149. löggjafarþing — 25. fundur.
geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[14:11]
Forseti (Þorsteinn Sæmundsson):

Samið hefur verið um fyrirkomulag umræðunnar. Ráðherra hefur 10 mínútur til framsögu og tvær mínútur að umræðu lokinni.

Ræðutími skiptist svo milli þingflokka: Samfylkingin 13 mínútur, Miðflokkurinn 13 mínútur, Sjálfstæðisflokkur 20 mínútur, Píratar 13 mínútur, Framsóknarflokkur 14 mínútur, Flokkur fólksins 11 mínútur, Viðreisn 11 mínútur, Vinstrihreyfingin – grænt framboð 9 mínútur.



[14:11]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þetta mál skuli vera sett á dagskrá. Hér er um að ræða skýrslu mína um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar sem lögð var fyrir Alþingi á 148. löggjafarþingi 2017–2018. Vitundarvakning er í samfélaginu varðandi geðheilbrigðismál sem endurspeglast m.a. í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Stjórnvöld og almenningur vilja setja geðheilbrigðismál í forgang. Markmið skýrslunnar er að veita yfirsýn um stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi svo að við sjáum hvar við erum stödd, helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og öðlumst þannig skýrari sýn á það hvert við erum að stefna.

Í skýrslunni er litið til geðræktar og forvarna, skipulags þjónustu og aðgangs að gagnreyndri meðferð. Áhersla er lögð á tækifæri til úrbóta og áform um næstu skref til að bæta geðheilsu landsmanna og geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

Ég legg áherslu á að geðheilbrigði er ein af grundvallarforsendum heilbrigðis. Einstaklingar sem hafa góða geðheilsu finna fyrir andlegri vellíðan sem gerir þeim kleift að nýta hæfileika sína, njóta sín í leik og starfi, ná persónulegum markmiðum sínum, taka virkan þátt í samfélaginu á gefandi hátt og takast á uppbyggilegan hátt á við það álag sem óhjákvæmilega fylgir lífinu.

Geðheilbrigðisvandi er einn stærsti heilbrigðisvandi samtímans. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að eftir tvö ár muni geðheilbrigðisvandamál vera 15% alls heilbrigðisvanda í heiminum. Einn af hverjum fjórum einstaklingum glímir við geðheilsuvanda um ævina. Geðræn vandamál koma snemma í ljós og um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komin fram þegar á þrítugsaldri. Um er að ræða stóran þátt í efnahagslegri byrði þjóða og talið er að sú byrði muni fara vaxandi.

Við sem þjóð höfum e.t.v. ekki verið nógu vel upplýst um eðli geðheilbrigðismála. Ég vek athygli á því hversu mikil breidd einkennir þennan málaflokk. Flestir kannast við algengar raskanir eins og kvíða eða þunglyndi, en undir geðheilsuvanda flokkast einnig eins ólíkar raskanir og þroskafrávik, alzheimersjúkdómurinn og aðrar heilabilanir, svefnraskanir og fíknisjúkdómar. Geðheilsuvandi getur verið allt frá alvarlegum geðsjúkdómum sem vara ævilangt til vægra einkenna sem hamla ekki verulega í daglegu lífi en fólk gæti tímabundið þurft stuðning til að komast yfir. Geðheilbrigðismál eru víðfeðmur málaflokkur með þá sérstöðu að hafa snertiflöt við flesta þætti mannlegs lífs. Geðheilbrigði hefur áhrif á lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem og samfélagið í heild.

Gríðarlegar framfarir hafa átt sér stað í geðheilbrigðismálum á síðustu áratugum. Mannréttindi og valdefling notenda eru í brennidepli í nútímageðheilbrigðisumræðu. Aukin áhersla er á notendamiðaða þjónustu í nærumhverfi og það að draga úr stofnanavæðingu. Þetta eru afdráttarlaus framfaraskref. Sömuleiðis er það mikilvægt framfaraskref að áhersla er aukin á rétt fólks til geðheilbrigðisþjónustu sem vísindalega hefur verið sýnt fram á að skilar árangri.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu að einhver mikilvægasti skilningur sem náðst hefur í þessum málaflokki hin síðari ár er að geðheilbrigði þjóða sé ekki fyrst og fremst verkefni heilbrigðisþjónustunnar heldur veltur það ekki hvað síst á öflugu menntakerfi, félagsþjónustu, dómskerfi, atvinnulífi, samgöngum og skipulagi. Við þurfum að vinna saman.

Virðulegi forseti. Lengi býr að fyrstu gerð og það er mikilvægt að hlúa að geðheilbrigði strax í æsku með geðrækt, forvörnum og veitingu gagnreyndrar meðferðar um leið og vanda verður vart. Það er mikilvægt að hafa hugfast að góð geðheilsa og líðan byggist á ákveðinni færni og þekkingu, svo sem þekkingu á eigin tilfinningum, færni í að takast á við þær, þekkingu á eigin styrkleikum og veikleikum og færni í því að nýta sér þá sem best. Ég tek skýrt fram að slíka þekkingu og færni er hægt að kenna og ábyrgð samfélagsins liggur í því að koma börnum sem vaxa úr grasi á Íslandi til manns með þessa færni í farteskinu.

Mikilvægur þáttur í stefnumótun og aðgerðum á sviði geðræktar er að fylgjast með stöðu og þróun lykilmælikvarða varðandi líðan landsmanna. Embætti landlæknis sinnir umfangsmikilli gagnasöfnun um heilsu og líðan auk reglubundinnar vöktunar áhrifaþátta heilbrigðis og vellíðunar. Þessar upplýsingar eru m.a. nýttar við birtingu lýðheilsuvísa sem er liður í því að veita yfirsýn yfir líðan og heilsu íbúa í heilbrigðisumdæmum landsins. Þetta auðveldar sveitarfélögum að skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið markvissar að því að bæta heilsu og líðan. Embætti landlæknis og sveitarfélögin sinna auk þess geðræktarstarfi á landsvísu, m.a. í gegnum heilsueflandi samfélög og leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sveitarfélög landsins eru þannig í lykilaðstöðu til að skapa umhverfi sem stuðlar að bættri geðheilsu og vellíðan íbúa á öllum aldri.

Ég vil nú víkja máli mínu stuttlega að nokkrum lykilstefnum og aðgerðaáætlunum sem lúta að geðheilbrigði. Til er stefna í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 og unnið er að aðgerðaáætlun til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Markmið hennar er að íslenskt samfélag einkennist af heilbrigðu umhverfi þar sem einstaklingnum stafar ekki hætta af notkun eða misnotkun áfengis eða annarra vímugjafa. Meðal aðgerða er að takmarka skuli aðgang að áfengi og öðrum vímugjöfum, vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa, efla forvarnir til að hamla því að ungmenni hefji notkun áfengis og vímuefna, aðgerðir til að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur, tryggja aðgang fólks með fíkniefnavanda að samfelldri og samþættri þjónustu og draga úr skaða og reyna að fækka dauðsföllum vegna fíknivanda. Forvarnastarf hefur skilað góðum árangri á Íslandi því að undanfarin ár hefur dregið verulega úr notkun ungmenna á áfengi og öðrum vímuefnum, en Íslendingar nota meira af ákveðnum lyfjum sem geta valdið ávana og fíkn en flestar aðrar þjóðir.

Í maí sl. skilaði starfshópur skýrslu um leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun ávana- og fíknilyfja og verið er að vinna úr þeim tillögum í ráðuneytinu. Neyslurými fyrir vímuefnaneytendur hefur gefið góða raun um allan heim með færri dauðsföllum og færri smitum og blóðsjúkdómum vegna margnota nálaskiptabúnaðar. Unnið er að því að koma upp neyslurými í Reykjavík fyrir fíkniefnaneytendur að erlendri fyrirmynd í samvinnu við borgina og Rauða kross Íslands.

Í lýðheilsustefnu frá árinu 2016 er lögð sérstök áhersla á börn og ungmenni að 18 ára aldri. Meginmarkmið hennar er að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030 og er áhersla lögð á forvarnir og heildræna nálgun, m.a. með samstarfi við skóla og sveitarfélög. Lagt er upp með að öll sveitarfélög verði heilsueflandi samfélög, þar með talið leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og vinnustaðir, og að markvissar forvarnir fari fram á sviði uppeldis og menntunar, næringar, hreyfingar, geðræktar, tannverndar, ofbeldis- og slysavarna og áfengis-, vímu- og tóbaksvarna.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi árið 2016. Meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar er að stuðla að aukinni vellíðan og betri geðheilsu allra landsmanna og að einstaklingar sem glíma við geðraskanir taki virkari þátt í samfélaginu. Lögð er áhersla á að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé fagleg, samþætt og samfelld. Margar góðar aðgerðir eru tilgreindar í geðheilbrigðisstefnunni og verið er að hrinda þeim í framkvæmd. Sem dæmi má nefna að sálfræðingum hefur verið fjölgað á heilsugæslustöðvum um land allt og geðheilsuteymi hafa verið sett á fót. Einnig eru þær aðgerðir sem miða að því að draga úr fordómum og mismunun á grundvelli geðheilsu.

Á Íslandi falla um 40 manns á hverju ári fyrir eigin hendi og eru það fleiri en látast af völdum umferðarslysa. Í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum eru fjölmörg markmið sem miða að því að efla geðheilsu fólks almennt og draga úr hættunni á sjálfsvígum. Þá er sjónum sérstaklega beint að þeim sem taldir eru til sérstakra áhættuhópa, þar á meðal hinsegin ungmennum og þeim sem áður hafa reynt sjálfsvíg. Fjárframlag hefur verið veitt til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem lögð eru til í aðgerðaáætluninni til að fækka sjálfsvígum á Íslandi.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir mörg jákvæð skref í átt til þess að bæta geðheilbrigði á Íslandi stöndum við frammi fyrir mjög mörgum áskorunum. Skýrari línur vantar í geðræktarstarf í skólum. Skortur er á heildstæðum ramma utan um forvarnir og snemmtæka íhlutun í samræmi við þrepaskiptan stuðning í skólastarfi. Í menntun kennara skortir kennslu á gagnreyndum aðgerðum til að efla atferlis-, félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna og skortur er á úrræðum fyrir börn með náms-, hegðunar- og tilfinningavanda. Framboð og aðgangur að úrræðum og þjónustu fyrir börn og fullorðna með geðheilsuvanda sem og fyrir fjölskyldur þeirra er misjafn eftir landsvæðum. Flest úrræði eru í boði á höfuðborgarsvæðinu þar sem mannfjöldinn er mestur. Geðheilbrigðisþjónusta er veitt í heilsugæslu á landinu öllu, en skortur er á þjónustu sérhæfðra heilbrigðisstétta víða um land. Ég legg áherslu á notkun tækninnar í þessu sambandi þannig að tryggja megi þjónustu sérfræðinga sem víðast um landið.

Þá er mikilvægt að tryggja samfellu í þjónustu og að auka þverfaglega teymisvinnu. Skipulagi þjónustu og samvinnu þjónustuveitanda er ábótavant og mikil tækifæri felast í því að skipuleggja þjónustuna betur þannig að skýrt sé fyrir notendur hvaða valkostir eru í boði og hvert skuli leitað. Við skipulag þjónustunnar er mikilvægt að leggja áherslu á að mæta þörfum einstaklinga og tryggja aðgang að árangursríkum meðferðarúrræðum á viðeigandi þjónustustigum sem og samfellu og eftirfylgni í meðferð. Hluti þess er að skýra nánar hvaða hlutverki hver þjónustuaðili gegnir og hvernig samstarfi og samvinnu skuli háttað milli þjónustustiga og þjónustuaðila. Við þurfum að efla samvinnu þjónustuveitenda og þjónustuþega og beita okkur fyrir því að sú samvinna verði gerð sýnilegri.

Virðulegi forseti. Geðheilbrigði þjóðarinnar er á ábyrgð okkar allra. Við stöndum nú frammi fyrir einstökum tækifærum til framfara í geðheilbrigðismálum. Sókn á þeim vettvangi þarf að byggjast á þeirri grundvallarkröfu að mannréttindi, almennar siðareglur og siðareglur heilbrigðisstarfsfólks séu í forgrunni við veitingu heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu sem og annarrar heilbrigðisþjónustu á öllum stigum. Í því felst virðing fyrir fólki og rétti þess til upplýstrar þátttöku og valfrelsis hvað varðar eigin meðferð. Til að gera fólki kleift að taka upplýstar ákvarðanir varðandi eigin meðferð þarf að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um árangursríkar meðferðarleiðir sem byggjast á vísindalegum raunprófuðum aðferðum.

Í framtíðinni verða menntakerfið, félagsþjónusta, dómskerfi, samgöngur, skipulagsmál, atvinnulíf og heilbrigðisþjónusta að vinna saman að því að stuðla að heilbrigðara samfélagi þar sem mannréttindi eru höfð að leiðarljósi. Skýrt verður að vera hver gerir hvað og með hvaða hætti við vinnum saman að okkar sameiginlegu markmiðum, hvatar verða að vera fyrir lausnamiðaðri samvinnu. Við þurfum öll að taka höndum saman sem sterkt og manneskjulegt þjóðfélag og standa vörð um geðheilbrigði okkar og barnanna okkar í þágu betri framtíðar fyrir Ísland.



