149. löggjafarþing — 25. fundur.
samvinnufélög o.fl., 1. umræða.
frv. LRM o.fl., 186. mál (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn). — Þskj. 191.

[23:46]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn). Flutningsmenn frumvarpsins eru sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Inga Sæland, Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Bryndís Haraldsdóttir.

Í I. kafla (1. gr.), sem heitir Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum, segir:

„Við 77. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Samvinnufélagaskrá skal leggja dagsektir á samvinnufélag sem fer ekki að ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 27. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.“

Í II. kafla (2. gr.), sem heitir Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum, segir:

„Við 126. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Hlutafélagaskrá skal leggja dagsektir á einkahlutafélag sem fer ekki að ákvæði 3. og 4. málsl. 1. mgr. 39. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.“

Í III. kafla (3. gr.), sem heitir Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum, segir:

„Við 152. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Hlutafélagaskrá skal leggja dagsektir á hlutafélag sem fer ekki að ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.“

Í IV. kafla (4. gr.), sem heitir Breyting á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007, með síðari breytingum, segir:

„Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Dagsektir.

Firmaskrá skal leggja dagsektir á sameignarfélag sem fer ekki að ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.“

Í 5. gr. sama kafla segir:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.“

Greinargerðin er ekki löng. Hún er svohljóðandi:

Með frumvarpi þessu er lagt til að það varði dagsektum ef ekki er farið að ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Málefni þetta var til umræðu í atvinnuveganefnd á 148. löggjafarþingi og þá fundaði nefndin m.a. með fulltrúum Félags kvenna í atvinnurekstri sem vísuðu til þess að staða mála hér á landi væri óviðunandi hvað varðar hlutfall kvenna í stjórnum félaga.

Með lögum nr. 13/2010, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, voru lögfest ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Ákvæðin öðluðust gildi 1. september 2013 þannig að gefinn var rúmur aðlögunartími. Með lögum nr. 49/2011 var gerð sambærileg breyting á lögum um sameignarfélög og lögum um samvinnufélög. Í ákvæðunum felst að þar sem starfsmenn eru fleiri en 50 að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar hún er skipuð fleiri en þremur mönnum en þegar stjórn er skipuð þremur einstaklingum skuli tryggt að hvort kyn eigi fulltrúa í stjórn.

Í Noregi voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga árið 2003. Þar var kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Eftir innleiðingu norsku laganna hækkaði hlutur kvenna í stjórnum hlutafélaga úr 6% árið 2002 í 40% árið 2011. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja í Noregi hækkaði úr fjórðungi stjórnarmanna árið 2004 í 36% árið 2006 og náði 42% árið 2009. Samkvæmt Sissel Jensen, norskum hagfræðingi, er aukinn hlutur kvenna meðal þeirra sem fá hæst laun bein afleiðing kynjakvótans. Konur fá frekar tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda þegar stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum. Þessar niðurstöður koma heim og saman við tilgang laganna, þ.e. að fleiri konur fá tækifæri til áhrifa í viðskiptalífinu. Samkvæmt norsku lögunum er heimilt að leggja dagsektir á þau félög sem ekki fara að lögum við tilkynningar til hlutafélagaskrár. Fari félög ekki að lögum þrátt fyrir álagningu dagsekta getur hlutafélagaskrá hafið ferli sem endar með slitum félagsins. Geri hlutafélagaskrá kröfu um slit félags vegna vanrækslu lagaskyldu getur slíkt mál farið fyrir dómstóla.

Þrátt fyrir að Ísland hafi fylgt nokkuð fast á eftir fordæmi Noregs með lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum félaga hefur ekki náðst sami árangur á Íslandi. Gefinn var rúmur aðlögunartími fyrir gildistöku ákvæða um hlutfall kynja í stjórnum en hlutfallið hefur ekki jafnast og ákvæðum hefur í reynd ekki verið fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá í lok árs 2017. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 launþega náði hámarki 33,2% árið 2014 en hefur farið lækkandi síðan. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur í stað á milli ára. Íslensk lög um þetta eru byggð á þeim norsku en ekki er þar að finna sambærileg viðurlagaákvæði. Flutningsmenn telja tímabært að skýrt verði kveðið á um það í lögum að leggja skuli dagsektir á þau félög sem ekki fara að ákvæðum um hlutföll kynja í stjórnum svo að markmið þeirra nái fram að ganga.

Ég tel þetta vera þannig mál að þingheimur ætti að geta sameinast um það, enda eru flutningsmenn þingmenn úr öllum flokkum á þingi. Við ættum að geta afgreitt þetta þjóðþrifamál, að ég tel, fljótt og vel hér á þingi. Að nýafstöðnum kvennafrídegi tel ég að svona mál sé eitthvað sem við eigum að koma sem hraðast í gegnum löggjafarþingið þar sem við erum að styrkja allt regluverk í kringum lög um sem jafnastan hlut kynjanna í samfélaginu, hvort sem er í stjórnum fyrirtækja, í þessu tilfelli, eða annars staðar. Afleiðingin af því er aukinn styrkur kvenna almennt í fyrirtækjum, í atvinnulífinu og í stjórnunarstöðum í samfélaginu. Okkur veitir ekkert af krafti kvenna þar.

Á fjöldafundi á Arnarhóli í gær var sagt: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Þetta tel ég vera einn af mörgum hlekkjum í þeirri keðju að gera samfélagið þannig að karlar og konur standi jafnfætis alls staðar í samfélagsstiganum. Við þurfum að styrkja konur til að axla ábyrgð í stjórnum fyrirtækja — þær eru tilbúnar til þess — og vera öflugir þátttakendur hvar sem er í samfélaginu jafnt í fyrirtækjarekstri sem viðskiptalífi eða þangað sem hugur þeirra leitar.

