149. löggjafarþing — 22. fundur.
mótun klasastefnu, fyrri umræða.
þáltill. WÞÞ o.fl., 28. mál. — Þskj. 28.

[18:14]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun klasastefnu. Umræðan sem fór fram á undan og það hvernig hæstv. forsætisráðherra lauk erindi sínu um endurmat peningastefnu og einhæft atvinnulíf, síldarbresti, og að lausnin væri í rannsóknum og þróun, menntun og atvinnustefnu er algerlega samofið því máli sem ég mæli fyrir.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem er í gildi 2017–2019 þar sem markmið nýrrar klasastefnu verði að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt en hingað til, að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs, efla nýsköpun, efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar og efla hagsæld.

Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2019. Ég tel slíka stefnumótun getað skilað miklum ávinningi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og ekki síst þegar við skoðum uppbyggingu atvinnu í tengslum við nýtingu auðlinda um landið gervallt og markvissari nýtingu fjölmargra sjóða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun, hvort sem um ræðir vísindamenn innan menntageirans eða verkefnadrifna sjóði. Við getum kallað það innlegg í markvissari byggðastefnu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að málið var áður flutt á 144., 145. og 146. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Af því að lagt er til að klasastefna verði mótuð í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, sem vísað er til í þingsályktunartillögunni í tilvísun eitt, ætla ég að lesa það sem þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Til að viðhalda þeim lífsgæðum sem landið hefur að bjóða þarf því að sækja fram, vinna þvert á fræðigreinar og starfssvið, horfa til þess sem best gerist erlendis og auka sköpun verðmæta um leið og þjónusta samfélagsins er efld.“

Tillagan sem við ræðum, um opinbera klasastefnu, styður vel þær áherslur sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um vel ígrundaða stefnumótun og mikilvægi slíkrar stefnumörkunar þar sem upplýsingavinnsla og hagtölugerð er forsenda vandaðrar stefnumótunar og til aukins skilnings á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu, auknum sveigjanleika þess til að fylgja árangri eftir og markvissari ákvörðunartöku stjórnvalda, stofnana eins og háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja.

Á blaðsíðu níu í sömu skýrslu segir enn fremur, er varðar rannsóknir og nýsköpun í heimi örra breytinga og áskorana, með leyfi forseta:

„Samfélög í dag standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði t.d. umhverfis, loftslags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis. Mikilvægt er að fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum og vísi veginn í átt til árangursríkra lausna.

Slíkar lausnir krefjast oft umfangsmikils samstarfs þvert á fræðigreinar og á milli háskóla, stofnana og fyrirtækja. Til að ný þekking nýtist samfélaginu verður hún að hafa áhrif til breytinga, t.d. í stefnu stjórnvalda, með lagasetningu, með breyttu verklagi fyrirtækja og stofnana eða með breyttri hegðun fólks. Í samfélagslegum áskorunum felst töluverð óvissa því erfitt er að segja fyrir um áhrif þeirra og hvernig best sé að bregðast við. Skýr framtíðarsýn og markviss fjárfesting í þekkingu eykur möguleikana jákvæðum árangri og farsælli aðlögun að breyttum aðstæðum.“

Sú tillaga sem við ræðum er einmitt til þess fallin. Í aðgerðaáætluninni er komið inn á þær samfélagslegu áskoranir að efla þurfi þverfaglegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun með þátttöku háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Dæmi um slík áherslusvið er að finna í nágrannaríkjum okkar þar sem tekist er á við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir; breytingar í hafinu, loftslagsbreytingar, samfélagsþátttöku og lýðræði, umhverfisvænar borgir og nýja tækni. Markmiðið með því öllu saman er að efla forgangsröðun í fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun, m.a. í gegnum markáætlun og innviðasjóð, og samræma betur alþjóðlegt samstarf stjórnvalda um rannsóknir og nýsköpun á evrópskum og norrænum vettvangi.

Þetta er í raun og veru kjarninn í hugmyndafræði klasastarfs og fellur mjög vel að því sem fram kemur í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

Skilgreining Nýsköpunarmiðstöðvar á klasa er landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem bæði eiga í samkeppni og í samvinnu. Þetta er að finna í tilvísun tvö í tillögunni, virðulegi forseti.