[14:21]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um skýrslu heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar sem samþykkt var á hinu háa Alþingi í apríl 2016. Skýrslan er aðgengileg, á læsilegu máli, greinargóð og fróðleg og ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir hana. Ég mun hlaupa hér á nokkrum atriðum en tíminn setur okkur stífar skorður.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er geðheilbrigðisvandinn einn stærsti heilbrigðisvandi samtímans. Geðheilbrigðismál hafa sérstöðu, þetta er víðfeðmur málaflokkur sem snertir með einum eða öðrum hætti flesta þætti mannlegs lífs. Því má segja að glíman við geðheilbrigðisvanda sé ekki bara einstaklingsins sem í hlut á, ekki bara andlega líðan viðkomandi og sú hlið málsins, þetta kemur fljótt niður á líkamlegri heilsu, hefur áhrif á félagsleg samskipti, vinahópa, nám og atvinnu. Þetta hefur áhrif á öll lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem og samfélagsins í heild.

Herra forseti. Eins og fyrr segir er breiddin mikil þegar um er að ræða geðheilsuvandamál og nálgun vandans og meðferð kallar á sérfræðiþekkingu, alúð og mikla þjálfun í að finna úrlausnir við hæfi. Undir geðheilsuvanda flokkast m.a. raskanir eins og kvíði, þunglyndi, þroskaraskanir, fíknivandi og ýmislegt sem færist yfir á efri árum, oft kallað elliglöp, og svo hinir alvarlegu sjúkdómaflokkar.

Geðræn vandamál einstaklinga koma jafnan snemma í ljós. Samkvæmt skýrslunni er helmingur geðraskana kominn fram á táningsárum og um 75% raskana komnar fram þegar einstaklingur er á þrítugsaldri.

Í okkar margbreytilega heimi og oft og tíðum flóknu tilveru hendir það margan að lenda á refilstigum og í vanda, að þurfa að fást við andlega vanlíðan eða heilsubrest vegna ýmissa áfalla eða álags. Þannig er talið að einn af hverjum fjórum glími á einhverjum tíma æviskeiðsins við geðrænan vanda.

Skýrslan vísar nokkuð til þingsályktunarinnar í ýmsum efnum, m.a. um aðgerðir gegn fordómum og mismunun gagnvart þeim sem glíma við eða hafa glímt við geðheilbrigðisvanda, þessir einstaklingar séu oft jaðarsettir í samfélaginu, fái á sig stimpil og jafnvel ranglega álitið að fólk sem einhvern tíma hefur glímt við geðröskun eigi sér ekki batavon og sé ofurselt sjúkdómnum. Mikilvægt er því að vinna markvisst gegn fordómum og mismunun af þessu tagi. Hvatt er til þess að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og ráði fólk sem lent hefur utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana til starfa á stofnunum sínum. Mín reynsla er sú að flestir stjórnendur séu jákvæðir gagnvart tækifærum sem þessum. Hins vegar eru innviðir opinberra stofnana svo veikir nú eftir mörg mögur ár undanfarið að fjármagn, þekkingu og fræðslu skortir — en ekki viljann.

Aðgerðaáætlun í þessu efni er til, en vinna við hana ekki hafin. Vonandi verður það að veruleika hið fyrsta og má ekki tefjast.

Herra forseti. Sveitarfélögin eru í lykilaðstöðu til að efla geðheilsu almennings. Þau hafa á sinni hendi ýmsa þá þjónustu og starfsemi sem lýtur að daglegu lífi fólks, m.a. þá þætti sem hafa mikla þýðingu fyrir geðheilbrigði margra viðkvæmustu hópanna, unga fólksins. Þar má nefna leik- og grunnskóla, félagsþjónustuna, barnavernd, húsnæðismálin og atvinnumál, samgöngur og skipulag.

Dæmi er um sveitarfélög sem hafa hrundið af stað mjög góðum verkefnum á þessu sviði og nærtækast fyrir mig er auðvitað að nefna Akranes en þau eru mun fleiri.

Það er aldrei of oft hamrað á mikilvægi þess að hafa skýran skilning á áhættuþáttum geðheilbrigðis og hvað hægt er að gera til að vernda og efla geðheilsu í samfélaginu. Þar skipa öndvegi markvissar forvarnir og snemmtæk, heildstæð úrræði um leið og erfiðleika verður vart.

Embætti landlæknis hefur hvatt til geðræktarstarfs í samræmi við nálgun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og hefur hvergi dregið af sér. Í samvinnu við embættið hafa orðið til margir heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar og jafnvel heilsueflandi sveitarfélög og það er vel. Á því þarf að verða framhald en því miður verður hlutskipti þessara verkefna oft það að lenda aftarlega á forgangslista sveitarfélaga þegar velja þarf það sem brýnast er talið því að oft fylgja þessu fjárhagsleg útgjöld. Við erum nefnilega enn dálítið föst í því að líta á heilsueflingu og forvarnir sem útgjöld en ekki fjárfestingu.

Eitt af áhersluatriðum í heilbrigðisáætluninni er efling geðheilbrigðisþjónustunnar um landið allt sem skort hefur á og nefnt er að nýta megi fjarheilbrigðisþjónustu og tækni á því sviði til að ná þeim markmiðum betur og það er áhugavert.

Þörf íbúanna fyrir geðheilbrigðisþjónustu hefur ekki verið metin með formlegum hætti frekar en fyrir aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Það er auðvitað brýnt og vonandi sjáum við einhver teikn um það í nýrri heilbrigðisstefnu ráðherra. Það er auðvitað eðlilegt að kortleggja þörf fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustu almennt með skipulögðum hætti og reglulega á landinu öllu til að geta mætt þörfinni betur.

Herra forseti. Annað markmið geðheilbrigðisáætlunarinnar er að styrkja heilsugæsluna og fjölga sálfræðingum til að starfa þar. Þetta er sérstaklega góð þróun og þarna verður að fylgja málum vel eftir. Einn af hverjum þremur sem leita til heilsugæslunnar glímir við geðheilsuvanda og þessi hópur hefur hreinlega verið hornreka. Samkvæmt áætlunum eiga sálfræðingar að vera starfandi á öllum heilsugæslustöðvum í landinu. Það eru sannast sagna ekki mörg ár síðan þetta þótti harla fráleitt, að sálfræðingar ynnu á heilsugæslustöð og tækju á móti sjúklingum, að þeir réðu við þau verkefni, hefðu eitthvað til málanna að leggja. Fjölmargar rannsóknir sýna að meðferð hjá sálfræðingi er betri lausn við tilteknum vanda, meðferðarheldnin betri en lyfjameðferð. Það tekur kannski lengri tíma en er betri lausn til frambúðar. Lyf eru góð, skipta sköpum um lífsgæði þegar þau eiga við.

Lyfjanotkun Íslendinga er annars alveg skefjalaus og vekur heimsathygli. Læknar ávísa meira af róandi lyfjum, svefnlyfjum, þunglyndislyfjum og ofvirknilyfjum en þekkist annars staðar á byggðu bóli. Við þurfum að fá svör við því af hverju þetta er svona. Þau höfum við ekki í dag. Í skýrslunni er ýjað að einhverjum skýringum, líkindum eða kenningum, en vandaðar, faglegar úttektir vantar. Þær þurfum við. Það á að vera hluti af okkar geðheilbrigðisáætlun.

Meginmarkmið lýðheilsustefnu frá árinu 2016 er sú að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030. Við spjörum okkur býsna vel en ef við ætlum að ná þessu markmiði (Forseti hringir.) verðum við að bretta upp ermar.



[14:29]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og þessa yfirferð. Það er gott til þess að hugsa að heilbrigðisráðherra hefur kortlagt stöðuna og ætlar í framhaldi í aðgerðir í málaflokknum. Leiðarstefin eru mannréttindi og valdefling þar sem notendamiðuð þjónusta í nærumhverfi gegnir lykilhlutverki. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram því að það er sama hvert litið er; ákall er um aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Þar skiptir aðkoma frjálsra félagasamtaka máli. Ég nefni Hugarafl sérstaklega, en starfsemi Hugarafls er í fullkominni óvissu nú um stundir.

Í rauninni á þetta ákall ekki að koma á óvart þar sem kostnaður og aðgengi vegna sálfræðiþjónustu fullorðinna er áfram undanskilinn almennri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og getur verið mjög mikill. Algengt er að hver meðferðartími hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi kosti á bilinu 12.000–15.000 kr. Nú þegar hafa nokkrir framhaldsskólar brugðist við ákallinu og kaupa þjónustuna af einkaaðilum eða ráða sálfræðinga inn í skólana.

Samkvæmt skýrslu Menntamálastofnunar um brotthvarf í framhaldsskólum réðu tveir skólar sálfræðing í hálft starf og mælist árangurinn af því jákvæður, en það er hægt að gera betur. Í Sálfræðingafélagi Íslands eru um 550 sálfræðingar í ýmsum störfum og á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands má sjá að aðeins níu sálfræðingar eru með rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta eru sálfræðingar sem huga að börnum og unglingum. Átta þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu og einn á landsbyggðinni.

Mig langar að velta hér upp þeirri hugsun hvort ástæða þess að ekki er búið að auka aðgengi að sálfræðiþjónustunni með því að fella hana undir hatt Sjúkratrygginga sé sú að menn óttist að of margir muni sækja sér aðstoð líkt og reyndin var þegar sjúkraþjálfarar fengu samning. Þá margfaldaðist fjöldi þeirra sem sóttu sér sjúkraþjálfun. Ég get ekki varist því að hugsa þessa hugsun.

Það hefur komið skýrt fram að auka eigi geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar, en þrátt fyrir það virðist ganga hægt að fjölga stöðugildum til að anna eftirspurn. Biðlistar eru langir og hefur starfsfólk heilsugæslunnar beint einstaklingum sem þurfa á þjónustunni að halda að sjálfstætt starfandi aðila. Þar er styttri biðtími. Samt er því áfram haldið fram, réttilega, að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eigi að vera jafn sjálfsagt og aðgengi að annarri heilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar. Væntanlega verður fólk áfram að bíða eftir nauðsynlegum úrbótum þar sem heilsugæslustöðvar landsins geta rétt svo haldið sjó þótt þær reyni að forgangsraða málum. Eftir stendur spurningin: Er verið að flækja málin um of eða er um nauðvörn að ræða?

Ég velti því enn og aftur upp spurningunni hvort réttara sé að breyta regluverkinu þannig að öll geðheilbrigðisþjónusta verði felld undir Sjúkratryggingar Íslands, líka sálfræðiþjónusta. Þá geta allir sótt sér viðeigandi og sjálfsagða aðstoð án þess að vera í framhaldsskóla eða háskóla. Ég kallaði eftir svörum um þetta atriði eins og ég hef margsinnis gert áður.

Sálfræðiþjónustan er mikið að færast yfir á það sem kallað er fyrsta stig í heilbrigðiskerfinu, þ.e. heilsugæsluna, eins og hér hefur komið fram, enda er mikilvægt að grípa snemma inn í, áður en vandinn verður alvarlegri. En hvað gerist svo ef um sérhæfðari vanda er að ræða? Einstaklingi er vísað til geðsviða þar sem þau starfa eða sjálfstætt starfandi sálfræðinga eins og ég kom inn á áðan. Höldum okkur við geðsviðin. Það er ekkert gefið að einstaklingur sem leiti þangað fái viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Það er ekkert gefið. Geðsviðin þurfa nefnilega líka að forgangsraða og ég velti fyrir mér: Hversu mikill þarf vandinn að vera eða hvernig ætlum við yfirleitt að skilgreina hvort, hvenær eða hvernig fólk fær þjónustu?

Það sem er hvað mest sláandi er að sálfræðingar með alla sína starfsreynslu og þjálfun og stofu eins og Litlu kvíðameðferðarstöðina munu ekki geta sóst eftir því að komast á rammasamning Sjúkratrygginga Íslands þrátt fyrir að starfa einvörðungu með börnum og ungmennum og þeir njóta handleiðslu og teymisvinnu mjög reyndra sálfræðinga bæði hérlendis og erlendis.



[14:34]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka heilbrigðisráðherra fyrir þessa skýrslu og umræðuna um skýrsluna. Ljóst er að það er mikill vilji til að gera vel í málaflokknum. Það er verið að einhenda sér í gríðarlega mörg mjög mikilvæg verkefni og ekki síst er verið að reyna að halda utan um öll þau fjölbreyttu verkefni sem um er að ræða. Það sem mig langar kannski að nefna í upphafi er menntakerfið okkar af því að brýnt er að það sé staður þar sem við getum gert betur í geðheilbrigðismálum. Bæði á ég auðvitað við að auka vellíðan barna okkar í menntakerfinu en einnig að auka þekkingu starfsmanna í skólum á geðsjúkdómum og einkennum kvíða og þunglyndis ásamt því að hafa þekkingu og teymi til að grípa inn í þegar þörf er á fyrstu stigum vandans.