Ég vil að lokum vísa frumvarpinu til efnahags- og viðskiptanefndar eftir 1. umr. Ég treysti því að það fái góða málsmeðferð þar. Við getum vonandi gert þetta frumvarp að lögum sem fyrst.



[23:57]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég skuli ekki fagna þessu frumvarpi vegna þess að ég er í hjarta mínu á móti lagaákvæði um kynjakvóta í hlutafélögum. Ég tel að slíkt ákvæði gangi í rauninni gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það að hafa af mönnum réttinn til að ráðstafa sínu hlutafé við atkvæðagreiðslu þegar kemur að skipan stjórna gengur í besta falli á skjön við anda stjórnarskrárinnar. Ég mun koma að því í ræðu á eftir.

Ég vil spyrja hv. fyrsta flutningsmann Lilju Rafneyju Magnúsdóttur: Fóru flutningsmenn yfir hvort það hreinlega stæðist, það ákvæði sem lagt er til, að dagsektir geti numið 10.000 kr. til 100.000 kr., en síðan er bætt við að heimilt sé að taka mið af fjárhagslegum styrk félags? Þetta er alveg fullkomlega óljóst ákvæði. Það veit enginn hvað felst í því. Það er umdeilanlegt hver fjárhagslegur styrkur félags er og styrkur eins félags í ákveðinni atvinnugrein getur verið veikleiki í annarri atvinnugrein o.s.frv.

Ég dreg í efa að þetta standist hreinlega þær kröfur sem gerðar eru varðandi ákvörðun sekta. Það hefði verið skynsamlegra og betra ef menn hefðu t.d. tengt þetta ákveðinni prósentu af veltu, ef þeir vilja á annað borð fara í dagsektir eins og hér er lagt til.

Ég spyr líka: Hafa hv. (Forseti hringir.) flutningsmenn velt því fyrir sér hvaða afleiðingar slíkar dagsektir geti haft fyrir íslensk fyrirtæki?



[00:00]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru sambærileg lög í Noregi eins og ég kom að í greinargerð og fyrirmyndin að þessu frumvarpi kemur frá Noregi. Lögfræðingur innan þingsins hefur unnið þetta mál og ég treysti því að það standist stjórnarskrá.

Auðvitað er það hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar að kalla á til þess bæra aðila til þess að fara ofan í saumana á þessu máli. Þarna beitum við mjög vægum viðurlögum, að ég tel, gagnvart þeim fyrirtækjum sem fara ekki eftir lögum. Auðvitað eiga allir, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, að fara eftir gildandi lögum hverju sinni. Það er auðvitað útlátalaust fyrir fyrirtæki að fara eftir lögum og komast þar með hjá viðurlögum. Því miður hefur raunin orðið önnur og það er auðvitað ekki gott. Eins og ég kom inn á hefur orðið mikið bakslag í þessu og sýnir sig að þetta hefur einhvern veginn ekki verið að virka og að það þurfi að beita viðurlögum svo að fyrirtæki taki þetta alvarlega.

Ég tel að fyrirtæki, þegar upp er staðið, muni hagnast mjög á því að fá konur inn í stjórn og þær beiti sér þar. Ég tel að það sé mikill hagur fyrirtækja að fá konur inn í stjórn og þar með að það sé blönduð stjórn í kynjahlutföllum, eins og kemur fram í lögunum, (Forseti hringir.) að lágmarki 40% af öðru hvoru kyninu.



[00:02]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili ekki við hv. þingmann um að það getur verið gott fyrir hvaða hlutafélag sem er að fá fleiri konur inn í stjórn og þess vegna að allir stjórnarmenn séu konur, það getur meira að segja verið, enda er það ákvörðun hluthafa. En látum það liggja á milli hluta. Það er hins vegar alveg greinilegt að flutningsmenn hafa ekki velt því fyrir sér að það er fullkomlega óljóst hvað átt er við með skilgreiningu á fjárhagslegum styrk félagsins. En látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég vil fá að spyrja hv. þingmann að er: Hvað er það sem rekur flutningsmenn til að leggja þetta frumvarp fram þegar horft er á 156. gr. hlutafélagalaganna og 130. gr. laga um einkahlutafélög, þar sem segir:

„Sá sem vanrækir tilkynningar til hlutafélagaskrár“ — og þar með um kynjahlutföll um hverjir sitja þar — „samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.“?

Finnst flutningsmönnum þetta ákvæði í 156. gr. hlutafélagalaganna og 130. gr. laga um einkahlutafélög ekki nægjanlegt? Telja þeir að til viðbótar eigi síðan að leggja dagsektir á viðkomandi hlutafélög, allt að 100.000 kr., 700.000 kr. á viku? Að vísu er tekið tillit til einhvers óskýrs atriðis sem heitir fjárhagslegur styrkur sem enginn veit hvað þýðir og hvernig á að skilgreina.

Það er ekki hægt annað en að krefjast þess að þegar flutningsmenn leggja svona fram geti þeir a.m.k. svarað því hvað felst í hinum fjárhagslega styrk. Hvernig er hann skilgreindur? (Forseti hringir.) Af hverju telja þeir að þau ákvæði sem ég hef vitnað til séu ekki nægilega sterk — allt að eins árs fangelsi?



[00:04]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist vera að það hafi ekki dugað til og ekki haft þann hvata, þótt þetta komi fram í þeirri lagagrein sem hv. þingmaður vitnar til. Því hefur ekki verið beitt. Annars er ég hrædd um að ansi margir myndu sitja af sér dóma miðað við að þessi fyrirtæki hafi ekki verið að framfylgja lögum.

