149. löggjafarþing — 27. fundur.
aðgerðaáætlun í húsnæðismálum, fyrri umræða.
þáltill. LE o.fl., 5. mál. — Þskj. 5.

[16:39]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er meira en steypa og bárujárn, meira en skjól frá veðri og vindum. Húsnæði heldur ekki lúxus sem á eingöngu að standa vel stæðu fólki til boða. Húsnæði er heldur ekki hefðbundin markaðsvara heldur snýst það um að búa við mannréttindi.

Tryggt húsnæði er staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi og við köllum það heimili.

Í dag mæli ég fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum í átta liðum sem ætlað er að taka á húsnæðisvandanum með kerfisbundnum hætti. Flutningsmaður er undirritaður ásamt öllum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að setja fram skýra aðgerðaáætlun með afmörkuðum og tímasettum aðgerðum sem tryggi húsnæðisöryggi fólks á Íslandi. Þrátt fyrir langvinnt góðæri eru húsnæðismál enn í öngstræti og þúsundir fjölskyldna á hrakhólum. Fólk á ekki að þurfa að óttast heimilisleysi hér á landi. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að bíða eftir almennum aðgerðum, fyrir utan hvað það er kaldranalegt.

Markaðurinn hefur ekki ráðið við að leysa húsnæðisvandann og stjórnvöld ekki heldur. Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum síðustu ár hafa verið losaralegar og augljóslega ekki skilað nægilega góðum árangri. Í stað þess að vinna markvisst að varanlegum lausnum hafa stjórnvöld frekar slökkt elda.

Það eru erfiðir tímar, kjaraviðræður eru fram undan. Þær verða snúnar en þar er sameiginlegt stef verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins að stjórnvöld verði að tryggja fólki öruggara og hagkvæmara húsnæði. Nauðsyn aðgerða, svo sem þeirra sem við leggjum fram í dag, er óumdeild, enda mikil hætta á að kjarabætur verði étnar upp á húsnæðismarkaði. Þar spilar íslenska krónan auðvitað sitt hlutverk.

Ástandið er þannig að ungt og efnalítið fólk getur ekki komist inn á húsnæðismarkaðinn á sama tíma og mikill skortur er á leiguíbúðum og leiguverð er allt of hátt — það hæsta á Norðurlöndum. Framboð á félagslegu húsnæði sveitarfélaga fyrir þá allra efnaminnstu er líka allt of lítið. Sá hópur sem er með lægstar tekjur og á þar af leiðandi mjög erfitt með að framfleyta sér á húsnæðismarkaði, en þó ekki nægilega lágar til að geta fengið úthlutað þessu félagslega húsnæði sem er af mjög skornum skammti, hefur auk þess algerlega setið eftir síðan að verkamannabústaðakerfið var lagt niður.

Það er heldur ekki nægilegt framboð á leiguhúsnæði eða hagkvæmum íbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur með meðal- eða jafnvel tiltölulega háar tekjur. Þrátt fyrir að húsnæðiskostnaður sé stærsti kostnaðarliðurinn hjá flestum fjölskyldum og húsnæðismál séu það málefni sem brennur hvað heitast á landsmönnum, fá þau mál allt of litla athygli á Alþingi. Þau fá ekki nægilega stóran sess í velferðarumræðunni þrátt fyrir að vera í raun risastórt velferðarmál. Við verðum einfaldlega að grípa til aðgerða, herra forseti.

Það er ekki nóg að vísa til að hér sé verið að ræða málin, verið sé að byggja aðeins meira og enn einn vinnuhópurinn um húsnæðisaðgerðir hafi verið skipaður í velferðarráðuneytinu. Fólk er einfaldlega búið að bíða allt of lengi.

Fólk með lægri tekjur er í mestum vandræðum með að koma sér inn á húsnæðismarkað og býr þar af leiðandi við töluvert meira óöryggi á leigumarkaði. Annar hópur sem hefur algerlega setið eftir er ungt fólk. Kaupmáttur þess hefur ekki aukist til jafns á við eldri kynslóðir á meðan húsnæðisverð hefur hækkað um 43% umfram almennt verðlag. Það er talsvert meiri hækkun á húsnæðisverði en annars staðar á Norðurlöndum.

Ástandið á leigumarkaði hefur alvarlegar afleiðingar en rannsóknir hafa sýnt að leigjendur eru líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda líklegri til að líða skort og verða jaðarsett. Í dag búa um 50.000 manns á ótryggum og dýrum leigumarkaði. Það eru 30.000 heimili. Þannig eru helstu fórnarlömb húsnæðisástandsins annars vegar fátækasti hluti landsmanna sem ekki finnur hagkvæmt húsnæði til langtímaleigu, og hins vegar ungt fólk sem ekki nær að kaupa sína fyrstu íbúð.

Aðrir hópar hagnast síðan á neyð þeirra sem koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þessir milliliðir leiguíbúða og leigjenda hagnast um marga milljarða á ári en sá hagnaður rennur beint úr vasa leigjenda.

Ríki og sveitarfélög verða að tryggja forsendur fyrir markvissa uppbyggingu leigumarkaðar með fjárhagslegum stuðningi og aðgerðum af ýmsu tagi. Þörf er á að styðja við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæðiskerfi sem kemur til móts við fólk sem ekki ræður við markaðskjör á húsnæði og getur hvorki keypt né leigt á almennum markaði.

Framboði á leiguhúsnæði er líka verulega ábótavant. Það verður að byggja meira og hagkvæmar til að halda aftur af verðhækkunum. Ríkið verður að stíga miklu fastar inn og tryggja fleiri og stærri stofnframlög til uppbyggingar hagkvæmra leiguíbúða.

Til lengri tíma litið á húsnæðiskerfið að vera fyrirsjáanlegt og öruggt og tryggja lántakendum fjölbreytt lánsform á hagstæðum kjörum. Byggja verður upp fjölbreyttan og öruggan leigumarkað með stefnumótun og aðkomu hins opinbera, en einnig fjölbreyttar íbúðir til kaupa á almennum markaði. Þetta er einfaldlega samvinnuverkefni markaðarins og hins opinbera. Það er lykilatriði að vinna lausnir í húsnæðismálum í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna, atvinnulífið og sveitarfélögin í landinu.

Samfylkingin leggur því fram umrædda þingsályktunartillögu í átta liðum sem ætlað er að bæta húsnæðisvandann kerfisbundið. Þingmenn Samfylkingarinnar telja tillöguna nauðsynlegt skref í áttina að hagkvæmari húsnæðismarkaði, manneskjulegri leigumarkaði og meiri félagslegum stöðugleika. Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því að þessi tillaga mun ekki leysa allan þann vanda sem við erum í og ekki eins og skot. Þetta eru hins vegar nauðsynleg fyrstu skref til að taka á þessum hlutum af einhverri alvöru og með varanlegum hætti.

Þó að það sé ekki hluti af þessum átta tillögum hlýtur maður að nefna fílinn í herberginu, sem er gjaldmiðillinn. Að sjálfsögðu er stærstu hindruninni ekki rutt úr vegi, en það eru háir vextir og fjármagnskostnaður sem fylgir íslenskri örmynt. Sú staðreynd að framleiðni á Íslandi er mikið lægri en á Norðurlöndunum á sama tíma og við búum við miklu hærra vaxtastig og meiri fjármagnskostnað er auðvitað ekkert annað en ávísun á enn meiri erfiðleika við uppbyggingu sjálfbærs húsnæðismarkaðar en þyrfti að vera.

