149. löggjafarþing — 30. fundur.
EES-samningurinn.

[15:08]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þriðji orkupakkinn hefur verið til umræðu undanfarið. Samkvæmt kynningu á honum frá þeim sem best þekkja til mun innleiðing hans ekki hafa mikil áhrif hér á landi. Þó hafa sumir haft uppi stór orð um að heilu atvinnugreinarnar muni leggjast niður við innleiðinguna.

Þessi umræða er satt best að segja afar ruglingsleg. Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma í síðustu viku, þegar hæstv. ráðherrann var spurð um þriðja orkupakkann, með leyfi forseta:

„Ég vil líka að fram komi að það er vandamál við málið að ekki eru margir sem berjast fyrir því. Ástæðan fyrir því að erfitt er að berjast fyrir því er að það skiptir ekki svo miklu máli. Á endanum snýst þetta um EES-samninginn. Ef menn ætla að fara í ferðalag og segja að þeir ætli ekki að innleiða þetta hefur það áhrif á EES-samninginn. Þá þurfa menn að vera tilbúnir í þann leiðangur og ég er ekki að segja að ég sé ekki tilbúin í hann.“

Þetta sagði hæstv. ráðherra í síðustu viku.

Ef ég skil rétt er hæstv. ráðherra að segja að þriðji orkupakkinn skipti ekki svo miklu máli fyrir okkur Íslendinga en ef við innleiðum hann ekki sé það það sama og uppsögn á EES-samningnum og að hæstv. ráðherra sé ekki að segja að hún sé ekki tilbúin í uppsögn EES-samningsins.

En vill ráðherrann ganga úr EES fyrir orkupakka sem ekki skiptir svo miklu máli fyrir Ísland, eins og hún bendir á sjálf? Það væru sannarlega stór tíðindi og slæm ef þessi ríkisstjórn ætlar að rifta þessum allra besta samningi sem Íslendingar hafa gert, og það fyrir mál sem snertir okkur ekki með afgerandi hætti.

Getur hæstv. ráðherrann svarað því skýrt hér og nú að ekki standi til að rifta (Forseti hringir.) EES-samningnum?[15:10]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í rauninni er ég glöð yfir að hún skyldi koma fram vegna þess að það voru fleiri en hv. þingmaður sem skildu orð mín eins og hv. þingmaður þegar ég svaraði þessu síðast þegar ég sagði að ég væri ekki að segja að það væri ekki leið sem ég væri til í að fara. Þannig að ég verð að valda hv. þingmönnum vonbrigðum og segja að það séu engin stórtíðindi.

Ég er alls ekki til í að segja upp EES-samningnum. Það jákvæða við það er að það eru þá ekki slæm tíðindi samkvæmt hv. þingmanni. Þegar ég tala um leiðangur er ég að vísa í að það hafi aldrei reynt á það, við höfum ekki aflétt stjórnskipulegum fyrirvara og það þyrfti þá að fara í ákveðið ferli. Við erum auðvitað með grein nr. 102 í EES-samningnum þar sem opnað er á hvaða leið svona mál geta farið. Ég hef líka sagt að það geti enginn svarað því með vissu hvaða afleiðingar það hefði ef við myndum ekki innleiða þennan þriðja orkupakka. Það er sá leiðangur sem ég er að tala um.

Ég hef sett þetta í samhengi við önnur mál. Sífellt fleirum líður eins og að Evrópusambandið beri ekki þá virðingu fyrir tveggja stoða kerfinu og okkur finnst það eiga að gera. Það eru fleiri mál þar sem gengið hefur verið ansi langt gangvart framsalsheimildum okkar miðað við stjórnarskrá okkar. Þess vegna loka ég ekki á að ef að við ætlum okkur að hefja eitthvert samtal við Evrópusambandið um EES-samninginn og um frekara valdaframsal er ég alveg til í að ræða það. Ég segi bara: Við vitum ekki hvert það leiðir okkur og ég vil ekki sjá málið spinnast þannig að við sjáum ekki fyrir endann á því. Þá er ég einmitt að vísa í það að í grunninn snýst málið um EES-samninginn. Ég er á þeirri skoðun að EES-samningurinn sé okkar mikilvægasti alþjóðasamningur en það er ekkert óeðlilegt við að hann geti þróast einhvern veginn. Hann hefur auðvitað þróast mjög mikið undanfarin 20 ár og það er ekkert að því að ræða það í hvaða átt hann hefur þróast og hvort við viljum einhvern tímann stappa niður fæti og segja: Heyrðu, nú þurfum við aðeins að staldra við. Hefur hann þróast í þá átt sem okkur líður vel með? En ég vil ekki fórna EES-samningnum, alls ekki.[15:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er samt svo að mikill ágreiningur er innan stjórnarflokkanna um þriðja orkupakkann. Það var a.m.k. haft eftir stjórnarþingmanni í fjölmiðlum um helgina og enn fleiri segja að hörðustu átökin eigi sér stað á milli hópa innan flokksins sem hæstv. ráðherra er varaformaður fyrir. Einhver undirtónn er nú þarna og menn tala mjög skýrt í fjölmiðlum um það.

Ísland hefur þegar framkvæmt mikilvægustu breytingar sem leiða af þriðja orkupakkanum og fátt sem breytist við innleiðinguna. Í því ljósi er umræðan svo merkileg.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi rætt við ráðherra Noregs um þau mál. Hefur eitthvert samkomulag verið gert við Noreg um afgreiðslu orkupakkans? Er búið að greina og skoða hvað myndi gerast ef ekkert yrði af innleiðingunni hér á landi?[15:13]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki átt samtöl við kollega minn í Noregi eða aðra ráðherra þar um þennan orkupakka, ég veit ekki hvernig það er með aðra ráðherra. Ég kom inn á það í mínu fyrra svari hvort búið væri að greina hvað gerðist ef við innleiddum ekki þriðja orkupakkann. Það er enginn sem getur svarað því fyrir víst hvaða afleiðingar það hefði ef við innleiddum ekki þennan pakka.

En ég verð að fá að taka undir með hv. þingmanni að það er margt í umræðu um þetta mál sem er ansi öfugsnúið. Menn tala eins og fjórfrelsi EES-samningsins um orku muni einhvern veginn taka gildi við innleiðingu þriðja orkupakkans. Það gerðist fyrir mörgum árum síðan, í fyrsta orkupakkanum, þegar allt aðrir menn voru hér við stjórnvölinn. Það eru meginbreytingarnar á þessum markaði, samkeppnisreglur Evrópu. Menn tala eins og þær muni taka gildi ef og þegar þriðji orkupakkinn verði innleiddur. Þær hafa líka verið í gildi hér í fjöldamörg ár, frá upphafi, þannig að það mun heldur ekki breytast.

Ríkisstyrkjareglur Evrópu um hvort við megum niðurgreiða rafmagn til álvera eða annars er sömuleiðis nokkuð sem hefur verið við lýði hér í mörg ár. Landsvirkjun hefur þurft (Forseti hringir.) að senda samninga sína til útlanda í fjöldamörg ár. Þetta eru þættir sem breyta engu um hvort við innleiðum þriðja orkupakkann eða ekki, en það þarf auðvitað að liggja skýrt fyrir. Það er hægt að gagnrýna málið en menn verða samt að hafa staðreyndirnar á hreinu.