Ég tel að það sé mjög eðlilegt að við sem horfðum til Noregs þegar við settum þessi lög á sínum tíma horfum líka til Noregs þegar við sjáum að þeim er ekki fylgt, því miður. Við göngum skrefinu lengra og tökum upp sambærileg viðurlög og eru í Noregi og virðast hafa virkað ágætlega þar. Þar er árangurinn allt annar en við horfum upp á hér.

Þegar við horfum upp á bakslag hreinlega verður að bregðast við. Annars værum við að játa okkur sigruð í þeim efnum, við værum með löggjöf sem fyrirtækin tækju ekkert mark á. Ég hvet hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar til að kalla til þess bæra aðila til að fara yfir þetta mál. Það var lögfræðingur sem fór yfir þennan lagatexta af okkar hálfu og kynnti sér lögin og viðurlögin í Noregi. Félag kvenna í atvinnulífinu fundaði með atvinnuveganefnd síðasta vetur og kallaði eftir því að það yrðu einhver viðurlög svo að við gætum komið þessum málum á þann stað sem okkur væri sómi að.



[00:07]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til þess að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi en staðan er þó ekki jöfn. Var m.a. heill dagur í gær tileinkaður baráttunni fyrir jöfnum kjörum karla og kvenna og bent á það óréttlæti sem er fólgið í því að karlar og konur fái ekki sömu laun. Dagurinn var einnig notaðir til að vekja athygli á ýmsum öðrum atriðum þar sem staða kynjanna er ekki jöfn. Í því samhengi var #metoo-byltingin rifjuð upp og bent á að því miður sæta konur ofbeldi í samfélaginu.

Í mínum huga er frumvarpið sem hér er lagt fram, um breytingu á lögum sem gerir að verkum að viðurlög verði við því að fylgja ekki samþykktum lögum um hlutfall kynja í stjórn, enn eitt verkfærið sem við sem samfélag getum beitt í þeim tilgangi að jafna stöðu karla og kvenna í samfélaginu. Þó svo að ég sé ekki einn af flutningsmönnum frumvarpsins styð ég það og markmið þess svo sannarlega heils hugar.

Mér finnst mjög áhugavert sem kemur fram í greinargerðinni um að í gildi séu lög sem hefur ekki verið fylgt, en lögin kveða á um að í stjórnum fyrirtækja skuli hlutur hvors kyns vera að lágmarki 40% ef fyrirtækin eru það stór að í þeim starfi 50 manns og ef fyrirtækin eru lítil þar sem einungis eru þrír stjórnarmenn sé a.m.k. einn einstaklingur af hvoru kyni.

Það hefur orðið bakslag á síðustu árum þar sem konum í stjórnum fyrirtækja hefur farið fækkandi frá því að ákveðnum toppi var náð, sem var þó aðeins 33,2%, árið 2014.

Ég tel að við þurfum sem löggjafi og sem samfélag að beita mörgum og fjölbreytilegum aðferðum til þess að jafna stöðu kynjanna í samfélaginu. Ég held að ekki sé til nein ein leið sem bjargar öllu eða breytir öllu heldur þurfi að grípa til aðgerða á mörgum sviðum.

Ég tel að þetta sé ein leið sem við eigum að skoða og fara. Líkt og kemur fram í greinargerðinni hefur sú leið gagnast vel í Noregi. Ég held að engin ástæða sé til að halda að eitthvað annað gildi um íslenskt samfélag og vona þess vegna að frumvarpið hljóti brautargengi, jafnrétti í íslensku samfélagi til hagsbóta.



[00:12]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu sem felur það í sér að heimilt verði að beita sektarákvæðum á þá sem uppfylla ekki lög sem þegar eru í gildi. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps og þakka hv. fyrsta flutningsmanni Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir hennar ræðu og að hafa boðið mér að taka þátt í því að flytja þetta mál.

Ég verð samt að viðurkenna að það var ekkert einföld ákvörðun fyrir mig, hvort ég sem þingkona Sjálfstæðisflokksins ætti að taka þátt í flutningi á slíku frumvarpi. Því fannst mér full ástæða til að bíða hér fram eftir kvöldi eftir því að fá að útskýra afstöðu mína til málsins.

Hún er í fyrsta lagi sú að ef við erum með lög í landinu er full ástæða til að í þeim sé jafnframt einhver heimild til að beita viðurlögum ef lögin eru ekki uppfyllt, algerlega óháð því í raun um hvaða lög er að ræða. Í þessu tilfelli erum við að ræða þau lög er lúta að jöfnun kynjanna í stjórnum fyrirtækja.

Það að nýta krafta beggja kynja alls staðar, hvort sem er hér inni á hinu háa Alþingi, í stjórnum fyrirtækja, úti í atvinnulífinu eða hvar sem er, skiptir máli og er mikilvægi fjölbreytileikans margsannað þegar að þessu kemur. Það ætti því að vera sjálfsagður hlutur hjá fyrirtækjum úti á markaði að huga að fjölbreytileikanum þegar kemur að því að skipa í stjórnir. Það eru þeirra hagsmunir. Ég vil geta þess í þessu samhengi að ég var mjög ánægð með auglýsingu sem Samtök atvinnulífsins birtu í gær þar sem rætt var um kvennafrídaginn og um launamun kynjanna. Þau ítrekuðu það að fyrirtæki sem í fyrsta lagi greiddu ekki kynjunum jöfn laun fyrir störf væru að brjóta lög en í öðru lagi væru þau ekki að standa sig í samkeppninni. Ég held að það sama eigi við hér. Það er fyrsta afstaða mín.