Fyrsti liður tillögunnar snýr að startlánum að norskri fyrirmynd. Ungt fólk á sífellt erfiðara með að komast inn á húsnæðismarkað, en þeir erfiðleikar stafa fyrst og fremst af skorti á eigin fé. Leiguverð er of hátt og húsnæðisverð hækkar stöðugt umfram kaupmátt. Einu raunaðgerðir stjórnvalda síðustu ára sem snúa að aðstoð við kaup á fyrstu fasteign felast í að hægt sé að nýta séreignarsparnað skattfrjálst við íbúðarkaup. En þessar aðgerðir nýtast fyrst og fremst þeim sem hafa hærri tekjur. Startlán koma hins vegar þeim til aðstoðar sem eru að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði og fá ekki lán annars staðar, auk þess sem þeim er ætlað að tryggja húsnæðisöryggi fyrir viðkvæma hópa. Þau koma tekjulágum fjölskyldum best, þeim sem eru með lágar en öruggar tekjur en geta ekki fengið nægjanleg lán hjá hefðbundnu bönkum. Þar að auki standa þau fjölskyldum til boða sem eiga erfitt með að mæta útgjöldum vegna húsnæðiskostnaðar í formi endurfjármögnunar.

Þetta er gert til að hjálpa fjölskyldum að vera áfram með fasta og örugga búsetu.

Lánin hafa reynst vel í Noregi þar sem sett voru skilyrði um hámarkskaupverð til að sporna við verðhækkunum og passa upp á að húsnæði væri ekki dýrara en svo að lántakendur réðu við afborganir til lengri tíma.

Í öðru lagi leggjum við enn og aftur til fjölgun hagkvæmra íbúða í samvinnu við verkalýðs- og sveitarfélögin til að koma stoðum undir manneskjulegri leigumarkað. Tekjulágir einstaklingar hafa verið utan garðs á húsnæðismarkaði frá því að verkamannabústaðakerfið var lagt niður. Það er hafið yfir vafa að ef verkamannabústaðakerfið hefði fengið að þróast áfram í stað þess að leggja það niður væru nú um 20.000 fleiri íbúðir í kerfinu í dag. Sá hópur sem mæta á ræður ekki við markaðinn en telst of tekjuhár fyrir félagslegt húsnæði sveitarfélaga. Nú hefur loksins fjármagn verið tryggt í stofnframlög til uppbyggingar 2.300 íbúða eftir margra ára baráttu. En það er bara ekki nóg, herra forseti. Þessi uppbygging þarf að vera miklu meiri og hraðari. Hér verður að byggja upp öruggari leigumarkað í félögum án hagnaðarsjónarmiða. Slík félög eiga hins vegar erfitt með að ná fótfestu vegna fjármögnunarvanda en eru samt sem áður mjög mikilvægur hluti af húsnæðiskerfi nágrannaþjóðanna. Við þurfum að stefna þangað.

Ljóst er að vinna þarf á uppsöfnuðum skorti á íbúðum. Það er langtímaverkefni en ekki átaksverkefni. Ríkisstjórnin verður í samstarfi við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði að bregðast við skorti á leiguíbúðum og tryggja nægt framboð. Þá er lykilatriðið að huga að því hvers konar íbúðir vantar á markaðinn, ekki síður en hversu margar, því að nú er fyrst og fremst þörf á minni og hagkvæmari íbúðum næstu árin, m.a. vegna breytinga á fjölskyldumynstri.

Aðkoma ríkisins er einfaldlega nauðsynleg til að leggja grunninn að traustum leigumarkaði og tryggja að mikil fjölgun íbúða á næstu árum verði hagkvæm fyrir samfélagið og nýtist í baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði. Þess vegna er lagt til að á næstu árum verði ráðist í byggingu a.m.k. 5.000 leiguíbúða í samstarfi við aðila sem eru ekki í hagnaðarrekstri. Átak í þá veru kann að þurfa að vera tímabundið á einstökum svæðum en varanlegt á öðrum. Það getur lotið ólíkum lögmálum frá einu svæði til annars.

Í þriðja lagi verður að jafna ábyrgð sveitarfélaga hér á landi þegar kemur að framboði á félagslegu húsnæði. Byrðum vegna félagslegs húsnæðis er mjög misskipt milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík á hlutfallslega langmest af slíkum eignum, eða allt að átta sinnum meira en sveitarfélögin í kring. Sömu sögu er að segja um Akureyri en bærinn stendur sig mun betur en önnur sveitarfélög á landsbyggðinni.

Ég tel að eðlilegt hlutfall félagslegs húsnæðis gæti miðast við 5% af heildarfjölda íbúða. Ljóst er að mörg sveitarfélög uppfylla ekki það hlutfall og því þurfa efnaminni fjölskyldur oft að leita annað eftir úrlausn sinna mála. Þar þurfa viðtökusveitarfélög að borga brúsann. Gleymum því ekki að sveitarfélög hafa mjög takmarkaða möguleika til að afla sér tekna. Með því að gera einstökum sveitarfélögum kleift að koma sér hjá allri þjónustu sem ætti að vera sjálfsögð og eðlileg, og leggja hana á herðar öðrum er verið að skekkja samkeppnisstöðu sveitarfélaga.

Þá er auðvitað ónefnd mannvonskan sem felst í því að ýta fólki óbeint burt úr sveitarfélögum og yfir á nágrannasveitarfélögin.

Í fjórða lagi verða húsnæðis- og vaxtabætur að fylgja betur verðlagsþróun. Þótt hækkun á húsnæðis- og vaxtabótum leysi ekki ein og sér húsnæðisvandann verða húsnæðisbætur og aðrar tilfærslur að haldast betur í hendur við launaþróun til að koma í veg fyrir að lægri tekjuhópar dragist aftur úr með tilheyrandi ójöfnuði.

Í fimmta lagi er gríðarlega mikilvægt að lækka byggingarkostnað hér á landi, auka framleiðni t.d. með því að auðvelda eininga- og raðsmíði. Því er lagt til að byggingarreglugerðin verði einfölduð til muna. Með einungis smávægilegum breytingum á byggingarreglugerðinni er hægt að einfalda og aðlaga kröfurnar betur að reglugerðum annars staðar á Norðurlöndum. Þekktar erlendar aðferðir stoppa vegna regluverksins hér þrátt fyrir vilja yfirvalda. Af hverju erum við alltaf að finna upp hjólið þegar hægt er að notast við staðlaðar lausnir? Aðrar þjóðir hafa sýnt að hagræði af nútímalegum byggingaraðferðum í langan tíma er vel hægt að viðhafa án þess að slaka nokkuð á gæðum í byggingum.

Breytingarnar ættu að taka mið af því að auka framleiðni í byggingariðnaði á Íslandi, en slíkt myndi jafnframt greiða fyrir möguleikum til að gera einingar- og raðsmíðar hagkvæmari kost.

Að lokum þarf líka að leggja áherslu á að gera stjórnsýslu byggingar- og skipulagsmála miklu skilvirkari en nú er og samræma milli ólíkra embætta í landinu.

Í sjötta lagi leggjum við til að búa til hvata til langtímaleigu í stað skammtímaleigu. Til að auka framboð á íbúðum í langtímaleigu viljum við ívilna þeim sem leigja út til raunverulegrar búsetu og hafa eina aukaíbúð skattfrjálst. Það er svo háð ákveðnum skilyrðum sem talað er um í þingsályktunartillögunni.