Í tillögunni er jafnframt lögð áhersla á að líta til alþjóðlegrar reynslu og þekkingar á því sviði. Í greinargerðinni kemur fram að ráðgert er að við vinnuna verði litið til reynslu Dana, Norðmanna og þeirra þjóða sem lengst eru komnar í mótun opinberrar klasastefnu. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin skili skýrslu, eins og ég kom inn á áðan, og í þeirri skýrslu er mikilvægt að tekin sé saman sú reynsla sem hefur safnast upp, ég nefni Noreg, Danmörku og Evrópusambandið sem hefur unnið að klasastefnu í áratugi. Mjög æskilegt væri að það kæmi fram í skýrslunni.

Ýmsar rannsóknir og skýrslur staðfesta að klasasamstarf er vænlegt tæki til að efla nýsköpun og samkeppnishæfni smærri og meðalstórra fyrirtækja. Klasasamstarf hefur því í auknum mæli verið nýtt til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar um allan heim og til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Mikil áhersla er lögð á nýsköpun í nútímaklasastjórnun, enda skiptir nýsköpun sköpum í langtímauppbyggingu atvinnugreina.

Hugmyndafræðin er í sjálfu sér þekkt hér á landi og Nýsköpunarmiðstöð Íslands er leiðandi aðili á sviði rannsókna og þróunarstarfs og hefur gefið út leiðbeiningarhandbók um klasastjórnun, sem er að finna í tilvísun þrjú í tillögunni. Það hafa reyndar ýmis góð klasatengd verkefni litið dagsins ljós, bæði að frumkvæði hins opinbera en þó fremur í atvinnulífinu, sem við köllum sjálfsprottna klasa, á borð við sjávarklasann, jarðvarmaklasann og ferðaklasann, svo að ég nefni nokkra sem hafa náð nokkuð góðum árangri og sannað gildi sitt. Stefna ætti að aukinni áherslu á samvinnu milli rannsóknastarfs og þeirra klasa sem þegar hafa náð fótfestu og á að nýta þann grunn. Ég get nefnt dæmi um jarðvarmaklasann sem hefur starfað hér hvað lengst.

Hvað getur sprottið af svona klasastarfi? Við höfum þrisvar sinnum haldið risastórar alþjóðlegar ráðstefnur sem hafa farið stækkandi og sem dæmi er alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan sem haldin var í Hörpu 2016 um fjölnýtingu jarðvarmans. Hún er mjög gott dæmi um hvað getur sprottið á slíkum vettvangi og í samvinnu fyrirtækja í milli og stofnana og fræðasamfélags. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar á borð við Michael Porter. Þar voru 1.000 gestir frá 40 þjóðum að deila þekkingunni. Með ráðstefnunni hefur Íslandi eða íslenska jarðvarmaklasanum tekist að byggja Ísland upp sem helsta umræðuvettvang jarðvarma og endurnýjanlegrar orku á heimsvísu.

Okkur tókst síðan í kjölfarið að fá alheimsráðstefnuna, sem er haldin á fimm ára fresti, í samkeppni við lönd eins og Síle, Þýskaland Holland, Kenía, Filippseyjar og Bandaríkin. Sú ráðstefna fer fram hér 2020.

Ef hið opinbera markar ekki stefnu og tekur ekki þátt í verkefnum eins og því förum við á mis við tækifæri og hætta er á, ef slíkur stuðningur og skuldbinding er ekki fyrir hendi, að slík verkefni fjari út.

Þetta er dæmi um það sem getur unnist í klasavinnu þar sem þekking kemur saman úr mörgum áttum, úr fræðasamfélagi, frá stofnunum, hinu opinbera, úr atvinnulífinu.

Ég nefndi Danmörku og Noreg þar sem unnið hefur verið með klasastefnu. Norðmenn skilgreina þrenns konar klasaform í klasastefnu sinni, sem er gefin út. Hæstv. forsætisráðherra nefndi atvinnustefnu. Við höfum ekki enn þá komið með atvinnustefnu en þetta er auðvitað samofið atvinnustefnu og gæti vel átt heima í þeirri vinnu eða sem hluti af atvinnustefnu.

Norðmenn skilgreina héraðsklasa sem einstök landsvæði sem hafa styrk umfram önnur. Við verðum að skilgreina allar auðlindir, styrkleika og veikleika eftir svæðum. Með opinberum, faglegum og fjárhagslegum stuðningi og mótframlagi frá fyrirtækjum og atvinnulífi á svæðunum sammælast menn þar um að einbeita sér að uppbyggingu atvinnulífs í kringum atvinnugreinar á svæðinu og skylda starfsemi.