Brotthvarf úr skólum er mest á meðal þeirra sem koma verr út hvað varðar líðan og námsgetu. Það er ótrúlega mikilvægt að við einhendum okkur í að styðja við ungt fólk með andlega erfiðleika og námserfiðleika til áframhaldandi skólagöngu. En skólinn þarf að hafa þessa þekkingu til að halda utan um nemendur og átta sig á varúðarmerkjum og geta unnið með foreldrum og sérfræðingum o.s.frv. Með því að geta brugðist við og vera með augun opin fyrir fyrstu einkennum er oft hægt að grípa inn í, t.d. kvíða sem er ekki orðinn að geðheilbrigðisverkefni en getur fljótt orðið það ef ekki er brugðist við. Það þarf að vera teymi fólks sem kemur að einstaklingi með slík einkenni eða geðvandamál sem þarf aðstoð og við þurfum að vera óhrædd við að tengja saman aðila í þannig teymi og nýta okkur það hversu smá við erum. Stundum þegar við horfum á kerfið utan frá og tölum við aðila sem hafa nýtt sér kerfið, notendur þess, er eins og það sé hannað fyrir samfélag sem hefur ekki haft aðgengi að neinni tækni eða að landið sé einfaldlega svo stórt að það sé algerlega ómögulegt að ná samþættingu milli skóla, ríkis, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfræðinga.

En það er fleira sem við þurfum að huga að þegar við höldum áfram að mynda stefnu og gera fleira í geðheilbrigðismálum, það er að gleyma ekki að horfa á stöðu ungra drengja og ungs fólks á örorku. Hlutfallið er komið upp í 41% í fjölgun öryrkja í hópi ungra karla á síðustu sex árum. Það er gríðarlega há tala. Geðraskanir eru langalgengasta ástæða örorku á Íslandi. 38% öryrkja á Íslandi eru það á grundvelli geðgreiningar. Þarna getum við líka tengt við menntakerfið og stöðu ungra drengja í því. Þegar við horfum á slakan árangur ungra drengja í menntakerfinu sem týnast oft og vantar nýjan hugsunarhátt við kennslu þurfum við að þora að breyta og þora að hugsa upp á nýtt, ekki síst geðheilsunnar vegna.

Eitt er það sem við þurfum öll að hugsa um þegar við fjöllum um ýmis mál eins og skýrslu um geðheilbrigðismál, en það er hversu mikilvægt það er að skoða samhengi hlutanna. Á það skortir almennt hjá okkur öllum, það er að þora að stíga aðeins til baka og sjá stóru myndina. Við leggjum áherslu á ákveðin mál. Það er mikill vilji til bættrar geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum, en við eigum stundum erfiðara með að stíga aðeins til baka og horfa á stærri mynd og stærra samhengi hlutanna. Á sama tíma og við ræðum stöðu ungra drengja í menntakerfinu þurfum við líka að taka inn í myndina fjölda ungra drengja eða ungra karlmanna sem taka sitt eigið líf eða eru nýir á örorku.

Það er þetta samhengi hlutanna sem mig langaði aðeins að nefna hér. Við þurfum að þora að spyrja spurninga og velta fyrir okkur grunninum, menntakerfinu og skoða fleiri anga því að þegar við ræðum geðheilbrigðismál er í svo ótrúlega mörg horn að líta. Og kerfið er flókið. Ekki síst er það verkefni og áskorun fyrir ráðherra sem ég veit að er að reyna að ná utan um og skoða stóru myndina, en notendur finna líka fyrir því hvað kerfið í dag er flókið. Þegar fólk fær sjúkdóm, fótbrotnar, greinist með krabbamein er ákveðin leið sem kerfið býður upp á, ákveðin þjónusta, en þegar um geðvandamál er að ræða bendir hver á annan. Það er kannski vandinn.

Í skýrslunni eru tvær myndir sem sýna okkur í rauninni fjölbreytileikann og hvað við eigum margar gríðarlega góðar og öflugar stofnanir og frjáls félagasamtök, en þarna vantar leiðina. Það er næsta verkefni okkar. Það er svo rétt sem í skýrslunni segir, virðulegi forseti, ef ég fæ að vitna í hana:

„Geðræn vandamál koma oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komnar fram þegar einstaklingar eru á þrítugsaldri.“

Þarna þarf ferillinn fyrir börn að vera afskaplega skýr og betri svo það sé hægt að ganga strax í vandamálið og þá skiptir sjónarhorn notendanna gríðarlega miklu máli. Við þurfum að ræða stöðu aðstandenda í kerfinu öllu og gera betur í þessu líkt og mörgu öðru þegar kemur að framkvæmdinni og við búum til kerfið.

En það er gríðarlega margt gott í skýrslunni. Ég hvet ráðherra til allra góðra verka í þessu og ég veit að hér inni er mikil samstaða um að gera enn þá betur þegar kemur að geðheilbrigðismálum.



[14:41]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Geðheilbrigðisáætlun sem var samþykkt á Alþingi árið 2016 hafði það meginmarkmið að auka vellíðan og bæta geðheilsu landsmanna og stuðla að virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra. Við sjáum að vinnu að einstaka markmiðum miðar í sumum tilfellum ágætlega en í flestum tilfellum er hún rétt að byrja. En það sem skortir hvað mest er að við sjáum ekki hvernig vinnu miðar að meginmarkmiðum áætlunarinnar; samþætting á þjónustu við einstaklinga með geðraskanir, að bæta uppeldisskilyrði barna þannig að stuðlað sé að vellíðan þeirra, að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að þótt okkur miði áfram í vinnu við framkvæmd einstakra markmiða kemur hvergi fram í skýrslunni hvernig árangur verði mældur, því að árangur er bara hægt að mæla út frá líðan og geðheilsu notenda þjónustunnar. Það hvernig okkur gengur að bæta geðheilsu landsmanna verður bara mælt með beinni aðkomu þeirra.

Á Íslandi ríkir allt of oft ákveðið sérfræðingaræði. Þegar kemur að því að móta stefnu í mikilvægum málaflokkum eins og þessum sem fæst við grunnheilbrigðisþjónustu og grunnþarfir fólks í samfélaginu horfum við á vandamálið að ofan. Skýrslan felur í sér greiningu á því hvernig kerfið okkar er ekki nægilega gott og hún felur í sér mat sérfræðinga á því hvaða breytingar séu nauðsynlegar. Þó að það sé ágætisnálgun og nauðsynleg að vissu leyti vantar að við horfum á kerfið að neðan, frá sjónarhóli notenda, hver upplifun þeirra er sem þurfa að nýta sér þessi kerfi.

Það er allt of algengt að þegar fjallað er um áskoranir í geðheilbrigðismálum er ekki leitað til fólks með reynslu af geðrænum áskorunum nema þá kannski til skrauts. Um heim allan leggja hreyfingar þeirra sem byggja á eigin reynslu áherslu á „ekkert um okkur án okkar“ á meðan við hérna heima lítum á þetta sem eitthvert tæknilegt vandamál sem hægt er að útvista til sérfræðinga til að laga ofan frá. Þessu þarf að breyta.

Staða geðheilbrigðismála á Íslandi er ekki nægilega góð. Því miður hefur hún versnað frekar en batnað. Úrræðum hefur verið lokað vegna fjárskorts eða vegna þess að ríkið hefur hætt að veita framlög til þeirra og við vitum að margir þurfa að bíða oft vikum og mánuðum saman eftir að hljóta viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Kulnun er vaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku samfélagi, sem við erum rétt núna að byrja að átta okkur á. Á sama tíma hefur geðheilsu ungs fólks hrakað mikið, ekki síst ungra karlmanna. Frá árinu 2012 hefur ungum karlmönnum með geðgreiningu sem hljóta örorkubætur fjölgað um hátt í 30% og geðraskanir eru nú langalgengasta ástæða örorku á Íslandi. Hátt í 7.300 manns, 38% örorkulífeyrisþega, eru öryrkjar á grundvelli geðgreiningar.

Ég sakna þess að fjallað sé í skýrslunni um skort á sérhæfðri þjónustu við viðkvæma hópa. Sem dæmi má nefna viðvarandi skort á langtímameðferð fyrir fólk með tvíþættan og þríþættan vanda. Þessi skortur hefur m.a. haft þær afleiðingar í för með sér að heimilislausum í höfuðborginni fer fjölgandi með tilheyrandi afleiðingum fyrir einstaklingana sjálfa, aðstandendur þeirra og sveitarfélagið. Með sama hætti hafa Geðhjálp, Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis og nefnd gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð bent ítrekað á að takmörkuð geðheilbrigðisþjónusta í íslenskum fangelsum samræmist hvorki mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu.

Í skýrslunni er lítil áhersla lögð á starfsemi frjálsra félagasamtaka og hlut notenda í stefnumótun og framkvæmd þjónustunnar. Samt vitum við sem höfum látið þennan málaflokk okkur varða að nýsköpun á sviði geðheilbrigðismála er oftast drifin áfram af frjálsum félagasamtökum. Úrræðin sem hafa orðið til hafa skipt gríðarlegu máli fyrir það fólk sem hefur notað þau. Eldmóðnum sem er að finna í frjálsum félagasamtökum ber að fagna og nýta í stað þess að kæfa með kafkaískri bírókratíu.

Í skýrslunni er lítil grein gerð fyrir áhrifum samfélagsgerðar og menningar á geðheilsu fólks. Samt hafa rannsóknir sýnt fram á að þættir eins og vinnumenning, aðbúnaður fjölskyldna og barna, hafa afgerandi áhrif á geðheilsu almennings. Það er nefnilega svo að við getum gert fleira til að stuðla að bættu geðheilbrigði og bættri líðan en bara það að efla úrræði og þjónustu. Ef við viljum stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu landsmanna verðum við að styðjast við bestu og nýjustu þekkingu og nýta okkur þau verkfæri sem þekkingin hefur skapað. Við þurfum að horfa til streituvalda í samfélaginu og hvernig við getum byggt upp samfélag saman sem grundvallast ekki á því að keyra fólk út annaðhvort í skóla eða vinnu og ýtir þannig undir þann geðræna vanda sem við sjáum nú í síauknum mæli hjá ungu fólki.

Við þurfum að efla forvarnir, gæta þess að enginn lifi við eða undir fátæktarmörkum, horfa til hollara mataræðis, hvetja til innri íhugunar og tryggja að fólk hafi rými og tækifæri til að öðlast innri frið og tilgang. Við þurfum að stytta vinnuvikuna, gefa fólki meiri tíma með fjölskyldunni, með börnunum sínum, því að á sama tíma gefum við börnunum meiri tíma með foreldrum sínum. Að stytta vinnuvikuna er að fjárfesta í börnum okkar.

Það sem ég er fyrst og fremst að tala um er mannúðlegra samfélag þar sem fólk er ekki bara að draga fram líftóruna heldur fær tækifæri til að dafna og blómstra. Það er áhrifaríkasta leiðin til að tryggja bestu mögulegu líkamlega og andlega heilsu fólks. Við verðum að taka saman höndum til að byggja upp mannúðlegra samfélag þar sem við setjum vellíðan og andlega og líkamlega heilsu í fyrsta sæti.

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir skýrsluna í dag. Ég heyri að hæstv. ráðherra talar á þessum nótum í sínu máli og er það fagnaðarefni. Það er gott að við vinnum áfram að því markmiði að bæta geðheilsu allra landsmanna og það er verkefni okkar allra og ég vona svo sannarlega að við saman náum því markmiði.



[14:47]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir að fara yfir stöðuna og þær áhugaverðar hugleiðingar sem ráðherra setur fram varðandi svo mikilvæg mál sem geðheilbrigðismál eru. Það er auðheyrt að ráðherrann gengur til verks fullur vilja og með uppbrettar ermar í þessum efnum og er það vel.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum var samþykkt árið 2016 til fjögurra ára en meginmarkmið hennar er, með leyfi forseta:

„Aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.“

Horft verði til samþættingar á þjónustu og áhersla lögð á að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli geðheilsu auk þess sem uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra.

Í heild sinni er samþykkt stefna í geðheilbrigðismálum góð og gild en svo er annað mál hvernig okkur tekst að halda þræðinum og hvernig við spinnum hann áfram. Forvarnir eru til alls fyrst, fræðsla og upplýsingar. Því er mikilvægt að leggja áherslu á grunninn og þá skiptir samstarf ríkis og sveitarfélaga í geðheilbrigðismálum miklu máli. Sveitarfélögin hafa með bæði leikskóla og grunnskóla að gera.

Grunnur að góðri geðheilsu er lagður í gegnum skóla, frístundir og íþróttir. Snemmtæk íhlutun og heildstæð úrræði skipta máli um leið og erfiðleikanna verður vart. Heilsuefling í skólum þarf að fara fram með heildrænum hætti, en hún byggir undir alla þætti í framtíðarheimi einstaklingsins. Skimun fyrir áhættuþáttum hjá börnum, svo sem kvíða, þunglyndi og/eða áhrifum áfalla meðal barna, er þáttur í forvörnum. Þannig er hægt að veita viðeigandi stuðning og fræðslu ef viðkomandi einstaklingur telst í áhættuhópi.