Í áttunda lagi leggjum við til að breyta lögum um húsnæðisbætur með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði geti öðlast rétt á húsnæðisbótum. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hefur lagt fram sérstakt frumvarp um þetta efni sem ég hvet þingmenn til að kynna sér.

Með þeim nauðsynlegu úrbótum sem ég hef nefnt hér tökum við markvisst skref í áttina að heilbrigðum húsnæðis- og leigumarkaði til framtíðar, skref sem þarf að taka til að berjast gegn fátækt í landinu, en að sjálfsögðu líka til þess að tryggja öllum almenningi þau sjálfsögðu mannréttindi sem öruggt húsnæði er.

Ég skora því á hv. þingmenn að taka vel í þessar tillögur svo við getum komið á móts við fólk sem ekki fær notið ávaxtanna af hagsveiflunni og fólk sem setið hefur eftir. Við skuldum í rauninni leigjendum og ungu fólki sem ræður ekki við útborgun til að kaupa sína fyrstu íbúð miklu betri úrræði.

Hér er ekki um neitt flokkspólitískt mál að ræða. Öruggt húsnæði er jafn sjálfsagður hlutur og fæði, klæði, menntun og góð heilbrigðisþjónusta. Það hlýtur að vera hægt að aðlaga þessar tillögur að vilja allra flokka.[16:54]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð glöð við áskorun hv. þm. Loga Einarssonar og tek vel í þessa þingsályktunartillögu og lýsi yfir stuðningi mínum við hana og þakka honum fyrir framsögu sína í þessu máli. Ég vil koma hingað upp til að spyrja hann tveggja spurninga og skipti þeim bara á milli andsvara til að hafa þetta frekar þægilegt.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja um 1. lið þessarar þingsályktunartillögu, um startlán að norskri fyrirmynd, eins og hv. þingmaður ræddi í ræðu sinni. Ég vildi einfaldlega sækjast eftir nánari upplýsingum, í fyrsta lagi um það hversu mikill munur sé á vöxtum á almennum lánum og startlánum í þessari norsku fyrirmynd, svona um það bil. Svo langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að það sé aðeins hægt að kaupa eignir upp að ákveðinni upphæð með slíkum startlánum og þá hver sú upphæð ætti að vera, bara um það bil, enn og aftur, og hvernig mætti heimfæra það upp á íslenskan veruleika.

Þannig að spurningin er: Sér hv. þingmaður fyrir sér að það mætti nota slík startlán til að kaupa sér tveggja herbergja íbúð í Breiðholti eða bara stærri íbúð í Vesturbænum? Hvernig myndi þetta heimfærast upp á þann markað sem við sjáum í dag? Ég byrja á því, norskum startlánum.[16:56]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi startlán eru fyrst og fremst félagslegt fyrirbæri fyrir þá sem eiga ekki ríka foreldra eða efnaða ættingja eða hafa ekki háar tekjur sem þeir geta lagt til hliðar af og eiga erfitt með að eignast fyrir útborgun. Þau geta verið allt að 100% í Noregi.

Hvað varðar vextina er það eitthvað sem þarf að ræða sérstaklega hér vegna þess að vextir í Noregi eru 1,8% eða eitthvað svoleiðis, á meðan óverðtryggðir vextir hérna eru 6, 7, ég veit það ekki. Það er auðvitað hlutur sem þarf að ræða.

Til að fá þessi lán þarf líka að ganga í gegnum annars konar greiðslumat, ekki jafn íþyngjandi og er hér í kerfinu. Það eru í rauninni fleiri sem gætu fengið möguleika á þessu. Hér er fyrst og fremst verið að kasta fram þeirri hugmynd að miðað yrði við húsnæði sem er ekki of stórt og ekki of dýrt og er öruggt að fólk muni geta borgað til baka.

Í þessu kerfi í Noregi, og við höfum hugsað það hér líka, eru einnig möguleikar á láni fyrir einstaklinga sem kannski verða fyrir slysi, lenda í hjólastól, verða gamlir og geta þurft að búa lengur heima, þá er hægt að sækja um slík lán og breyta íbúðunum og aðlaga að þörfum þeirra. Einnig til að brúa bil fyrir fólk sem hefur lent í mjög erfiðum aðstæðum, t.d. eftir hrunið.

Ég á nóg eftir, ég sá bara eitthvað blikka hérna. En tökum bara næstu spurningu.[16:58]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hin spurningin snýr að öllu tæknilegra efni, að 5. lið þingsályktunartillögunnar um einföldun byggingarreglugerðarinnar. Þar er lagt til að breyta byggingarreglugerðinni á Íslandi til samræmis við hin Norðurlöndin þannig að auðveldara verði að smíða einingar þar og flytja til Íslands. Mér þykir það bara hið besta mál. Ég vil hins vegar spyrja í hverju þessar breytingar felist og hvort þær verði nokkuð til þess — ég efast um það, en ég spyr bara til öryggis — að aðgengi skerðist, þ.e. hafi áhrif á aðgengismál í byggingum á Íslandi. Mér þætti gott að heyra svör hv. þingmanns við því.[16:59]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurninguna. Það hefur nefnilega töluvert verið rætt um einföldun byggingarreglugerðarinnar hér á þingi og allt of mikið af þeirri umræðu hefur einmitt farið í umræðu um hvernig hægt er að klippa út alla aukahluti, gera hlutina smærri og snollaða, svo ég noti ljóta íslensku. Það er vissulega alveg í góðu lagi að gera mönnum kleift að byggja litlar íbúðir, en hér er ekki verið að tala um að við förum frá þessari algildu hönnun þar sem gengið er út frá aðgengi fyrir alla. Það er líka þannig á Norðurlöndunum, en við ættum að geta aðlagað okkur að því sem gildir þar.

Hér er ég að tala um þætti sem hafa ekkert verið ræddir en eru alveg himinhrópandi, eins og t.d. að það skuli vera önnur krafa um lofthæð á Íslandi en í Svíþjóð. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að ef einstaklingur ætlar að byggja 30–40 m2 íbúða fjölbýlishús á Íslandi og ætlar að kaupa sig inn í framleiðslu hjá fyrirtæki sem framleiðir miðað við aðrar aðstæður, þá þarf að fara að sérútbúa þær einingar fyrir Ísland. Það mun alltaf gera þær kannski 15, 20, 30% dýrari, þannig að þetta er óhagkvæmt. Við styðjumst að svo miklu leyti við Norðurlöndin að við ættum í rauninni að geta treyst því að kröfur sem þar eru gerðar séu eitthvað sem við getum sætt okkur við.

