel við hagsmunaaðila um það með hvaða hætti væri hægt að koma þeim málum betur fyrir þannig að kostnaðargrunnurinn undir dagdvalirnar sé nægilega styrkur. Þetta úrræði væri þá hægt að reka af þeim myndugleik sem þarf til þess að gera það annars vegar eftirsóknarvert og hins vegar til að geta þjónað því hlutverki sínu að vera úrræði sem hjálpar upp á sjálfstæða búsetu. Það er væntanlega það sem við viljum að fólk geti búið við sem allra lengst.



[19:33]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér erum við með til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á heilbrigðisþjónustu og breytingu á sjúkratryggingum. Yfir um og allt í kring svífa svo lögin um málefni aldraðra. Þessar lagabreytingar eru kannski ekki meiri háttar í hinu stóra samhengi og einhver myndi segja að hér væri um formsatriði að ræða og að það sé verið að skerpa á þáttum sem óljósir voru áður eða ekki skilgreindir í lögum og fella orðalag lagatextans að þeim hugtökum sem við notum í heilbrigðiskerfinu eða sjúkratryggingakerfinu. Hæstv. ráðherra benti áðan á að í raun væri verið að festa í lög eitthvað sem menn hefðu tíðkað í nokkurn árafjöld.

Ég fagna þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þessum texta frá því að við fjölluðum um hugmyndina í velferðarnefnd á fyrra þingi, þ.e. að einstaklingar yngri en 67 ára geti verið í dvalarrými jafnt og í hjúkrunarrými og auk þess í dagdvöl. Þetta eru viðkvæm atriði og ég tek undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni hvað þetta snertir. Þetta eru viðkvæm atriði og við getum hugsanlega staðið frammi fyrir því þegar um yngra fólk er að ræða að fólk þurfi að flytja búferlum, eftir aðstæðum að rjúfa búsetu þar sem það var áður búsett og flytja sig. Það kann að verða þannig.

Varðandi dagdvalirnar er þetta náttúrlega knýjandi með yngri einstaklinga eins og komið hefur verið inn á, varðandi alzheimersjúklingana okkar eða þá sem eru haldnir minnissjúkdómum. Það er brýnt að það sé mjög markviss þjónusta og að menn fái að nýta krafta sína eins og kostur er við þar til gerðar aðstæður. Þar ræður kannski ekki eingöngu aldurinn.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom aðeins inn á þetta með inntökuteymin varðandi dagdvalirnar. Ég tek undir með honum varðandi það, dagdvalarúrræðin eru gríðarlega mikilvæg og þurfa að vera virk. Þau þurfa að koma til þegar þörfin skapast því að þetta eru oftast einstaklingar sem búa heima og þurfa þjónustuna tafarlaust eða tafarlítið til að hún nýtist sem best. Það á auðvitað einnig við um fólk sem er að koma af sjúkrastofnunum. Það er bara áhyggjuefni að skrifræðið megi ekki bera ofurliði þessa ágætu þjónustu. Það verður spennandi að fást við þetta í nefndarstarfinu.

Fátt er hafið yfir allan vafa og það hefur einmitt komið fram. Hagsmunasamtök fatlaðra brugðust við og töldu að þarna væri hugsanlega vegið að hugmyndafræðinni um notendastýrða persónulega aðstoð sem auðvitað var ekki hugmyndin. Það hefur nú verið skýrt, vel fyrir mína parta, enda er á því hnykkt í greinargerð að stofnanavist eigi ekki að vera það fyrsta sem við hugsum heldur eigi að vera aðrir kostir. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á það í öllu okkar starfi á komandi misserum þegar við ræðum um heilbrigðisþjónustu almennt og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk.

Mig langar rétt í blálokin að fara þess á leit við hæstv. ráðherra, ef hún kemur að lokum í ræðustól, að fjalla svolítið um mat á kostnaði. Hér kemur fram að þetta muni ekki hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð og heldur ekki fyrir einstaklinginn sem nýtir sér dagdvalarrými, það verði ekki kostnaðarsamara fyrir viðkomandi að nýta sér þessa kosti. Það kemur örlítið fram í tölulegum upplýsingum, en það er hafið yfir allan vafa að ekki sé verið að taka meiri gjöld fyrir þessa þjónustu.

Svo vænti ég þess að við eigum bara gagnlegt samtal í velferðarnefnd um þetta frumvarp og getum afgreitt það skjótt og með bros á vör.



[19:39]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar (dvalarrými og dagdvöl).

Mér finnst þetta mikilvægt skref í rétta átt. Við verðum að átta okkur á því að þjónusta sem þessi verður oft að vera á breiðari grundvelli í ljósi aðstæðna hverju sinni. Þó er hér tekið sérstaklega fram að markmiðið með frumvarpinu sé að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða eftir þörf. Forgangsröðunin skiptir töluvert miklu máli.

Því miður höfum við þannig fólk í okkar samfélagi sem þarf á sambærilegri þjónustu að halda en það uppfyllir kannski ekki þau skilyrði sem til eru í lögum og eru aldursbundin. Þá þarf að sækja um undanþágu frá því sem nú vantar. Mig grunar að slík þjónusta sé samt sem áður oft og tíðum veitt og get því skilið að það sé mjög mikilvægt að þetta þarfa mál nái fram að ganga.

Ég tek ekki undir það að fólk þurfi að hafa áhyggjur af því að þessi þjónusta verði ekki áfram faglega veitt þó að um sé að ræða yngri skjólstæðinga. Ég treysti fagmennsku heilbrigðisstarfsfólks fyllilega þegar kemur að því að meta slíkar þarfir.