Hvernig er það svo framkvæmt að vera með einhver viðurlög? Tillagan í frumvarpinu er um dagsektir og eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór yfir er hér horft til norsku aðferðarinnar. Mér fannst, og finnst við fyrsta yfirlestur, það algerlega ganga upp en ef á því eru einhverjir meinbugir þarf bara að fara yfir það í framhaldinu. Aftur á móti hefur FKA bent á nauðsyn þess að bregðast við með einhverjum hætti. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á það að ríkisskattstjóri eða ársreikningaskrá hefði þegar ákveðnar sektarheimildir ef félög skila til að mynda ekki inn ársreikningum. Þegar þau lög voru sett og gerð var krafa um að félög sendu inn ársreikninga til ársreikningaskrár voru heimtur ekkert sérstaklega góðar til að byrja með. Þar var sett inn sektarákvæði og það hefur haft þau áhrif að nú skila fyrirtækin ársreikningum á réttum tíma, enda er það mikilvægt. Mér finnst algerlega hægt að jafna þetta og geri þá ráð fyrir því að með slíkum sektarákvæðum muni þetta breytast að einhverju leyti.

Félag kvenna í atvinnulífinu hefur líka bent á að það ætti að vera hægur leikur fyrir ársreikningaskrá að fylgjast með þessu. Það virðist ekki vera gert. Ég mun að sjálfsögðu taka það mál upp þegar við förum yfir þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, við fáum væntanlega til okkar fulltrúa frá ríkisskattstjóra og ársreikningaskrá, hvernig slíku eftirliti er háttað því að það væri auðvitað sjálfsagt að þetta væri yfirfarið þar. Samkvæmt þeim ábendingum sem við höfum fengið sem stöndum að þessu frumvarpi virðist svo ekki vera.

En að þessu sögðu langar mig aðeins að fara yfir það sem er kannski grunnurinn í þessu frumvarpi, kynjakvótar. Mér finnst náttúrlega algerlega óþolandi að standa hér og ræða jafnréttismál. Mér finnst það óþolandi í ljósi þess að við erum búin að gera það svo áratugum skiptir og maður vill alltaf komast í endamark með málin sín. Við virðumst ekki vera komin þangað enn.

Ég viðurkenni að ég hefði örugglega á árinu 2010, hefði ég setið á þingi þá, verið sammála flokkssystkinum mínum í Sjálfstæðisflokknum sem ekki greiddu atkvæði með þessu frumvarpi á sínum tíma. Þau notuðu þá röksemd, svipað og hv. þm. Óli Björn Kárason fór hér yfir áðan, að þetta snerist um frelsi fyrirtækja, við værum jafnvel að ganga með einhverjum hætti á eignarrétt þeirra með því að setja lög um það hvernig fyrirtæki á markaði ættu að skipa sínar stjórnir. Ég er mjög höll undir þau sjónarmið, ég viðurkenni það fúslega. En svo koma önnur sjónarmið inn í myndina: Mikilvægi þess að við nýtum krafta allra, mikilvægi þess að konur jafnt sem karlar skipi stjórnir fyrirtækja, séu í framkvæmdastjórastörfum og forstjórastörfum innan fyrirtækjanna, séu sem sagt jafnt á við karla með ákveðin völd í atvinnulífinu. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Ég er því miður, og ég bara ítreka það, komin á þá skoðun að við þurfum til þess kynjakvóta.

Staðan er sú að þessi lög voru samþykkt árið 2010, þótt þau hafi ekki öðlast gildi fyrr en 2013, og ég þekki ekki til þess að einhver hafi flutt hér frumvarp um að fella þau úr gildi. Sú umræða hefur þá alla vega ekki farið mjög hátt. Ég ímynda mér að margir séu orðnir hallir undir að það þurfi kannski svoleiðis aðgerðir, jafn ömurlega leiðinlegt og það er.

Mig langar líka í þessu sambandi að ræða það að þrátt fyrir að við séum ekki komin í neitt endamark hér búum við á Íslandi við mjög góða hluti í jafnréttismálum miðað við mjög víða annars staðar í heiminum. Við höfum verið til fyrirmyndar í svo mörgu og ég ætla að byrja á að nefna fæðingarorlofið sem ég held að sé stærsta framfaraskrefið í jafnréttismálum sem við höfum stigið hér á þinginu og var það nú mjög umdeilt á sínum tíma. Við búum það vel að við höfum töluvert fram að færa á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að ræða jafnréttismál. Þau eru meira að segja einn af okkar hornsteinum í utanríkisstefnu okkar. Við höfum sérstakan sendiherra jafnréttismála og þegar okkar hæstv. utanríkisráðherra fer til útlanda og talar á ráðstefnum er alltaf rætt um jafnréttismál. Þegar erlendir þingmenn koma hingað og heimsækja okkur spyrja þeir okkur iðulega út í jafnréttið: Hvernig hafið þið náð þessum árangri? Ísland er einfaldlega þekkt fyrir að standa mjög framarlega í jafnréttismálum.

Norðmenn voru á undan okkur að setja lög er lutu að jöfnun kynja í stjórnum úti á markaði. Þeir settu jafnframt refsiheimildir og þeim virðist hafa vegnað betur en okkur í að ná þessum árangri. Ég segi: Af hverju ættum við ekki að reyna hið sama og sjá hvort við getum þá ekki í þessu eins og svo mörgu öðru er kemur að jafnréttismálum staðið fremst meðal jafningja?