Þar fyrir utan má gera miklu stærri og róttækari breytingar á byggingarreglugerðinni. Hér á Íslandi er hún forskriftarreglugerð. Það er t.d. sagt nákvæmlega fyrir um hvernig íbúðir eiga að vera, hversu stórar, litlar, breiðar og allt það, á meðan norræna reglugerðin er markmiðsdrifin, þar er talað um gæði, um lýsingu, um fegurð og annað. Síðan er það auðvitað hönnuðanna og verktakanna að sannfæra byggingaryfirvöld um að verið sé að uppfylla kröfurnar. Miklu skynsamlegri nálgun.[17:01]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að fá þessa tillögu til umfjöllunar og ég þakka fyrir það. Ég tel mér hins vegar rétt og skylt að eiga orðastað við hv. 1. flm., hv. þm. Loga Einarsson. Ég er ekki alveg viss um að ég skrifi undir öll þau verkefni sem flutningsmenn telja nauðsynleg. Ég vil fá að vita af hverju þingflokkur Samfylkingarinnar tekur ekki eitt af þeim verkefnum og klárar það sjálfur. Ég lýsi því yfir að ég myndi leggja mig fram um að greiða því leið, ásamt hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, sem er verkefni sex og er tiltölulega einfalt. Ef það er einhver meining í því hjá flutningsmönnum að fela ráðherra þetta verkefni er miklu einfaldara að þeir geri það bara sjálfir. Ég skil ekki af hverju þurftu að koma með fleiri tölustafi inn eða fleiri verkefni.

Þannig að ég spyr: Af hverju tekur þingflokkur Samfylkingarinnar sig ekki til og flytur þetta einfalda frumvarp? Fjármagnstekjuskattur af leiguhúsnæði er 50%, þ.e. 50% af leigutekjunum eru skattlagðar með 22%. Þetta er fyrri spurningin.

Vantar ekki líka eitt verkefni inn í þetta? Hér talað um að leggja ákveðnar skyldur á sveitarfélög varðandi félagslegt húsnæði, við skulum ræða það síðar. En hvað með skyldur sveitarfélaga til að tryggja nægilegt framboð af byggingarlóðum? Eru það ekki skyldur sem þurfa að vera inni í verkefninu, vegna þess að ef sveitarfélögin sinna (Forseti hringir.) ekki þeirri grunnskyldu sinni að tryggja nægjanlegt lóðaframboð skiptir engu máli hvað verður gert í þeim verkefnum.[17:03]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir. Hann nefnir 6. liðinn og það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að búa til sérstakt mál um það og við erum reyndar með sérstakt mál um einhverja hluti þarna. Hins vegar eru húsnæðismál með þeim hætti að þau eru ekki ólík til að mynda heilbrigðismálum þjóðarinnar eða menntamálum að því leyti að töluverður ávinningur er af því að þingið allt, óháð flokkum, setjist yfir málið, ræði það á heildstæðan hátt og nái samkomulagi um það til ára og áratuga. Þetta eru ekki átaksverkefni. Þetta eru ekki verkefni sem eru sett fram til að leysa hlutina einn, tveir og þrír. Það er ekki hægt. Við erum með gríðarlega stóran atvinnuveg sem er mjög brokkgengur. Sjálfur starfaði ég í honum í 25 ár og fór í gegnum fjórar kreppur í byggingariðnaði vegna þess að ýmist var verið að slá úr eða gefa í. Við eigum náttúrlega að geta náð mjög breiðri sátt í samfélaginu um alla vega meginhugsunina við húsnæðismál og íbúðauppbyggingu.

Hvað varðar skyldur lóðar býst ég við að það sé einhver leikur til að reyna að koma höggi á höfuðborgina, sem hefur reyndar staðið sig miklu betur í húsnæðismálum en öll sveitarfélögin í kring. Það er ekki til neins heldur að hafa fullt af tómum lóðum ef aldrei er neitt gert. (Gripið fram í: Vitleysa.) Það hefur verið byggt í Reykjavík. Þetta er mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar jafnvel þótt íbúafjöldinn sé reiknaður inn í það. Þetta er stærra uppbyggingarskeið en þegar menn réðust í uppbyggingu Breiðholts, við skulum hafa það á hreinu. Allar tilraunir til að reyna að koma Reykjavíkurborg illa í þeim umræðum eru misheppnaðar.[17:05]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég minntist ekki einu orði á Reykjavíkurborg. Af einhverjum ástæðum skilur hv. þingmaður og 1. flm. það sem sérstaka árás á Reykjavíkurborg og meiri hlutann þar þegar ég spyr að því hvort ekki eigi að skilgreina skyldur sveitarfélaga til að tryggja nægjanlegt lóðaframboð. Hann verður að eiga það við sjálfan sig. En látum það liggja á milli hluta.

Ég spyr: Er það þannig að við séum að móta hér skynsamlega stefnu í íbúðamálum, í húsnæðismálum? Ég er sammála hv. þm. Loga Einarssyni um að húsnæðisöryggi sé ein af grunnþörfum okkar allra og við eigum auðvitað að gera allt til að tryggja að þeirri grunnþörf sé mætt á sama hátt og öðrum grunnþörfum okkar. En við verðum þá líka hlusta á fólkið sjálft og reyna að koma til móts við þær langanir sem það hefur. Það kemur í ljós í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs, sem var kynnt í síðustu viku, að aðeins 8% þeirra sem eru á leigumarkaði eru þar vegna þess að þeir kjósa það. Langflestir vilja ekki vera á leigumarkaði heldur í eigin húsnæði.

Þá spyr ég: Er ekki rétt að við tökum höndum saman í þingsal og vinnum að því að láta drauma og langanir fólks um að eignast eigið húsnæði rætast, að það sé meginverkefnið? Ef við gerum það leysum við líka stærstan hluta vandans á leigumarkaði vegna þess að eftirspurn eftir leiguhúsnæði mun minnka, til verður eðlilegt leiguverð og húsnæðisöryggi verður betra, öruggara og samfélagið allt mun fá að blómstra, hv. þingmaður.[17:08]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég nefndi Reykjavík er bæði að ég skil auðvitað fyrr en skellur í tönnum og kann að lesa á milli línanna og einnig af því ég er sérstakur áhugamaður um bæði ræður hv. þingmanns og les greinar hans í Morgunblaðinu. Ég þóttist því skilja af samhenginu að hann gæti verið að ræða um höfuðborgina. Það er ástæðan.

Auðvitað er allt í lagi að hlusta á fólk og ég veit að ný könnun sem Íbúðalánasjóður gerði sýnir að 92% fólks á leigumarkaði er óánægt með að vera á leigumarkaði en það er líka hægt að spyrja tíu manna hóp sem gengur um á splunkunýjum gúmmístígvélum í blautu veðri og aðra sem eru á götóttum og svörin verða þannig að þeir sem eru á heilu gúmmístígvélum munu vera ánægðir með þau en hinir ekki.

Þegar menn tefla fram svona könnun þarf nefnilega að skoða hvernig viðhorf fólks til leigumarkaðar er í Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Þá kemur í ljós að það er almenn ánægja, þar er kerfið gott. Af því að ég gef mér að við séum sammála um að fólk hugsi eins á Raufarhöfn og í Rúanda og hafi sömu þarfir geri ég ráð fyrir því að gott væri … (ÓBK: En þú vilt að … ) — nei, ef leigumarkaðurinn væri góður væri ánægjan meiri.

Ég talaði einmitt um það, og hef alltaf gert, að jafnræði ætti að vera milli þess að geta búið á öruggum leigumarkaði og geta keypt sér íbúð. Ég talaði um að hið opinbera hefði skyldum að gegna en einkaframtakið ætti líka að fá að byggja.

Ungt fólk í dag er allt öðruvísi en þegar við tveir vorum ungir (ÓBK: Það er ekki langt síðan.) og dreymdi um að búa í úthverfi í stóru húsi með bílskúr. Ungt fólk er hreyfanlegra í dag, það vill ekki festa sig.