Það að ramma inn þjónustuna er mikilvægt, en við þurfum auðvitað að taka mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins. Það er mikilvægt að halda því til haga að við séum ekki að hefta þann möguleika að yngri skjólstæðingar njóti umönnunar.

Ég vil einnig brýna það að lokum að þótt breytingarnar virðist vera formfestulegar, að hér sé verið að gera smávægilegar breytingar á einhverju sem nú þegar hefur kannski verið nýtt, skiptir einnig máli að við tökum tillit til mögulegrar kostnaðaraukningar í þessu tilliti. Að öðru leyti vonast ég til þess að umræðan verði áfram góð um þessa þjónustu, tel brýnt að frumvarpið nái fram að ganga og styð það heils hugar.



[19:42]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og skoðanaskipti um frumvarp það sem hefur verið mælt fyrir.

Ég er með nokkrar vangaveltur, í fyrsta lagi það sem er rauður þráður í gegnum þetta mál, að hér erum við í raun og veru að hluta til að gera það sem hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson bendir á, að festa í sessi framkvæmd sem hefur verið við lýði í þó nokkurn tíma. Þó verður ekki hjá því litið að horfa til þess að hér svífur líka ákveðinn vandi yfir vötnunum í því hvernig við viljum sjá meginlínur í þjónustunni taka breytingum, í fyrsta lagi þann þátt sem lýtur að því að það er ekki bara aldur sem miðað er við þegar forgangsraðað er í tiltekin úrræði, heldur miklu frekar er það þörf og mat á hverjum tíma. Það má segja að það sé í vissum skilningi barn síns tíma að láta aldurinn einan duga sem mælikvarða í þessum efnum.

Hins vegar vil ég segja hér, vegna þess að það hefur komið fram í máli allnokkurra þingmanna, að framtíðarsýn eldra fólks, heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar, sveitarfélaga og ekki síður heilbrigðisyfirvalda er á þann veg að það sé sífellt aukin þörf fyrir sveigjanleg úrræði og, eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi, verður aukin þjónusta heim vaxandi krafa. Það er sú krafa dagsins sem við verðum að bregðast við. Áherslan á fjölgun dagdvalarrýma er ekki bara orð á blaði heldur líka raunverulega sýnileg í áherslum stjórnvalda og er með það að markmiði að róa í sömu átt og samtök eldri borgara hafa ítrekað bent á, krafan um að geta búið heima eins lengi og mögulegt er og fólk óskar, þ.e. að þjónustan kallist á við þá þörf en byggi ekki á þörfum kerfisins ef svo má segja og þess vegna verði áherslan á utanstofnanaþjónustu aukin. Þetta sjáum við ekki bara í þjónustu við eldri borgara heldur líka í geðheilbrigðismálum og í fleiri málaflokkum sem við aðeins vikum að fyrr í dag þegar við vorum að ræða forvarnamál. Þetta er allt saman mjög sambærileg þróun.

Ég vil enn og aftur þakka nefndinni fyrir gott samstarf á síðasta þingi. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum þennan möguleika, og sveigjanleika vil ég kalla það, í samstarfi milli þingsins og ráðuneytanna á hverjum tíma, að það sé gagnkvæmur skilningur á því að ef eitthvað þykir vanta í ferlið sem þarf til að fullnægja því að það skapist nægilegt traust um breytingar á löggjöf og þá þurfi maður að gefa þann tíma og treysta það samstarf og samráð sem nauðsynlegt er. Ég þakka fyrir jákvæð orð í þá veru og tel sjálf að breytingarnar sem hafa verið gerðar á málinu hafi verið verulega til góðs, en ekki síst það sem hefur verið búið skýrar um í orðalagi í greinargerð sem lýtur að samspili þeirra þjónustuúrræða sem hér eru lögfest annars vegar og hins vegar róttækum breytingum sem hafa orðið á löggjöfinni í þá veru að tryggja enn frekar einstaklingsmiðaða þjónustu, samanber lögin um notendastýrða persónulega aðstoð.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson ræddi sérstaklega framlög vegna dagdvalar og dagþjálfunar. Eins og fram hefur komið í umræðum í fjölmiðlum að undanförnu hafa fyrirtæki í velferðarþjónustu lýst áhyggjum af stöðunni þar. Það er rétt að gera þinginu grein fyrir því að samningar vegna hjúkrunar- og dvalarrýma renna út um áramót en það er heimild til að framlengja þann samning um tvö ár. Viðræður standa yfir, en þetta er sannarlega ekki einfalt mál, ekki síst í ljósi þess að þjónustan er lifandi og tekur stöðugt breytingum. Viðræður um rammasamning um dagdvalarrými standa yfir og ég vænti þess að ef velferðarnefnd óskar eftir því að verða upplýst um framgang þeirrar vinnu eftir því sem þurfa þykir sé sjálfsagt að gera það þegar málin fara að skýrast.

Hv. þm. Guðjón Brjánsson spurði líka aðeins um kostnaðarmálin. Því er til að svara að hér er ekki gert ráð fyrir fjölgun rýma þannig að ekki er aukinn kostnaður innbyggður.

Að lokum er rétt að þakka fyrir góða umræðu og góðar undirtektir. Að mínu mati er mikilvægt að búa bæði þannig um að löggjöfin endurspegli raunverulega framkvæmd, það er nokkuð sem við eigum auðvitað alltaf að gera, en þar að auki geta glöggir lesendur veitt því athygli að hér eru ákveðnir tónar á ferð sem gefa fyrirheit um breyttar áherslur að því er varðar málefni eldra fólks.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.