Þetta snýst nefnilega um ákveðnar valdastöður í samfélaginu og mikilvægi þess að konur séu valdar í slíkar stöður til jafns á við karla. Eins mikið og ég styð einstaklingsfrelsið styð ég líka jöfn tækifæri. Það er einfaldlega staðreynd, eins sorgleg og hún er, að konur í atvinnulífinu hafa ekki jöfn tækifæri á við karla. Þetta margumrædda glerþak er því miður staðreynd. Það er ástæðan fyrir því að of fáar konur sitja í stjórnum fyrirtækja og allt of fáar konur sitja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja eða eru forstjórar stærstu fyrirtækja á markaði. Ég held að við viljum öll breyta þessu. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að nýta krafta beggja kynja. Það sem við kunnum að vera ósammála um er hvaða aðferðum við beitum. En þá segi ég á sama tíma: Nú er ég bara orðin mjög óþreyjufull, við erum búin að bíða lengi og við getum ekki beðið endalaust.

Þess vegna styð ég þetta frumvarp. Ég er fullkomlega tilbúin að ræða mismunandi útfærslur á því ef þess er þörf og ég ætla líka að enda á þetta á slagorði gærdagsins: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.



[00:23]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög, þ.e. viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn.

Þetta mál er athyglisvert. Það fjallar um að við erum að reyna að fylgja eftir lögum sem voru sett hér varðandi jafnan hlut karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja. Við settum lögin árið 2010 og það var með lögum um einkahlutafélög. Þar voru lögfest ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Þau öðluðust gildi 1. september 2013 þannig að gefinn var rúmur aðlögunartími.

Ég get tekið undir það sem hefur verið sagt í þessum sal að við séum í stanslausri baráttu varðandi þau mál. Það er litið til okkar sem þjóðar í jafnréttismálum, við erum talin hafa náð langt í þeim og það er mjög jákvætt. Við erum með ríkjandi jafnréttislög í landinu og okkur finnst krafan um jöfn laun eðlileg. Í sjálfu sér má segja að lagaramminn um þau mál hjá okkur sé nokkuð góður og umgjörðin töluvert traust en það er ekki nóg að setja lög heldur verðum við að fylgja þeim eftir.

Það er of algengt að við höfum sett einhver lög og erum sátt við þau en þau duga ekki til. Þegar við horfum til jafnréttismálanna tek ég undir að mikilvægt skref var stigið árið 2000 þegar réttur feðra og mæðra var jafnaður og þar með réttur barna, sem er mjög mikilvægt. Við höfum búið við fæðingarorlof sem er gríðarlega mikilvægt. Það má tína til alls konar hluti sem við höfum gert vel en það hefur ekki dugað til.

Ég var lengi vel þeirrar skoðunar að við ættum ekki að þurfa kynjakvóta. Þetta ætti bara að gerast því að öll tölum við þannig. En það eru samt einhverjar hindranir, eitthvert stopp, eitthvað sem hamlar okkur í því að konur fái framgang. Ég er því algerlega þeirrar skoðunar og get vísað til þess sem hefur gerst í mínum flokki. Þar höfum við unnið eftir þeim reglum og eru ákveðnar reglur varðandi framboðslista, hvernig við bjóðum fram. Þar er 40/60%-regla, þ.e. hlutfallið sem verður að vera á milli kynjanna. Hún fær okkur til að leggja okkur meira fram við að ná í konur og hvetja þær áfram, til að fá þær með okkur. Það er gríðarlega mikilvægt að gera því að ef við ætlum að spegla samfélagið þurfum við að hafa sem jöfnust kynjahlutföll á öllum sviðum, alls staðar sem við erum að vinna.

Í frumvarpinu er vísað í það hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í Noregi, sem virðist hafa virkað vel. Ég fæ að grípa aðeins niður í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Í Noregi voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga árið 2003. Þar var kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Eftir innleiðingu norsku laganna hækkaði hlutur kvenna í stjórnum hlutafélaga úr 6% árið 2002 í 40% árið 2011. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja í Noregi hækkaði úr fjórðungi stjórnarmanna árið 2004 í 36% árið 2006 og náði 42% árið 2009.“

Þetta sýnir að leiðin virkar og við þurfum að fara þá leið. Árangur hennar er, samkvæmt Sissel Jensen, sem er norskur hagfræðingur, aukinn hlutur kvenna sem fá hæst laun innan slíkra fyrirtækja. Það sem framkvæmdin leiðir af sér er mjög jákvætt. Konur fá svo frekar tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda þegar stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum.

Þær niðurstöður koma heim og saman við tilgang laganna, þ.e. að fleiri konur fá tækifæri til áhrifa í viðskiptalífinu. Við hljótum að vilja að í öllum lögum samfélagsins komi kynin sem jafnast að allri ákvarðanatöku, allri vinnu. Við deilum ábyrgðinni með okkur.

Ég get ekki hugsað mér að dætur mínar þurfi að berjast fyrir því inn í framtíðina. Það á ekki að vera þannig. Við eigum að virða það fólk sem gekk á undan, barðist fyrir jafnréttinu, kom okkur á þann stað sem við erum á í dag. Við þurfum að halda merkjum þeirra á lofti og styrkja þau. Við megum hvergi hvika af leið.

Þrátt fyrir að við höfum farið nokkuð að fordæmi Norðmanna og höfum, eins og ég vísaði í áðan, náð nokkuð góðum árangri — horft er til okkar annars staðar frá og fulltrúar okkar beðnir að koma fram og ræða jafnréttismálin og hvernig þeim er háttað hér — höfum við samt ekki náð þangað sem við ætluðum. Við höfum ekki náð sama árangri og Norðmenn og við eigum ekki að sætta okkur við það. Við eigum að fara lengra og gera meiri og ríkari kröfur.