Við skulum bara gera hvort tveggja, hv. þm. Óli Björn Kárason, og við skulum gera það saman.[17:10]
Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessari umræðu um húsnæðismál. Húsnæðismál eru nefnilega mannréttindamál eins og var nefnt hér að framan. En þau eru líka geðheilbrigðismál og barnaverndarmál.

Húsnæðiskerfið á Íslandi er ekki í lagi og fyrir því eru kannski margar og frekar flóknar ástæður. Ég held að þessi þingsályktunartillaga sé ágætt skref í að laga það. Öryggi er annað af grunnþrepunum í þarfapíramída Maslows. Við þurfum öll húsnæði og hið opinbera hefur ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að því.

Mig langaði sérstaklega að nefna það að hér er komið inn á að skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélaga. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Ég er hérna með ársgamlar tölur. Í Reykjavík voru fyrir ári síðan um 2.650 félagslegar íbúðir og við vitum öll að þeim fjölgar ört þessa dagana. Þetta eru félagslegar íbúðir. Þá eru ótaldar íbúðir eins og búseturéttaríbúðir og aðrar íbúðir sem eru ekki í hagnaðardrifnu kerfi.

Í Kópavogi voru þær fyrir ári síðan 436 og ég hef ekki heyrt að það hafi bæst nýtt við þar. Þar er sem sagt staðan næstbest. Í Hafnarfirði 245. Svo komum við að ríkustu sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Í Garðabæ voru þær 35, í Mosfellsbæ 30, á Seltjarnarnesi 16.

Þetta er til háborinnar skammar. Það verður að gera eitthvað í því og ákveða hreinlega að það sé ákveðið hlutfall af íbúðum í hverju sveitarfélagi sem eigi að vera rekið á félagslegum forsendum. Ég veit t.d. að Seltjarnarnes á ekki byggingarland þannig að það er erfitt að mæta þessu þar. En þau sveitarfélög verða bara hreinlega að greiða fyrir félagslegt húsnæði annars staðar í einhvers konar jöfnunarsjóð.

Við þurfum öll heimili. Húsnæði er einfaldlega grunnþörf. Það er allt of mikilvægt til að það sé hægt að láta það markaðnum bara einum eftir. Opinberir aðilar hafa skyldum að gegna þegar kemur að þessum málum.

Það var aðeins talað hér um að við vildum vera séreignarþjóð. Það er vegna þess hvernig íslenski leigumarkaðurinn er. Hann er hryllingur. Hann er uppspretta róts hjá fjölskyldum, óöryggis og kvíða, fyrir utan það að húsnæðisverð er allt, allt of hátt. Það þarf hreinlega að koma böndum á þetta. Þetta er ekki svona í öðrum löndum. Í Sviss t.d. vill meiri hluti fólks bara vera á leigumarkaði, finnst það alveg fáránleg hugmynd að fara að kaupa sér íbúð í einhverri borg og þurfa að vera með garð og bílskúr og eitthvað svona. Fólk vill kannski frekar kaupa sér einhvern pínulítinn fjallakofa þar sem maður getur haft það huggulegt og slakað á en alls ekki eiga og binda fjármuni sína í þetta stórri fjárfestingu.

En á Íslandi hefur þetta verið nauðsyn. Ég held að það sé ekki þannig hjá yngri kynslóðum. Nú er ég með fjögur ungmenni heima hjá mér. Þau þurfa einhvers staðar að búa. Á næstu árum munu þau einhvern tímann flytja eitthvert annað, þau geta ekki endalaust búið í foreldrahúsum. En ég held að þau hafi engan áhuga á að eiga og reka húsnæði. Þau vilja geta búið einhvers staðar og svo vilja þau geta flutt til útlanda og komið aftur og allt mögulegt. Þetta unga fólk hugsar allt öðruvísi en mín kynslóð og eldri kynslóðir gerðu. Við þurfum virkilega að endurhugsa þessi mál á Íslandi.[17:15]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því ávallt þegar við fáum tækifæri til að ræða húsnæðismál hér í þessum sal. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé gert. Ég tel reyndar að við endum allt of oft í því, þegar verið er að ræða þennan mikilvæga málaflokk hér að umræðan verður einfaldlega allt of grunn. Það er alltaf talað um einhvern einn þátt sem talið er að skipti öllu máli þegar kemur að þessum markaði en því er ég algerlega ósammála. Ég held nefnilega að það séu mörg mismunandi atvik sem hafi skapað þær aðstæður sem uppi eru í dag.

En þá vil ég líka minnast á það að þessi markaður hefur sjaldan verið í jafnvægi hér á landi. Ef talað er um mannvirkjaiðnaðinn eða byggingariðnaðinn er það iðnaður sem í gegnum tíðina hefur tekið alveg gríðarlegum sveiflum. Ég held að það sem við hér í þessum sal ættum fyrst og fremst að einblína á sé að reyna að ná einhverju jafnvægi á þessum markaði. Eins og ég get verið sammála því að það sé velferðarmál, jafnvel geðheilbrigðismál eða barnaverndarmál, að allir hafi þak yfir höfuðið — og við getum öll verið sammála um það — þá erum við fyrst og fremst að tala um einn af stærstu mörkuðum á landinu. Það er mannvirkjageirinn. Og markaðurinn sem slíkur lýtur ekki félagslegum sjónarmiðum nema að litlum hluta. Þess vegna tel ég mikilvægt þegar við ræðum svona mál að fara yfir alla þætti þess. Ég ætla ekki að standa hér og þykjast hafa öll svörin á reiðum höndum — á sama tíma og ég held að svörin séu heldur ekki öll á reiðum höndum í þessari ágætu þingsályktunartillögu. Þó að hér séu kannski margir áhugaverðir punktar sem ástæða væri til að skoða sérstaklega held ég að það sé einfaldlega ekki svo einfalt að hægt sé að leysa þau vandamál sem uppi eru með þeim aðgerðum sem hér eru tilgreindar.

Ástæðan fyrir því að verðlagi er svo háttað sem er á þessum markaði er einfaldlega sú að framboðið er ekki nægjanlegt. En ástæðan fyrir því að framboð er ekki nægjanlegt er ekkert eitthvað eitt. Jú, sveitarfélögin hefðu örugglega öll getað staðið sig betur í því að skaffa lóðir. Samt vil ég minna á, þekkjandi vel til sveitarfélagsins Mosfellsbæjar, að í gegnum hrunið stóðu heilu hverfin tilbúin til aðgerða ef einhver hefði verið tilbúinn að fara í það að byggja upp íbúðir. Svo var einfaldlega ekki. Hér eftir hrun fóru bæði vélar, mannskapur og fjármagn úr landi og var ekki til staðar til að fara í þá uppbyggingu, þannig að það eru ýmsar ástæður fyrir því.

Það má eflaust gera eitthvað til að auðvelda ungu fólki kaup á sinni fyrstu íbúð. Það hefur þó töluvert verið gert. Ég held að það sé líka mikilvægt að á sama tíma og við höfum talað fyrir því að hér þurfi að vera öflugur leigumarkaður þurfum við að átta okkur á því að flestir vilja engu að síður eignast íbúð. En ég tek heils hugar undir að það er líka ákveðin breyta í lýðfræði og það eru fleiri sem vilja eiga kost á því að komast í öruggt leiguhúsnæði. Það þarf ekki allt að vera á félagslegum forsendum. Það getur líka vel verið á markaðslegum forsendum.