Norðmenn skilgreina landsklasa sem samvinnu ólíkra klasa í sömu atvinnugrein þar sem styrkja má innviði klasasamstarfs sem bæti starfsskilyrði heildarinnar á ólíkum sviðum og í nýsköpun, menntun og markaðsmálum stjórnenda, upplýsingum o.fl. Síðan eru Norðmenn með alþjóðlega klasa þar sem þeir eru í fararbroddi í heiminum, í olíuvinnslu, í siglingum og fleiri greinum. Það er markvisst hlúð að þeim lykilatvinnugreinum til að auka samkeppnishæfni Noregs, bæði erlendis og innan lands, í krafti klasasamstarfs.

Danir tóku sömuleiðis upp opinbera klasastefnu árið 2013 en þeir, líkt og Norðmenn, skipta klösum í héraðs-, lands- og alþjóðlega klasa. Danska mennta- og vísindaráðuneytið gaf út nýsköpunarstefnu í desember 2012 þar sem framtíðarsýn danskra stjórnvalda er að styrkja samvinnu og smíða brýr milli vísindarannsókna, menntunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Lausnir á sviði nýsköpunar eiga að vera lykill að vexti og hagsæld, eins og þar kemur fram.

Þær áherslur sem ég vísa til og koma fram í skýrslu danska menntamálaráðuneytisins eru ekki ósvipaðar þeim sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Í skýrslunni er athyglisverð nálgun á nýsköpun þar sem segir að fólkið sé skapandi og atvinnulífið og fyrirtækin drifkrafturinn sem umbreyti þeirri nýsköpun í aukin verðmæti og atvinnutækifæri. Til að svo megi verða þurfi að leggja áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu með öflugri stefnumótun.

Áhugasamir finna þá nýsköpunarstefnu í tilvísun fjögur í þingsályktunartillögunni.

Í dönsku fjárlögunum fyrir árið 2015 náðist sátt milli allra þeirra ólíku stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á danska þinginu og byggist hún í raun á þeirri stefnu þar sem sett var fram ítarleg klasastefna sem ein af lykilstoðum nýsköpunarstefnunnar. Ný og uppfærð stefna tók gildi í Danmörku fyrir árin 2016–2018 og hana lét ég fylgja í tilvísun fimm í tillögunni fyrir áhugasama.

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga sú sem við ræðum, um mótun klasastefnu, er einmitt ætluð til að móta farveg vinnu við eflingu nýsköpunar og atvinnulífs vítt og breitt um Ísland. Með opinberri klasastefnu er hægt að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu verðmætasköpunar sem leiðir af sér aukna framleiðni og hagsæld, líkt og annars staðar hefur verið gert. Ég nefndi Noreg og Danmörku sem dæmi en það má leita fanga víðar.

Ég tel afar mikilvægt að við lítum til alþjóðlegrar reynslu sem finna má af slíkri opinberri stefnumótun. Ég tel hana til þess fallna að efla nýsköpun, auka samkeppnishæfni atvinnugreina á landsvísu og alþjóðlega auk þess að vera farvegur fyrir aukna samvinnu skóla, rannsókna og atvinnulífs. Hún mun einnig leiða til þess að við ráðstöfum fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt.

Með mér á tillögunni eru hv. þingmenn Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni gangi tillagan til hv. atvinnuveganefndar.



[18:30]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir ítarlega og greinargóða framsögu. Það eru nokkur atriði sem mig langaði aðeins að reifa við hv. framsögumann.

Hið fyrsta er að við erum með stóra nefnd í gangi sem er að móta nýsköpunarstefnu fyrir Ísland á vegum nýsköpunarráðherra. Ég tók eftir því að hv. framsögumaður nefndi að klasastefna væri einn af lykilþáttum í nýsköpunarstefnu Dana. Þá fer þetta nú kannski að verða spurning um hænuna eða eggið. Mér finnst einhvern veginn að það væri hægara að byrja á nýsköpunarstefnunni og láta hana leiða til þeirra verkfæra sem hentugust þykja. Við höfum svo sem, eins og hv. þm. nefndi og veit auðvitað um, gert ýmsar tilraunir í þessa veru. Við höfum verið með landshlutaáætlanir og við höfum verið með sóknaráætlanir og sumt af því hefur tekist bærilega en annað miður.