En þá kemur að því að í frumvarpinu er mælt með viðurlögum. Það leiðir kannski af sjálfu sér, við erum að setja lög og þá hljóta að vera einhver viðurlög við því að fylgja þeim ekki eftir. Nú brestur mig kunnáttu til að meta hvernig á að leggja það á en ég reikna með því að þetta verði tekið fyrir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og menn skoði vel hvað sé passlegt.

Hv. þm. Óli Björn Kárason talaði um að óljóst væri hver fjárhagslegur styrkur fyrirtækja eða félaga væri. Ég reikna með að þetta mál verði rætt vel í nefndinni og fundin verði leið til niðurstöðu. Ég vona að málið verði til þess að við komumst áfram því að það hefur því miður orðið bakslag hjá okkur í jafnréttisbaráttunni. Þrátt fyrir að við tölum um að sjálfsagt sé að við búum við jafnrétti og að launamunur kynjanna eigi ekki að vera til staðar er það samt raunin, því miður.

Við þurfum að beita mörgum, fjölbreyttum leiðum í málaflokknum og þetta gæti verið ein þeirra. Ég er mjög spennt að fylgjast með því hvernig málinu reiðir af. Þrátt fyrir allt eru of fáar konur í stjórnum og of fáar konur eru forstjórar, það hefur sýnt sig. Það getur ekki átt að vera þannig. Konur hljóta að hafa alveg sömu hæfileika og karlar til þessa. Einhvern veginn þurfum við að hnika þeim málum áfram.

Ég óska nefndinni alls velfarnaðar í vinnslu málsins og hlakka til að fylgjast með framgangi þess. Ég þakka jafnframt flutningsmönnum fyrir að leggja frumvarpið fram. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni og halda þeim málum á lofti. Við megum ekki þegja þau í hel. Þetta er sannarlega liður í því að halda þeim á lofti og vinna þau áfram og það er fagnaðarefni.



[00:32]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er nú farið að líða á nóttina og ekki ætla ég að lengja þessa umræðu mjög. En mér er þó ljúft og skylt, eins og ég gat um í andsvari við hv. fyrsta flutningsmann, að gera aðeins grein fyrir viðhorfum mínum.

Ég ætla að byrja á því, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í viðtal sem birtist í Viðskiptablaðinu árið 2015 við Katrínu Pétursdóttur, sem allir ættu að þekkja og oft er kennd við Lýsi. Þar sagði hún orðrétt:

„Eigendur eiga að hafa rétt til þess að velja í stjórn óháð kyni. Mér finnst kynjakvóti í rauninni minnkandi fyrir konur. Af hverju eru þær ekki einfaldlega metnar að verðleikum? Kynjahlutföll fara líka eftir eðli rekstrar“ o.s.frv.

Síðar sagði Katrín Pétursdóttir að auðvitað ættu hluthafar að velja í stjórn og að hluthafar sem gæta hagsmuna fyrirtækisins veldu auðvitað hæfasta fólkið hverju sinni.

Flokkssystir mín, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, vék að því að það væri einhvers konar glerþak þegar kæmi að þátttöku kvenna í stjórnun fyrirtækja. Það kann að vera. Ekki er ég að tala fyrir því að hindra konur í að ná frama í íslensku viðskiptalífi, nema síður sé. Ég held að öll fyrirtæki hafi að markmiði að velja hæfileikaríka einstaklinga til að stýra fyrirtækinu, í framkvæmdastjórn fyrirtækja, í stjórnir fyrirtækja o.s.frv., alveg óháð kyni. Ég held að þessir tímar okkar karla séu bara liðnir, kallatíminn er liðinn.

En það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga að með lögum um kynjakvóta er búið að setja glerþak eins og hluthafar í Vátryggingafélagi Íslands fengu að kynnast árið 2016. Þá voru völdin tekin af hluthöfum VÍS sem vildu skipa til verka með þeim hætti að konur væru yfir 60%. Það var ólöglegt samkvæmt þessum lögum. Þar með voru lögin byrjuð að vinna gegn því markmiði sem sett var, að auka hlut og áhrif kvenna í íslensku atvinnulífi. Það varð að fresta aðalfundinum út af þessu. Það voru sem sagt of fáir karlar í framboði til stjórnar, fjórar konur og einn karl og það mátti ekki.

Ég hafna slíkum lögum. Ég held því fram að með þessu sé einmitt verið að vinna gegn því sem hv. flutningsmenn eru að reyna að ná fram, sem er að tryggja að konur hafi eðlilegan framgang hér í íslensku viðskiptalífi. Ég hef bara meiri trú á íslensku viðskiptalífi en svo að það þurfi að neyða menn til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir, og skynsamlegar ákvarðanir í þessum efnum fela auðvitað í sér að velja hæfileikaríkasta fólkið. Það vill bara svo til að það eru oft og tíðum konur. En stundum eru það karlar. Það verður bara svo að vera.

Samkvæmt gildandi lögum er konum t.d. ekki heimilt að taka sig saman og stofna fyrirtæki sem nær ákveðinni stærð og skipa eingöngu konur til verka. Af hverju er það? Það sama á við um karla.

Í mínum huga ganga þessi lög — síðan á að fara að beita fyrirtæki dagsektum eftir þeim — gegn eignarrétti sem fólginn er í hlutafé sem viðkomandi einstaklingur á í hlutafélagi og ráðstöfunarrétti sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja þeim hlutabréfum. Það er sem sagt búið að takmarka ráðstöfunarrétt einstaklinga og ákvörðunarrétt þeirra sem eiga hlutabréf í ákveðnum hlutafélögum. Það gengur í mínum huga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Við getum deilt um það, en það væri kannski einnar messu virði að einhvern tímann væri látið reyna á það.