En það er ekki allt unnið í gegnum skólann heldur þarf að hlúa vel að fjölskyldunni, styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Það hefur góð áhrif á samfélagið allt. Geðlæknar, kennarar og sálfræðingar hafa lagt áherslu á að hægja þurfi á þjóðfélaginu, lifa í hægara tempói, staldra við og njóta. Okkur er svo gjarnt að setja undir okkur hausinn og æða áfram. Þjóðfélag í mildara takti skapar betri núvitund og rými fyrir athygli okkar hvert á öðru. Leiðin til þess er til að mynda að stefna að lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og sveigjanlegri vinnutíma eða styttingu hans. Það færir okkur nær fjölskylduvænu samfélagi.

Virðulegi forseti. Þegar talað er um skipulagða heilbrigðisþjónustu er átt við að allir landsmenn eigi kost á góðri þjónustu á hverjum tíma óháð búsetu. Það á við um alla heilbrigðisþjónustu, hvort sem það snýr að andlegu, líkamlegu eða félagslegu heilbrigði. Það verður líka að raungerast að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi.

Í nýsamþykktri byggðaáætlun er gert ráð fyrir að náið samráð sé milli ráðuneyta og stofnana ríkisins og sveitarfélaga við framkvæmd byggðastefnu til að tryggja samhæfingu og áætlanagerð hins opinbera. Í því sambandi er talað um að gera þjónustukort sem sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu. Þar verður til gagnagrunnur til að nýta til frekari stefnumörkunar og þar verður líka hægt að sjá hvar skórinn kreppir í heilbrigðisþjónustu. Íbúar landsins, hvar sem þeir búa, eiga að hafa aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Núverandi stjórnvöld hafa lagt áherslu á dreifða þjónustu. Geðheilsuteymum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fjölgað og komið á fót nýjum teymum á landsbyggðinni. Þetta er góður grunnur að samþættri geðheilbrigðisáætlun um landið og mikilvægt að haldið verði áfram á þessari braut. Markmið með geðheilsuteymum vítt og breitt um landið er að færa þjónustuna nær fólkinu með því að virkja heilsugæslustöðvar sem fyrsta þjónustuáfanga fólks með geðheilbrigðisvanda í því samfélagi sem þjónustuþeginn lifir í. Teymið er með yfirsýn yfir þjónustuna sem er í boði og stuðlar að því að hún nýtist sem best og sér um öll samskipti við aðrar stofnanir, fagaðila og meðferðarúrræði er varða geðheilbrigðismál.

Með þessu er líka verið að taka á fordómum bæði innan samfélagsins og heilbrigðisgeirans sem er mjög mikilvægt líka. Þetta er til þess fallið að auka getu heilsugæslunnar til að takast á við flóknari geðræna sjúkdóma. Það er ánægjulegt að sjá að stefnt er á að komið verði geðheilsuteymi í öllum landshlutum á árinu 2020. Það er einnig ánægjulegt að sjá að markmiðið er líka að horfa til þjónustu ólíkra hópa og koma til móts við þá, eins og t.d. heyrnarlausa og heyrnarskertra og aðgang þeirra að túlkaþjónustu. Þetta þarf líka að vera til staðar fyrir aðra hópa, það þarf að snerta alla þjóðfélagshópa, t.d. aðra fatlaða einstaklinga, útlendinga og aðra. Allir eiga að geta horft til þess að heilsugæslustöðin verði þeirra fyrsti viðkomustaður ef á brýtur.

Gert er ráð fyrir að starfshópur kanni hvort farþjónusta geti nýst til að veita fólki meðferð vegna geðraskana. Þarna er verið að koma til móts við fólk í hinum dreifðu byggðum og tryggja aðgang allra landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu. Fjarskiptaþjónustu er verið að nota víða. Má nefna stuðningsþjónustu í skólum eins og talkennslu og túlkaþjónustu, einnig sálfræðiþjónustu við nemendur. Hefur þetta gefist vel víða um landið. Fjarþjónusta á einnig við um almenna heilbrigðisþjónustu og er mikilvægt að þróa þessa aðferð áfram með opnum huga. Hana þarf auðvitað að veita með öruggum hætti ásamt því að skoða ýmsar leiðir til að nýta þjónustuna jafnt um allt land. Þrátt fyrir að slík þjónusta komi aldrei að fullu í staðinn fyrir samtal augliti til auglitis opnar þetta á jafnrétti og í einhverjum tilfellum er kannski auðveldara að nálgast vandann með slíkum hætti en að sækja þjónustuna um langan veg.

Virðulegi forseti. Það er víða pottur brotinn í geðheilbrigðismálum. Það vantar langtímaúrræði. Það er mikilvægt að hlutirnir séu hugsaðir heildrænt til að hjálpa fólki með tvíþættan vanda. Langtímaúrræði fyrir fólk með geðrænan vanda vantar. Margir hafa ræktað með sér geðsjúkdóma í gegnum fíkn og hafa ekki fengið geðgreiningu og viðeigandi úrræði til að komast á betri stað. Það er engin nýlunda að einstaklingur með tvíþættan vanda sé vistaður í fangageymslu. Það eru líka dæmi um að einstaklingar hafi orðið vímuefnum að bráð og lendi alls staðar á milli í kerfinu. Við erum ekki bara að tala um ungt fólk og aðstandendur þess heldur líka fullorðna einstaklinga sem koma að luktum dyrum í kerfinu.

Geðrænir kvillar fara ekki í manngreinarálit og oft fylgja þeir fólki lífið út. Það vantar búsetuúrræði fyrir þá sem nota fíkniefni. Það er ekkert búsetuúrræði fyrir konur í þessum vanda. Það eru konur á götunni sem eru tvígreindar og eiga fjölda meðferða að baki sem ekki hafa skilað þeim til fullrar samfélagsþátttöku. Margt kemur til greina. Eitt það mikilvægasta sem stendur fólki næst er heimilið, en oft er bara eitt sem bíður eftir meðferð og það er gatan. Meðferðin skilar ekki árangri nema einstaklingurinn sjái tilgang í að snúa aftur heim og hefja endurhæfingu í öruggu athvarfi.

Það vantar úrræði fyrir þessar konur. Það eru til úrræði fyrir karla, en það þarf að gera meira. Í Konukoti, neyðarúrræði í búsetu, eru konur sem hafa búið þar jafnvel árum saman. Það er bara úrræði til skamms tíma og ekki til þess fallið að þær sem gista þar geti kallað það heimili. Í Kvennaathvarfinu mega konur ekki vera undir áhrifum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að finna búsetuúrræði fyrir þessa einstaklinga. Fólk á götunni er ekki fært um að vinna með sinn vanda og oft er mikil áfallasaga að baki hjá því. Í heimildarmyndinni Lof mér að lifa sem sýnd var á RÚV fyrir skemmstu var rætt við konur sem voru á leið í meðferð en voru ekki nægilega bjartsýnar á árangur því að þær vissu ekki hvar eða hvort þær ættu einhvers staðar höfði sínu að halla eftir meðferðina. Það má líkja þessum hópi við flóttamenn sem hafa flúið heimili sitt og lífið verður alltaf einn flótti meðan þær hafa ekki öruggt skjól. Húsnæði innan fjögurra veggja er efnisatriði, en heimili er byggt upp í hægfara ferli, er stundum sagt. Brotið heimili er því oft þröskuldurinn sem margir hnjóta um í endurhæfingarferli sínu.

Þátttaka í samfélagi skiptir alla máli. Endurkoma á vinnumarkað getur líka skipt sköpum, bæði efnahagslega og í að endurheimta heilsuna. Vinnumarkaðurinn þarf að vera tilbúinn að taka á móti fólki sem kemur úr endurhæfingu, kannski með skert vinnuþrek í fyrstu, en hefur fullan vilja til að taka þátt. Hlutastörf og sveigjanlegur vinnutími kemur sterkt inn og á endanum hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál allra að skapa fólki möguleika á endurkomu út á vinnumarkaðinn.

VIRK hefur unnið ötult starf og hjálpað mörgum í að endurheimta vinnuþrek sitt og sjálfstraust. Þjónustan hefur miðað að því að styðja einstaklinga með heilsubrest aftur út á vinnumarkað. Hluti fólks í endurhæfingu leitar í sitt fyrra starf eða þarf að leita á ný mið. Endurhæfing á sér líka stað í gegnum starf og vinnu og er mikilvægt skref í endurkomu í samfélagsþátttöku.

Virðulegi forseti. Við erum með samþætta stefnu til fjögurra ára í geðheilbrigðismálum en tíminn tikkar og núverandi stefna rennur út á árinu 2020. Þá er væntanlega kominn tími til að horfa á næstu skref og hvert skuli stefna. Hver verða áhersluatriðin í næstu stefnu? Verður lögð áhersla á að búa til stefnu sem nær yfir einstaklinga með tvíþættan vanda? Samþykktar stefnur ættu að vera sem lífrænastar og ættu stöðugt að vera í endurskoðun með áherslu á víðtækt samráð svo að þekking og reynsla nýtist best. Þess er vænst að öll vinna sem tengist framkvæmd geðheilbrigðisstefnu leiði til skipulegri vinnubragða, skýrari verkaskiptingar, aukinnar samhæfingar og samvinnu við að efla heilsu og auka vellíðan almennings og draga úr áhrifum ójafnaðar á heilsu. Þannig náum við að viðhalda ásættanlegu geðheilbrigði um allt land.



[14:59]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa góðu og gegnu skýrslu. Hún er uppfull af væntingum um bjartari og betri tíma og þessi kafli sem fjallar um geðheilbrigðismál verður svo sannarlega aldrei nógu vel krufinn svo vel verði til framtíðar.

Það sem við horfum upp á í dag og hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi áðan er að 40 einstaklingar sviptu sig lífi í fyrra. Það sem af er ári eru 40 einstaklingar dánir og er verið að rannsaka hvort og hversu margir af þeim hafi hreinlega látist vegna lyfjaeitrunar. Geðteymin okkar, spítalinn, réttar- og öryggisgeðdeildir og nú síðast Skúli Magnússon, héraðsdómari og fyrrverandi formaður Dómarafélags Íslands, tala um þá miklu aukningu sem hefur orðið á nauðungarvistun ungra manna og drengja. Vegna hvers? Jú, vegna kannabisreykinga, segir hann. Það sé hafið yfir allan vafa að ungir drengir sem byrja að reykja kannabis á aldrinum 12–15 ára eiga eftir að ganga í gegnum eitthvað slíkt í fleiri en færri tilvikum. Það hefur orðið vart við það að strax í kringum tvítugt lenda þessir ungu menn í geðrofi. Hvað verður svo um þá? Þeir eru nauðungarvistaðir. Þeir eru inni á öryggisgeðdeild. Þeir fá jafnvel hjálp þannig að þeir geti virkað úti í samfélaginu og komið út í samfélagið. Þeir fá lyf og allan aðbúnað. En hver er eftirfylgnin? Hún er lítil sem engin. Búsetuúrræði og aðbúnaður, aðstoð við að komast út í samfélagið, aðstoð við að fá vinnu, allt er það af svo skornum skammti að þessir mörgu einstaklingar verða bara að sitja áfram inni á geðdeild þótt þeir eigi að heita tilbúnir til að ganga aftur inn í samfélagið.

Það er svo margt sem við getum gert annað en að setja niður falleg orð á blað. Það er svo margt sem við getum gert ef við bregðumst við með gjörðum en ekki bara orðum.

Ég veit að hlutskipti hæstv. heilbrigðisráðherra er erfitt. Þetta er gríðarlega stórt verkefni sem hún hefur í fanginu og ég óska henni sannarlega alls hins besta og ég vænti mjög mikils af henni þegar ég vissi að hún fékk þetta erfiða hlutskipti. En það breytir ekki þeirri staðreynd að mér finnst of mikið um tal, of lítið um framkvæmdir. Ég horfi á biðlistana inn á Vog, 600 einstaklingar. Nú hefur það verið viðurkennt að fíknisjúkdómar eru í mörgum tilvikum beintengdir geðrænum vanda. Hvers vegna erum við, virðulegi forseti, með 600 manns á biðlista eftir hjálp inni á Vogi? Ég bara get ekki talað nógu oft um það í þessu æðsta púlti landsins. Getum við lokað augunum fyrir því að fleiri hafa dáið á þessu ári vegna fíknivanda en samanlagt úr öllum öðrum sjúkdómum einstaklinga á aldursbilinu 18–40 ára á Íslandi? Er mögulegt að loka augunum fyrir því? Ég segi nei.

Það gæti kostað okkur 200 millj. kr. að eyða þessum biðlistum. Á innan við ári værum við komin í jafnvægi og gætum tekið við öllum sem væru tilbúnir á þeim tímapunkti að leita sér hjálpar. Við gætum gert það strax. 200 milljónir í þessu sambandi í mínum huga eru baunir, virðulegi forseti, ekki grænar baunir heldur bara baunir í orðsins fyllstu merkingu.