Hv. framsögumaður gerði líka grein fyrir því að það eru til nokkrir sjálfsprottnir klasar. Margir þeirra hafa gengið mjög vel. Það sem ég er að reyna að koma orðum að hér er að ég held að það sé miklu vænlegra til árangurs í svona klasahugmyndum, sem vissulega eru víða og hafa gefist ágætlega, að hið sjálfsprottna ráði för. Ég vil nú ekki nota orðið þvinga, en það að reyna með einhverjum hætti að búa eitthvað til sem er ekki sjálfsprottið held ég að endi ekki vel. Við ættum frekar að hugsa þetta þannig að styðja við hið sjálfsprottna heldur en að reyna að búa til klasa með handafli.



[18:32]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er hárrétt að það eru margir sjálfsprottnir klasar sem ég kom inn á í ræðu minni sem hafa gert frábæra hluti og gengur mjög vel. En hugmyndafræðin gengur út á samvinnu þvert á greinar. Mikið af þessum sjóðum og mikið af eflingu rannsókna og nýsköpunar er á vettvangi hins opinbera. Klasi byggir einmitt á því að við tökum þátt í þessu klasasamstarfi. Það er alltaf hætta á að við sitjum bara hjá og það verði gjá á milli. Að sama skapi er mjög mikilvægt að tengja alla háskólana við þetta, fræðasamfélagið, atvinnulíf og hið opinbera.

Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni og ég tek undir með honum varðandi nýsköpunarstefnuna, ég þekki þennan hóp hæstv. nýsköpunarráðherra, ég er varamaður í þeim hópi og er mjög áhugasamur um þessi mál. Sú leið sem Danir fóru í kjölfarið á nýsköpunarstefnunni var að þeir voru mjög fljótir að stíga skrefið lengra og sammæltust um klasastefnu sem er í raun og veru samofin nýsköpunarstefnunni og er bara tæki til þess að virkja nýsköpun.

Reynslan erlendis frá af þessu í þeim skýrslum sem ég hef þó grautast í gegnum er einmitt sú að öll vinna verður markvissari, eins og með alla stefnumótun, öll ráðstöfun fjármuna verður markvissari og svo leiðir þetta af sér, þegar aðilar úr ólíkum áttum vinna saman, að það gerast góðir hlutir, (Forseti hringir.) alveg eins og í jarðvarmaklasanum. Mér fannst, því ég fór nú á alþjóðlegu ráðstefnuna um jarðvarma, vanta eitthvað. Ég get komið inn á það í seinna andsvari.



[18:35]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil taka það fram svo það misskiljist ekki að ég held að allar þessar hugmyndir séu mjög góðra gjalda verðar. Þar sem vel tekst til um þverfaglegt samstarf milli greina, á milli sjóða, vísinda og tækni og fyrirtækja, getur leitt til mjög góðra hluta. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar.

Það sem ég er að reyna að leggja áherslu á er að prímusinn í því sem gerist sé hið sjálfsprottna. Ég held að eðlilegt klasastarf verði ekki til nema þeir sem koma að klasastarfinu finni sjálfir fyrir þeirri þörf og fyrir þeim ávinningi sem er í boði. Það að setja upp hús og segja: Hér eiga að sitja saman í stjórn aðilar frá þessum og hinum o.s.frv., er ekki vænlegt til árangurs. Ég er að reyna að koma þessu frá mér þannig að það skiljist, það er svo mikilvægt að láta þörfina ráða því að á endanum er það þannig að þeir sem eru með hugmyndirnar og þekkinguna leita saman. Og það á auðvitað að hjálpa þeim við það. Ég tek algerlega undir það.

Ég er ekki að segja að þessi þingsályktunartillaga sé með einhverjum hætti á móti þessu. En ég held að það sé mikilvægt að við höfum í huga þegar við ræðum þetta og höldum áfram að þetta er forsenda þess að náist árangur. Það að fara þá leið að ætla að búa hlutina til, (Forseti hringir.) einhvern veginn að ofan, það endar ekki vel, held ég.



[18:37]
Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig á því hvert hv. þingmaður er að fara. Ég féll á tíma í fyrra andsvari en hér er rétt að tengja við það að á alþjóðlegu jarðvarmaráðstefnunni, sem var stórbrotin, voru stjórnvöld svolítið á hliðarlínunni. Það er alltaf galli. Sjálfsprottnu klasarnir eiga það til að lokast inni í faglegum klösum eins og við köllum það. Þar skortir skuldbindingu, þar skorti stefnu. Þetta les maður mjög vel í gegnum inntakið í dönsku stefnunni. Með stefnumótun stjórnvalda samþykkir þú þessa samvinnu, þennan vettvang, og setur upp einhverja sýn um hvernig eigi að nýta hana, t.d. í auðlindanýtingu og móta nýsköpun úti um allt land.