Að lokum ætla ég að segja aftur það sem ég var að spyrja 1. flutningsmann, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, að hér: Hér er sett inn eitthvert óljóst ákvæði um fjárhagslegan styrk sem er ekki með neinum hætti skilgreindur í frumvarpinu og ekki gerð tilraun til þess í greinargerðinni að reyna að hjálpa, ef þetta yrði að lögum; það eru engin lögskýringargögn að baki. Hvað er átt við með fjárhagslegum styrk? Hvernig er hann metinn? Það mat hlýtur að vera mismunandi eftir atvinnugreinum. Í einni atvinnugrein þarf töluvert mikinn fjárhagslegan styrk, m.a. í áhætturekstri, svo sem eins og í rekstri flugfélaga, ég tala nú ekki um í sjávarútvegi. En það þarf kannski annan mælikvarða þegar kemur að verslun. Það þarf allt annan mælikvarða þegar kemur að vátryggingastarfsemi o.s.frv. og bönkum.

Þetta er ekki merki um að flutningsmenn hafi unnið frumvarpið með þeim hætti sem ég hefði talið eðlilegt. Og ég fæ heldur engin svör við því af hverju flutningsmenn telja að 156. gr. hlutafélagalaga og 130. gr. einkahlutafélagalaga dugi ekki. Það er alveg skýrt að þau félög sem falla undir kynjakvótaákvæðin eiga ekkert val. Ef tilkynning um þetta kynjahlutfall berst ekki til hlutafélagaskrár er samkvæmt þessum greinum heimilt að beita þann sem vanrækir slíka tilkynningu, sem og aðrar tilkynningar sem lögum samkvæmt á að senda til hlutafélagaskrár og tengjast hlutafélaginu, sektum eða fangelsi í allt að eitt ár. Til viðbótar þessu ætla flutningsmenn að taka upp dagsektir sem eiga síðan með einhverjum hætti að taka mið af einhverju sem kallað er fjárhagslegur styrkur félagsins. Ég skil ekki hvernig flutningsmenn ætla að skilgreina þann styrk og engin tilraun er gerð til þess, hvorki í frumvarpinu sjálfu né í greinargerð.



[00:41]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að mikilvægt sé að við ræðum þetta mikilvæga mál og hlustum á öll sjónarmið sem lúta að því.

Ég verð samt að viðurkenna að ég held að hv. þingmaður hafi í ræðu sinni fyrst og fremst verið að lýsa andstöðu sinni við þau lög sem eru í gildi í dag um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á markaði. Það er alveg rétt að lögin voru sett á sínum tíma til að auka hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja vegna þess að löggjafanum fannst það mikilvægt en á sama tíma voru uppi mjög skiptar skoðanir. Þá skulum við horfa á að staðan í dag er sú að í stjórnum fyrirtækja eru 74% karlar og 26% konur. Það getur seint talist býsna jafnt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á, að lögin sem slík, eins og önnur jafnréttislög, gagnast ekki aðeins konum. Þau gagnast fyrst og fremst samfélaginu í að tryggja ákveðinn fjölbreytileika og það að við höfum bæði kyn. Ef við tökum jafnréttislögin kveða þau á um að þegar ráðinn er starfsmaður eigi að ráða starfsmann af því kyni sem færri eru af í starfsstéttinni, að því gefnu að báðir aðilar séu jafn hæfir.

Þá kem ég inn á þetta með að hæfileikaríkasta fólkið sé valið. Þegar kemur að því að velja fólk í stjórn fyrirtækja er oft verið að velja fólk sem menn þekkja og konur í stjórnum og stjórnunarstöðum þekkja frekar konur og karlar þekkja frekar karla. Það skýrir væntanlega af hverju karlar eru í svona miklum meiri hluta þegar kemur að stjórnum fyrirtækja.

Það fallega við svona lög er að þeim er ekki beint gegn öðru (Forseti hringir.) kyninu eða með hinu heldur fyrst og fremst að því að jafna hlutfall kynjanna.



[00:44]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð ekki var við að einhverri spurningu væri beint til mín en allt í lagi með það.

Almennt vil ég halda í heiðri að einkafyrirtæki geti tekið þær ákvarðanir sem þau telja þjóna hagsmunum sínum best. Ég er algerlega sannfærður um að ef menn gera það þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af því sem hv. þingmaður kallar fjölbreytileika en getur þýtt allt annað hjá einhverjum öðrum. Fjölbreytileiki felst ekki bara í því að hafa bæði karla og konur heldur líka í bakgrunni, aldri o.s.frv. Fjölbreytileiki er ekki aðeins það að hlutfall kynja sé jafnt. Ef tryggja á fjölbreytileika skulum við fara að ræða það að aldursgreina stjórnir og hafa ákvæði um það, að það sé ákveðið hlutfall eldri borgara, ákveðið hlutfall fólks undir þrítugu og þar fram eftir götunum Ég veit alveg að þá lendum við fyrst í ógöngum, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég vil hins vegar fá að vita og ég fæ ekki svar við er: Af hverju telja flutningsmenn að ákvæði 156. gr. hlutafélagalaga og 130. gr. einkahlutafélagalaga dugi ekki? Af hverju er það ekki nægjanlegt til að ná þeim markmiðum að hægt sé að sekta þann sem vanrækir skyldur sínar eða dæma í allt að eitt ár í fangelsi? Vilja flutningsmenn bæta um betur og hafa dagsektir líka? Ég ætla ekki að tala um skilgreininguna á þeim.



[00:46]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er væntanlega vegna þess að klukkan er orðin svona margt sem ég gleymdi spurningunni en spurning mín til hv. þingmanns var hvort þingmaðurinn væri sammála því að þegar við værum á annað borð með lög væri rétt að hafa einhvers konar viðurlög ef fólk virti lögin ekki.

