149. löggjafarþing — 29. fundur.
ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi, fyrri umræða.
þáltill. AKÁ o.fl., 41. mál. — Þskj. 41.

[18:59]
Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi. Ásamt mér flytja tillöguna hv. þingmenn Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson. Tillagan var áður flutt á 148. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er því hér endurflutt.

Samkvæmt lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara skal jafna flutningskostnað á olíuvörum eins og nánar er kveðið á um. Markmið laganna er að tryggja að eldsneytisverð sé hið sama um allt land til að jafna búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Jöfnun á flutningskostnaði á hins vegar ekki við um eldsneyti sem er ætlað til útflutnings og fellur þar undir eldsneyti til millilandaflugs og því er eldsneytið dýrara á millilandaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík.

Með tillögu þessari er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, undirbúi lagafrumvarp í þá veru að breyting verði á til að verð á eldsneyti í millilandaflugi lækki. Slík breyting myndi styrkja stöðu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og ýta undir dreifingu ferðamanna um land allt. Að lokinni umræðu hér legg ég til að tillagan fari til atvinnuveganefndar.



[19:01]
Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er mjög gott mál til umræðu enda fluttu nokkrar þingkonur úr Norðausturkjördæmi frumvarp með sama markmið á 145. þingi árið 2016, frumvarp um breytingu á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, með síðari breytingum (jöfnun eldsneytisverðs á millilandaflugvöllum). Þá var 1. flutningsmaður hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir og auk hennar voru á málinu hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.

Þrátt fyrir að um mjög gott mál sé að ræða þá velti ég því fyrir mér hver tilgangurinn sé með flutningi þess nú þegar unnið er að málinu í samræmi við byggðaáætlun sem við samþykktum hér með 62 samhljóða atkvæðum í vor. Þar samþykktum við öll að farið yrði í vinnu við jöfnun á aðstöðumun á millilandaflugvöllum. Þar eru afmörkuð verkefni. Það á að jafna aðstöðumun til þjónustu á millilandaflugvöllum landsins. Skipaður verður starfshópur til að vinna að tillögum og verðjöfnun flugvélaeldsneytis á millilandaflugvöllum landsins. Stefnt er að því að hópurinn skili tillögum í árslok 2018. Þetta er á ábyrgð og í vinnslu í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Afmarkaður tími er þetta ár. Þar er verkefnið mjög vel skilgreint og afmarkað. Því máli hefur verið fylgt vel eftir og þar hefur hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir ásamt fleirum staðið vörðinn og ýtt við þessu. Niðurstaðan er sú að við samþykktum þetta hér inn í stefnumótandi byggðaáætlun.

Því spyr ég hv. þingmann, 1. flutningsmann þessarar tillögu hér í dag: Hverju er þessu máli ætlað að ná fram sem er ekki nú þegar í vinnslu?



[19:03]
Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að frumvarpinu er ætlað að sjá til þess að áhersla verði aukin á það að við fáum einhverjar raunverulegar aðgerðir á borðið. Það er snögga svarið við þessari spurningu.



[19:04]
Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er góðra gjalda vert og ágætt að leggja þingsályktunartillöguna fram. Málið er þegar í farvegi. Það er verið að vinna að þessu. Ég hef öruggar heimildir fyrir því að við fáum niðurstöðu fyrir árslok.

Ég velti því fyrir mér hvort hraði þingmanna í Miðflokknum hafi verið svo mikill við að endurvinna mál að þeir hafi beinlínis ekki áttað sig á þessari stöðu, að málið er komið í þennan farveg. Ég velti því fyrir mér hvort menn hafi hreinlega farið fram úr sér við að tína upp mál frá öðrum. Þetta er engu að síður mjög gott mál, en ég sé bara ekki alveg tilganginn með því.

Það má vel vera að ungur flokkur og meðlimir hans séu enn að finna fjölina sína og athuga hvar áherslurnar eigi að liggja. En hér er bara enn eitt góða framsóknarmálið til umræðu. Ég fagna því eins og ég fagna alltaf góðum framsóknarmálum og finnst gott að þeim sé lyft upp. En tilganginn með framlagningu þessa máls sé ég bara ekki, hv. þingmaður.



[19:05]
Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir að við erum svo sammála. Ég ítreka að enn er svarið hið sama og áðan, þ.e. að sjá til þess að málið nái fram að ganga. Það liggur ekkert annað að baki, hreinlega ekkert.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.