149. löggjafarþing — 22. fundur.
40 stunda vinnuvika, 1. umræða.
frv. BLG o.fl., 181. mál (stytting vinnutíma). — Þskj. 184.

[19:25]
Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Það er viðeigandi að þetta mál sé tekið hér til umræðu svona seint að kvöldi, myndi ég segja.

Málið var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi, þá 259. mál, aftur á 145. löggjafarþingi, þá líka 259. mál, og síðast á síðasta löggjafarþingi, þá 148., og þá 165. mál. Núna er þetta 181. mál. Ég hefði viljað hafa þetta 259. mál áfram, það hefði verið heppilegt, en það gekk því miður ekki. Svona er nú það.

Ég vísa almennt til fyrri ræðu minnar á síðasta þingi. Það hefur lítið breyst síðan þá í þessum málum nema að komið hafa fram fleiri jákvæðar fréttir af þeim tilraunum sem eru í gangi varðandi styttingu vinnuvikunnar, m.a. hjá Reykjavíkurborg.

Ég nefndi á síðasta löggjafarþingi að að auðvitað hefði verið heppilegt að ekki hefði verið klippt á þingmálahalann, þannig að málið væri bara áfram í velferðarnefnd og klárað þar. Við myndum spara 1. umr. og nefndin hefði strax eitthvað til að byrja á þegar nýtt þing kæmi saman. Það sem ég legg áherslu á umfram það er 8. gr. laga um 40 stunda vinnuviku. Þar segir að laun skerðist ekki þegar vinnutíma er breytt samkvæmt þessum lögum.

Á síðasta þingi lagði ég það í hendur nefndarinnar að fara yfir hvort þessi grein væri nauðsynleg eða ekki. Ég ætlaði að fjarlægja 8. gr. úr þessari útgáfu, en ég tók eftir því rétt áður en ég fór að flytja málið að sú beiðni hafði dottið út í yfirlestri. Ég er ekki alveg viss hvort það náðist að dreifa uppprentuðu eintaki.

Tilgangur þessara laga, til þess að hafa það algjörlega skýrt, er réttindamál, þ.e. að breyta fjölda dagvinnustunda úr 40 á viku í 35. Ekki er ætlast til þess að dagvinnustundum fækki sjálfkrafa við það, þ.e. að fólk fari sjálfkrafa að vinna skemmri vinnudag. Ekki er heldur gert ráð fyrir því að laun haldist óbreytt miðað við 40 stunda vinnuviku, þ.e. ekki er gert ráð fyrir því að fólk haldi sömu launum og það hefur fyrir 40 stunda dagvinnutíma, þ.e. fólk sem vinnur núna 40 stunda dagvinnu en fer síðan að vinna 35 tíma á viku. Gert er ráð fyrir því að ef fólk heldur áfram að vinna 40 stunda vinnuviku, eins og áður, hækki það í launum um eina aukayfirvinnustund í rauninni. Þannig er þetta hvati fyrir atvinnurekendur til að minnka vinnu eilítið í áttina að 35 stundum eins og þegar lög um 40 stunda vinnuviku tóku gildi, þ.e. úr 44 stundum í 40, náðist 40 stunda vinnuvika ekki fyrr en 2012. Þetta er hluti af ferli og það er önnur ástæða fyrir því að lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2021, það er til þess að aðilar vinnumarkaðarins og atvinnulífsins geti komið sér saman um kerfisbreytingar og kjarasamningabreytingar í áttina að þessari réttindabreytingu á fjölda dagvinnutíma. Þetta er í rauninni bara skilgreining á því hversu margir dagvinnutímar eru í hverri viku. Annað er og verður alltaf samningsatriði aðila vinnumarkaðarins.

Það er líka merkilegt við þær umsagnir sem borist hafa við þetta frumvarp frá t.d. Samtökum atvinnulífsins og ASÍ að þau telja að verið sé að ganga á rétt þeirra til að semja um kaup og kjör. Það er ekki tilgangur þessara laga að ganga á þann rétt enda segir líka í lögum um 40 stunda vinnuviku að heildarsamtök launþega og vinnuveitenda þurfi í rauninni ekki að fara eftir þessum lögum. Ég skil ekki alveg af hverju þau eru að kvarta undan þessari breytingu hvað það varðar. Hún á ekki við þau ef þau kjósa að hafa það svo.