Hv. þingmaður vísar í lögin sem heimila sektir eða jafnvel varðhald ef fyrirtæki vanrækja tilkynningarskyldu til hlutafélagaskrár. Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að fyrirtæki eru sektuð t.d. fyrir að skila ekki ársreikningum og öðrum pappírum sem þau eiga að skila. En samkvæmt því sem ég best veit, og ég held að við hv. þingmenn förum bara yfir það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, virðist hlutafélagaskrá, og þá ársreikningaskrá, ekki yfirfara þær upplýsingar og koma því áleiðis til fyrirtækjanna að þau séu raunverulega að brjóta lög. Það er eins og einhvern varnagla vanti þarna.

Líklega telja þeir aðilar fyrst og fremst að þetta viðurlagaákvæði sé til þess fallið að hægt sé að beita viðurlögum ef viðkomandi pappírum er ekki skilað, en það hvað stendur í ársreikningum þegar kemur að stjórnum og hlutfalli kynja virðist ekki hafa náð augum og eyrum þeirra. Ef svo væri væri þetta frumvarp kannski óþarft.

Ég held að við hv. þingmaður verðum ekki sammála um það hvort þörf sé á kynjakvóta eða ekki. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég vildi óska þess að ég gæti verið sammála hv. þingmanni og að við þyrftum enga kynjakvóta, en ég er komin á þá skoðun í dag að þess þurfi.

Spurningin mín er þá: Ef við erum með lög í gildi sem eru um nákvæmlega þetta atriði, finnst hv. þingmanni þá eðlilegt að uppi séu einhver ákvæði til að skikka viðkomandi aðila til að fylgja þeim, einhvers konar refsiákvæði eins og lagt er til hér, sektir?



[00:48]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er einfalt: Já. Það er þegar til og er þegar til staðar og nær ekki bara yfir að skila ekki ársreikningi, ef hv. þingmaður heldur það, heldur yfir allar lögboðnar tilkynningar sem senda skal fyrirtækjaskrá, m.a. tilkynningar um það hverjir sitja í stjórn o.s.frv. Ég fæ ekki útskýringu á því af hverju hv. þingmenn telja að ganga þurfi lengra en að dæma menn í eins árs fangelsi. Það dugar ekki til í hugum hv. flutningsmanna.

Herra forseti. Er nema furða, svona þegar fer að slá í að við förum í morgunmat, að ég sé hissa?

(Forseti (SJS): Forseti leyfir sér að hafa enga skoðun á því.)



[00:49]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál. Það er greinilegt að þótt það séu góðar undirtektir hér hjá allflestum eru menn ekki alveg á sama stað með það hvort yfir höfuð þurfi að leggja fram þetta frumvarp og beita viðurlögum. Ég vil frekar sýna mannúð og mildi og beita viðurlögum en fangelsisvist. Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta frumvarp er aðlögun á þessum sektum. Það kom fram áðan hjá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að það þyrfti að greina betur og útskýra hvað það þýddi að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Þetta eru ekki háar upphæðir, 10.000 kr. til 100.000 kr.

Það kemur líka fram að ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð. Ég lít þannig á að ráðherra setji reglugerð sem sýni fram á með hvaða hætti fjárhagslegur styrkur er metinn með vísan til laganna, reglugerðin byggist auðvitað á þessari lagagrein og miðað við þessi lög er útfærslan þá ráðherrans, hvernig hann setur ákvæði um hvað teljist fjárhagslegur styrkur viðkomandi félags. Ég held að það hljóti að vera hægt að finna fyrirmyndir að því í lagabálkum heilt yfir. En ég treysti því að nefndin fari yfir þetta og kalli til þess til þess bæra aðila.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar vísaði til konu sem er framkvæmdastjóri fyrirtækis og er ekki hrifin af kynjakvótum. Það var spurt sisvona: Af hverju eru konur ekki metnar að verðleikum? Það er nú bara það sem konur hafa spurt sig í gegnum aldirnar alveg fram á þennan dag: Af hverju eru konur ekki metnar að verðleikum? Jafnréttisbaráttan í gegnum áratugina og aldirnar jafnvel hefur verið þyrnum stráð og konur hafa þurft að hafa fyrir henni. Það hefur ekkert verið sjálfgefið og þurft að fara ýmsar leiðir til að ná því fram sem við höfum þó náð fram í dag og sem betur fer með tilstyrk jafnréttissinnaðra karla líka.

Auðvitað væri voða gott í hinum fullkomna heimi að þurfa ekki að setja lög sem þessi og ekki setja lög um kynjakvóta. En heimurinn er ekki fullkomnari en það að við þurfum að gefa stöðnuðu og hæggengu samfélagi spark í rassinn og ýta við hlutunum, ýta þeim fram á við. Það hefur áhrif því að það er svo mikilvægt að við höfum fyrirmyndir alls staðar í samfélaginu, alls staðar, og að unga kynslóðin okkar, strákar og stelpur, sjái þær. Ég sá marga unga krakka á Arnarhóli í gær á kvennafrídaginn með baráttuspjöld og spjallaði við nokkur þeirra. Þau voru mjög meðvituð um að stelpur ættu að eiga sama rétt og strákar til að njóta sín í lífinu hvar sem væri og hafa möguleika til þess.

Við þurfum að hafa fyrirmyndir líka í viðskiptalífinu og atvinnulífinu. Ég tel þetta vera skref í þá átt að við göngum þarna fram og uppfyllum þau lög sem við erum búin að setja sjálf og látum ekki það líðast að Alþingi setji lög sem er ekkert gert með. Ég treysti því að þetta mál fái góða og málefnalega meðferð og verði afgreitt frá Alþingi sem fyrst.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.