Mig langar líka að koma hér á framfæri — því það kom bæði fram í ræðu hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér og gott ef ekki líka í ræðu frummælanda þessarar þingsályktunartillögu — að þegar verið er að ræða um sveitarfélögin og mikilvægi þess að þau standi undir þeirri ábyrgð sem er sett á þeirra herðar, að skaffa félagslegt húsnæði þegar svo ber undir, er það hreinlega ekki svo, eins og stundum er haldið fram í umræðunni, að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem standi sig í þeim efnum. Hér var vísað í tölur áðan sem ég held að séu tölur um fjölda íbúða sem viðkomandi sveitarfélög eiga og leigja áfram inn í félagslega kerfið sitt. Ég veit að það er 81 íbúð í Mosfellsbæ sem er í félagslegri leigu, þó að það sé 31 sem sveitarfélagið sjálft á. Það er svo mikilvægt að við horfum á að sveitarfélögin hafa farið misjafnar leiðir. Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að eiga fyrirtæki sem heitir Félagsbústaðir og keypt upp fjölda íbúða og leigir þær áfram. Önnur sveitarfélög hafa farið í samstarf við aðra aðila eins og Öryrkjabandalagið eða félög á þeirra vegum, Búseta eða hreinlega bara leigt íbúðir á markaði og endurleigt svo áfram inn í sitt félagslega kerfi. Ég held að sveitarfélögunum eigi að vera það í sjálfsvald sett hvaða leiðir þau fara í þeim efnum, svo lengi sem þau uppfylla þá þörf sem uppi er í sveitarfélaginu.

Mig langaði líka að ræða hér aðeins þennan þátt sem oft kemur til umræðu varðandi framboðið, að framboðið sé ekki í neinu samræmi við eftirspurnina. Nú er ég ekki bara að meina skort á framboði heldur þegar rætt er að hér sé eingöngu framboð á stærri íbúðum eða dýrari en eftirspurn sé eftir ódýrari. Ég efast ekki um að það er staðan að mörgu leyti. Ég furða mig samt sem áður á því að þegar við ræðum svona gríðarlega mikilvægan markað og iðnað eins og mannvirkjagerðin er séum við öll að reiða okkur eingöngu — og þá er ég að tala um bæði bankana og Íbúðalánasjóð og aðra aðila á markaði — á tölur sem koma frá Samtökum iðnaðarins. Nú ætla ég ekki að tala Samtök iðnaðarins niður en talnanna sem þeir eru með afla þeir hreinlega með því að keyra í gegnum byggingarsvæðin og ræða við byggingarverktaka um hvað sé á takteinum hjá þeim. Það er ótrúlegt árið 2018 að við skulum ekki hafa öruggari tölur en þetta. Því að þessi gögn eru öll til í kerfinu. Það liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun hvað búið er að skipuleggja í sveitarfélögunum, hversu stórar þær íbúðir eru. Þau liggja inni í hverju einasta sveitarfélagi öll þau byggingarleyfi sem veitt hafa verið. Það ætti að vera auðvelt að draga þessi gögn fram og segja: Þetta er nákvæmlega það sem er til á lager, ef svo mætti að orði komast.

Það er nú reyndar svo að Skipulagsstofnun fékk þetta verkefni í landsskipulagi — nú átta ég mig ekki á því hvort það voru lög, væntanlega þingsályktunartillaga um landsskipulag. Skipulagsstofnun fékk það verkefni að halda utan um öll skipulögin og veita þessar upplýsingar inn á markað. Ég veit að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu treysta mjög á þetta við vinnu á svæðisskipulaginu þar sem verið var að reyna að taka aðeins þá miklu miðstýringu sem hafði verið í eldra svæðisskipulagi og færa aukið vald yfir til markaðarins. En þá er það auðvitað krafan að þær upplýsingar liggi fyrir á markaði.

Því miður hefur Skipulagsstofnun ekki enn þá forgangsraðað með þeim hætti að setja þetta verkefni í forgang. Ég hef nefnilega töluverða trú á markaðnum og vænti þess að ef þessar upplýsingar lægju fyrir með aðgengilegri hætti gætu þeir aðilar sem starfa þarna úti á markaði, hvort sem það eru aðilarnir sem eru að lána eða aðilarnir sem eru að byggja og framkvæma, veðjað betur á hver þörfin er, hvar eftirspurnin liggur og hvað er í pípunum.

Ég ætla líka að segja það hér að eins og ég er fullviss um að það sé rétt — og við vitum það, við sjáum það öll að skortur er á íbúðarhúsnæði, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og einnig víða á landsbyggðinni — leyfi ég mér jafnframt að efast um þær tölur sem hafa komið fram í spám Íbúðalánasjóðs um þörfina á markaðnum. Þær eru alla vega mun hærri en sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu hafa áætlað í sínu svæðisskipulagi um hvað þurfi að byggja á hverju ári.

Við erum að vinna okkur út úr kreppuástandi, þegar ekkert var byggt í nokkur ár. Að sjálfsögðu tekur það ákveðinn tíma að vinna sig upp í því. Ég hefði auðvitað, eins og allir hér inni, viljað sjá það gerast mun hraðar. En ég hef þó þá trú að við séum að nálgast það og það sé það mikið í pípunum að óvarlegt sé að tala með þeim hætti að hér ættu sveitarfélögin að fara að brjóta nýtt land og byggja upp heilu hverfin að nýju. Það er auðvitað alltaf svolítill slaki. Það tekur alltaf svolítinn tíma fyrir þessar íbúðir að koma inn á markað sem verið er að framkvæma akkúrat núna. Mig langar bara í þessari umræðu líka að minna á að það er ekkert langt síðan sveitarfélögunum var legið á hálsi fyrir að hafa skipulagt of mikið fram í tímann. Það kom út skýrsla sem bar heitið Veðjað á vöxt og sveitarfélögunum var kennt um að hafa verið í samkeppni um lóðir.

Ég er kannski fyrst og fremst að benda á að það eru ýmsir angar í þessari umræðu. Mér þykir hún oft á tíðum vera of grunn hér hjá okkur. Ég fagna því engu að síður að fá tækifæri til að ræða húsnæðismálin því að ég held að það sé mikilvægt og það er margt gott í þessari þingsályktunartillögu sem ég held að við ættum að skoða frekar. Ég hef til að mynda sérstakan áhuga á því að skoða byggingarreglugerðina og ákveðið samstarf við Norðurlöndin í þeim efnum. Það gæti ýtt undir frekari hagkvæmni á þessum markaði. Ég held líka að nauðsynlegt sé að leggja fjármuni í meiri rannsóknir og nýsköpun á sviði fasteigna- og húsnæðismarkaðarins og held að ríkið hafi gert ákveðin mistök með að hafa dregið sig algerlega út úr því með Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Það vantar þá aukið fjármagn inn í samkeppnissjóði eða aukinn áhuga hjá samkeppnissjóðunum um að sýna þessum mikilvæga markaði áhuga.

Þá er tími minn útrunninn. Ég hef ekki mikið meira að segja um málið akkúrat eins og er.[17:25]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kærar þakkir. Ég er ekki ósammála hv. þingmanni um allt. Ég held nefnilega að sveitarfélögin þurfi ekki að brjóta nýtt land til að byggja. Ég held að þau ættu einmitt að byggja þéttar. Í því felst mikil umhverfisvernd og það myndi reisa stoðir undir ágætisfyrirbæri sem er borgarlínan, sem ég veit að við hv. þingmaður styðjum bæði.