Þess vegna skilgreina bæði Norðmenn og Danir héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa. Við fáum þannig alla aðila að borðinu. Það eina sem gerist í þessu er í raun og veru að stjórnvöld samþykkja þetta og gefa stuðning.

Helsta gagnrýni Evrópusambandsins á klasastarf á Íslandi er að er skortur á stuðningi stjórnvalda við klasastarf. Ef það verður áfram þannig mun þetta einangrast við örfáa faglega klasa sem skortir stuðning, skortir yfirlýsinguna. Þá er hættan á að það dofni og nái ekki tilgangi sínum. Það kemur fram í dönsku stefnunni að ríkisstjórn, sveitarstjórnir, atvinnulíf og allir þessir aðilar hafa sameiginlega sýn og markmið um að stuðla að hagvexti og þróun þekkingar og nota þetta tæki, klasastefnu, sem þetta hvílir á. Það er inntakið. Ef allir fylgja ákveðinni sýn verður stuðningurinn til staðar.



[18:40]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér undirliggjandi tillögu um klasasamstarf eða við getum öllu heldur kallað það opinbera stefnumótun þar að lútandi. Þetta hefur auðvitað verið nýjung síðastliðna örfáa áratugi, tvo áratugi eða svo, a.m.k. hér á landi. Hugmyndafræði klasasamstarfs barst að utan eins og margar aðrar framfarir og hefur verið reynd í sjálfstæðum eða sjálfsprottnum klösum. Hér var nefndur jarðvarmaklasi og sjávarklasi og ferðaþjónustuklasi. Hv. framsögumaður nefndi það réttilega. Ég kom lítillega að gerð tillögu um umhverfismál tengd jarðhitanýtingu og þar með klasastofnuninni og kynntist þessari hugmyndafræði og það er ekki hægt annað en að líta hana jákvæðum augum.

Ég hef vissu fyrir því að þetta tiltekna klasasamstarf í jarðhitageiranum, hefur gengið vel og skilað góðum árangri og þá kannski gildir það að hann var fyrstur í röðinni og reynslan orðin mest af honum. Hugmyndafræðin, þessi fjölþætta samvinna, er þekkt í vísindum, notuð til að byggja brýr á milli ólíkra fræðigreina og er afar algeng og þannig er reynt að nýta bæði víða, breiða þekkingu og virkt samtal til nýrra verka og nýrra hugmynda. Segja má að klasasamstarf í tiltekinni atvinnugrein eða einnig sem samstarf milli atvinnugreina og margra annarra aðila í samfélaginu, stofnana eða fyrirtækja, byggi í raun og veru á svipaðri hugmyndafræði. Það er augljóst að samvinna af þessu tagi ýtir undir frjóa nýsköpun, enda er það oftast einn helsti árangur klasasamstarfs, einmitt nýsköpun.

Gerð heildstæðrar opinberrar klasastefnu er framfaraskref og ég tel að því beri að fagna og þessari þingsályktunartillögu þá um leið sem hér liggur fyrir frá þingflokki Framsóknarflokksins. Ég sé ekki að opinber klasastefna hindri á einhvern hátt eða standi í veginum fyrir eða flæki sjálfsprottnar klasamyndanir, einfaldlega vegna þess að ekki er um boð og bönn að ræða í slíkri stefnu heldur einfaldlega viljayfirlýsingu og hvatningu. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því eins og hér hefur komið fram á undan mér.

Í greinargerðinni er fjallað um fyrirkomulag klasastarfs í Noregi og Danmörku og skiptingu í héraðsklasa, landshlutaklasa og alþjóðlega klasa. Við fyrstu sýn, ég hef kynnt mér þessa skiptingu lauslega, gæti hún hentað hér að ýmsu leyti, kannski að öllu leyti.

Nú gengur þessi þingsályktunartillaga til hv. fagnefndar, atvinnunefndar í þessu tilviki, og það er von mín að hún fái þar röskan framgang því hún á það skilið.