Til að reyna að hafa þetta á sem skýrustu máli fyrir hv. velferðarnefnd, sem ég beini máli mínu til, er ekki reiknað með því að laun fólks skerðist, það er heldur ekki reiknað með því að vinnutíminn breytist sjálfkrafa. Það er pínulítið erfitt á átta sig á því og það er vafamál hvort 8. gr. frumvarpsins eins og það er núna eigi að vera með eða ekki, hvort verið sé að taka réttindi af fólki ef greinin er fjarlægð eða hvort verið sé að gefa fólki réttindi ef greinin fer eða hvernig sem það æxlast hvað 8. gr. varðar.

Ég set það í hendur nefndarinnar að útbúa frumvarpið á þann hátt, ef einhver ágalli er á þessu atriði, að koma því skýrt til skila í 2. umr. hvort 8. gr. þurfi að vera eða fara eða hvort gera þurfi einhverjar aðrar breytingar til að ná þessu markmiði, þ.e. hvort aðili sem vinnur 40 stunda vinnuviku núna á ákveðnum launum og fer niður í 35 stundir í framhaldi af þessu frumvarpi án allra annarra breytinga fái laun eins og hann væri að vinna 35 stundir miðað við 40 stunda vinnuviku eins og er núna.

Ef hann kýs hins vegar að vinna allar 40 stundirnar alveg eins og núna fær hann í raun launahækkun því að ein klukkustund af því er yfirvinnustund sem er dagvinnustund núna. Við reynum að fara bil beggja þannig að þetta sé ekki boð að ofan um að nauðsynlega skuli stytta vinnutímann eða knýja atvinnuveitendur til að hafa sömu laun fyrir 35 stunda vinnuviku eins og var fyrir 40 stunda vinnuviku.

Þetta frumvarp vinnur á þeim réttindum sem alltaf hefur verið barátta um. Það hefur alltaf verið réttindabarátta að stytta vinnuvikuna. Áður hafa laun verið þvinguð ofan í þann skó á sama tíma. Með þessu frumvarpi, einmitt með því að þetta taki ekki gildi fyrr en 2021, er aðilum vinnumarkaðarins gefið svigrúm til að bregðast við þeirri réttindaaukningu fólks að hafa færri dagvinnutíma á viku.



[19:34]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið en mig langar samt sem áður að koma því á framfæri að það er í samræmi við stefnu okkar í Samfylkingunni að stytta vinnuvikuna. Það má vera að það sé eðlilegri leið að um það sé samið á vinnumarkaði, en alla vega er mikilvægt að stytta vinnuvikuna.

Ég horfi fyrst og fremst á málið út frá hagsmunum barna og forvarnargildi þess, að tími með fjölskyldunni og tími barna með fullorðnum sé meiri. Ég tek undir það sem stendur í frumvarpinu að styttri vinnuvika muni bæta lífsgæði en ekki draga úr framleiðni.



[19:35]
Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvímælalaust tilgangur frumvarpsins í nútímasamfélagi að stytta vinnuvikuna með þessu skrefi. Ég myndi gjarnan vilja ganga lengra, en þetta er fyrsta skrefið.

Ísland kemur mjög illa út í samanburðartölum OECD um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Að sjálfsögðu er staða barna í því sambandi mjög slæm. Einnig er það mjög alvarlegur hlutur í samfélagi okkar sem varðar geðheilbrigðismálin. Orðið hefur mjög mikil aukning hvað fjölgun öryrkja varðar t.d. út af álagi sem má alveg rekja til langs vinnutíma á Íslandi.

Það er því alveg tvímælalaust heilbrigðismál, ásamt því að vera réttindamál og fjölskyldumál, að byrja að stíga þessi skref sem fyrst, að stytta vinnuvikuna. Þegar fólk fer að tala um minni framleiðni í því sambandi er raunar margt sem bendir til þess að þessu sé í rauninni öfugt farið; að stytting vinnuvikunnar efli framleiðni frekar en að minnka hana. Þetta sýna þær tölur og upplýsingar sem við fáum úr þeim tilraunum sem eru í gangi núna um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg. Þær sýna að fólki líður betur, það nýtir tímann betur og það skilar meiri og betri vinnu af því að það fær andrými og tíma til þess að hvílast.