Þegar hv. þingmaður talar um spár um fjölda íbúða, annars vegar tölur sveitarfélaga og hins vegar tölur Íbúðalánasjóðs, held ég að það geti verið að hvorugur aðili hafi hitt á réttu töluna. Þó gleyma sveitarfélög oft að hugsa fyrir hvern þróunin er. Á Íslandi búa fleiri í hverri íbúð en annars staðar, bæði varð bakslag við hrunið þannig að ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum og svo hefur þróunin verið hægari. Á Norðurlöndunum er þetta komið undir tvo á hverja íbúð á meðan við erum í tveimur til þremur. Þetta snýst ekki bara um fólksfjölgun, þetta snýst líka um nýjan lífsmáta.

Hvað varðar byggingarreglugerðina og skipulagsreglugerðir og deiliskipulag er oft innbyggður hvati til þess að byggja of stórt í þeim. Þú færð lóðir og borgar miðað við hámarksbyggingarmagn og það er líka tiltekinn fjöldi íbúða þannig að verktakinn freistast til þess að fylla út í þann fermetrafjölda til að fá sem mest út úr því. Í staðinn ætti það í rauninni að hvetja menn til að byggja sem mest án þess að slaka á gæðum og gefa markaðnum meira frelsi til þess að sjá um þá hluti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að við vitum að framleiðni hér er kannski 70% á við það sem hún er í Noregi, hvort hún telji að háir vextir og mikill fjármagnskostnaður, að teknu tilliti til þess hversu framleiðni er lítil á Íslandi, sé kannski stóra ástæðan fyrir því að byggingarkostnaður er of hár hérna.[17:27]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og sérstaklega fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða þéttingu byggðar. Ég komst ekki inn á hana í ræðu minni. Ég held að það sé að mörgu leyti mjög jákvætt að þétta byggð. En það er líka rosalega mikilvægt að í boði séu lóðir til þess að byggja bæði þétt innan byggðar og líka á nýju landi. Það er aukinn kostnað við að byggja þétt inni í borgum. Við sjáum það mjög greinilega í höfuðborginni og er það að sjálfsögðu viðurkennt.

Það er mikilvægt, sem ég tel reyndar að hafi verið töluvert um á síðustu árum, að líka sé í boði að fara inn á óbyggð svæði, inni í Hafnarfirði, inni í Mosfellsbæ og inni í Garðabæ, jafnframt því sem við þéttum byggð.

Þegar kemur að spánum kann vel að vera að hvorugur aðilinn hafi fullkomlega rétt fyrir sér í þeim efnum. En ég hygg að þær tölur sem hafa komið frá Íbúðalánasjóði séu ekki tölur um eftirspurn í eðli sínu. Það eru ákveðnar lýðfræðibreytur þar. Ég held ekki að allir þeir aðilar sem eru í spánni væru tilbúnir að koma inn á markaðinn og kaupa eða leigja. Þá væri hægt að færa rök fyrir því, alla vega eins og staðan er í dag. Ef hún breyttist með lækkun fasteignaverðs, myndi það breyta einhverju? Örugglega, en við horfum engu að síður fram á ákveðna lýðfræðibreytu. Hv. þingmaður kom einmitt inn á að við erum enn þá tiltölulega mörg í fjölskyldu, fleiri búa í hverri íbúð. Það er líka vegna þess, sem betur fer, að íslenskar konur eignast fleiri börn en konur í nágrannalöndunum, sem ég held reyndar að sé mjög mikilvægt fyrir okkur. Það þarf örugglega horfa til þess.

En þá skulum við líka horfa til þess að í dag er hér inni fjöldi íbúða sem er í Airbnb-kerfinu. Mikill skortur hefur verið á hótelum og gistirýmum og eflaust er verið að mæta þeirri þörf núna með þeim hótelum sem eru í uppbyggingu. Þá má telja mjög líklegt að íbúðirnar færist aftur í almenna leigu eða út úr Airbnb-kerfinu.

Ég verð að fá að koma vöxtum og fjármagnskostnaði á eftir.[17:29]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég nota mitt tækifæri núna til að ræða þá staðhæfingu að það sé dýrara að þétta byggð. Þetta er klisja sem heyrist allt of oft. Það fer dálítið eftir því hvernig maður kostnaðarreiknar. Hér á Íslandi kostnaðarreiknum við t.d. byggingar þannig að við reiknum lóðarverð, hönnunarkostnað og byggingu og svo hættum við, á meðan aðrar þjóðir eins og Japanir og fleiri þjóðir kostnaðarreikna þannig að inni er kaup á landi, það er hönnun, það er bygging, það er rekstur í 50 ár og niðurrif. Það er hinn eiginlegi kostnaður. Og nákvæmlega sama gildir þegar við byggjum annars vegar inni í borg og þéttum eða brjótum land sem kostar meiri samgöngur, stærri stofnanir, meiri lóðahirðu, meiri snjómokstur sem kostar meiri útblástur fyrir umhverfið, þá fullyrði ég að það er miklu dýrara að fara þá leið að brjóta stöðugt nýtt land og láta byggðina gisna.

Einkabíllinn er mesti bölvaldur þéttbýlis á 20. öldinni og það skal enginn reyna að fullyrða annað. Við höfum hins vegar enga aðra möguleika en að vinda ofan af því. Við erum komin með þessa uppfinningu og við getum nýtt hana á skynsamlegan hátt og við eigum að nýta hana á skynsamlegan hátt. Sumir þurfa að eiga bíl og við eigum að virða það. En við eigum líka að horfa til þeirra sem vilja ekki eiga bíl, vegna þess að það er bæði betra fyrir umhverfið, það er betra fyrir þá sem vilja ferðast með almenningssamgöngum. Það er líka betra fyrir þá sem vilja keyra á einkabílnum af því að þá verða vegirnir væntanlega greiðari.

Ég fullyrði því þvert á móti að það er ótrúleg sóun sem felst í úthverfavæðingunni. Það er ekki að ástæðulausu að hver einasta borg í Evrópu og vestan hafs er að keyra nákvæmlega þá leið sem hv. þingmaður hefur stutt með ráðum og dáð um að þétta byggð og byggja borgarlínu.[17:32]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka það. Svo ég byrji nú á spurningunni sem ég náði ekki að svara áðan varðandi fjármagnskostnað, háa vexti og verðtryggingu sem oft hefur verið rætt um sem helsta ógnvaldinn á húsnæðismarkaðnum, sem orsaki hátt húsnæðisverð, þá skulum við líka hafa það í huga að vextir eru í sögulegu lágmarki, hafa verið það núna í töluverðan tíma. Okkur hefur líka tekist að koma böndum á verðbólguna þó að vissulega séu uppi ákveðnar ógnir í samfélaginu núna sem gætu einmitt breytt því. Það yrði mikið tjón fyrir okkur öll.

Þegar kemur að þéttingu byggðar þá get ég tekið undir mjög margt sem hv. þingmaður sagði hér áðan. Ég er hlynnt þéttingu byggðar, en það er hægt að gera það með misjöfnum hætti. Það er nákvæmlega það sem var ákveðið hér á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélögin nálgast það með mjög misjöfnum hætti. Sum eru í þeirri stöðu að geta boðið upp á það að fara inn á óbrotið land og má benda á óbrotið land sem er raunveruleg þétting byggðar, get ég nefnt Blikastaðalandið í þeim efnum. Að sjálfsögðu er hagkvæmt og skynsamlegt að nýta það.