Við tölum um að þetta kerfi eigi að vera frábært alls staðar á öllu landinu, það eigi ekki vera háð búsetu hvort við fáum þjónustu. Við horfum til skólakerfisins. Í kosningabaráttunni 2016, fyrstu kosningabaráttu sem ég tók þátt í, þá sem formaður Flokks fólksins, með nýstofnaðan stjórnmálaflokk, var einn samnefnari í framhaldsskólunum. Unga fólkið okkar bað um aðstoð, sálfræðiþjónustu, endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu inn í skólann til sín. Hvar er hún núna, virðulegi forseti? Við lofuðum því öll að ef við fengjum umboð til þess og settumst hér í þessa stóla myndu börnin fá þessa þjónustu. Hvar er hún nú? Hvað skyldi verða um þau 30% ungra drengja sem útskrifast úr grunnskóla með lélegan lesskilning? Hvernig gengur þeim? Fara þeir í framhaldsnám? Og ef þeir skyldu ætla að freista gæfunnar þar, hvað verður þá um þá?

Hverjir eru það sem eiga í þessum geðvanda? Hvernig bregðumst við við strax? Ekki á morgun, ekki með fallegum orðum heldur með gjörðum strax.

Virðulegi forseti. Ég sendi hæstv. heilbrigðisráðherra baráttukveðjur og veit að hún á svo sannarlega erfitt og umfangsmikið verk fyrir höndum. En ég treysti því að með samstilltu átaki og öflugum vilja getum við gjörbreytt strax þeirri umgjörð og leyst úr þeim vanda sem allt of margt af unga fólkinu okkar býr við í dag. Geðheilbrigðismál á Íslandi þurfa ekki að vera eins skelfileg og í eins ömurlegu ástandi og þau eru nú ef við bregðumst við strax.



[15:06]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Geðheilbrigðismál hafa oft og iðulega mætt afgangi og gera það enn, því miður, þótt góður vilji standi til annars, sem betur fer. Af hverju er ég að segja þetta, frú forseti? Við skulum taka dæmi. Manneskja sem lendir í alvarlegu slysi eða greinist með alvarlegan, lífshættulegan, líkamlegan sjúkdóm fær líklegast ekki þau skilaboð að fara aftur heim, bíða svolítið og sjá hvernig verður, hvort hún verði ekki bara hressari, eða að deildin verði lokuð yfir sumartímann, langur biðlisti sé í úrræði og mæti í framhaldinu, að öllum líkindum, fordómum eða jafnvel útskúfun úr samfélaginu. Nei, sem betur fer er manneskju sem lendir í slíkum alvarlegum, lífshættulegum, líkamlegum veikindum líklegast mætt í heilbrigðiskerfinu okkar með viðbragðsáætlun og allt gert til að finna lækningu, þótt vissulega finnist sumum aldrei nóg að gert. Með þessu er ég ekki að segja að þeir góðu fagaðilar sem hafa sérhæft sig í geðheilbrigðismálum sinni ekki sjúklingunum sínum, langt því frá, heldur höfum við stjórnmálamenn og stjórnvöld sett þessi mál aftar í forgangsröðun allt of lengi.

Þó svo að ég fagni vissulega tilkomu skýrslu heilbrigðisráðherra og góðum orðum hennar og margt fínt sé að finna þar sakna ég þess að skýrslan endurspegli betur þann margþætta vanda sem blasir við þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda, þar sem skjólstæðingar og fjölskyldur eru sendar fram og til baka innan kerfis og utan. Við höfum upplifað það, m.a. í heimildarþáttum í sjónvarpinu á nýliðnum dögum. Og það er jafnvel stundum rifist um hver eigi að borga reikninginn. Þetta sjáum við líka. Stundum er leitin að hjálp það flókin að einstaklingar gefast upp á því að leita hjálpar innan kerfisins. Við því þarf að sporna. Skortur á ábyrgð og óskýrt ferli flækist fyrir. Útgangspunkturinn verður að vera einstaklingurinn sjálfur og þarfir hans. Það þarf að leysa upp þessa endalausu múra þar sem kerfin tala ekki saman.

Að mínu mati er mikilvægt að til séu með þessu mælanlegar tölur um árangur á þessu sviði þannig að haldið verði áfram að gera nákvæmlega það sem tekist hefur vel og þora líka að segja að við hættum við það sem gengur hreinlega ekki upp. Breytt nálgun og aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla ætti að mínu mati að vera algjört forgangsmál.

Við vitum að einstaklingar á aldrinum 18–25 eru í hvað mestri hættu þegar kemur að andlegum veikindum. Fimmta hver kona á aldrinum 18–25 ára mælist hér á landi með þunglyndiseinkenni. Algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á sama aldri er sjálfsvíg eða fíknitengd.

Í nýrri skýrslu embættis landlæknis kemur fram að um 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs einhvern tímann á ævinni. 46.266 einstaklingar leystu út þunglyndislyf á Íslandi árið 2016, sem er um 22% aukning frá árinu 2012. Rúmlega þriðjungur háskólanema á Íslandi mælist með miðlungs eða alvarleg einkenni þunglyndis, yfir 4.000 þeirra. Og um 20% nemenda mælast einnig með kvíðaeinkenni. Stærsti hluti örorkubóta er greiddur vegna andlegrar örorku.

Ég vil einnig geta í þessu samhengi að á sjúkrahúsið Vog innritast sex sjúklingar á dag að meðaltali alla daga ársins en ríflega 600 manns eru þar nú á biðlista. Bara á þessu ári hafa síðan 27 einstaklingar yngri en 40 ára látið lífið með greiningu á fíknisjúkdóm. Við blasir að stórefla þarf fyrsta viðkomustað hver sem hann er og tryggja öllum viðeigandi aðstoð. Það er lífsnauðsynlegt.

Opin umræða um málaflokkinn síðustu misserin hefur skilað fleiri stöðugildum sálfræðinga innan háskóla, framhaldsskóla og í heilsugæslu og myndað grundvöll fyrir þá áætlun sem nú er til umræðu, sem er fagnaðarefni. En aðgengi er samt sem áður ekki tryggt í núverandi kerfi og það er áhyggjuefni.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu telja um 33% Íslendinga sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu og á þetta sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk. 10–15 meðferðartímar hjá sálfræðingi kosta líklega á bilinu 120.000–220.000 kr. Fjöldi einstaklinga neyðist til að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu þjónustu vegna fjárskorts. Það leiðir til umfangsmeiri vandamála og kostnaðarmeiri úrræða til að bregðast við þeim vandamálum seinna meir. Þetta vitum við. Þó svo að verið sé að auka úrræðin í heilsugæslunni eru þar einnig langir biðlistar, auk þess sem ekki er víst að þar séu nákvæmlega þau úrræði sem henti hverju sinni fyrir skjólstæðinginn. Hvaða skilaboð eru síðan stjórnvöld að senda til almennings þegar almenn sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd í gegnum Sjúkratryggingar Íslands líkt og önnur nauðsynleg heilbrigðisþjónusta þegar fíknigeðdeild og meðferðarheimili eru lokuð yfir sumartímann vegna fjárskorts og þegar þrengt er að fjármagni þeirra frjálsu félagasamtaka sem hafa sinnt málaflokknum af alúð, eins og hjá Hugarafli, Rauða krossinum og SÁÁ?

Ég velti einnig fyrir mér hvort þetta hökt við að leysa málin sé tengt því að stjórnvöld vilji ekki horfast í augu við að krafa um aukna heilbrigðisþjónustu á þessu sviði verður ekki eingöngu leyst með opinberu framtaki heldur í gegnum fjölbreyttar leiðir í samvinnu við sjálfstætt starfandi aðila svo heilbrigðisþjónustan okkar verði þannig að fólki með alls konar sjúkdóma og á biðlistum verði sinnt

Við hljótum öll að sjá mikilvægi þess sem felst í að gera betur á öllum stigum, hvort sem við skoðum að efla forvarnir, úrræði, sveitarstjórnarstigið, skólana, meðferðarúrræðin eða einfaldlega það að við getum sagt fólki að samfélagið sé tilbúið til að taka á móti og við því þegar það er búið að vera í meðhöndlun og meðferð. Mér finnst það a.m.k. augljóst.

Með aukinni áherslu á geðheilbrigðismál tækist okkur þó fyrst og fremst að bjarga mannslífum. Það eitt og sér ætti að vera rík ástæða til að grípa til aðgerða. Hver króna sem varið er í þennan málaflokk skilar sér margfalt til baka, en það er stundum eins og kerfið sjálft og fjármunir sem fylgja í heilbrigðiskerfið fari þangað sem þægilegast er að setja upp excel-skjalið í stað þess (Forseti hringir.) að fjárfesta í lausnum við sjúkdómum sem hafa, frú forseti, verið allt of lengi undir yfirborðinu. — Ég ætla að taka meiri tíma, (Forseti hringir.) næsti þingmaður fyrir Viðreisn mun taka minni tíma í skýrsluumræðuna, við skiptum því þannig á milli okkar.

Það sem ég er að segja er að kannski er auðvelt fyrir kerfið að henda bara fjármununum á þann stað, þ.e. inn í þetta blessaða excel-skjal eða á þau svið sem er einfaldlega þægilegt að reikna út af því að það er allt svo fyrirsjáanlegt. Við erum að tala um geðsjúkdóma. Þeir eru ekki endilega fyrirsjáanlegir nema það að við vitum að þeir hafa valdið ómældum sársauka og skaða fyrir fólkið sjálft, svo ég tali ekki um íslenskt samfélag sömuleiðis.

Það er að sjálfsögðu undir okkur komið að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á því að halda, líka þegar kemur að geðsjúkdómum. Það er því á ábyrgð okkar stjórnmálamanna að forgangsraða og tryggja fjármagn í málaflokkinn og leggja hönd á plóg við að létta þeim sjúklingum lífið og tryggja þeim betri lífsgæði.

Ég er sannfærð um, frú forseti, að við getum gert betur þvert á flokka til að mæta þessum vanda. Við í Viðreisn erum a.m.k. reiðubúin til að styðja ráðherra með ráðum og dáð til að svo verði því að þetta er vandi sem ekki er hægt að bíða með að leysa og vona svo að hann hverfi bara með tímanum. Það er einfaldlega ekki nóg að við séum öll ofboðslega meðvituð um hversu alvarlegt ástandið er hér á landi, heldur þurfum við líka sem erum hér inni að efna öll fallegu loforðin og öll fallegu fyrirheitin sem lengi hafa einkennt pólitíska umræðu um geðheilbrigðismál. Það væri a.m.k. ágætisbyrjun.



[15:16]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hennar yfirferð á henni. Við erum að ræða málaflokk sem varðar okkur öll. Geðheilbrigðismál og geðheilsa eru ekki einkamál þeirra sem kunna að eiga í svona sjúkdómum eða eiga ættingja sem hafa fengið slíka sjúkdóma. Þetta er vandamál okkar allra, þetta er vandamál samfélagsins.

Mig langar að koma sérstaklega inn á hóp í geðheilbrigðiskerfinu sem hefur lítið verið rætt um hér í dag, eldra fólk. Eldra fólk er að því leyti til alveg eins og við hin að það fær geðsjúkdóma. Það sem er kannski öðruvísi með eldra fólk en okkur hin er að þegar það er komið á fullorðinsár er það oft og tíðum búið að ganga með sína sjúkdóma áratugum saman. Því miður hefur það verið þannig í okkar heilbrigðiskerfi fram undir þetta að þegar eldra fólk er komið á háan aldur mætir það fordómum, mætir því að það eru í rauninni, a.m.k. enn sem komið er, engin sértæk úrræði til fyrir geðfatlaða aldraða einstaklinga. Þetta er afar miður.

„Burtu með fordóma og annan eins ósóma,“ söng Pollapönk. Það má eiginlega segja að eldri einstaklingar lendi tvöfalt í fordómunum. Það er ekki einasta að það séu undirliggjandi ákveðnir fordómar í garð eldra fólks í samfélaginu heldur eru líka í þessu tilfelli fordómar gagnvart þeim sjúkdómum sem þeir kunna að hafa. Fordómar í garð geðsjúkdóma birtast í mörgu, til að mynda í því að við sem teljum okkur vera heilbrigð veltum því í sífellu fyrir okkur hvort ekki geti einhverjir aðrir en sérfræðingar í heilbrigðisþjónustu sinnt þessum einstaklingum. Við veltum því fyrir okkur hvort það sé ekki örugglega óþarfi að gefa fólki sem er með geðsjúkdóma meðul og við mörg í þessum sal, ég þar á meðal, förum með upphrópunum í fjölmiðla yfir því hvað við séum að „ausa miklu af geðlyfjum“ í eldra fólk. Undirliggjandi í orðræðunni, í því hvernig við tölum um hlutina, liggja fordómar okkar og fordómar þeirra sem fara af stað með umræðuna. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að maður vandi sig þegar maður talar um þennan sjúkdómaflokk vegna þess að það er sérstaklega áberandi að þeir sem eiga í hlut eru sjaldnast í stöðu til að verja sig í umræðunni. Við verðum að muna þetta.