[18:43]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna sérstaklega fram kominni þingsályktunartillögu og þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir yfirferðina yfir hversu mikilvægt er að ríkið móti sér klasastefnu. Í mörgum tilfellum eru klasar sjálfsprottnir vegna samlegðaráhrifa af samvinnu aðila en stuðningur við það fyrirkomulag getur skipt sköpum í því að klasar vaxi og dafni. Lykilorðið hér er samvinna, þó svo að vissulega geti þeir aðilar sem mynda klasa verið í virkri samkeppni.

Fram kemur í þingsályktunartillögunni að ríkisstjórninni sé falið að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta stefnuna þar sem fram komi hvernig hið opinbera efli stoðkerfi í þeim málaflokki. Ég tel einnig mikilvægt að jákvæðir hvatar séu nýttir til að stuðla að samvinnu á sviði nýsköpunar, rannsókna, þróunar og framleiðslu, svo að eitthvað sé nefnt, og er áherslan á klasa þar mikilvægur þáttur.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson talaði líka um mikilvægi þess að líta til annarra landa. Í því samhengi bendi ég m.a. á Bandaríkin þar sem hefur um langt skeið verið mikið lagt upp úr samvinnu ýmissa geira og rannsóknir, sérstaklega í tæknigeiranum, standa upp úr. Flestir þekkja fjölbreytta klasastarfsemi í Kísildalnum í Kaliforníuríki, en klasar spretta nú upp vestanhafs á ýmsum sviðum efnahagslífsins og taka oft mið af breytilegum áherslum samfélagsins, rétt eins og á Íslandi. Nýverið er birtingarmyndin fjölbreyttir heilsuklasar í takt við aukna áherslu á mikilvægi heilsufarslegrar útkomu og klasar er snúa að endurnýtanlegum orkugjöfum.

Þegar hugað er að klasastefnu er mikilvægt að minnast á mikilvægi þess að kortleggja þá klasa sem eru nú þegar á Íslandi. Vestanhafs hefur Harvard-háskóli leitt þá vinnu þegar markmiðið er að veita upplýsingar um klasa á breiðum grunni. Þar er að finna kortlagningu fjölbreyttrar klasastarfsemi, auk þess sem nýsköpunarfyrirtæki getað kynnt sér þann stuðning sem er í boði fyrir klasa af ýmsu tagi.

Hér á landi er mikilvægt að koma á fót landshluta- eða svæðisklösum þar sem fyrirtæki og stofnanir geta tengst saman og unnið að því að skapa verðmæti fyrir samfélagið og svæði sitt í heild. Að mínu mati getur klasastefna þannig rennt sterkari stoðum undir lítil og meðalstór fyrirtæki á landsbyggðinni og vert er að halda því sérstaklega til haga.

Á mínum heimavelli, Suðurnesjum, hafa klasar náð að skjóta rótum og má þar m.a. nefna heilsuklasa þar sem sprotafyrirtæki hafa sótt stuðning hvert til annars. Úr þeim frjóa jarðvegi hafa sprottið fyrirtæki sem hafa vaxið og dafnað. Má t.d. nefna fyrirtækið Geo Silica, sem vinnur bætiefni úr kísli, og hefur vegur þess vaxið jafnt og þétt á síðustu árum. Fyrirtækið er nú að hasla sér völl á erlendum mörkuðum og hefur hlotið fjölda nýsköpunarverðlauna á undanförnum árum.

Frú forseti. Ég ítreka í lokin mikilvægi þess að ríkið setji sér klasastefnu. Ég er þess fullviss að hún muni leiða til aukinnar nýsköpunar og meiri hagsældar hér á landi til framtíðar.



[18:47]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Bara örstutt. Þetta er spennandi mál. Ég vona að það gangi lengra en það hefur gengið áður. Mér líst mjög vel á svona uppbyggingu í átt til nýsköpunar og í rauninni stuðningsnets, sérstaklega fyrir aðila sem eru að leita að innkomu í nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þá vantar oft leiðbeiningar um hvert á að fara. Þeir sem eru að koma nýir inn týnast oft í kerfinu sem slíku, átta sig ekki á öllum styrkumsóknunum, hvar hægt er að leita eftir styrkjum o.s.frv. Ég held að eitthvað svona gæti hjálpað mjög mikið til að leiðbeina fólki hvert það á að leita og styðja við nýtt umhverfi, ný fyrirtæki eða nýjar hugmyndir. Og á heildina tekið sjáum við fleiri verkefni takast.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.