Ég tel mjög mikilvægt að við bjóðum upp á þennan fjölbreytileika. Ég veit að Reykjavíkurborg hefur fyrst og fremst verið að horfa á þéttingu byggðar og þar er meira byggt í fjölbýli á meðan önnur sveitarfélög, eins og til að mynda Mosfellsbær, hafa líka getað boðið upp á sérbýliskostinn, það er enn þá fólk sem vill búa þannig.

Ég ætla ekki að segja að bíllinn sé alger hörmung. Ég held að hann sé að mörgu leyti mjög þarfur þjónn og mér þykir líka mjög vænt um bílinn minn, en ég tek algjörlega undir það að við þurfum að efla almenningssamgöngur. Þegar við horfum á skipulag lands og hvernig við ætlum að nýta það undir byggð er mikilvægt að horfa á það til lengri tíma litið hvernig við ætlum að reka alla okkar innviði, hvort sem það eru veiturnar, almenningssamgöngurnar eða slökkviliðið eða sorphirðan, eða hvað það er. Það þarf að horfa til allra þessara þátta. Og það að þétta byggð er að mörgu leyti mjög hagkvæmt. En það er samt ekki þannig að það þurfi öll hús sem rísa hér á næstu áratugum að vera hluti af þéttingu byggðar í Reykjavík.[17:34]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna mjög þeirri umræðu sem fer fram í dag og tek undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur sem var í pontu rétt í þessu. Það er mjög mikilvægt að við ræðum húsnæðismál mikið í þinginu. Við í Samfylkingunni höfum verið leiðandi í þeirri umræðu á þessu þingi sem og á fyrri þingum, bæði er varðar sérstaka umræðu um húsnæðismál, sem var leidd af Samfylkingunni, en ekki síður núna með þessari tillögu til þingsályktunar. Það er nefnilega ekki nóg að ræða bara um ástandið á húsnæðismarkaðnum og hversu ferlegt ástandið hefur verið fyrir hinn almenna borgara og ekki síst þá sem minnst hafa á milli handanna. Það þarf að fara í ákveðnar aðgerðir. Þar saknar maður þess svolítið að heyra frá ríkisstjórninni og stjórnarþingmönnum og fá einhverjar alvörutillögur fram, fá að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þeim málum, af því að við erum öll sammála um að fara þarf í miklar aðgerðir.

Í þingsályktunartillögunni eru settar fram átta tillögur, ýmist hugmyndir um frumvörp eða aðrar tillögur sem hægt er að fara í. Mig langar svolítið að veita athygli frumvarpi sem enn á eftir að mæla fyrir á þinginu, en það er í 8. lið. Það er frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðisbætur, sem í daglegu tali kallast húsaleigubætur. Þannig er að til þess að fólk eigi rétt á húsnæðisbótum þarf það að leigja húsnæði þar sem það hefur bæði eldhús og baðherbergi til einkaafnota.

Með frumvarpinu sem hefur verið lagt fram á þinginu en á eftir að mæla fyrir, sem vísað er til í 8. lið þingsályktunartillögunnar, er lögð fram sú breyting að námsmenn og fatlað fólk geti fengið húsnæðisbætur þótt það deili eldhúsi og baðherbergi með öðru fólki og búin þannig í einhvers konar kommúnu eða sambýli með öðru fólki. Það getur verið ansi hagstætt að leigja stærra húsnæði fleiri saman en geta engu að síður fengið húsnæðisbætur. Það getur ekki bara verið hagstætt heldur getur það líka verið gott fyrir sálartetrið að búa með öðru fólki, búa með vinum sínum, búa með öðrum fjölskyldumeðlimum, að leigja saman íbúð eða stærra húsnæði. Þess vegna er það hluti af þingsályktunartillögunni. Við fylgjum því eftir, af því að við viljum gera gagn á þinginu, með frumvarpi sem þingheimur getur þá stutt. Ég vona að málið komist á dagskrá þingsins á næstu dögum svo að við getum fjallað um það og komið því til nefndar.

Aðeins varðandi orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að sárafáir vilji búa í leiguhúsnæði. Ég tek undir það sem hv. þm. Logi Einarsson segir um að afstaða almennings til leiguhúsnæðis sé ekki síst svona neikvæð vegna hins ótrausta leigumarkaðar sem er á Íslandi. Það að fólk geti ekki tryggt sér leigu á húsnæði til lengri tíma hefur mjög neikvæð áhrif á afstöðu fólks til leiguhúsnæðis yfirleitt.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í dag. Ég held að ef við gætum byggt upp öruggari leigumarkað, bæði fyrir ungt fólk og eldra fólk sem langar kannski ekki að hafa allan sparnað sinn í einhverri steinsteypu, það væri afstaða almennings á Íslandi til þess að búa í leiguhúsnæði frekar en eigin húsnæði mun jákvæðari.

Ég held að mikið verk sé fyrir höndum við að byggja upp aftur þann leigumarkað sem var tekinn algjörlega úr sambandi fyrir þó nokkrum árum.

Rétt undir lokin verð ég að benda á að þótt vextir og verðbólga hafi verið í ágætisstandi að undanförnu eru blikur á lofti. Við búum við þær aðstæður að vera með gjaldmiðil sem er fullkomlega óútreiknanlegur. Vextir og verðbólga hafa mjög mikil áhrif á lífsgæði okkar á Íslandi og hafa mjög mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn. Um leið og þetta fer allt af stað erum við enn einu sinni komin á mjög erfiðan stað fyrir fjölda fólks, bæði þá sem eru ekki með háar tekjur og þá sem hafa nýlega fest kaup á fasteignum og eiga kannski mjög lítinn hluta í fasteigninni. Það getur verið mjög flókið. Ég held að stjórnvöld verði að bregðast hratt við og reyna að koma með okkur í þingflokki Samfylkingar í ákveðnar aðgerðir, eins og tilgreindar eru í þingsályktunartillögunni, til þess að koma almenningi á Íslandi til hjálpar.[17:41]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í hefðbundið andsvar við samherja minn en í staðinn fyrir að skrá mig í aðra ræðu ákvað ég að nota þessa mínútu til að koma inn í umræðuna.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að margt í efnahagslífinu hefur verið okkur hagkvæmt. Vextir á Íslandi hafa verið sögulega lágir og verðbólga sögulega lág, en við skulum samt halda til haga íbúðavöxtum annars staðar á Norðurlöndum. Þeir eru 0,89% í Danmörku, rúmlega 1% í Svíþjóð, held ég, og 1,8% í Noregi. Óverðtryggðir vextir á Íslandi hafa verið 6–7% og jafnvel við hin frábæru efnahagslegu skilyrði höfum við ekki tryggt þann mun. Það sem ég hef verið að benda á er að þetta er eitraður kokteill, lítil framleiðni og mikill fjármagnskostnaður. Þetta ættu Sjálfstæðismenn, sem telja sig þingmanna fremsta í efnahagsmálum og rekstri fyrirtækja, þótt það hafi svo sem getað birst í ólíkum myndun hjá einstökum þingmönnum, að skilja. Þrátt fyrir hið frábæra efnahagsástand sem við búum við núna er vaxtamunur milli okkar og hinna norrænu ríkja. — Fleira var það ekki.Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.