Það er gaman að geta sagt frá því hér, svo þetta sé ekki tómt svartnætti og neikvæðni, að einmitt um þessar mundir er verið að vinna í því — mér er kunnugt um það — að stíga fyrstu skrefin í að útvega sérstök úrræði fyrir eldra fólk inni á hjúkrunarheimilum sem á við geðrænan vanda að stríða. Sú vinna er í heilbrigðisráðuneytinu akkúrat núna og ég vil meina að það sé til marks um að núna fylgi athafnir orðum þegar við tölum um að við ætlum að leggja sérstaka áherslu á þessu kjörtímabili á heilbrigðismál geðfatlaðra og geðsjúkra. Þetta skiptir allt máli og við verðum að stíga ákveðin skref, en við verðum líka að stíga gagnreynd skref.

Það er kannski seinasti punkturinn sem ég vil koma að, að detta ekki í þá gryfju að fá góða hugmynd, ýta henni af stað og ímynda sér að núna séum við búin að leysa vandann, heldur fara eftir bestu ráðum, leita upplýsinga eins og kemur fram að hefur verið gert í þessari skýrslu, fara eftir þeim og leggja síðan af stað í vegferð sem vafalítið verður löng en ef við vitum hvert við erum að fara eru meiri líkur á að við komumst á áfangastað.



[15:21]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferð hennar yfir skýrslu um geðheilbrigðismál. Það má segja að geðheilbrigðismál séu stóri fíllinn í postulínsbúð stjórnvalda. Heilbrigðismál almennt hafa verið vanrækt stórkostlega hjá síðustu ríkisstjórnum þrátt fyrir þjóðarsátt um stórátak í heilbrigðismálum, en geðheilbrigðismálin enn frekar. Ég veit ekki hvers vegna geðheilbrigði hefur mátt sæta þessari vanrækslu en mig grunar að það hafi eitthvað að gera með kerfislæga fordóma gagnvart andlegu heilsuleysi. Til að ná árangri í geðheilbrigðismálum verða stjórnvöld að taka höndum saman þvert á allt kerfið. Geðheilbrigði varðar allt sem snertir daglegt líf og þannig verða miklu fleiri ráðuneyti en heilbrigðisráðuneytið eitt að koma að þessu verkefni. Þá verða sveitarfélög og ríki að vera í þéttu sambandi um hvernig þjónusta á þann hóp fólks sem glímir við geðræn veikindi.

Við höfum býsna gott tækifæri til að taka vel utan um þann hóp sem glímir við geðræn vandamál. Okkar félagslega kerfi er þannig upp byggt að við getum greint mögulegan vanda mjög snemma og ættum, ef pólitískur vilji væri fyrir hendi, að geta veitt fullnægjandi þjónustu af alúð en festu. Fyrir liggur að geðræn vandamál koma oft snemma í ljós en 75% raskana eru komin fram hjá fólki strax á þrítugsaldri. Þar sem skólakerfið okkar og heilbrigðiseftirlit með börnum á leik- og grunnskólaaldri er býsna gott ættum við að geta hnýtt viðbragðsnet til að grípa þá einstaklinga sem glíma við geðheilbrigðisvanda, en því miður hefur okkur mistekist hrapallega í því skylduverkefni okkar og allt of oft hafa áætlanir og háleit markmið legið ofan í skúffu óframkvæmd.

Þannig er t.d. með geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var hér á Alþingi til fjögurra ára árið 2016 og get ég þannig ekki verið sammála hæstv. heilbrigðisráðherra sem segir í skýrslu sinni að með geðheilbrigðisstefnu og áætlun hafi verið stigið mikilvægt og jákvætt skref í átt að bættri heilbrigðisþjónustu. Í áætluninni má vissulega finna fjölmargar góðar tillögur að úrbótum en svo virðist sem fátt hafi komist til framkvæmda. Orðum verða nefnilega að fylgja verk.

Sem dæmi skal fyrsta aðgerð áætlunarinnar lúta að lagasetningu um að ríki og sveitarfélög skuli gera samning um samvinnu hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu. Ekkert bólar á þessari lagasetningu sem þó á að vera löngu frágengin. Þetta er miður enda er ljóst að skortur á agaðri stefnumótun og fjármagni veldur því að báðir aðilar, sveitarfélög og ríki, halda að sér höndum hvað varðar þjónustu við einstaklinga með geðrænan vanda með þeim afleiðingum að fólk sem þarf á þjónustunni að halda er skilið eftir á berangri, hvort sem um er að ræða búsetu, heilbrigðis- eða virkniúrræði.

Annað atriði á að vera komið til framkvæmda en það snýr að geðheilsuteymum sem átti að fjölga um allt land en fyrir var eitt teymi á höfuðborgarsvæðinu. Þannig átti fólk sem glímir við geðröskun að hafa aðgang að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem komi að greiningu og meðferð um allt landið. Nú, fjórum árum síðar, hefur eitt nýtt teymi tekið til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Eitt. Ekkert slíkt teymi er að finna á landsbyggðinni, að því ég best veit, og þarna sést að hin samþykkta geðheilbrigðisáætlun er á lokaári sínu ekki komin til framkvæmda í grundvallaratriðum. Þetta er flott plagg, frú forseti, vissulega samþykkt af Alþingi, en því fer fjarri að það sé merki um bætta þjónustu.

Ég hef einnig þó nokkrar áhyggjur af því hversu illa stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir þeirri þjónustuþörf sem er um allt land. Vakti það athygli mína að lesa í skýrslunni að þörfin hefði ekki verið metin með formlegum hætti og að slíkt mat væri æskilegt. Í raun sakna ég þess að í skýrslunni sé ekki að finna neinar upplýsingar um þörfina. Þannig geta stjórnvöld í raun ekkert sagt til um það hvort verið sé að veita nauðsynlega þjónustu eða hversu mikið vanti upp á.

Sú frásögn í skýrslunni að geðheilbrigðisþjónusta sé veitt á heilsugæslustöðvum um allt land er ekki raunsönn, enda veit ég fyrir víst að íbúar víða um land, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða um landið, kannast ekkert við þá sérfræðiþjónustu sem nauðsynleg er. Vegna þessa skorts á yfirsýn yfir umfangið og veitta þjónustu verður þessi skýrsla hæstv. ráðherra því miður lítið annað en vangaveltur, hugmyndir út í framtíðina frekar en stöðutaka á því stóra verkefni sem liggur fyrir.

Ég get í lok ræðu minnar ekki látið hjá líða að minnast á þá einstaklinga sem eru með tvíþættan vanda, þ.e. hvort tveggja geðrænan vanda sem og fíknivanda. Þeir einstaklingar verða helst út undan í kerfinu því að þau virðast einhvern veginn hvergi henta alveg í þau fáu úrræði sem þó eru til staðar. Þau komast, að því er virðist, hvergi inn, fá ekki pláss. Þeir aðilar sem koma að þjónustu við þennan hóp hafa margir hverjir þurft að vísa fárveikum einstaklingum frá þegar þeir leita aðstoðar í neyð sinni. Breytir þá engu hvort um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna. Höfum við þannig fengið ítrekaðar fregnir af fárveiku fólki vistuðu í fangageymslum lögreglu sem eins og allir vita er skýrt mannréttindabrot stjórnvalda gegn þessum hópi.

Frú forseti. Allt of lítið fjármagn er til skiptanna meini ríkisstjórnin eitthvað með því að þau vilji leggja sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál. Einn fagaðili fer með geðmálin í heilbrigðisráðuneytinu þó að fólk með geðraskanir sé 38% (Forseti hringir.) þeirra sem úrskurðaðir hafa verið með örorku. Sjálfstæðum aðilum, félagasamtökum, sem komið hafa að þjónustu við fólk með geðraskanir, (Forseti hringir.) hefur fækkað ört að undanförnu, en þörfin fyrir þjónustuna eykst stöðugt. Við bara verðum að gera betur.



[15:27]
Þorgrímur Sigmundsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa skýrslu. Forvarnir eiga að vera lykilþáttur í framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar. Byrja þarf á grunninum, börnunum, allt frá tengslamyndun milli ungbarna og foreldra eða annarra umráðamanna til skólagöngu, frá leikskóla og upp í gegnum grunn- og framhaldsskóla. Mikilvægur hlekkur er uppeldisfræðsla fyrir verðandi og nýbakaða foreldra. Mikið og gott eftirlit er með líkamlegri heilsu móður og barns á meðgöngu og við tekur meðgönguvernd þegar barnið er komið í heiminn.

Sálfræði- og félagslegur stuðningur við nýja foreldra er hins vegar af afar skornum skammti. Foreldrafærni getur ráðið úrslitum þegar kemur að því að mynda tengsl við barn sitt. Þegar frávik verður á þessari tengslamyndun aukast líkur á ýmiss konar vanda. Því má færa fyrir því rök að sálfræði- og félagslegur stuðningur við foreldra skili sér og eigi að vera hluti af geðheilbrigðisáætlun. Í 1. lið í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Geðræn vandamál koma oft snemma í ljós og geta haft mikil og langvarandi áhrif á líf fólks. Um helmingur geðraskana er kominn fram á táningsárum og 75% geðraskana eru komnar fram þegar einstaklingar eru á þrítugsaldri. Talið er að einn af hverjum fjórum muni á einhverjum tímapunkti í lífi sínu glíma við geðrænan vanda. Lengi býr að fyrstu gerð og mikilvægt er að hlúa að geðheilbrigði strax í æsku með geðrækt, forvörnum og veitingu gagnreyndrar meðferðar um leið og vanda verður vart.“

Gagnreynt er tískuorðið núna, hæstv. heilbrigðisráðherra.

„Huga þarf sérstaklega að viðkvæmri stöðu barna sem búa við erfiðar aðstæður, þar sem foreldrar glíma við geðrænan vanda og/eða fíknivanda, til að forðast að vandinn flytjist milli kynslóða.“

Jákvæð sjálfsmynd er bæði afburðaforvörn sem og eitt af lykilatriðum í hvers konar uppbyggingarferli manneskjunnar. Einstaklingur með jákvæða sjálfsmynd stendur betur að vígi gagnvart ýmsum frávikum á hinu geðræna sviði. Hana ber því að rækta frá barnæsku.

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þessi mjög svo brýnu mál og hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til allra góðra verka á sviði geðheilbrigðismála, ekki hvað síst úti á landi þar sem aðgangur að slíkri þjónustu er með mjög misjöfnum hætti og víða svo langt frá því að vera boðlegur.

Hæstv. forseti. Hugarafl, ég segi ekki meir. Þjóðarátaks er þörf. Sálfræðiþjónustu, hæstv. heilbrigðisráðherra, undir Sjúkratryggingar Íslands.



[15:31]
Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Í skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra sem við ræðum segir réttilega að markmiðið með skipulagðri heilbrigðisþjónustu sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Jafnframt er það markmið að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi til að mæta þörfum sjúklinga. Þetta á við um geðheilbrigðisþjónustu sem og aðra heilbrigðisþjónustu.

Einkunnarorð Geðræktar eru: „Það er engin heilsa án geðheilsu“. Þetta eru orð að sönnu, en við Íslendingar stöndum eins og aðrar þjóðir frammi fyrir miklum áskorunum þegar kemur að geðheilbrigði. Samkvæmt rannsókn 28 sérfræðinga um allan heim er geðheilbrigðisvandinn alþjóðlegur og kominn að hættumörkum. Með aðgerðaleysi er verið að láta fólk þjást að óþörfu, segir í skýrslu sérfræðinganna sem birtist í hinu virta læknavísindariti The Lancet. Öll lönd finna fyrir byrði vaxandi heilsukvilla og það þrátt fyrir að þekking okkar á meðferð þeirra kvilla hafi aukist.

Það er gert ráð fyrir að tap ríkja heims vegna vinnutaps einstaklinga með geðræn vandamál verði um 16.000 milljarðar bandaríkjadollara. Það eru um 1.800.000 milljarðar íslenskra króna. Þetta eru fjárhæðir sem enginn skilur. En eitt er hinir fjárhagslegir hagsmunir sem eru í húfi og annað er það sem skiptir öllu máli, lífsgæði fólks sem berst við alvarleg veikindi, líkamleg eða andleg.

Sérfræðingar fullyrða að hægt væri að bjarga nærri 14 milljónum mannslífa ef tekist yrði á við heilbrigðisvanda af fullum krafti. Þjónusta við þá sem glíma við geðheilsuvanda er alls staðar verri en fyrir þá sem kljást við líkamlega kvilla. Kvíði og þunglyndi, auk afleiðinga ofbeldis og hörmunga eru meðal helstu geðheilbrigðismála sem við þurfum að kljást við eins og aðrar þjóðir.

Frú forseti. Á Íslandi eru liðlega 8.300 einstaklingar á örorku vegna geðraskana. Þeim hefur fjölgað um rúmlega 1.500 á síðustu fimm árum. Við erum að missa stóran hóp ungs fólks á örorku og staðreyndin er sú að flestir sem fara á örorkulífeyri verða á örorkulífeyri út ævina. Nú eru um 1.770 öryrkjar undir 30 ára með geðröskun. Þeim hefur fjölgað um nær 50% á síðustu fimm árum.

