149. löggjafarþing — 26. fundur.
siðferði í stjórnmálum.

[15:05]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það vekur aðdáun áhorfenda þegar lið snýr kappleik sér í vil á síðustu sekúndu. En hvað kallast það þegar ráðamaður með vitneskju, a.m.k. góða innsýn vegna stöðu sinnar, gerir það sama nokkrum klukkustundum fyrir efnahagshrun meðan tugþúsundir lenda í miklum skakkaföllum? Er það sjálfsbjargarviðleitni, siðleysi eða jafnvel heigulsháttur?

Nýlega birti Stundin upplýsingar um fjármálaleikfimi hæstv. fjármálaráðherra í kringum bankahrunið 2008. Þá var hann alþingismaður og tók virkan þátt í stjórnun efnahagsmála á vegum stjórnvalda í aðdraganda hrunsins. Ný gögn sýna að umsvifin voru miklu meiri en áður var talið.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar fengið heilbrigðisvottorð frá hæstv. forsætisráðherra. Forsætisráðherra leitaði mögulega álits hjá núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra en varla hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur vorið 2016 sem sagði við vantraustsumræðu, með leyfi forseta:

„Það er óásættanlegt annað en að þeir ráðherrar sem koma fram í Panama-skjölunum stígi allir til hliðar og ríkisstjórnin fari frá. […] Svoleiðis flokkar eiga ekki að vera við stjórnvölinn.“

Í svari hæstv. forsætisráðherra til Stundarinnar segir hún, með leyfi forseta:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Á alþýðumáli vill ráðherra horfa á heildarmyndina og laga kerfið en láta eiga sig þá sem misnota það.

Auðvitað verðum við að breyta kerfinu, hæstv. forsætisráðherra, en finnst henni eðlilegt, heppilegt og líklegt til að skapa traust um þá vinnu að maðurinn sem fer með vald yfir málaflokknum, sá sem skipar t.d. í stjórn Fjármálaeftirlitsins, sá sem á að uppræta skattaskjól, sé með þessa fortíð og þessa tengingu?



[15:07]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ekki síður fyrir að þýða orð mín yfir á alþýðumál. Ég kann honum bestu þakkir fyrir það. Í raun og veru er hv. þingmaður að spyrja mig um ástæður þess að ég er í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Það ætti að liggja algjörlega ljóst fyrir og kemur fram í því svari sem hv. þingmaður vitnaði til. Ég tel mikilvægast að þau málefni ráði för sem stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar snýst um og árangur af þeim aðgerðum sem ráðist er í.

Eins og kemur fram í því svari sem hv. þingmaður vitnaði til höfum við séð og munum sjá verulegar úrbætur á umhverfi skattamála hér á landi, úrbætur sem hófust með samstilltu átaki á þingi 2016, var fylgt eftir á síðasta þingi og von er á frekari frumvörpum í þá veru á þessu þingi.

Það er mjög mikilvægt — ég veit að hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um það — að við tökum á þeim kerfislæga vanda sem við höfum séð byggjast upp og sáum sérstaklega byggjast upp fyrir efnahagskreppuna þar sem byggðust upp aflandssvæði og lágskattasvæði, og fjármálakerfið var með glufum sem gerðu að verkum að fólk gat nýtt sér slík svæði.

Er ég þeirrar skoðunar að ekki fari vel á því að fólk í stjórnmálum sé samhliða umfangsmikið í viðskiptum? Já, ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki heppileg ráðstöfun. Þess vegna fagna ég því mjög að eftir hrun tókum við, í mikilli samstöðu líka, upp reglur um hagsmunaskráningu þingmanna. En læt ég það ráða för um ríkisstjórnarsamstarf 2017/2018 hvað hv. þingmenn gerðu á árunum 2004–2008 áður en þær reglur tóku gildi? Þingmenn sem hafa fengið endurkjör síðan í fernum kosningum? Nei, ég geri það ekki.



[15:09]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég er sammála því að það þarf að taka á kerfislægum vanda en tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið. Er þá lærdómurinn sem almenningur á að sitja uppi með og draga af þessu máli að siðferðislegar reglur gildi ekki fyrir alla í samfélaginu, heldur einungis það sjálft. Ég hlýt að endurtaka spurninguna: Er núverandi fjármálaráðherra heppilegastur til að leiða þessa vinnu? Er líklegt að forsvar hans muni auka traust á stjórnmálum og traust á þeirri vinnu sem nú fer fram?

Mitt svar er afdráttarlaust nei. Það er vel hægt að hugsa sér þennan ágæta einstakling í ýmsu öðru. Það var enginn að tala um að hann þyrfti endilega að hætta í stjórnmálum. En að gera hann að fjármálaráðherra og láta hann fara með þennan málaflokk finnst mér út í hött.



[15:10]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hvort hæstv. fjármálaráðherra sé heppilegasti fjármálaráðherrann sem er í boði, sérstaklega út frá reglum og lögum sem er ætlað að taka á skattundanskotum og skattaskjólum. Hlýt ég þá ekki spyrja hv. þingmann á móti: Verðum við ekki að líta til þeirra verka sem unnin hafa verið og þeirrar vinnu sem er í gangi?

Það liggur algerlega (Gripið fram í.) fyrir hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessum málum. Það liggur fyrir að við á Alþingi samþykktum úrbætur í þessum málum á síðasta þingi. Það liggur fyrir að á þingmálaskrá þessa sama hæstv. fjármálaráðherra er frumvarp sem kemur fram núna í nóvember, ef tímaáætlun stenst, þar sem m.a. koma fram töluvert hertar reglur þegar kemur að því að taka á aflandsfélögum á lágskattasvæðum. Eigum við ekki að horfa á þann árangur? Ég treysti hæstv. fjármálaráðherra mjög vel til þeirra verka.