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í ágúst á síðasta ári sagði Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs, með leyfi forseta:

„Það er þannig að þegar ungt fólk er að fara inn á örorku í þessum mæli, án þess að hafa fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu og nægilega langan endurhæfingarferil með tryggri framfærslu, þá erum við svolítið að gefast upp á fólki. Við verðum að hjálpa þessu fólki betur. Það er bara mjög nauðsynlegt.“

Alveg sama hvernig við horfum á málið, hvaða tölu við lítum á, fjárhagslega eða varðandi fjölda þeirra sem glíma við andleg veikindi, er augljóst að við þurfum þjóðarátak. Við þurfum að skoða málin og taka ákvörðun frá mörgum hliðum. Við þurfum að skoða þátt heilbrigðiskerfisins og af hverju við höfum ekki náð að byggja upp með betri og skynsamlegri hætti þá þjónustu sem nauðsynleg er, en við þurfum líka að skoða hvernig við skipuleggjum skólakerfið og hvernig við stöndum að endurhæfingu og byggjum upp tryggingakerfi öryrkja. Þetta verður allt að vinna saman en ekki gegn hvert öðru. Við þurfum að fara að taka skynsamlegustu ákvörðun sem við getum tekið þegar kemur að heilbrigðismálum og það er að fjárfesta í forvörnum. Það á við um geðheilbrigðismál sem og önnur heilsuvandamál.

Ég sé að í skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra er með réttu sagt að í lýðheilsustefnu frá árinu 2016 sé sérstök áhersla lögð á börn og ungmenni að 18 ára aldri, meginmarkmiðið sé að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030. Það eru rétt tæp 12 ár í það. Áherslan sé lögð á forvarnir og heildræna nálgun, m.a. með samstarfi við skóla og sveitarfélög.

Lýðheilsustefnan er ágæt svo langt sem hún nær, enda er hún hluti af nauðsynlegum forvörnum. Það er nefnilega þannig að fjárfesting í nútíð er ávísun á lægri kostnað í framtíð, en umfram allt ávísun á bætt lífsgæði þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli.

Frú forseti. Á næstu vikum munum við fá til umfjöllunar tillögur um breytingar á tryggingakerfi öryrkja. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir þá þætti sem mikilvægt er að hafa í huga við þær breytingar sem við þurfum að gera og getum ekki skorast undan að gera þegar kemur að tryggingakerfi öryrkja. En ég vil benda á nauðsyn þess að hafa í huga hvernig samþætting örorkutrygginga og þátttaka í atvinnulífinu og samfélaginu öllu er órjúfanlegur hluti af geðrækt og baráttu okkar við að vinna að auknu geðrænu heilbrigði.



[15:38]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Mig langar að gera mannréttindi fólks með geðsjúkdóma og geðfötlun að umfjöllunarefni mínu í þessari mikilvægu umræðu um þessa ágætu skýrslu. Hún tæpti ekki beint á því en mig langar að setja það í þetta samhengi.

Eins og margir vita njóta einstaklingar með geðsjúkdóma, eða einstaklingar sem eru taldir hafa geðsjúkdóma af einhverjum læknum úti í bæ, ekki sömu mannréttinda og við sem erum ekki talin vera með geðsjúkdóm, vegna þess að það er nóg til að svipta einstakling frelsi sínu í þrjá sólarhringa og nauðungarvista hann á spítala að viðkomandi sé haldinn geðsjúkdómi, líkur séu á að svo sé eða ástandi hans sé þannig háttað að það megi jafna því við að vera haldinn alvarlegum geðsjúkdómi.

Þetta fyrirkomulag í lögræðislögunum er bein lagaleg mismunun gagnvart einstaklingum með geðröskun eða geðfötlun. Hún beinist einungis gegn þeim sem eiga við geðsjúkdóm að stríða eða eru taldir eiga við geðsjúkdóm að stríða og felur í sér heimild til frelsissviptingar þeirra einstaklinga. Um þessa frelsissviptingu gilda heldur ekki sömu réttarfarsreglur og við eigum að venjast þegar kemur að frelsissviptingu einstaklinga. Þeir hafa miklu veikari málsmeðferðarréttindi, það er miklu auðveldara að meina þeim sem á að nauðungarvista að koma fyrir dómstóla og bera hönd fyrir höfuð sér og segja: Það þarf ekki að svipta mig frelsi mínu. Það er miklu auðveldara að neita þeim um aðgang að réttarsal heldur en t.d. í refsiréttarmálum. Þetta er einn af mörgum þáttum sem fela í sér beina lagalega mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma.

Ég kýs að vekja máls á þessu vegna þess að ég held að það skipti líka gríðarlega miklu máli fyrir fólk með geðsjúkdóma að það upplifi ekki að það sé einhvers konar annars flokks þegnar og það eigi ekki sömu réttindi og allir aðrir til frelsis og mannhelgi. Ég nefni mannhelgi vegna þess að um leið og búið er að nauðungarvista einstakling eru svo gott sem engin skilyrði fyrir því að það megi ekki líka þvinga viðkomandi einstakling til að sæta hvers kyns læknismeðferð, m.a. sprauta þá niður. Þar er hvergi um nauðvörn að ræða eða neitt slíkt, alveg eins og þegar verið er að tala um nauðungarvistun. Hvergi kemur fram að það þurfi að vera þannig að enginn annar möguleiki sé í stöðunni, að viðkomandi sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Það er ekki að finna neina slíka varnagla í þessum lögum sem gerir þar af leiðandi lagalega stöðu þeirra, sem eru sviptir eða nauðungarvistaðir að ósekju, gríðarlega veika þegar kemur að því að fara með slík mál fyrir dómstóla. Teljum að einstaklingur hafi verið nauðungarvistaður að ósekju, þá er ekkert skilyrði fyrir nauðungarvistun í lögum annað en það að viðkomandi sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Það er náttúrlega ekki boðlegt og felur í sér mjög mikla vanvirðingu gagnvart þeim hópi fólks og er að sjálfsögðu kolólöglegt líka. Þetta stenst bara ekki samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta stenst ekki mannréttindasáttmála Evrópu og þetta stenst varla stjórnarskrána okkar heldur.

Meðan svo er held ég að svolítið erfitt sé að ávinna sér traust og virðingu fólks með geðraskanir sem verða fyrir því að vera nauðungarvistaðir, telja sig mögulega ekki hafa haft þörf á því, ef þeir hafa ekki til lagalegra úrræða að leita.

Mig langar að tala aðeins meira um þvingaða meðferð vegna þess að þar vantar í fyrsta lagi reglur. Það vantar líka fleiri skilyrði. Skilyrði vantar um að það sé í neyðarvörn. Eiginlega ætti það bara að vera bannað. Það hefur komið fram frá sérlegum sendiboða eða sendiherra Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum að beiting þvingaðrar meðferðar, sem getur falið í sér að viðkomandi verður sljór eða hann finni til eða þetta hafi langvarandi áhrif, geti falið í sér pyndingar. Við höfum engar varnir gegn þessu í lögum okkar. Það má vel vera að heilbrigðisstarfsfólk standi sig afskaplega vel í því að virða mannhelgi og sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga sinna, en það er samt svo að við þurfum að hafa lög og reglur um það ef misbrestur verður á því, að fólk hafi þá eitthvert að leita. Eins og staðan er núna þá er það ekki svo.

Það er ekki bara ég sem er að gagnrýna þetta fyrirkomulag, heldur hefur CPT-nefndin svokallaða, eða nefnd Evrópuráðsins gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu, bent á þessa lagalegu mismunun í lögum og líka þær rúmu heimildir sem við höfum til beitingar nauðungar gagnvart fólki með geðsjúkdóma og geðraskanir. Hún hefur bent á það síðan 1994. Í öllum sínum heimsóknum til Íslands hefur hún bent á þá lagalegu mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma í lögum okkar og að við höfum allt of rúmar heimildir til frelsissviptingar og allt of rúmar heimildir til þvingaðrar læknismeðferðar.

Ég held að mjög mikilvægt sé að gera breytingar þar á. Lögræðislögin heyra undir bæði dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Því hvet ég þessa ráðherra tvo að styðja þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram um heildarendurskoðun lögræðislaga sem taka mið af þeim skuldbindingum sem við höfum gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og uppfæra lögræðislög okkar í átt til nútímans og í átt til laga sem virða sjálfsákvörðunarrétt, mannhelgi, jafnrétti og friðhelgi þeirra sem hafa geðsjúkdóma eða búa við geðfötlun. Fleira var það ekki.



[15:44]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um skýrslu heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar. Við lestur skýrslunnar varð ég fyrst mjög glaður. Ég sá hvað eftir annað talað um starfshópa, samráðshópa, þverfagleg teymi og ég hugsaði með mér: Já, nú ætla þeir loksins að tala við þann sem er með sjúkdóminn, við félagasamtök stofnuð af fólki með geðræn vandamál. En nei, það er ekki á dagskrá. Það er ekki enn þá kominn skilningur í kerfinu á: „Ekkert um okkur án okkar.“

Þann 1. september sl. var GET lokað og Hugarafl missti með því nánasta samstarfsaðila sinn. Þau eru búin að gera samning til næstu sex mánaða við iðjuþjálfa og sálfræðing. Þau eru í lausu lofti með húsnæði. Í því samhengi má benda á að 44% af skjólstæðingum þeirra eru á aldrinum 18–35 ára. Það er því miður ekki verið að gera hlutina eins og á að gera þá. Maður fær alltaf sömu tilfinninguna, og ég hef sagt þetta áður og segi víst aldrei nógu oft, þegar maður heyrir talað um starfshópa, samráðshópa og allt það, að þetta séu bara nefndir, engar efndir.

Síðan er annað og það eru vinnumál. Það er alltaf verið að tala um starfsendurhæfingu en það er ekki einu sinni til vinna fyrir þetta fólk. Það eru þegar á fjórða hundrað einstaklingar að bíða eftir hlutastörfum. Opinberir aðilar auglýsa ekki einu sinni eftir fólki í hlutastörf sem eru með örorku eða önnur vandamál.

Bæjarfélög gera það ekki heldur. Þeir segja frekar upp fólki sem er í hjólastólum. Og ekki heldur Samtök atvinnulífsins, þau eru ekki heldur þarna inni.

Það er miður að nánast allt fjármagn fer í stofnanamenningu og sjúkdómavæðingu sem stuðlar að örorku. Það er líka annað í því og það eru lyfjamálin. Það eru til mjög mismunandi lyf og það er alveg ótrúlega skrýtið hvernig þetta er t.d. með samheitalyfin, sem geta verið mjög slæm og hreinlega lamað fólk með geðræn vandamál. Það er því miður ekki stefnan, sem ætti auðvitað að vera númer eitt, tvö og þrjú, að sjá til þess að fólk þurfi ekki á lyfjum að halda. Það ætti að vera númer eitt, tvö og þrjú vegna þess að sjúkdómurinn er þannig að hann er verstur á ákveðnum tímabilum og eftir því sem þeir segja sem hafa vit á fjarar hann út eftir því sem líður á. Í dag virðast lyf gefin til að róa liðið og síðan á fólk að vera til friðs. Það á ekki að vera svoleiðis.

Það sem ég var mest hvumsa yfir í skýrslunni og fékk mig mikið til að hugsa eftir á var að meðalbiðtími barna eftir þjónustu á BUGL hefur verið nokkuð langur. Því miður hafa mygla í húsnæðinu og veikindi starfsfólks sett strik í reikninginn, en verið er að vinna að því að leysa það. Það er verið að vinna að því að leysa myglu á barna- og unglingageðdeildinni. Er starfshópur í gangi þar? Af hverju leysum við ekki svoleiðis (Forseti hringir.) mál einn, tveir og þrír? Þetta er barna- og unglingageðdeild og það eru biðlistar. Það voru líka biðlistar fyrir kosningar. (Forseti hringir.) Ef við getum ekki leyst myglu í húsi barna- og unglingageðdeildarinnar, hvernig í ósköpunum (Forseti hringir.) ætlið þið þá að leysa allt hitt?



[15:49]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa góðu og nauðsynlegu umræðu. Margt mjög mikilvægt og gagnlegt hefur komið fram hér í dag. Þegar ég hugsa um geðheilbrigðismál velti ég fyrir mér: Hvenær ætlum við í raun og veru að meðhöndla eða nálgast geðheilbrigðismálin sem alvöruheilbrigðisúrræði? Við erum enn þá uppfull af fordómum um að þetta séu ekki alvöruveikindi, þetta sé ekki alvöruviðfangsefni heilbrigðiskerfisins. Það skín eiginlega í gegn hvernig sem við lítum á það. Við niðurgreiðum ekki enn sálfræðiþjónustu með framlagi sjúkratrygginga með sama hætti og við gerum varðandi flest önnur heilbrigðisúrræði, alvöruheilbrigðisúrræði.

Styrkir stéttarfélaga til sálfræðiþjónustu eru ekki undanþegnir frá skatti eins og styrkir stéttarfélaga til t.d. sjúkraþjálfara, er alvöruheilbrigðisþjónusta. Ég held að það sé kannski lykillærdómurinn af þessari umræðu okkar. Við verðum að láta af slíkum fordómum. Hér er um alvörumál að ræða. Hér er um alvöruheilbrigðisvandamál að ræða. Hér er um mikla þörf á alvöruheilbrigðisúrræðum að ræða.

Við þekkjum alveg kostnaðinn. Við vitum, sjáum og horfum upp á fólk flosna upp úr daglegu lífi á hverjum degi vegna geðrænna vandamála. Við vitum líka alveg að vandamálin batna ekkert með því að horfa fram hjá þeim með því að veita ekki nauðsynlega snemmbæra aðstoð. Við sjáum alveg fjölgunina á örorku vegna geðrænna vandamála. Þetta eru vandamál sem við verðum að taka á af fullum þunga.

Við þekkjum forvarnagildi góðrar geðheilbrigðisþjónustu. Við þekkjum sparnaðinn sem af því hlýst á seinni stigum bæði fyrir heilbrigðis- og velferðarkerfið. Það er löngu tímabært að við förum að takast á við geðræn vandamál, heilbrigðisúrræði vegna geðrænna vandamála af sömu alvöru og öðrum hlutum heilbrigðiskerfisins. Það þýðir auðvitað að við þurfum að stórauka framlög til þessara mála innan heilbrigðiskerfisins. Þar erum við enn að ræða í okkar framlögum, okkar fjárskömmtunum til geðheilbrigðishluta kerfisins allt aðrar tölur en þegar við tölum um hið svokallaða alvöruheilbrigðiskerfi.

Þetta lýsir því að þrátt fyrir allan þann árangur sem náðst hefur í þessum málaflokki, þrátt fyrir að við höfum vissulega gengið langan veg í þróun fram á veginn í að draga úr fordómum vegna geðrænna sjúkdóma, eigum við enn langt í land og ekki síst hér inni í þessum sal. Og það er kominn tími til að við breytum því.



[15:52]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Margir hafa komið inn á hvernig geðheilbrigðismálin hafa verið eins og olnbogabarn í kerfinu árum saman og við höfum aldrei veitt þeim þann sess sem eðlilegt væri. Það er kannski hollt að líta aðeins um öxl af því að það er svo örstutt síðan sú stefnumörkun sem skýrslan sem við erum að fjalla um var sett af stað. Það var ekki fyrr en árið 2014, að frumkvæði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þáverandi þingmanns, sem samþykkt var þingsályktun hér í sal með þverpólitískum stuðningi um að fara af stað í að gera aðgerðaáætlun um geðheilbrigðismál. Hún leit síðan dagsins ljós árið 2016 og við ræðum hana í dag. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði að hér væri eitt af stærstu lýðheilsumálunum á þeim tíma sem við þyrftum að taka á með myndarlegum hætti og það eru aldeilis orð að sönnu.

Mig langar að koma inn á örfá atriði, af því að tíminn er orðinn stuttur í þessum enda umræðunnar. Fyrsta atriðið er varðandi þann vanda sem tekur við þegar fólk útskrifast úr þriðja stigs þjónustu geðheilbrigðiskerfisins. Þá er ég kannski helst að tala um geðdeildirnar og síðan líka fíknimeðferð SÁÁ í tilvikum fólks með fjölþættan vanda. Stjórnendur geðdeildar Landspítalans hafa t.d. bent á að oft sé ekkert sem tekur við eftir að fólk útskrifast þaðan. Því er tjaslað saman og komið á nokkuð rétt ról og svo er það bara sent út og þarf einhvern veginn að spjara sig. Sama gildir með fíklana sem SÁÁ nær að jarðtengja og senda frá sér.

Vandinn er ekki endilega í bráðameðferðinni heldur í framhaldsmeðferðinni, því að það séu einhvers konar áfangaheimili, eða hvað við viljum kalla það, sem taki við og sinni endurhæfingu og séu eftir atvikum búsetuúrræði fyrir fólk í miklum vanda. Þarna þarf að vinna heilmikið starf við að formgera reglur af því að þau úrræði sem við eigum í dag eru alls konar. Það er engin trygging á gæðum í því kerfi. Það er engin trygging á því að náð sé utan um alla hópa sem þurfa að eiga innkomu í svona úrræði. Hér hefur verið nefnt t.d. að ungir fíklar eigi ekki endilega í mörg hús að venda. Konur í neyslu sem glíma jafnframt við geðrænan vanda vantar úrræði. Væntanlega er hægt að telja marga hópa til.

Þetta vandamál endurspeglar það sem er náttúrlega gegnumgangandi í þeirri umræðu allri sem eru sílóin sem eru skortur á samþættingu og samfellu í kerfinu. Við erum með nokkur stór kerfi sem tala ekki nægilega vel saman. Stærst eru kannski heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið og félagsþjónusta sveitarfélaganna, en líka hafa verið nefnd fangelsin, skólarnir og ýmislegt annað. Þetta er ein af stóru áskorununum. Samstarf á milli mismunandi þjónustuveitenda, þjónustustiga, er ekki nógu gott og innan hins opinbera kerfis þarf að rífa niður múra þannig að fólk fái þá þjónustu sem þörf er á.

Svo vil ég rétt í lokin nefna hversu mikilvægt er að styrkja áfram þjónustu í vægari úrræðunum sem (Forseti hringir.) næst notendum. Það styttist í að við náum að fullmanna stöður sérfræðinga í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu en líta þarf til sálfræðiþjónustu í skólunum, framhaldsskólum og háskólum og jafnvel á fyrri (Forseti hringir.) skólastigum. Einnig þarf að jafna aðgengi að þeirri þjónustu og geðheilbrigðisþjónustu almennt á landsvísu. (Forseti hringir.) Þar er sannarlega pottur brotinn.



[15:57]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Ég held að þetta sé svo mikilvægt mál að við þyrftum að ræða það mun oftar og reglulegar í þessum þingsal og reyna að fara yfir allt sviðið. Umræðan í dag hefur sýnt að sviðið er mjög stórt, nær víða, og ég held að hægt sé að fullyrða að það snerti alla í íslensku samfélagi á einn eða annan hátt. Geðheilbrigðismálin ná yfir svo miklu meira en aðeins þá sem eru með einhverja greiningu, með geðsjúkdóm eða geðröskun og annað slíkt. Þetta er svo miklu meira mál en það og er alltaf að verða stærri og stærri þáttur í breyttu samfélagi. Þess vegna er mjög mikilvægt að taka það föstum tökum en á sama tíma með umhyggju. Þau mál mega ekki vera tabú. Það þarf að vera hægt að ræða þau á lausnamiðaðan hátt og við þurfum að gera okkur strax grein fyrir því að ekki er til nein ein lausn. Þetta byggist á mörgum lausnum sem vinna saman, mörgum aðilum sem þurfa að vinna mjög vel saman og náið og bera virðingu fyrir því sem hinir eru að gera, af því að við erum eins misjöfn og við erum mörg. Það er munur á milli úrræða, hvað hentar okkur hverju sinni á hverju stigi í andlegum erfiðleikum, veikindum. Það er einstaklingsmiðað hvaða leiðir fólk vill fara og hvað gagnast hverjum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tryggjum fjölbreytileika.

Við verðum að hafa greiningar og gagnreyndar aðferðir og byggja upp kerfið þannig að við getum leitað til fullmótaðs heilbrigðiskerfis sem tekur á vandanum, býður úrlausn og hefur svör. Við verðum líka að tryggja að fólk geti farið án mikilla hindrana og án greininga og sótt sér þjónustu, á auðveldan hátt með stuttum boðleiðum, þar sem það er boðið velkomið þótt það tikki ekki í öll box, bara ef einhver finnur hjá sér að hann þarf aðstoð og veit um úrræði sem geta mögulega hjálpað. Þótt slíkar lausnir uppfylli ekki allar ströngustu kröfur heilbrigðiskerfisins verðum við samt að standa vörð um þær. Það verður hins vegar líka að vera hægt að gagnrýna slíkar lausnir og þær verða að geta staðist allar aðrar aðferðir í faglegheitum, svo að það sé tekið fram. Þetta snýst aðeins um fjölbreytileika, til að við getum mætt mismunandi áskorunum fólks.

Aðgengi þarf líka að vera gott. Það má ekki vera of mikið kerfi og of mikill stimpill eða of langur biðlisti til að komast í svona þjónustu af því að þeir sem þurfa á henni að halda eru oftast í þannig ástandi að þeir hafa ekki mikla orku til að standa í baráttu við kerfið.

Þetta þurfum við að tryggja. Það eru til mjög mörg úrræði og sem betur fer eru margir sem vilja láta gott af sér leiða og leggja sig alla fram við að gera það. Þar vil ég sérstaklega nefna Hugarafl, sem hefur verið mikið í umræðunni, og GET, sem eru með eina leið. Ég er ekki að segja að það eigi að vera ríkislausnin, en ég tel að það sé leið sem hafi hjálpað það mörgum og sannað sig það oft að hún verður að vera til staðar. Við þurfum einnig að tryggja leiðir eins og fjargeðheilbrigðisþjónustu þar sem fólk getur hvar á landi sem er sótt sér þá þjónustu sem hentar í gegnum nýjustu tækni.

Við höfum verið að ljósleiðaravæða allt Ísland. Við höfum sett mikla fjármuni úr m.a. Tækniþróunarsjóði til að hanna svona kerfi til að veita geðheilbrigðisþjónustu, í sálfræðinga, lækna o.fl. Við erum búin að gera þetta allt klárt en við verðum að tryggja að þau úrræði séu til staðar þannig að fólk geti óháð búsetu sótt sér þá mikilvægu þjónustu án þess að allt samfélagið horfi á viðkomandi fara til sálfræðingsins eða geðlæknisins eða viti að geðlæknar koma á þriðjudögum og fara þá á heilsugæsluna. Fólk þarf að geta sótt þjónustuna á eigin forsendum. Það þarf að valdefla fólk, gera því kleift að sækja þjónustuna á sínum forsendum. Þannig náum við miklum árangri.

Í því sambandi vil ég segja í umræðunni: Við verðum að spyrja okkur að því hvað það kostar að gera ekki neitt. Það er held ég dýrast í þessu. Hvað kostar að gera ekki neitt?. Það er dýrasti hlutinn. Við skulum hafa það svolítið í forgrunni í málinu og leita leiða til tryggja að sem fjölbreyttust úrræði séu í boði áfram og að hægt sé að veita mikilvæga þjónustu.

Að lokum vil ég taka undir það sem hefur margoft komið fram, sem þarf að byrja við fæðingu, og það eru forvarnirnar. Við þurfum að hugsa það í gegnum allt kerfið.



[16:03]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég vil minna hv. þingmenn á það að tilefnið er í raun og veru sú ákvörðun þeirrar sem hér stendur að leggja fram skýrslu um framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar vegna þess að ég tel afar mikilvægt að eiga þetta samtal við þingið í áætluninni miðri, þ.e. ekki bara þegar henni er lokið heldur á tímabilinu miðju, af því að áætlunin kemur frá Alþingi og það er gagnvart Alþingi sem ráðherrann á hverjum tíma þarf að standa skil á því að ákvarðanir Alþingis hafi náð fram að ganga. Við erum núna í miðjum klíðum, eins og hér var bent á, og þá er auðvitað full ástæða til að fara fyrr en síðar að huga að næstu skrefum og hvað það er sem tekur við að aflokinni þessari áætlun.

Margir þingmenn hafa talað um mikilvægi þess að sporna gegn fordómum og að við horfumst í augu við það að geðheilbrigðismál eru alvöruheilbrigðismál og við eigum að ræða um þetta eins og hvern annan þátt heilbrigðisþjónustunnar og að andleg og líkamleg heilsa hangir saman.

Margir hafa nefnt mikilvægi þess að við þurfum að tala saman þvert á kerfin. Við erum að gera það að mörgu leyti, bæði ríki og sveitarfélög. Ég er í formlegu samstarfi við menntamálaráðherra varðandi sálfræðiþjónustu í skólakerfinu og vil nota tækifærið til að segja það, vegna þess að hér hefur verið svona frekar sá tónn að verið er að hnýta í það heilbrigðiskerfi sem við höfum, að það er verið að vinna gríðarlega gott starf úti um allt kerfið, í heilsugæslunni, hjá heilbrigðisstofnunum úti um allt land, hjá sjálfstætt starfandi aðilum og Landspítalanum, þannig að því sé öllu haldið til haga.

Því miður þarf ég að leiðrétta hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem hélt því fram varðandi geðteymin að það væri bara eitt teymi sem hafi bæst við. Við erum komin með teymi í Reykjavík austur, vestur, geðteymi á Vestfjörðum og á Austfjörðum og verið er að stofna geðteymi á Norðurlandi. Við erum að fullu með mannað miðað við geðheilbrigðisáætlun, einn sálfræðing fyrir hverja 9.000 íbúa fyrir lok ársins 2019. Það eru 690 nýjar milljónir í geðheilbrigðismálin á næsta ári. Við þurfum auðvitað að gera betur, og ekki síst að auka samráð við notendur. (Forseti hringir.) Við erum meðvituð um það.

Virðulegi forseti. Ég tel (Forseti hringir.) mikilvægt að þingið verði upplýst um það frá degi til dags, frá mánuði til mánaðar, hvað við erum að gera í málaflokknum vegna þess að í þessum málaflokki er ekkert ríki í heiminum í raun og veru að standa sig eins og ætti að gera.